131. löggjafarþing — 57. fundur
 10. desember 2004.
Jólakveðjur.

[22:29]
Forseti (Halldór Blöndal):

Nú er komið að lokum síðasta fundar Alþingis fyrir jólahlé. Tekist hefur eins og á síðustu þingum að ljúka þingstörfum samkvæmt starfsáætlun þingsins. Ég færi alþingismönnum öllum, svo og skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis þakkir mínar fyrir gott samstarf á haustþinginu og óska öllum gleðilegrar og sællar jólahátíðar og farsæls nýárs.

Ég ítreka kveðjur mínar til alþingismanna og starfsfólks og óska þeim sem eiga um langan veg heim að fara góðrar heimferðar og heimkomu og bið þess að við megum öll hittast heil á nýju ári.

Landsmönnum öllum sendi ég mínar bestu jóla- og nýársóskir.



[22:30]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir hönd okkar alþingismanna þakka hæstv. forseta fyrir samstarfið á haustþingi og hlý orð í garð okkar alþingismanna. Auðvitað erum við þingmenn misjafnlega sáttir við sum þau lög sem hér hafa verið samþykkt. Vafalaust er því einnig þannig farið meðal fólksins í landinu en það kemur nýr dagur og nýtt ár nýrra tækifæra. Við skulum því öll gleðjast á komandi jólahátíð og leitast við að leggja þeim lið sem á stuðningi þurfa að halda og eiga um sárt að binda svo að þeir fái einnig notið jólanna.

Ég óska forseta og fjölskyldu hans gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Þá vil ég færa starfsfólki Alþingis þakkir fyrir góða aðstoð við okkur þingmenn og ánægjulegt samstarf á árinu og óska því gleðilegra jóla. Ég bið hv. alþingismenn að taka undir góðar óskir til hæstv. forseta og fjölskyldu hans og starfsfólks Alþingis með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]



[22:31]
Forseti (Halldór Blöndal):

Ég þakka hv. 5. þm. Norðvest. hlý orð og góðar óskir í minn garð og fjölskyldu minnar og hv. þingmönnum fyrir að taka undir þau orð með því að rísa úr sætum.

Ég endurtek þakkir mínar og innilegustu jóla- og nýársóskir til hv. þingmanna og alls starfsfólks Alþingis.