131. löggjafarþing — 55. fundur
 10. desember 2004.
Úrvinnslugjald, 2. umræða.
stjfrv., 394. mál (fjárhæðir, gjaldskylda o.fl.). — Þskj. 501, nál. 636, brtt. 637.

[11:46]
Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, með síðari breytingum.

Meginefni frumvarpsins varðar breytingar á einstökum fjárhæðum úrvinnslugjalds, tímabundna frestun á upptöku úrvinnslugjalds af pappa-, pappírs- og plastumbúðum og hækkun skilagjalds af ökutækjum. Þá er einnig gert ráð fyrir breytingum sem leiða það af sér að kerfið nái betur til eldri ökutækja sem örva mun skil á þeim til úrvinnslu. Loks gerir frumvarpið ráð fyrir því að aðilum verði heimilt að semja sín í milli um ráðstafanir sem tryggja úrvinnslu úrgangs vegna veiðarfæra úr gerviefnum á sama hátt og nú gildir um svartolíu.

Skemmst er frá því að segja að þetta frumvarp er um margt ánægjulegt. Hér er lagt til að úrvinnslugjald verði lækkað umtalsvert, sem er mikið fagnaðarefni. Á sama hátt er skilagjald á bílum hækkað úr 10 þús. kr. upp í 15 þús. kr. Einnig er um að ræða, eins og áður kom fram, lækkun á gjaldi á bifreiðar. En á sama hátt eru fleiri bifreiðar og eldri, sem ekki voru áður inni í þessum lögum, teknar í lögin með frumvarpinu.

Ekki komu fram margar tillögur um breytingar hjá nefndinni. Ýmislegt var rætt og menn fóru yfir málið eins og vera ber en hins vegar er vert að geta þess að málið kom nokkuð seint inn og var það samdóma álit umhverfisnefndar að verið hefði betra að hafa lengri tíma til að fara yfir málið. Það eru margir fletir á þessum mikilvæga sjóði og þeim málaflokki sem tengist úrvinnslugjaldinu.

Þær breytingar sem gert er ráð fyrir eru fyrst og fremst tæknilegar en einnig var tekið tillit til athugasemda frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þar töldu menn að þeir þyrftu lengri tíma til undirbúnings og þess vegna var ákveðið að fresta bæði upphafstíma greiðslu vegna móttöku á öðrum umbúðum en plastfilmu og bylgjupappa frá upphaflegum hugmyndum, sem voru 1. desember 2005, til 1. mars 2006. Jafnframt var ákveðið að leggja til að lengja starfstíma nefndar þeirrar sem ræðir þau mál frá 15. mars 2005 til 1. júní 2005.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem lagðar eru fram á sérstöku þingskjali en þar er um að ræða fjóra liði.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, Mörður Árnason og Valdimar L. Friðriksson skrifa undir nefndarálit þetta með fyrirvara og áskilja sér rétt til að flytja breytingartillögur og sitja hjá við atkvæðagreiðslu. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Steinunn K. Pétursdóttir sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Þeir sem skrifa undir álitið eru auk mín hv. þm. Hjálmar Árnason, Arnbjörg Sveinsdóttir, Gunnar Birgisson, Kjartan Ólafsson, Kolbrún Halldórsdóttir, með fyrirvara, Mörður Árnason, með fyrirvara og Valdimar L. Friðriksson, með fyrirvara.

Virðulegi forseti. Þetta mál er gott og hefur í för með sér umtalsverða lækkun á gjöldum sem er fagnaðarefni. Um málið var ágætissátt í nefndinni og ég á ekki von á öðru en að hið sama verði uppi á teningnum á hinu háa Alþingi.



[11:51]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um úrvinnslugjald. Það verður að segjast að mál af þessu tagi er ekki einfalt viðureignar. Um er að ræða yfirgripsmikla löggjöf sem varðar möguleika okkar á að draga á endanum úr urðun sorps.

Við meðferð þessa máls á Alþingi á síðustu árum, frá því það leit fyrst dagsins ljós, hefur verið gagnrýnt að stjórn Úrvinnslusjóðs sé ekki nægilega breið til að gætt sé hagsmuna allra þeirra sem eðlilegt er að komi að þeim málum. Á 128. löggjafarþingi, þegar þetta mál var upphaflega samþykkt, flutti ég breytingartillögu við frumvarpið sem gerði ráð fyrir því að stjórn Úrvinnslusjóðs yrði öðruvísi skipuð.

Samkvæmt lögunum er hún m.a. skipuð aðilum frá Samtökum atvinnulífsins og Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Samkvæmt lögunum er yfir sjóðnum fimm manna stjórn sem skipuð er til fjögurra ára. Umhverfisráðherra skipar formann stjórnar án tilnefningar en fjórir meðstjórnendur skulu skipaðir að fenginni tilnefningu frá eftirtöldum aðilum, eins og segir í 16. gr. laganna, virðulegi forseti: einn sé tilnefndur eftir sameiginlegri tilnefningu Samtaka fiskvinnslustöðva og Landssambands íslenskra útvegsmanna, einn frá Samtökum iðnaðarins og einn frá Samtökum verslunar og þjónustu og einn frá Sambandi ísl. sveitarfélaga.

Það er ljóst í mínum huga og kom afar skýrt í ljós í þeirri litlu umfjöllun sem málið fékk í umhverfisnefnd að tilfinnanlega vantar fleiri fulltrúa í þessa stjórn. Ég tel að það hefði verið eðlilegt að Neytendasamtökin ættu frá upphafi fulltrúa í henni. Ég hefði talið að frjáls félagasamtök á sviði náttúru- og umhverfisverndar ættu líka að eiga þar fulltrúa. Það er kannski ekki tímabært við þessa umræðu, virðulegi forseti, að flytja breytingartillögu varðandi þetta atriði laganna en ég vil ítreka þetta vegna þess að þegar fjallað er um þessi mál kemur í ljós að Neytendasamtökin og frjáls félagasamtök eiga fullt erindi í stjórn sjóðsins. Hið mikla vægi sem atvinnulífið hefur í stjórninni verður óeðlilegra eftir því sem tímar líða, sýnist mér. Ég legg á það áherslu að menn hugleiði vandlega að víkka út og breikka þessa stjórn. Þar með tel ég að minni líkur væru á því að ágreiningsmál komi upp varðandi þessa löggjöf.

Því miður, virðulegi forseti, gafst nefndinni að mínu mati ekki tími til að rýna nægilega vel í orðalag þeirra lagagreina sem hér um ræðir. Þar á ég sérstaklega við 1. gr.

Ég gagnrýndi við 1. umr. um frumvarp þetta að í það vantaði, að mínu mati, ákveðið gagnsæi í skilgreiningu á umbúðum. Innleiða á ný ákvæði sem varða umbúðir og þarf því að skilgreina þær og flokka í ólíkar tegundir. Þar er fjallað sérstaklega um, í skilgreiningarliðum, söluumbúðir eða grunnumbúðir, safnumbúðir og flutningsumbúðir. Hér eru að sjálfsögðu þýddar greinar úr tilskipunum Evrópusambandsins og ég verð að viðurkenna að mér hefur ekki fundist takast nægilega vel til við það. Ég tel ámælisvert þegar nefndin skilar lagafrumvarpi af þessu tagi svo seint, frumvarpi sem vitað er að verður að fá afgreiðslu fyrir áramót. Þá tel ég að nefndinni séu gerð störfin mjög erfið og í þessu tilfelli kom í ljós að við höfðum engan tíma til að rýna í orðalagið eða fara á nokkurn hátt yfir það hvernig mætti gera betrumbætur á því.

Í umfjöllun nefndarinnar kom fram hjá fulltrúum sveitarfélaganna og framkvæmdastjóra Sorpu, sem heimsóttu nefndina, að það orkaði mjög tvímælis að setja í lög reglur sem lúta að frekari flokkun, söfnun og úrvinnslu á sorpúrgangi án þess að sveitarfélögin hefðu meira um málið að segja. Það liggur ekki fyrir samkvæmt frumvarpinu hversu mikil áhrifin af breytingunum á fjárhag sveitarfélaganna verða en hins vegar er ljóst að lögin um úrvinnslugjald hafa í för með sér aukin kostnað fyrir sveitarfélög. Það kemur til af því, virðulegi forseti, að meðhöndlun umbúðanna sem hér eru sett inn í flokkunarkerfið kostar fjármuni sem ekki koma til sveitarfélaganna í gegnum Úrvinnslusjóð. Sjóðurinn á fyrst og fremst að innheimta úrvinnslugjald og greiða skilagjald fyrir viðkomandi umbúðir. Því mun sjóðurinn ekki greiða úrvinnslu- eða umsýslukostnað sem þessu fylgir heldur þurfa sveitarfélögin að leggja meira í umsýslu vegna flokkunarinnar.

Umfang þess málaflokks hefur verið að aukast gífurlega hjá sveitarfélögunum. Ég hef í höndum, virðulegi forseti, skýrslu sem til umhverfisráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fjallar um framkvæmd laga um meðhöndlun úrgangs. Það er sannarlega umhugsunarvert hve mikið umfang sorpflokkunarmála hefur aukist síðan leidd voru í lög þessi ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs og laga um úrvinnslugjald.

Í skýrslunni kemur fram kostnaður sveitarfélaganna vegna söfnunar og förgunar úrgangs á Íslandi árið 2002, ég vek athygli á því að hér er bæði talað um söfnun og förgun. Inni í söfnuninni er auðvitað söfnun á flokkuðum úrgangi sem ber úrvinnslu- og skilagjald. Sá kostnaður nam tæpum 2 milljörðum kr. fyrir sveitarfélögin árið 2002. Heildartekjur voru hins vegar rúmlega 1 milljarður kr. Sveitarfélögin niðurgreiða því meðhöndlun úrgangs með skattfé svo nemur tæpum 1 milljarði kr. Söfnunarkostnaður er talsvert stærra hlutfall en förgunarkostnaður, þ.e. um 60% á móti 40% vegna förgunar.

Ég tel nauðsynlegt að taka málið til alvarlegrar skoðunar í umhverfisráðuneytinu. Hér erum við að ræða anga af máli sem kom inn á borð okkar í fjárlagaumræðunni varðandi tekju- og kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Þetta er einn af þeim málaflokkum sem vaxið hafa mun meira en allar áætlanir gerðu ráð fyrir. Greinilegt er að sveitarfélögin taka að því leyti á sig auknar skyldur og byrðar þótt engir tekjustofnar fylgi með til þeirra. Þetta er gagnrýnisvert, virðulegi forseti. Það verður að ná viðunandi jafnvægi í málaflokkinn því að hér er um nýjar aðferðir að ræða, nýjar leiðir sem mikil sátt þarf að ríkja um svo þær nái að virka sem best. Það verður ekki hægt í óþökk sveitarfélaganna eða á þann hátt að þau hafi á tilfinningunni að hér sé verið að binda á þau klafa sem ekki fylgja neinir fjármunir. Ríkisvaldið og löggjafarsamkundan eru jú að innleiða þessi lög. Það, virðulegi forseti, verðum við að gera í góðri sátt.

Ég vil fara nokkrum orðum, hæstv. forseti, um nýtt ákvæði í 5. gr. þessa frumvarps sem varðar veiðarfæri úr gerviefnum. Samkvæmt 11. tölulið 5. gr. er gert ráð fyrir að við tökum veiðarfæri úr gerviefnum inn undir úrvinnslugjald og er það vel. Það hefur verið stefna umhverfisnefndar, frá því að þessi lög komu til umfjöllunar hennar, að fá veiðarfærin þar inn.

Auðvitað fellur talsvert mikið til af veiðarfærum. Þau eru úr plasti sem gott er að endurnýta og þess vegna er sjálfsagt að þeim sé forðað frá urðun. Hins vegar hefur Landssamband íslenskra útvegsmanna ekki verið sátt við þann meginvilja umhverfisnefndarinnar. Ég sé ekki betur en að Landssamband íslenskra útvegsmanna hafi getað dregið stjórnina á því að sú ákvörðun komist til framkvæmda.

Í frumvarpinu er mikið svigrúm fyrir útvegsmenn. Þeir eiga að fá tækifæri samkvæmt frumvarpinu að semja sín á milli um ráðstafanir til að tryggja úrvinnslu þessa úrgangs á sama hátt og olíufélögum hefur verið tryggður slíkur réttur varðandi svartolíu.

Hæstv. forseti. Ég hef ákveðnar efasemdir um þessa grein og þá heimild sem útvegsmenn fá með frumvarpinu. Ég hef reyndar ekki haft tíma til að skoða það nægilega vel ofan í kjölinn í umfjöllun nefndarinnar en ég sé ekki að það tryggi að öll veiðarfæri sem falla til skili sér undir úrvinnslugjaldið, þ.e. inn í það kerfi sem komið verður upp. Ekki eru allir útvegsmenn aðilar að Landssambandi íslenskra útvegsmanna þannig að þar gæti verið um ákveðna glufu að ræða sem gerir það að verkum að hluti veiðarfæranna skili sér ekki. Það er miður að nefndin skyldi ekki hafa nægileg tækifæri til að skoða málið ofan í kjölinn. Ég tel vafa á ferðinni og á erfitt með að styðja þær breytingar sem hér eru lagðar fram, með frjálsa samninga þessara aðila, meðan ég er ekki sannfærð um að það tryggi skil á öllum veiðarfærum til endurvinnslu.

Að lokum vil ég, hæstv. forseti, gera að umtalsefni nefnd þá sem sett er á samkvæmt b-lið 6. gr., ákvæði til bráðabirgða II. Þar segir:

„Frá gildistöku laga þessara … skal starfa nefnd umhverfisráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Úrvinnslusjóðs og Umhverfisstofnunar. … Nefndin skal undirbúa framkvæmd móttöku á pappa- og plastumbúðum sem berast með söfnunarkerfi sveitarfélaga í samræmi við ákvæði laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.“

Virðulegi forseti. Samkvæmt frumvarpi hefur kostnaðurinn á þennan vöruflokk verið ákveðinn, þ.e. það segir í 4. gr. að úrvinnslugjald skuli leggja á umbúðir gerðar úr pappa og pappír og það skuli vera 10 kr. á kg og sömuleiðis 10 kr. á umbúðir gerðar úr plasti. Ég spyr og geri ráð fyrir að hæstv. umhverfisráðherra sem er viðstaddur umræðuna geti svarað okkur því: Hvaða rök eru fyrir þessari 10 kr. álagningu? Hvers vegna er hún ákveðin áður en nefndin fær tækifæri til að setjast niður og taka til starfa? Mér virðist sem nefndin sem á að undirbúa framkvæmdina komi til með að meta raunverulegan kostnað af framkvæmdinni. Þess vegna skil ég ekki hvernig hægt er að ákveða fyrir fram að gjaldið verði 10 kr. á kg. Spurningin er: Ætlast umhverfisráðuneytið og hæstv. umhverfisráðherra til þess að nefndin komist kannski að allt annarri niðurstöðu og skili þá inn nýju frumvarpi þegar hún hefur lokið störfum samkvæmt þessum tillögum, eða hvað?

Það er alveg greinilegt að rökstuðningurinn fyrir 10 kr. gjaldinu er enginn. Hann getur ekki orðið til fyrr en nefndin sem um er rætt hefur lokið störfum. Einnig mætti geta þess að nefndinni er gert að starfa á þann veg að fulltrúarnir sjálfir, sem sitja í henni, beri kostnaðinn af henni. Það er enn eitt dæmi um að sveitarfélögin þurfa nauðug að taka að sér kostnað vegna lagasetningar af þessu tagi, sem ríkisvaldið og ráðherrar neita að taka þátt í. Þannig er beinlínis lögbundið að nefndin skuli starfa á kostnað þeirra sem í henni sitja. Enn eina ferðina skín í gegn að ríkisvaldið hefur ekki skilning á því að sveitarfélögin þurfa að fá tekjustofna með þeim verkefnum sem á þau eru sett og er það miður.

Varðandi meginprinsippið í þessum lögum, hæstv. forseti, þá er ég fylgjandi því. Ég tel markmiðssetningu laganna um úrvinnslugjald virkilega góða og metnaðarfulla. Ég veit að fjöldi fólks vinnur mjög metnaðarfullt starf til að þau markmið megi nást. Það fólk á allan stuðning minn og annarra þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. En ég bið hæstv. umhverfisráðherra um að gera því fólki kleift að standa af reisn að þeim verkefnum sem þeim er gert að sinna, sérstaklega að tryggja að kostnaður sveitarfélaganna vaxi þeim ekki yfir höfuð án þess að til komi auknir tekjustofnar.



[12:06]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þetta var ágæt ræða hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Ég hygg að flestir nefndarmenn geti tekið undir flest af því sem þar var sagt. Hún veldur því a.m.k. að ég get stytt mál mitt.

Tíminn til að vinna þetta mál var skammur. Það þurfti að gerast fyrir áramót og það sést að tíminn var skammur á því að málið tekur þær vendingar að við erum að ræða það við 3. umr. sem að öllu jöfnu ætti að vera óþarft á síðasta degi þingsins fyrir jól. Það verður hins vegar svo að vera núna.

Varðandi einstök atriði frumvarpsins þá sagði ég, að ég hygg við 1. umr., frá afstöðu samfylkingarmanna þegar þetta var samþykkt á sínum tíma, árið 2002. Um málið var tiltölulega góð sátt enda er málið sjálft, úrvinnslugjaldið og það kerfi allt, í góðu samræmi við stefnu Samfylkingarinnar og sem betur fer flestra flokka hér ef ekki allra að einhverju leyti. Það er mikill árangur.

En við gerðum á sínum tíma athugasemdir við stjórn Úrvinnslusjóðs. Það var athyglisvert í umfjöllun nefndarinnar að þeir sem á fund hennar komu gerðu margir athugasemdir við stjórn sjóðsins. Ég hygg að einn sá lærdómur sem við getum dregið af umfjöllun okkar um þetta frumvarp um úrvinnslugjald sé að við þurfum að leggjast aftur yfir skipun þeirrar stjórnar, bæði hvaða fulltrúar atvinnurekenda, eða atvinnulífsins eins og það er stundum kallað, eru í henni og síðan hvort ekki sé rétt að kalla til hennar fulltrúa almannasamtaka, Alþýðusambandsins, Neytendasamtakanna eða annarra, einn eða fleiri eftir atvikum.

Sveitarfélögin eiga mann í stjórn sjóðsins. Það virðist hafa orðið eitthvert skammhlaup í tengslum milli þess manns og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Mikil óánægja hefur a.m.k. komið fram hjá sveitarfélögunum eins og síðasti hv. ræðumaður tók fram. Hún varðaði auðvitað einkum ákvæðin um umbúðir, um pappír, pappa og plast. Það mál á sér þá forsögu í stuttu máli — þetta er árlegt, frumvarpið um úrvinnslugjaldið vegna þess að það þarf að hækka og hækka upphæðirnar — að þegar við fengum það til umfjöllunar í fyrra var ekki gert ráð fyrir því að sú breyting yrði tímasett. En umhverfisnefnd ákvað að leggja það til að hún yrði tímasett með eins árs fresti og gerði það. Ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun og ágæt hjá umhverfisnefnd. Síðan hefur ráðuneytið, framkvæmdarvaldið í þessu efni, ekki náð að vinna sína hluti nógu vel. Það er leitt að ráðuneytinu hafi ekki tekist að vinna að því í samvinnu við stjórn Úrvinnslusjóðs og sveitarfélögin vegna þess að það voru kvartanir þeirra sem leiddu til þess að enn þarf að fresta gildistöku ákvæðis um gjald fyrir umbúðapappa og plast. Því þarf enn að fresta henni frá því sem lagt var til í frumvarpinu. Ég fellst á að það sé gert en mér þykir leitt að þurfa að standa að því.

Ég veit að þetta er ekki núverandi hæstv. umhverfisráðherra að kenna og vil ekki skamma hana fyrir það, enda tel ég að hún sé enn að njóta hveitibrauðsdaga sinna í ráðuneytinu. Við byrjum að skamma hana eftir jól ef hún stendur sig ekki nógu vel. En ég vil beina því til hennar að láta þetta ekki endurtaka sig í ráðuneytinu og undirstofnunum þess.

Ég vil nefna nokkur önnur atriði. Ég ræddi um það í fyrri umræðu um þetta mál að það kom fram hjá sveitarfélögunum að þau leggja mikla áherslu á að dagblaðapappírinn fari inn í þetta kerfi og verði ekki undanskilinn. Hann er mjög stór hluti af sorpi sem sveitarfélögin hirða, dagblöð gærdagsins. Ég tel að umhverfisráðherra ætti að setja í gang rannsókn á því hvernig því mætti koma fyrir, að setja dagblöðin inn í kerfið.

Um rafhlöður, sem ég ræddi nokkuð í fyrra skiptið, vil ég segja að úrvinnslusjóðsmenn telja að það væri kannski ekki efni til að setja á þær skilagjald, a.m.k. ekki strax, eins og lagt var til í umræðunni. Hins vegar var hvatt til þess að aukin yrði kynning á því að það mætti og ætti að skila rafhlöðum. Það gera engir nema þeir sem nota þær, sem eru aðallega heimilin í landinu. En til þess þarf auðvitað að koma upp einhverjum móttökustöðvum eða a.m.k. merkingum á stöðum þar sem menn eru reiðubúnir að taka við rafhlöðum.

Það sem hvetur mig aðallega til að koma upp að þessu sinni er þó ákvæðið um bílana. Ég hef ekki enn skilið það, og það opnaðist ekki fyrir mér heldur í umfjöllun nefndarinnar, af hverju þarf að leggja úrvinnslugjald á ökutæki, sem sleppt var árið 2002 og eru á milli 15 og 25 ára gömul, þ.e. sem eru framleidd frá árinu 1978–1988. Ég hef áður lýst því að ég styð að bifreiðar sem eru eldri en 25 ára, fornbílar, séu undanþegnar þessu enda er ekki ætlunin að þær fari á haugana. En ég fæ enn ekki skilið þetta og lít á þetta sem álögur á þau 14–15 þúsund manns sem eiga umrædda bíla. Mér þykir ekki gott að beita hinum hagrænu aðgerðum, sem hér er vissulega reynt að beita, þegar þær bitna á hópi sem ekkert hefur til saka unnið.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það en fyrirvari minn á nefndarálitinu varðar einkum þetta. Ég og félagar mínir ætlum að sitja hjá við þann lið í frumvarpinu sem um það fjallar, þ.e. fyrri hluta c-liðar 2. gr.



[12:14]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Mig langar til að þakka umhverfisnefnd fyrir þá vinnu sem hún hefur lagt í frumvarpið sem sannarlega er of seint fram komið. Við ræddum það nokkuð við 1. umr. málsins að málið er flókið og nauðsynlegt að þingnefndin hafi lengri tíma til að sinna slíkum málum. Það er jafnframt ljóst að úrvinnslugjaldið kemur árlega fyrir nefndina og þarf að fara yfir upphæðirnar á hverju ári.

Ýmislegt fleira nefndu hv. þingmenn sem ég vildi bregðast við, einkanlega hvað snertir skipan nefndarinnar, samkvæmt 2. mgr. b-liðar 6. gr. Þar er gert ráð fyrir að nefnd verði sett á laggirnar sem í eigi sæti fulltrúar frá umhverfisráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Úrvinnslusjóði og Umhverfisstofnun. Ég vil geta þess að ég mun skipa í nefndina tvo fulltrúa frá sveitarfélögunum. Ég veit að það komu ábendingar þess efnis inn í þingnefndina og ég tel sjálfsagt að verða við því. Ég vil hins vegar taka það skýrt fram, af því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fór nokkuð yfir álagninguna, 10 kr. álagninguna á kg, að nefndinni er fyrst og fremst ætlað að fara yfir framkvæmdina á þessu máli. Henni verður ekki falið að gera tillögur um gjaldið heldur fyrst og fremst um framkvæmdina. Það kemur mjög skýrt fram í greinargerðinni um þessa grein. Þar kemur fram að þetta sé gert til að leysa þann vanda sem snýr að söfnun hjá sveitarfélögum. Ljóst er að gefa verður sveitarfélögum rúman tíma til að skipuleggja söfnun flokkaðs umbúðaúrgangs frá heimilum. Þessu vildi ég bregðast við.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi líka veiðarfærin. Með þessu frumvarpi er ekki á nokkurn hátt breytt fyrri ákvörðun umhverfisnefndar um að veiðarfæri flokkist undir Úrvinnslusjóðinn en hins vegar er þeim aðilum sem þetta mál snertir gefið tækifæri til þess, samkvæmt lögum, að fara í frjálsa samninga. Ef það tekst ekki þá yrði að sjálfsögðu lagt úrvinnslugjald á veiðarfæri og lagaheimild til þess fyrir hendi.

Varðandi úrvinnslugjald á ökutæki eldri en 15 ára þá er megintilgangurinn fyrst og fremst sá að þau ökutæki, sem eru orðin gömul, komi til förgunar. Það er t.d. ljóst að það þarf ekki að greiða af þeim nema einu sinni til að unnt sé að fá gjaldið.



[12:17]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þegar hæstv. umhverfisráðherra reifaði frumvarpið við 1. umr. lagði ég fram spurningar til hennar um meðferð þess úrgangs sem rekja má til sjávarútvegs, þ.e. veiðarfæra. Fram kom í frumvarpinu að enn er ætlast til þess að sjávarútvegurinn fái, eins og svo oft áður í ýmsum lögum, sérstaka undanþágu. Ég rifjaði þá upp að meira að segja þegar að því kom varðandi nýtingu úrgangs og meðferð úrgangs frá fullvinnsluskipum hefðu menn gengið svo langt að þegar kom að þeim degi sem umrætt ákvæði átti að taka gildi var það einfaldlega fellt úr lögunum til þess að vernda sjávarútveginn. Mér fannst það ekki gott.

Nú er enn og aftur verið að ívilna sjávarútveginum og hjálpa honum til þess í reynd að menga áfram, það er ekki hægt að orða það með öðrum hætti. Nú á að gefa sjávarútveginum möguleika á því sem kallað er frjálsir samningar til að ganga frá málum sínum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hafði sjávarútvegurinn ekki nægan tíma til þess að undirbúa sig undir breytingarnar? Vissi hann ekki af því að þetta var í bígerð, að dagsetningin var að renna upp? Með hvaða hætti á að grípa til aðgerða gegn sjávarútveginum ef september kemur og ekki er enn búið að ganga til frjálsra samninga um þetta eða ljúka málinu?



[12:19]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að sjávarútvegurinn vissi hvaða frestir væru í þessum málum. Hv. umhverfisnefnd ákvað á sínum tíma að taka veiðarfærin í löggjöfina. Hins vegar höfðu þeir aðilar sem málið snertir samband við umhverfisráðuneytið við undirbúning málsins og þá kom fram að þeir gætu ekki verið tilbúnir um áramótin til að fara í málið. Það þótti fyrst og fremst vera að horfast í augu við raunveruleikann sem frestunin var lögð til í frumvarpinu.

Hins vegar vona ég að þeir þurfi jafnvel ekki að nýta þann tíma. Ef ekki tekst að fara í frjálsa samninga kemur auðvitað til álagning. Það er mjög skýrt samkvæmt frumvarpinu.



[12:20]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í þessum efnum er engu líkara en sjávarútvegurinn sé eins og fríríki í ríkinu. Það kemur fram og reyndar í annað skipti í máli hæstv. ráðherra að sjávarútvegurinn lætur reka á reiðanum í þessu efni. Hann veit að sá dagur er að renna upp sem hann þarf að vera búinn að koma þessum málum sínum í lag og forsómar það. Menn geta velt því fyrir sér hvort þetta er kallaður skussaháttur, slóðaháttur eða hvort hér er einfaldlega verið að vinna í krafti reynslunnar og meðvitað verið að hleypa málum í þannig stöðu að ráðuneytið verður annaðhvort að beita hrammi sínum gagnvart greininni eða lúffa. Hæstv. ráðherra er í reynd að segja að umhverfisráðuneytið hafi í þessu efni lúffað og það er ekki í fyrsta skipti sem sjávarútvegurinn kemur fram með þeim hætti.

Við skulum gefa okkur að menn fari í frjálsa samninga. Við vitum hvað sjávarútvegurinn er tregur í þeim efnum þannig að full ástæða er til að ætla að frjálsir samningar muni ekki nást áður en þetta lokadægur, september ef ég man rétt, rennur upp. Mun þá umhverfisráðuneytið grípa til einhvers konar reglugerðar eða með hvaða hætti verður tekið á sjávarútveginum? Og til upplýsingar, ef hæstv. ráðherra veit það, hver eru viðurlögin við því ef þeir hlíta ekki þeim reglum sem eiga að gilda um þetta?



[12:22]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst málflutningur hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar nokkuð undarlegur. Málið snýst fyrst og fremst um það að á sínum tíma komu menn sér saman um að leggja úrvinnslugjald á veiðarfæri og það er enginn ágreiningur um það. Mér finnst það vera aðalatriði málsins og tel raunar að þessi mál séu í ágætum farvegi í dag því að veiðarfæri koma inn til förgunar. Það er ekki eins og þarna sé látið reka á reiðanum og allt sé í kaldakoli.

Þegar hins vegar þessir aðilar óska eftir því að gera frjálsa samninga og leysa málin sín á milli og að gildistöku lagaákvæðisins um að leggja á úrvinnslugjaldið verði frestað verð ég að segja að mér finnst það vera raunsæi að horfa framan í þann veruleika og viðurkenna hann og gefa þeim aðilum sem málið snertir svigrúm til að koma málunum fyrir með sem bestum hætti.



[12:24]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla ekki að tefja málið með löngum ræðum. Mig langar aðeins til að skýra frekar það sjónarhorn sem ég lít á þetta mál. Ég hef áður komið að því sem þingmaður og ráðherra að þurfa að takast á við sjávarútveginn þegar umhverfismál eru annars vegar. Ég hef reynslu og þeir hafa reynslu og þeir vita það sem málum stýra fyrir sjávarútveginn að ef þeir láta reka á reiðanum og standa ekki við þau ákvæði sem er að finna í lögum og reglum er komið upp það sem hæstv. ráðherra kallar veruleiki og menn eiga að horfast í augu við þann veruleika. Niðurstaðan er yfirleitt sú, ekki alltaf en yfirleitt sú að framkvæmdarvaldið lúffar fyrir hinum öfluga þrýstiaðila sem sjávarútvegur, útvegsmenn og samtök þeirra LÍÚ eru.

Við þingmenn höfum áður farið eins og halaklipptir hundar undan á flótta fyrir sjávarútveginum þegar verið var að ræða um það upp úr 1995 að skylda öll skip til að koma með lífrænan úrgang að landi. Ástæðan var tvíþætt: Í fyrsta lagi til þess að auka verðmætavinnslu úr sjávarafla sem stöðugt er að takmarkast og í öðru lagi til að koma í veg fyrir lífræna mengun í hafi. Þegar kom að því að ákvæði umræddra laga áttu að taka gildi og fullvinnsluskipin áttu að vera búin að fjárfesta í búnaði til að geta hlýtt lögunum kom í ljós að ekki eitt einasta skip hafði ráðist í þennan kostnað, ekki ein einasta útgerð hafði gert það. Það voru einfaldlega samantekin ráð hjá þessari atvinnugrein að hlíta ekki lögunum og þingið, eða sá meiri hluti sem þá var, það var nýbúið að skipta um ríkisstjórn, fór undan á flótta og auðmýkti sig og niðurlægði með þeim hætti að umræddu ákvæði var hreinlega kippt út úr lögunum.

Ég er ekki að leggja það mál sem hérna er að jöfnu. Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir að það eru þó alltént ekki deilur um að fara ber með ákveðnum hætti að þessum málum, það ber að skila inn veiðarfærum og það á að greiða gjald til að kosta förgun þeirra. Gríðarlegt magn fellur til af vöru sem hægt er að nota úr efnum sem eru mjög skaðleg umhverfinu og efnum í þannig formi að ef þeim er ekki skilað inn, ef það eru freistingar fyrir hendi til að þeim sé ekki skilað inn geta þau haft ákaflega óheillavænleg áhrif á lífríki í hafinu. Þetta liggur einfaldlega fyrir.

Nú finnst mér sem við séum aftur að sigla í þetta ástand að reglur liggja fyrir, þær eru skýrar, lögin eru á tæru en þeir sem eiga að sæta lögunum og reglunum sætta sig einfaldlega ekki við það. Þá er kominn upp það sem hæstv. ráðherra kallar nýr veruleiki eða veruleiki sem við þurfum að horfast í augu við. Gott og vel. Við skulum þá gera það. Það er vel hugsanlegt að í stöðunni sé framkvæmdarvaldið einfaldlega það veikt gagnvart því ofurefli sem birtist í samtökunum að menn beygja sig undir það. Við skulum þá ganga til frjálsra samninga við þessa menn um það hvernig á að gera þetta, en er það reglan í svona málum að menn geti einfaldlega látið hlutina dankast og sagt: Getum við ekki gengið til frjálsra samninga? Það er einfaldlega ekki þannig sem borgararnir geta yfirleitt komist hjá því að taka á sig þær kvaðir sem fylgja því sem eru umferðarreglurnar í samfélagi okkar sem felast í lögunum.

Herra forseti. Ég er fyrst og fremst með ræðu minni að leggja áherslu á að ég er mjög óánægður með málsmeðferðina. Ég ætla ekkert að fara að skaka skellum sérstaklega að hæstv. ráðherra út af málinu sem ekki hefur verið lengi í embætti. Ég er sannfærður um að hún hefur fullan vilja til að leysa það, hún kemur að stöðu sem er svona. Hins vegar vil ég lýsa því yfir af reynslu minni af því að eiga við þessi samtök að því miður er þetta plagsiður hjá þeim að haga sér svona og það kemur að því að taka þarf á þeim með þess konar hönskum að þeir finna að efnið í þeim er ekki silki.



[12:28]
Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég saknaði þess í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að hann fagnaði því að verið er að lækka gjöld um 125 millj. kr. en það kemur örugglega seinna fram í máli hans. Látum það liggja á milli hluta.

Þingmaðurinn ræddi mikið um frjálsu samningana sem tengjast sjávarútveginum. Ég verð að viðurkenna að mér þótti tónninn svolítið neikvæður svo ég taki ekki sterkar til orða. Upplýst hefur verið í nefndinni að menn vita ekki til þess að um neitt vandamál sé að ræða. Það var undir veiðarfærum að þar sé almenna reglan sú að þau ættu að skila sér til lands og vera fargað eftir þeim reglum og aðferðum sem menn telja bestar. Þar af leiðandi tel ég allra hluta vegna og hélt að ég og hv. þingmaður værum sammála um það að vilja hafa sveigjanleika í þessum hlutum eins og öðrum þó að það sé auðvitað mikið markmið hjá okkur að sjá til þess að umhverfismálin séu í sem allra besta standi. Það hlýtur að vera útgangspunktur. Það breytir því ekki að við eigum að sýna sveigjanleika þegar við erum að ná þeim markmiðum.

Eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel er þjóðfélag okkar um margt sérstakt og ekki samanburðarhæft við önnur samfélög. Við höfum haft mikinn sveigjanleika á mörgum sviðum sem hefur nýst okkur vel. Ég mundi ætla að það væri mikill kostur þegar menn geta náð markmiðum sínum með hinum svokölluðu frjálsu samningum og að ábyrgir hagsmunaaðilar gangi í það verk. Ég hélt að ég og hv. þingmaður værum sammála um það.



[12:31]
Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir ágæta umræðu. Hún er í samræmi við þá góðu vinnu sem var í nefndinni. Það kom fram hjá öllum sem hér hafa rætt málið sem og ráðherra að þetta var allt of skammur tími og það var mjög ánægjulegt að heyra að hæstv. umhverfisráðherra, Sigríður A. Þórðardóttir, mun beita sér fyrir því að við fáum þetta fyrr á næsta ári þannig að við höfum betri tíma þá til að fara yfir málið.

Það kom fram bæði hjá ræðumönnum og í nefndinni að það er mikill vilji og mikill áhugi hjá hinum ýmsu aðilum á að vera í stjórn Úrvinnslusjóðs. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi Neytendasamtökin og frjálsu félagasamtökin á vettvangi umhverfismála. Síðan komu einnig aðilar frá Félagi íslenskra stórkaupmanna og sömuleiðis Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Annars vegar vildi Samband íslenskra sveitarfélaga fá aukið vægi í stjórn sjóðsins og Félag íslenskra stórkaupmanna nefndi að það væri réttlætismál að þeir væru þar inni og einnig Félag íslenskra bifreiðaeigenda, ef ég man rétt. Þetta er því vinsæl stjórn að vera í og það er í sjálfu sér ágætt. Manni virtist vera gott samstarf á milli aðila þarna og það kom nokkuð á óvart. Hv. þm. Mörður Árnason nefndi að það væri kominn svolítið öðruvísi tónn hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga en við heyrðum þegar málið var kynnt en eins og hv. þingmaður nefndi þá er fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í stjórninni þannig að það þyrfti kannski aðeins að vera með meiri samskipti þar á milli. Hins vegar held ég að það hafi verið rétt niðurstaða hjá nefndinni að koma til móts við þær óskir sem komu fram hjá sveitarfélögunum og á sama hátt kom hæstv. umhverfisráðherra einnig til móts við óskir þeirra með því að fjölga fulltrúum þeirra í samráðsnefndinni. Maður vonast því til að sem breiðust samstaða náist um þetta og málin í heild sinni milli sveitarfélaganna og ríkisvaldsins og annarra hagsmunaaðila. Slíkt er mjög mikilvægt.

Hér var rætt mikið um veiðarfærin og hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór ásamt fleirum ágætlega yfir það mál. Ég kom að því í andsvari mínu að ég held að það skipti máli að við séum sveigjanleg í þessu. Í þessu máli eins og svo mörgum öðrum er forskriftin, og stundum er um að ræða beinar þýðingar, frá löndum sem eru kannski ekki eins og við, enda ekki mörg lönd samanburðarhæf við Ísland. Fulltrúar útgerðarmanna í nefndinni sögðu frá því að einhvern tíma hefðu verið uppi hugmyndir eða tilskipanir um að þeir skiluðu í land því sem áhöfnin skilar frá sér almennt án þess að ég lýsi því neitt nákvæmar í þessum sal. Hugmyndin var sú að þeir sigldu með það í land og færðu það yfir í dælustöðvar og dældu því síðan aftur út í sjó. Ég held að hver maður sjái af dæmi eins og þessu að það má oft fara vel yfir málin áður en menn taki þau alveg bókstaflega og er sjálfsagt að sýna sveigjanleika. Það sér hver maður í dæmi eins og þessu hversu fáránlegir hlutirnir geta orðið.

Hv. þm. Mörður Árnason fór aðeins yfir mál sem hann nefndi og fór yfir að mér skilst í fyrri umræðu varðandi ökutækin. Ég fagna því mjög að bílar eldri en 15 ára séu komnir inn í þetta, bæði sem þurfa að greiða þetta gjald og fá einnig skilagjald. Mér er alveg fyrirmunað að skilja af hverju menn höfðu ekki á sínum tíma, þegar lögin voru sett, bíla upp í 25 ára með úrvinnslugjaldi því það liggur alveg hreint og klárt fyrir að það eru þeir bílar sem eru líklegastir til þess að fara í endurvinnslu. Það er alveg furðulegt að það hafi ekki verið gert á sínum tíma en nú er það komið í lag og sömuleiðis er búið að hækka skilagjaldið. Það verður vonandi til þess að innheimtan á þessum bílum verði betri en ella en maður heyrði af því að þeir sem áttu eldri bíla áður og komu með þá í endurvinnslustöðvarnar hefðu verið mjög ósáttir við að fá ekki skilagjald og auk þess hefur maður líka heyrt af því að nokkuð sé um týnda bíla í kerfinu, og ég ætla ekki að fara nákvæmlega út í það, og þetta reki nokkuð á eftir mönnum að koma þeim til skila og koma þeim rétt fyrir í skráningu. Þeir eru stundum ekki til eins og gengur ef greiða þarf eitthvert gjald af þeim.

Eins og kom fram hjá mér í byrjun er um að ræða umtalsverðar lækkanir. Úrvinnslugjald á bíla lækkar úr 1.040 kr. í 700 kr. á ári og er lækkun upp á 63,2 millj. á ári. Úrvinnslugjald af hjólbörðum lækkar um 17% og er lækkun um 33 millj. á ári, úrvinnslugjald á rafhlöðum lækkar um 50% sem skilar sér í lækkun upp á 8,5 millj. og úrvinnslugjald af samsettum drykkjarumbúðum lækkar um 55% sem skilar sér í 19,5 millj. Samanlagt eru þetta 125 millj. Að auki hækkar skilagjald af ökutækjum um 50%. Hins vegar er lagt, eins og hér hefur komið fram, 10 kr. gjald á kílóið af umbúðum en það á ekki að hafa áhrif á viðkomandi fyrirtæki. Við fórum yfir það þar sem nú þegar er kostnaður hjá þessum fyrirtækjum við að koma þessum vörum fyrir þannig að þetta ætti að koma út nokkurn veginn á jöfnu, við fórum gaumgæfilega yfir að þetta á ekki að skila sér í hækkunum á vöruverði.

Virðulegi forseti. Þetta er búin að vera fín umræða og ég vil nota tækifærið enn og aftur og þakka nefndarfólki í hv. umhverfisnefnd fyrir gott samstarf hvað þetta mál varðar og vonast til að við megum eiga jafngott samstarf í framtíðinni í þeim skemmtilegu og spennandi verkefnum sem fram undan eru.