131. löggjafarþing — 55. fundur
 10. desember 2004.
Háskóli Íslands, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 348. mál (skrásetningargjald). — Þskj. 624.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[17:38]

Frv.  samþ. með 29:21 atkv., að viðhöfðu nafnakalli, og sögðu

  já:  ArnbS,  ÁMagn,  ÁMM,  BÁ,  BJJ,  BjarnB,  KF,  ÁMöl,  DrH,  EOK,  GHH,  GÞÞ,  GHall,  GÁ,  GunnB,  HÁs,  ÍGP,  JónK,  JBjart,  KÓ,  PHB,  SAÞ,  SKK,  SF,  SP,  StB,  VS,  ÞKG,  HBl.
nei:  ÖJ,  ÖS,  AKG,  ÁÓÁ,  JFM,  BjörgvS,  BH,  EMS,  GÖg,  GÖrl,  JÁ,  JóhS,  JBjarn,  KolH,  KLM,  LB,  MÁ,  RG,  StP,  SJS,  ÞSveinb.
2 þm. (DJ,  KHG) greiddu ekki atkv.
11 þm. (ÞBack,  EKG,  GHj,  GAK,  GÁS,  HHj,  JGunn,  KJúl,  MÞH,  MS,  MF) fjarstaddir.
5 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[17:30]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Nú fyrir stundu lauk umræðu um þetta mikilvæga mál sem staðið hefur í töluverðan tíma í þeim þremur umræðum sem að baki eru. Niðurstaðan er sú að hér er stigið stórt skref í átt að innheimtu skólagjalda á grunnnám í ríkisháskólunum, sem er alvarleg og róttæk stefnubreyting í okkar menntapólitík án þess að það hafi komið til umræðu í þingsölum sem slíkt. Þá kom það fram afdráttarlaust í svörum hæstv. menntamálaráðherra áðan að ekki stendur til að lána fyrir þessum skólagjöldum vegna þess að þau eru falin í búningi skrásetningargjalda. Feluleikurinn veldur því að námsmenn eiga ekki kost á því að fá lánað fyrir skólagjöldunum.

Ég harma eindregið að það skref sé stigið hér nú að skólagjöld séu innleidd með þessum hætti í ríkisháskólunum á Íslandi og segi því nei.



[17:32]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað ljóst að hér er um innritunargjöld að ræða (Gripið fram í: Sú var tíðin.) sem líklega voru tekin upp í tíð Alþýðuflokksins sáluga 1991 eða svo. Þessi innritunargjöld eru því ekki ný af nálinni og er nú verið að gera örlitla hækkun. (Gripið fram í: 80% síðan árið 2000.) Hér er fyrst og fremst um innritunargjöld að ræða og þarf ekki að viðhafa frammíköll eða hróp, þetta er það sem allir skilja. Þess vegna segi ég já, hæstv. forseti.



[17:33]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er verið að taka ákvörðun um að festa enn frekar í sessi töku skólagjalda við ríkisháskólana. Sú stefna í menntamálum að fjármagna skóla með nemendagjöldum er stefna sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs getum ekki stutt. Hún er reyndar hluti af skattastefnu núverandi ríkisstjórnar þar sem verið er að samþykkja verulegar skattalækkanir á hátekjufólki en því er svo náð til baka með því að leggja gjald á sjúklinga og með því að leggja gjald á nemendur.

Herra forseti. Ég mótmæli þessari stefnu og segi nei við töku skólagjalda í háskólum.



[17:34]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um skólagjöld í opinberu háskólana því þessi gjaldtaka er komin langt, langt út yfir það sem eðlilega væri hægt að setja undir eitthvað sem kallast þjónustugjald.

Við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs mótmælum þessari hækkun. Við mótmælum því að skólagjaldastefna skuli vera orðin svona ríkjandi í opinberu háskólunum og við mótmælum því að skrásetningargjald í háskólana skuli þá ekki einungis fást óskipt inn í rekstur háskólanna heldur er að hluta til enn dreginn frá fjárveitingum háskólanna stór hluti þessa gjalds. Það er á skjön við það sem rektorar háskólanna töldu sig hafa vilyrði um, enda má lesa það í frumvarpstexta að skrásetningargjöldin ættu að koma óskipt til háskólanna. En það er ekki einu sinni hægt að verða við því sem er þó eðlileg krafa opinberu háskólanna sem eru knúnir út á þessa braut vegna fjárskorts og fjárhagssveltis ríkisstjórnarinnar. Ég segi nei.



[17:36]
Steinunn K. Pétursdóttir (Fl):

Herra forseti. Hér er verið að stíga skref í þá átt að innleiða skólagjöld við ríkisháskólana. Frjálslyndi flokkurinn er þeirrar skoðunar að nám á háskólastigi eigi að standa öllum landsmönnum til boða óháð efnahag. Því segi ég nei, herra forseti.