131. löggjafarþing — 53. fundur
 8. desember 2004.
Aukatekjur ríkissjóðs, 2. umræða.
stjfrv., 375. mál (hækkun gjalda). — Þskj. 460, nál. 578 og 590.

[18:19]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum, frá meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur, Ragnheiði Snorradóttur, Guðmund Thorlacius, Ingva Má Pálsson og Fjólu Agnarsdóttur frá fjármálaráðuneyti.

Í frumvarpinu er lögð til hækkun ýmissa gjalda um 10% að jafnaði. Þó er gert ráð fyrir að fjárhæð gjalda standi eftir atvikum á heilu eða hálfu hundraði. Fram komu á fundi nefndarinnar upplýsingar um að við þetta hækki flest gjaldanna minna en verðlag almennt frá því þeim var síðast breytt með lögum. Þau lækki því að raungildi. Helstu undantekningar varða annars vegar skráningu erlendra félaga þar sem gjöld eru hækkuð til samræmis við gjöld fyrir skráningu innlendra félaga og hins vegar gjöld fyrir útgáfu vegabréfa sem er samræmd á milli allra aðildarríkja Schengen-samningsins.

Auk þess er lögð til formbreyting á gjaldi fyrir skráningarmerki á ökutæki, þ.e. bílnúmeraplötur. Þetta er gert í samráði við Fangelsismálastofnun sem hefur haft tekjur af framleiðslu og sölu merkjanna. Kostnaður bifreiðaeigenda verður hinn sami og áður þar sem gert er ráð fyrir að söluverð merkjanna lækki að sama skapi.

Meiri hlutinn leggur til að orðalagi 14. gr. verði breytt til samræmis við hugtakanotkun í VIII. kafla umferðarlaga.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

14. gr. orðist svo:

Við VIII. kafla laganna: Ýmis vottorð og leyfi, bætist ný grein, 14. gr. a, er orðast svo: Greiða skal í ríkissjóð 1.500 kr. af hverju skráningarmerki ökutækja.

Undir þetta nefndarálit skrifa hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Gunnar Birgisson og Siv Friðleifsdóttir.



[18:22]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir minnihlutaáliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

Það er rétt í upphafi að taka fram að þetta frumvarp er aðeins eitt af mörgum sem hér eru ýmist til umfjöllunar eða verða það fljótlega og virðast öll vera því merki brennd að auka tekjur ríkissjóðs verulega. Þegar allt er lagt saman má segja að hér sé í raun stigið verulegt skref í aðhaldsátt í ríkisfjármálum og verður að telja það afar sérkennilegt miðað við þá stöðu sem er í efnahagslífi þjóðarinnar að hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar skuli ekki hafa vakið á því sérstaka athygli að þeir væru að sýna verulegt aðhald í ríkisfjármálum með öllum þeim hækkunum á gjöldum og sköttum sem hér hafa verið lagðar fram.

Það er líka merkilegt að á sama tíma og allar tillögurnar eru lagðar fram er ríkisstjórnin aðallega að halda því á lofti að boðaðar séu skattalækkanir sem eiga að nema um 4 milljörðum kr. á næsta ári. Hæstv. fjármálaráðherra hefur talið að nú væri verið að skila aftur þeim efnahagsbata sem ríkissjóður hefur notið á undanförnum árum. Ef hins vegar er horft til þeirra skatta- og gjaldahækkana sem dunið hafa yfir á þessu ári og boðaðar eru á því næsta kemur í ljós að þessar lækkanir — afsakaðu, herra forseti, en svona getur maður ruglast í þessum orðum hækkun og lækkun og ekki skrýtið því að svo mikill er bægslagangur hv. þingmanna ríkisstjórnarinnar að boða skattalækkanir að það er ekki skrýtið þó að manni sé það tamt á tungu, en það eru hækkanir sem þeir standa auðvitað fyrst og fremst frammi fyrir en þegar maður skoðar lækkanirnar duga þær ekki til að mæta þeim hækkunum sem boðaðar hafa verið eða nú þegar eru samþykktar. Ég held að nauðsynlegt sé í þessu samhengi að rifja sérstaklega upp nokkrar staðreyndir í málinu.

Á þessu ári hækkaði þungaskattur og vörugjald af bensíni um 1.200 millj. kr., vaxtabætur voru skertar um 600 millj. kr., afnám frádráttar tryggingagjalds vegna viðbótarlífeyrissparnaðar skilaði ríkissjóði um 600 millj. kr., framlag ríkissjóðs vegna sjúkratrygginga lækkaði um 750 millj. kr., barnabætur voru skertar um 150 millj. kr. og komugjöld á heilbrigðisstofnanir hækkuðu um 50 millj. kr. Þá var nefskattur í Framkvæmdasjóð aldraðra hækkaður um 23 millj. kr. Þá er ótalið að persónuafsláttur fylgdi ekki launaþróun. Þrátt fyrir það er upphæðin á yfirstandandi ári komin yfir 3 milljarða kr.

Herra forseti. Ég mun fljótlega fara yfir þær hækkanir sem boðaðar eru á næsta ári en vegna þess sem ég sagði varðandi persónuafsláttinn tel ég nauðsynlegt að vitna í gögn sem komu fram í efnahags- og viðskiptanefnd fyrir stuttu sem tengjast persónuafslætti. Þar er merkilegt línurit sem hv. þingmaður og formaður nefndarinnar, Pétur H. Blöndal, óskaði sérstaklega eftir að kæmi fram í nefndinni. Þar eru þrír ferlar. Í fyrsta lagi ferill persónuafsláttarins, hvernig hann hefur þróast frá upphafi til ársins í ár. Í öðru lagi er það ferill sem sýnir þróun neysluvísitölu, þ.e. ef persónuafslátturinn hefði fylgt neysluvísitölu, og þriðji ferillinn er ef persónuafslátturinn hefði fylgt launavísitölu. Það er afskaplega merkilegt hversu miklu munar orðið á ferlunum. Neðsti ferillinn er samt persónuafslátturinn í dag, sá næsti er ef fylgt hefði verið neysluverðsvísitölu og sá þriðji er ef fylgt hefði verið launavísitölu.

Það er líka athyglisvert hvenær fer virkilega að skera á milli ferlanna. Skurðpunkturinn á ferlinum um persónuafsláttinn og launavísitöluna er að því er virðist um mitt ár 1995. Þá fer fyrst að muna á milli ferlanna og hefur vaxið jafnt og þétt síðan. (Gripið fram í: Hvað gerðist 1995?) Það er nákvæmlega spurningin: Hvað gerðist árið 1995? Það skyldi þó ekki vera að það ár hafi sú ríkisstjórn sem nú situr verið mynduð? Ekki ætlum við þeim ágætu herrum að þeir viti ekki hvað þeir gera. Það hlýtur því að hafa verið meðvituð stefna að draga úr persónuafslætti á þennan hátt og ef notaður er rökstuðningur ýmissa hv. þingmanna ríkisstjórnarinnar þýðir það þegar þetta er ekki látið fylgja skattahækkun. Hér hafa verið haldnar nokkrar lærðar ræður um að þegar hlutum er ekki breytt í takt við verðlag þýði það skattahækkun í þessu tilfelli en í öðrum tilfellum eins og a.m.k. tveir hv. þingmenn sem hér sitja í salnum notuðu þegar rætt var um áfengisgjald og í ljós kom að ekki átti að hækka áfengisgjald varðandi léttvín og bjór, þá þýddi það í raun og veru lækkun. Með nákvæmlega sömu röksemdafærslu þýðir það að persónuafslátturinn fylgi ekki skattahækkun ef notuð eru rök þessara ágætu hv. þingmanna.

En hvað skyldi þetta þýða í tölum? Áðan talaði ég um að á þessu ári væri 3 milljarða hækkun og nú skulum við skoða persónuafsláttinn. Það vill svo til að ég hef í fórum mínum minnisblað frá efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins og línuritið er líka úr ráðuneytinu. Þetta eru því ekki einhverjar uppdiktaðar tölur stjórnarandstæðinga að reyna að leika einhvern leik, eins og gjarnan er gert af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar verið er að fjalla um þessi mál, heldur eru þetta staðreyndir. Ég trúi því að þær tölur sem ég mun fara með á eftir og eru fengnar úr fjármálaráðuneytinu séu frekar í lægri kantinum, vegna þess að ekki trúi ég því að þeir bæti í gagnvart því hversu vasklega ríkisstjórnin hefur staðið að skattahækkunum þrátt fyrir öll loforðin um skattalækkanir.

Hér segir að tekjulækkun ríkissjóðs sé 36,4 milljarðar ef fylgt hefði verið launavísitölu frá 1989 en 16,3 milljarðar ef fylgt hefði verið vísitölu neysluverðs frá 1988. (Gripið fram í: Hvenær var skurðpunkturinn fenginn?) Skurðpunkturinn var fenginn 1995, hv. þingmaður, þ.e. á þeim tímapunkti sem svo undarlega vill til að mynduð var ríkisstjórn á Íslandi. Sama ríkisstjórn og er að reyna að telja fólki trú um að þetta sé einhver sérstök skattalækkunarríkisstjórn. En það má fara yfir allar tölurnar og átta sig á því að þetta á við örlítinn hóp í samfélaginu. Þar virðist ríkisstjórnin vera að uppfylla loforðin um skattalækkanir. Það er ákveðinn hópur sem er sérstaklega valinn úr til þess að lækka skatta hjá. En hinn almenni maður, ég tala ekki um þeir sem minna hafa á milli handanna, fá ekki að njóta skattalækkunar ríkisstjórnarinnar. Nei, á þeim skal hækkað. Í þeirra vasa skal sótt það sem síðan er dreift út til annarra. Við sjáum því að þó að við notum þessar lágu tölur úr fjármálaráðuneytinu er sannarlega margfalt til fyrir heildarskattalækkun að svo boðuðu, þ.e. búið er að sækja þetta áður en því er dreift.

Frú forseti. Það er rétt að halda örlítið áfram með nefndarálitið því þar var ég staddur að ég var búinn að taka saman þær tölur sem voru hækkaðar á yfirstandandi ári og kominn upp í um 3 milljarða kr. Það má segja um þessar hækkanir að þær munu allar halda áfram á næsta ári og til viðbótar hefur ríkisstjórnin ákveðið að hækka áfengisgjald um 340 millj. kr., hækka aukatekjur ríkissjóðs um 200 millj. kr. Það er það frumvarp sem hér er til umræðu. Við teljum eðlilegt að þetta sé sett í samhengi því ekkert er þetta eitt og sér í heiminum heldur hluti af heild. Það á að hækka bifreiðagjald um 120 millj. kr. Það á að hækka skólagjöld í háskólum um 140 millj. kr. Það á að hækka komugjöld enn á ný á heilbrigðisstofnanir og aftur um 50 millj. kr. Vaxtabætur verða skertar til viðbótar skerðingunni í ár um 300 millj. kr. og framlenging umsýslugjalds fasteigna kostar 280 millj. kr. á næsta ári. Breytingar á þungaskatti skila aukalega 350 millj. kr. Þá mun viðbótarhækkun í Framkvæmdasjóð aldraðra verða um 24 millj. kr. Samtals er þetta komið í tæpa 5 milljarða kr. á næsta ári. Þá bætist við það sem ríkisstjórnin sótti á þessu ári og þá erum við kominn upp í rúma 8 milljarða kr. á móti boðaðri skattalækkun upp á 4 milljarða.

Frú forseti. Von er að spurt sé: Er um að ræða skattahækkun eða skattalækkun? Allt þetta sjónarspil minnir á fyrri vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Hún er orðin býsna vön í þessum vinnubrögðum. Fyrst er af fólkinu tekið og síðan er hluta fengisins skilað með mikilli skrautsýningu. Það er eðlilegt, frú forseti, að hæstv. fjármálaráðherra kvarti á hátíðarfundi hjá Sjálfstæðisflokknum um að skattaveisla hans hafi verið misskilin. Allt tal hæstv. fjármálaráðherra um að verið sé að skila efnahagsbatanum til baka er hrein og klár blekking. (Gripið fram í: Byltingin er þöguð í hel.) Hárrétt, hv. þingmaður. Það er mjög sérkennilegt að þessa byltingu í aðhaldi í ríkisfjármálum skuli reynt að þaga í hel af hv. þingmönnum ríkisstjórnarinnar vegna þess að það sem fyrst og fremst hefur verið beðið um er að sýnt yrði aðhald í ríkisfjármálum. Og þegar það er gert á þennan hátt þá steinþegja hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar. Skattahækkunum er beitt, hlýtur að vera, til að tryggja ákveðið aðhald í ríkisfjármálum. Nei, þá vilja hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar ekki orða það einu sinni, ekki kannast við það þannig að mér finnst rétt að reyna að hæla þessari ríkisstjórn þó fyrir eitthvað því það er ekki svo margt sem hægt er að hæla henni fyrir. En hér er þó gengið nokkuð rösklega fram í aðhaldi. Ég hefði viljað, hv. þingmaður, fara kannski örlítið aðrar leiðir í aðhaldinu en þessa vegna þess að sú leið að seilast ætíð í vasa þeirra sem minna hafa er ekki að mínu skapi. Ég held að við gætum frekar átt við aðra hópa varðandi það að hækka skatta í þessu landi. (Gripið fram í: Hátíðarsamkundur með ...)

Frú forseti. Í árslok 2005 er ljóst að ríkissjóður hefur, ef nota má það orð, hagnast um einhverja milljarða króna á öllum þessum breytingum. Enn á ný, frú forseti, er ljóst að þetta aðhald í ríkisfjármálum er sérstakt fyrir það að stjórnarliðar hafa ekki vakið nokkra athygli á því heldur fyrst og fremst rætt um skattalækkun sem er, eins og sýnt hefur verið fram á, örlítið brot af öllum þeim hækkunum sem átt hafa sér stað. Það er líka athyglisvert að með þeim hækkunum sem átt hafa sér stað er enginn greinarmunur gerður á fólki heldur gengið í vasa allra og jafnvel gengið í vasa þeirra sem í ýmsum erfiðleikum eiga vegna þess að sum gjöldin sem hér er verið að hækka nálgast oft það fólk frekar en hina. Ójöfnunarstefnan er því í algleymingi og það kemur okkur reyndar ekkert á óvart að sumt sé reynt að fela. Við höfum séð það á ýmsum öðrum sviðum.

Síðan kemur saklaust orðalag í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar þar sem reynt er að gera afskaplega lítið úr þeirri gjaldahækkun sem hér á sér stað og að sjálfsögðu er ekki minnst á að verið sé að hækka gjöld út og suður og búið að stunda það um nokkurt skeið. Ég tala nú ekki um hinn sérstaka kafla um persónuafsláttinn sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur vakið alveg sérstaka athygli okkar á með beiðninni um það ágæta línurit sem ég sýndi áðan og sýnir svart á hvítu að afrekið í þeim efnum er hreinlega ekki hægt að taka af núverandi ríkisstjórn. Hún á þetta afrek algjörlega ein. Það hefur enginn aðstoðað hana við það, ekki nokkur maður. Hv. þingmaður hefur hins vegar gefið það oft í skyn, sérstaklega í efnahags- og viðskiptanefnd, að einhverjir aðrir hefðu aðstoðað við þetta. En mér finnst engin ástæða til að taka þetta af hæstv. ríkisstjórn. Þessi ríkisstjórn á þessi afrek öll algerlega óskipt og þetta sönnunargagn sem hv. þingmaður bað sérstaklega um sýnir það algerlega svart á hvítu. Ég verð að hæla hv. þingmanni fyrir að hafa beðið sérstaklega um þetta línurit. Ég hef aldrei áður séð þetta svona skýrt. Þetta er miklum mun skýrara, eins og hv. þingmaður þekkir vel, en fá þetta í töflu með fullt af tölum. Hér blasir þetta við. Ég trúi því að hv. þingmaður komi jafnvel í sérstaka ræðu á eftir og fari yfir það hversu glæsilegur árangur ríkisstjórnarinnar er á þessu sviði. (Gripið fram í.) Hér hafa menn hækkað skatta um marga milljarða kr. Það er spurning hvort það eru tæpir 20 milljarðar eða hvort þetta eru rúmlega 30 milljarðar eða tæplega 40 milljarðar. (Gripið fram í.) Þetta eru slík afrek að það er alveg með ólíkindum að hv. þingmenn skuli ekki hæla sér af þessu. Ekki trúi ég því, frú forseti, að þetta hafi menn verið að gera án þess að vita hvað þeir voru að gera. Maður trúir því ekki, alla vega ekki á hinn talnaglögga hv. þm. Pétur H. Blöndal. Hann hlýtur að hafa vitað allan tímann að þarna væru menn á fullu í skattahækkunum, í skattahækkunum sem hv. þingmaður hefur stutt allan tímann og hlýtur að vera býsna ánægður með.

Frú forseti. Ég sé að hv. þm. Pétur H. Blöndal iðar í skinninu væntanlega til að lýsa því yfir hversu æstur hann er orðinn yfir hinu magnaða frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra sem kallað er skattalækkunarfrumvarpið og vill væntanlega fá að hæla því frumvarpi örlítið meir. En ég vænti þess, frú forseti, að hv. þingmaður geri það í ljósi þeirra talnalegu staðreynda sem hér hefur verið farið yfir. (Gripið fram í.)



[18:38]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er oft þannig þegar menn lenda í rökþrotum að þá fara þeir út um víðan völl og tala um eitthvað allt annað en til umræðu er. Hér erum við að ræða 375. mál um aukatekjur ríkissjóðs. Við erum ekkert að ræða um skattalagafrumvarpið. Það ætlum við að ræða á morgun. Hv. þingmaður hefur þjófstartað af því að hafði átti engin rök við því sem ég ætla að tala um núna.

Samkvæmt töflu sem við fengum í hv. efnahags- og viðskiptanefnd kemur fram að leyfi til að versla með skotvopn, skotfæri eða skotelda, hvort heldur í heildsölu eða smásölu auk gjalda fyrir verslunarleyfi, var 15 þús. kr. í frumvarpinu en er hækkað upp í 16.500. Þetta gjald er búið að vera óbreytt síðan 1991, í 13 ár, frú forseti. (Gripið fram í.) Það ætti núna að vera 23.250 ef það hækkaði eins og verðlag almennt, eins og epli og appelsínur og allt annað. Nei, það er enn þá 15 þús. kr. og er hækkað upp í 16.500. Ég ætla að spyrja hv. þingmann: Er þetta skattalækkun eða skattahækkun? (Gripið fram í.)

Síðan er annað, þ.e. skráning hlutafélaga eða samvinnufélaga sem er 150 þús. kr. í lögunum í dag og hefur verið óbreytt síðan 1995. Það er hækkað upp í 165 þús. kr. en ætti að vera 210 þús. kr. ef verðlagi hefði verið fylgt, ef það hefði fylgt verðlagi eins og epli og appelsínur og aðrar vörur. Það ætti að vera 210 þús. kr. Ef einhver ætlar að stofna hlutafélag núna þá þarf hann ekki að borga nema 165 þús. kr. miðað við 210 þús. kr. ef þetta hækkaði í samræmi við verðlag. Er þetta skattahækkun eða skattalækkun, frú forseti?



[18:40]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að þetta eru gjalda- og skattahækkanir. Það er ekki nokkurt vafamál vegna þess að þetta er ekki þannig sjálfvirkt að það eigi að hækka samkvæmt vísitölunni eins og hv. þingmaður hefur margoft sagt. En ef við gefum okkur þetta þá getum við út af fyrir sig tekið þetta svona og lagt þetta til hliðar við persónuafsláttinn vegna þess að hv. þingmaður hlýtur að vilja hafa samhengi í hlutunum. Því hlýtur persónuafslátturinn að eiga að fylgja launavísitölunni líka og þá eigum við væntanlega nóg í pottinum til að mæta þessu öllu saman.

Málið er hins vegar fyrst og fremst það að allar þær hækkanir sem hér eru eru meðvitaðar. Þær eru ekki sjálfvirkar. Ef við teldum að þetta ætti að vera sjálfvirkt mundum við væntanlega leggja þetta fram með fjárlagafrumvarpi og segja að hér sé verið að mæta þessu og gera það á hverju einasta ári. Það er ekki þannig. Þessar hækkanir eru meðvitaðar. Og fyrst hv. þingmaður er farinn að leika sér með einstakar tölur úr þessu frumvarpi sem ég að sjálfsögðu get haldið langa ræðu um og tínt til hverja einustu tölu ef hv. þingmaður telur að umræðan eigi að snúast um það, þá er auðvitað ekki eðlilegt að gera það vegna þess að við erum með þetta í samhengi við annað. Ég er að reyna að vekja athygli hv. þingmanns á því að þetta er bara hluti af heild.

Vegna þess að hv. þingmaður hefur voðalega gaman af tölum og bendir á eina og eina tölu og segir að þær hafi hækkað að jafnaði um 10% eins og segir í áliti hans þá er væntanlega hægt að spyrja hv. þingmann vegna þess að m-liður og n-liður 13. gr. hljóða svo, með leyfi forseta:

„m. Í stað fjárhæðarinnar „800 kr.“ í 5. og 6. tölul. kemur: 3.000 kr.

n. Í stað fjárhæðarinnar „1.800 kr.“ í 7. tölul. kemur: 3.000 kr.“

Hv. þm. Er þetta kannski líka skattalækkun?



[18:42]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég gat um það í andsvari áðan að í eina tíð hefðu fjármálaráðherrar getað sjálfir hækkað þessi gjöld á þriggja, fjögurra mánaða fresti í (Gripið fram í: Nú hefur ...) samræmi við hækkun byggingarvísitölu. Ég þarf að endurtaka mig aftur og aftur vegna þess að menn virðast ekki fylgjast með umræðunni. (Gripið fram í: Jú, jú.) Hefur hv. þingmaður fylgst með þessu? (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Hann vissi þá sem sagt að þessi gjöld (Gripið fram í.) voru hækkuð hérna einu sinni sjálfvirkt. En svo var horfið frá því með breytingu á stjórnarskránni og nú þarf að hækka þau árlega til að þau rýrni ekki að verðgildi og verði lítils virði eða einskis (Gripið fram í.) virði. Hækkuninni sem við erum að framkvæma hérna lýsti hv. þingmaður áðan sem í rauninni raunhækkun. Það er mjög skemmtilegt að fá það fram — ég ætla að fá það geymt — að það sé raunhækkun þegar gjald fyrir skráningu hlutafélaga hækkar úr 150 þús. kr. í 165 þús. þegar það ætti að vera 210 þús. kr. miðað við verðlag eins og allt annað verðlag. Hv. þingmaður kallar þetta raunhækkun. Ég vil gjarnan að því sé haldið til haga.

En varðandi persónuafsláttinn þá er það náttúrlega allt annað mál. (Gripið fram í.) Þar erum við að tala um skattfrelsismörk, frítekjumark, og frítekjumarkið er háð skattprósentunni og persónuafslættinum. Frítekjumarkið, þ.e. þær tekjur sem menn hafa til ráðstöfunar áður en farið er að borga skatt, hefur hækkað umtalsvert nema fyrstu árin eftir að það var tekið upp. Árin 1989 og 1990 lækkaði frítekjumarkið mjög hratt vegna þess að skattprósentan var hækkuð. Þetta þarf að taka með inn í dæmið og ég get sýnt fram á það og fullyrt það að frítekjumarkið hefur hækkað. Þetta eru bara skattleysismörkin eða persónuafslátturinn en hefur ekkert að segja um það hvert frítekjumarkið er, þ.e. hvaða tekjur menn mega hafa til ráðstöfunar áður en þeir fara að borga skatt. Það mark hefur hækkað umtalsvert og nánast eins og verðlag undanfarin ár.



[18:44]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér kom hv. þingmaður áðan og talaði um að það væru rökþrot þegar farið væri um víðan völl. Ég taldi (Gripið fram í.) mig hafa svarað því áðan að ég hefði verið að reyna að setja hlutina í samhengi en hv. þingmaður virðist bara stundum vilja vera með hlutina í samhengi og stundum ekki.

Ég skal mæta þessu með persónuafsláttinn og frítekjumarkið. (Gripið fram í.) Nú þegar hv. þingmaður hefur fengið þá ósk sína uppfyllta að fá línurit um hvernig persónuafslátturinn hefur þróast og í ljós kemur að núverandi ríkisstjórn á allan heiðurinn af því hvernig þetta hefur verið að gliðna hér á milli þá vill hv. þingmaður fara að tala um eitthvað allt annað. Af hverju bað hv. þingmaður í efnahags- og viðskiptanefnd ekki um þessar upplýsingar sem hann telur nú að muni sýna eitthvað allt annað en þetta? Það er afar merkilegt. Ástæðan er sú auðvitað að hann er rökþrota í þessu máli, algerlega rökþrota. Hv. þingmaður vill ekki kannast við að hann hafi verið að styðja skattahækkanir alveg frá því að ríkisstjórnin tók við völdum árið 1995. Markvisst hafa skatttekjur stöðugt verið auknar hjá ríkissjóði og það sem meira er, talan sem hv. þingmaður hefur verið að kalla skattalækkanir er bara lítið brot af þeim skattahækkunum sem hv. þingmaður hefur staðið að. Ég hef verið að reyna, bæði í andsvörum og í ræðu minni, að vekja athygli á því að það væri nú örlítið meiri mannsbragur að því hjá hv. þingmönnum ríkisstjórnarinnar að koma upp og hæla sér af því að þeir hafi þó verið að sýna aðhald í ríkisfjármálum með því að hækka þessa skatta og þessi gjöld. Það væri mannsbragur að því en ekki fara undan í flæmingi og kannast ekki nokkurn skapaðan hlut við sínar eigin gjörðir. Það er afar sérkennilegt. Þeir ætla svo að koma núna og veifa eða gráta í Valhöll yfir því að enginn taki eftir því að þeir séu að lækka skatta, þ.e. að skila örlitlu broti af því sem þeir eru búnir að sækja á undanförnum árum.



[18:46]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gaman að hlusta á þessa umræðu og sérstaklega málflutning hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar sem er talsmaður Samfylkingarinnar í því máli sem hér er til umræðu, þ.e. aukatekjur ríkissjóðs. Ég hef áhuga á að halda mig við aukatekjur ríkisins og vil spyrja hv. þingmann í mestu vinsemd: Ef hv. þingmaður og Samfylkingin réði þessu, ef þetta væri frumvarp Samfylkingarinnar, hver væri þá stefnan? Er það svo að það sé meðvituð stefna Samfylkingarinnar að lækka allar aukatekjur ríkissjóðs, eða er það meðvituð stefna Samfylkingarinnar að sjá til þess að ekkert verði hækkað og þá verði um enn meiri raunlækkun að ræða en raun ber vitni? Hvernig mundi Samfylkingin vilja sjá þetta? Ég vildi geta áttað mig á þeim valkosti, því ég man ekki eftir neinum áherslum og hef þó fylgst nokkuð grannt með þessu flokkabandalagi, Samfylkingunni, í gegnum tíðina. (Gripið fram í.) Já, hv. þingmaður kallaði þetta áhugamál mitt. Það er mikið til í því. Ég hef mikinn áhuga á íslenskum vinstri mönnum og hef oft skemmt mér yfir því að fylgjast með þeim (LB: Línu.Net.) og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kallar Línu.Net, það er akkúrat afsprengi íslenskra vinstri manna sem er afskaplega gaman að skoða og ég get kannski einhvern tíma rætt það við hv. þingmann. En Samfylkingin á það mál algerlega skuldlaust með smáhjálp frá Alfreð Þorsteinssyni en við skulum ekki fara út í slíkt. En ég vil fá svar við spurningunni, hv. þingmaður: Hvernig vill hann sjá þetta og hver er stefna Samfylkingarinnar hvað þetta varðar?



[18:48]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki skrýtið þó að hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni gangi illa að átta sig á að hér er jafnaðarmannaflokkur sem vill nota skattkerfið til að jafna aðstöðu fólks í samfélaginu. Það er ekkert skrýtið þó að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins skilji það ekki. En við mundum auðvitað fara nákvæmlega yfir allt þetta dæmi, sem ég gerði áðan, því við viljum skoða hlutina í heild. Við höfum vakið athygli á að með því að hækka blint þessi gjöld og ýmsa aðra skatta, án þess að taka tillit til þess t.d. hver efnahagur íbúanna er, og lækka síðan tekjuskattinn á móti fyrir hluta af fengnum (GÞÞ: Hver er stefnan?) þá er verið að auka ójöfnuð. Ég var að segja, hv. þingmaður, en ég geri ekki ráð fyrir að þið áttið ykkur á því að það sé til eitthvað sem er hægt að nálgast í jöfnuð og í gegnum skattkerfið, vegna þess að þið horfið bara á skattkerfið sem tekjuöflunarleið (GÞÞ: ... aukatekjur ...) og ekkert annað. Við teljum hins vegar, hv. þingmaður, að hægt sé að nota skattkerfið til að jafna kjörin í landinu. Aukatekjur ríkissjóðs eru að sjálfsögðu hluti af því, hv. þingmaður, og við viljum þess vegna skoða það í heild sinni. Ég ætla ekki að útiloka að hækka megi einstaka aukatekjur ríkissjóðs, þó ekki væri, því eins og kom fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, er búið að breyta hlutunum þannig að taka verður sjálfstæða ákvörðun um hækkanirnar, þær gerast ekki sjálfvirkt, og hæstv. fjármálaráðherra getur ekki einn og sér ákveðið slíkt. Það á að fara hér í gegn, vegna þess að það er ætlast til að við skoðum þetta í heild sinni. Hv. þingmaður getur auðveldlega skoðað þinggögn sem liggja frammi frá Samfylkingunni um hvernig við teljum að nýta eigi það svigrúm sem nú er til skattalækkana. En við viljum ekki gera það á sama hátt og ríkisstjórnin gerir núna vegna þess að, svo ég endurtaki, við lítum á skattkerfið sem hluta af því að jafna kjörin í landinu.



[18:50]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var auðvitað mjög skýrt. Þetta verður ekki skýrara. Stefna Samfylkingarinnar er: Að fara yfir þetta í heild sinni, virðulegi forseti, fara yfir þetta í heild sinni.

Virðulegi forseti. Hvaða grín er þetta? Er þetta ekki stjórnmálaflokkur? Er þetta ekki þingflokkur? Þeir koma upp í hverju máli á fætur öðru og gagnrýna. Svo er bara einföld spurning: Hvað viljið þið gera? Eigum við ekki bara að ráða þessu? Fara yfir þetta í heild sinni. Og það er kallað frammí, aukatekjur ríkissjóðs. Hvað viljið þið gera við það? Þetta er ekkert sérstaklega flókið. Þetta er ekki nýtt mál í íslenskri pólitík. Það er ekki eins og menn hafi verið að uppgötva. Það er ekki eins og þeir sem hér sitja inni, og koma úr hinum og þessum flokksbrotum Samfylkingarinnar, séu nýliðar. Það er ekki einu sinni komið að þessu í gegnum tíðina. Nei, nei. Hver er stefnan? Alveg skýr. Fara yfir þetta í heild sinni. (Gripið fram í: Að sjálfsögðu ...) Hann stóð í tvær mínútur og sagði: „Fara yfir þetta í heild sinni“ nokkuð reglulega með einhverjum krúsindúllum. Og ég vildi gjarnan, virðulegi forseti — og í örvæntingu sinni kallar hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, sem er farinn að átta sig á vanda flokks síns í málinu, hann kallar Lína.Net, sem er honum mjög hugleikið, enda afsprengi Samfylkingarinnar. En hvað sem því líður, þá vil ég aftur gera tilraun. Hver er stefna Samfylkingarinnar hvað varðar aukatekjur ríkissjóðs? (Gripið fram í.) Hver er stefnan? Það liggur alveg fyrir hver stefna ríkisstjórnar er hvað það varðar, en gott væri að fá það á hreint hver sé stefna Samfylkingarinnar, ef þú fengir að ráða þessu hv. þm. Einar Már Sigurðarson. Hvað mundir þú gera?



[18:52]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að byrja á að játa að ég kann ekki alveg á þá borgarstjórnartaktík sem hér er notuð, þegar menn eru talandi út og suður og setjandi upp í aðra einhver orð sem þeir hafa aldrei sagt, en þetta er einhver kúnst sem sumir hafa tileinkað sér og sjálfsagt að bera virðingu fyrir henni.

En stefna ríkisstjórnarinnar er alveg skýr í þessu eins og hv. þingmaður segir, stefna ríkisstjórnarinnar er að hækka gjöld og skatta umfram það sem þeir kalla lækkun. Ég er hins vegar margbúinn að segja hv. þingmanni að stefnumál okkar um þetta liggja fyrir, og ég er líka búinn að segja að við viljum jafna kjörin gegnum skattkerfið. Við höfum talað um það, hv. þingmaður að við eigum að nota svigrúmið m.a. til að lækka matarskattinn og ég hélt að hv. þingmaður væri sammála því.

Aukatekjur ríkissjóðs, hv. þingmaður, er ég búinn að fjalla um nokkrum sinnum og ég vil ekki fara að endurtaka það frekar, vegna þess að þetta er auðvitað hlutur sem þarf að skoða í samhengi við annað. Og ég notaði ræðu mína áðan í það, sem hv. þingmaður hefði betur hlustað örlítið betur á, að vekja athygli á hverju heildarniðurstaðan er að skila okkur. Hún skilar okkur því að ríkisstjórnin er væntanlega — ekki að setja Íslandsmet, ætli það sé ekki heimsmet í skattahækkunum þrátt fyrir að hv. þingmenn komi hér hver um annan þveran og reyni að telja sjálfum sér trú um að verið sé að lækka skatta. En aukatekjur ríkissjóðs eru hluti af þeirri mynd, hv. þingmaður, alveg sama hvort þér líður vel eða illa með það, þá eru aukatekjur ríkissjóðs hluti af þeirri miklu hækkun sem hefur átt sér stað og mun eiga sér stað á næsta ári. Það er ekkert undan því hlaupist, hv. þingmaður, þó svo hver og einn þingmaður hjá Sjálfstæðisflokknum vilji eingöngu ræða um þetta í bútum, eitt og eitt í einu af því að þá verður hver tala lægri. En þegar allt er saman lagt, eins og ég fór nákvæmlega yfir í ræðu minni, þá er niðurstaðan algerlega kristaltær. Hún er sú að hv. þingmaður sem hefur gefið sig út fyrir að vera mikill skattalækkunarmaður er skattahækkunarmaður „par excellence“.



[18:55]
Gunnar Birgisson (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst vera kominn hálfgerður galsi í menn. Sumir hv. þingmenn eru farnir í jólaköttinn, svei mér þá.

Hér erum við að ræða um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs þar sem er verið að færa gjöld nær verðlagi en umræðan sem fer fram er alveg ótrúleg. Hér er verið að hækka gjöld eða færa þau að verðlagi, raungildi og tæplega það. Hvað gerir stjórnarandstaðan? Hún kemur og segir að verið sé að hækka skatta bara til að reyna að fela að ríkisstjórnin sé að lækka skatta. Svo ruglast þeir, hækkanir og lækkanir, voru ekki klárir á því um daginn og eru ekki orðnir klárari á því núna.

En rétt til að fara yfir þessar aukatekjur ríkissjóðs, þá vita hv. þingmenn sem bæði hafa verið í sveitarstjórnum og öðrum málum að það verður að hækka gjöld til samræmis við verðlag. Það er ekki hægt að vera með sömu gjöldin ár eftir ár, því það er verðbólga. Hún getur verið 1, 2, 3 eða 4%. Þetta er það sem verið er að gera með aukatekjunum og í þessu frumvarpi. Það hefur verið farið yfir þetta í dag þannig að ég átta mig ekki á röksemdum hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar og Lúðvíks Bergvinssonar, sem ég taldi að væru þingmenn með ágæta greind en þeir hafa greinilega skilið hana eftir heima núna.

Hér er dæmi um gjöld sem er verið að hækka, það eru orðin 3–4 ár síðan þetta var hækkað og þetta nær ekki nærri verðlagi. Hér eru gjöld sem ættu að vera 46.900 kr. ef farið verður með hækkun frá vísitölu en eru 38.500 kr. þannig að það er verið að tala um raunlækkun á aukatekjum ríkissjóðs um 5–10%. Svo segja menn að þetta sé að hækka í raun. Þetta er hækkun í krónutölum, en krónan er ekki söm að verðgildi. Hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Pétur Blöndal er búinn að fara yfir þetta í hverri einustu ræðu en svo virðist sem þingmennirnir skilji þetta ekki eða vilji ekki skilja þetta. Þetta er alveg ótrúlegt fyrir mann að hlusta á þetta, eins og maður sé kominn í sandkassaleik af verstu sort. Við erum þingmenn þjóðarinnar og það er lágmarkskrafa að við getum skilið þetta.

Það var t.d., virðulegi forseti, verið að ræða hækkun á áfengisgjaldi, þ.e. hækkun á útsöluverði á sterkum vínum þar sem verðlag var fært upp um 5,7% meðan verðlag hækkar um 7%, og það er því raunlækkun. Tóbakið hækkar um 3,5%. Hvorki léttvín né bjór var hækkað sem er raunlækkun á þeim tegundum, og þá er sagt að það sé hækkun. Hér er öllu snúið á hvolf. Það sem er stefna ríkisstjórnarinnar er að lækka skatta, þ.e. að færa fjármuni beint til fólksins án þess að ríkið sé að vasast í þeim beint. En það er ekki stefna hv. þingmanna Samfylkingarinnar, nei. Þeir sögðu fyrir kosningar: Nú ætlum við að lækka skatta, koma með 18 eða 20 milljarða. Eftir kosningar koma þeir og segja: Eina leiðin í aðhaldi í ríkisfjármálum er að hækka skatta. Ekki vilja þeir lækka framlög til almannatryggingakerfisins eða Fæðingarorlofssjóðs eða hvað það heitir. Nei, þeir vilja það ekki. Það hefur aldrei komið nein stefna hjá þeim. En þeir vilja hækka skatta. Ekki málið. Mér finnst þessi málflutningur alveg fyrir neðan allar hellur, í alvöru að talað.

Við skulum snúa okkur aftur að víninu. Hér var raunlækkun á víni, sem styrkir ferðamannaiðnaðinn og hefur kannski líka í för með sér neyslustýringu, því þá er neyslunni stýrt inn á léttari tegundir, þ.e. bjór og léttvín í stað sterkra vína. Síðan er búið að fara í gegnum nokkrar þjónustutekjur sem hafa verið hækkaðar eða færðar að verðlagi, nær allar lægra en verðlag, þær hafa allar lækkað að raungildi. Rétt til að fara yfir skattalækkanir með þingmönnum stjórnarandstöðunnar, sem ég held að séu ekki alveg klárir á því að virðisaukaskatturinn hefur verið lækkaður niður í 5%, flatt, þá er búið að samþykkja lög um að afnema sérstakan tekjuskatt og nú liggur frammi frumvarp um að afnema eignarskattinn, ímyndið þið ykkur. En við förum í þá umræðu þegar farið verður yfir það frumvarp hér.

En ég kom með spurningu til fjármálaráðuneytisins í efnahags- og viðskiptanefnd varðandi hvaða tekjur hefðu verið af eignarskatti ef sama álagningarprósenta hefði verið notuð eins og var 1990 í tíð þáverandi vinstri stjórnar. Það voru 6,5 milljarðar. Nú verða tekjur ríkissjóðs vegna eignarskatts 2,4 milljarðar og það er verið að þurrka þær út. Síðan á að lækka tekjuskatt í þrepum niður í 34%. Einu sinni var hann 43%. Það eru tvær aðferðir til að gera þetta. Það er annaðhvort að hækka persónuafsláttinn eða fara tekjuskattsleiðina og sú leið var valin. Þetta lítur því tiltölulega einfalt út og er ótrúlegt að reynt skuli vera að snúa þessu öllu á hvolf. Það virðist vera alveg sama í hvaða máli það er, menn koma hér og segja að með því að hækka skatta séu menn að lækka þá, og vita betur. Þetta er eins og hjá sveitarfélögunum. Ef menn eru að hækka leikskólagjöld á milli ára, eða hvað þetta heitir, þá eru menn að hækka skatta. Menn eru að færa þjónustugjöldin að réttu verðlagi.

Virðulegi forseti. Auðvitað legg ég til að þetta frumvarp verði samþykkt þar sem verið er að tala um raunlækkun á aukatekjum ríkissjóðs.



[19:02]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú umræða sem fram hefur farið undanfarna daga um þessar hugmyndir hefur snúist um það hverjar eru í raun tekjuhækkanir ríkissjóðs og hvaða lækkanir koma á móti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að verið er að tala um að lækka tekjuskatt. Á móti er hins vegar verið að hækka gjöld og álögur. Hvað höfum við gert í þessu? Við höfum farið vandlega yfir álögur og hækkanir á tekjum ríkissjóðs og sett lækkanirnar á móti. Við höfum tekið árið 2004 og árið 2005. Þá liggur fyrir að tekjuhækkanir ríkissjóðs eru um það bil 8 milljarðar og 150 millj. Tekjulækkanir á móti eru rúmir 5 milljarðar. Ég hef aðeins eina spurningu til hv. þingmanns, en hann fór mikinn um málflutning stjórnarandstöðunnar og ég vil ekki elta ólar við þá orðaleppa sem þar féllu. Ég vil því aðeins spyrja hv. þingmann: Þegar ríkissjóður tekur til sín 8 milljarða í viðbótartekjur en lækkar á móti tekjur eða álögur sem metnar eru á 5 milljarða, hver er nettóniðurstaðan af þessu? Það er eina spurningin sem ég hef til hv. þingmanns og kristallar það sem við höfum rætt um hér og kannski þess vegna sem hæstv. fjármálaráðherra sagði á fundi hjá innvígðum í Valhöll: Því miður hefur skattabyltingin verið þögguð niður. Kannski er það kjarni málsins því þegar maður sækir tekjur upp á 8 milljarða en lækkar upp á 5 skilja flestir að 3 milljarða kr. tekjuaukning er skattálögur.



[19:04]
Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sami söngurinn byrjaði aftur hjá hv. þingmanni, þetta er því alltaf sama ræðan. Verið er að hækka aukatekjur og önnur gjöld ríkissjóðs til að færa þau nær verðlagi. Það nær því ekki einu sinni. Því er verið að tala um raunlækkun af þessu. Ef menn ætla alltaf að hafa sama verðlagið, ég veit ekki hvort það er alltaf sama verðlagið heima hjá hv. þingmanni í Vestmannaeyjum, þar sé sama verðlag 1990 og núna. Kannski. Hér er því verið að lækka skatta. Verið er að fara í mestu skattalækkanir Íslandssögunnar og Samfylkingin er að reyna að fara í eitthvert málþóf og drepa málinu á dreif en þeim mun ekki takast það. Þeim mun ekki takast það því það eina sem þetta fólk kann er að hækka skatta. Það er það eina sem það kann og hefur sýnt sig.

Eina gjaldið sem er til umræðu í dag er hækkun á fasteignamati. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson fór yfir sérstök verkefni fyrir Fasteignamat ríkisins upp á 280 millj. en hann sagði ekki hvað lengi. Það er í tvö ár. Þetta var gert árið 2000. Þá voru þetta fjögur ár en það dugði ekki til að ljúka verkefninu. Nú hafa þeir tvö ár til að ljúka þessu með skrásetningu á eignum og annað sem er mjög nauðsynlegt og gott mál fyrir alla, sveitarfélög, einstaklinga, fyrirtæki, fasteignasala o.s.frv. Það er því mjög gott. En það er eina skattahækkunin sem hefur í raun og veru komið fram. Hitt er allt verið að færa að verðlagi.

Það þýðir ekki að berja hausnum við steininn og segja: Það er sama verðlag á Íslandi og var á landnámsöld. Þetta er alveg ótrúlegt. Menn halda að það sé 0% verðbólga. Ég skil ekki að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson skilji þetta ekki, en ég er alveg tilbúinn til að taka hv. þingmann í einkatíma ef nauðsyn ber til og hann vill hlusta á mig.



[19:06]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bar upp litla spurningu til hv. þingmanns og spurði einungis um nettóniðurstöður fyrir ríkissjóð þar sem álögur hafa hækkað um 8 milljarða á þeim tveimur árum sem ég nefndi en skattalækkanir ná 5 milljörðum. Þetta var ekki stærri spurning en hann fór um víðan völl og var um tíma staddur á landnámsöld og vildi fara yfir verðlagið á þeim tíma og þangað ætla ég ekki með hv. þingmanni. Hv. þingmaður má gefa okkur í stjórnarandstöðunni þessa einkunn og það er allt í lagi. Hann má gefa málflutningi okkar hvaða einkunn sem er en ég er með frétt úr Morgunblaðinu og þar segir, með leyfi forseta:

„Útgjöld ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu fóru í 35,4% í fyrra og hefur útgjaldahlutfallið ekki verið hærra a.m.k. frá árinu 1980.“

Með öðrum orðum hafa útgjöld ríkissjóðs aukist umfram hagvöxtinn. Annars værum við ekki að tala um að útgjöldin hafi aldrei verið hærra hlutfall af landsframleiðslu. Þetta er ekki eitthvað sem stjórnarandstaðan er að búa til, síður en svo. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður má gefa okkur hvaða einkunn sem er en þetta liggur fyrir. Þetta er veruleikinn og auðvitað er erfitt að koma upp á hól og æpa og góla: Skattalækkun, skattalækkun. En af því að tekjurnar eru teknar inn undir öðru nafni, aukatekjur, bifreiðagjöld, Landskrá fasteigna eða hvað þetta heitir allt saman er ekki um skattahækkanir að ræða. Við vorum að tala um nettóniðurstöður fyrir ríkissjóð. Það er allt og sumt sem við nefndum. Það eru 3 milljarðar og hv. þingmaður má gefa því hvaða einkunn sem er, en um leið gefur hann aðeins sjálfum sér einkunn.



[19:08]
Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við tökum uppgjör á fyrirtækjum er það alltaf fært til verðlags þess árs. Ég held að það væri hollt fyrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að færa töluna til þess verðlags sem verið er að tala um. Menn eru að tala um krónur í öðru tilfellinu og prósentur í hinu og öllu er ruglað saman.

Varðandi tillögur Samfylkingarinnar sem hafa verið í umræðunni um fjárlög og annað og vegna fjárlaga 2005 eru tillögur Samfylkingarinnar upp á tugi milljarða í útgjaldaauka. (Gripið fram í.) Á sama tíma … (Gripið fram í.) Virðulegi forseti, ég verð að hafa orðið hérna fyrir þingmanninum.

Hv. þingmaður vitnaði í Morgunblaðið þar sem þess er getið að samneyslan í samfélaginu hafi aukist og það er rétt, hún hefur aukist og kannski helst til mikið. (LB: Ég las upp úr Morgunblaðinu.) Hv. þingmaður las ekki nema part af greininni. Síðar í henni kemur fram að sveitarfélögin hafa aukið þjónustu sína og aukið útgjöld sín í samneyslunni sem orsaka kannski þetta, þannig að það sé alveg á hreinu. Við skulum reikna nettóáhrifin af þessu öllu, skattalækkunum og hækkun á þjónustugjöldum á sama verðlagi. (LB: Auðvitað er maður að tala ...) Við skulum gera það á sama verðlagi, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Það er verkið. Við erum alveg óhræddir við það.



[19:10]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Af því að ég veit að hv. þm. Gunnar Birgisson kann afskaplega vel að fara með tölur er leiðinlegt að hann skuli ekki hafa kynnt sér þær tölur sem hann þarf að hafa til að geta reiknað út frá. Þá sæi hv. þingmaður að niðurstaðan er auðvitað sú sem við höfum verið að tala um. Þó má gagnrýna okkur fyrir a.m.k. eitt, að við höfum farið heldur varlega með að hækka tölur. Ég er fyllilega tilbúinn til að færa tölurnar frá því í ár inn á sama verðlag og tölurnar á næsta ári. Það mundi að sjálfsögðu skila enn meiri mismun vegna þess að á þessu ári var byrjað að safna í pottinn sem á að deila út á næstu árum en þó á ekki að skila öllu, langt frá því.

Herra forseti. Vegna þess að áðan í umræðum var verið að tala um niðurstöðu sem kom út úr hinu glæsilega línuriti sem hv. þm. Pétur H. Blöndal bað um, að skárra væri að miða við skattleysismörkin, hef ég í millitíðinni fengið tölur sem sýna svart á hvítu, eðlilega, að niðurstaðan er nokkurn veginn sú sama byggð á tölum úr fjármálaráðuneytinu, hv. þingmaður. Hún sýnir okkur, alveg sama hvort við miðum við persónuafsláttinn eða skattleysismörkin, að tekjuaukning ríkissjóðs er ýmist — það vill nú svo til, hv. þingmaður, þegar ég skoða þetta nánar að það er líklega meira ef við skoðum skattleysismörkin. Það er bara ekkert annað, miðað við launavísitölu rúmir 40 milljarðar kr. En það er ekkert skrýtið að þeir hv. þingmenn, sem því miður hafa ekki kynnt sér allar tölurnar og hafa allan tímann trúað áróðrinum um að verið væri að lækka skatta, eigi svolítið erfitt með að kyngja staðreyndunum þegar þær loksins liggja fyrir en ég vona og veit að hv. þingmaður mun leiðrétta allt það sem hann hefur sagt þegar hann er búinn að kynna sér staðreyndirnar.



[19:12]
Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri kannski rétt að vita stefnu Samfylkingarinnar í þjónustugjöldum. Eiga þau ekkert að hækka eða hvað? Eiga þau að hækka til samræmis við verðlag eða hvað? Ég vil fá að vita um þetta mál. (Gripið fram í.) Svar við því já. En vegna góðs reksturs ríkissjóðs hefur fjármálaráðherra komið í tillögum sínum að hækkun á þjónustugjöldum sem hafa ekki farið alveg að verðlagi, ekki þannig að það hafi orðið raunlækkun eins og aukatekjur ríkissjóðs, eins og í áfenginu og fleiru. Menn þurfa því að fara yfir þetta. Er það stefna Samfylkingarinnar að hækka ekki þjónustugjöld? Hvernig ætla menn að snúa sér í því? Ætla menn bara að gera það í ríkissjóði en ekki annars staðar í samfélaginu, eða hvað? Það væri gaman að vita hver stefna Samfylkingarinnar er í málinu.

Málið er að það er alveg sama hve oft menn fara yfir það og reyna að þyrla upp ryki og reyna að fela það góða sem ríkisstjórnin er að gera í skattalækkunum, þá gengur það ekki. Ykkur tekst það ekki. Þið hjakkið alltaf í sama málinu, virðulegir þingmenn stjórnarandstöðunnar, og menn eiga að vera sanngjarnir í málflutningi sínum og samkvæmir. Ég vil fá að vita stefnu Samfylkingarinnar í þjónustugjöldunum, aukatekjunum, áfenginu og öllu sem verið er að fara í gegnum. Hvernig ætlið þið að snúa ykkur í þessu? Samfylkingin hefur lagt til tugi milljarða í útgjaldahækkanir, margar tillögur frá hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni, hvar ætlar hann að fá fjármuni fyrir því? Jú, með því að hækka skatta á landsmenn. Það er það eina sem þið kunnið.



[19:15]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt þegar hv. þm. Gunnar Birgisson fer að ræða um tillögur okkar við fjárlagaafgreiðsluna. Þar hefur hv. þm. ekki heldur fylgst nægilega vel með. Þegar hann skoðar allar tillögur okkar getur hann séð að við vorum að skila auknum afgangi á ríkissjóði þannig að þetta var tóm vitleysa hjá honum, því er verr og miður. Það er líka fróðlegt að vita að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ígrundaða stefnu varðandi aukatekjur ríkissjóðs og að þær skuli verðtryggðar. Það er fróðlegt.

Aðeins vegna þess misskilnings sem hér hefur gætt held ég að það sé nauðsynlegt að fara örlítið yfir tölur í því sem munar kannski mestu í hinni auknu skattheimtu ríkisstjórnarinnar, skattleysismörkunum. Ég skal reyna að hafa tölurnar fáar þótt ég viti að hv. þm. sé talnaglöggur og geti tekið við töluverði magni. Við skulum horfa á skattleysismörkin af því að því var haldið fram að þar kæmi þetta eitthvað betur úr. Skattleysismörkin núna eru 71.269 kr. Ef skattleysismörkin á tímabilinu 1995–2004 hefðu fylgt launavísitölu (Gripið fram í: Launa?) væru skattleysismörkin 114.015 kr. á mánuði. Mismunurinn er upp á 42.746 sem skilar með auknum skatttekjum ríkissjóðs rúmlega 42 milljörðum kr. Ef skattleysismörkin hefðu fylgt neysluverðsvísitölu væru þau 85.709 á mánuði í stað 71.269, þ.e. mismunurinn er 14.440. Þetta þýðir tæpa 15 milljarða á ári fyrir ríkissjóð.

Herra forseti. Hv. þm. talaði um að það ætti að vera samræmi í hlutunum og að það ætti að fylgja vísitölum. Það væri fróðlegt að fá að heyra hjá hv. þingmanni hvorri vísitölunni hann vill fylgja varðandi skattleysismörkin, launavísitölunni eða neysluverðsvísitölunni. Ég held að það sé sama hvorri við fylgjum. Við sjáum að næg er innstæðan til að dreifa einhverju örlitlu til baka.



[19:17]
Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fæ ekki svar við spurningu minni, hver stefna Samfylkingarinnar sé í málinu. (Gripið fram í: Engin.) Hún er engin. (Gripið fram í.) Verðtryggðar aukatekjur. Ég gat ekki skilið annað en að hann væri að tala um verðtryggðar aukatekjur þannig að það er sem sagt stefna Samfylkingarinnar að verðtryggja aukatekjur og aðrar tekjur ríkissjóðs, þjónustugjöld. Ég heyrði ekki betur.

Varðandi persónuafslátt, við erum ekki að ræða hann hér. Hvora aðferðina á að fara? Það væri gaman að vita hvaða skuldbindingar menn ætla að tryggja með launavísitölu. Ég skil ekki í hv. þingmanni að vera að taka þetta hérna upp, ég átta mig ekki á því. 42 milljarðar og 15 milljarðar og allt þetta. Við skulum ræða það þegar við förum í skattalagabreytingarnar á morgun, (EOK: Rétt.) þá getum við átt orðastað um þetta mál.

Að lokum í þessu versi varðandi aukatekjur ríkissjóðs og önnur þjónustugjöld sem er verið að færa nær verðlagi, ekki að verðlagi — það er raunlækkun á mestöllu þessu og ég fagna því að ríkisstjórnin er að lækka skatta líka með þessu eins og ég fór í gegnum í áfengisumræðunni. Það er verið að lækka skatta. Svo erum við enn frekar að fara í gegnum tekjuskattslækkanir og eignarskattslækkanir þar ofan í kaupið. Við erum í góðum málum hér og megum vera stolt af verkum okkar. Þið eigið að vera ærlegir, hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, og viðurkenna þetta.