131. löggjafarþing — 53. fundur
 8. desember 2004.
Lánasjóður íslenskra námsmanna, 2. umræða.
stjfrv., 330. mál (endurgreiðslur, málsmeðferð o.fl.). — Þskj. 368, nál. 579, brtt. 580.

[20:38]
Frsm. menntmn. (Gunnar Birgisson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Val Árnason frá menntamálaráðuneyti, Steingrím Ara Arason frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, Jarþrúði Ásmundsdóttur og Erlu Ósk Ásgeirsdóttur frá stúdentaráði Háskóla Íslands, Heiði Reynisdóttur frá Sambandi íslenskra námsmanna erlendis, Jónínu Brynjólfsdóttur og Huldu Katrínu Stefánsdóttur frá Iðnnemasambandi Íslands, Eyrúnu Jónsdóttur frá Bandalagi íslenskra sérskólanema og Halldóru Friðjónsdóttur frá Bandalagi háskólamanna.

Umsagnir bárust nefndinni frá Bandalagi íslenska námsmanna, Iðnnemasambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands, Félagi stúdenta við Háskólann á Akureyri, Sambandi íslenskra námsmanna erlendis, skólafélagi Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Visku – félagi stúdenta við Háskólann í Reykjavík og Bandalagi háskólamanna.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á reglum um endurgreiðslur og málsmeðferð og lagt til að heimild til að veita lán á markaðskjörum verði felld niður.

Nefndin vekur athygli á því að í lok umsagnar fjármálaráðuneytis um frumvarpið er ranglega farið með tölur í lokamálsgreininni. Þar segir að niðurstaða umrædds kostnaðarmats, verði frumvarpið óbreytt að lögum, sé að ríkið þurfi að öðru óbreyttu að hækka framlag til sjóðsins um 235–340 millj. kr. á ári. Hið rétta er 265–340 millj. kr. á ári eins og kemur reyndar fram framar í umsögninni. Þetta var leiðrétt við 1. umr. en er áréttað hér.

Í b-lið 1. gr. frumvarpsins kemur fram að málskotsnefnd getur frestað réttaráhrifum úrskurðar síns, að kröfu stjórnar LÍN, fyrir hönd sjóðsins telji nefndin ástæðu til þess. Í athugasemdum segir að við mat á því hvort heimildinni verði beitt beri málskotsnefndinni að taka mið af því hvort úrskurðurinn geti haft fordæmisgildi, hann hafi í för með sér veruleg fjárútlát fyrir sjóðinn eða að lögfræðilegur ágreiningur sé um niðurstöðuna.

Þegar litið er til þessara tilvika í heild sinni telur nefndin heimildina vera helst til of rúma. Mestu hlýtur að skipta hvort niðurstaða málskotsnefndarinnar í tilteknu máli hafi eða geti haft í för með sér veruleg fjárútlát fyrir sjóðinn og raskað þannig fjárhagslegum forsendum hans. Nefndin telur því rétt að málskotsnefndin leggi mat á þann þátt eingöngu við beitingu heimildarinnar en ekki hvort úrskurðurinn kunni að hafa fordæmisgildi eða að lögfræðilegur ágreiningur sé um niðurstöðuna. Leggur nefndin til að umrætt skilyrði verði tekið upp í lagatextann sjálfan. Auk þess eru lagðar til smávægilegar orðalagsbreytingar í 1. efnismálsl. b-liðarins til að árétta að þar er átt við úrskurð nefndarinnar.

Með leyfi forseta eru breytingartillögurnar við 1. gr. eftirfarandi:

a. 1. efnismálsl. b-liðar orðist svo: Að kröfu stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir hönd sjóðsins getur nefndin frestað réttaráhrifum úrskurðar síns telji hún að hann muni hafa í för með sér veruleg fjárhagsleg áhrif á sjóðinn.

b. 3. efnismálsl. b-liðar orðist svo: Skal frestun á réttaráhrifum úrskurðar að auki vera bundin því skilyrði að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna beri málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestun og óski þá eftir að það hljóti flýtimeðferð.

Þá telur nefndin þörf á að orða 6. gr. frv. skýrar en gert er en greinin fjallar um breytingu á 8. gr. laganna. Ætlunin með 6. gr. frumvarpsins er að setja fram reglur sambærilegar þeirri sem nú er í 18. gr. laganna þess efnis að námsmenn ljúki við endurgreiðslu svokallaðra R-lána áður en endurgreiðsla á öðrum lánaflokkum á að hefjast. Er því lagt til að 6. gr. frumvarpsins verði breytt til samræmis við það. Með leyfi forseta eru breytingartillögurnar frá nefndinni:

Ný málsgrein bætist við er orðist svo: Ef lánþegi skuldar námslán sem var úthlutað á árunum 1992–2004, svokallað R-lán, og jafnframt námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skal hann fyrst endurgreiða að fullu R-lánið. Greiðslur af eldri námsskuldum frestast þá þar til R-lánið er að fullu greitt.

Með hliðsjón af framanrituðu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali og ég var að lesa upp. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, Mörður Árnason og Kolbrún Halldórsdóttir skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara.

Steinunn K. Pétursdóttir sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu með fyrirvara.

Undir álitið skrifa Gunnar Birgisson, formaður og framsögumaður, Dagný Jónsdóttir, Hjálmar Árnason, Kjartan Ólafsson, Björgvin G. Sigurðsson með fyrirvara, Kolbrún Halldórsdóttir með fyrirvara, Sigurður Kári Kristjánsson og Mörður Árnason með fyrirvara.

Við umfjöllun nefndarinnar um málið urðu litlar breytingar á frumvarpinu. Ég vil rétt renna yfir þær.

Breytingartillaga við 1. gr. um að stjórnin geti krafist þess að málskotsnefnd fresti réttaráhrifum úrskurðar vegna verulegra fjárhagslegra hagsmuna fyrir sjóðinn. Stjórn sjóðsins sem ber ábyrgð á fjármálum hans verður að hafa slíka heimild undir höndum ef málskotsnefnd úrskurðar á þann veg sem getur haft veruleg áhrif, kannski kostnað upp á einhver hundruð milljóna eða þaðan af meira. Stjórnin er samt ábyrg og verður að hlíta þessu þannig að það er ekki annað hægt en að skjóta þessu máli fyrir dómstóla ef slíkt er. Nefndin sem samdi frumvarpið lagði það til líka ef lögfræðilegur ágreiningur yrði en það var fellt út. Eingöngu var haldið í þetta atriði sem var kannski aðalatriði málsins ef slíkt kemur upp, að stjórnin hafi þennan möguleika.

Í 2. gr. laganna er endurgreiðslan síðan lækkuð úr 4,75% í 3,75%.

3. gr. þýðir veruleg útgjöld fyrir sjóðinn, upp á 600–700 millj., en á móti er sett inn í 3. gr. að þegar verið er að reikna út tekjuviðmið fyrir lánþega er tekinn fjármagnstekjuskattur ásamt tekjuskatti og reiknað út frá þeim stofni. Stofninn breikkar og nettóáhrif ríkisins verða eins og áður sagði 260–340 millj. sem þarf aukalega að setja inn í sjóðinn frá ríkinu. Á fjárlögum fyrir 2005 eru áætlaðar 300 millj. í þetta.

Síðan eru tæknileg atriði í 4. gr. til að herða á málum varðandi það að menn sæki um endurútreikning varðandi viðbótargreiðslu. Gefnir eru 60 dagar til þess.

Í 5. gr. er lagt til að markaðskjaralánin detti út og hins vegar er í 6. gr. eins og ég fór yfir áðan viðbótartillaga. Í ákvæði til bráðabirgða er mönnum sem hafa tekið lán frá 1992 gefnir möguleikar á því að skuldbreyta miðað við þessi lög þannig að endurgreiðslan þeirra lækki úr 4,75% í 3,75%.

Með þessu lagafrumvarpi er stigið mikið framfaraspor fyrir lánþega hjá sjóðnum.

Annað sem hefur gerst og stjórnin náði var að gera samkomulag við Landsbankann upp á að fella niður nauðsyn þess að ábyrgðarmenn skrifi á lánið. Menn geta keypt sér ábyrgð upp á 15 ár hjá Landsbankanum og munu örugglega fleiri lánastofnanir koma þar á eftir. Það er gjörbylting í þeim málum þannig að mörg góð teikn eru á lofti og mörg framfaraspor sem er verið að stíga núna í lánasjóðnum. Ég legg til að þetta frumvarp verði samþykkt með þeim breytingum sem ég kynnti.



[20:47]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Gunnars Birgissonar, framsögumanns og formanns menntamálanefndar, rita ég undir nefndarálitið með fyrirvara og mun ég nú gera grein fyrir honum.

Í fyrsta lagi vil ég fagna því sem hér er verið að gera, þ.e. að lækka endurgreiðslubyrði námslána um eitt prósentustig. Það er sannarlega tilefni til að fagna því að það skuli vera gert. Að hluta til er það gert vegna mikils þrýstings frá námsmönnum og þeim sem hafa þurft að standa undir endurgreiðslubyrði námslánanna, nefnilega því fólki sem starfar í atvinnulífinu, er með háskólamenntun og hefur verið að sligast undan endurgreiðslubyrðinni. Hv. þingmenn hafa fengið erindi frá þeim hópi fólks og er komið á annað ár að við fengum í hendur skýrslu um tölulegar upplýsingar um lánþega LÍN. Þetta er afar mikið plagg sem námsmenn og BHM þar á meðal hafa byggt rökstuðning sinn og kröfur sínar á.

Þó að fagna beri þeim áfanga sem er að nást verður að segjast eins og er að námsmannahreyfingarnar og BHM hefðu viljað fara aðra leið að málinu en ákveðið var að gera af stjórnvöldum. Námsmannahreyfingarnar áttu sæti í nefndinni sem undirbjó frumvarpið og í því starfi var lögð fram bókun af hálfu námsmannahreyfinganna. Bókun sú var til umfjöllunar í menntamálanefnd Alþingis við vinnslu málsins sem hefði gjarnan mátt hafa rýmri tíma til að sinna starfi sínu í þetta skiptið. Engu að síður fórum við eftir því sem við mögulega gátum í gegnum þau plögg sem við höfðum. Mér þótti afar athyglisverð sú bókun sem námsmannahreyfingarnar lögðu fram og BHM studdi en segja má að sú leið sem þar er lögð til til þess að létta endurgreiðslubyrðina virki afar skynsamleg þegar maður skoðar hana ofan í kjölinn. Ég skil kröfu námsmannahreyfinganna í þessum efnum að þeir vilji frekar fara þá leið sem þeir kalla skattaleiðina, leið sem byggir á frádrætti í skattkerfinu, þ.e. að veita endurgreiðendum námslána skattafslátt af árlegri afborgun til LÍN.

Fram kom í umfjöllun nefndarinnar að sú leið gæti verið nokkuð flókin og snúin að fara, en það breytir ekki því að rökin fyrir þeirri leið eru að ég tel skynsamleg og ekki nægileg mótrök að leiðin sé flókin og þess vegna hafi ekki verið hægt að fara hana.

Mig langar í máli mínu, hæstv. forseti, að fara í örfáum orðum yfir þau atriði sem námsmannahreyfingin lætur okkur í té í bókun sinni hvað skattaleiðin innifeli. Það byggir á því að námsmannahreyfingarnar telja að sýnt hafi verið fram á að hið opinbera hagnist beinlínis á auknum lántökum námsfólks úr lánasjóðnum og það hafi aldrei verið markmið með lögunum um lánasjóðinn frá 1992. Þau telja skattaleiðina vera vel rökstudda í þeirri skýrslu sem ég veifaði og er unnin af Þórólfi Matthíassyni árið 2002 fyrir Bandalag háskólamanna ásamt Sambandi íslenskra námsmanna erlendis og fjölda háskólamanna utan heildarsamtaka.

Skattaleiðin, eins og fram kemur í skýrslunni, sýnir fram á að hægt sé að ná tekjuaukningu ríkisins við aukna námsfjárfestingu með ákveðnum áhættudreifingarröksemdum. Sömuleiðis telja námsmannahreyfingarnar að lán á hvern lánþega séu að dragast saman og þau benda á ákveðin rök máli sínu til stuðnings í þeim efnum og segja að það bendi til þess að markmiði laganna um Lánasjóð íslenskra námsmanna sé stefnt í hættu varðandi jafna möguleika til náms. Mér þykir það athyglisverð röksemd hafandi starfað talsvert mikið að því að reyna að standa vörð um jafnan rétt námsmanna og jafna möguleika námsmanna til náms. Einnig segja námsmannahreyfingarnar að í skattaleiðinni sé fólginn ávinningur af auknum lántökum sem dreift sé á milli hins opinbera og lántakanna sjálfra. Sömuleiðis að hún tryggi jafnrétti til náms á þeim forsendum að þung endurgreiðslubyrði hafi beinlínis áhrif á námsval fólks.

Þá segja þau að skattaleiðin skerði ekki tekjustreymi lánasjóðsins og komi þar af leiðandi ekki niður á núverandi lántakendum og heldur ekki lántakendum framtíðarinnar. Svo segja hreyfingarnar að með tilliti til ávinnings ríkisins af hærra menntunarstigi og aukinni hagsæld í samfélaginu sé eðlilegt að greiddur sé einhvers konar arður af fjárfestingunni. Þau telja þjóðfélagsleg rök vera fyrir skattaleiðinni. Með henni sé stuðlað að aukinni og hraðari mannauðsuppbyggingu þjóðarinnar með því að hækka menntunarstig og þar með skatttekjur hins opinbera. Hér sé því ekki um að ræða neitt sérhagsmunamál fámenns hóps heldur hreinlega kjarabót fyrir alla þjóðina þegar til lengri tíma er litið.

Þá nefna þau að fyrirmyndir séu að skattafsláttarleiðinni og nefna þar vaxtabætur í íbúðalánakerfinu. Því þurfi ekki að finna upp hjólið í því að innleiða aðferð af þessu tagi. Að þeirra mati er þetta nokkuð einföld aðgerð þar sem unnt sé að forskrá allar upplýsingar nú orðið er varði lántökur hjá LÍN á skattskýrslu, þannig að mótrökin um það eins og ég nefndi áðan að þetta væri svo flókin leið halda kannski ekki á gervihnatta- og upplýsingaöld þegar allt er orðið tölvuskráð og við fáum skattframtalið okkar meira eða minna forskráð upp í hendurnar.

Að lokum segja námsmannahreyfingarnar að tekjutap í skattheimtu dreifist milli ríkis og sveitarfélaga enda deili þau ávinningi af auknum lántökum.

Hæstv. forseti. Þó ég fagni eins og ég sagði áðan því meginmarkmiði að með frumvarpinu sé lækkuð endurgreiðslubyrðin tel ég enn að mat námsmannanna á skattalækkunarleiðinni sé þess eðlis að eðlilegt hefði verið fyrir nefndina að skoða það nánar. Námsmannahreyfingarnar segja aðferðina sem lögð er til í frumvarpinu vera lítið skref í rétta átt en varla mikið meira en það, þó slær enginn hendinni á móti því að endurgreiðslubyrðin sé þó lækkuð.

Þó benda námsmannahreyfingarnar á í greinargerð sinni að hlutfallslækkun um 1% hafi í för með sér lengri endurgreiðslutíma lána sem þýði að einhverjir lánþegar muni greiða af námslánunum jafnvel upp í háa elli og tala þess vegna um að hlutfallsleiðin sé einungis kjarabót fyrir þá sem hafi tekið lánin eftir 1992 en skattaleiðin eigi að koma öllum endurgreiðendum vel.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa mikið fleiri orð um þá skattaleið sem námsmannahreyfingarnar hefðu gjarnan viljað sjá að farin yrði. Það sama á við um BHM og gerir BHM vel grein fyrir röksemdum sínum í umsögn til nefndarinnar hvað þetta varðar.

Annan fyrirvara hef ég við frumvarp þetta sem lýtur að 1. gr., b-liðnum. Sú grein fjallar um málskotsréttinn og frestun réttaráhrifa úrskurðar málskotsnefndarinnar. Námsmannahreyfingarnar og BHM hafa ígrunduð rök fyrir því að verið sé að fara út á hæpna braut og ég sé ekki annað en að færð séu sannfærandi rök fyrir því í umsögnum aðilanna til hv. menntamálanefndar. Greinin gerir ráð fyrir að hægt sé, að kröfu stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, að fresta réttaráhrifum úrskurðarmálskotsnefndarinnar og stjórnin geti síðan borið málið undir dómstóla með ákveðnum 30 daga fresti. Í umsögn BHM um þetta atriði segir að málskotsnefndin hafi nú þegar slíka heimild samkvæmt gildandi lögum, sbr. 1. málslið 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. BHM segir því í umsögn sinni að breytingin sé óþörf, enda sé óeðlilegt að mæla sérstaklega fyrir um rétt lægra setts stjórnvalds til slíkrar kröfugerðar gagnvart úrskurðarnefndinni sem á að vera og er sjálfstæð í öllum störfum sínum. Í umsögn BHM segir, að stjórn lánasjóðsins hafi ávallt haft fullkominn rétt og möguleika á hagsmunagæslu gagnvart málskotsnefndinni og yrði slík heimild til að óska frestunar áréttuð í lögum væri eðlilegt að rætt væri um að það væri „málskotsnefndin“ en ekki „hún“ — sem sagt persónufornafnið hún, sem gæti vísað til stjórnarinnar — í 1. málslið b-liðar til að ljóst sé að frestunarvaldið sé hjá málskotsnefndinni en ekki hjá stjórn lánasjóðsins. Lagatæknilega telur því BHM að ekki sé nægilega skýrt að orði kveðið.

BHM telur eðlilegt að setja inn efnisskilyrði við slíkt mat, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sem heimilar þó einungis frestun á því er varðar fordæmisgildi úrskurðarnefndarinnar.

Varðandi málshöfðunarrétt lægra setts stjórnvalds gegn æðra stjórnvaldi telur BHM breytinguna beinlínis óeðlilega og telur að hún gangi gegn þeim meginreglum stjórnsýsluréttar um stigskiptingu stjórnsýsluvaldsins sem ætti að fara eftir í þessu tilfelli. Slíkt telja samtökin, Bandalag háskólamanna, vera algerlega fordæmalaust og telja að benda megi á að ríkisskattstjóri, sem fer með aðild að máli fyrir hönd gjaldkrefjenda samkvæmt áðurnefndum lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, hafi ekki heimild til málshöfðunar til ógildingar á úrskurðum yfirskattanefndar. Það vald hafi eingöngu fjármálaráðherra, skv. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 30/1992. Þess vegna telur BHM eðlilegt að valdið yrði í höndum menntamálaráðherra ef það á annað borð ætti að vera fyrir hendi en alls ekki hjá stjórn lánasjóðsins.

BHM tekur fram í umsögn sinni að það vilji að málskotsrétturinn verði fremur fluttur aftur til menntamálaráðherra, sem ber enda pólitíska og lagalega ábyrgð á málinu samkvæmt stjórnarskránni, í stað þess að veikja sjálfstæði sérfróðrar málskotsnefndar. Auðvitað er málið nokkuð flókið og lagatæknilegs eðlis. Þess vegna hefði ég viljað hafa rýmri tíma til að fara vel yfir málið í nefndinni og óskaði eftir því að við fengjum stjórnsýslufræðing til að gera okkur fulla grein fyrir því hvað hér um ræðir og hvað sé fólgið í breytingunni og á hvern hátt leiðin sem BHM vill fara kæmi út. Það reyndist ekki tími til þess svo ég hef áskilið mér fullan rétt til þess að hafa alla fyrirvara við greinina. Ég tel rétt að taka það fram að ég áskil mér enn þann rétt að flytja breytingartillögu við málið hvað þetta varðar þó það verði ekki gert fyrr en við 3. umr. Þegar nægt tóm og nægur tími hefur gefist til að skilja þetta ofan í kjölinn og sjá hvort verið sé að fara inn á mjög óæskilega braut, eins og ég tel BHM vera búið að rökstyðja mjög vel, kem ég til með að taka ákvörðun um það hvort ég flyt breytingartillögu við málið.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir fyrirvörum mínum sem vörðuðu þessar tvær greinar og læt því máli mínu lokið.



[21:02]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði í ræðu sinni. Þetta mál er afar ánægjulegt fyrir námsmenn og bætir hag þeirra að lækka endurgreiðsluhlutfall námslána verulega. Ég varð fyrir ákveðnum vonbrigðum með að þingmaðurinn skyldi ekki vera fullkomlega sátt við þá leið sem hér er farin en námsmenn geta verið sáttir.

Þingmaðurinn vék að ákvæðum b-liðar 1. gr. frumvarpsins og gerði rökstuðning BHM að sínum þegar hún gagnrýndi regluna sem þar kemur fram. Eins og fram kom í ræðunni telur BHM að heimildin sem þar á að vera til staðar sé fordæmalaus. Það er ekki rétt. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er fyrirmyndin, fordæmi þess sem hér um ræðir, sótt annars vegar í lög um almannatryggingar og hins vegar í upplýsingalög. Heimild eins og sú sem hér er til umræðu liggur því fyrir í lögum nú þegar.

Það er hins vegar rétt hjá þingmanninum að meginregla stjórnsýsluréttarins er sú, eins og fram kemur í 29. gr. stjórnsýslulaganna, að kæra frestar ekki réttaráhrifum en samkvæmt 2. mgr. er æðra stjórnvaldi heimilt að fresta réttaráhrifum ef talin er ástæða til. Sú meginregla varðar réttindi borgaranna gagnvart stjórnvöldum.

Í frumvarpinu er lagt til að stjórn sjóðsins hafi eitthvað um það að segja ef niðurstaða málskotsnefndarinnar hefur mikil fjárhagsleg áhrif á hagsmuni sjóðsins og geti farið fram á að málskotsnefndin fresti réttaráhrifum. Það breytir því hins vegar ekki, eins og fram kemur í greininni, að málskotsnefndin hefur alltaf síðasta orðið um það hvort sá frestur er veittur eða ekki.



[21:04]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og skilja mátti af andsvari hv. þingmanns, sem stóð yfir í tvær mínútur og nægði ekki hv. þingmanni til að útskýra það sem hér um ræðir, er hér um nokkuð flókið lagatæknilegt mál á ferðinni. Þess vegna óskaði ég eftir því við menntamálanefnd að við fengjum stjórnsýslusérfræðing til að ræða málið ofan í kjölinn.

Hér erum við að fjalla um álitaefni og þótt hv. þingmaður telji að í greinargerðinni séu nefnd fordæmi, þ.e. í almannatryggingalögum og upplýsingalögum, þá dregur BHM að mínu mati fram afar sannfærandi rök fyrir því að fordæmin eigi ekki við í þessu tilfelli þar sem réttur er færður í hendur lægra settu stjórnvaldi gagnvart hinu hærra setta, þ.e. að stjórn lánasjóðsins eigi að hafa aukinn rétt umfram málskotsnefndina, sem á að mati BHM að vera fullkomlega sjálfstæð og óháð í störfum sínum. Það er fyrst og fremst þetta sem BHM gagnrýnir.

Ég tel eðlilegt að við fáum tíma til að ræða og fara virkilega ofan í saumana á málinu, hvort þetta sé fordæmalaust, hvaða fordæmi séu og hvort þau eigi við í þessu tilfelli. Til þess þurfum við sérfræðinga og tíma til að skoða málið.



[21:05]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta mál er alls ekki flókið. Það er í raun sáraeinfalt. Með ákvæðinu er ekki verið að færa lægra settu stjórnvaldi vald umfram það sem hærra sett stjórnvald hefur. Neðra stjórnvaldið, þ.e. stjórn LÍN, kemur aldrei til með að geta tekið ákvarðanir málskotsnefndarinnar í gíslingu. Í ákvæðinu segir einfaldlega að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna geti fyrir hönd sjóðsins krafist þess að réttaráhrifum verði frestað. Það er málskotsnefndin sem tekur ákvörðun um það hvort til slíkrar frestunar kemur ef hún telur ástæðu til þess. Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna tekur ekki þá ákvörðun heldur þarf hið hærra setta stjórnvald að telja ástæðu til að fresta réttaráhrifum úrskurðarins.

Af hverju skyldi þessi regla vera sett inn? Jú, það er vegna þess að ákvarðanir málskotsnefndarinnar geta skipt verulegu fjárhagslegu máli fyrir sjóðinn. Stjórn sjóðsins á að hafa eitthvað um það að segja ef úrskurður nefndarinnar getur haft veruleg fjárhagsleg áhrif á afkomu hans og stöðu hans. Þetta er því alveg kristaltært og ekki gripið fram fyrir hendur æðra setts stjórnvalds. Lægra stjórnvaldinu er hins vegar gefinn umþóttunartími og möguleiki á að óska eftir því við æðra sett stjórnvald að réttaráhrifunum verði frestað. En það er alltaf endanleg ákvörðun hins æðra stjórnvalds hvort við þeirri ósk verði orðið eða ekki.

Það er ekki verið að taka fram fyrir hendurnar á einum eða neinum í þessu máli. Ég bendi enn og aftur á að þetta ákvæði á sér fordæmi í almannatryggingalögum.



[21:08]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Gott og vel. Látum sem að hér sé einungis um þessa fyrstu setningu málsgreinarinnar að ræða, þ.e. þá sem hv. þingmaður gerði að meginefni andsvars síns:

„Að kröfu stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir hönd sjóðsins getur málskotsnefnd frestað réttaráhrifum úrskurðar telji hún ástæðu til þess.“

Þá erum við komin að þessu persónufornafni sem BHM gerir athugasemd við og telur ekki nægilega skýrt að átt sé við málskotsnefndina heldur geti það allt eins vísað til stjórnar lánasjóðsins.

Séu áhöld um slíkt þá ætti það að vera hægur vandi fyrir menntamálanefnd að gera tillögu til úrbóta, bara hvað þetta varðar. Eins og hv. þingmaður túlkar þessa setningu þá er átt við málskotsnefndina með persónufornafninu en ekki stjórn lánasjóðsins. (SKK: Það kemur fram í lögskýringargögnum.) Það kemur fram í lögskýringargögnum, segir hv. þingmaður. Það er gott og vel en ég tel að það hefði verið afar gott fyrir nefndina, þar sem ekki eru allir lögfræðimenntaðir í nefndinni, að fá stjórnsýslusérfræðing til að rýna betur í málið með okkur. En eins og ég segi þá er ég ekki á móti málinu. En þessi grein stendur verulega í mér.

Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi máls míns, að inntakið og hin pólitísku tíðindi í þessu frumvarpi eru nokkuð sem ber að fagna. Prinsippið er þess eðlis. Það er gott að lækka skuli endurgreiðslubyrði námslánanna en þegar við fáum svo alvarlegar ábendingar, sem eru þar að auki nokkuð flóknar fyrir sum okkar a.m.k., tel ég að við þyrftum að hafa rýmri tíma til að fara í saumana á málunum.



[21:10]
Frsm. menntmn. (Gunnar Birgisson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið farið ágætlega í gegnum b-lið 1. gr. og væri réttast fyrir hv. þingmann að setja sig í spor okkar í stjórn lánasjóðsins ef við fengjum á okkur úrskurði sem valda mundu verulegum fjárútlátum fyrir sjóðinn. Það væri slæmt að þurfa að bera ábyrgð á því án þess að geta nokkuð haft um það að segja. Hv. þingmaður verður að reyna að skilja hvað er þarna á ferðinni.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fór mjög vel í gegnum lagalegar hliðar málsins en hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vitnaði í námsmannahreyfingarnar og BHM, eins og BHM væri stóri sannleikurinn í þessu máli. Námsmannahreyfingarnar voru ekki mjög jákvæðar og sögðu þetta lítið skref í rétta átt. Þetta er auðvitað mjög stórt skref sem hér er stigið.

Aðferðin sem BHM lagði til var sú að fara þessa tekjuskattsleið, þ.e. með afslátt á tekjuskattinn. Skattafsláttaleið BHM kostar alltaf ákveðið mikið, hún kostar 700 millj. kr. og það yrði tekið beint úr ríkissjóði. Það væri gott fyrir sjóðinn og hefði ekkert að segja varðandi fjárstreymi til hans. En þar væru teknar beint úr ríkissjóði 700 millj. kr. Það er tillaga BHM. Við fórum bil beggja í þessu. Það var að breikka stofninn sem við reiknum afborganir af og hins vegar að taka 260–340 millj. kr. úr ríkissjóði. Þannig var þetta gert.

Varðandi stjórnsýslufræðinginn sem um var rætt, sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi, þá hefur verið unnið að því að reyna að fá þann ágæta stjórnsýslufræðing í nefndina, eins og ég lofaði, og vonandi ætti það að geta gengið á föstudagsmorgun.



[21:12]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því og þakka hv. formanni menntamálanefndar fyrir að málið skuli verða kallað inn til nefndarinnar aftur milli 2. og 3. umr. og að unnið sé að því að fá stjórnsýslufræðing til að skýra þetta nánar fyrir okkur sem höfum ekki botnað í þessu jafn vel og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson.

Varðandi hitt sem ég sagði, er ég vitnaði til umsagnar námsmannahreyfinganna um að þau teldu þetta lítið skref í rétta átt, þá voru það ekki mín orð, þannig að það sé alveg á hreinu. Hins vegar er það kristaltært að ríkissjóður er ævinlega að fjármagna sjóðinn. Lánasjóður íslenskra námsmanna er fjármagnaður af ríkissjóði. Ég sé því ekki að það skipti sköpum þótt 700 millj. kr. hefðu farið í skattendurgreiðsluleiðina. Ég sé ekki að það skipti sköpum því að ríkissjóður er hvort sem er í ábyrgð fyrir sjóðinn og fjármagnar sjóðinn frá upphafi til enda.

Ég tel, án þess að ég viti það fullkomlega, að það hafi ekki verið fullreynt að ná samkomulagi milli námsmannahreyfinganna og stjórnar lánasjóðsins í þessu máli. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig starfið í nefndinni gekk fyrir sig. Ég veit ekki hvort námsmannahreyfingarnar töldu sig hafa fengið nægan tíma til að vinna málið, til að sannfæra þá sem voru á öndverðum meiði eða hver rök stjórnar lánasjóðsins voru í þessum efnum. Þetta er eitt af því sem við í nefndinni höfðum ekki ráðrúm til að fara nægilega vel í gegnum, hæstv. forseti, að mínu mati.



[21:13]
Frsm. menntmn. (Gunnar Birgisson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Rétt til að skýra það fyrir hv. þingmanni varðandi starfið í nefndinni voru þessar tvær leiðir til umfjöllunar, þ.e. leiðin sem varð fyrir valinu og hins vegar BHM-leiðin. Síðan vildi svo merkilega til að námsmannahreyfingarnar komu með þá leið nánast óbreytta sem sínar tillögur. Það vakti athygli okkar sem störfum í nefndinni. Ég held að nefndin hafi haldið níu eða tíu fundi þar sem m.a. þetta var tekið fyrir. BHM var kallað til nefndarinnar og gefinn kostur á að skýra hugmyndir sínar en síðan komu þær orðréttar í tillögum námsmannahreyfinganna. Þegar þær tillögur sem hér eru voru ræddar við námsmannahreyfingarnar þá tók t.d. fulltrúi stúdentaráðs mjög jákvætt í þessa leið. Þetta er jákvætt fyrir stúdenta.

Þegar frumvarpið verður að lögum þýðir það að ríkissjóður greiðir 52–53% með lánasjóðnum, þ.e. ef einhver tekur 1000 kr. að láni á ríkið að borga 520 kr. Styrkurinn frá ríkinu er 52% af því sem hver stúdent tekur að láni. Þessi sjóður er félagslegur jöfnunarsjóður og gefur jafnrétti til náms. Þessa hefur verið mjög vel gætt. Hins vegar hefur verið reynt að halda hinu gagnstæða fram en það stenst alls ekki. Sjóðurinn býður upp á bestu þjónustu sem námsmenn geta fengið í heiminum. Enginn hefur getað bent mér á sjóð sem stendur sig eins vel. Bandaríkjamenn tóku þennan sjóð sér til fyrirmyndar þegar þeir byggðu upp lánasjóð sinn á sínum tíma. Þeir voru mikið hér fyrir 5–7 árum.



[21:16]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Lánasjóður íslenskra námsmanna er sannarlega alls góðs maklegur. Ég tek undir orð hv. þm. Gunnars Birgissonar að hann er félagslegur jöfnunarsjóður og ríkið hefur staðið vel á bak við sjóðinn og hann er til fyrirmyndar. Um allt þetta erum við sammála, en þá verðum við líka aðeins að horfa í gegnum fingur og hafa skilning á því þegar þarf að breyta lögum um sjóðinn að þá geti verið mismunandi sjónarmið uppi.

Hv. þingmaður sagði í fyrra andsvari sínu að BHM væri ekki einhver stóri sannleikur í málinu. Hv. þingmanni virðist hafa gramist það að námsmannahreyfingarnar skyldu gera sjónarmið BHM að sínum í starfinu í nefndinni.

Gott og vel. Þar voru andstæð sjónarmið á ferðinni og ævinlega þegar andstæð sjónarmið eru um hlutina en samt sem áður sameiginlegt takmark þarf oft að sýna ákveðna kænsku til að komast að sameiginlegri niðurstöðu sem allir verða ánægðir með. Ég vildi óska þess að námsmannahreyfingarnar og BHM sem fólkið sem nýtir sjóðinn og nýtir sér sem stéttarfélag þegar út er komið að stórum hluta, að þetta fólk hefði getað verið sátt við þá leið sem valin er. Sáttara en raun ber vitni. Þó allir segi auðvitað, námsmannahreyfingarnar, BHM, ég og flokksfélagar mínir að verið sé að stíga mikilvægt, jákvætt skref, verður hv. þm. Gunnar Birgisson að skilja að það hafa verið ólík sjónarmið uppi um þetta og menn hafa ekki náð að sætta þau fullkomlega þar sem önnur leið var valin en sú sem hinir hefðu kosið. Eðli málsins samkvæmt er erfitt að ná sameiginlegri lendingu. Það þekkjum við sem störfum í stjórnmálum og ég held að í þessu tilfelli hefði mátt vinna betur í að ná sáttum, en engu að síður fagnar maður lokaniðurstöðunni.



[21:18]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fór ágætlega yfir þá fyrirvara sem við þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna höfum við málið og kom ágætlega fram sá ágreiningur sem uppi er, bæði í nefndinni og hjá þeim sem málið er skylt, BHM og fleirum út af umræddri grein, b-lið 1. gr. frumvarpsins, sem hv. þingmaður rakti ágætlega og síðan rakti hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson það viðhorf sem hann hefur í málinu og hvernig hann túlkar það.

Það var samkomulag í nefndinni að stjórnsýslufræðingur yrði kallaður fyrir nefndina á milli 2. og 3. umr. Mér skilst á formanni nefndarinnar og öðrum nefndarmönnum sem véla um það með honum að allt útlit sé fyrir að stjórnsýslufræðingurinn Páll Hreinsson komi fyrir nefndina síðar í vikunni. Þá gefst nefndarmönnum færi á því að leiða með einhverjum hætti til lykta hvernig málum sé háttað og hvort þær nokkuð afdráttarlausu athugasemdir sem BHM gerir í III. kafla umsagnar sinnar um umræddan lið, eins og BHM segir, með leyfi forseta:

„Að því er varðar hið síðara — málshöfðunarrétt lægra stjórnvalds gegn æðra stjórnvaldi — telur BHM þessa breytingu afar óeðlilega og ganga gegn meginreglum stjórnsýsluréttar um stigskiptingu stjórnsýsluvaldsins. Er slíkt og algerlega fordæmalaust og má m.a. benda á að ríkisskattstjóri, sem fer með aðild að málum f.h. gjaldkrefjenda […] hefur ekki heimild til málshöfðunar til ógildingar á úrskurðum yfirskattanefndar.“

BHM leggur til í umsögn sinni að málskotstigið verði fremur flutt aftur til menntamálaráðherra sem beri enda pólitíska og lagalega ábyrgð á þessum málum samkvæmt stjórnarskránni, í stað þess að veikja sjálfstæði sérfróðu málskotsnefndarinnar.

Taka má undir álit BHM um frumvarpið og mjög eðlilegt að málið verði leitt að fullu til lykta eins og kostur er, þannig að nefndarmenn hafi nokkuð skýrt hvaða túlkun er rétt, túlkun sú sem BHM leggur fram og hefur áreiðanlega lögfróða menn að baki því áliti sínu. Þetta er vandvirknislega unnið álit hjá BHM og ástæðulaust að afskrifa þær aðfinnslur. Því er rétt er að leiða það til lykta og fá úr því skorið hvort álitið eigi við rök að styðjast eða sú túlkun sem eini löglærði nefndarmaðurinn, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hefur haldið fram bæði í nefndinni og í andsvari við hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur sem mælti á undan mér. Það þarf því að vera alveg á hreinu hvað um sé að ræða, hvort þetta sé óeðlilegt, hvort þetta sé vond breyting eða hvort stjórn LÍN eigi að hafa þennan rétt.

Ég tel ekki óeðlilegt að færa þetta til menntamálaráðherra sem ber hina pólitísku ábyrgð á málinu og ber hina pólitísku ábyrgð á rekstri sjóðsins. Ég get því vel ímyndað mér að sú leið sem BHM leggur til sé ekki óeðlileg og jafnvel hin ágætasta í málinu. Hvort sem hitt stenst og eigi sér fordæmi eins og hv. þingmaður gat um áðan í almannatryggingalögum o.s.frv. getur breytingin samt sem áður einungis verið til bóta. Ég tel að svo sé, en það ræðum við betur í nefndinni og við 3. umr. verður væntanlega búið að ræða málið að fullu.

Svona vill þetta oft verða þegar fáir dagar eru til umráða til að klára mál. Það liggur á að klára þetta mál fyrir hátíðahöld kristinna manna sem bresta á eftir stuttan tíma og þingið fer í 40 daga frí, og í raun ástæða til að harma það því þetta er hið ágætasta mál eins og fram hefur komið. Ég held að allir stjórnmálaflokkarnir, alla vega Framsóknarflokkur og Samfylkingin, hafi haft það á stefnuskrá sinni hreint og klárt að lækka endurgreiðslubyrðina með þessum hætti.

Við, nokkrir samfylkingarþingmenn, fluttum frumvarp til laga um breytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þar er ein af tillögðum breytingum að lækka endurgreiðslubyrðina um þetta prósent niður í þessa upphæð. Aðrar breytingar sem við leggjum til eru að ábyrgðarmannakrafan verði afnumin hjá sjóðnum og að skoðað verði að hluti af lánum breytist í styrk hafi eðlilegri og tillagðri námsframvindu verið haldið.

Hv. formaður nefndarinnar kom inn á það að einn banki hér í borg, Landsbanki Íslands, gæfi námsmönnum kost á því að kaupa sér ábyrgð hjá bankanum til 15 ára gegn ákveðnu ábyrgðargjaldi. Það er góð breyting og ástæða til að fagna því að bankinn skyldi að einhverju leyti taka ómakið af stjórnvöldum. Af því að ég minntist á að flokkarnir hefðu haft það á stefnuskrá sinni að lækka endurgreiðslubyrði námsmanna, hafa bæði Framsóknarflokkur og Samfylking það einnig skýrt á stefnuskrá sinni að afnema ábyrgðarmannakröfuna. Sex þingmenn Framsóknarflokksins, að mig minnir, fluttu þingmál um það á síðasta þingi og er þáttur um lánasjóðsmál okkar þingmanna Samfylkingarinnar. Ég held að þar sé um mikið réttlætismál að ræða og mjög eðlilegur liður í þeim breytingum sem eru að verða í lánaumhverfi okkar almennt þar sem mjög eðlilegt er að fólk gangist í sjálfskuldarábyrgðir, en ekki sé verið að gera þessa kröfu, enda mismunar það klárlega námsmönnum um aðgang að láni, um aðgang að félagslega jöfnunarsjóðnum, því það blasir við að það hafa ekki allir sama aðgang að ábyrgðarmönnum, að fólki sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til ábyrgðarmanna, um að fólk eigi eignir, standi vel fjárhagslega o.s.frv.

Það er morgunljóst að það eiga ekki allir foreldra, vandamenn eða nána vini sem þeir geta leitað til um slíka kröfu. Þar með er verið að halda því fólki frá því að geta nýtt sér þjónustu hins félagslega jöfnunarsjóðs sem, eins og fram kom hjá hv. formanni nefndarinnar áðan, er félagslegur jöfnunarsjóður að mjög miklu leyti. Þá er ekki verið að tala um að verið sé að mismuna fólki aðgengi að einhverri venjulegri lánastofnun eftir því hvort það hefur aðgang að ábyrgðarmanni eða ekki, heldur er verið að mismuna fólki um aðgang að félagslegum jöfnunarsjóði sem niðurgreiðir lán sín yfir 50%.

Því ber að skoða málið í sambandi við ábyrgðarmannakröfuna í því ljósi að verið er að mismuna fólki um aðgang að einum mikilvægasta jöfnunarsjóði í samfélaginu. Því er algjörlega óviðunandi að ábyrgðarmannakrafan skuli ekki vera felld niður í breytingunum á Lánasjóði íslenskra námsmanna og fjarri lagi að tilboð eins banka bæti þar úr að fullu þó það sé að sjálfsögðu mjög góð breyting og bankarnir eigi að sýna slíkt réttlætisfrumkvæði beri stjórnvöld ekki gæfu til að gera það. Það er ástæða til að brýna stjórnvöld í framhaldinu af því að þetta ágæta mál verður afgreitt frá Alþingi fari fram frekari endurskoðun á Lánasjóði íslenskra námsmanna, sérstaklega með það að markmiði að afnema ábyrgðarmannakröfuna, skoða hvort rétt sé og hvað það mundi kosta ef hluti lána breyttist í styrk af ákveðinni námsframvindu fenginni; þriðjungur, fjórðungur o.s.frv. Það þarf að reikna þetta út, hafa þetta svart á hvítu og skoða hvaða leiðir eru bestar að markmiðinu. Við vitum að ef hluti lána breyttist í styrk mundi verulegur hluti námsmanna ljúka námi sínu fyrr, sem er talsverður sparnaður fyrir háskólana og svo mætti lengi telja. Þetta er efni í aðra umræðu, ítarlegri og lengri og á þessari notalegu kvöldstund sem við eigum hér saman á Alþingi í umræðum um menntamál ætla ég ekki að dvelja mikið lengur við þetta atriði, enda margt annað órætt.

Ég ætla að koma inn á eitt annað í sambandi við hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna og þær umræður sem hafa verið um sjóðinn og hlutverk hans. Í umræðum á hinu háa Alþingi í fyrradag um niðurlagningu Tækniháskóla Íslands og sameiningu hans við Háskólann í Reykjavík og stofnun nýs einkahlutafélags utan um rekstur þess sameinaða skóla kom mjög skýrt fram að verið er að taka eina námsgrein, grunnnám á háskólastigi, út úr ríkisreknum háskólum, leggja hana niður og inn í annan skóla, sem sagt tæknifræðina. Ef sú breyting verður að lögum verður ekki hægt að nema tæknifræði á Íslandi nema í einkareknum háskóla gegn verulegum skólagjöldum. Vissulega er hluti af lánum niðurgreiddur og þar kem ég einmitt að kjarna málsins, að við þær umræður var því lýst yfir að jöfn staða til náms ætti að nást í gegnum lánasjóðinn. Lánasjóður íslenskra námsmanna ætti að lána fyrir skólagjöldunum, lánasjóðurinn ætti að lána fyrir skólagjaldavæðingu grunnnáms á háskólastigi á Íslandi án þess að nokkurs staðar hafi verið tekin einhver umræða um það. Þó svo það blasi við að skólagjaldaleiðin verði farin og skólagjöld há og hærri almennt lögð á grunnnám í ríkisháskólunum munu menn að sjálfsögðu fara þá leið að lána fyrir þeim. En þá er verið að leggja verulegar fjárhagslegar byrðar á Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Talandi um það og peningana sem koma allir úr ríkissjóði og að þetta kosti og hitt kosti, þá er verið að tala um að færa yfir á sjóðinn verulegan hluta af fjármögnun háskólastigsins á Íslandi. Ríkið hefur staðið illa að rekstri og uppbyggingu Tækniháskólans. Það vita allir og þarf ekki að leita lengur sannana fyrir því miðað við hallareksturinn á skólanum á undanförnum árum. Hann hefur verið hálfgert olnbogabarn. En allt um það. Þeim vanda á nú að stórum hluta að velta yfir á Lánasjóð íslenskra námsmanna sem á hér eftir að greiða fyrir talsverðan hluta af því námi sem þar er stundað. Segjum að skólagjöld upp á 200 þús. á ári standi undir alla vega þriðjungi af kostnaði við hvern nemanda, þá er verið að velta rekstrarvandanum yfir á lánasjóðinn og fjármagna nám á háskólastigi að stórum hluta í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna. Það getur vel verið að það sé hin ágætasta leið.

En um það höfum við aldrei tekið umræðu. Ég vil segja um þetta ágæta mál þar sem endurgreiðslubyrðin er lækkuð, mál sem Samfylkingin barðist fyrir í kosningabaráttunni og styður hér með ákveðnum fyrirvörum um aðra þætti frumvarpsins, er að við eigum að taka ítarlega umræðu um heildstæða endurskoðun á hlutverki Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Er það framtíðarhlutverk sjóðsins að standa að stóru leyti undir fjármögnun á grunnnámi á háskólastigi? Það er sú leið sem hæstv. menntamálaráðherra og yfirvöld virðast vera að fara og blasir við hvað varðar tækninámið, grunnnámsgrein á háskólastigi sem verið er að leggja inn í einkavæddan skóla gegn háum skólagjöldum. Skólagjöldunum segir hæstv. ráðherra að eigi að lána fyrir úr Lánasjóði íslenskra námsmanna og þar með er fjármögnunin að verulegu leyti komin inn í sjóðinn.

Því vil ég beina spurningum til hv. formanns nefndarinnar: Hvernig líst honum á þessa þróun og hefur þetta nýja hlutverk lánasjóðsins verið rætt sérstaklega og munu því fylgja aukin framlög til sjóðsins frá ríkisvaldinu? Hérna er verið að tala um að þetta frumvarp kosti 265–340 milljónir eins og áréttað er hér og leiðrétt úr tölum frá fjármálaráðuneytinu. Þetta gætu orðið smámunir miðað við hvað það mundi kosta sjóðinn að eiga að standa að stórum hluta undir grunnnámi í háskólum á Íslandi. Því væri fróðlegt að fá smá innsýn í hugarheim sjálfstæðismanna, hvernig þeir ætla að standa að skólagjaldavæðingunni svona holt og bolt. Eða er þetta algjörlega órætt mál gripið héðan og þaðan úr lausu lofti án þess að tengja nokkurs staðar? Í allri umræðu um hlutverk, stöðu og framgang sjóðsins er þetta algjört lykilatriði.

Þá vildi ég koma örlítið að því sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerði annars einnig alveg prýðilega grein fyrir. Ég ætla ekkert að endurtaka það í ítarlegu máli af því að hún fór mjög vel yfir þetta. En námsmannahreyfingarnar hafa allar sem ein lagt áherslu á að skattafsláttarleiðin verði farin í stað þess að endurgreiðslubyrðin verði lækkuð að þessu leyti, þ.e. að endurgreiðslubyrðin verði létt með frádrætti í skattkerfinu, að veita endurgreiðendum námslána skattafslátt af árlegri afborgun til LÍN.

Í umsögn Bandalags íslenskra námsmanna segir að að mati námsmanna sé með þeirri leið sem hér er farin, þ.e. lækkun endurgreiðslu úr 4,75 í 3,75, um að ræða lítið skref í rétta átt eins og hent hefur verið hér á lofti. En námsmenn sjá sér þó ekki fært að styðja þessa tillögu í ljósi framangreindra raka. Þeir leggja mikla áherslu á skattafsláttarleiðina og vel getur verið og ekki ætla ég að útiloka það að það sé betri leið að mörgu leyti og réttlátari o.s.frv. Það ræðum við að sjálfsögðu líka í umræðum um framtíðarhlutverk sjóðsins og ef við förum að innleiða há skólagjöld, miklu hærri skólagjöld á grunnnámi á háskólastigi og lánasjóðurinn eigi að lána fyrir þeim þá hljóta menn einnig eins og Bretarnir að tekjutengja afborganir af námslánum að verulegu leyti þannig að hluti námsmanna greiði þau aldrei niður eða litlu leyti — þeir sem eru tekjulægri — en þeir sem eru tekjuhæstir greiði þau upp að öllu leyti, hratt, fljótt og vel. Þetta er sú niðurstaða sem náðist í Bretlandi. Sjálfstæðisflokkurinn og stjórnvöld hér virðast vera að fara einhverja slíka leið án þess að vilja ræða það eða kannski án þess að geta rætt það því að ég held að málið sé algjörlega óuppgert í Sjálfstæðisflokknum einnig. Þó Heimdallur hamri járnið og einhverjir fleiri þá hefur hæstv. menntamálaráðherra sagt að í hennar tíð verði ekki tekin upp skólagjöld í grunnnámi á háskólastigi. En það er samt verið að því með fjallabaksleið, með því að leggja niður skóla, leggja niður námsgreinar og leggja þær í einkavæddan skóla. Þetta þurfum við að ræða mjög ítarlega og ef og þegar einhverjar slíkar breytingar ganga yfir þá tel ég einboðið að farin verði skattafsláttarleiðin í stað og meðfram þessari hér. Sú umræða bíður seinni tíma. En ég vildi að það kæmi skýrt fram að við fulltrúar Samfylkingarinnar og fleiri tökum undir það með námsmönnum að það sé vænleg og góð leið og hún mun að sjálfsögðu verða skoðuð vel og vandlega í fyllingu tímans.

Hægt væri að ræða hér í alla nótt um lánasjóðinn og það breytta hlutverk sem við erum að finna út í þingsölum að honum sé ætlað og búið án þess að það hafi nokkurs staðar annars staðar komið fram eða verið rætt nema hv. formaður menntamálanefndar svipti hulunni af málinu og útskýri það hér á þeim örfáu mínútum sem honum gefast í andsvari, nema hann ætli í aðra ræðu.



[21:35]
Frsm. menntmn. (Gunnar Birgisson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum bara að ræða þetta frumvarp sem hérna er undir en ekki um Tækniháskólanum. Það kemur seinna.

En það er rétt að taka það fram og fara yfir það fyrir hv. þingmann og aðra hér að á þessum lánum er einungis 1% vextir. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir 300 milljónum að meðaltali útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. Og svo segir fólk bara ekkert hérna nema að þetta rétt svona sleppi, sé lítið skref í rétta átt o.s.frv., virðulegi forseti.

Það eru hvergi slík kjör í boði fyrir námsmenn í heiminum. Spurningin er síðan: Á að fara aðra leið? Á að vera með beina styrki og síðan, eins og á Norðurlöndunum, taka lán á markaðskjörum? Hér er ríkið að niðurgreiða lánin til námsmanna sem er um 52%.

Ef þetta frumvarp verður að lögum er reiknað með að endurgreiðslutími muni lengjast um fjögur til fimm ár, ef ég man rétt, úr 18 í 23 ár að meðaltali. Það er nú ekki alveg fram á gamalsaldur eins og kom fram í máli hv. þingkonu Kolbrúnar Halldórsdóttur. Svo er nú ekki.

Ég vil enn og aftur undirstrika að auðvitað eigum við að vera ánægð með það sem vel er gert. Það er alltaf hægt að gera betur og setja meiri peninga í þetta. En hvar á að draga línuna? Við verðum líka að átta okkur á því að menntun er fjárfesting. Einstaklingarnir eru að fjárfesta í sjálfum sér og sinni framtíð með menntun og auðvitað eiga menn að borga fyrir það að einhverju leyti. Við tökum svo umræðu um skólagjöldin þegar við ræðum hér Tækniháskólann, þegar þar að kemur.



[21:37]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Lítið skref í rétta átt er betra en stórt skref í vitlausa átt. Auðvitað höfum við tekið undir það að hér er um að ræða gott mál enda erum við samþykk því og erum með á nefndarálitinu með þeim fyrirvörum sem hér hafa verið raktir. En þó það nú væri að menn hefðu fyrirvara um jafnstórt mál og þetta. En að sjálfsögðu fögnum við því að verið er að létta endurgreiðslubyrðina. Þó ekki sé í meira mæli en hér um ræðir er þetta að sjálfsögðu ágætt mál. Þetta með litla skrefið er úr umsögn námsmanna, minnir mig, og hefur verið marghent hér á lofti af hv. formanni.

Af því að hann talaði um þann útgjaldaauka fyrir ríkissjóð sem hér um ræðir þá spurði ég hann áðan hvað hann áætli að sú breyting á skólafyrirkomulagi okkar muni kosta sjóðinn að því sé velt yfir á hann án umræðu að fjármagna grunnnám á háskólastigi að verulegu leyti og ef Tækniháskólanemendur eiga að fara að taka lán fyrir sínum skólagjöldum, þ.e. hvaða útgjaldaauka það hafi í för með sér og hvort það mál hafi verið rætt sérstaklega á milli formanns menntamálanefndar og hæstv. menntamálaráðherra eða yfirmanna menntamála í landinu. Á hvaða stigi er þessi umræða á milli forustumanna Sjálfstæðisflokksins í menntamálum? Er hún ekki á neinu stigi, frumstigi? Með hvað er farið af stað í þessa umræðu? Hvert er markmiðið og hver er áætlaður kostnaður við að Lánasjóður íslenskra námsmanna eigi að stórum hluta eða að einhverju leyti að standa undir kostnaði við grunnnám á háskólastigi?