131. löggjafarþing — 60. fundur
 26. janúar 2005.
Gerð stafrænna korta.
fsp. JÁ, 164. mál. — Þskj. 164.

[14:09]
Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ber fram eftirfarandi fyrirspurn til umhverfisráðherra um gerð stafrænna korta hjá Landmælingum Íslands.

1. Hvaða ástæður liggja að baki því að ekki er gert ráð fyrir fé í fjárlögum til áframhaldandi vinnu við gerð stafrænna korta í mælikvarðanum 1:50.000 (IS 50V), sem er m.a. hluti af stefnumótun stofnunarinnar og árangursstjórnunarsamningi sem umhverfisráðherra hefur staðfest?

2. Hvaða áhrif hefur þessi ákvörðun á mannahald og umfang starfsemi Landmælinga Íslands ef af verður og hyggst ráðherra gera ráðstafanir til að tryggja að starfsemi Landmælinga Íslands dragist ekki saman vegna þessa?

Talsvert vatn hefur runnið til sjávar síðan þessi fyrirspurn var lögð fram. Henni var ætlað að kalla fram svör við því hvers vegna stjórnvöld hefðu svo snögglega skipt um skoðun hvað gerð stafrænna korta varðaði og hvað væri svo óskynsamlegt við þetta verkefni að það afsakaði að ríkið hlypi frá skuldbindingum sínum með þeim hætti sem boðað var. Það var og er verulega áhugavert að heyra af hverju nýr hæstv. umhverfisráðherra tók þá ákvörðun að hætta við þetta verkefni. En svo kom í ljós við frekari vinnslu fjárlaga að þessari stefnu sem nýr umhverfisráðherra hafði boðað var hafnað. Bókað er af þessu tilefni m.a. eftirfarandi við gerð fjárlaga:

„Veitt er 14 millj. kr. framlag til Landmælinga Íslands til að viðhalda IS 50V kortagrunni sem gerður hefur verið af öllu Íslandi. Ríkisstjórnin ákvað árið 1998 að hrinda IS 50V verkefninu af stað vegna mikilvægis þess fyrir kortagerð af landinu. Gerð kortagrunnsins hefur verið stærsta verkefni stofnunarinnar í sex ár og er hann nú hryggsúlan í allri kortagerð stofnunarinnar.“

Ljóst er að stofnunin hefur fengið fjármuni og viljayfirlýsingu Alþingis til áframhaldandi vinnu við þetta verkefni en líka að verulegur samdráttur verður vegna lækkunar fjárheimildanna. Í ljósi þessarar atburðarásar verður að gera þá kröfu til hæstv. ráðherra að hún geri grein fyrir vilja sínum hvað þennan kortagrunn varðar. Vill ráðherrann eins og tillagan í frumvarpi til fjárlaga bar með sér að hætt verði við þetta verkefni og þá hvers vegna? Tók fjárlaganefnd kannski ráðin af hæstv. ráðherra í þessu máli eða hefur hæstv. ráðherra skipt um skoðun og ætlar hún þá að styðja stofnunina í því að halda þessu verkefni áfram?



[14:12]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Árið 1999 samþykkti ríkisstjórn Íslands að gert skyldi átak í kortagerð af Íslandi og veitti til þessa verkefnis Landmælingum Íslands 30 millj. kr. árlegri fjárveitingu í fimm ár til að ljúka gerð stafrænna korta í mælikvarðanum 1:50.000. Þessi ákvörðun var tekin um svipað leyti og stofnunin var flutt á Akranes. Var leitað eftir sérstakri aðstoð bandarískra yfirvalda við að útvega eldri kortagögn til að draga úr kostnaði við verkefnið.

Fyrstu útgáfu kortagrunns af öllu Íslandi í mælikvarðanum 1:50.000 lauk á árinu 2003 og var útgáfa hans kynnt á ráðstefnu í árslok sama árs. Markaði sá áfangi stórt skref í kortagerð hér á landi. Eru nú yfir 100 áskrifendur að kortagrunninum auk þess sem hann er grundvöllur nær allrar kortagerðar Landmælinga Íslands.

Fyrsta útgáfa IS 50V kortagrunnsins inniheldur stafræn gögn af öllu landinu í sjö lögum, hæðarlínur, vatnafar, mannvirki, samgöngur, mörk, yfirborð og örnefni. Hafin er vinna við endurskoðun og endurnýjun þeirra gagna sem í grunninum eru og því er mikilvægt að áfram fáist fjárveiting til þessa verkefnis. Þegar hafa verið teknar ákvarðanir um kaup á gervitunglamyndum af landinu öllu í samstarfi við um 15 stofnanir og fyrirtæki. Einnig er í undirbúningi útboð á nýju hæðarlíkani af landinu öllu í samstarfi við átta ríkisstofnanir auk Landsvirkjunar.

Þeim verkáfanga sem ákveðið var að ráðast í á árinu 1999 er lokið og þar með þeirri tímabundnu fjárveitingu sem þá var ákveðin til verksins. Hins vegar hafa Landmælingar Íslands frá upphafi lagt áherslu á nauðsyn þess að uppfæra hinn nýja stafræna kortagrunn og var óskað eftir fjárveitingum til þess verks og veittar á fjárlögum ársins 2005 14 millj. kr. til verksins sem umhverfisráðherra studdi við að fengist. Sú fjárveiting, 14 millj. kr. sem fengust á fjárlögum árið 2005, er u.þ.b. helmingi lægri upphæð en Landmælingar telja sig þurfa til uppfærslu og viðhalds IS 50V kortagrunnsins og því er ljóst að þetta mun hafa einhver áhrif á mannahald hjá stofnuninni til framtíðar. Landmælingar Íslands munu endurskipuleggja og forgangsraða verkefnum hjá sér í kjölfar þessa þar sem ljóst er að IS 50V er kjarnaverkefni og að sjálfsögðu gæti dráttur í uppfærslu kortagrunnsins haft áhrif á notkun hans.



[14:16]
Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna orðum hæstv. ráðherra vegna þess að ég sé ekki ástæðu til að halda að hæstv. ráðherra hafi uppi þá stefnu að leggja starfsemina af — eins og kom fram í tillögum til fjárlaga, því það var ekkert annað fram undan en að hætta þessu starfi sem þarna var á grundvelli þeirra fjárveitinga sem þar var lagt til að yrðu til ráðstöfunar. Það er þess vegna mjög mikilvægt að vita að hæstv. ráðherra telur nauðsyn á að halda starfinu áfram.

Það er auðvitað áhyggjuefni ef stofnunin hefur ekki möguleika á að standa þannig að verki að þetta nýtist að fullu og hægt sé að halda gögnunum í því horfi sem best henta þeim sem þau þurfa að nota. En það er eitthvað sem kannski stendur til bóta. Það sem mér finnst skipta mestu máli er að hæstv. ráðherra er hér að eyða þeirri óvissu sem var yfir því að starfseminni yrði haldið áfram. Það er nefnilega uppi gagnrýni á þetta verkefni frá aðilum í samfélaginu og efasemdir um hvort á verkefninu sé virkilega þörf. En hæstv. ráðherra hefur greinilega ekki tekið þær röksemdir gildar og telur að starfsemin eigi að halda áfram og kortagrunnurinn eigi að verða til í framtíðinni og ég fagna því.



[14:18]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Hún var sett fram á þeim tíma þegar ekki var ljóst hvort fjárveiting fengist í verkið. En við erum svo sannarlega sammála um að hér er um mjög mikilvægt og merkilegt verkefni að ræða sem þarf að gera stofnuninni kleift að annast áfram með myndarlegum hætti.