131. löggjafarþing — 63. fundur
 31. janúar 2005.
Gjaldfrjáls leikskóli, fyrri umræða.
þáltill. SJS o.fl., 25. mál. — Þskj. 25.

[17:28]
Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga um gjaldfrjálsan leikskóla. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að skipa nefnd sem fái það verkefni að undirbúa og annast viðræður við sveitarfélögin um sameiginlegt átak þeirra og ríkisins um að gera leikskóladvöl gjaldfrjálsa í áföngum. Nefndin verði skipuð fulltrúum allra þingflokka og fulltrúa frá fjármálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti og Félagi leikskólakennara auk formanns sem félagsmálaráðherra skipi án tilnefningar.“

Hér er um endurflutta tillögu að ræða sem einnig var lögð fram á síðasta þingi en varð þá ekki útrædd. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum gert þetta mál að sérstöku baráttumáli okkar. Við gerðum þetta að kosningastefnumáli við alþingiskosningar 2003. Þetta er veigamikill hluti af velferðar-, uppeldis- og menntamálastefnu okkar. Félagsmálanefnd hafði málið til skoðunar á síðasta þingi í framhaldi af 1. umr. og sendi málið út til umsagnar og þær sem nefndinni bárust voru yfirleitt jákvæðar. Tekið var vel í meginefni tillögunnar en eðlilega lögðu umsagnaraðilar og ekki síst sveitarfélögin áherslu á að þau þyrftu að fá fullnægjandi tekjustofna ef takast ætti að ráðast í verkefnið.

Það hefur að sjálfsögðu verið ætlun okkar flutningsmanna allan tímann, samanber þá greinargerð sem fylgdi tillögunni upphaflega. Það er ástæða til að leggja áherslu á þann þátt og undirstrika hann í ljósi bágrar afkomu sveitarfélaganna og síst batnandi um þessar mundir.

Það er ánægjulegt til þess að vita að hreyfing er að komast á þessi mál a.m.k. hjá tveimur sveitarfélögum sem mér er kunnugt um. Búið er að stíga fyrstu skrefin í þá átt hjá Reykjavíkurborg þar sem ákveðið skref í áttina að gjaldfrjálsum leikskóla var tekið frá og með 1. september sl. Síðan þá hafa öll fimm ára börn átt kost á þremur tímum á dag endurgjaldslaust og þetta geta menn séð ef þeir líta í fylgiskjal með tillögunni þar sem gjaldskrá Leikskóla Reykjavíkur er birt og kemur skýrt fram að verð fyrir fyrstu stundirnar hjá fimm ára börnum er mun lægra en annar hluti gæslunnar.

Ég veit einnig til þess að sveitarfélagið Fjarðabyggð var með tillögur í þessa veru í fjárhagsáætlun sinni. Ég náði því miður ekki að fylgjast með framvindu málsins eða kanna það í dag fyrr en eftir að búið var að loka bæjarstjórnarskrifstofum þar eystra, hvort þetta hafi ekki orðið að veruleika, sem ég treysti að sé, og þá eru a.m.k. tvö sveitarfélög beinlínis lögð af stað inn á þessa braut. Þau eru væntanlega fleiri án þess að mér sé kunnugt um og auðvitað veit ég að þessi mál hafa verið rædd víðar og um þau hugsað og um þau skrifað, einhverjir sveitarstjórnarmenn í Kópavogi munu hafa haft hugmyndir uppi í þessa veru fyrir nokkru.

Einnig má minna á að í Svíþjóð varð þetta að stóru og miklu kosningamáli við síðustu alþingiskosningar og vinstri flokkarnir þar, sem héldu völdum í landinu, lögðu m.a. áherslu á þetta sem velferðar- og fjölskyldumál og lögðu til grundvallar þeim áherslum sínum að bjóða ekki upp á skattalækkanir í aðdraganda kosninga þar í landi, öfugt við það sem við máttum búa við, heldur þvert á móti hið gagnstæða að byggja málflutning sinn á því, þ.e. sósíaldemókratar og vinstri flokkurinn og væntanlega græningjar einnig, að áform þeirra stæðu til þess að efla velferðarkerfið og halda til þess óbreyttu skattstigi, halda inni þeim tekjum sem ríki og sveitarfélög um þessar mundir, nota þá ávinninginn til þess að efla velferðarsamfélagið, t.d. með því að hefja þróun í átt að gjaldfrjálsum leikskóla. Nú eru fyrstu skrefin komin til framkvæmda í þessum efnum og þar er um að ræða í raun og veru samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga svipað og hér er lagt til.

Það er nokkuð um liðið síðan leikskólinn var viðurkenndur sem fyrsta skólastigið og þegar af þeirri ástæðu er auðvitað eðlilegt að menn taki þessa hluti til skoðunar. Það er órökrétt og ekki nein sérstök rök fyrir því að menn skuli borga dýr gjöld fyrir dvöl barna sinna á leikskóla sem síðan falli niður þegar komið er upp á næsta skólastig, þ.e. upp í grunnskólann, þegar búið er að skilgreina leikskólann að lögum sem skóla, setja honum námskrá og gera kröfur til hans beinlínis um fræðsluhlutverk eins og gert er. Það er mat Félags leikskólakennara að um sex tíma þurfi á dag ef vel eigi að vera, sex tíma leikskólagöngu án endurgjalds, ef hægt eigi að vera á þeim tíma að fullnægja svo sómi sé að því hlutverki sem leikskólunum er falið með aðalnámskrá, sinna öllum þeim námssviðum sem þar eru tekin fyrir, þ.e. hreyfingu, málrækt, myndsköpun, tónlist, náttúru, umhverfi, menningu, samfélagið o.s.frv.

Það er ljóst að niðurfelling leikskólagjalda yrði gríðarleg kjarabót fyrir fjölskyldur með ung börn og sú kjarabót skilar sér beint til fjölskyldna sem flestir eru sammála um að séu í mikilli þörf fyrir betri aðbúnað og afkomu. Tekið yrði skref í áttina til fjölskylduvæns samfélags og yngstu foreldrarnir, þeir hinir sömu og eru að koma sér fyrir í lífinu, leysa t.d. húsnæðismál sín, fengju þarna verulega kjarabót.

Mánaðarleg leikskólagjöld eru nú víðast hvar um og yfir 30 þús. kr. fyrir fyrsta barn fyrir níu tíma á dag. Þannig borga fjölskyldur með tvö börn á leikskóla gjarnan um 50 þús. kr. á mánuði miðað við að systkinaafsláttur sé 30–35% með öðru barni, og dæmi eru um að fjölskyldur með þrjú börn séu að borga allt að 60 þús. kr. á mánuði, ein og sama fjölskyldan, fyrir þrjú börn í leikskóla og er þá gengið út frá því að systkinaafsláttur með þriðja barni sé 75%. Það er augljóst mál að slík fjölskylda þarf miklar viðbótartekjur á mánuði hverjum eða um 100 þús. kr. fyrir skatta til þess að standa straum af slíkum útgjöldum.

Það er að sjálfsögðu óumdeilanlegt að hér væri á ferðinni mikið jafnaðar- og jafnréttismál. Þetta mundi jafna mjög aðstöðu fjölskyldnanna í landinu að tryggja öllum börnum leikskóladvöl án tillits til efnahags. Það er sérstök ástæða til að huga að stöðu nýrra Íslendinga. Kannanir liggja fyrir sem sýna að þar er tilhneigingin ríkari en annars staðar til að spara sér þessi útgjöld eða af einhverjum ástæðum senda slíkar fjölskyldur ekki börn sín í leikskóla og það eru þó þau sem kannski hefðu meiri þörf fyrir það en öll önnur að kynnast jafnöldrum sínum og aðlagast umhverfi sínu.

Það er auðvitað ljóst að til þess að þetta takist þarf að nást gott samstarf ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin þurfa að sjálfsögðu fjármuni til að standa straum af þessu verkefni, ekki bara rekstrarkostnaði heldur líka þeim stofnkostnaði sem óhjákvæmilegt er að ráðist yrði í til þess að haldist gætu í hendur réttur foreldranna til leikskóladvalar án endurgjalds fyrir börnin og skyldur sveitarfélaganna þá til að uppfylla þörfina eða sjá fyrir henni. Þessu eiga menn að mínu mati ekki endilega að blanda saman við spurninguna um skólaskyldu eða ekki skólaskyldu í þessu samhengi. Það í sjálfu sér getur meðhöndlast sem sjálfstætt mál þó að auðvitað hnígi mörg rök til þess að afgreiða það í einu og sama laginu. Við leggjum málið þannig upp að þetta yrði gert í áföngum svipað og þróunin hefur orðið hjá þeim sveitarfélögum sem eru lögð af stað, t.d. með því að gera síðasta árið eða fastan tímafjölda á degi hverjum á síðasta árinu hjá fimm ára börnum gjaldfrían fyrst o.s.frv.

Hitt er alveg ljóst að möguleikum sveitarfélaganna til að gera stóra hluti í þessum efnum eru afar þröngar skorður settar, aðstaða þeirra er misjöfn þannig að eigi að takast að gera þetta almennt verður að takast það samstarf ríkis og sveitarfélaga sem við erum hér að leggja til.

Þá er komið að tekjunum. Ljóst er að kostnaður sveitarfélaganna vegna dagvistunar er umtalsverður. Hann losaði 11 milljarða kr. árið 2002 og á móti eða upp í þann kostnað eru tekjur sem nema um 2,8 milljörðum, rétt um 25%. Þess ber að geta að á þessu ári eru komnar til framkvæmda breyttar reikningsskilaaðferðir hjá sveitarfélögum þar sem húsnæðiskostnaður er reiknaður inn sem hluti af útgjöldum í þessum málaflokki og það hækkar nokkuð tölurnar og veldur því að tekjurnar sem hlutfall af heildarútgjöldum falla úr u.þ.b. 30%, eins og þær voru mjög víða áður, í nær 25%. Ekki þarf að deila um það að sveitarfélögin eru ekki aflögufær miðað við afkomu sína núna og alveg ljóst að ríkið þarf að koma til sögunnar með því að opna sveitarfélögunum frekari tekjumöguleika en nú er og/eða með því að létta af sveitarfélögunum gjöldum. Við leggjum til að það verði skoðað að ríkið yfirtaki að öllu leyti greiðslu húsaleigubóta. Þar með yrði hægt að samræma vaxtabætur og húsaleigubætur í einum málaflokki innan skattkerfisins sem hefur einmitt verið stefna okkar.

Ég minni á tillögur okkar í skattaumræðunni frá því fyrir áramót þar sem við lögðum til að sú prósenta í tekjuskatti sem þá var lækkuð færðist yfir í útsvarsheimildir sveitarfélaga. Þá með einni slíkri aðgerð væri meira en séð fyrir þeirri þörf sem sveitarfélögin hafa til að mæta útgjöldum af þessu tagi.

Það er að mínu mati enginn vafi að færa má margvísleg frekari rök en þau sem eru félagslegs, menningarlegs og menntunarlegs eðlis og snúa að jöfnuði og jafnrétti í landinu fyrir þessari tillögu. Ég tel auðvelt að færa fyrir því rök að þjóðhagslega væri um brýnt hagsmunamál að ræða. Það er vel þekkt að góð stoðþjónusta, undirstöðuþjónusta af þessu tagi er mikils metin þegar kemur að því að skoða umhverfi t.d. fyrir atvinnurekstur. Forsvarsmenn slíkra fyrirtækja eða þeirra sem sérhæfa sig í að veita ráðgjöf varðandi val á staðsetningu fyrir atvinnulíf horfa mjög gjarnan einmitt til þess hvernig stoðþjónustan er og ekki síst við ungt fjölskyldufólk sem er það vinnuafl sem menn eru gjarnan á höttunum eftir þegar þeir eru að setja af stað nýja atvinnustarfsemi. Þjóðhagslega er það því víðast hvar viðurkennt að í því felist mikið hagræði að hafa öfluga leikskóla og auðvitað skóla og aðra þjónustu, það geti leitt til aukinnar framleiðni og betri og meiri samkeppnishæfni í atvinnulífinu. Það væri fróðlegt fyrir menn að fylgjast með umræðum, ef þeir gera það ekki nú þegar, sem fram fara í Noregi einmitt um þessar mundir þar sem er tekist mjög á um mismunandi stefnur í leikskólamálum, þar sem annars vegar eru heimgreiðslur norskra hægri manna sem hafa hrint í framkvæmd þeim gamla draumi íhaldsins hér að borga fólki, og mæðrum þá fyrst og fremst, fyrir að vera heima með börnin sín, og síðan aftur þeir sem eru meira félagslega þenkjandi og vilja berjast fyrir því að allir eigi kost á leikskóladvöl og nota þá gjarnan sem rök það þjóðhagslega óhagræði sem í hinu kerfinu er fólgið, hvað sem menn vilja síðan segja um það félagslega og uppeldisfræðilega.

En að okkar mati er að sjálfsögðu ekki nokkur minnsti vafi á því í öllu falli að það væri gríðarlega stórt framfaramál að þessi kostur stæði öllum til boða og í leiðinni eru menn þá að ná fram þeim félagslegu, menntunar- og uppeldislegu markmiðum sem þessu eru samfara og ég vék að áðan.

Virðulegi forseti. Ég vona að tillagan fái efnislega afgreiðslu á þessu þingi í ljósi þess að málið var sent út til umsagna á síðasta þingi, þær liggja fyrir, og það er flutt hér óbreytt. Hvað tillögugreinina snertir sé ég nú ekki annað en að Alþingi ætti að geta haft sig fram úr því á þessum vetri að afgreiða málið. Það á fullt erindi inn í þá endurskoðun samskipta ríkis og sveitarfélaga sem sumpart er uppi einmitt um þessar mundir og það væri að mínu mati ankannalegt ef framfaramál af þessu tagi kæmist ekki einu sinni á dagskrá í þeim viðræðum ríkisvalds og sveitarfélaga sem þó eiga að heita að standi yfir og tengjast tekjulegum samskiptum þeirra og breyttri verkaskipan o.s.frv.

En fyrst og síðast er þetta mál flutt af okkar hálfu, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem framfaramál sem liður í að byggja upp, efla og bæta það samábyrga velferðarsamfélag og fjölskylduvæns samfélag sem við viljum sjá þróast á Íslandi.



[17:43]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að ég lýsi yfir stuðningi við þetta mál í megindráttum og er á þeirri skoðun eins og 1. flutningsmaður að hér sé um að ræða framfaramál sem sé eitt af þeim stórverkefnum sem samfélagið eigi að ráðast í á næstu missirum. Ég held að það sé mikið sanngirnismál og þjóðhagslega hagkvæmt að forgangsröðun væri þannig háttað hjá okkur að við mundum ráðast í stórverkefni eins og þetta í stað þess t.d. að ráðast í tekjuskattslækkanir fyrir þá sem langhæst hafa launin í landinu og hafa enga sérstaka þörf á þeim skattbreytingum. Ég held að það væri miklu sanngjarnara og meira áríðandi fyrir okkur að setja peningana í að rétta hag sveitarfélaganna með þeim hætti og fara í samninga við þau þannig að í áföngum væri tekinn upp gjaldfrjáls leikskóli eins og þetta frumvarp kveður á um.

Málið snertir þann hóp sem hefur langminnst umleikis í samfélaginu. Fólk sem er að mennta sig, koma sér upp húsnæði, koma upp börnunum sínum og allt á sama tíma. Þetta er kjarabót og sanngirnismál sem í mínum huga er jafnstórbrotið í sjálfu sér og fæðingarorlofsmálið á sínum tíma. Ég held að þetta væri álíka réttlætismál fyrir fjölskyldurnar, unga fólkið og barnafólkið í landinu. Það mætti líkja því við það mikla réttlætismál sem fæðingarorlofið var og þær miklu framfarir sem það hafði í för með sér.

Fólk með tvo til þrjú börn á leikskólaaldri er í þeirri stöðu að í mjög mörgum tilfellum borgar sig ekki peningalega að báðir foreldrar séu á vinnumarkaði. Annað finnur sig því knúið til að vera heima hjá börnunum í stað þess að setja þau á leikskóla. Í því getur að mínu mati falist tvenns konar ranglæti. Annars vegar eiga öll börn rétt á leikskólagöngu, óháð efnahag foreldranna. Hins vegar eiga foreldrarnir, hvort sem um er að ræða karlinn eða konuna — konan lendir oftar í því að vera heimavinnandi en karlinn — rétt á að geta haldið starfsferli sínum áfram og þurfa ekki að standa frammi fyrir því að þurfa að segja upp starfi sínu eða gera hlé á starfsferli sínum þegar hann er á hvað viðkvæmustu stigi. Þetta er gjarnan fólk sem er að hefja störf í samfélaginu, nýbúið að fá vinnu sem það hefur áhuga á að sinna og hefur áhuga á að ná árangri, sem það vill helga fyrstu ár starfsferils síns. Það getur neyðst til að fara af vinnumarkaði af því að það hefur ekki efni á því að vista börn sín á leikskóla.

Í þessu felst að mínu mati ranglæti sem er ekki hægt að sætta sig við. Það á að verða eitt af stóru markmiðunum á næstu árum að ráðast í það í áföngum að leikskólinn verði gjaldfrjáls. Það er enginn vafi á því að ef stjórnvöld bera gæfu til að rétta hlut sveitarfélaganna og snúa frá því ranglæti sem ríkir í tekjuskiptingunni þar og hefur að mörgu leyti komið í uppnám því sjálfsagða ferli sem ætti að eiga sér stað og líta dagsins ljós í vor þegar mörg sveitarfélög sameinast, þegar sveitarfélögunum fækkar og þau stækka. En miðað við framgangsmáta stjórnvalda virðast þær tillögur sem fram komu hjá hæstv. félagsmálaráðherra á sínum tíma vera í uppnámi. Fátt bendir til að sú mikla sameining verði sem að var stefnt. Ég held að það sé mjög áríðandi að sveitarfélögunum fækki verulega og þau sameinist. Þau verði öflugri og til þess bær að takast á við stór verkefni, hvort sem er á sviði heilbrigðis- eða félagsmálaþjónustu eða menntamála.

Hér er um að ræða mál sem kemur bæði inn á félagsmál og menntamál. Öll börn ættu að hafa aðgang að leikskóla óháð efnahag foreldranna. Ég tel að í mörgum tilfellum sé það stór þáttur í menntun barnanna að þau fari á ákveðnum aldri í leikskóla. Ég held að þau hafi gott af því og það sé orðinn það ríkur þáttur í heildarmenntuninni, frá leikskóla og upp í háskóla, að öll börn séu á leikskóla einhvern tíma ævi sinnar, einhverjar klukkustundir á dag, eins og ágætlega er rakið í tillögunni, að hér sé um að ræða bæði félagslegt og menntunarlegt framfaramál sem verði ekki litið fram hjá.

Ég held að enginn efist um þjóðhagslegt hagræði af því að foreldrar geti vistað börn sín á gjaldfrjálsum leikskóla. Ég er viss um að það sé hægt að reikna samfélaginu mikinn hag af því að þeir geti verið á vinnumarkaði sem kjósa að vera á vinnumarkaði og samfélagið og einstaklingar þurfi ekki að bíða skaða af því að fjöldi fólks þurfi að hætta að vinna af því að það hafi ekki efni á að veita börnum sínum þau réttindi að ganga í leikskóla.

Ég vona að þetta mál, hvort sem það verður með þingmálinu sem við ræðum um hér eða í öðru formi, nái fram að ganga á næstu árum. Ég er viss um að þegar þessi ríkisstjórn fer loksins frá og jafnaðarmenn og vinstri menn komast til valda þá verði eitt af stóru verkefnunum að gera leikskólann gjaldfrjálsan í áföngum, um leið og menn rétta hag sveitarfélaganna og koma á einhverri sanngirni í samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Hér er um að ræða upphæðir sem skipta hundruðum þúsunda á ári og er jafnvel á aðra milljón í tekjum á ári sem fólk þarf að afla aukalega til að standa straum af kostnaðinum. Það eru mjög háar fjárhæðir í þessu samhengi. Þegar við lítum á skólastigið allt, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla, þá hlýtur að stinga í stúf að öll skólastigin og háskólinn, ríkisháskólarnir á grunnstigi, séu svo til gjaldfrjálsir á meðan fólk borgar hundruð þúsunda á ári fyrir vistun barna sinna á leikskólum. Það er að mínu mati ranglátt og röng forgangsröðun. Það er engin leið að réttlæta það að öll hin skólastigin séu gjaldfrjáls þegar fólk þarf að borga tugi þúsunda eða hundruð þúsunda á ári fyrir leikskólagöngu barna sinna. Eins og samfélagið hefur þróast eru engin rök fyrir þessu lengur.

Samfélagsgerðin á að mínu mati að sjá til þess að öll börn, óháð efnahag, geti sótt leikskóla. Hitt er annað mál, hvernig reiðir af með skólaskylduna og hvar menn vilja draga mörkin þar, hvort það eigi að breyta henni eða færa neðar. Það er í sjálfu sér önnur umræða og ekki víst að það sé svo áríðandi. En í þessu felst, eins og ég segi, veruleg kjarabót fyrir barnafólk í landinu, réttlætismál sem kemur bæði við réttindi barna og réttindi foreldra, að þurfa ekki að hætta að vinna og gera hlé á starfsferli sínum.

Ég styð því þetta mál. Það verður gaman að fylgjast með umræðunni um það í samfélaginu. Þetta hefur áður komið upp í sveitarstjórnarkosningum og alþingiskosningum, hjá bæði vinstri mönnum og jafnaðarmönnum. Það er vonandi að málið nái fram að ganga á næstu missirum og verði eitt af þeim verkefnum sem við ráðumst í frekar en að fara í ranglátar skattalækkanir fyrir efnafólk í landinu sem eiga engan rétt á sér.



[17:51]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við í Frjálslynda flokknum tökum mjög jákvætt í þessa tillögu. Við gerum það m.a. á grundvelli þess sem fram kom í skýrslu ASÍ, „Velferð fyrir alla“, í síðustu kosningabaráttu. Þar var bent á að hluti barnafjölskyldna byggi við kröpp kjör og einmitt þessi aðgerð getur orðið til að rétta hluta barnafjölskyldna. Ég tel því að það eigi að skoða tillöguna með mjög opnum huga.

Ég býst jafnframt við að því að meiri hluti sé fyrir tillögunni á Alþingi. Ég merki það m.a. á því að hæstv. forsætisráðherra flutti mjög efnismikla áramótaræðu þar sem mikið fór fyrir áhuga hans á fjölskyldumálum. Ég er í raun hissa á að sjá hann ekki í salnum, vegna áhuga hans á fjölskyldumálum, að hann sé ekki hér til að taka þátt í umræðunni. Menn hafa lýst yfir furðu yfir því að hinir og þessir væru ekki viðstaddir umræðuna en ég er furðu lostinn yfir því að sjá ekki hæstv. forsætisráðherra við þessa umræðu.

Fari maður yfir stefnuskrá Framsóknarflokksins þá er einmitt tekið undir þetta sjónarmið og í ályktun flokksþings Framsóknar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Í samvinnu við sveitarfélögin verði komið á skólaskyldu á síðasta ári leikskólans og jafnframt stefnt að afnámi leikskólagjalda um leið og skólaskyldu verði komið á. “

Ég tel að þessi ágæta tillaga eigi mikinn hljómgrunn hér á hinu háa Alþingi. Það er einnig rétt að fara rækilega yfir þetta mál vegna þess að fréttir hafa borist af því að ójöfnuður hafi aukist í samfélaginu. Það kom m.a. fram í fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra. Hann staðfesti að ójöfnuður hefði aukist. Þess vegna er rétt að skoða hvernig sá ójöfnuður hefur bitnað á barnafjölskyldum landsins. Ýmislegt bendir til þess, eins og fram kom í skýrslu ASÍ, að barnafjölskyldur búi við kröpp kjör.

Ég tel að framsóknarmenn ættu að grípa þessa tillögu á lofti og veita henni brautargengi. Samt sem áður er maður ekki allt of bjartsýnn. Hér hafa komið fram ýmsar aðrar tillögur og stefnumál sem Framsóknarflokkurinn hefur gert lítið með. Nokkrum línum ofar í áðurnefndri ályktun kemur fram að almenn skólagjöld verði ekki tekin upp í grunnskólum, framhaldsskólum eða ríkisreknum háskólum. En framsóknarmenn gerðu ekkert með það skömmu fyrir jól.

Ég vona samt að þeir bæti ráð sitt, sérstaklega í ljósi ræðu hæstv. ráðherra frá því um áramótin og að hann komi í salinn, taki til máls og fagni þessu frumvarpi.

En það er einnig athyglisvert, varðandi ójöfnuðinn, að hæstv. fjármálaráðherra hefur staðfest að ríkisútgjöld hafi vaxið gífurlega í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Það er svolítið sérstætt að bæði hefur ójöfnuður vaxið og hlutur ríkisins vaxið. Það er náttúrlega með ólíkindum.

Ég ítreka að ég á ekki von á öðru en að þessi tillaga verði samþykkt. Það verður fróðlegt að heyra á eftir ræðu hv. þm. Jónínu Bjartmarz, hvort hún muni ekki einmitt flytja okkur boð um að Framsóknarflokkurinn muni styðja þetta mál.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill geta þess að hæstv. forsætisráðherra er með fjarvistarleyfi í dag.)



[17:56]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kem upp til að lýsa yfir efnislegum stuðningi við þá tillögu sem hér liggur fyrir. Þegar ég segi „efnislegum stuðningi“ þá á ég við að ég tel að sá vilji sem birtist í tillögunni, í þá veru að koma á gjaldfrjálsum leikskóla í áföngum, sé mjög jákvæður og ég tek undir það. Það er hins vegar spurning um sjálfa efnisgreinina, hvort hún eigi að vera nákvæmlega með þessum hætti, þ.e. að fela félagsmálaráðherra að skipa nefnd sem fái það verkefni að undirbúa og annast viðræður um málið við sveitarfélögin.

Það má eftir atvikum láta sér detta í hug að það hefði kannski verið nær að flytja bara tillögu þar sem óskað yrði eftir viðræðum við sveitarfélögin um þetta mál og sveitarfélögin og ríkið mundu sameiginlega, með faghópum, móta stefnu og komast að einhverri niðurstöðu um hvernig ætti að áfangaskipta þessu verkefni. En það er aukaatriði í þessu máli. Efnislega er þessi tillaga mjög svo góð og ég styð hana heils hugar.

Eins og fram kom í máli 1. flutningsmanns hafa sveitarfélög í landinu, Reykjavík og hugsanlega Fjarðabyggð, þegar stigið ákveðin skref í þessa veru. Það var tekinn upp gjaldfrjáls leikskóli þrjá tíma á dag fyrir fimm ára börn í Reykjavík á síðasta hausti, í samræmi við yfirlýsingar sem gefnar voru í síðustu kosningum. Væntanlega verður haldið áfram með einhverjum hætti á þeirri braut þó að auðvitað sé ekki hægt, einhliða af hálfu sveitarfélaganna, hvorki Reykjavíkurborgar né annarra, að fara út í svo viðamikla aðgerð og kostnaðarsama án þess að gera um það samkomulag og sátt milli ríkis og sveitarfélaga.

Ég lít svo á að þetta sé eðlilegt verkefni að fara út í núna og það taki í raun við af því geysilega stóra verkefni sem sveitarfélögin hafa borið hitann og þungann af, sem er uppbygging leikskóla í landinu á undanförnum tíu árum. Gríðarlegt átak hefur verið í uppbyggingu leikskólaþjónustu í landinu og nú er svo komið að um 71% allra barna á aldrinum 0–5 ára eru í leikskólum á Íslandi. Þetta hlutfall var fyrir tíu árum um 40% og af þessu sést hvílíku grettistaki hefur verið lyft. Grettistakinu var ekki síst lyft hér í Reykjavík þegar tekin var um það pólitísk ákvörðun árið1994 að gera þetta að forgangsmáli. Það var bara þannig að Reykjavík haltraði á eftir flestum öðrum sveitarfélögum í þessu efni.

Núna er staðan á Íslandi þannig að hlutfall barna sem nýtur þjónustu leikskólanna er hærra en víðast hvar annars staðar á Norðurlöndum. Við sem vorum á eftir, höltruðum á eftir, erum yfirleitt komin fram úr öðrum Norðurlöndum hvað þessa þjónustu varðar. Þetta var átakið sem við þurftum að fara í og gera. Auðvitað kostar það foreldra talsvert mikið að vera með börn á leikskólum og nú tel ég komið að næsta skrefi, þ.e. að bjóða upp á þessa þjónustu gjaldfrjálst ákveðinn tíma dagsins og það þurfi að gerast í ákveðnum áföngum. Eins og hér hefur komið fram er þetta gríðarlega umfangsmikið verkefni og kostnaðarsamt og þarf að taka á því sameiginlega milli ríkis og sveitarfélaga.

Ég er þeirrar skoðunar að samfélagið hljóti að fjárfesta mun meira í börnum á komandi árum en gert hefur verið og að fjárfesta þurfi verulega í aðbúnaði og stuðningi við fjölskyldurnar í landinu. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að sú streita og sú mikla vinna sem fylgir ungu fólki sem er að koma sér upp húsnæði, ala upp börnin sín, borga af námslánunum sínum og hvað þetta allt saman er kemur niður á fjölskyldunum í landinu og hefur áhrif á fjölskyldurnar, hefur áhrif á hjónaskilnaði, hefur áhrif á félagslega stöðu þeirra og við þurfum auðvitað að taka á þessum málum. Þetta hefur líka þau áhrif að fólk á færri börn en það sjálft kysi ef það fengi meiru um þessa hluti ráðið.

Það er dálítið athyglisvert að ef við lítum aftur til ársins 1965 voru fjögur fædd börn á hverja konu á barneignaaldri hér á landi. Árið 1995 var þetta komið niður í 2,1 og árið 2001 var þetta komið niður í 1,9. Við sjáum að þróunin er mjög hröð, einfaldlega vegna þess að álagið sem fylgir því að eiga mörg börn og vera á vinnumarkaði er of mikið og fórnarkostnaðurinn er of mikill, ekki síst fyrir konur. Við skulum horfast í augu við það að konur greiða ákveðið gjald fyrir að eiga börn og vera á vinnumarkaði á sama tíma. Giftar konur, mæður eru að jafnaði með lægri laun en konur sem ekki eiga börn. Fjölskyldufólk með ung börn vinnur í heildina einum til tveimur klukkustundum lengur á hverjum degi en barnlausir jafnaldrar þeirra.

Þetta eru einfaldlega þær staðreyndir sem við okkur blasa og segja okkur að álagið á ungt barnafólk í okkar samfélagi er of mikið og við þurfum með einhverjum hætti að reyna að létta undir með því. Það er hægt að gera m.a. með því að draga úr þeim tilkostnaði sem fólk hefur af leikskólaþjónustu en það er líka hægt að gera með því að atvinnulífið taki meira mið af barnafólki. Það er því miður þannig í okkar samfélagi að gerð er krafa um að fjölskyldurnar lagi sig að atvinnulífinu en ekki að atvinnulífið lagi sig að fjölskyldunum. Það er kannski eitt af því sem mér fannst vanta upp á í þeim ágætu ræðum mörgum hverjum sem fluttar voru um áramótin af ráðamönnum þjóðarinnar sem beindu sjónum sínum að fjölskyldunni, og það er ágætt, að það var að skoða samhengi atvinnulífs og einkalífs og setja málið í það samhengi að atvinnulífið þurfi í auknum mæli að aðlaga sig þeim veruleika að fólk hefur fjölskylduábyrgð og þarf að sinna henni og það þarf að hafa bæði svigrúm til að taka þátt í atvinnulífinu og heimilislífi, umönnun og uppeldi barna.

Við þekkjum að það er yfirleitt kvartað mjög mikið vegna sumarleyfa á leikskólum, það er kvartað undan vetrarfríi í skólum og það er kvartað undan starfsleyfum kennara af hálfu atvinnulífsins. Ég held að þetta byggi á misskilningi, þetta byggi ekki á neinum illvilja eða neinu slíku heldur einfaldlega á því að menn átta sig ekki á mikilvægi þess fyrir atvinnulífið og til þess að atvinnulífið geti haft gott starfsfólk sem gefur sig heils hugar í vinnu sína þurfi það að laga sig að þessum veruleika. Ég held raunar að það sé bara tímaspursmál hvenær menn átta sig á því en þetta þarf að gerast og þetta þurfa ráðamenn þjóðarinnar líka að tala um þegar þeir víkja tali sínu að fjölskyldunum og ábyrgð þeirra sem þar eru.

Virðulegi forseti. Ég styð heils hugar þessa þingsályktunartillögu efnislega og vona að hún fái góðan framgang í þinginu.



[18:04]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Sú umræða sem á sér stað um gjaldfrjálsan leikskóla kemur mér dálítið einkennilega fyrir sjónir, einkum sá málflutningur sem viðhafður er af hálfu þingmanna stjórnarandstöðunnar, sérstaklega hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem lýsti yfir efnislegum stuðningi við það sem fram kemur í tillögunni, þ.e. um að gjöld fyrir leikskólapláss verði lögð af eða lækkuð verulega. Ég man ekki til þess að sá efnislegi stuðningur hafi birst þann 11. nóvember sl. þegar borgarráð Reykjavíkur tók ákvörðun um að hækka mjög verulega gjaldskrár á fjölskyldurnar í Reykjavík vegna leikskólaplássa fyrir börn. Þær hækkanir Reykjavíkurlistans, sem Samfylkingin, Vinstri grænir og Framsóknarflokkurinn eiga aðild að bitna mjög harkalega á t.d. ungum námsmönnum og nema allt að 42% á tiltekna þjóðfélagshópa í landinu.

Ungir jafnaðarmenn gagnrýndu þær hækkanir þann 10. nóvember og það sama gerðu stúdentar við Háskóla Íslands þann 9. nóvember. Ég verð að segja að mér finnst dálítið holur hljómur í stuðningi hv. þingmanns við þessa þingsályktunartillögu og langar að spyrja hv. þingmann að því hvað hafi breyst á tveimur mánuðum varðandi afstöðu hennar til málsins.



[18:07]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Gjaldskrá í Reykjavík á leikskólum hefur verið með þeim hætti að þar hafa verið fjórir gjaldskrárflokkar og verða núna þrír. Það var almenn gjaldskrá, það var gjaldskrá þar sem báðir foreldrar voru í námi, það var gjaldskrá þar sem annað foreldra var í námi og það var gjaldskrá fyrir einstæða foreldra og öryrkja. Sá gjaldskrárflokkur sem verið var að fella niður í gjaldskrá Reykjavíkurborgar og á að gerast í áföngum nær til þeirra hópa þar sem annað foreldrið er í námi. Gjaldskrá Reykjavíkurborgar, sérstaklega hvað varðar öryrkja og einstæða foreldra, er mun lægri en almennt tíðkast og gjaldskrá Reykjavíkurborgar í nóvember sl. tók ekki þeim breytingum til hækkunar sem gjaldskrár gerðu á ýmsum öðrum stöðum.

Hins vegar vil ég segja og það kom fram í ræðu minni áðan að ég tel að sveitarfélögin geti ekki tekið einhliða á sig að lækka verulega gjaldskrárnar eða fara út í gjaldfrjálsan leikskóla. Þetta þarf að vera sameiginlegt átak ríkis og sveitarfélaga og það þarf að semja um það þeirra á milli með hvaða hætti það gerist þannig að börn búi við það hvar sem er á landinu, hvort sem þau búa í Reykjavík, Borgarbyggð, Akureyri, Seltjarnarnesi eða hvar sem er, að eitt verði látið yfir alla ganga. En þangað til verður þetta auðvitað með mismunandi hætti eftir sveitarfélögum og þá mun Reykjavíkurborg vera í fararbroddi hvað varðar lægstu gjaldskrá fyrir þá hópa sem verst eru settir. Vonandi munu menn svo halda áfram á þeirri braut að lækka gjaldskrárnar og bjóða hluta barna upp á gjaldfrjálsan leikskóla.



[18:09]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vekur samt sem áður athygli að það eru ekki liðnir nema tveir mánuðir síðan hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir stóð að því að hækka leikskólagjöld í Reykjavík um allt að 42%. Hækkun sem stúdentar við Háskóla Íslands mótmæltu og það sama gerði stjórn Ungra jafnaðarmanna. Í fréttatilkynningu sem stjórnin sendi frá sér þann 10. nóvember sl. var hv. þingmaður og aðrir hv. þingmenn Samfylkingarinnar og borgarfulltrúar minntir á samþykkt landsfundar Samfylkingarinnar sem kvað m.a. á um að lækka frekar gjöldin en hækka þau. Þrátt fyrir það stendur hv. þingmaður fyrir því hinum megin við götuna að hækka leikskólagjöld á ungt fólk í Reykjavík en kemur síðan inn á Alþingi og lýsir efnislegum stuðningi við tillögu sem mælir fyrir um breytingar í þveröfuga átt. Ég hlýt því að spyrja: Hvað breyttist í afstöðu hv. þingmanns til málsins? Hv. þingmaður svaraði ekki þeirri spurningu minni.

Ég verð að segja að málflutningur eins og sá sem hér er boðið upp á er með mjög miklum ólíkindum og það er holur hljómur í þeim stuðningi sem fram kemur hjá hv. þingmanni við þessa þingsályktunartillögu þegar því er lýst yfir að efnislega vanti ekkert upp á stuðninginn frá hv. þingmanni sem sjálf hefur staðið að því fyrir stuttu að hækka þessi tilteknu gjöld á ungt fólk í Reykjavík.

Ég vonast til þess að ummæli hv. þingmanns leiði til þess að hún berjist þá fyrir lækkun leikskólagjalda í Reykjavík í framtíðinni.



[18:11]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sú þingsályktunartillaga sem hér liggur fyrir og er til umfjöllunar er að fela hæstv. félagsmálaráðherra að skipa nefnd til að undirbúa viðræður við sveitarfélögin um sameiginlegt átak í þessu efni. Það er málið sem er til umfjöllunar. Það mál styð ég að sjálfsögðu vegna þess að ég tel að það sé næsta stóra átakið sem við eigum að fara út í í þessum efnum. Það væri nær að sá þingmaður sem hér stendur kæmi upp og lýsti efnislegri afstöðu sinni til málsins. Er hann þeirrar skoðunar að við eigum að fara í þessa vegferð eða er hann ekki þeirrar skoðunar?

Það kemur auðvitað ekkert málinu við með hvaða hætti Reykjavíkurborg breytti gjaldskrá sinni sem var í þá átt að búa til eina gjaldskrá fyrir námsmenn þar sem báðir eru í námi en fella niður þar sem annar var í námi. Það er bara eins og tíðkast í öðrum sveitarfélögum og það var sú breyting sem gerð var og þingmaðurinn kallar 42% hækkun. (Gripið fram í.) Ákveðið var að sú hækkun kæmi í áföngum og það kom engin 42% hækkun á þessa námsmenn núna við þessa fjárhagsáætlun. Það er einfaldlega rangt hjá þingmanninum og hann ætti að kynna sér það betur. (Gripið fram í.)

Málið er auðvitað að fá afstöðu þessa hv. þingmanns til þessa máls. Telur hann rétt að fara í þá átt að sveitarfélögin og ríkið taki upp viðræður um gjaldfrjálsan leikskóla eða er hann ekki þeirrar skoðunar? Ætlar hann bara að standa hér og baða sig í einhverjum deilum sem áttu sér stað í borgarstjórn Reykjavíkur? Svari nú hinn ágæti þingmaður.



[18:13]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér í upphafi máls míns að spinna þennan þráð örlítið lengra því að sannarlega saknar maður afstöðu Sjálfstæðisflokksins við umræðuna. Ég treysti því að hv. þingmaður Sigurður Kári Kristjánsson eigi eftir að koma í almennilega ræðu og gera grein fyrir því á hvern hátt hann sér málin þróast í náinni framtíð. Það er sannarlega ástæða til að heyra frá hv. þingmanni hvernig tillaga af því tagi sem hér er rædd leggst í hann þannig að tími hans fari ekki bara í að agnúast út í skipulagsbreytingar á gjaldskrám Reykjavíkurborgar sem, eins og fram kom í máli hv. þingmanns Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, voru þess eðlis að búið er að breyta málunum á sama veg og í öllum nágrannasveitarfélögum okkar að ég best veit.

Hins vegar vil ég segja að málið sem er til umfjöllunar er verulegt framfaramál og eins og komið hefur fram í máli þeirra sem hér hafa talað er það ekki einungis framfaramál í menntunarlegu tilliti heldur líka félagslegu tilliti og rétt að ítreka það sem fram kemur í greinargerð með tillögunni að leikskólakennarar hafa ályktað um þessi mál. Þeir hafa lagt til að leikskólinn verði hluti af menntakerfi samfélagsþjónustunnar á nákvæmlega sama hátt og önnur skólastig og því skuli það vera í verkahring sveitarfélaganna að vinna markvisst að því og finna leiðir til þess að hægt sé að gefa börnum kost á sex tíma leikskólagöngu á dag án endurgjalds. Leikskólakennarar rökstyðja sjónarmið sín á þann hátt, sem er afar sannfærandi að mínu mati, að ákvæði um aðalnámskrá leikskóla sem er hið merkasta plagg þurfi að framfylgja á öllum námssviðum og tína til hluti eins og hreyfingu, málrækt, myndsköpun, tónlist, náttúru og umhverfi, menningu og samfélag.

Þannig kemur í ljós í ályktunum leikskólakennara að námið í leikskólanum sé í raun og veru mjög samofið öllum leik og daglegri umönnun barnanna og það er auðvitað grundvallaratriði í þessu máli að í leikskólanum eru börnin á þroskabraut. Þau eru að taka sín fyrstu spor í lífinu. Þau eru að læra að vera hluti af samfélagi og það er afar mikilvægt að öll börn í samfélaginu eigi þess kost að njóta þeirrar handleiðslu sem leikskólakennarar geta veitt í leikskólanum, að þau eigi þess kost að eiga samneyti við önnur börn og það þurfi ekki að vitnast að hér á Íslandi fyrirfinnist fólk, fjölskyldur sem hafi ekki ráð á því að setja börnin sín í leikskóla og leyfa þeim að njóta þeirrar góðu þjónustu sem leikskólakennarar veita.

Herra forseti. Það kom upp fyrir nokkrum dögum, ef ég man rétt í fyrirspurnatíma sl. miðvikudag, umræða um nákvæmlega þessi mál sem við hér ræðum. Þá beindi hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson til félagsmálaráðherra fyrirspurn sem laut að því hvort til greina kæmi að flytja tekjustofna og fjármagn til sveitarfélaganna þannig að hægt væri að tryggja gjaldfrjálsan leikskóla, sem sagt hvort hæstv. félagsmálaráðherra sæi möguleika á því að tillaga af því tagi sem við nú ræðum gæti verið framkvæmanleg og samræmdist stefnu hans, Framsóknarflokksins og þá mögulega ríkisstjórnarinnar.

Það var afar athyglisvert, hæstv. forseti, hvernig félagsmálaráðherra fór undan í flæmingi við að svara þessari fyrirspurn. Hann reyndi að koma því fyrst þannig fyrir að hér væri um menntamál að ræða, mál sem ekki heyrði undir hans málasvið, en þegar hann var búinn að gera þá játningu að hann hefði í raun og veru reynt að koma sér undan því að svara fyrirspurninni lét hann sig hafa það að koma í ræðustól og þá svaraði hann á þann veg að hann væri þeirrar skoðunar að leikskólinn þyrfti að skilgreina sig að því leytinu til hvort hluti af honum yrði settur undir skólaskyldu. Það var í raun og veru eina framlag hæstv. félagsmálaráðherra til umræðunnar. Hann sagði að það væri tæpast tímabært að svara spurningunni um flutning tekjustofna vegna breytinga af þessu tagi vegna þess að ekki væri búið að ákveða hvort síðasta árið í leikskólanum yrði hluti af skólaskyldu eða ekki.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér finnst það alls ekkert grundvallaratriði í þessu máli. Það kann vel að vera að við tökum þá ákvörðun einhvern tíma að síðasta árið í leikskólanum verði skólaskylt og þá liggur það auðvitað í hlutarins eðli að leikskólagjöld hljóta að verða afnumin af því skólastigi en ég sé ekki að nokkur þingmaður geti látið sér detta í hug að hluti af skólaskyldu barna geti verið gjaldskyldur. Ég verð að segja að það var ekki til neinnar fyrirmyndar hvernig hæstv. félagsmálaráðherra fór eins og köttur í kringum heitan graut og kom sér undan því að svara þessari spurningu, sérstaklega ekki þegar það er skoðað að hæstv. ráðherra kemur úr Framsóknarflokknum. Formaður Framsóknarflokksins hefur nýverið lýst yfir þörfinni á að meta stöðu íslensku fjölskyldunnar í samfélaginu og ég verð að segja að það skyldi þó ekki vera að sú vinna sem komin er í gang í þeim efnum endaði einmitt á því að leggja það til að sú leið sem hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru að leggja til að verði farin verði ofan á. Það sýnir sig og segir sig sjálft að staða íslensku fjölskyldunnar með tilliti til aðstöðu barna, foreldra og samvista foreldra við börn sín hlýtur að skipta verulegu máli, skipta sköpum þegar þetta skólastig, leikskólastigið, er skoðað.

Við skulum líka vera þess minnug að leikskólastigið er nú þegar skilgreint sem fyrsta skólastigið. Ekki eru allir meðvitaðir um að veruleg framför hefur orðið á þessu skólastigi og eðlilegt að það skólastig sem fyrst kemur lúti sömu lögmálum og önnur skólastig ofar á skalanum, þ.e. að börnum standi þessi frábæri leikskóli sem boðið er upp á á Íslandi til boða án þess að foreldrar þurfi að greiða fyrir. Hitt er svo aftur athyglisverð umræða sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hóf, þ.e. samhengið á milli atvinnulífs og fjölskyldu. Auðvitað er eðlilegt að stjórnmálamenn reyni að svara þeirri spurningu hvernig samræma megi hugmyndir um styttingu vinnuvikunnar, og þar af leiðandi aukinn tíma foreldra til samvista með börnum sínum, öðrum málum sem samfélagið í raun og veru krefst og atvinnulífið krefst. Ég sé ekki annað en að við séum stödd á þeim tímamótum að atvinnulífið og fjölskyldurnar og þá stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar þurfi að fara að finna leiðir til þess að gera foreldrum kleift að eyða meiri tíma með börnum sínum og sömuleiðis að sjá til þess að skólastigin séu þeirrar náttúru að það sé ekki einungis á færi þeirra efnameiri að nýta sér þá þjónustu sem þar er í boði.



[18:21]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum þann möguleika að síðasta árið í leikskóla sé gjaldfrjálst. Ég er í grundvallaratriðum á móti því en það er af ýmsum ástæðum.

Í fyrsta lagi held ég að eitthvað sem er ókeypis verði aldrei metið eða til þess gerð krafa. Ég er með barn í grunnskóla og tel mig ekki geta gert kröfu til grunnskólans vegna þess að ég greiði ekki fyrir þjónustuna. Vegna þess að ég greiði ekki get ég ekki sagt að grunnskólinn eigi að gera þetta og hitt sem ég mundi gera ef ég greiddi eitthvað til hans.

Ég kvaddi mér hljóðs aðallega vegna þess að mér finnst að við höfum brugðist yngstu borgurum þessa lands. Við erum með fæðingarorlof sem tekur á fyrstu níu mánuðum af æviskeiði barns. Hvað svo? Hvað gerist þegar hann er níu mánaða, litli borgarinn, og foreldrarnir þurfa aftur til vinnu? Þá fer hann nefnilega að heiman í flestum tilfellum. Hann fer að heiman, oft til dagmömmu eða í leikskóla, og hvað á níu mánaða barn að gera að heiman? Þetta held ég að menn hafi ekki hugsað alveg til enda, herra forseti. Ég tel að flest börn hafi ekkert að gera að heiman fyrr en þau eru orðin þriggja ára. Það er reynsla mín af barnauppeldi og ég hef alið upp sex börn. Þau hafa ekkert að gera að heiman, þau eiga að vera heima hjá sér. Það er svo aftur annar vandi hver eigi að sjá um þau heima hjá sér.

Í samblandi fæðingarorlofs, foreldraorlofs og kostnaðar sveitarfélaganna við gæslu barnanna — það er gæsla þegar barnið er níu mánaða, ekki menntun. Kostnaður sveitarfélaganna er orðinn gífurlega mikill. Ég þekki ekki nýjustu tölurnar, einhvern tíma var heildarkostnaðurinn 60 þús. kall á barn. Ég hygg að hann nálgist 100 þús. kr. núna. Ef maður tæki 100 þús. krónurnar sem það kostar að hafa barnið á leikskóla og léti foreldrana fá þá peninga, skattfrjálst að sjálfsögðu því að þeir eru skattfrjálsir í dag, hugsa ég að afstaðan mundi breytast mikið. Sumir segðu að konurnar færu heim. Það er vissulega hætta á því vegna þess hvað atvinnulífið er lítið sveigjanlegt.

Þá vil ég koma inn á það sem hér hefur verið nefnt í umræðunni að atvinnulífið þarf að taka miklu meira tillit til þess að fólk á börn. Einhver verður að sjá um börnin fyrstu þrjú árin. Þetta á atvinnulífið að gera með því að gera störfin sveigjanleg, miklu sveigjanlegri en þau eru í dag þannig að annað foreldranna geti unnið fyrir hádegi og hitt eftir hádegi sem er mjög skemmtilegt, að vera hálfan daginn með barn og hálfan daginn í vinnu, og geti jafnvel unnið eitthvað heima við með tölvum og öðru slíku. Þetta er allt hægt ef vilji er fyrir hendi. Þetta finnst mér vera brýnna verkefni en það hvort síðasta árið í leikskóla eigi að vera ókeypis eða ekki.

Eitt aðalatriðið sem við þurfum að gera núna, þ.e. atvinnulífið, er að koma upp sveigjanlegri vinnutilhögun fyrir foreldra. Við erum með möguleika til þess í fæðingarorlofinu að dreifa því, við erum með möguleika í foreldraorlofinu að taka ólaunað frí og ef sveitarfélögin kæmu með þennan 100 þús. kall á mánuði værum við búin að brúa bilið. Fjárhagslega gæti fjölskyldan staðið eins að vígi þannig að foreldrarnir séu til skiptis fyrir hádegi eða eftir hádegi eða annan hvern dag eða hvernig sem það verður gert heima hjá börnunum og sveitarfélagið komi inn í með greiðslur til foreldranna.

Það er svo aftur önnur saga hvað gerist eftir þriggja ára aldurinn. Ég tel mjög hollt og gott fyrir börn að fara á leikskóla eftir þann tíma enda er það sá tími sem fólk á þessum aldri sýnir vilja til að fara að heiman. Um þriggja ára aldurinn vilja þau fara í heimsóknir og vilja fara út í heim. Ég held að það sé allt í lagi að skoða það að einhverjir tímar á dag væru ókeypis sem hvert sveitarfélag fyrir sig gæti að sjálfsögðu tekið ákvörðun um. Það þarf ekki alltaf að koma betlandi til ríkisins. Ég held að þetta sé orðið mjög brýnt. Mér finnst ekki forsvaranlegt að horfa á eins árs barn dröslast klukkan átta á morgnana í strætó eða hvernig það nú ferðast á leið út í heim að vinna. Þar höfum við einhvern veginn brugðist og ég vara við þeirri oftrú að hið opinbera sjái um allt og alla og taki á sig gæslu barnanna. Ég held nefnilega að heima sé best og ég treysti foreldrunum best allra til að sjá um börnin sín að meðaltali.

Hér hefur verið rætt pínulítið um leikskólann og kannski grunnskólann og hvernig atvinnulífið og skólinn vinna ekki saman. Ég hef t.d. aldrei skilið starfsdaga og foreldraviðtöl, ég hef bara ekki skilið það hvernig fyrirtæki leyfir sér að koma í bakið á kúnnunum eins og skólinn gerir með starfsdögum. Hvernig dettur þeim í hug að loka fyrirtækinu? Eða foreldraviðtölum, af hverju er þeim ekki dreift yfir allan mánuðinn, allt árið? Af hverju þarf að loka? Ekki veit ég til þess að Flugleiðir hafi lokað einu sinni í mánuði vegna starfsdaga. Þeim dytti það ekki í hug. Það dytti engum í hug nema opinberum fyrirtækjum að loka vegna starfsdaga en þetta leyfa bæði grunnskólar og leikskólar sér til gífurlegs óhagræðis fyrir atvinnulífið, fyrir foreldrana og fyrir alla allt í kring. Ég held að það sé mjög margt sem þarf að skoða.

Um daginn var foreldradagur í grunnskólanum þar sem barnið mitt er og ég spurði kennarann: Hvað heldur þú að unglingarnir séu að gera núna, á þessum degi? Að sjálfsögðu ekki neitt. Þeir eru allir heima hjá sér einir að þvælast því að foreldrarnir eru að vinna einhvers staðar og þeir gera bara ekki neitt. Er þetta það sem við viljum? Nei. Ekki vil ég hafa þetta svona og ég held að við þurfum að fara að skoða þessa stefnu alla saman og alveg sérstaklega finnst mér að við þurfum að skoða aldursbilið frá níu mánaða til þriggja ára. Við berum ábyrgð á börnunum þar.



[18:29]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er athyglisvert sjónarmið sem fram kom hjá síðasta hv. þingmanni, Pétri H. Blöndal, um að fólk kunni ekki að meta það sem það fær ókeypis og maður hlýtur þá að spyrja hvort hv. þingmaður telji að það eigi við um ræður hv. þingmanns. Ég verð að lýsa mig algerlega ósammála þeirri fullyrðingu þingmannsins. Auðvitað metum við fjöldamarga hluti sem eru ókeypis. Ég met til að mynda yfirleitt mjög mikils ræður hv. þingmanns og finnst hann setja fram mörg ágæt sjónarmið þó að ég verði að segja um þetta sjónarmið að er ég hræddur um að hv. þingmaður sé algerlega úti í móa með það því að auðvitað kunnum við vel að meta margvíslega samfélagsþjónustu sem við fáum ókeypis.

Við kunnum vel að meta þá þjónustu sem við fáum á sjúkrahúsunum. Við kunnum vel að meta þá þjónustu sem eldri borgurum er veitt á hjúkrunarheimilum. Auðvitað kunnum við vel að meta þjónustuna í grunnskólunum. Ég hef reynslu af því sjálfur að hafa dóttur mína í skóla annars vegar þar sem ég greiddi fyrir hana skólagjöld í einkaskóla og nú í almennum grunnskóla í Reykjavík og ég held að ég meti alls ekki síður þjónustuna í hinum almenna grunnskóla þó að hún sé ókeypis. Ég held því að þó að mörg ágæt rök hafi verið færð fram í máli hv. þingmanns sé óhjákvæmilegt að líta fram hjá þeirri alhæfingu þingmannsins að fólk kunni ekki að meta það sem er ókeypis og að það sé í sjálfu sér einhver röksemd gegn því að veita leikskólavist endurgjaldslaust.

Ég held að sú áhersla sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon leggur í þeirri tillögu sem hér er til umfjöllunar sé ákaflega mikilvæg og er framhald þeirrar umræðu sem við tókum á miðvikudaginn var við hæstv. félagsmálaráðherra þegar þingmaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, spurði hæstv. ráðherra um sama efni. Og ég verð að taka undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að heldur fór félagsmálaráðherrann undan þeirri spurningu í flæmingi og reyndi að vísa því frá sér sem einhvers konar menntamáli. Það er kannski ekki óeðlilegt því að auðvitað er hæstv. menntamálaráðherra fullkunnugt um þá stöðu sem uppi er í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Auðvitað þekkir Árni Magnússon, hæstv. félagsmálaráðherra, stöðu sveitarfélaganna í landinu og þau eru á engan hátt í stakk búin til þess fjárhagslega að veita þessa þjónustu endurgjaldslaust. Raunar veit hann að málið er enn verr statt því að allar viðræður ríkis og sveitarfélaga um sameiningu sveitarfélaga og eflingu sveitarstjórnarstigsins, sem hæstv. félagsmálaráðherra gumaði mjög af og lagði af stað ansi bjartsýnn í upphafi kjörtímabilsins, eru nú strand vegna þess að það skortir svo gríðarlega upp á í það að rétta af tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og það er tómt mál að tala um að sveitarfélögin taki við nýjum skyldum eða nýjum verkefnum við þær aðstæður. Þess vegna reyndi hæstv. félagsmálaráðherra auðvitað að víkja sér undan því að ræða það málefni sem hér er nú aftur til umræðu nokkrum dögum síðar að tilhlutan hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og meðflutningsmanna hans. En allt um það.

Ég held að full ástæða sé til þess að færa flutningsmönnum þakkir fyrir að taka þetta málefni upp. Það hefur átt vaxandi fylgi að fagna, held ég, í öllum stjórnmálaflokkum nema e.t.v. Sjálfstæðisflokknum á síðustu árum. Trúlega hefur það fyrst verið Kópavogslistinn, framboð félagshyggjufólks í Kópavogi, sem í sveitarstjórnarkosningunum 1998 setti það á stefnuskrá sína að bjóða upp á endurgjaldslausa dvöl á leikskólum en Reykjavíkurlistinn, eins og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fór hér yfir áðan, hafði það síðan sem stefnumið sitt í kosningunum 2002 og hefur frá síðasta hausti tekið fyrsta skrefið í því með því að þrír tímar á dag hjá fimm ára börnum eru endurgjaldslausir.

Augljóst er að sveitarfélögin ráða ekki við að taka öllu stærri skref án þess að ríkið komi þar að og sannarlega vert fyrir ríkisvaldið að taka það upp í viðræðum við sveitarfélögin því hér er um mikilsverða kjarabót að ræða eins og margir ágætir þingmenn hafa farið yfir. Auðvitað er það miklu betri kjarabót fyrir barnafjölskyldur í landinu að taka af leikskólagjöldin en til að mynda hinar almennu lækkanir á tekjuskatti sem hér voru ákveðnar í vetur. Auðvitað munar það barnafjölskyldu ósköp litlu hvort hún greiðir 36% eða 37% í tekjuskatt. En hvort hún borgar 300 þús. kr. á ári með barni á leikskóla getur auðvitað skipt sköpum um heimilisbókhaldið, a.m.k. það árið, að nú ekki sé talað um ef börnin eru fleiri en eitt. En aðrir ágætir þingmenn hafa farið yfir kjaraþáttinn í þessu máli og þá mikilvægu kjarabót fyrir ungt fjölskyldufólk sem hér er á ferðinni og síðan hefur hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýst ágætlega ýmsu sem varðar jafnréttisþáttinn, og raunar líka hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, og það að hér er auðvitað líka ákveðið innlegg hvað það varðar.

Menn hafa hins vegar ekki viljað ræða hér mjög um að gera stigið skólaskylt. Ég vil því fjalla eilítið um það því að ég tel að það skref að gera a.m.k. til að byrja með fimm ára aldurinn að skólaskyldu sé í raun og veru algerlega nauðsynlegur fylgifiskur þess að gera þessa þjónustu endurgjaldslausa. Ég held að það skipti mjög miklu máli að við hugum strax að því að taka skrefið til fulls að þessu leyti vegna þess að ég held að málið sé í raun og veru þannig vaxið að þeim börnum sem mest þurfa á þessum breytingum að halda gagnist hún jafnvel ekki nema leikskólastigið verði að skólaskyldu.

Leikskólinn hefur þróast mjög ört hjá okkur á síðustu árum og eins og fram kom hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur hefur nemendafjöldi í honum tvöfaldast á einum áratug. Í Reykjavík hefur pólitísk áhersla félagshyggjuaflanna í Reykjavíkurlistanum auðvitað komið glöggt fram í þessum efnum með því að á 10 árum hafa framlög til niðurgreiðslu í leikskólunum margfaldast og skipta nú milljörðum. Og þó að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson reyni að kveikja einhver villuljós með því að vísa til einhverra kerfisbreytinga í nóvember sl. sem lutu að því að afnema það fyrirkomulag að fólk fengi sjálfkrafa afslætti ef annað foreldra væri í námi þá er það auðvitað ekkert annað en villuljós því að Reykjavíkurlistinn hefur sannarlega varið gríðarlegum fjárhæðum og margfaldað framlög til leikskólans í valdatíð sinni og sýnt með því í verki pólitískan vilja sinn og það undir forustu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur lengst af.

Ástæðan fyrir því að ég vil gera skólaskylduna að umtalsefni er að leikskólinn … (Forseti hringir.) Nú sé ég að hæstv. forseti verður bara að taka beiðni mína um að koma á mælendaskrá öðru sinni undir sama málinu því að tími minn er á þrotum.



[18:37]
Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Mig langar í upphafi máls míns að lýsa yfir stuðningi við það sem má kalla viljann á bak við þessa tillögu. Eins og ég hef skilið hv. flutningsmenn er viljinn fyrst og fremst sá að létta undir með barnafólki og þá fjárhagslega. En mig langar líka í því tilliti benda á að það má auðvitað gera á ýmsan annan hátt en með því að fella niður leikskólagjöldin.

Í ræðum annarra þingmanna hér hefur verið vikið að stefnumálum framsóknarmanna og svo sem líka bæði að ræðu hæstv. forsætisráðherra sem hann flutti um áramótin og hæstv. félagsmálaráðherra nýlega sem var svar við fyrirspurn. Mig langaði aðeins að koma inn á að það hefur verið stefnumál og var kosningastefnumál okkar framsóknarmanna að gera síðasta árið á leikskólanum gjaldfrjálst. Það hangir að hluta til saman við þá umræðu sem nú er í gangi um að stytta nám til stúdentsprófs og þá er spurningin hvert ætlum við að færa það nám sem áður hefur verið á framhaldsskólastiginu. Jú, við hljótum að ætla að færa eitthvað af því niður í grunnskólann. Þarf þá ekki aðeins að lengja grunnskólann? Mér finnst það vera sitthvort stefnumálið að gera síðasta árið í leikskólanum gjaldfrjálst og að ætla að gera leikskólann allan gjaldfrjálsan.

Það kemur fyrir að ég er mjög sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal. Ég get ekki tekið undir allt í ræðu hans áðan en ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þegar við setjum fram slík mál reynir auðvitað á ákveðin prinsipp sem við erum með gagnvart frelsi og sérstaklega gagnvart valfrelsi foreldra í landinu. Og á sama hátt og mér finnst leikskólinn eiga að vera hluti af mannréttindum barna, og þá er ég að tala um börn sem eru þriggja, fjögurra og fimm ára gömul en ekki endilega börn frá fæðingu og upp að tveggja, þriggja ára aldri. Það vill svo til að ýmsum börnum hentar ólíkt betur, og þá er ég að tala um börnin en ekki foreldra þeirra, að njóta annarra kosta þegar foreldrar sækja vinnu, t.d. hafa margir foreldrar með eitt eða fleiri börn farið þá leið að fá au pair eða að amman í fjölskyldunni tekur að sér að gæta barnanna eða jafnvel að foreldrar koma sér saman um að skipta vinnutíma sínum þannig, þar sem það er hægt, að þau geti annast börnin til skiptis.

Mér finnst ákveðin forræðishyggja í þessari tillögu. Það er enginn greinarmunur gerður í tillögunni á því hvaða aldur við erum að tala um. Ég man ekki betur en leikskólalögin geri ráð fyrir leikskólavist fyrir börn frá sex mánaða aldri. Erum við að tala um að fella niður gjaldið alveg niður að sex mánaða aldri? Ég vek þá í því samhengi athygli á því sem þó kemur fram í tillögunni, sem gladdi mig mikið, að þar segir einhvers staðar að þetta skuli gert í áföngum uns því takmarki er náð að allt leikskólastigið og eftir atvikum önnur sambærileg og viðurkennd dagvistun sé gjaldfrjáls. Það er því gert ráð fyrir að þetta sé ekki bara leikskóli heldur gildi þetta líka um eitthvað sambærilegt.

Eins og ég sagði í upphafi, herra forseti, tek ég undir viljann sem er þarna á bak við og styð þann yfirlýsta vilja, eins og margoft hefur komið fram í þeim málum sem við framsóknarmenn höfum sett á oddinn, að létta undir með barnafólki. Ég get ekki stutt tillöguna eins og hún er úr garði gerð en styð hana þó að því leyti að ég legg mikla áherslu á að þetta verði kannað og þá tekjusamskipti ríkis og sveitarfélaga varðandi síðasta árið í leikskólanum. Mér finnst full rök til þess og að því leyti styð ég að þetta verði gert í áföngum en verði þó fyrst og fremst takmarkað við þetta.

Þegar leikskólalögin voru sett upphaflega voru átök um það, og ég kynntist þeim af eigin raun á þeim tíma, hvort leikskólinn ætti að vera félagslegt úrræði og heyra undir félagsmálaráðuneytið eða hvort hann ætti að vera hluti af skólakerfinu og heyra undir menntamálaráðuneytið. Niðurstaðan af þeim miklu deilum sem urðu þar milli fagmanna, og ég man að hópar foreldra blönduðu sér í það líka, var að hann ætti að vera fyrsta skólastigið og hann var skilgreindur þannig og kveðið var á um rétt barna frá sex mánaða aldri til þessa úrræðis. Síðan hefur verið lyft grettistaki hjá flestum sveitarfélögum í uppbyggingu leikskóla til að mæta þörfinni.

Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kom inn á það áðan að það sem við þyrftum að huga sérstaklega að væri að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf og það markmið að við ættum að auka samvistir foreldra og barna. Af því tilefni get ég ekki látið hjá líða að geta þess sem ég heyrði nýlega greint frá og kann þó ekki að fara með í smáatriðum en það var könnun sem sýndi fram á hversu hættulega lengi sum börn væru orðið á leikskóla. Börn frá eins árs aldri í níu tíma vinnu, níu tíma daglega á leikskóla. Ætlum við að stuðla að því að fleiri börn séu allan þennan tíma á leikskóla? Hvar erum við að stuðla að auknum samvistum foreldra og barna í þessu kerfi?

Ég sé að tími minn styttist. Það er hægt að gera þetta á ýmsan hátt eins og ég sagði í upphafi og til að mynda ályktuðum við framsóknarmenn á síðasta flokksþingi um þá leið að huga að því að leikskólagjöld verði gerð frádráttarbær frá skattstofni foreldra. Meðal annars með þeirri leið léttum við fjárhagslega undir með foreldrum og viðurkennum þennan aukakostnað foreldra með börn á leikskóla sem er þá tekjujöfnunarúrræði og kemur til móts við þá.

Svo get ég tekið undir þau sjónarmið sem hér hafa líka komið fram að á þennan hátt getum við hugsanlega með því að hafa einhvern hluta leikskólans gjaldfrjálsan, t.d. þeirri leið sem ég nefndi og við framsóknarmenn ályktuðum um, stuðlað að því að íslenskir foreldrar eigi áfram mörg börn. Eftir því sem ég best veit eigum við næstflest börn allra þjóða í Evrópu, þó ekki nema 1,9. Það hefur verulega þýðingu fyrir framtíðina. Það hefur þýðingu m.a. gagnvart samsetningu þjóðarinnar, gagnvart mannaflaþörf, að við höldum í við fjölgun aldraðra með því að eiga fleiri börn á móti og fjölga vinnandi höndum.

Að ósekju var verið að gagnrýna áðan ræðu hæstv. félagsmálaráðherra þegar hann svaraði fyrirspurn um daginn. Hann sagði ekki annað en að varla væri hægt að tala um að flytja tekjustofna og fjármagn til sveitarfélaganna fyrr en fólk væri búið að taka afstöðu til þess hvort leikskólinn ætti að vera gjaldfrjáls. Það hlýtur að vera fyrsta spurningin og síðan hvernig við skiptum tekjum til að mæta kostnaðinum við það. Mér fannst svar hans, og ég náði mér í ræðu hans af þessu gefna tilefni áðan, vera mjög ljóst. Fyrst þurfum við að taka afstöðu til þessa og síðan könnum við hvernig við stöndum straum af kostnaðinum. Við erum jú að tala um samkvæmt því sem tillagan segir u.þ.b. 3 milljarða í þessu tilliti.



[18:46]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. þm. Jónína Bjartmarz tala mjög ógreinilega. Hún studdi viljann en samt studdi hún ekki tillöguna, ef ég skildi hana rétt, og hún studdi að þetta væri gert í áföngum en það er einmitt það sem tillagan gengur út á. Það væri mjög gott fyrir umræðuna að hv. þingmaður útskýrði nánar hvað hún styður í raun og veru.

Ég tel um mjög þarft mál að ræða, sérstaklega í ljósi þess að það hefur orðið mikill mismunur á launum og tekjudreifing hefur orðið mikil og misskipting í samfélaginu. Þess vegna tel ég að Framsóknarflokkurinn ætti einmitt að fagna málinu af meiri ákafa en ekki tipla á þessu eins og hv. þingmaður gerði.



[18:47]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Það gleður mig sérstaklega að sjá hv. þm. Sigurjón Þórðarson aftur í þingsalnum. Í stórum hluta af ræðu hans áðan var hann alveg í öngum sínum yfir því að hæstv. forsætisráðherra væri ekki viðstaddur ágæta ræðu hans. Mér finnst það alltaf heldur ósmekklegt þegar það liggur fyrir hvaða þingmenn eru með fjarvistarleyfi og eru ekki á landinu.

Svo að ég endurtaki það, af því að hv. þingmaður er kominn í þingsalinn, þá styð ég viljann sem er á bak við að létta undir með barnafólki. Ég styð hins vegar ekki sem forgangsmál til að létta undir með barnafólki að leikskólinn fyrir börn frá sex mánaða aldri sé gerður gjaldfrjáls. Ég vil að létt verði undir með barnafólki á annan hátt út frá hagsmunum barnanna, hagsmunum þeirra af samvistum við foreldra sína og út frá því sjónarmiði að foreldrar eiga að geta valið hvernig gæslu og menntun barna þeirra er háttað. Ég styð hins vegar að það sé gert með elsta árganginn í leikskólanum.

Herra forseti. Að þessu sögðu tel ég að hv. þingmaður sé ekki í nokkrum vafa um hver vilji minni er í málinu.



[18:48]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel rétt að taka fram að ég var ekki í öngum mínum yfir að hafa ekki hæstv. forsætisráðherra í salnum, ég var bara hissa á því að hann skyldi ekki haga ferðum sínum þannig miðað við áramótaræðu hans að leggja sérstaka áherslu á að vera við umræðu sem þessa. En ég þakka hv. þingmanni fyrir að skýra mál sitt og tel mikinn sóma að því og það sýnir að það eru þó til þingmenn í Framsóknarflokknum sem gera eitthvað með tillögur flokksins.

Því miður samþykktu framsóknarmenn aðra tillögu á flokksþingi 2003 sem þeir gera í rauninni ekkert með. Ég tel það mjög jákvætt að það komi einn og einn framsóknarmaður sem ætli að standa við eitthvað af því sem flokksmenn hafa samþykkt.



[18:49]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Það er erfitt, herra forseti, að ætla að svara hv. þingmanni, hann talar um einhverja ótilgreinda tillögu sem framsóknarmenn hafi ekki staðið við. Ég þekki svo sem ekki tillögur frá flokki hv. þingmanns, hvað þeir hafa lagt til þannig að ég geti rakið hvað þeir hafa staðið við og hvað ekki.

Hins vegar er ljóst að okkur hefur tekist það sem af er af þessu kjörtímabili að efna stóran hluta af þeim kosningaloforðum sem við settum fram, (Gripið fram í.) ekki síst kosningaloforð sem lúta að því að bæta hag fjölskyldnanna í landinu. Mig langar í því tilviki að nefna lækkun endurgreiðsluhlutfalls námslána, hækkun barnabóta og svo mætti lengi telja. Við höfum líka staðið við öll þau skattalækkunarloforð sem flokkurinn setti fram.



[18:50]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kem upp í tvennum tilgangi, annars vegar til að leiðrétta sjálfa mig en mér varð á áðan að segja að gjaldskrárnar hjá leikskólanum hefðu verið fjórar og yrðu þrjár, þær voru þrjár og verða tvær þegar fram líða stundir. Ein gjaldskrá verður væntanlega lögð af í áföngum. Hins vegar kem ég upp til þess að fagna þátttöku hv. þm. Péturs H. Blöndals í umræðunni. Þó að ég hafi ekki verið sammála henni tel ég að hún hafi verið mjög málefnaleg. Það er mjög þarft að sú rödd heyrist sem hér kom fram, þ.e. sú rödd sem telur að greiða eigi gjald fyrir menntun ungra barna hvort sem er í grunnskólum eða leikskólum vegna þess að annars kunni fólk ekki að meta þá þjónustu sem það fær. Þetta er sjónarmið sem uppi er í samfélaginu, við vitum það, og það er ágætt að það heyrist á þingi. Það sjónarmið að kannski kæmu heimagreiðslur frekar að gagni en leikskólaþjónusta er líka sjónarmið sem hefur alltaf verið til staðar og sjálfsagt að það komi hér fram.

Ég get alveg tekið undir með þingmanninum að ég hef auðvitað áhyggjur af því þegar níu mánaða fæðingarorlofi lýkur hvað gerist þá. Hvað svo? spurði þingmaðurinn. Það er vissulega áhyggjuefni vegna þess að staðreyndin er jú sú að flest sveitarfélög veita leikskólaþjónustu frá 18 mánaða aldri fyrir börn almennt. Þau reyna hins vegar að veita börnum einstæðra foreldra og námsmanna þar sem báðir eru í námi þjónustu allt frá því að þau eru ársgömul og jafnvel yngri, en almennt veita þau þessa þjónustu frá 18 mánaða aldri.

Þá hlýtur maður að spyrja sig einmitt þegar níu mánaða fæðingarorlofinu lýkur: Hvað svo? Þingmaðurinn var með þá skoðun að sveitarfélögin ættu að brúa þetta bil með einhverjum heimgreiðslum og talaði um100 þús. kr., að nær væri að þau greiddu 100 þús. kr. kannski með hverju barni en að vera að byggja upp leikskólaþjónustu. Staðreyndin er sú að staðið hefur í sveitarfélögunum að veita þjónustu fyrir börn á þessum aldri vegna þess að það er gríðarlega dýrt. Þetta bil frá 9 mánaða aldri upp í 18 mánaða aldurinn er alveg gríðarlega dýrt að veita leikskólaþjónustu. Það hefur auðvitað staðið í sveitarfélögunum að stíga þetta skref, enda má líka spyrja ef sú skoðun er uppi að greiða eigi foreldrum fyrir að annast börn sín á þessum tíma hvort það væri þá ekki hlutverk ríkisins að gera það í formi barnabóta fyrir yngstu börnin. Það á ekkert að velta því yfir á sveitarfélögin ef það er skoðun manna hér og hv. þm. Péturs H. Blöndals að þarna þurfi að koma til móts við foreldrana, þá gerir ríkisvaldið það auðvitað bara í formi barnabóta. Þá geta foreldrarnir út af fyrir sig ákveðið hvort þeir nýta þær barnabætur í að kaupa sér einhverja þjónustu eða hvort þeir geri eitthvað annað. En að mínu viti á ekki að líta á það sem einhliða verkefni sveitarfélaganna að leysa þetta mál.

Ég tel þess vegna að sú þingsályktunartillaga sem fram er komin sé mjög góð hvað það varðar að hún gerir ráð fyrir því að þær samræður fari fram milli ríkis og sveitarfélaga hvernig við ætlum að mæta þörfum yngstu aldurshópanna fyrir þjónustu og hvernig menn ætla að skipta með sér þeim kostnaði sem er því samfara, sem er verulegur. Ég er líka sannfærð um að það mun skila sér margfalt til baka í samfélagsþegnum sem eru betur hæfir til þess að takast á við þau verkefni í lífinu sem bíða þeirra þegar þeir eldast.

Hitt er svo auðvitað áhyggjuefni eins og fram kom í máli hv. þm. Jónínu Bjartmarz að börn séu níu tíma á leikskólum. En af hverju eru ung börn svona lengi á leikskólum? Vegna þess að flestir foreldrar ungra barna þurfa að vinna langan vinnudag til þess að láta enda ná saman í þessu samfélagi okkar. Ég sagði áðan og það er tölfræði sem við höfum tiltæka, að foreldrar ungra barna vinna að jafnaði einni til tveimur klukkustundum lengur en aðrir hópar. Þetta er áhyggjuefni og eitthvað sem menn þurfa sameiginlega að reyna að takast á við, hvort sem það er með því að hækka barnabætur, koma á gjaldfrjálsum leikskóla í áföngum eða eftir öðrum þeim leiðum sem tiltækar eru.



[18:55]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jónínu Bjartmarz fyrir hennar málefnalega innlegg í umræðuna og ég held að það sýni ágætlega að það er vaxandi vilji í flestum ef ekki öllum stjórnmálaflokkum fyrir að taka skref í þessu efni. Hún kaus að horfa sérstaklega til síðasta ársins í leikskólanum og auðvitað nærtækt að það sé fyrsta skrefið eins og hefur verið hjá Reykjavíkurborg. Ég verð þó að lýsa mig ósammála því að það eigi að horfa á það þannig að við lengjum grunnskólann þangað niður við styttingu framhaldsskólans. Þó að það sé kannski eðlilegt að horfa á það að flytja skólaskylduna niður um eitt ár þegar framhaldsskólinn verður styttur, ef hann verður styttur, þá held ég að við eigum ekki að breyta síðasta árinu í leikskóla í grunnskólastarf. Leikskólastarfið er auðvitað ólíkt grunnskólastarfinu í þeirri aðferð sem leikskólinn beitir, sem er að kenna í gegnum leik. Ég held að það sé mjög mikilvæg nálgun og aðferðafræði við að kenna börnum á þessum mikilvæga aldri því að börn þroskast auðvitað mest á fyrstu fimm árum ævinnar.

Ég held að að mörgu leyti sé það ákjósanlegt fyrir fjöldamörg börn á þessum aldri einmitt að hefja skólagöngu sína í leik og sem leik því að við vitum, kannski sérstaklega um þau börn sem eiga undir högg að sækja og eru í áhættuhópi, að þegar þau eru að hefja skólanám sitt eru þau kannski ekki mjög sterk á bókina. Þess vegna er að mörgu leyti jákvæðari og betri fyrsta reynsla af skipulögðu skólastarfi og skólaskyldu að koma í leikskólann í kennslu í gegnum leik sem þar fer fram og það frábæra og góða starf sem þar er unnið.

Ég segi þetta með skólaskylduna að um leið og við ræðum það hvort við ætlum að láta milljarða af opinberum fjármunum í að veita þessa þjónustu endurgjaldslaust hljótum við auðvitað að ræða um það hvort við verðum ekki líka að gera það að skyldu. Ég held að það sé mikilvægt vegna þess að það sem er ástæða til að hafa áhyggjur af er að þau börn sem mest þurfi á þjónustu leikskólans að halda fari á mis við hana, til að mynda eins og við höfum umræður um í nágrannalöndum okkar, börn innflytjenda. Við erum í vaxandi mæli að fá inn fólk sem hefur annað tungumál en íslensku sem fyrsta mál, málþroski okkar er mestur og bestur á fyrstu árum ævinnar og það er mjög mikilvægt að nýir Íslendingar aðlagist vel og fljótt og ekki síst börnin sem eiga mörg eftir að eyða hér lífinu öllu. Þess vegna er mjög mikilvægt að fá þau börn í leikskólann eins fljótt og kostur er til að stuðla að aðlögun, íslenskunámi og öðru þess háttar.

Ég nefni líka börn fólks sem er ekki á vinnumarkaði, fólks sem er atvinnulaust, býr við sjúkdóma eða er á örorku og þannig félagslega illa statt og börnin þar af leiðandi mörg í veikri stöðu félagslega. Þeim er líka mjög mikilvægt að fá þann góða stuðning og njóta þeirrar góðu starfsemi sem er í leikskólunum. Ég held þess vegna að þau 10% barna á þessum aldri sem eru ekki að fá þjónustuna séu því miður í mörgum tilfellum þau börn sem mikilvægast er fyrir okkur sem samfélag að fái stuðning, menntun og fræðslu í gegnum leik til þess að styðja þau og styrkja sem einstaklinga og þroska á þessum mikilvægu árum þannig að þau séu betur í stakk búin til þess að takast á við oft erfiða lífsbaráttu.

Við verðum að muna að því miður er það þannig þrátt fyrir mikla velsæld í okkar samfélagi að fátækt í okkar ríka samfélagi hefur því miður farið vaxandi og við þurfum alveg sérstaklega að hlúa í því sambandi að þeim börnum sem hafa orðið fyrir barðinu á þeirri þróun. Það held ég að við getum vel gert m.a. með því að taka þau mikilvægu skref í leikskólanum sem hér hafa verið til umræðu.



[19:00]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég get í öllum meginatriðum tekið undir ágæta ræðu hv. þm. Helga Hjörvars. Hann lagði í ræðu sinni áherslu á að þeir sem mest þyrftu á leikskólanum að halda, börn innflytjenda og jafnvel þeirra sem ekki væru á vinnumarkaði, færu ekki á mis við þetta skólastig, nytu þess stuðnings sem leikskólinn veitir. Ég get tekið undir það allt saman. Á hinn bóginn er kannski ekki nauðsynlegt að gera leikskólann að skólaskyldu eða gjaldfrjálsan til þess að tryggja þetta. Það má sennilega gera það líka í gegnum félagslega kerfið.

En varðandi tilvísun hv. þingmanns í ræðu mína um að við ætluðum að færa grunnskólann niður í síðasta ár leikskólans þá erum við komin út í heilmikla umræðu um hvernig við ætlum að stokka upp skólakerfið með lengingu náms til stúdentsprófs og hvert við ætlum að færa hvað. Fyrir mér er ekkert heilagt í þessu. Fagmenn innan menntamálaráðuneytisins og víðar hafa velt þessu fyrir sér árum saman og hafa ýmsar skoðanir og skiptar um hvernig við eigum að gera þetta.

Mig langar að endingu, herra forseti, að taka undir það sem hv. þingmaður sagði um gildi leiksins. Ég held að íslenski leikskólinn eins og hann er hugsaður með sínum námskrám og öðru sé sérstakt fyrirbæri á heimsvísu. Ég veit alla vega að í nágrannalöndunum eru menn ekki að tala mikið um leikskóla og þá hugsun sem er þar á bak við. Þar eru þetta meira gæsluúrræði sem menn hafa byggt upp og heyra undir félagsmálakerfi. Ég ætla síst að gera lítið úr leiknum og gildi hans.



[19:02]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki miklu við þetta andsvar hv. þm. Jónínu Bjartmarz að bæta. Hún vísaði réttilega til þess að leikskólinn á Íslandi er alveg sérstakt fyrirbæri, alveg sérstök stofnun. Alveg ótrúlega gott starf er þar unnið. Ég held að það sé ekki tilviljun. Ég held að sá mikli vilji sem hér hefur verið í samfélaginu fyrir þessari öflugu uppbyggingu eigi sér djúpar rætur í íslenskri þjóðarsál, þær rætur að við Íslendingar erum jafnaðarmenn. Við viljum tryggja öllum í þessu litla samfélagi sem jöfnust tækifæri og í því leggjum við mesta áherslu á að skapa börnunum sem jöfnust tækifæri. Leikskólinn er auðvitað fyrsta stigið í því að gefa fólki þann grunn inn í framtíðina að það geti keppt á jafnréttisgrundvelli eftir tækifærunum og tekið þátt í því samkeppnissamfélagi fullorðinsáranna sem síðan tekur við. Þess vegna erum við tilbúin og kannski viljugri en margar aðrar þjóðir að leggja nokkuð af mörkum til þess að unga fólkið okkar, uppvaxandi kynslóðir, fái þann stuðning og aðhlynningu sem nauðsynlegt er.



[19:03]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka enn og aftur hv. þm. Jónínu Bjartmarz fyrir stuðning við hluta málsins. En mér heyrðist á henni í umræðunni fyrr að hún væri vonsvikin yfir því að mér hefðu orðið á mistök að telja ekki upp svikamál Framsóknarflokksins. Ég er að hugsa um að gleðja hana með því að bæta úr því.

Ég vil fyrst nefna 500 milljónirnar sem framsóknarmenn sviku öryrkjana um eftir að hafa skreytt sig með samningnum í dagblöðum rétt fyrir kosningar.

Í öðru lagi má segja að mikil svik hafi verið framin rétt fyrir jólin síðustu þegar sett voru á skólagjöld í ríkisreknum háskólum. Þau voru samþykkt nokkrum línum fyrir ofan þá samþykkt framsóknarmanna í stefnuskrá flokksins að tryggja það að stefna að afnámi leikskólagjalda. Það er líka samþykkt. Ég fagna því þá sérstaklega að hv. þingmaður skuli ætla að standa við þann hluta.

Síðan er annað mál sem bitnar á landsbyggðinni þar sem flokkurinn virðist enn hafa stuðning þó ótrúlegt megi virðast. Það er að svikin er sú samþykkt að tryggja útræðisrétt strandjarða. Það er alveg með ólíkindum að flokkurinn skuli samþykkja þetta æ ofan í æ og senda síðan marga stuðningsmenn flokksins í dómsali til að sækja rétt sinn og sækja samþykktir flokksins. Mér finnst þetta með ólíkindum. En kannski er þetta eðlilegt og kannski var það einmitt bara hluti af samþykktum flokksins að hækka raforkuna um helming á landsbyggðina. Ég veit það ekki. Það hefur þá farið fram hjá mér. Ef til vill hefur það verið hluti af samþykktum flokksins að auka ójöfnuð eins og hefur komið fram, staðfest af fjármálaráðherra. Flokkurinn hefur notað tíma sinn í valdastólum til að auka ójöfnuð. Þess vegna er einmitt kjörið tækifæri fyrir Framsóknarflokkinn að bæta úr og styðja þessa tillögu.

Ég tel að við eigum ekki að hengja okkur í það sem kom hér fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal um að börn eigi ekki að fara að heiman fyrr en þriggja ára. Mér finnst það mjög sérstakur málflutningur og það væri fróðlegt að fá það í umræðuna í þjóðfélaginu hvort einhverjir uppeldisfræðingar væru tilbúnir að styðja þetta eða taka undir eða færa einhver rök fyrir þessu. Ég átta mig ekki á því hvert menn eru að fara og mér finnst þessi umræða drepa málinu á dreif og vera, svona eins og maður segir, klikkuð, að börn eigi ekki að fara að heiman fyrr en þriggja ára.

Ég tel einmitt að það sé gott fyrir bæði börn og foreldra að börn fari að heiman í einhvern tíma. En ég get tekið undir þau sjónarmið sem hafa komið fram, m.a. hjá hv. þm. Jónínu Bjartmarz, að kannski er ekki rétt að börn séu langdvölum að heiman. En ég held að það geti einmitt verið af hinu góða að börn fari á þessu árabili, eins til þriggja ára, að heiman. Það væri þó fróðlegt innlegg í umræðu um uppeldismál að heyra eitthvað um það hvenær börn eigi að fara að heiman. Þetta er mjög þörf og fróðleg umræða.



[19:08]
Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur orðið og fróðlegu. Hún minnti mann á köflum helst á kennslustundir í uppeldis- og kennslufræði þegar menn ræddu af tilfinningu um viðhorf sín til þess hvernig best væri nú staðið að uppeldi og fræðslu ungra barna. Ég þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Flestir lýstu stuðningi við málið, sumir án fyrirvara, aðrir kannski meira skilyrt og einhverjir voru nú, satt best að segja, ekki afdráttarlausir í sínum stuðningi ef stuðning skyldi kalla, einkum þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þeir hv. þingmenn. Sigurður Kári Kristjánsson og Pétur H. Blöndal.

Ég vil koma inn á nokkur atriði sem þingmenn drápu á. Í fyrsta lagi upplýsti hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir um þróun þessara mála hér síðastliðin tíu ár. Það er fróðlegt og áhugavert og á fullt erindi inn í þessar umræður að skoða hvernig okkur hefur miðað og hvar við erum á vegi stödd í samanburði við önnur Norðurlönd. Ég hef mjög þá sömu tilfinningu og fram kom í máli hennar, að þar hafi hlutirnir gjörbreyst og að við stöndum nú mun betur að vígi í öllum samanburði hvað þetta varðar.

Eftir stendur hitt og það bar líka á góma, kannski í öðru samhengi, að á hinn bóginn hefur Ísland ekki hætishót komist í áttina að styttri vinnuviku og minna álagi á fjölskyldurnar þar sem báðir foreldrar vinna úti og yfirleitt langan vinnudag. Meðalvinnuvikan á Íslandi hefur heldur lengst ef eitthvað er og er í kringum 48 stundir hjá almennum launamönnum. Þannig vinna ýmsar stéttir á Íslandi um mánuði lengur, svo reiknað, á ári hverju en sambærilegar starfsstéttir á hinum Norðurlöndunum. Íslenskir iðnaðarmenn vinna t.d. mánuði lengur en danskir o.s.frv. Ætli þar sé nú ekki vandinn og ef menn ræða um það sem varhugaverðan hlut að börnin séu allt niður í eins árs gömul í níu klukkustundir á dag á leikskóla þá held ég að sökudólgurinn sé ekki leikskólinn og tilvist hans og sú staðreynd að það úrræði eða sá möguleiki er til staðar fyrir þessa foreldra. Ætli vandi þeirra væri ekki enn þá meiri og hag þessara barna jafnvel verr borgið í mörgum tilvikum ef ekki væri þó þetta úrræði?

Talandi um að foreldrar gætu skipt því á milli sín að vera heima, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal gerði, þá er rétt að byrja á því að hafa í huga að það eru ekki öll börn svo heppin að alast upp hjá báðum foreldrum sínum. Ætli það sé ekki handleggur fyrir einstæða foreldra að gera allt í senn, að ala upp börnin og afla heimilinu tekna til framfærslu, þannig að þar mundu nú vandast mjög málin.

Ég held að miklu nær sé að líta til þess að gera umbætur á fæðingarorlofskerfinu. Það þarf að sjálfsögðu að lengja, a.m.k. í það ár sem það er á hinum Norðurlöndunum, ég held án undantekninga, og gera réttinn til töku þess mun sveigjanlegri en hann er í dag. Það getur breytt miklu fyrir fyrstu tvö til þrjú árin og aukið möguleika foreldra á að samræma þá uppeldi og umönnun barnanna og vinnu og svo auðvitað þarf að gera mikið átak í því að atvinnulífið á Íslandi aðlagi sig að högum fjölskyldnanna ekki síður en öfugt. Sveigjanlegur vinnumarkaður eru mikil tískuorð í Evrópurétti og -umræðum og það byggir á þeirri trú eða minnimáttarkennd Evrópumanna að þeir væru að tapa í samkeppninni við Bandaríkin um hagvöxt og hækkuð laun vegna þess að vinnumarkaðurinn evrópski væri of ósveigjanlegur. Ekki held ég að því verði fundinn staður þegar betur er að gáð, alla vega hljóta menn að verða að viðurkenna að þeir geta líka farið offari í þá áttina að ætla öllu samfélaginu, fjölskyldunni og barnauppeldi og öðru slíku, að ráðast í einu og öllu af því sem hentar hagsmunum fyrirtækjanna sem oft eru býsna skammsýnir og blindir. Staðreyndin er sú að framsýnir atvinnurekendur og þeir sem átta sig rétt á hlutunum snúa þessu gjarnan við og leggja mikla áherslu á að umgjörðin utan um fjölskyldurnar og stoðþjónustan við þær sé sem allra öflugust þannig að líkurnar aukist á ánægðum og heilsuhraustum starfsmönnum.

Það er ólíku saman að jafna ef maður ber saman viðhorf atvinnurekenda í Noregi til heilsuverndar starfsmanna sinna, íþróttaiðkunar og annarra slíkra hluta, eða því sem gerist hér á landi, því miður, með að vísu vissulega ánægjulegum undantekningum. Það er t.d. mjög algengt í norskum fyrirtækjum að þau greiði kostnað af íþróttaiðkun starfsmanna, skráningargjöld í viðurkenndar keppnir og greiði jafnvel endurnýjun á reiðhjólum þeirra svona á tveggja ára fresti, megi það verða til þess að ýta undir að þeir komi hjólandi í vinnuna því að það sýnir sig að þeir sem ástunda líkamsrækt og eru í góðu formi eins og sagt er eru miklu áreiðanlegri starfsmenn, hafa minni frátafir vegna veikinda o.s.frv. En ekki meira um þetta að sinni.

Ég vil aðeins koma inn á það sem hér var rætt af hv. þm. Helga Hjörvar og hv. þm. Jónínu Bjartmarz og reyndar fleirum. Það lýtur að spurningunni um skólaskylduna. Að sjálfsögðu er rétt og skylt að ræða það mál og skoða það í samhengi. Ég benti bara á í minni framsöguræðu að þetta þarf ekki endilega að fara saman þó að það sé eðlilegt að menn vilji skoða það. Við leggjum okkar tillögu þannig upp að hún er mjög opin. Hún gerir ráð fyrir því að þetta geti allt saman komið í áföngum og eitt sé ekki endilega skilyrði fyrir öðru. En maður getur mjög vel séð það fyrir sér að þetta þróist þannig að fyrst komi gjaldfrelsi til sögunnar á efsta árinu fyrir fimm ára börnin og í tengslum við það, kannski eftir ákveðna aðlögun, gæti síðan það ár í leikskólanum orðið skólaskylt innan einhverra marka, t.d. sex tímar á dag eða eitthvað því um líkt. Ég er algjörlega sammála því að það á ekki að færa það skólastig þar með upp til grunnskólans heldur á það að vera hluti af leikskólanum og ég held reyndar að þeim mun minni breyting og minni mörk sem eru þarna á milli þeim mun betra. Staðreyndin er sú að þau hafa mjög verið að hverfa með þeim áherslum sem nú eru lagðar í leikskólastarfinu. Síðasta árið fer að talsverðu leyti í að undirbúa breytinguna og undirbúa börnin undir þátttökuna í grunnskólanum og þar sem þetta er nú í sama hverfinu er því gjarnan hagað þannig að börnin af leikskólanum fara t.d. nokkrum sinnum í heimsókn í grunnskólann árið áður en þau færast þangað þannig að þau eru orðin þar kunnug.

Í það heila tekið vil ég láta það koma hér fram hafi ég ekki sagt það beint eða með berum orðum í framsöguræðu minni að ég er eindregið þeirrar skoðunar að í leikskólum landsins sé almennt unnið frábært starf og það sé til mikils sóma hvernig það hefur verið að byggjast upp og eflast. Ég er í þeirri stöðu að veturinn í vetur eða árið í ár er sennilega fyrsta árið af sautján í röð þar sem ég er ekki foreldri barns í leikskóla. Ég hef haft mikla ánægju af því að fylgjast með starfinu þar sem faðir fjögurra barna sem öll hafa gengið upp í gegnum leikskólann. Á þeim tíma hefur skólinn þróast heilmikið og tekið framförum. Hann hefur öðlast fastari sess sem hluti af skólakerfinu. Úrræðunum hefur stórfjölgað og hlutfall þeirra sem nýta sér þjónustuna hækkað þannig að það er að verða almenna reglan en ekki undantekningin eins og þetta var og þarf ekki að fara nema tíu til fimmtán ár aftur í tímann til að finna það að leikskólapláss voru ýmist fá eða jafnvel engin í fjölmörgum sveitarfélögum.

Ég held að þetta þurfi að sjálfsögðu að skoðast í samhengi. Það er rétt og skylt að gera um það kröfu að litið sé til samhengis hlutanna allt frá því að fæðingarorlofinu lýkur, sem ég endurtek að þurfi að lengja, hvað taki við, hvaða ástand eða fyrirkomulag verði þá á hlutununum næstu eitt til þrjú árin og hvernig svo efri hluti leikskólans er.

Það er mikill misskilningur að andi þessarar tillögu feli það í sér að þvinga öll börn inn í leikskólana allt niður í sex eða níu mánaða aldur. Það er alls ekki um neitt slíkt að ræða. Þess vegna höfum við einmitt farið mjög varlega í að tala þarna um skyldu heldur nálgumst þetta meira út frá að skilgreina rétt sem er þá valfrjáls að því marki sem ekki yrði um einhverja lengingu skólaskyldu niður á leikskólastigið að ræða, rétt foreldra til tiltekinnar gjaldfrjálsrar þjónustu á þessu sviði. Auðvitað þarf það svo að haldast í hendur við skyldur sveitarfélaganna eða þær kvaðir sem á sveitarfélögin eru lagðar í þessu verkefni sem öll sveitarfélög hafa metnað til og vilja til að standa að með myndugum hætti.

Ég held að ég þurfi ekki að hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu umræðu og þann stuðning við málið eða undirtektir sem það hefur fengið og hér hefur komið ágætlega fram í umræðunni. Auðvitað hefði verið ánægjulegt ef hæstv. ráðherrar mennta- og félagsmála hefðu getað tjáð sig í leiðinni. En það má ganga eftir afstöðu þeirra við betra tækifæri og ég trúi því nú að dropinn muni hola mjög steininn í þessu máli. Undirtektir við það hafa stóraukist frá því að við hreyfðum því fyrst í kosningabaráttu fyrir tveimur liðnum árum og gerðum það að baráttumáli okkar á landsvísu. Ég held að þannig þurfi að nálgast málið. Það þarf að bjóða sveitarfélögunum upp á slíkt samstarf við ríkið, annars mun þetta verða vanmegnugt og ekki nema tilviljanakennt í hvaða mæli verður farið inn á þessa braut hjá einstökum sveitarfélögum. Hér er því um alveg dæmigert samstarfsverkefni þeirra að ræða.

Ég man ekki, herra forseti, hvort ég tók það fram sem væntanlega á ekki að þurfa, að við leggjum til að þetta mál fari til félagsmálanefndar. Við höfum sett það upp að formi til sem mál sem við nálgumst frá sjónarhóli sveitarfélaganna sem slíkra og sendum það til þeirrar fagnefndar þó að það sé auðvitað að sjálfsögðu líka uppeldis- og menntamál, enda er gert ráð fyrir því að menntamálaráðuneytið eigi aðild að nefndarstarfinu.