131. löggjafarþing — 60. fundur
 26. janúar 2005.
Gjaldfrjáls leikskóli.
fsp. ÁÓÁ, 171. mál. — Þskj. 171.

[13:38]
Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég er að nálgast hér það brýna réttlætismál sem gjaldfrjáls leikskóli er út frá sjónarhóli félagsmálaráðuneytisins sem hefur sveitarstjórnarmál á sinni könnu. Það sem ég kalla eftir er pólitísk afstaða hæstv. félagsmálaráðherra til gjaldfrjáls leikskóla, hvort hann sé tilbúinn að beita sér fyrir því að tekjustofnar og fjármagn sé flutt til sveitarfélaga til að þau geti tryggt gjaldfrjálsa leikskóla.

Ég veit fullvel að samskipti ríkis og sveitarfélaga eru til skoðunar í nokkrum nefndum en eftir því sem ég best veit hefur umræðan þar ekki snúist um hvort ríkið ætti að flytja fjármagn til sveitarfélaga til þessa sérstaka verkefnis.

Nú eru nokkur sveitarfélög farin að huga að gjaldfrjálsum leikskóla í áföngum og má þar nefna Reykjavíkurborg. Það er hins vegar ljóst að eigi gjaldfrjáls leikskóli að verða að veruleika þarf ríkið að koma að. Það er því sérstök pólitísk aðgerð og ákvörðun að tryggja sveitarfélögum fjármagn til að ráðast í þetta verkefni. Ef hæstv. félagsmálaráðherra deilir sömu skoðun og ég um að leikskóli eigi að vera gjaldfrjáls hlýtur hann að vera tilbúinn að beita sér fyrir því á þeim vettvangi sem er til staðar.

Skólagjöld leikskólabarna sem foreldrar greiða núna eru um 2,4 milljarðar kr. Ef leikskólinn yrði gerður gjaldfrjáls yrði kostnaðurinn hærri, m.a. vegna þess að þá þyrfti að tryggja öllum börnum pláss. Sé hins vegar litið til tveggja ára barna eða eldri eru 90% þeirra nú þegar með leikskólapláss. Til samanburðar við þessa tölu má minnast á að skattapakki ríkisstjórnarinnar mun kosta samanlagt á næstu þremur árum 40 milljarða kr.

Gjaldfrjáls leikskóli er kostnaðarsöm aðgerð en hins vegar mikið réttlætismál. Með þeim 20 þús. börnum sem eru núna í leikskólum landsins eru borguð himinhá skólagjöld. Skólagjöld fyrir eitt barn geta numið nokkur hundruð þúsundum króna á hverju ári. Einn mánuður í leikskóla kostar litlu minna en eitt ár í Háskóla Íslands.

Gjaldfrjáls leikskóli væri sömuleiðis mikið jafnréttismál en sá málaflokkur heyrir einnig undir hæstv. félagsmálaráðherra. Vegna kynbundins launamunar getur sú staða komið upp að konan neyðist af fjárhagsástæðum til að yfirgefa vinnumarkaðinn gegn vilja sínum séu börnin t.d. fleiri en eitt á leikskólaaldri. Ég beini því þeirri fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra hvort það komi til greina að flytja tekjustofna og fjármagn til sveitarfélaga til að hægt sé að tryggja gjaldfrjálsan leikskóla og hvort hann sé tilbúinn til að beita sér fyrir slíku.



[13:41]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hefur beint til mín fyrirspurn um það hvort til greina komi að flytja tekjustofna og fjármagn til sveitarfélaganna til að hægt sé að tryggja gjaldfrjálsan leikskóla.

Ég vil, hæstv. forseti, byrja á því að biðjast velvirðingar á því hversu lengi hefur dregist að svara fyrirspyrjanda, líka í framhaldi af þeirri umræðu sem varð hér áðan. Að hluta til er ástæðan sú að ekki liggur beint við að málið heyri undir verksvið félagsmálaráðherra. Í raun snertir fyrirspurnin stefnu í menntamálum og ætti því kannski fremur að vera beint til hæstv. menntamálaráðherra. Hins vegar hefur komið fram að slík fyrirspurn hefur þegar verið lögð fyrir hæstv. menntamálaráðherra og því eðlilegt að ég svari því sem hér er fyrir mig lagt.

Hv. þingmaður spyr mig um skoðun mína. Ég er þeirrar skoðunar að áður en þeirri spurningu er svarað sem hér er til mín beint þurfi að svara spurningunni um það hvort stefna beri að því að leikskólinn verði að hluta til eða öllu leyti hluti af skyldunámi. Ljóst er að samhliða þyrfti þá að kanna með hvaða hætti ætti að standa straum af slíkri breytingu, hvort það yrði ríkissjóður eða sveitarfélögin eða þessir aðilar í sameiningu.

Fyrstu spurningunni hefur einfaldlega ekki verið svarað og því er tæpast tímabært að svara spurningu um flutning tekjustofna vegna breytinga sem ekki er farið að ræða, hvorki innan ríkisstjórnar né á sveitarstjórnarstiginu eins og raunar kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda. Hitt er annað mál að það er stefna míns flokks, Framsóknarflokksins, að auka gildi leikskólans í menntakerfinu. Þannig ályktaði flokksþing Framsóknarflokksins árið 2003 um það að í samvinnu við sveitarfélögin yrði komið á skólaskyldu á síðasta ári leikskólans og jafnframt stefnt að afnámi leikskólagjalda um leið og skólaskyldu yrði komið á. Flokksþingið ályktaði enn fremur að leitast yrði við að auka samstarf leikskóla og grunnskóla, m.a. til að auðvelda börnum fyrstu skrefin innan grunnskólans.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé eitt af fjölmörgum málum sem menn hljóta að hyggja að í tengslum við þá vinnu sem forsætisráðherra hefur nú boðað að sett verði af stað til að meta stöðu íslensku fjölskyldunnar í þjóðfélaginu. Mér er kunnugt um að sú vinna er að fara af stað, m.a. með atbeina félagsmálaráðuneytisins, og það verður áhugavert að fylgjast með þeirri umfjöllun sem þar mun eiga sér stað.



[13:43]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að bera fram þessa fyrirspurn. Hér er um að ræða kannski eitt stærsta hagsmunamál unga fólksins, að á þessum málum verði tekið og komið á gjaldfrjálsum leikskóla. Gjöld vegna leikskóla, sérstaklega ef um er að ræða fleiri en eitt barn, vega mjög þungt í framfærslu fjölskyldunnar.

Í þessu sambandi vil ég minna hæstv. félagsmálaráðherra á að í skýrslu um stöðu fátæks fólks á Íslandi skilaði ríkisstjórnin auðu um að nokkuð þyrfti að gera fyrir fátækt fólk. Hún lagði raunverulega fram eina tillögu og hún var sú að leikskólinn yrði gjaldfrjáls, vísaði því þar með auðvitað á sveitarfélögin. Nú mun reyna á það hvort ríkisstjórnin meinti eitthvað með þessu og hvort hún er þá tilbúin að flytja tekjustofna og fjármagn til sveitarfélaganna til þess að leikskólinn geti orðið gjaldfrjáls. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig ríkisstjórnin ætlar að efna einu bitastæðu tillöguna sem var flutt af hálfu ríkisstjórnarinnar um stöðu fátækra sem var gjaldfrjáls leikskóli.



[13:45]
Herdís Á. Sæmundardóttir (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa fyrirspurn og sömuleiðis svar ráðherra við henni. Ég tel að hér sé hreyft við grundvallarspurningu sem lýtur í raun að því hvernig eigi að fara með og hvernig eigi að skilgreina leikskólann í menntakerfinu, þ.e. hvort og þá að hve miklu leyti það á að vera skólaskylda á leikskólastiginu. Ég held að við stefnumótun sé ákaflega mikilvægt að taka fullt tillit til mikilvægis leikskólans fyrir börn. En það er sem sagt að mínu mati ekki fullrætt eða fullmótað í raun hvers konar stofnun leikskóli á að vera og ég tel mjög brýnt að leiða þá umræðu til lykta hið fyrsta.



[13:46]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég fagna bara þeirri áherslu sem hv. þingmenn hér hafa lagt á þetta eitt stærsta baráttumál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þetta var einmitt eitt af stærstu kosningamálum okkar, gjaldfrjáls leikskóli, og fínt að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson skuli einmitt fylgja þessu eftir af svona miklu afli. Ég fagna hinum góðu undirtektum sem þetta mál fær hér.

Auk þess eru allir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flutningsmenn þingsályktunartillögu um samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga um gjaldfrjálsan leikskóla, þingmál á þskj. 25., 25. mál, eitt af fyrstu málunum sem voru lögð fram á þinginu í haust en hefur ekki enn fengist rætt. Mér þykir því einsýnt af þeim miklu og öflugu undirtektum sem þetta mál hérna fær að það komist sem allra fyrst á dagskrá, þ.e. ítarleg tillaga til þingsályktunar um hvernig megi útfæra gjaldfrjálsan leikskóla (Forseti hringir.) ásamt greinargerð, þannig að við getum tekið efnislega umfjöllun um málið og þingið fengið það svo til meðferðar, herra forseti.



[13:47]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er hreyft mjög mikilvægu máli. Við vitum að fjölskyldurnar í landinu sem eru með börn í leikskóla eru að sama skapi skuldsettustu fjölskyldurnar á Íslandi þannig að sú búbót sem yrði fólgin í því að leikskólagjöld yrðu felld niður er alveg gríðarleg. Fyrir einstæða foreldra er um að ræða allt upp í kvartmilljón á ári, 250 þús., og fyrir hjón um hálfa milljón kr. Það gefur því augaleið að niðurfelling leikskólagjalda yrði mjög mikil búbót fyrir fjölskyldurnar í landinu.

Þarna er um að ræða, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, 2,4 milljarða í tekjur fyrir ríkissjóð. Þetta eru ekki þannig fjármunir að menn þurfi að setja málið í mjög margar nefndir þannig að ég hefði viljað fá skýrari svör frá hæstv. félagsmálaráðherra um skoðun hans sem félagsmálaráðherra en ekki aðila að Framsóknarflokknum eða samþykktum hans. Ég hefði viljað vita hvað honum finnst og hvort hann vilji gera eitthvað í þessum málum (Forseti hringir.) á meðan hann situr í embætti félagsmálaráðherra.



[13:48]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er skrýtið að hæstv. félagsmálaráðherra sé svona óskýr í þessu máli og þyki þetta einkanlega vera menntamál. Það er engum blöðum um það að fletta að þau börn sem ekki njóta þjónustunnar í hinum frábæru leikskólum landsins eru kannski þau börn sem af félagslegum ástæðum, hæstv. félagsmálaráðherra, þurfa helst á því að halda. Það eru börn innflytjenda, börn fólks sem ekki er á vinnumarkaði, atvinnulauss fólks, fólks á bótum og fólks í félagslega erfiðri stöðu. Það er grundvallaratriði til að halda hér félagslegum jöfnuði í landinu að við leggjum áherslu á það að ekki sé keypt forskot fyrir börnin á fyrstu árum ævinnar með hinum frábæra aðbúnaði í leikskólum landsins heldur tryggjum við öllum — já, með skyldu, hæstv. félagsmálaráðherra — aðgang að því frábæra starfi sem unnið er í leikskólunum að þroska barna á mikilvægustu mótunarárum ævinnar.



[13:49]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér á sér stað um það að stjórnvöld fari að huga að því að við förum að gera einhvern hluta af leikskólastiginu gjaldfrjálsan. Ég er á því að síðasta ár á leikskóla eigi að vera gjaldfrjálst þar sem í raun fer nú fram kennsla. Við höfum horft á það, við sem höfum farið hér um kjördæmi okkar í kjördæmaviku, að þar fer fram gríðarlega mikið starf og í raun og veru er verið að kenna fimm ára börnum margt af því sem verið er að gera í sex ára bekk í framhaldinu.

Ég tek undir það, þetta er mikilvægt mál fyrir fjölskyldurnar í landinu. Við höfum í ríkisstjórnarflokkunum beitt okkur fyrir því að minnka jaðaráhrif skattkerfisins á þær. Reyndar hefur stjórnarandstaðan ekki getað fylgt okkur stjórnarmeirihlutanum í því efni en ég tel mjög mikilvægt að skoða þetta málefni og ég fagna þessari fyrirspurn því að við þurfum að halda áfram að bæta hag fjölskyldnanna.



[13:51]
Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég verð að byrja á að lýsa talsverðum vonbrigðum með svar hæstv. félagsmálaráðherra. Hér var spurt um pólitíska afstöðu hæstv. ráðherra en hún kom einfaldlega ekki fram með nægilega skýrum hætti. Ég held að þar sem samskipti ríkis og sveitarfélaga eru einmitt í umræðunni núna sé þetta tími til að ræða hvort það sé pólitískur vilji til að gera leikskólann, sem er fyrsta skólastigið, gjaldfrjálsan. Þess vegna þarf pólitísk afstaða hæstv. félagsmálaráðherra að liggja fyrir.

Framsóknarflokkurinn segist á hátíðardögum vera flokkur fjölskyldunnar og hæstv. forsætisráðherra fór nýverið mikinn og talaði um gildi stórfjölskyldunnar. Gjaldfrjáls leikskóli væri gríðarlega mikilvægt skref fyrir fjölskyldur landsins. Fjölskyldur leikskólabarna eru iðulega sá hópur sem hefur hvað þrengstu fjárráðin. Hér er oftast um að ræða unga foreldra sem eru að koma sér upp þaki yfir höfuðið og hefja þátttöku á vinnumarkaði.

Nú er það nær almenn regla að börn fari í leikskóla enda er það orðinn eðlilegur hluti af skólagöngu hvers barns. Þessi háu skólagjöld eru því mikil tímaskekkja og ber að afnema. Samfylkingin telur að það eigi að vera hlutverk almannavaldsins að greiða kostnað við leikskóla alveg eins og það er almannavaldsins að greiða fyrir grunnskóla. En þá þyrfti ríkisvaldið að koma til móts við sveitarfélögin með tekjustofna fyrir slíkri aðgerð.

Ég vil því kalla aftur eftir pólitískri afstöðu hæstv. félagsmálaráðherra. Telur hann að leikskólinn allur eigi að vera gjaldfrjáls eða ekki og mun hann beita sér fyrir því? Ef ekki, væri fróðlegt að heyra röksemdir hæstv. félagsmálaráðherra um þann eðlismun sem hann sæi á þessum tveimur neðstu skólastigum þar sem annað þeirra er gjaldfrjálst en hitt býr við há skólagjöld.



[13:52]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrirspyrjanda fyrir að hefja þessa umræðu, og þá gagnlegu umræðu sem hér hefur orðið. Það er lýst eftir pólitískri afstöðu minni sem félagsmálaráðherra. Ég taldi, hæstv. forseti, að hún hefði komið þokkalega skýrt fram í mínu fyrra svari. Ég tel að það sé ástæða til þess að taka upp viðræður um það með hvaða hætti við viljum skilgreina leikskólann, hvort við viljum skilgreina hann sem hluta af skólaskyldu og þá þar með hljótum við að taka til umsagnar og umfjöllunar gjaldtöku í þeim skólaskylda skóla ef til kæmi og þá með hvaða hætti staðið yrði undir henni.

Eins og kom fram í mínu fyrra svari er þessi umræða rétt á fyrstu stigum. Um hugmyndina hafa ekki farið fram alvarlegar viðræður, a.m.k. ekki milli ríkis og sveitarfélaga. Það kann hins vegar vel að verða.

Ég lýsti því líka hér þaðan, hæstv. forseti, að það er stefna Framsóknarflokksins að koma á, a.m.k. á efsta ári leikskólans, skólaskyldu. Það er mín stefna líka, hv. þingmaður. Hins vegar þarf auðvitað að nást um þetta sátt, ekki bara hér á Alþingi eða í ríkisstjórn heldur við sveitarfélögin í landinu og þetta er mál sem við hljótum að halda áfram að ræða.