131. löggjafarþing — 56. fundur
 10. desember 2004.
tekjuskattur og eignarskattur, 3. umræða.
stjfrv., 351. mál (skatthlutfall, afnám eignarskatts o.fl.). — Þskj. 646, brtt. 614, 658 og 659.

[21:21]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér var kunnugt um að einn eða tveir þingmenn ætluðu að taka til máls undir þessum dagskrárlið og vildi þá biðja hæstv. forseta aðeins að hinkra við þar til þeir hafa gefið sig fram. Þeir hafa kannski ekki vitað að þessari umræðu var lokið sem er nýbúin.



[21:22]
Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Við erum að nálgast lokin á umræðu um tekjuskattsfrumvarp ríkisstjórnarinnar og höfum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði gert rækilega grein fyrir stefnu okkar og afstöðu til þess frumvarps sem hér liggur fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar. Í sjálfu sér er ekki ástæða til að orðlengja þetta miklu lengur en ég ætla að draga í örfáum orðum saman kjarnann í afstöðu okkar.

Á 20. öldinni byggðu Íslendingar upp mjög kröftugt og öflugt samfélag, samfélag sem frá öndverðri öldinni var í nær stöðugri sókn. Þetta var gert með samvinnu og samhjálp þar sem félagslegar hreyfingar komu mjög við sögu, verkalýðshreyfing, samvinnuhreyfing og að sjálfsögðu sveitarfélög og ríki. En í þessu þjóðfélagi var jafnan mikið og umtalsvert svigrúm fyrir einstaklingsframtakið, eins og það er kallað. Hvar markalínan eigi að liggja á milli samfélagsreksturs annars vegar og einkareksturs hins vegar er sívakandi pólitískt álitamál. Þó hefur lengst af verið sátt um það að grunnþjónustan í samfélaginu skuli vera á hendi opinberra aðila, skólar, sjúkrahús, aðstoð við fatlað fólk, vega- og samgöngukerfi. Menn hafa verið almennt á því máli og um það hefur ríkt víðtæk sátt í samfélaginu að þetta skuli vera rekið á samfélagslegum forsendum. Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að það er hagkvæmara og ódýrara. Við höfum sýnt fram á að samfélagsrekstur sem ekki starfar í samkeppnisumhverfi er ódýrari þegar hann er rekinn á vegum samfélagsins en þegar það gerist á vegum einkaaðila. Við getum tekið um þetta fjölmörg dæmi og Ríkisendurskoðun styður málflutning okkar að þessu leyti.

Ef við tökum hins vegar samfélagsþjónustuna og vörpum henni yfir í samkeppnisumhverfið er slík þjónusta ósanngjarnari vegna þess að hún býður upp á misrétti. Slík þjónusta er rekin með þjónustugjöldum og þegar fólk þarf að kaupa sér aðhlynningu vegna sjúkdóma eða menntun handa börnum sínum er því mismunað í samræmi við þær tekjur sem heimilin hafa. Slíkt samfélag misréttis þekkjum við og höfum fyrir augunum vestan hafs, í Bandaríkjunum. Í allra síðustu tíð hefur íslenskt samfélag verið að færast í þessa áttina.

Ég hef kynnst því og þekki nokkuð vel í gegnum starf mitt í verkalýðshreyfingunni hvað er að gerast inni í þessum samfélagsstofnunum. Ég þekkti það mjög vel og kynntist því og fylgdist mjög vel með því þegar starfsfólk á Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi var að berjast gegn aðgerðum, aðhaldsaðgerðum sem svo eru nefndar þar sem skorinn var niður reksturinn, fólki sagt upp störfum og þrengt að þjónustunni.

Ég þekki það líka sem þjóðfélagsþegn og við gerum það eflaust öll sem höfum sjálf eða eigum ættingja eða vini sem hafa þurft að sækja til samfélagsþjónustunnar hvað það þýðir þegar þar er skorið niður. Hér rétt ofar í brekkunni er sjúkrahús þar sem öldruðum er sinnt. Gera menn sér grein fyrir því að á sumum deildum þar er fólkið sent heim um helgar? Hvers vegna skyldi það vera gert? Það er vegna þess að þar er fjárskortur. Það er ekki hægt að hafa deildina fullmannaða um helgar vegna þess að það skortir fé. Þess vegna er aldraða fólkið sent heim til sín, ekki vegna að sjúkrahúsið æski þess, nei, síður en svo, heldur vegna þess að það skortir fjármuni. Og þegar hæstv. landbúnaðarráðherra, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði í dag um Vinstri hreyfinguna – grænt framboð að við vildum taka peninga úr vasa eins manns og færa þá yfir í vasa annars er það rétt. Við viljum taka peninga úr vasa okkar, (Gripið fram í: Alla?) okkar sem erum heilbrigð (Gripið fram í: Alla peningana?) og færa þá yfir í vasa þeirra og til aðstoðar þeim sem á þeim þurfa að halda, sem eru sjúkir eða eiga á einhvern hátt undir högg að sækja. Þannig hefur íslenskt samfélag hugsað, og hugsað á 20. öld, ekki bara á vinstri væng stjórnmálanna, ekki bara hjá þeim sem kenndir hafa verið við félagshyggju, heldur hugsaði Sjálfstæðisflokkurinn þegar hann var upp á sitt besta einnig á þessa lund. Þar voru nefnilega oft félagsleg sjónarmið í heiðri höfð. Það er staðreynd. (Gripið fram í: … Framsóknarflokkurinn stofnaður.)

Nú er hins vegar að verða breyting á viðhorfum og ég verð að segja að mér fannst áhyggjuefni að hlusta á umræðuna í morgun, m.a. um skattafrumvarpið, og ekki síður við atkvæðagreiðsluna þar sem hver frjálshyggjumaðurinn á fætur öðrum úr Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki — ég sá engan mun á viðhorfum manna úr þessum tveimur flokkum — kom upp og lýsti yfir fögnuði og gleði vegna þess að verið væri að taka fjármuni úr krumlu ríkisins og færa þá til fólksins. Og til hvaða fólks var verið að færa þessa fjármuni? Til þeirra í samfélaginu sem búa við best efnin (Gripið fram í: Launafólksins?) á kostnað hinna sem þurfa á þessum fjármunum og stuðningi að halda inni á sjúkrastofnunum, inni á stofnunum fyrir fatlað fólk og annarra sem á aðstoð samfélagsins þurfa að halda.

Þetta er pólitíkin sem við erum að takast á um og birtist í þessu frumvarpi. Hér er afstaða og stefna Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs skýr. Við viljum fjármagna öflugt samhjálparkerfi í gegnum skatta og við höfnum stefnu ríkisstjórnarinnar, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem vilja feta sig yfir á aðrar hægri brautir.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta núna en ég spyr hvort þeir séu ekki fleiri en ég sem nú eru hugsi yfir því sem er að gerast í íslensku samfélagi vegna þess að mér finnst þetta alvarleg tíðindi. Á sínum var talað um hægri bylgju í samfélaginu. Þá gerðist það að allir flokkar nánast og flestar stofnanir samfélagsins fóru að hugsa á nýjum brautum og mér finnst það áhyggjuefni hve margir í þessum sal eru farnir að hugsa samkvæmt forskrift peningafrjálshyggjunnar. Það á svo sannarlega við þá ríkisstjórn sem stýrir okkar landi nú um stundir.



[21:31]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Í þessari umræðu hefur kristallast sá málefnalegi ágreiningur sem er milli stjórnarandstöðunnar og stjórnarflokkanna. Við í stjórnarandstöðunni hikum ekki við að segja eins og Framsóknarflokkurinn gerði á árdögum sínum að við lítum svo á að skattkerfið sé ekki bara uppspretta tekna til að kosta rekstur ríkisins heldur sé það líka tæki til þess að jafna kjörin. Þetta viðhorf einkenndi þá menn sem upphaflega beittu sér fyrir stofnun bæði Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins fyrir ákaflega löngu síðan og þeir menn sem þá voru í forustu Framsóknarflokksins hikuðu ekki við að snúa bökum saman með forustumönnum í verkalýðshreyfingunni. Hugsjón þeirra var í reynd sú að skapa sameinaða hreyfingu þeirra sem unnu með höndum og í sveita síns andlits annars vegar í landbúnaði til sveita og hins vegar við almenna verkamannavinnu í þéttbýlinu. Hugsjónin var sú að ná saman kröftum þessara tveggja skyldu en þó ólíku aðila til þess að breyta kjörum landsmanna með það fyrir augum að jafna þau.

Ég get þessa, herra forseti, í upphafi máls míns til að sýna hversu langt Framsóknarflokkinn hefur borið af leið. (Gripið fram í.) Hver hefði trúað því þegar einn af hinum ungu sonum á Brúnastöðum í Árnssýslu var að stíga sín fyrstu skref í stjórnmálum að hann ætti einhvern tíma eftir að hnýta sjálfan sig í tagl íhaldsins? Hver hefði trúað því að hæstv. landbúnaðarráðherra sem núna er einn af forustumönnum Framsóknarflokksins ætti eftir að láta leggja sig flatan til að aðstoða Sjálfstæðisflokkinn, íhaldið — forverar hans sögðu einu sinni að allt í veröldinni væri betra heldur en það — að hann væri núna einn af þeim sem mættu í fullu samræmi við veruleikann segja um að væri einn af taglhnýtingum hv. þm. Péturs H. Blöndals? Hverjum hefði dottið það til hugar að varaformaður Framsóknarflokksins ætti eftir að leggja pólitískt líf sitt og póliíska æru sína undir það að hrinda í framkvæmd öfgafyllstu viðhorfum hv. þm. Péturs H. Blöndals? (Gripið fram í: Mikill er mátturinn.)

Ég minnist þess, herra forseti, þegar hv. þm. Guðni Ágústsson var hér óbreyttur á meðal okkar í sölunum áður en honum var lyft til þeirra mannvirðinga sem Framsóknarflokkurinn og íslenskir kjósendur hafa treyst honum til. Þá galt hann varhuga við þeim viðhorfum sem í dag einkenna ríkisstjórn Íslands. Hæstv. landbúnaðarráðherra var þá einn af þeim sem jafnan voru fyrstir til að bregða brandi ef það þurfti að berjast fyrir þá sem voru minni háttar. Það var oft og tíðum glæsilegt að sjá þegar núverandi hæstv. landbúnaðarráðherra henti íhaldsmennina á lofti í glæsilegri sniðglímu og lagði þá jafnan í móðurætt. En þá var hann fullur af hugsjónum, fullur af krafti og draumum þeirra sem í árdaga ruddu brautina fyrir Framsóknarflokkinn. Í dag er hann eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hérna, hann er litla íhaldið. Hæstv. landbúnaðarráðherra og hlutskipti hans er tákn um stöðu Framsóknarflokksins í dag því að hver hefði látið sér til hugar koma að það yrði af öllum mönnum hlutskipti hæstv. landbúnaðarráðherra, bóndasonarins glæsta úr Árnessýslu, að leggjast með þessum hætti hundflatur til að verða eins konar þröskuldur, eins konar ástig fyrir hv. þm. Pétur H. Blöndal sem kemur í dag og segir að allir sínir draumar hafi ræst í dag og að veruleikinn hafi í reynd farið fram úr þeim björtustu vonum (Gripið fram í.) sem hann kvaðst hafa átt þegar hann steig hingað fyrstu skrefin inn á þing fyrir tveimur kjörtímabilum. (PHB: Ég á fullt af draumum eftir.) Hv. þm. Pétur H. Blöndal getur leyft sér þann munað að hugsa byltingarkennda drauma inn í framtíðina vegna þess að hann veit að á meðan Framsóknarflokkurinn er í þessu farinu getur hann nánast náð öllu því fram sem hann vill. En það var annar hugsjónamaður í Sjálfstæðisflokknum — ég lít svo á að hv. þm. Pétur H. Blöndal sé hugsjónamaður — það var annar hugsjónamaður í Sjálfstæðisflokknum sem hratt af stað þeirri bylgju frjálshyggjunnar sem hæstv. forsætisráðherra ásamt varaformanni sínum hafa riðið síðustu árin, því það er ekki hægt að segja annað. Þeim hefur verið fleytt til valda á öldufaldi frjálshyggjunnar vegna þess að þeir eru stjórnmálamennirnir sem hafa gert þessum æstustu frjálshyggjumönnum kleift að hrinda draumum sínum í framkvæmd í veruleika. Sá hugsjónamaður sem ég ætlaði að nefna til sögu heitir Hannes Hólmsteinn Gissurarson sem einmitt í dag að gefa út merka bók og gangi honum vel með hana. En hann var skyggnari en svo margir okkar sem sitja í þessum sölum þegar hann var að spá kristalskúlu stjórnmálanna og horfa inn í framtíðina vegna þess að hann sá fyrir þá þróun sem í dag einkennir vegferð hæstv. landbúnaðarráðherra og varaformanns Framsóknarflokksins. Hann sagði fyrir fimm árum: „Framsóknarflokkurinn á að ganga inn í Sjálfstæðisflokkinn.“ Þá hlógu nú marbendlar. Þá hló nú sá maður sem stendur hér í dag vegna þess að ég minntist þess að sjálfsögðu hvaða hönd það var sem skrifaði stefnuskrá bæði Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins. Það var hönd jafnaðarmannsins, leyfi ég mér að segja, Jónasar frá Hriflu, þess manns sem mótaði hvað sterkast stjórnmál síðustu aldar, þess manns sem sá fyrir þá draumsýn sem ég lýsti í upphafi ræðu minnar þegar verkamenn sveitarinnar og þéttbýlisins næðu saman til að hrinda í framkvæmd breytingu, til þess að jafna kjörin. Undirstaða þeirrar draumsýnar í verki var að sjálfsögðu skattkerfið sem, má segja, að hafi með vissum hætti tekið mið af átthögum hæstv. landbúnaðarráðherra og varaformanns Framsóknarflokksins því einu sinni var það þannig að hæstv. landbúnaðarráðherra gat stært sig af því að koma frá þeim einasta parti jarðarkringlunnar þar sem mannshöndin hafði í framkvæmd hrint verki sem sást utan úr geimnum, Flóaáveitunni. Þeir sögðu það stundum gömlu jafnaðarmennirnir sem hugsuðu eins og Jónas frá Hriflu að skattkerfi jafnaðarmannsins og skattkerfi samvinnumannanna, skattkerfi sem þessar tvær skyldu en ólíku hreyfingar börðust saman fyrir á síðustu öld, væri Flóaáveita sem veitti fjármagni frá þeim sem höfðu meira en nóg til að bíta og brenna til hinna sem höfðu minna, mannanna sem Jónas frá Hriflu, Jón Baldvinsson og þeir allir vildu slást fyrir hér á fyrstu áratugum síðustu aldar. Hverjum hefði komið til hugar að það yrði svo hlutskipti Framsóknarflokksins að hrinda í framkvæmd hugmyndum og hugsjónum sem alls staðar á jörðinni er búið að senda á öskuhauga sögunnar nema hér á Íslandi þar sem mönnum eins og hv. þm. Pétri H. Blöndal — og megi hann lof hafa fyrir þrautseigjuna — og mönnum eins og Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni tókst að halda neista þessarar draumsýnar á lífi? (Gripið fram í.) En það varð síðan Framsóknarflokkurinn sem blés í glæðurnar þannig að úr þessum neista logaði bál. (Gripið fram í: Er þingmaðurinn með ...?) Og það er þetta bál sem er núna að brenna upp undirstöðu þessa jöfnuðar sem áður einkenndi íslenska skattkerfið. Það er auðvitað sorglegt finnst mér. (Gripið fram í.) Mér finnst að það sé sorglegt að maður eins og hæstv. landbúnaðarráðherra, sem mér fannst áður að hefði í brjósti sér nákvæmlega sömu drauma og þrár þeirra sem vilja jöfnuð og ég og ýmsir aðrir höfðu, sé genginn í björg og orðinn að því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hérna að mætti nota orðin litla íhaldið yfir. (Gripið fram í.) Ég segi hins vegar, herra forseti: Lengi er von á einum og lengi skal manninn reyna. Menn eiga ekki að gefa upp vonina fyrr en (Gripið fram í.) allt um þrýtur. Það var hlutskipti hæstv. landbúnaðarráðherra í dag, ekki bara að greiða atkvæði með og styðja heldur að koma upp í atkvæðaskýringu og verja þær breytingar sem hv. þm. Pétur H. Blöndal taldi (Gripið fram í.) mesta fagnaðarefni frá því að hann (Gripið fram í: Tekjuskattslækkunar...) steig sín fyrstu skref í stjórnmálum og það var að afnema eignarskatt m.a. á fyrirtækjum og stóreignamönnum. (Landbrh.: Og fátæka fólkinu.) Hæstv. landbúnaðarráðherra kallar fram í: „Og fátæka fólkinu.“ Þar hefur hann rétt fyrir sér vegna þess að eitt af því sem við gerðum í dag, þ.e. meiri hlutinn — rétt skal vera rétt — var að afnema eignarskatt á því sem hæstv. landbúnaðarráðherra réttilega kallar fátæka fólkið.

Herra forseti. En fylgdu ekki fleiri með í þeirri ferð? Sem ég horfist í augu við hæstv. landbúnaðarráðherra, (Gripið fram í.) varaformann Framsóknarflokksins, þá veit ég og finn að hann skynjar að kannski urðu honum á mistök þar vegna þess að ekki voru bara eignarskattar fátæka fólksins afnumdir heldur var líka verið að afnema um leið eignarskatta fyrirtækjanna og stóreignafólksins. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar lýstum því þá að við vildum stíga skref til að koma í veg fyrir að tekjulágir aldraðir Íslendingar væru að greiða óhóflegan eignarskatt. En við vildum ekki að sú breyting yrði líka til þess að stóreignafólkið og fyrirtækin losnuðu við að greiða eignarskatt. Það var þá sem við boðuðum þá tillögu sem ég er í reynd kominn hingað til að mæla fyrir. Það er breytingartillaga frá mér, Steingrími J. Sigfússyni og Guðjóni A. Kristjánssyni einmitt um eignarskatt fátæka fólksins, um þær breytingar sem ætti í reynd að gera þannig að réttlætinu verði fullnægt. Þessi breytingartillaga sem er að finna á þingskjali 659 gerir ráð fyrir því, herra forseti, að fríeignamarkið sem var við lýði verði þrefaldað. Það þýðir í reynd að fátæka fólkið, þ.e. tekjulágir aldraðir einstaklingar sem búa í skuldlitlum eða skuldlausum eignum þurfa ekki að borga eignarskattinn. En við segjum hins vegar í anda þeirrar hugsjónar sem hv. þm. Ögmundur Jónasson lýsti svo ágætlega hérna áðan að við viljum ekki verja milljörðum í að borga líka niður eða afnema eignarskatta stóreignafólksins og fyrirtækjanna.

Við höfum þegar á síðustu árum, síðustu kjörtímabilum, þar á meðal ég, tekið þátt í því að bæta hag atvinnufyrirtækjanna. Ég sat í ríkisstjórn sem tók þátt í að lækka fyrirtækjaskatta úr 50 niður í 30%. Síðan var því haldið áfram og á síðasta kjörtímabili voru þeir lækkaðir úr 30 niður í 18%. Ég segi bara: Það er nóg. Það er búið að gera nóg fyrir fyrirtækin í landinu. Þau standa vel. Við sem sitjum í þessum sölum höfum saman tekið þátt í því að skapa umhverfi sem er þeim ákaflega farsælt og það eru ákaflega margir í þessum sölum, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, sem hafa tekið þátt í því verki. Ég segi að í staðinn fyrir að eyða milljörðum í að afnema eignarskatta á fyrirtækjum og stóreignafólki þá vil ég fara þá leið sem er að finna í þessari breytingartillögu og hafa frekar þá peninga sem til falla til að standa undir bótum og framþróun velferðarkerfisins. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að í því sé miklu meira réttlæti fólgið.

Þegar ég sagði fyrr í ræðu minni að lengi væri von á einum þá er ég innst í djúpum huga míns, herra forseti, að vonast til þess að hinn ungi stjórnmálamaður sem ég hitti hér á fleti fyrir árið 1991 sem þá var hv. þm. Guðni Ágústsson, sveitadrengurinn og bóndasonurinn að austan, brjótist skyndilega fram úr gervi hæstv. landbúnaðarráðherra og taki undir með okkur eins og hann hefði gert á vordögum 1991. Það er von mín, herra forseti.

Ég hef áður reifað viðhorf mín og flokks míns til þeirra tillagna og þess máls sem hér liggur fyrir og ég ætla ekki að taka neinn tíma til þess að skýra það frekar. En ég ætla að gleðja Framsóknarflokkinn með einu. Ég ætla að fara héðan úr ræðustól án þess að minnast á matarskattinn nema þá því aðeins að ég verði neyddur til þess í andsvörum.



[21:46]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson talar mikið um staðfestu og stefnufestu í skattamálum og ég tel slíkt mjög mikilvægt og er honum sammála um það.

Ég vildi spyrja hv. þingmann vegna þess að þetta mál varðar tvennt, annars vegar afnám eignarskatts og hins vegar lækkun tekjuskatts um 4%. Þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp, og ég man ekki betur en að Alþýðuflokkurinn sálugi hafi komið að því, voru flestir sammála um að tekjuskattsprósentan mætti ekki fara upp úr því sem þá var lagt á eða rétt um 35%. Nú er verið að ná því stefnumiði með þessu frumvarpi. Síðan var skipuð nefnd til þess að koma á fjármagnstekjuskatti. Ég man ekki betur en hv. þm. Pétur Blöndal hafi m.a. tekið þátt í henni. Þar var líka formaður Alþýðuflokksins, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson. Sú nefnd komst að þeirri niðurstöðu að taka ætti upp fjármagnstekjuskatt en afnema eignarskatt, þ.e. leggja skatt á tekjur af eignunum en ekki á eignina sjálfa. Nú er verið að koma báðum þessum stefnumiðum í framkvæmd með þessu frumvarpi, stefnumiðum sem (Gripið fram í.) Alþýðuflokkurinn barðist fyrir á sínum tíma. Og ég ætlaði að spyrja hv. þingmann: Hvað veldur þessari stefnubreytingu?



[21:48]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að biðja hæstv. forsætisráðherra að skyggnast betur aftur í fortíðina. Ég man það ekki alveg, ég verð að viðurkenna það, hvort hæstv. forsætisráðherra sat í þessari nefnd en eins og hann man var barist um niðurstöðu þeirrar nefndar fram á síðasta dag og fulltrúi Alþýðuflokksins skilaði sérstöku áliti sem ég veit að hæstv. forsætisráðherra kannast við.

Nú vil ég líka taka það alveg skýrt fram að Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn greinir auðvitað á í grundvallaratriðum í þessum efnum. Við höfum aldrei verið þeirrar skoðunar að afnema eigi allan eignarskatt af fyrirtækjum og stóreignafólki. Það hefur aldrei komið fram í stefnuskrá Samfylkingarinnar. Í stefnuskrá Samfylkingarinnar hefur hins vegar komið fram að lækka eigi matarskattinn um helming og ég vil ekki gera hæstv. forsætisráðherra það gramt í geði undir lok þingsins að fara að rifja upp hvað það er sem veldur því að ekki hefur tekist samstaða um það á hinu háa Alþingi. Ég (Gripið fram í.) vil hins vegar segja það við hæstv. forsætisráðherra að ég tel að hann sé mjög á rangri braut í skattamálum. Ég er líka þeirrar skoðunar að hann og flokkur hans hafi verið allt of leiðitamur við Sjálfstæðisflokkinn.

Ég heyri að hv. þm. Pétri H. Blöndal þykir ekki nóg gert, hann vill enn frekar undiroka og niðurlægja Framsóknarflokkinn. Ég hef satt að segja ekki hugmyndaflug til að sjá hvernig hann ætlar frekar að teyma hann til fylgilags í þessum efnum því mér finnst sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi náð öllu fram í þeim efnum sem hann vill. En ég vil segja, herra forseti, við hæstv. forsætisráðherra að ég held að áður en hann gengur til náða í kvöld eigi hann að draga fram gömlu skýrsluna um fjármagnstekjuskattinn og lesa sérálit fulltrúa Alþýðuflokksins.



[21:50]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði að Alþýðuflokkurinn gamli hafi ekki viljað fella niður eignarskatt. Það má vel vera, en hann svaraði engu um tekjuskattinn. Mér heyrist að hann sé nú á móti því að tekjuskatturinn verði svipaður og hann var þegar hann var tekinn upp í staðgreiðslukerfinu. Það er a.m.k. mikil stefnubreyting og hv. þingmaður svaraði engu um það.

Hvað varðar virðisaukaskattinn þá er það algjör hugarburður hjá hv. þingmanni að einhver ágreiningur sé um hann. Það liggur alveg ljóst fyrir að það sem er í þessu frumvarpi eru forgangsatriði ríkisstjórnarinnar og algjör samstaða um þau. Síðan var ákveðið að skipa sérstaka nefnd til að fara yfir virðisaukaskattskerfið og það mun koma til umfjöllunar á Alþingi þegar þar að kemur. Það sem hv. þingmaður heldur fram er algjör hugarburður og ég vænti þess að hann láti af því mikla hugarflugi sínu og noti gáfur sínar í eitthvað annað.



[21:51]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Greind mín er ekki meiri en svo að ég rétt næ upp í að gera mér grein fyrir veruleikanum en að fljúga ofar honum tekst mér sjaldnast.

Því miður er það svo, eins og hæstv. forsætisráðherra veit, að það er bara andstaða Framsóknarflokksins sem kemur í veg fyrir að lækkun matarskattsins hefur verið samþykkt. Það veit hæstv. forsætisráðherra auðvitað jafn vel og ég. Hann veit það jafn vel og hæstv. fjármálaráðherra sem sagði í sjónvarpsþætti við mig þegar við ræddum þetta og ég innti hæstv. ráðherra eftir því hvort það hefði ekki verið stefna Sjálfstæðisflokksins að lækka matarskattinn um 7%. Hæstv. fjármálaráðherra, hjartaprúður og ærlegur, sagði, með leyfi forseta:

„Við vildum lækka matarskattinn um 7%. Framsóknarflokkurinn vildi fara aðra leið.“ (Gripið fram í.)

Samkvæmt þessu og miðað við þær takmörkuðu gáfur sem mér eru gefnar les ég út úr þessu svari hæstv. fjármálaráðherra að Sjálfstæðisflokkurinn hafi viljað lækka matarskattinn, eins og allir aðrir í þessum sal nema framsóknarmenn, (Gripið fram í.) að það hafi verið sá flokkur sem í þessu samtali gekk undir nafninu Framsóknarflokkurinn sem vildi fara aðra leið. Þýðir það, herra forseti, nokkuð annað en að það hafi verið Framsóknarflokkurinn sem kom í veg fyrir að þetta yrði samþykkt?

Hins vegar ber að gefa hæstv. forsætisráðherra það sem hann á skilið og hann er að boða stefnubreytingu. Ég tel að hin harða andstaða Samfylkingarinnar (Gripið fram í.) og fleiri aðila úr stjórnarandstöðunni gegn þessari stefnu Framsóknarflokksins hafi leitt til þess, eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson bendir á úr sæti sínu, að flótti Framsóknarflokksins er hafinn í þessu máli. Við munum reka hann og líka í öðrum málum.



[21:53]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson er lélegur sagnfræðingur. Hann getur lesið stjórnarsáttmálann og séð hver voru forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar. Það er það sem við vorum að gera hér. Þar stendur enn fremur að endurskoða skuli virðisaukaskattskerfið út frá hagsmunum almennings. Sú vinna er farin í gang.

Ég vil enn fremur minna hv. þingmann á að Sjálfstæðisflokkurinn varð að henda þeim út í drulluga keldu 1995 vegna þess að það gekk ekki að byggja upp atvinnulíf á Íslandi með Samfylkingunni eða Alþýðuflokknum sáluga.

Ég minni hér á að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði sig úr ríkisstjórn því að hún þoldi ekki sinn eigin flokk og stofnaði nýjan. Hún gerði það vegna þess að þeir djöfluðust á sjúkrahúsunum. Þá fóru til sjúkrahúsa og heilbrigðismála 46 milljarðar af tekjum ríkisins. Í dag fara 122,5 milljarðar og við erum að gefa í á milli ára um 8 milljarða í þennan málaflokk. Þess vegna er það staðreynd að núverandi ríkisstjórn er að vinna í þágu almennings á Íslandi. Hér er verið að bæta lífskjör. Atvinnuleysið sem var þá er að mestu horfið. Hér var fátækt og erfiðleikar 1995. Þjóðin hefur verið á miklu framfarastigi.

Sannleikurinn er sá að Sjálfstæðisflokkurinn verður varla kallaður íhald og Framsóknarflokkurinn enn þá síður því að þetta eru framfaraflokkar sem standa nú og við sjónmál þegar við horfum til Evrópu er staðan sú að á Íslandi eru einhverjar bestu aðstæður í efnahagsmálum í allri Evrópu. Hér blasa við framfarir og mikil uppbygging, og ef við horfum til 2010 þá er það viðurkennt að hér verði mestur hagvöxtur. Þess vegna getum við gert þetta og ég spyr hv. þingmann: Er hann á móti (Forseti hringir.) því að tekjuskattur launþega lækki úr 38 í 34%? Hæstv. forseti. Það var alveg ljóst að það stefndi í að fara með hann í 40% af hálfu Alþýðuflokksins.



[21:56]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil það vel að varaformaður Framsóknarflokksins sé ekki glaður á þessum dagi og í allan dag hafa ræður hans á hinu háa Alþingi einkennst af því að hann er pirraður og hann er bitur og sár. Ég er líka mannlegur eins og hæstv. landbúnaðarráðherra og mér mundi líða nákvæmlega svona ef ég stæði í skóm hans. Ef ég hefði horft á hugsjónir mínar teknar og tættar í sundur með þeim hætti sem Sjálfstæðisflokkurinn, undir forustu hv. þm. Péturs H. Blöndals, hefur gert við pólitíska drauma bóndasonarins úr Árnessýslu þá mundi mér líka líða svona. Ef ég horfði til baka yfir þann feril sem hæstv. landbúnaðarráðherra á að baki með sínum flokki í þessari ríkisstjórn yrði ég heldur ekki glaður ef við blasti að á þessum tíma hefði Ísland orðið þriðja skuldugasta þjóð í heimi. Á þeim tíma frá því að Framsóknarflokkurinn tók við félagsmálaráðuneytinu er búið að plokka af íslenskum barnafjölskyldum sem svarar 10 milljörðum frá 1995 til 2003. Búið er að taka atvinnulausa þeim tökum að raungildi bóta þeirra á þessum tíma hefur verið skert sem svarar til tveggja mánaða bóta á ári.

Á þessum tíma hefur það líka gerst að í dag eru 29 þúsund Íslendingar sem eru með tekjur sem varla voru greiddir tekjuskattar af þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir steig út úr ríkisstjórn, en sá hópur borgar í dag sem svarar 2 milljörðum í tekjuskatt. Ef ég væri varaformaður hins gamla samvinnuflokks, Framsóknarflokksins, og horfði til baka og sæi yfir þetta landslag mundi mér líka líða eins og hæstv. landbúnaðarráðherra líður greinilega í kvöld.



[21:58]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sagt hefur verið að gömlu vinstri mennirnir sem voru hér á þingi og oft leiðtogar verkalýðshreyfinga, eins og Eðvarð Sigurðsson og fleiri, hafi verið svo heiðarlegir í málflutningi að ríkisstjórn sem þeir voru í andstöðu við tók mark á þeim. Þeir viðurkenndu sannleika. Þess vegna er það svo að auðvitað verður hv. þm. Össur Skarphéðinsson að viðurkenna að efnahagsástand á Íslandi er allt öðruvísi en það var í kreppunni frá 1991–1995. Ég ætla ekki alfarið að kenna Alþýðuflokknum um þá kreppu, það var kreppa og við höfum verið að byggja okkur upp frá henni. Þess vegna blasti það við 1995 þegar við fórum í hin óhreinu bæli Alþýðuflokksins til að taka til, til að viðra sængur og hengja út fatnað og umbreyta íslensku þjóðfélagi, (Gripið fram í.) að þá blasti það í rauninni við í íslenskri pólitík að ganga yrði til verulegrar skattahækkunar á almenning. Ég trúði því þá að við yrðum að hækka tekjuskattinn á launafólki svipað og hann er í Danmörku og Noregi, fara með hann úr 42% upp í 45 eða 48%.

Nú höfum við farið með hann þar sem hann var (Gripið fram í.) hæstur, sérstakur tekjuskattur, úr 47% og erum að keyra hann niður í 34%. Auðvitað sjá allir skynsamir menn og eiga að viðurkenna það að staðreyndin er sú að íslenska samfélagið er allt öðruvísi statt en það var 1995 og íslenska þjóðin hefur það tiltölulega gott. Við eigum að viðurkenna það og vera menn til þess og heiðarlegir í pólitík og segja satt. Þess vegna eiga menn að viðurkenna þær staðreyndir að það er allt annað ástand og þess vegna eru flokkarnir að ljúka þingi 10. desember. Það eru engin vandræði, aldrei fær hv. þm. Össur Skarphéðinsson lengra jólaleyfi vegna þess að efnahagsástand á Íslandi er tiltölulega gott og þessir flokkar, nú undir forustu Halldórs Ásgrímssonar, eru að leysa sín mál með þeim hætti að hér blasa við lífskjarabætur sem skipta miklu máli fyrir íslenska launþega á næstu árum. (Gripið fram í: Á það líka við um bændur?) Bændur líka, eignarskattarnir skipta þá miklu máli.



[22:00]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. landbúnaðarráðherra að Íslendingar hafa það flestir tiltölulega gott en hæstv. ráðherra veit það líka að þeir mundu hafa það miklu betra ef hann mundi hjálpa mér til að lækka matarskattinn. Hins vegar verð ég að segja að mér finnst sem hæstv. ráðherra sé ekki alveg í tengslum t.d. við veruleika láglaunafólksins í landinu. Það er því miður þannig að samfélagið hefur verið að gliðna og í því er hópur sem ekki hefur notið þessa góðæris.

Það er alveg rétt hjá hæstv. landbúnaðarráðherra líka að það var kreppa 1991–1994 og ég minnist þess alveg þegar ég steig hér inn og við héldum að við værum að sigla (Gripið fram í.) inn í gott skeið þegar þorskstofninn brast. Það má kannski segja að hæstv. ráðherra geti tekið undir með mér og Steini Steinarr og jafnvel hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni:

Ég var soltinn og klæðlaus og orti í Alþýðublaðið

og allur heimurinn fyrirleit blaðið og mig.

En við jafnaðarmenn ásamt þeim sem við störfuðum með þá lögðum að stórum hluta grundvöll að farsæld komandi ára með því að geta samþykkt aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta er viðurkennd staðreynd í dag og þá mætti kannski skoða hverjir það voru sem greiddu atkvæði gegn því. Ég ætla ekki að rifja það upp fyrir hæstv. landbúnaðarráðherra en auðvitað er aumt hlutskipti að vera landbúnaðarráðherra, sjá fram á það hvernig bændastéttin hefur því miður eða a.m.k. hluti hennar verið að sigla inn í miklu verra ástand en áður var undir forustu hæstv. landbúnaðarráðherra og þurfa að horfa framan í það að það er fyrst og fremst flokkur hæstv. landbúnaðarráðherra sem kemur í veg fyrir að hægt sé að selja meira af íslenskum landbúnaðarvörum með því að lækka matarskattinn.

Hæstv. ráðherra þarf ekkert að velta því fyrir sér hvort ég trúi eða hafi heimild um það eða ekki. Ég hef dregið annan og fínan mann til vitnis um það, hæstv. fjármálaráðherra, sem sagði það hreinlega opinberlega: Framsóknarflokkurinn vildi fara aðra leið. (Forseti hringir.)

Meira er ekki um það að segja, herra forseti.