131. löggjafarþing — 53. fundur
 8. desember 2004.
Skráning og mat fasteigna, 2. umræða.
stjfrv., 335. mál (auðkennisnúmer, umsýslugjald o.fl.). — Þskj. 374, nál. 573 og 583.

[15:05]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hauk Ingibergsson og Margréti Hauksdóttur frá Fasteignamati ríkisins og Hafstein S. Hafsteinsson frá fjármálaráðuneyti.

Tilgangur frumvarpsins er líkt og kemur fram í athugasemdum við það að skýra reglur um auðkennisnúmer fasteigna, styrkja stjórnsýslu við framkvæmd fasteignamats og marka fjárhagsgrundvöll Fasteignamats ríkisins til að halda og þróa Landskrá fasteigna.

Nefndin gerir athugasemd við það til hve langs tíma til viðbótar lagt er til að umsýslugjald, sbr. 4. gr., verði innheimt af húseigendum. Við afgreiðslu 285. máls á 125. þingi var samþykkt tillaga meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar um breytingar á því máli þar sem ákvæði um umsýslugjaldið var fært í bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 48/1994 og því ætlað að falla niður á árinu 2004. Átti stofnkostnaði við Landskrá fasteigna þá að vera lokið. Nefndin metur Landskrá fasteigna sem mjög merkilegt og mikilvægt verk en telur jafnframt að leita verði leiða til að takmarka þann kostnað við verkið sem fasteignaeigendur bera einir. Því leggur nefndin til að tímabilið sem umsýslugjaldi er ætlað að vera innheimt skv. 4. gr. verði árin 2005 og 2006 í stað 2005–2008. Eftir það skuli tekna aflað með öðrum hætti.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Í stað „2005–2008“ í 4. gr. komi: 2005 og 2006.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Siv Friðleifsdóttir, Gunnar Birgisson og Ögmundur Jónasson, með fyrirvara.

Frú forseti. Þegar þetta mál var rætt eins og hér getur á 125. þingi stóð fyrir dyrum að byggja upp mjög merkilegt kerfi fasteignaskráningar, kerfi sem samanstendur af skráningunni sjálfri, skilgreiningum á hvað er eign, hvað er fasteign og hvernig beri að skilgreina einstaka fasteignahluta, síðan lagasetningu og reglusetningu í kringum þetta. Það er mjög merkilegt verk sem þarna var unnið og það gagnast mjög mörgum. Það gagnast fasteignaeigendum, lánakerfinu og bönkum, Íbúðalánasjóði og sveitarfélögum til álagningar gjalda. Þess vegna taldi nefndin ekki eðlilegt að fasteignaeigendur, einn af þeim hópum sem þetta gagnast, ættu að greiða kostnaðinn og eðlilegra væri að þessi stofnun leitaði leiða til að innheimta gjöld af notendum kerfisins, þ.e. tæki inn meiri þjónustugjöld af þeim sem nota kerfið og næði þannig inn stofnkostnaði.

Þetta eru þau sjónarmið sem uppi eru. Nú hefur það gerst að ýmsum verkefnum er bætt við sem að einhverju leyti koma fasteignaeigendum til góða en ekki að öllu leyti. Það á að lengja tímann í fjögur ár en meiri hluti nefndarinnar komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri eðlilegt að lengja hann nema í tvö ár. Sú varð sem sagt niðurstaðan en lögð er mikil áhersla á það að fundnir verði greiðendur að kostnaðinum meðal þeirra sem mest njóta kerfisins.



[15:09]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er hugsanlegt að sem hv. þingmaður gekk úr ræðustól hafi hann svarað þeirri spurningu sem ég hugðist bera fram. Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann með hvaða hætti ætti eftir árið 2006 að afla þessara tekna. Hv. þm. sagði að æskilegt væri að leita leiða til þess að kostnaði yrði mætt af þeim sem mest nytu þessa kerfis.

Ef ég man rétt, frú forseti, var þetta gjald sett á fyrst og fremst til að standa straum af ákveðnum stofnkostnaði. Nú hygg ég að menn séu sammála um að þeim stofnkostnaði sé að mestu fullmætt. Þá er hér verið að setja á einhvers konar annan og enn nýjan skatt sem á að standa undir einhverju öðru en stofnkostnaðinum.

Mig langaði líka til að spyrja hv. þingmann hvort hann líti ekki svo á að hér sé verið að taka upp nýjan skatt. Í öðru lagi spyr ég hverjir það séu og með hvaða hætti hann og þeir sem honum fylgja á þessu áliti telji að tekna skuli aflað eftir árið 2006.



[15:11]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og kom fram í máli mínu áðan hafa bæst við verkefni, þ.e. það sem menn ætluðu að gera hefur hlaðið utan á sig og orðið meira og ítarlegra. Til dæmis er verið að meta lendur og annað slíkt, og auk þess hafa menn farið út í aukin verkefni eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu.

Svo hefur það líka gerst að stofnkostnaðinum er ekki með öllu lokið. Hann hefur verið meiri en menn áætluðu í upphafi. Vonandi er enn þá verið að greiða stofnkostnað en ekki rekstrarkostnað.

Með hvaða hætti mætti afla teknanna? Það er bara hreinlega með því að láta menn greiða fyrir afnot af kerfinu, bæði sveitarfélög sem nota það til skattlagningar eins og ég gat um, fasteignasala sem nota það til að fá upplýsingar um veðbönd og annað slíkt, lánakerfið sem þinglýsir veðsetningum og annað slíkt og svo gætu menn, ef þeir eru snjallir, líka skoðað að flytja út kerfið. Ég nefndi það í sambandi við skýrslu hæstv. utanríkisráðherra að Íslendingar gætu jú gefið þetta kerfi sem þróunarhjálp til þróunarríkis vegna þess að það er talið að skráning fasteigna sé einn af grundvöllum kapítalismans. Sagt er að skortur á slíkri skráningu í mörgum nýfrjálsum ríkjum Sovétríkjanna valdi því að þar hefur ekki tekist að byggja upp markaðsbúskap þrátt fyrir að frelsi hafi verið innleitt. Það vantar sem sagt skráningu á eignum. Þetta kerfi sem er orðið mjög gott hér á landi að mínu mati, bæði skilgreiningar og lagasetning, regluverk, skráning og mat, mætti flytja út sem þróunarhjálp og þá yrði það hluti af þróunarhjálp íslenska ríkisins og Fasteignamatið fengi greitt fyrir.



[15:13]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér þótti þetta með eindæmum merkilegt svar en mér fannst það ekki að öllu leyti rökvíst. Hv. þingmaður sagði að í ljós hefði komið að stofnkostnaður væri meiri en menn teldu og að hann vonaði að með þessu gjaldi væri verið að mæta auknum stofnkostnaði. Jafnframt sagði hann að þetta tiltekna verkefni hefði tekið á sig svolítið breytta mynd, búið væri að færa ný verkefni undir það.

Ég vek þá eftirtekt á því að það er alltaf hægt að finna ný verkefni og búa til aukinn kostnað fyrir ríkið. Er þetta þá ekki alveg dæmigert fyrir einmitt útþenslu ríkisins, eins og hv. þm. hefur svo oft bent á? Ég dreg ekki í efa að þetta er í sjálfu sér jákvætt verkefni en er það ekki dæmigert um það hvernig ríkið og umsvif þess þenjast út? Fundin eru ný verkefni sem kosta peninga, og hverjir eiga svo að borga? Það var athyglisvert. Jú, hugsanlega á að taka þetta af þróunarsamvinnufjármagni. Það er hugsanlegt, segir hv. þm. Ég skal ekki lasta það. Það er fallega hugsað. Hugsanlega af fasteignasölum.

Síðan var það þriðji aðilinn sem átti að greiða, sveitarfélögin í landinu. Þarna er búið að finna enn eina matarholuna hjá sveitarfélögunum. Á síðustu vikum höfum við verið að ræða í þinginu um nauðsyn þess frekar að létta undir með sveitarfélögunum en ég fæ með engu móti séð annað en að hv. þm. sé að segja að hluti af þessu gjaldi eigi í framtíðinni að vera greiddur af sveitarfélögum í landinu. Það eru nýjar upplýsingar í þessu máli sem mér finnast skipta allnokkru. Hér er um það að ræða að ríkið er að taka sjálfstæða ákvörðun um að framlengja gjaldið. Í reynd þýðir það að verið er að taka upp nýjan skatt, svo einfalt er málið. Það er verið að þenja út báknið sem hv. þm. hefur barist svo mikið gegn.



[15:15]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni. Ég er mjög varkár í þessu, ég er ekkert ánægður með að þurfa að framlengja þennan skatt um tvö ár en þó tókst að stytta þann tíma úr fjórum árum niður í tvö og ég reikna með því að menn reyni ekki að framlengja hann enn einu sinni.

Varðandi það að sveitarfélögin og aðrir mæti kostnaði þá fylgir þessu kerfi mikil hagræðing. Kerfinu fylgir hagræðing t.d. í að fá veðbókarvottorð og í alls konar greiningar, minni hætta á villum. Ég tel að þeir aðilar sem njóta verði glaðir með að fá að greiða þetta gjald vegna þess hve mikil hagræðing fylgir kerfinu, eða svo er manni sagt. Það liggur líka í augum uppi að það er mikil hagræðing í því að geta flett upp í tölvum í staðinn fyrir að fletta upp í þungum, gömlum doðröntum.

Ég held því að á endanum verði allir glaðir að borga þann kostnað sem af þessu hlýst því hann verður miklu minni en er í dag. Sveitarfélögin sömuleiðis. Þetta er mikil hagræðing fyrir sveitarfélögin í allri skráningu og skipulagningu og öðru slíku, þannig að ég held að þetta sé því ekki neinn kostnaðarauki fyrir þessa aðila.

Varðandi það að flytja kerfið til útlanda hygg ég að þetta gæti verið verðmæt þróunarhjálp til þeirra ríkja þar sem, eins og kemur fram í bókinni The Mystery of Capital eftir Hernando de Soto, fátæklingar eiga stóran hluta af fasteignum landanna en geta ekki skráð eignir sínar. Um leið og þeir gætu skráð þær mundi efnahagslífið taka mikinn kipp eins og það hefur gert hér á landi — kannski í og með að einhverju leyti vegna þessarar nýju skráningar sem er rafræn og miklu hraðvirkari og betri en áður.



[15:17]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir minnihlutaáliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, en að minnihlutaálitinu standa ásamt mér hv. þingmenn Lúðvík Bergvinsson og Einar Már Sigurðarson. Gunnar Örlygsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er sammála áliti þessu.

Það er alveg rétt sem fram kom hjá framsögumanni meiri hlutans að hér er um skattahækkun að ræða sem er verið að framlengja og við mótmælum harðlega þeim áformum sem felast í frumvarpinu um að framlengja í fjögur ár gjaldtöku af fasteignaeigendum sem nemur liðlega 1.100 millj. kr.

Þegar gjaldtakan var sett á á 125. löggjafarþingi, fyrir um fjórum árum, létum við skoða það og það var mat þeirra sem fóru yfir það í lauslegu mati að ríkissjóður hefði í gjöldum af fasteignaeigendum um 8 milljarða kr. Það hefur sjálfsagt breyst núna þannig að talan er orðin enn hærri, ekki síst þegar ríkissjóður hefur varla undan að hala inn peninga á stimpilgjöldum af fasteignaeigendum.

Það er gott að meiri hlutinn hafi séð að sér við meðferð málsins í efnahags- og viðskiptanefnd og flytji breytingartillögur um að þessi ósanngjarna gjaldtaka framlengist um tvö ár í stað fjögurra, en gjaldtakan er engu að síður algjörlega óásættanleg. Mér finnst hún lýsa því í hnotskurn, ásamt náttúrlega öðrum gjaldtökum, skattahækkunum og skerðingu á bótum sem ríkisstjórnin hefur staðið að á þessu og síðasta ári, að hún er að dæla út álögum á skattgreiðendur og boða skattalækkanir á sama tíma. Hún er því að ná inn með alls konar álögum, sköttum og gjaldtökum á fólkið í landinu því sem hún ætlar að láta út í skattalækkanir á komandi árum þannig að skattalækkanir ríkisstjórnarinnar og áformin þar um eru auðvitað sýndarmennskan ein. Ríkisstjórnin fer fyrst í vasa skattgreiðenda og tekur þar með alls konar gjöldum, eins og þeim sem við ræðum, á þessu og síðasta ári, þangað til hún er búin að ná upp í þær fjárhæðir sem hún ætlar að láta í skattalækkanir á komandi árum. Ég held að nauðsynlegt sé að fólk geri sér grein fyrir þeim staðreyndum sem við munum kynna enn frekar þegar við ræðum á næstu dögum skattalækkunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem ég veit ekki hvort er hægt að nefna lengur skattalækkunarfrumvarp.

Forsaga gjaldtökunnar er að á 125. löggjafarþingi lagði fjármálaráðherra fram frumvarp sem fól í sér að fasteignaeigendur yrðu látnir bera kostnaðinn við að koma á einu samhæfðu gagna- og upplýsingakerfi um fasteignir og réttindi sem þeim tengjast. Lagt var til að svonefnt umsýslugjald sem nú rennur til Fasteignamats ríkisins hækkaði úr 0,025‰ í 0,1‰ af brunabótamati hverrar húseignar. Kveðið var á um hækkun umsýslugjaldsins í ákvæði til bráðabirgða sem renna átti út nú um áramótin og gilda aðeins í fjögur ár.

Ég minnist þess mjög, virðulegi forseti, af því að ég átti sæti í efnahags- og viðskiptanefnd sem fjallaði um þetta á þeim tíma, að meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði mikla áherslu á að hér væri um tímabundið gjald að ræða sem ekki yrði framlengt. Það eru sömu orð og hv. formaður, framsögumaður efnahags- og viðskiptanefndar viðhefur nú, að hann vænti þess að gjaldið verði ekki framlengt, en ég er ekki eins bjartsýn og hv. þingmaður miðað við reynsluna.

Brunabótamat fasteigna er notað sem gjaldstofn í ýmsum tilgangi og námu gjöld sem lögð voru á húseigendur samkvæmt því um 1.600–1.800 millj. kr. árið 1999 en mér vannst ekki tími til að skoða hvað það er orðið mikið núna. Ég man þegar við fjölluðum um þetta fyrir fjórum árum að umsagnaraðilar sem sendu efnahags- og viðskiptanefnd umsagnir sínar vöruðu mjög við gjaldinu og töldu það orka tvímælis að húseigendum væri einum gert að greiða kostnaðinn af stofnun Landskrár fasteigna en eigendur lóða, jarða, hlunninda og ítaka hvers konar, sem virt eru til fasteignamats, yrðu hins vegar undanþegnir þessu gjaldi. Það kom líka fram að færa mætti rök fyrir því að Landskráin hefði svo almennt gildi að eðlilegt væri að fjármagna hana með skatttekjum ríkissjóðs fremur en að leggja kostnaðinn af þessu á fasteignaeigendur eina saman. Það eru fjölmargir aðilar sem nýta sér upplýsingar fasteignamatsins, eins og tryggingafélög, álagningardeildir sveitarfélaga, byggingarfulltrúar, þinglýsingarstjórar, lánastofnanir o.fl. Af hverju mega þeir aðilar ekki bara gjöra svo vel og borga notendagjöld þannig að ekki þurfi að leggja álögurnar eingöngu á fasteignaeigendur?

Það var einmitt bent á þetta á sínum tíma að ekki væri óeðlilegt að líta á stofnkostnaðinn sem fjárfestingu sem ríkissjóður fengi síðan endurgreiddan með notendagjöldum, sem þeir sem nota upplýsingar frá Fasteignamatinu stæðu straum af. Ég vorkenni ekkert t.d. lánastofnunum sem örugglega nota Fasteignamat ríkisins mikið, sérstaklega eftir að þeir fóru að hefja umfangsmikla lánafyrirgreiðslu til íbúðarkaupenda, að þeir greiði nú gjald til þess að standa straum af þessu en þunginn af þessu lendi ekki á fasteignaeigendum.

Það er ástæða til þess að rifja upp að þegar gjaldtakan var sett á fyrir fjórum árum var gert ráð fyrir að stofn- og rekstrarkostnaður Landskrár fasteigna yrði á fjórum árum um 615 millj. kr. eða um 150 millj. kr. á hverju ári og að þegar Landskráin væri tilbúin yrði árlegur rekstrarkostnaður um 100 millj. kr.

Þá er best að líta til þess hvað gjaldið hefur gefið Fasteignamatinu á þeim tíma. Á árunum 2001–2004 hefur umsýslugjaldið skilað um 950 millj. kr. Tekjur til Fasteignamats ríkisins á þessum árum hafa því vel staðið undir kostnaðinum við Landskrána samkvæmt þeirri áætlun sem lögð var fram á árinu 2000. Nú á að framlengja gjaldið aftur eða átti að gera það um fjögur ár sem þýðir að það hefur verið mikil vanáætlun í þeirri áætlun sem lögð var fyrir þingið fyrir fjórum árum. Var farið fram á það nú að framlengja þetta um fjögur ár, þannig að til viðbótar þeim fjárhæðum sem hafa runnið í Landskrána, sem átti að fullu að standa undir þessu á fjórum árum, áttu að koma inn rúmar 1.100 millj. til viðbótar á næstu fjórum árum til þess að koma á Landskránni. Áætlunin er því annaðhvort helmingi of lág, meðvitað eða ekki, ég hef ekki hugmynd um það, eða þá að kostnaðurinn hafi farið úr böndum nú þegar verið er að óska eftir framlengingunni.

Það virðist því stefna í að kostnaður við að koma Landskránni á fót verði tvöfalt meiri en upphaflega var gert ráð fyrir. Ég kallaði að vísu eftir því í efnahags- og viðskiptanefnd og fékk skriflegt álit Fasteignamatsins hvernig þeir skýrðu kostnaðinn sem er umfram þá áætlun sem við lögðum upp með fyrir fjórum árum eða 615 millj., og til að gæta sannmælis vil ég vísa til þess sem Fasteignamatið sagði í álitinu sem ég kallaði eftir. Það er eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Þær breytingar í lögum sem gengu í gildi 1. janúar 2001 og mörkuðu grundvöll Landskrár fasteigna beindust einkum að myndun þinglýsingarhluta skrárinnar með því að samræma upplýsingar um fasteignir í þinglýsingarbókum, fasteignamatsskrá Fasteignamats ríkisins og fasteignaskrám sveitarfélaga. Þær áætlanir um stofn- og rekstrarkostnað Landskrár fasteigna sem fjármagnaðar voru með hækkun umsýslugjalds árið 2001 miðuðu einvörðungu að fjármagni þeirra aðgerða. Sú áætlun hefur gengið eftir nema að því leyti að misræmi upplýsinga um fasteignir milli skráar Fasteignamats ríkisins, skráar sveitarfélaga og þinglýsingabóka var áætlað 10% en hefur reynst vera á bilinu 18%–33% eftir sýslumannsumdæmum.“

Það er alveg óskiljanlegt að þetta hafi ekki verið hægt að sjá fyrir.

Síðar í áliti Fasteignamatsins segir, með leyfi forseta:

„Með ofangreindri þróun Landskrár fasteigna hafa nýjar þarfir og ný not komið í ljós fyrir skrána og sífellt koma fram ábendingar frá fasteignaeigendum, opinberum aðilum, tryggingafélögum, lánastofnunum, fyrirtækjum o.fl. um þróun skrárinnar við að þjóna samfélaginu sem best. Þetta snertir m.a. endurgjaldslausa upplýsingagjöf um fasteignamarkaðinn og vinnslu á ýmiss konar tölfræði um hann, en á heimasíðu stofnunarinnar hefur almenningur möguleika á að setja fram sérsniðnar fyrirspurnir um fasteignaverð og birtast þá tölfræðilegar upplýsingar unnar úr kaupsamningum fasteigna.“

Sem sagt, þeir lýsa í álitinu að verkið hafi reynst miklu umfangsmeira en menn hafi lagt upp með. En það er ótrúlegt að við séum að tala um að kostnaðurinn við þetta hafi farið 100% fram úr þeirri áætlun sem lagt var upp með, eða meira en það.

Virðulegi forseti. Við mótmælum því harðlega þessari skattheimtu sem á að framlengja, sem tekin var upp fyrir fjórum árum og að enn eina ferðina sé verið að leggja auknar byrðar á fasteignaeigendur og þeir einir látnir standa undir fjárfestingu sem hefur víðtækt þjóðfélagslegt gildi og nýtist fjölda aðila í opinberri stjórnsýslu og á einkamarkaði. Þessu mótmælum við, að ríkisstjórnin sjái ekkert annað þegar hún leitar að aurum en að fara í vasa einstaklinganna með einum eða öðrum hætti og það séu ekki notendurnir sjálfir, bæði opinberu fyrirtækin og fyrirtæki á einkamarkaði, sem standi undir fjármögnun á þessu. Þetta er aldeilis með eindæmum að verið sé að leggja þessa pinkla á fasteignaeigendur. Því mótmælum við harðlega og út á það gengur nefndarálit okkar. Við munum að sjálfsögðu greiða atkvæði gegn gjaldtökunni.



[15:29]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég verð að segja að ég verð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég les þá meðferð sem málið fær hjá hv. þingmönnum stjórnarmeirihlutans. Hvert er hlutverk okkar, þingmanna, þegar fjármunir skattborgara eru annars vegar? Að standa vörð um góða meðferð þeirra. Og við þurfum a.m.k. að gera okkur grein fyrir hvað hefur gerst þegar áætlanir sem settar hafa verið fram fara gróflega úr skorðum.

Ég hef talið að fremstur í flokki hv. þingmanna stjórnarliða sem berðist fyrir varfærnislegri meðferð á fjármunum skattborgaranna, ætti að vera hv. þm. Pétur H. Blöndal. Sá ágæti þingmaður hefur mörgum sinnum með jákvæðum hætti bent á það sem miður hefur farið og hann hefur a.m.k. viljað sjálfur vera einn af þeim riddurum sem berjast hvað ákafast gegn sóun og eyðslu. En hvað er það sem blasir við þegar frumvarpið sem liggur fyrir er lesið? Það blasir við að frá því lögin voru sett árið 2000 hefur ríkið farið fram úr áætlunum sínum um sem svarar 335 milljónum varðandi þetta litla afmarkaða verkefni. Það eru næstum 90 millj. kr. á ári. Maður skyldi ætla að þegar þingmenn stjórnarliðsins með hv. þm. og formann nefndarinnar, Pétur Blöndal, í broddi fylkingar, leggja til að gjaldið verði áfram tekið af fasteignaeigendum í landinu, þá leggist menn a.m.k. í einhvers konar vinnu til að skoða hvernig stendur á að áætlanirnar hafa svo gróflega farið úr böndum.

Það er gert ráð fyrir, frú forseti, að árið 2004 hefði verið aflað til verkefnisins með umsýslugjaldi 615 millj. kr. En þegar horft er til baka fjögur ár aftur í tímann, kemur í ljós að til verkefnisins hefur verið aflað með þessu gjaldi u.þ.b. helmingi meira, þ.e. 950 millj. kr. Verkefnið hefur því farið 50% og ríflega það fram úr áætlunum á þessu fjögurra ára tímabili. Og er það ekki skylda hv. þingmanna sem leggja til að áfram verði varið fjármunum til verkefnisins, a.m.k. að upplýsa okkur hin sem eigum að greiða atkvæði með þessu ef vilji þeirra nær fram að ganga, hvað veldur því?

Hv. þm. Pétur H. Blöndal upplýsti mig meira að segja um það í andsvari fyrir nokkrum mínútum að enn þyrfti að afla fjár með þessu gjaldi til að standa undir stofnkostnaði. Hvað veldur því að til stofnkostnaðar, sem átti að vera ásamt rekstri ekki nema 615 milljónir á þessum fjórum árum, duga ekki einu sinni 950 milljónir?

Í frumvarpinu er enn lagt til að gjaldið yrði framlengt um önnur fjögur ár sem sýnir mat þeirra sem stýra þessum málum í ráðuneytinu, hvað þeir telja að mikið þurfi til verksins. Hvað þýðir það, frú forseti? Er verið að leggja til að til verkefnisins sem upphaflega átti að verja 615 milljónum, verji menn a.m.k. 1,8 milljörðum? Ég leyfi mér að framreikna um önnur fjögur ár þær 950 milljónir sem fóru til verksins á hinum fyrstu fjórum, ekki ætlumst við til þess að gjaldið verði minna, það verður að öllum líkindum töluvert meira.

Ég geri mér grein fyrir að partur af þessu fer í rekstur, en eigi að síður virðist það blasa við að mat þeirra í ráðuneytinu, sem fara með þetta mál, sé að verkið muni kosta 300% meira en menn ætluðu. Það er sú eina og rökrétta ályktun sem er hægt að draga af þessum tölum og málsmeðferðinni.

Nú veit ég að hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem einnig styður tillögu meiri hlutans, eru ósammála þeim mönnum í ráðuneytinu sem véla um þetta, vegna þess að þeir hafa þrátt fyrir allt döngun og sóma til að stappa niður fæti fyrir hönd skattborgaranna og segja: Ekki meira en tvö ár til viðbótar. Áður en þeir geta lagt fram slíka tillögu, þá finnst mér að þeir hefðu þurft að ganga úr skugga um hvað fór úrskeiðis. Hver eru þau verkefni sem á að bæta við?

Þegar greinargerðin með frumvarpinu er lesin, kemur að sönnu í ljós að það eru ýmis verkefni sem á að slá undir hið upphaflega verkefni, þar á meðal á að endurmeta jarðir og sumarbústaði. Það sem er merkilegt við það, frú forseti, er að ekki er verið að taka gjald af matsvirði jarða, landa, sem hefði þó verið eðlilegt ef ráðast á í þetta verkefni. Það finnst mér skrýtið.

Aðalatriði máls míns er þetta, frú forseti:

Lagt var í þetta ferðalag með það fyrir augum að kostnaðurinn á fjórum fyrstu árunum ætti að verða 615 milljónir. Á þeim tíma átti að taka ákveðið umsýslugjald sem til bráðabirgða var hækkað fjórfalt frá því sem það var áður, það var 0,025‰, var hækkað upp í 0,1‰. Það er svo sem hægt að verja slíkt, en það verður hins vegar að segjast að þó hv. þm. Ögmundur Jónasson sé sjálfum sér samkvæmur í þessu efni, þá er ekki slíkt hið sama hægt að segja um þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa t.d. deilt mjög harkalega á sveitarfélag sem m.a. er stýrt af flokki sem hv. þm. Ögmundur Jónasson er félagi í. Sveitarfélagið er Reykjavíkurborg og flokkurinn er Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Þar tóku Samfylkingin, sem ég tilheyri, Framsóknarflokkurinn og flokkur hv. þm. Ögmundar Jónassonar, þátt í að fjármagna ákveðna framkvæmd, mjög þarfa og miklu nauðsynlegri frá öllum sjónarhornum en sú sem hér er verið að fjármagna. Sú framkvæmd fólst í því að endurnýja og leggja ný holræsi um höfuðborgina og var fjármögnuð með sérstöku gjaldi, holræsagjaldi. Hvaða flokkur var það sem djöflaðist gegn þessu? Það var Sjálfstæðisflokkurinn og hann sagði: Þetta er skattur og ekkert annað en skattur. Það er ekki hægt að verja þennan skatt.

Nú er það Sjálfstæðisflokkurinn með sjálfan skattaherforingjann, hv. þm. Pétur H. Blöndal í broddi fylkingar, flokkurinn sem áður barðist gegn sérstökum framkvæmdaskatti í Reykjavíkurborg, núna koma sjálfstæðismenn auðmjúkir með húfuna í höndunum og biðja um að Alþingi geri nákvæmlega það sama og þeir lögðust gegn í Reykjavíkurborg, þ.e. samþykki ákveðinn framkvæmdaskatt. Þeir eru meira að segja svo ósvífnir að andstætt því sem vinstri menn í Reykjavíkurborg gerðu, eru þeir með tillögu sinni að brjóta yfirlýsingu sem þeir gáfu árið 2000.

Menn skulu lesa greinargerðina með hinu upphaflega frumvarpi sem hér liggur fyrir. Niðurlagsorð þess greina frá loforði meiri hlutans árið 2000 um að þetta gjald yrði tekið af árið 2004. Það loforð er verið að svíkja með þeirri tillögu sem hv. þingmenn leggja til að verði samþykkt í dag.

Reykjavíkurlistinn var sjálfum sér samkvæmur. Hann sagði þetta gjald á að setja á, holræsaskattinn, sem þeir kölluðu svo pent „skítaskattinn“ hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Hann verður tekinn af þegar búið er að leggja holræsin. Um það var gerð áætlun. Og þegar búið var að framkvæma þá áætlun, réðst Reykjavíkurlistinn í að afnema holræsagjaldið.

Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins gera þveröfugt. Þeir framlengja skattinn. Þeir hafa engar röksemdir fyrir því hvers vegna það er gert. Það er talað um rekstur á kerfinu, þótt þeir hafi lofað því árið 2000 að eftir fjögur ár frá samþykkt frumvarpsins yrði farið í að finna aðra tekjustofna en þetta tiltekna gjald. Það er svikið. Það er ekki einu sinni farin sú leið sem Reykjavíkurlistinn fór varðandi framkvæmdaskattinn, að taka hann af í áföngum. Ó nei, það eina sem er gert til að bjarga andliti Sjálfstæðisflokksins er að tillaga ráðuneytisins er skorin niður um tvö ár. Hv. þm. Pétur Blöndal leggur ekki til að skatturinn verði afnuminn þegar í stað eins og flokkur hans lofaði árið 2000. Nei, en hann ætlar hins vegar að vera svolítið betri en þeir í ráðuneytinu, svo hann og hans ágætu félagar í Sjálfstæðisflokknum leggja til að í stað þess að vera framlengt um fjögur ár, verði bara framlengt um tvö ár.

Spurningin er: Með hvaða rökum? Hver eru rökin? Hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa ekki komið hingað og sýnt fram á með nokkrum rökum hvers vegna þarf að gera þetta. Ég get út af fyrir sig skilið að til þess að reka kerfið þurfi tekjustofna, en það hefur komið fram, sem kom mér á óvart hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, að þetta er ekki síst til þess að standa áfram undir stofnkostnaði. Í anda góðra stjórnarhátta og góðrar stjórnsýslu væri ekki úr vegi að spyrja hv. þingmann Pétur H. Blöndal, sem ég efa ekki að hafi farið ákaflega grannt í málið, hversu stór hluti af gjaldinu á næstu tvö ár að fara til að standa undir stofnkostnaði? Hversu stór hluti á að fara í rekstur? Er þetta ósanngjörn spurning?

Nei, frú forseti, þetta er ekki ósanngjörn spurning. Í hverju einasta fyrirtæki gætu menn svarað slíkum spurningum. Menn eiga ekki með svo kæruleysislegum hætti að taka þátt í og hafa frumkvæði að því að velta byrðum af rekstri og stofnun svona fyrirtækis, því þetta er ekkert annað, yfir á skattgreiðendur án þess að vita hvað á að greiða með þessu. Hver er stofnkostnaðurinn? Hvað er verið að stofna? Hver eru hin nýju verkefni? Það kemur ekki fram. Ég spurði hv. þingmann að þessu. Það liggur ekki fyrir. Þetta veldur mér miklum vonbrigðum.

Ég gef ekkert fyrir að hv. þm. Pétur H. Blöndal komi hingað, lofi bót og betrun og segi að þeir hafi þó skorið tvö ár af tímanum sem ríkisstjórnin vildi fá að halda þessum framkvæmda- og rekstrarskatti. (JÁ: Það var þá afrekið.) Það var þá afrekið. Hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði í lok ræðu sinnar að miklu máli skipti að settur væri punktur aftur við þessa skatttöku, með því að meiri hlutinn segir að eftir árið 2006 skuli tekna aflað með öðrum hætti. Guð láti gott á vita, frú forseti.

En ólygnust alls er reynslan. Við höfum reynslu af ríkisstjórninni og stjórnarliðinu í málinu. Það var akkúrat fólkið sem lofaði því árið 2000 að þegar fjögur ár yrðu liðin af gildistíma laganna sem þá voru samþykkt, yrði rekstrarkostnaði mætt með öðrum tekjustofnum. Það er verið að svíkja í dag. Hvers vegna skyldu menn þá taka það trúanlegt sem stjórnarliðið segir í tillögu sinni? Það er engin ástæða til þess. Hér ekki neitt annað að gerast en að verið er að taka sjálfstæða ákvörðun um að framlengja tiltekinn skatt. Fólk var blekkt þegar lögin voru samþykkt í upphafi og áfram er verið að blekkja fólk með því að halda því fram að þessum skatti eigi að afljúka eftir tveggja ára skeið.

Hérna er verið að taka 280 millj. kr. af skattborgurum til að standa undir einhverju sem hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar getur ekki skýrt út hvað er. (LB: Gæluverkefni Framsóknarflokksins.) Gæluverkefni, kallar þingmaður sem þekkir málið vel fram í, og það er líkast til hárrétt. En ég taldi hins vegar að sá vandaði sýslumaður skattborgarans sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar er og vill vera, mundi ekki taka þátt í slíku. Mér finnst satt að segja ekki hægt að ljúka umræðunni án þess að fram komi til hvers á að verja fjármagninu. Hver eru þessi nýju verkefni? Hvernig er skiptingin á útgjöldunum tvö næstu ár, annars vegar á milli stofnkostnaðar og hins vegar rekstrar? Það sem skiptir langmestu máli fyrir okkur sem eigum að veita framkvæmdarvaldinu aðhald er þetta: Höfum við vitneskju um hvað fór úrskeiðis? Hvað veldur því að það sem átti að kosta 615 milljónir fór meira en 50% fram úr áætlunum, þ.e. að 950 milljónir virðast ekki hafa hrokkið til að standa straum af þessu nýja dæmi?

Viðhorfið hjá þeim sem stjórna þessu máli, fjármálaráðuneytinu, bendir til að enn sé töluvert í land með að kostnaði skattborgaranna við þetta ljúki. Hið upphaflega frumvarp gerði ráð fyrir að skatturinn yrði heimtur inn í fjögur ár til viðbótar. Það eru þá 1.120 millj. kr. sem ætlun þeirra var að taka til að standa straum af þessu. Í hvað átti að verja öllum þessum peningum?

Nei, frú forseti, hér er ekki um annað að ræða en form þeirrar skattheimtu sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir þessa daga. Hún er að öngla saman í skattalækkanir. Hún fer þessa sniðugu leið, eins og ég orðaði um daginn þegar ég átti spjall við hæstv. fjármálaráðherra í ljósvakamiðli, að hækka skatta til þess að geta lækkað þá síðan. Það er auðvelt að vera mikill maður, berja sér á brjóst og monta sig um allar þorpagrundir af því að lækka skatta þegar menn hafa áður ráðist í það hervirki og þau spjöll að búa til nýja skatta hér og þar og nánast alls staðar. Þetta mál er ekkert annað en sjálfstæð ákvörðun um að auka skattheimtu af íslenskum skattborgurum um 280 millj. kr. á ári.

Stjórnarmeirihlutinn brýtur með þessu loforð sem hann gaf árið 2000. Það er ekkert að marka það þegar hv. þingmenn stjórnarliðsins segja að ekki eigi að halda skattheimtunni áfram nema í tvö ár til viðbótar. Þeir sögðu fjögur ár árið 2000 og nú lengja þeir hana upp í sex. Hver á að taka mark á svona? Hér rekur sig hvað á annars horn. Það er ekkert að marka þetta. Svo kemur hv. þm. Pétur H. Blöndal og svarar glaður í bragði þegar ég spyr hann hér áðan: Með hvaða hætti á síðan að afla nýrra tekjustofna árið 2006? Hann þylur upp þrennt. Fasteignasölu, gott og vel. Þróunarsamvinnustofnun nefndi hann næst, sem væntanlega ætti þá að standa straum af því, að gefa þetta sem þróunarhjálp til vanþróaðra ríkja, gott og vel. Þriðja atriðið er sveitarfélög. Það á heldur betur að seilast í vasa þeirra sem nóg hafa eða hvað?

Höfum við ekki, bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar, talað um nauðsyn þess að bæta með einhverjum hætti fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna? Var það ekki einn helstu þungavigtarmaður Sjálfstæðisflokksins á sveitarstjórnarstiginu, hv. þm. Gunnar Birgisson, sem kom hingað 18. síðasta nóvember og sagði úr þessum stól að ef ríkið mundi ekki með einhverjum hætti bæta fjárhagslegan hlut sveitarfélaganna þá blasti ekki við neitt annað en neyðarástand. Við þetta neyðarástand ætlar hv. þm. Pétur H. Blöndal greinilega að bæta, bæta gráu ofan á svart með því að auka það sem sveitarfélögin eiga að greiða í framtíðinni.

Nei, frú forseti, ég held að frumvarp þetta sé mjög sérkennilegt og held að það eigi ekki að samþykkja það. Mér finnst fráleitt að það sé gert, a.m.k. án þess að hv. þm. geri grein fyrir því í fyrsta lagi hvað fór úrskeiðis á hinum síðustu fjórum árum sem veldur því að kostnaðurinn er 50% fram úr áætlunum. Í öðru lagi: Til hvers á að verja þessum peningum sem á að taka með þessum hætti næstu tvö árin?



[15:49]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er réttmæt gagnrýni hjá hv. þingmanni að þetta er skattahækkun og ég er ekkert voðalega ánægður með hana. Hins vegar hafa bæst við verkefni eins og stendur í greinargerð með frumvarpinu. Alþingi setti jarðalög, lög nr. 81/2004, sem skylda Fasteignamatið til að meta jarðir. Það hefur bæst við fyrri verkefni og er fjórði þátturinn sem þeir eiga að meta.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að tæplega 34 þús. eignir séu ómetnar enn þá. Af fasteignum þar sem skráning í Landskrá fasteigna er ekki hafin eða ólokið eru 19 þús. í Reykjavík.

Þetta er skýringin á því að það er enn verið að vinna að stofninum. Enn þá er unnið að skráningu en þegar það er búið verður af því mikið hagræði fyrir alla aðila sem nýta þá skrá.

Það sem menn hefðu getað gert, frú forseti … (Gripið fram í.) Get ég fengið frið. Það sem menn hefðu getað gert var að fara yfir í fasteignamat í staðinn fyrir brunabótamat þannig að jarðir borguðu líka þetta gjald. En það hefði þýtt kerfisbreytingu því að þetta er innheimt af tryggingafélögum með brunabótaiðgjaldi og það hefði sennilega kostað meira en það sem við leggjum til.

Ég reyndi að fara yfir í eitt og hálft ár. Þá var sagt að það væri svo erfitt að taka hálft ár inn í þetta að það tæki því ekki. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar sendir því frá sér skýr skilaboð með því að segja: „Eftir það skal tekna aflað með öðrum hætti.“ Það stendur skýrt og skorinort í greinargerð meiri hlutans sem styður þetta frumvarp.

Hver er upphæð skattsins? Ef við tökum 18 millj. kr. eign að brunabótamati í Reykjavík — brunabótamat er lægra en fasteignamatið í dag — eru þetta 150 kr. á mánuði. Þetta eru 150 kr., frú forseti, sem menn eru að gera svo mikið veður út af. Mér finnst sem menn séu að skjóta mýflugu með fallbyssu. Ef þetta er 12 millj. kr. eign, að brunabótamati, er um að ræða 100 kr. á mánuði.



[15:51]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki upphæðin sem skiptir máli heldur prinsippið. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur fallist á hvert grundvallareðli þessa frumvarps er, þ.e. skattahækkun. Hann sagði það sjálfur og þá höfum við það. Hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem hér hefur komið manna oftast, fagnað háværast, barið sér mest á brjóst yfir því að hafa verið í fylkingarbrjósti í liði þeirra sem lækka vilja skattana er hér að hækka skatta. Hann hefur viðurkennt það sjálfur. Til hvers er hann að hækka skatta? Hann er að hjálpa hæstv. fjármálaráðherra að öngla saman fyrir skattalækkunum sem eiga að vera kosningabeitan sem hv. þingmaður ætlar að kaupa sér atkvæði með fyrir næstu kosningar.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn lenti í ógöngum fyrir síðustu kosningar þá gerði hann það sem hann hefur aldrei gert áður í sinni sögu. Hann kom með stórkostleg kosningaloforð sem kostuðu gríðarmikla peninga. Nú er hann að reyna að standa við þau. Það dugði ekki fyrir síðustu kosningar, hann tapaði 7%. Ég dreg í efa að sjónhverfingar af þessu tagi dugi gagnvart kjósendum.

Ef það væri þannig að hv. þingmenn stjórnarliðsins gætu sýnt fram á hagræðingu í ríkisrekstri, sýnt fram á aðhald og sparnað og þannig búið til svigrúm fyrir skattalækkanir, þá horfði málið öðruvísi við. Þá er ég viss um að skynsamir menn mundu jafnvel velta fyrir sér hvort það væri einnar messu virði að íhuga að kjósa þá en hér fara þeir fram með blekkingar gagnvart kjósendum. Þeir eru ekki að gera neitt annað en að búa til pótemkíntjöld sem þeir svipta fyrir og þegar þeir hafa varið fjórum árum í að hækka skatta með ýmsu móti segjast þeir lækka skattana þegar kemur að kosningum.

Háttvirtur þingmaður á hins vegar hrós skilið fyrir hreinskilnina, hann sagði að þetta væru ekkert annað en skattahækkanir.



[15:54]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég gat um það áðan að verkefnum hefði verið bætt á Fasteignamatið með lögum frá Alþingi og því hefði verið eðlilegt að breyta um skattstofn, fara úr brunabótamati yfir í fasteignamat. En það hefði kostað svo mikið fyrir þau örfáu ár sem eftir eru að það tæki því ekki.

Ég talaði um að við hefðum reynt að fara í eitt og hálft ár en það þótti ekki taka því vegna þess hve skatturinn er lágur. Þetta eru 100–150 kr. á hverja íbúð á ári. Það tekur því ekki að fara að skipta um kerfi fyrir það. Það tekur því ekki að taka hálft ár inn í reikninginn.

Nei, ég tek aftur gleði mína þegar ég hugsa um það sem hv. þingmaður minnti mig á, að við höfum náttúrlega gert alveg stórkostlega hluti. Ég nefni erfðafjárskattinn, sem kemur öldruðum til góða. Hann hefur verið stóreinfaldaður og lækkaður. Ég nefni fjármagnstekjuskattinn sem gefur ríkissjóði gífurlegar tekjur þrátt fyrir að skatturinn hafi stórlækkað.

Ég nefni hátekjuskattinn, sem er að hverfa og margir af mínum kjósendum eru afskaplega ánægðir með það. Nú geta þeir farið að vinna eins og menn. Ég nefni eignarskattinn, frú forseti, sem er horfinn og kemur vonandi aldrei aftur, nema einhverjir aðrir komist í ríkisstjórn.

Ég er því mjög glaður, mjög glaður þrátt fyrir að við tökum mánaðarlega hundrað kall í skatt eða 150 kr. skatt og framlengjum hann í tvö ár, sem ég er ekki glaður með, ég tek það fram. (ÖJ: Talaðu svolítið um Landspítalann.) Svo getum við rætt um aðhald og þá fer fyrst að verða skemmtilegt að hlusta á tal hv. þingmanna sem annars vegar tala um aðhald í rekstri ríkissjóðs og krefjast útgjalda í hinu orðinu.



[15:56]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Munurinn á stjórnarandstöðunni og stjórnarliðinu birtist í þessu frumvarpi. Stjórnarandstaðan leggur við fjárlagagerðina aldrei fram tillögur sem fela í sér aukinn kostnað nema að leggja til sparnað á móti. Hér leggja hv. þingmenn stjórnarliðsins til að ráðast í ný verkefni. Gott og vel. Ráðumst í ný verkefni ef þeirra er þörf.

En munurinn á þeim og okkur er hins vegar sá að þeir finna ekki fjármagn fyrir þessum nýju verkefnum með því að spara, sýna aðhald eða hagræðingu í rekstri. Nei, þeir leggja á nýja skatta. Það er hlálegt, að ég ekki segi grátbroslegt, að heyra helsta riddara skattalækkunarmanna koma hingað og segja: Ég gef ekkert fyrir það þótt verið sé að hækka hér skatta af því það er ekki nema hundrað kall á eign á mánuði. Þetta eru 280 millj. kr. á ári og 1.120 millj. kr. á kjörtímabilinu. Svo kemur hv. þm. og segir: Þetta skiptir engu máli.

Staðreyndin er einfaldlega sú að hv. þingmenn stjórnarliðsins og hæstv. ráðherrar skapa sér svigrúm með skattahækkunum til að geta blekkt kjósendur rétt fyrir kosningar og keypt sér atkvæði þeirra með því að lækka skattana þá. Þetta eru ekkert annað en blekkingar og það er þeim til minnkunar. Ég sjálfur skildi þetta ekki fyrr en leið á skattalækkunarhrinuna sem þeir hafa svo kallað. Þegar menn fóru að reikna þetta saman kom í ljós að t.d. næstu tvö árin mun ríkisstjórnin koma út í plús. Svo kemur auðvitað hv. þingmaður og segir: Ég gef ekkert fyrir það þótt við séum að hækka skatta um 280 millj. kr. En hafi hann hrós fyrir það að hafa kallað málið hinu rétta nafni, þ.e. skattahækkun.