131. löggjafarþing — 64. fundur
 1. feb. 2005.
Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu, fyrri umræða.
þáltill. GAK og JÁ, 23. mál. — Þskj. 23.

[13:54]
Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri útgerðar og fiskvinnslu. Þetta mál hefur komið áður til umræðu í Alþingi og er því vafalaust þeim sem áhuga hafa á þessu málefni nokkuð kunnugt. Rétt er að geta þess að við flytjum þetta tveir þingmenn, sá sem hér stendur og hv. þm. Jóhann Ársælsson. Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa þriggja manna nefnd sem fái það verkefni að semja frumvarp til laga um fjárhagslegan aðskilnað milli reksturs útgerðar annars vegar og fiskvinnslu í landi hins vegar. Frumvarpið verði lagt fram á þessu þingi og að því stefnt að lögin taki gildi 1. janúar 2006.

Lögunum verði ætlað að skapa skilyrði til eðlilegrar verðmyndunar á öllum óunnum fiski á markaði og stuðla að heilbrigðum og gegnsæjum viðskiptaháttum í fiskviðskiptum, og koma þannig á eðlilegum samkeppnisskilyrðum á því sviði.“

Í greinargerð með málinu segir svo:

Lagalegar forsendur.

a. Kröfur EES-samnings um virka samkeppni á markaði.

Núgildandi lög og reglur fela í sér að gerðar eru miklar kröfur um siðareglur í viðskiptum, virka samkeppni á markaði og gegnsæi hans. Lögleiðing samkeppnislaga, nr. 8/1993, markaði tímamót á þessu sviði. Einnig má vísa til þess að Ísland er bundið af samkeppnisreglum ESB vegna aðildar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og hefur sú skuldbinding víðtæk áhrif í íslenskum lögum og reglum. Sem dæmi um viðbrögð löggjafans má nefna þingsályktun um setningu siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði sem samþykkt var á 125. löggjafarþingi, en þar voru hafðar til hliðsjónar reglur framkvæmdastjórnar ESB.

Í greinargerð þeirrar þingsályktunartillögu segir m.a.: „Markmið reglnanna er að gefa viðmið fyrir siðlegt athæfi alls staðar á því svæði sem þær ná til, greiða fyrir virkri starfsemi verðbréfamarkaða og gæta almannahagsmuna.“ Á öðrum stað segir: „Til þess að hann [þ.e. verðbréfamarkaðurinn] megi þróast eðlilega allri þjóðinni til hagsbóta er nauðsynlegt að hlúa að heilbrigðum og gagnsæjum viðskiptaháttum á öllum fjármagnsmarkaðinum.“

Fullvíst má telja að viðskiptalegt umhverfi verslunar með óunninn fisk hér á landi fullnægi ekki settum kröfum EES-samningsins um virka samkeppni.

Næsti liður greinargerðarinnar fjallar stuttlega um íslensk samkeppnislög og þar segir:

Þingsályktunartillaga þessi á sér meginstoðir í lögbundnum markmiðum gildandi samkeppnislaga og er ætlað að þjóna þeim, en í 1. gr. laganna segir:

„Lög þessi hafa það markmið að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Markmiði þessu skal náð með því að:

a. vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri,

b. vinna gegn óréttmætum viðskiptaháttum, skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum,

c. auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum.“

Einnig má vísa til ýmissa annarra ákvæða samkeppnislaganna, svo sem 10. og 11. gr., og að auki er vert að benda á ákvæði 14. gr. en þar segir: „Þegar um er að ræða opinbert fyrirtæki eða fyrirtæki sem starfar að einhverju leyti í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar er samkeppnisráði heimilt að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað, annars vegar á milli þess hluta rekstrar fyrirtækisins sem nýtur einkaleyfis eða verndar og hins vegar þess hluta rekstrar sem er í frjálsri samkeppni við aðra aðila. Skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfis- eða verndaðri starfsemi.“

Sé fullrar sanngirni gætt verður ekki annað séð en að framangreind ákvæði 14. gr. eigi fyllilega við um þann mikla aðstöðumun sem skapast milli útgerðarfyrirtækja sem árlega fá úthlutað aflaheimildum og njóta þannig verndar með slíkum stjórnvaldsbundnum leyfum og hins vegar fiskvinnslufyrirtækja sem engrar slíkrar verndar njóta en starfa í óheftri samkeppni.“

Hæstv. forseti. Ef skoðuð eru viðskipti á fiskmarkaði í nóvember sl. kemur í ljós að þegar selt er beint til fiskkaupenda, þ.e. í beinum viðskiptum sem oftast nær eiga sér stað milli fyrirtækja sem eru bæði með útgerð og fiskvinnslu og hafa þannig ákvæði að þau geta verðlagt aflann sjálf með sérstökum samningum við sjómenn, kemur í ljós að slægður þorskur með haus er seldur að meðaltali á 117 kr. kílóið í nóvembermánuði 2004. Hins vegar er hann seldur á rúmar 178 kr. þegar selt er á innlendum fiskmörkuðum. Þarna er mismunur upp á rúmlega 61 kr. hvert kíló. Ég held að það viti allir sem vilja vita að beinu viðskiptin sem annars vegar fara fram beint við þau skip sem útgerðir gera út og hins vegar eru í eignarhaldi þeirra fyrirtækja sem jafnframt eru í fiskvinnslu eða útgerðarfélaga sem eru skráð á kennitölur í eign viðkomandi yfirfyrirtækis eða fiskvinnslufyrirtækis er verðið þar yfirleitt talsvert annað, og verulegur munur á miðað við það sem selt er á íslenskum fiskmörkuðum. Þeir sem versla á íslensku fiskmörkuðunum og reka fiskvinnslur sínar á þeim fiski kaupa hann að meðaltali í nóvember sl. á 61 kr. hærra verði en gerist og gengur í beinu viðskiptunum. Þar til viðbótar eru svo í beinu viðskiptunum viðskipti þar sem þeir sem hafa fengið úthlutað aflaheimildum gera samninga við aðrar útgerðir sem kvótalitlar eru eða kvótalausar og leggja upp hjá fiskvinnslufyrirtækjunum. Þar af leiðandi er kvótinn notaður til þess að draga til sín viðskipti.

Það er vissulega hægt að halda því fram eins og það sem ég vitnaði til hér áðan í samkeppnislögunum en þar sagði, svo að ég endurtaki það:

„Skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfis- eða verndaðri starfsemi.“

Ég held að það fari ekkert á milli mála, og það vita allir sem vilja vita, að þeir sem hafa fengið úthlutað aflaheimildum á Íslandsmiðum og eru jafnframt með fiskvinnslu nýta sér aflaréttinn, m.a. í verðmyndunarþættinum. Þar af leiðandi eru viðskipti með verulega öðrum hætti en eðlilegt gæti talist. Ég hef líka leyft mér að halda því fram, virðulegur forseti, að ég hefði enga trú á því að þeir aðilar sem lengi hafa verið í útgerð hér á landi, árum og áratugum saman, og þá á ég við stærstu og öflugustu fyrirtæki landsins, ræði ekki saman um rekstrarforsendur sínar og notkun á þeim réttindum sem þeim hafa verið fengin.

Ég hygg að menn geti spurt sig að því hvort það sé svo að gömul völd í sjávarútvegi, gömul eignastaða í sjávarútvegi, séu einhvern veginn í svipuðu fari og hin gömlu völd olíufélaganna sem Samkeppnisstofnun hefur verið að skoða. Ég ætla ekki að fullyrða um það en mér finnst mjög margt benda til þess að þannig liggi málið. Eitt er víst, þau fyrirtæki sem kaupa allan sinn fisk á fiskmarkaði á miklu hærra meðalverði en er í beinu viðskiptunum vinna jafnframt úr þessum fiski og selja hann inn á dýrustu markaði sem við finnum í nágrannalöndum okkar. Það þurfa auðvitað að vera mjög vel rekin fyrirtæki að keppa á þessum fiskmarkaði, jafnvel við þá sem eiga nægar aflaheimildir og geta notað þær í þessum viðskiptum. Það er alveg ljóst að sum fyrirtæki í sjávarútvegi sem reka eigin fiskvinnslu og útgerð og kaupa fiskinn af sjálfum sér eru að seilast inn á þá markaði og inn í þá viðskiptasamninga sem fiskvinnslur án útgerðar hafa samið við á undanförnum árum og selt.

Það er ekkert launungarmál, og vita það allir sem vilja vita, að sú mikla þróun og verðmætisaukning sem orðið hefur í ferskum útflutningi á unnum fiski frá Íslandi hefur fært okkur verulegan verðmætisauka fyrir þjóðina og verulega hærra skilaverð upp úr sjó fyrir unninn fisk á Íslandi. Þess vegna er meira en kominn tími á að það sé tekið á þessum málum. Þess vegna er það auðvitað sem við flytjum þetta mál hér aftur og aftur.

Því miður er það svo að flokkar sem kenna sig við óhefta samkeppni, eins og Sjálfstæðisflokkurinn, hafa staðið á móti þessu máli árum saman. Það er algjörlega ljóst að mínu viti að ef hér væri innleiddur rekstrarlegur aðskilnaður fiskvinnslu og útgerðar, fjárhagslegur aðskilnaður, yrði það til mikilla bóta til þess að sjá hvernig viðskiptin gerast á eyrinni, og að ekki væri hægt að blanda saman í bókhaldi og rekstri fyrirtækja þeim verðmætum sem annars vegar eru aflaheimildir, óveiddur fiskur í sjó við Ísland, og hins vegar fiskkaup á fiskmarkaði. Það held ég að væri mjög þarft verk að stuðla að.

Hér segir áfram í greinargerð með tillögunni:

Sé fullrar sanngirni gætt verður ekki annað séð en að framangreind ákvæði 14. gr. eigi fyllilega við um þann mikla aðstöðumun sem skapast milli útgerðarfyrirtækja sem árlega fá úthlutað aflaheimildum og njóta þannig verndar með slíkum stjórnvaldsbundnum leyfum og hins vegar fiskvinnslufyrirtækja sem engrar slíkrar verndar njóta en starfa í óheftri samkeppni á markaði.

Þetta eru jú fyrirtæki sem eru í harðri samkeppni á erlendum markaði að bjóða vöru sína og þetta hlýtur að teljast samkeppnisleg mismunun, hæstv. forseti. Þessi samkeppnislega mismunun hefur sömu afleiðingar og samkeppnislegt samráð um verð. Fiskiðnaðurinn er í alþjóðlegri samkeppni á erlendum mörkuðum og þær mismunandi leikreglur sem við búum fiskiðnaðinum hér á landi verða auðvitað til þess að menn sitja ekki við sama borð. Ég tel að það sé verið að vinna gegn hagsmunum íslensku þjóðarinnar með því að hafa þetta fyrirkomulag áfram eins og það er og það yrði þjóðinni til mikils hagræðis og mikils verðmætisauka í framtíðinni, fyrir utan það að lagfæra hér óeðlilegt viðskiptakerfi, ef stigið væri það skref sem þessi þingsályktunartillaga gengur út á.

Það er fjöldamargt annað, virðulegi forseti, sem ég vildi koma inn á en mun gera það í seinni ræðu minni. Ég vona að umræður um þetta mál verði efnislegar. Nóg er efnið. Hér er til skýrsla, „Sjávarútvegsstefna — breytt áhersla er nauðsyn“, frá Samtökum fiskvinnslu án útgerðar. Það er til skýrsla hér um aukið verðmæti í sjávarútvegi, fullt af gögnum sem segja að við getum búið til meiri virðisauka í sjávarútvegi.



[14:09]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri útgerðar og fiskvinnslu. Það eru nokkrar af skoðunum okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessu máli sem ég vildi hér koma á framfæri.

Í fyrsta lagi er til að taka að fjöldi fiskvinnslna hér, mikilvægra fiskvinnslna, er starfandi án þess að hafa útgerð og án þess að hafa fiskveiðiheimildir til að byggja rekstur sinn á. Þessi vinnsla er orðin ábyrg fyrir stórum hluta fiskvinnslu í landinu og ekki hvað síst þeirri vinnslu þar sem unnin er sérvara, handunnin vara eða á einn eða annan hátt eru unnar jafnvel dýrari vörur en unnar eru af hinum stærri útgerðum og fiskvinnslustöðvum. Þýðing þessara fiskvinnslustöðva er gríðarlega mikil í íslenskum sjávarútvegi.

Við í sjávarútvegsnefnd vorum á ferð um Suðurnes fyrir skömmu og heimsóttum þar vinnslur sem voru án fiskveiðiheimilda og án þess að eiga útgerð. Það var virkilega fróðlegt að sjá hvernig hágæðavara var unnin þar af miklum metnaði og kappi, hágæðafiskur til útflutnings. Einmitt þar var lögð gríðarleg áhersla á það við okkur í sjávarútvegsnefnd hversu mikilvægt það væri að fiskvinnslurnar ættu samkeppnishæfan aðgang að fiski á mörkuðum. Það sem sló mig einna mest var hversu mikið magn af fiski er flutt út í gámum án þess að mega koma inn á íslenska fiskmarkaði, er flutt út óunnið í gámum til vinnslu erlendis án þess að íslenskar fiskvinnslur geti komið þar að og boðið í.

Við fengum minnisblað frá þessum aðilum, Samtökum fiskvinnslu án útgerðar á Íslandsmarkaði og Fiskmarkaði Suðurnesja, sem ég ætla að leyfa mér hér að vitna til, með leyfi forseta:

„Það að íslenskum fiskkaupendum skuli gert það ómögulegt að bjóða í þann fisk sem sendur er á erlenda fiskmarkaði er ótrúlegt og óskiljanlegt. Með hinu fullkomna uppboðskerfi Íslandsmarkaðar geta erlendir aðilar boðið í fiskinn í samkeppni við íslensk fiskvinnslufyrirtæki þannig að á það reyni hér heima áður en fiskur fer í útflutning hver er hæstbjóðandi hverju sinni. Þá mundi þetta fyrirkomulag, sem er auðvitað hið eina eðlilega, styrkja mjög starfsemi íslenskra fiskmarkaða þar sem þeir fengju verulegar tekjur af umsýslu og sölu á umræddum fiski. Krafa íslenskra fiskkaupenda og fiskmarkaða er því aðeins sú að þeir verði ekki útilokaðir frá samkeppni eins og nú er, heldur verði allur óunninn fiskur seldur á Íslandi.“

Þá er ítrekað líka í þessum minnispunktum sem þeir létu okkur hafa, með leyfi forseta:

„Þá er einkennileg sú leynd sem hvílir yfir sölum erlendis. Innlendum fiskmörkuðum er uppálagt að birta allar upplýsingar daglega, hins vegar birtast verð á erlendum mörkuðum viku síðar þó svo að reglugerð kveði á um annað. Þá er rétt að benda á að vaxandi hluti afla sem fer til sölu á erlendum uppboðsmörkuðum fer aldrei á uppboð, heldur er seldur beint sem raunar er einnig andstætt reglum.“

Mér finnst þetta vera grafalvarlegt mál, herra forseti, og krefst þess í rauninni að á þessu máli verði tekið hér. Við höfum rætt það undanfarin ár hversu siðlaust það er að flytja utan í svo miklu magni fisk í gámum, óunninn fisk, án þess að íslensk fiskvinnsla geti fengið að bjóða í hana í samkeppni við hina erlendu aðila og án þess að nokkuð hafi verið að gert. Undanfarið hefur líka þessi útflutningur verið að aukast. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar jókst útflutningur í gámum á fyrstu tíu mánuðum ársins 2004, óunninn fiskur í gámum sem ekki fær að koma inn á markaði hér, um 65%.

Mér finnst þetta grafalvarlegt. Fiskvinnsla á Íslandi er í harðri samkeppni við erfitt gengi og lágt kaup erlendis en síðan þarf hún líka að búa við skerta samkeppnisstöðu. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir þessari aukningu. Ég hef séð það í tölum frá Hagstofunni að útflutningur í gámum nam á árinu 2003, janúar til október, 3.356 millj. kr., en á fyrstu 10 mánuðum ársins 2004 eru það 5.161 millj. kr., eða nærri 2 milljarða kr. meiri útflutningur á árinu 2004 en á árinu 2003, á gámafiski sem íslenskar fiskvinnslur fá ekki tækifæri til að bjóða í.

Ég ítreka að mér finnst þetta fullkomið siðleysi. Það má vel vera að réttlætanlegt sé að flytja þennan fisk út í smáum stíl, að útgerðir þurfi að senda óunninn fisk til viðskiptavina sinna sem hluta af einhverjum heildarviðskiptum. En ég get ekki séð að nokkur skynsamleg rök séu fyrir útflutningi á svo gríðarlegu magni sem hér um ræðir. Þetta ber að stöðva nema þá með fullkomnum leyfisveittum undantekningum.

Varðandi þessa tillögu þá vil ég gjalda varhuga við því að algerlega sé skilið á milli útgerðar og vinnslu en að útgerðir sem ekki stunda eigin vinnslu geti verið skyldar til að senda fisk sinn á markað þannig að hægt sé að nálgast þann fisk á samkeppnishæfan hátt. Vel má hugsa sér að einhver hluti af fiski á vegum útgerða sem eru með fiskvinnslu fari á markað en stærsta málið sem við stöndum frammi fyrir finnst mér að stöðva útflutning á gámafiski sem íslensk fiskvinnsla fær ekki tækifæri til að bjóða í. Það finnst mér vera mál númer eitt.



[14:17]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í lok ræðu sinnar sagði hv. þingmaður að hann gyldi varhuga við því að skilið yrði á milli útgerðar og fiskvinnslu. Þá geri ég ráð fyrir að hann sé að tala um þá tillögu sem hér liggur fyrir en hún snýst um að fjárhagslegur aðskilnaður verði í rekstri útgerðar og fiskvinnslu. Ég bið hv. þingmann að útskýra betur hvers vegna hann er á móti því að sá fjárhagslegi aðskilnaður verði? Sú aðgreining þýðir ekki að sömu fyrirtækin megi ekki eiga bæði útgerð og fiskvinnslu heldur sé algerlega skýrt að fjárhagurinn sé aðskilinn. Ég ætla ekki að útskýra það nánar í þessu andsvari eða rökstyðja en ég vil fá betri útskýringar hjá hv. þingmanni á því hvers vegna hann er á móti þessu.



[14:18]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki að fjalla efnislega um þennan þátt. Það má vafalaust finna það form á fjárhagslegum aðskilnaði á útgerð og fiskvinnslu sem gengur upp þannig að fullt hagræði náist innan fyrirtækja í slíkri starfsemi. Það var ekki meginatriði míns máls. Mér finnst að skoða megi það frá ýmsum hliðum. Mér finnst sjálfsagt að þau atriði séu skoðuð og hvað mönnum finnst í þeim efnum.

Ég ítreka að ég tel að eitt brýnasta málið okkar nú sé að þeim fiski sem veiddur er við Ísland sé þá landað hér og komi til vinnslu hér á landi.



[14:19]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ánægður með það að hv. þingmaður skuli ekki vera á þeirri skoðun sem ég taldi af því að hann orðaði það svo að hann gyldi varhuga við því að þessi fjárhagslegi aðskilnaður yrði að veruleika. Það er nú einmitt það sem við erum að ræða hér, hvort hann sé skynsamlegur. Ég tel að svo sé og er feginn því að hv. þingmaður er ekki á annarri skoðun.



[14:20]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel meginmál hér að íslensk auðlind, íslenskur fiskur sem veiddur er hér, landað hér o.s.frv., að hann sé unninn hér og að íslenskir aðilar, fiskvinnslur fái aðgang að honum. Erlendir aðilar sem vilja sækja óunninn íslenskan fisk til vinnslu gætu boðið í hann á íslenskum mörkuðum í samkeppni við íslenska fiskvinnslu. Það finnst mér vera meginmálið.



[14:21]
Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Það er full ástæða til að ræða um efni þessarar þingsályktunartillögu sem fjallar um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri útgerðar og fiskvinnslu. Ég þakka flutningsmönnum hennar hv. þingmönnum Guðjóni Arnari Kristjánssyni og Jóhanni Ársælssyni fyrir þá þolinmæði og staðfestu sem þeir sýna í þessu máli. Ég tók eftir því að í greinargerð sem fylgdi með frumvarpinu kom fram að þetta mál hefði áður verið lagt fram og ekki náðst að ræða það að fullu og því væri það lagt fram aftur. Ég fletti því upp hvernig þetta mál hefur gengið fyrir sig.

Málið var fyrst lagt fram 16. október árið 2001 og þá fóru fram um það ansi skýrar og glöggar umræður. Þá var gert ráð fyrir því í tillögunni að ný lög tækju gildi 1. janúar 2003. Síðan hefur málið verið sent til nefndar og ekki komið úr nefnd. Síðan er sama mál lagt fram 29. október 2002. Þá átti það að taka gildi 1. janúar 2004. Þar er sami háttur á. Þá fer fram 1. umr. Hún er góð en síðan gerist ekkert meira í málinu. Þá er málið lagt fram 13. október 2003.

Mér sýnist sem þetta mál hafi komið fram í október á hverju ári, nánast eins tryggt eins og jólin koma í desember, en aldrei hefur það komist lengra en að vera vísað til nefndar þar sem það hefur sofnað. Þetta, herra forseti, er nokkuð sem ég er farinn að átta mig á með örlög þingmannamála stjórnarandstöðunnar á Alþingi. Þau fá eina umræðu ef þau komast á dagskrá og síðan sjást þau yfirleitt ekki meira. Ég mundi vilja nota þetta tækifæri og skora á þingmenn stjórnarinnar og þá sem ríkisstjórnina styðja að sýna þann kjark að taka umræðu í nefnd um mál eins og þetta, afgreiða það aftur hér til þingsins svo það fái þá þinglega meðferð. Ef menn álíta að ekki sé hægt að samþykkja svona þingsályktunartillögu eins og hér er lögð fram þá felli menn hana einfaldlega, en láti málið ekki sofna í nefnd aftur og aftur.

Það dylst náttúrlega engum sem skoðar málið að það er gríðarlegur aðstöðumunur á milli þeirra aðila sem fengu úthlutað veiðiheimildum á sínum tíma og reka fiskvinnslu og þeirra sem reka eingöngu fiskvinnslu og kaupa allt sitt hráefni af öðrum. Þessi tillaga sem hér er lögð fram tekur eingöngu á fjárhagslegum aðskilnaði, bókhaldslegum og fjárhagslegum aðskilnaði og kemur ekkert inn á þau rekstrarlegu eða tilfinningalegu málefni að aðrir eigi ekki að fá „fiskinn minn“. Ekkert yrði því til fyrirstöðu að menn haldi óbreyttu kerfi miðað við þá tillögu sem hér er, að þeir sem bæði eiga útgerð og fiskvinnslu nýti áfram fisk af sínum bátum en það sé hins vegar skýrt í bókum hvers fyrirtækis hvernig rekstur útgerðarþáttarins lítur út og hvernig rekstur fiskvinnslunnar lítur út.

Þetta er eðlileg og sjálfsögð krafa þeirra sem eingöngu stunda fiskvinnslu. Ég efast um að í nokkurri annarri atvinnugrein á Íslandi fengju menn að reka fyrirtækin með þeim hætti sem gert er í sjávarútvegi, að hráefnisbirgir og framleiðandi séu sami aðilinn án þess að skilið sé þar á milli með bókhaldslegum aðskilnaði og jafnvel heildsali líka, það sé allt sama fyrirtækið frá upphafi til enda og engin leið að bera saman rekstrar- eða samkeppnisgrundvöll þeirra sem eingöngu stunda einn þátt þeirrar atvinnugreinar sem fram fer. Ég er viss um að Samkeppnisstofnun væri búin að taka á þessu máli í öðrum atvinnugreinum en hún gerir það ekki í fiskvinnslunni.

Við verðum að hafa í huga að fiskveiðar í kringum Ísland eru leyfisbundnar. Það er árleg úthlutun á veiðikvóta og því hægt að segja, eins og háttvirtur flutningsmaður sagði í upphafi máls síns að þessi atvinnugrein, þ.e. útgerðin, sé stunduð í skjóli opinbers einkaleyfis. Við vitum að þeir einir sem hafa þetta opinbera einkaleyfi mega nýta auðlindina í hafinu í kringum Ísland þótt hún sé þjóðareign og það komi skýrt fram í öðrum lögum.

Hér er um takmörkuð réttindi að ræða og þeim takmörkuðu auðlindum eða gæðum er úthlutað til fárra. Við verðum að gera þá kröfu að þeir sem nýta hina sameiginlegu auðlind geri það þannig að það sé opið og gegnsætt. Menn þyrftu þá ekki að geta sér til um hver afraksturinn er af útgerðinni annars vegar og afraksturinn af fiskvinnslunni hins vegar.

Ég reyndar þekki það vel til vinnslu og rekstrar útgerðarfyrirtækja að ég efast ekkert um að bókhald þessara fyrirtækja er með þeim hætti að það kemur skýrt fram hvernig rekstur útgerðarinnar er annars vegar og rekstur fiskvinnslunnar hins vegar. Þessir aðilar fylgjast nákvæmlega með því frá degi til dags, milli vikna og mánaða. En meðan ekki eru til lög um fjárhagslegan aðskilnað er möguleiki á að færa á milli greinanna, færa á milli útgerðarinnar og fiskvinnslunnar þannig að endanlegur ársreikningur sem út kemur þarf ekki endilega að endurspegla raunkostnað við útgerð eða fiskvinnslu og sýnir þar af leiðandi ekki raunafkomu, hvorki útgerðarinnar né fiskvinnslunnar.

Þeir aðilar sem kaupa fisk á fiskmörkuðum reka flestir hverjir fyrirtæki sín þannig að þeir fara inn á þá markaði sem gefa hæsta verðið hverju sinni. Þeir verða að gera það til að vera samkeppnishæfir um hráefnið á fiskmarkaði. Þeir sem eru með eigin útgerð geta hins vegar, ef þeir svo kjósa og menn hafa rökstuddan grun um að það sé í mörgum tilfellum svo, greitt lægra verð fyrir fiskinn af eigin skipum til að taka hann inn í fiskvinnsluna og hagnast vel á fiskvinnslunni. Við vitum náttúrlega að lægra fiskverð þýðir lægri laun til sjómanna. Það er sparnaður fyrir fyrirtæki sem er bæði með útgerð og fiskvinnslu að greiða lágt fiskverð því að þá þarf ekki að skipta af háa fiskverðinu til sjómanna á skipunum.

Ég tel að það sé eðlileg krafa sem hér kemur fram, að við sjáum þarna fjárhagslegan aðskilnað, bókhaldslegan aðskilnað. Slíkar kröfur eru gerðar til flestallra annarra atvinnugreina. Nýlega voru samþykkt raforkulög. Þar þótti nauðsynlegt og eðlilegt, og allir sammála um það, að skilja á milli framleiðslu, sölu og dreifingu og smásölu. Flestir fallast á að þetta verði að vera gegnsætt þannig að ljóst sé að menn séu að keppa á jafnréttisgrunni. Þetta gildir í fjarskiptamálum, hjá Símanum, Og Vodafone við heyrum þetta á hverjum degi. Það er nauðsynlegt að skilja á milli grunnnetsins og síðan annarrar starfsemi eða GSM-starfsemi og annarrar símastarfsemi. Það er mjög skýrt dæmi. Það eru ekki aðrir með heimilissíma en Síminn en það eru aðrir með GSM-síma. Þess vegna segja menn: Það er nauðsynlegt að Síminn haldi GSM-þjónustunni sér þannig að hann sé ekki að niðurgreiða frá heimilissímum yfir í GSM. Það þarf að vera hægt að bera saman og sjá hvort menn keppa á jafnréttisgrunni eða ekki.

Hið nákvæmlega sama gildir í fiskvinnslunni og útgerðinni. Það verður að vera hægt að sjá hvort þeir sem kaupa á mörkuðum keppi á jafnréttisgrunni við þá sem fá fisk frá eigin útgerð, herra forseti.



[14:29]
Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég geti tekið eiginlega undir nánast allt sem háttvirtur síðasti ræðumaður sagði. Ég held að það hafi aðeins verið eitt í lok ræðunnar sem honum sást yfir.

Það gerðist hér á Alþingi fyrir um 40 mínútum að við samþykktum þriðju kynslóð farsíma. Hvað var samþykkt þar? Stjórnarandstöðuflokkarnir lögðu til að ekki væri hægt að færa á milli þriðju kynslóðar farsíma og annarrar kynslóðar. Stjórnarflokkarnir samþykktu hins vegar að hafna því. Þannig verður hægt að færa á milli þriðju kynslóðar farsíma og annarra viðskipta. Ég vil draga þetta fram af því það mátti skilja það svo á ræðu hv. þingmanns áðan að menn pössuðu sig á að aðskilja þetta alls staðar. Það er rétt, menn hafa reynt að passa sig á því en Alþingi var að gera allt annað hér áðan.



[14:30]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er réttmæt ábending sem kom fram hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni varðandi það sem við ræddum rétt áðan. En þegar ég talaði um aðskilnað í fjarskiptum og hjá Símanum vitnaði ég til úrskurða sem Samkeppnisstofnun hefur fellt um að ekki sé verið að greiða niður GSM-þjónustu hjá einum sem hefur grunnnetið á sínum snærum og heimilissímana og hægt sé síðan að bera saman rekstur GSM-þjónustu hjá þeim aðila og öðrum þeim nýjum sem koma inn.

Af hverju menn vilja ekki fjárhagslegan og bókhaldslegan aðskilnað í útgerð og fiskvinnslu, ég átta mig ekki almennilega á því. Ég hélt að það væri tiltölulega einfalt og öllum til góða að sjá það, því að ef þetta væri orðin lagaskylda gerðu öll fyrirtæki þetta og þá sæju menn fljótlega hvort þeir væru að hagnast annars vegar á útgerðinni eða fiskvinnslunni hins vegar og gætu þá einbeitt sér að þeim rekstri sem þeir eru góðir í, þannig að þeir sem eru bestir í fiskvinnslu stundi fiskvinnslu og þeir sem bestir eru í útgerð stundi þá útgerð. Ef menn eru góðir í hvoru tveggja og vilja reka þetta saman, þá geta þeir það miðað við þessa þingsályktunartillögu eins og hún er, en þurfa þá að halda í bókum sínum uppgjöri hvors þáttar um sig aðskildum. Það liggi alveg fyrir hvað hvor þáttur kostar og hversu miklu hvor þáttur skilar í framlegð í rekstri viðkomandi.

Sérstaklega finnst mér mikilvægt þegar við horfum á það að sjómenn taka laun sín eftir fiskverði og taka laun sín miðað við það fiskverð sem verið er að greiða frá fiskvinnslu til útgerðar, að það sé eins gagnsætt og mögulegt er að verið sé að greiða það verð sem eðlilegt er hverju sinni, það markaðsverð sem gildir hverju sinni.



[14:33]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem sagt hefur verið að þetta mál sem hér liggur fyrir er ekki alveg nýr kunningi, þetta er má segja gamall kunningi hér í þinginu og sjálfsagt að slík mál séu rædd. Reyndar eru ekki svo mörg sjávarútvegsmálin til umræðu um þessar mundir, því er það vissulega ánægjulegt tilefni að geta aðeins farið að ræða þau mál og fara aðeins yfir sjávarútvegsmálin, m.a. út frá þeim sjónarhóli sem hérna er vísað til.

Ég hef á hverju ári gluggað í umrædda tillögu og þó að ég hafi lesið hana og hlýtt oft af athygli á ræður þeirra sem hafa talað fyrir þessu máli, þá get ég strax gert þá játningu að ég er ekki nær því en ég var í upphafi að vilja styðja málið og tel reyndar að það væri ákaflega óskynsamlegt ef það fyrirkomulag sem verið er að gefa til kynna væri staðfest og leitt í lög á einhvern hátt. Eins og lesa má af greinargerð tillögunnar er ég ekki í neinum vafa um að það yrði ákaflega skaðvænlegt fyrir íslenskan sjávarútveg, íslenskt þjóðarbú, ekki síst landsbyggðina, og mundi ekki þjóna því markmiði sem í raun liggur þó til grundvallar og ég veit að góður hugur er á bak við tillöguna í sjálfu sér.

Vandi tillögunnar er hins vegar sá að mörgu leyti að hún er ekki skýr. Hér er talað um hugtakið fjárhagslegan aðskilnað. Ég hlustaði á síðasta hv. ræðumann og staðfestingu hv. 1. flutningsmanns á því að allt sem hann hefði sagt væri kórrétt eftir bókinni um hvernig túlka mætti tillöguna. Það sem hv. þingmaður var í rauninni að segja var að það ætti að vera bókhaldslegur aðskilnaður, menn ættu að geta séð það í bókunum sínum hvernig reksturinn gengi.

Virðulegi forseti. Þurfum við að flytja um það sérstaka þingsályktunartillögu? Höfum við ekki einhver lög í landinu sem heita lög um bókhald? (Gripið fram í.) Og ætli þau kveði ekki eitthvað á um það hvernig menn eiga að færa bækur sínar þegar menn færa bókhaldið í fyrirtækjum sínum? Kannast menn ekki við áritun endurskoðenda? Ábyrgð endurskoðenda hefur verið stóraukin í áranna rás með lagasetningu frá Alþingi þar sem segir í áritun endurskoðenda svona efnislega að ársreikningur eigi að gefa glögga mynd af rekstrinum hverju sinni. Ef ársreikningur gefur ekki glögga mynd, hann sé á einhvern hátt blekking frá raunveruleikanum er ljóst að ábyrgir fyrir því eru væntanlega stjórnendur fyrirtækisins og endurskoðendurnir. Þess vegna er það, virðulegi forseti, að ef þetta er tilgangurinn með þingsályktunartillögunni þá sé ég nú ekki til hvers hún er flutt í rauninni, vegna þess að þá er bara verið að árétta það að menn eigi að færa bókhaldið sitt rétt.

Auðvitað er það rétt sem hv. 10. þm. Suðurk. sagði hér áðan og ég veit að hann talar af mikilli þekkingu því að hann hefur rekið sjávarútvegsfyrirtæki. Stjórnendur sem vilja taka hlutverk sitt alvarlega og eru að reyna að reka fyrirtæki sitt vel tryggja það auðvitað að þeir geti lesið út úr ársreikningunum og bókhaldi sínu þær upplýsingar sem þeir þurfa á að halda. Bókhaldið er stjórntæki, það vitum við. Bókhaldið er stjórntæki. Menn nota bókhaldið til að átta sig á því hvort útgjaldaliðirnir og tekjuliðirnir séu í samræmi við það sem menn eru að stefna að.

Ég þekki það vel til rekstrar sjávarútvegsfyrirtækis að mér er mætavel kunnugt um að stærsti einstaki útgjaldaliður til að mynda í fiskvinnslu er hráefnið. Ætli það verði þá ekki að liggja nokkuð skýrt fyrir í blönduðum rekstri hvert hráefnishlutfallið er? Það er reyndar gefið til kynna í þessum texta að það megi gæta þess að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfisrekstri. Reyndar er gefið til kynna í greinargerðinni að með því fyrirkomulagi sem núna ríkir sé verið að flytja fjármuni frá útgerðinni til fiskvinnslunnar. Ætli fiskvinnslumenn kannist við þá lýsingu, að fiskvinnsluhluti útgerðarinnar eða sjávarútvegsins sé svona vel haldinn vegna þess að búið sé að færa frá útgerðinni einhverja tekjuþætti sem ættu að vera þar yfir til fiskvinnslunnar? Það er auðvitað ekki þetta, virðulegi forseti, sem um ræðir.

Við vitum að hinn bókhaldslegi aðskilnaður er til staðar og það er ekkert af því tilefni sem getur knúið menn áfram til að leggja fram þessa þingsályktunartillögu. Það hlýtur að vera eitthvað annað sem vakir fyrir mönnum og það er auðvitað það sem maður sér þegar greinargerðin er lesin. Það er nefnilega ekki verið að leggja það til sem hv. þingmaður talaði um þegar hann reyndi að klæða tillöguna í aðeins sakleysislegri felubúning, heldur er verið að ganga miklu lengra. Það er það sem vakir uppi þegar maður les tillögugreinina ásamt greinargerðinni. Þá sér maður auðvitað að það er verið að leggja miklu meira til.

Það er hins vegar sá galli við tillögugreinina að hún er ekki nógu skýr, og mætti kannski og er ábending inn í umræðuna, að það væri a.m.k. ómaksins vert að gera tillögugreinina það skýra að það liggi þá fyrir hvað verið er að leggja til. Það er ekki bara verið, virðulegi forseti, að leggja til bókhaldslegan aðskilnað heldur miklu meira. Hvað er þá verið að leggja til? Jú, það er verið að leggja til að gerð séu hrein skil þarna á milli. Sá sem rekur útgerð og fiskvinnslu verður þá væntanlega að tryggja bæði verðmyndun innan fyrirtækis síns á þann hátt að hann geti ekki með neinu móti komið þar að.

Þá er það augljóst mál, sem allir hagsmunaaðilar hafa komið auga á og hafa sífellt talað um þegar þessi mál hefur borið á góma, að krafa um að slíta þarna algerlega á milli er krafa um að veikja sjávarútvegsfyrirtækin sem gerir það að verkum að þau eiga erfiðara með þá meginskyldu sína, þ.e. að mæta kröfum viðskiptavinarins. Og alveg sama hvernig við lítum á sjávarútvegsumhverfið í heild sinni, hvort sem við horfum á útgerðarþáttinn, vinnsluþáttinn eða markaðsþáttinn, sem er sérstaklega fróðlegt vegna þess að hér inni eru menn sem hafa starfað við þann hluta, markaðsþáttinn, þá vitum við að það sem meginmáli skiptir og var t.d. styrkur okkar Íslendinga áratugum saman þegar aðrar þjóðir gátu ekki státað af því, var nákvæmlega það að við vorum í þeirri stöðu að geta tryggt framboð á markaðina.

Hafi þetta verið mikilvægt á þeim tíma sem gömlu, góðu sölusamtökin voru allsráðandi, þá er þetta auðvitað margfalt meira áríðandi núna vegna þess að hlutur ferskfisksvinnslunnar í íslenskum sjávarútvegi er meiri og fer stöðugt vaxandi og er raunar sá þáttur íslensks sjávarútvegs sem á síðustu árum hefur vaxið jafnt og þétt og skilað sér sem hluti af viðbótartekjumyndun í íslenskum sjávarútvegi. Ætli það sé algjör tilviljun að allir þeir sem maður talar við sem starfa á þessum markaði og hafa þessar miklu skyldur í stóru fyrirtækjunum úti um allt landið, leggja ofuráherslu á að geta tryggt sér tiltekið hráefnisframboð til að geta brugðist við óskum viðskiptavinanna.

Hér var vitnað til ágætrar ferðar sem við í sjávarútvegsnefnd Alþingis fórum og hittum að máli fulltrúa Samtaka fiskvinnslu án útgerðar. Við fórum líka í fyrra ferð um Eyjafjörð og við höfum verið á ferðinni á Vestfjörðum. Það er alveg sama við hvern maður talar í þessum efnum, það er alltaf það sama sem blasir við, þ.e. að sjávarútvegurinn er að breytast að því leytinu til að hann er að verða mun meðvitaðri um markaðshlutverk sitt. Þess vegna skiptir öllu máli að ekki sé slitið á milli útgerðar og fiskvinnslu, að menn geti, sjái menn hagsmunum sínum best borgið þannig, og hafi það vald líka (Forseti hringir.) að ráðstafa hráefni sínu til þess að tryggja öruggt framboð inn á markaðina sem menn (Forseti hringir.) eiga að þjóna.



[14:41]
Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég gæti víða komið við í ræðu hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar en hún bar nú fyrst og fremst keim fyrirgreiðslupólitíkur eins og við höfum þekkt í sjávarútvegi á Íslandi síðustu tíu, tuttugu ár.

Það er alvarleg mismunun í íslenskum sjávarútvegi í dag, hvort sem um er að ræða útgerð eða fiskvinnslu. Hv. þingmaður vék að því í máli sínu að markaðirnir þurfi ákveðið öryggi er varðar framboð birgja sinna á fiski. Það er ekki verið að leggja til að leggja niður veiðar á Íslandi, svo það sé alveg á hreinu.

Í annan stað talar hann um stöðnun. Við skulum athuga hvernig landið liggur í rauninni á Íslandi í dag. Við erum annars vegar með fyrirtæki sem kenna sig við fiskvinnslu án útgerðar, svo erum við hins vegar með fyrirtæki sem eru í fiskvinnslu en einnig í útgerð. Það vill svo til, herra forseti, að fyrirtækin sem hafa verið að starfa í fiskvinnslu án útgerðar eru fyrirtækin sem hafa þurft af kappi og krafti að búa til markaði á erlendri grundu í þeirri hörðu samkeppni sem þau búa við. Eins og hv. þingmaður kom inn á í máli sínu er hráefnið nefnilega stærsti útgjaldaliðurinn í rekstri þessara fyrirtækja. Hann er mishár eftir tegundum fyrirtækja. Menn hafa viljað meina að hann sé jafnvel upp í 70–80% hjá fiskvinnslum án útgerða, en allt niður í 30–40% hjá fiskvinnslum með útgerð.

Einmitt þarna liggur stöðnunin í íslenskum sjávarútvegi. Verið er að meina ungu, íslensku fólki að koma inn í fiskvinnslu með eðlilegum hætti. Það er algjört grundvallaratriði í stórum iðngreinum hverrar þjóðar að bjóða upp í nýliðun í stærstu atvinnugreinum sínum. Sú hefur ekki verið raunin, hvorki í útgerð né fiskvinnslu á Íslandi. Sem skýrir kannski, virðulegi forseti, þá stöðnun sem hefur verið í fiskvinnslu á Íslandi um 20 ára skeið. Við erum að gera nákvæmlega sömu hlutina um borð í frystitogurum landsins og við gerðum fyrir 20 árum (Forseti hringir.) og svo má lengi telja.



[14:43]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður lýsti þessu er ég fyrirgreiðslupólitíkus vegna þess að ég vil reyna að verja hagsmuni íslensks sjávarútvegs. Ég er mjög ánægður með þá nafngift. (Gripið fram í.)

Það sem hv. þingmaður var í rauninni að gefa til kynna var það sem ég varaði við áðan. Hv. þingmaður var í raun að segja að það mætti ekki hafa það fyrirkomulag að sá sem réði bæði yfir bát og vinnslu gæti með einhverjum hætti ráðstafað hráefni sínu til sinnar eigin vinnslu sér til hagsbóta til að tryggja það markaðsframboð sem hann vildi svara. Hv. þingmaður var í raun og veru að segja þetta. Þetta skil ég vel. Þetta getur vel verið sjónarmið. Ég er hins vegar mjög ósammála þessu. Þetta var ekki það sjónarmið sem kom fram fyrr í ræðunni þegar menn voru að reyna að setja þetta mál í einhvers konar dulargervi, að þetta væri bara spurning um að menn færðu bókhaldið sitt rétt, þannig að það sæist hver væri útgerðarþátturinn og hver væri fiskvinnsluþátturinn. Hv. þingmaður gekk nefnilega miklu lengra. Hann var í raun að lýsa í fáeinum orðum, á tveimur mínútum, kjarna tillögunnar sem er einmitt sá að koma í veg fyrir það að aðili sem núna í dag rekur bæði fiskvinnslu og útgerð geti gert það með þeim hætti að hann sjái til þess að útgerðarþátturinn þjóni fiskvinnsluþættinum hans. Um þetta snýst málið.

Hv. þingmaður taldi að núverandi fyrirkomulag, þ.e. fiskvinnslufyrirtæki sem á útgerð eða útgerð sem á fiskvinnslufyrirtæki, hafi leitt til stöðnunar í íslenskum sjávarútvegi. Ég er að vísu algerlega ósammála honum um að íslenskur sjávarútvegur sé staðnaður. Mér finnst allt benda til þess, allar tölur sem maður sér, allt umhverfið sem maður horfir á, heimsóknir í fyrirtækin, að það er gríðarlegur kraftur í íslenskum sjávarútvegi og ótrúlega mikil sókn á öllum sviðum, bæði tæknilega og markaðslega. Menn eru að brjóta sér leiðir inn á nýja markaði og maður hittir stöðugt fólk sem starfar á þessum sviðum, bæði í stóru fyrirtækjunum og litlu fyrirtækjunum, sem er að gera góða hluti. Ég er því alveg ósammála honum um að íslenskur sjávarútvegur hafi einhver stöðnunareinkenni.



[14:46]
Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Einar K. Guðfinnsson þeirrar spurningar: Hvað er óeðlilegt við það að fyrirtæki sem róa til fiskjar á Íslandi í dag, útgerðir sem eru að ná í ferskan fisk á Íslandsmiðum í dag, skili þeim afla á fiskmarkaði með það að markmiði að allir hafi sama rétt til að bjóða í fiskinn? Það er ekkert óeðlilegt við það. Við höfum séð frændur okkar í Færeyjum gera þetta með afskaplega góðum árangri. Ég hef sjálfur kynnst sjávarútvegi í Færeyjum, herra forseti, og ég hef komist að þeirri niðurstöðu að þeir eru fetinu framar en við í dag. Svo einfalt er það.

Það hlýtur að kalla á mismunun, herra forseti, þegar eitt fyrirtæki getur fengið karfa inn í hús á 50 kr. á meðan samkeppnisaðilar í fiskvinnslu á Íslandi, fiskvinnsla án útgerðar, þurfa sama daginn að sækja sams konar hráefni á 110 kr. á markaðinn. Það er óeðlilegt að boðið sé upp á slíkar aðstæður í markaðsumhverfi. Það er einmitt kjarninn í hugsun þeirra sem flytja þetta mál, að tryggja að (Forseti hringir.) ójöfn samkeppnisskilyrði heyri sögunni til í íslenskum fiskvinnsluiðnaði.



[14:47]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það mætti líka umorða spurningu hv. þingmanns með þessum hætti: Hv. þingmaður var í raun og veru að spyrja og gefa til kynna að það væri mjög óeðlilegt að aðili sem bæði hefði útgerð og fiskvinnslu hefði sérstakan aðgang að sínu eigin hráefni. Um það snýst umræðan í raun og veru. Það er kjarni þessarar umræðu. Ég get vel virt það að hv. þingmaður hafi aðra skoðun en ég í þessum efnum. Ég er hins vegar alveg sannfærður um að það er grundvallaratriði og það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir íslenskan sjávarútveg að reynt sé að tryggja samræmingu veiða og vinnslu, tryggja það að einmitt sá sem hefur aðganginn að hráefninu geti varið honum til þess að nýta það til hagsbóta fyrir fiskvinnslu sína, til þess að tryggja aðgengið að mörkuðunum, tryggja þetta nauðsynlega framboð á mörkuðunum.

Það var ákaflega lærdómsríkur fundur sem við nokkrir þingmenn úr sjávarútvegsnefnd áttum með fulltrúum frá Noregi sem voru að fara yfir vandann sem við er að glíma í norskum sjávarútvegi. Hver var kjarni þess máls? Hver var kjarni vandans? Hvert var aðalatriðið sem þeir undirstrikuðu í samtölum við okkur? Það var (Forseti hringir.) að í Noregi væru það skilin þarna á milli sem væru að rústa þeirra eigið markaðsstarf og kæmu í veg fyrir að þeir gætu gert jafn vel og við Íslendingar.



[14:48]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson tekur þátt í umræðunni með okkur því ég sé að í þau þrjú skipti sem málið hefur verið hér til umræðu áður, a.m.k. samkvæmt þeim gögnum sem ég prentaði út af netinu, hefur hann ekki tekið þátt í umræðunni fyrr.

Það veldur alltaf vonbrigðum þegar menn sem þekkja betur gera sér upp fáfræði og halda því fram blákalt að svart sé hvítt og hvítt sé svart. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson veit ósköp vel að það sem við erum að ræða hér hefur ekkert að gera með áritun endurskoðenda. Það hefur ekkert að gera með bókhaldsreglur. Það hefur með það að gera á hvaða hátt hráefnisverð er ákveðið og á hvaða hátt það er fært inn í bækur fyrirtækjanna.

Getur hv. þingmaður þá útskýrt fyrir okkur hvernig á því stendur að flestallar fiskvinnslur sem reka sína eigin útgerð eru með hráefniskostnað samkvæmt ársreikningum sínum sem er í kringum 50–55%? Flestallar vinnslur sem kaupa hráefni á opinberum fiskmörkuðum á Íslandi eru með hráefniskostnað á bilinu 80–85%. Er það vegna þess að þær vinnslur sem kaupa á markaði eru að selja svo ódýrt að hráefnið verður svona hátt hlutfall af söluverði? Ég held ekki og ég held að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson viti ósköp vel að það er ekki skýringin. Skýringin er sú að hráefniskostnaðurinn á hvert kíló hjá þeim sem kaupa á markaði er miklu hærri en hjá þeim sem færa ákveðið kaupverð inn í bækur sínar frá sinni eigin útgerð. Ástæðan er öllum ljós og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson veit hana eins vel og ég. Ástæðan er sú að fiskverð kemur til skipta, fiskverð ákvarðar laun sjómanna. Þeir sem hafa bæði útgerðina og fiskvinnsluna á sinni hendi geta því fært frá útgerð yfir til fiskvinnslu og gera það samkvæmt þeim tölum sem við höfum upp úr opinberum ársreikningum. Hráefnishlutfall fyrirtækja í eigin útgerð og hráefnishlutfall fyrirtækja sem kaupa á markaði er gjörólíkt á Íslandi. Það veit hv. þingmaður.



[14:50]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf hvorki ræðu frá mér né hv. þm. Jóni Gunnarssyni til þess að segja mönnum frá því að verð á fiskmörkuðum er hærra en verð í beinum viðskiptum. Það er búið að vera þannig, held ég, alveg frá því að fiskmarkaðirnir voru stofnaðir. Það koma að vísu tímar þar sem þetta breytist. Við þekkjum það að þegar sveiflur verða hér á fiskverði þá gerist það stundum að fiskverð á mörkuðum fylgir ekki alveg eftir, fiskverð á mörkuðum verður kannski lægra um tíma og hærra í beinu viðskiptunum, en almenna reglan er sú, og það er auðvitað skýringin á því sem hv. þingmaður var að segja.

En kjarni málsins er auðvitað sá sem ég er að reyna að leggja áherslu á hér og það er: Telja menn óeðlilegt að sá sem er í þeirri stöðu að vera bæði með bát og fiskvinnslu hafi einhvern umframaðgang að sínu eigin hráefni? Hv. þingmaður var sjálfur að reyna að draga úr ótta manna við það áðan í ræðu sinni að það væri nokkuð verið að taka þann rétt af mönnum en svo þegar hann kemur hér í andsvar finnst mér hann tala á allt annan hátt. Mér finnst mjög mikilvægt að þetta sé algjörlega útskýrt í þessari umræðu: Er verið að tala um að menn megi ekki njóta forgangs að sínu eigin hráefni eða er hér verið að tala um einhverja allt aðra hluti? Hvernig ætla menn þá að gera þessa hluti? Mér finnst að menn verði þá að stafa þetta alveg niður af því að tillögugreinin leiðir það alls ekki ótvírætt í ljós.



[14:52]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson staðfesti hér það sem ég var að segja að verð fyrir hráefni er mun hærra hjá þeim sem ekki stunda útgerð en hjá þeim sem hafa bæði útgerð og fiskvinnslu á sínum snærum. Það segir í raun allt sem segja þarf og segir okkur líka að það sé eðlilegt að í bókum þessara fyrirtækja sé aðskilnaður þannig að það liggi fyrir með alveg skýrum og glöggum hætti að það sé fjárhagslegur aðskilnaður þarna á milli, að annars vegar séu menn að reka útgerðardeild og hins vegar séu menn þá að reka fiskvinnsludeild. Það er ekkert sem segir að menn sem bæði reka útgerð og fiskvinnslu geti ekki landað öllum þeim afla sem þeim dettur í hug inn í eigin vinnslur svo framarlega sem þeir borgi sama verð fyrir það og gengur og gerist á markaði og séu þá að keppa í vinnslunni við aðrar vinnslur á jafnréttisgrunni. Það hlýtur öllum að vera ljóst að það er sanngirnismál og mundi styrkja þegar frá liði þau fyrirtæki sem bæði eru með vinnslu og útgerð, vegna þess að þau færu þá kannski að reka fiskvinnsluna, sum hver, með öðrum hætti en þau gera í dag.



[14:53]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að í seinna andsvarinu hafi hv. þingmaður aftur siglt aðeins nær mér í þessu máli þegar hann sagði að það þurfi fyrst og fremst að vera skýrt í bókunum hver sé útgerðarþátturinn og hver sé fiskvinnsluþátturinn. Það er auðvitað rétt, þannig á það að vera. Það er bara einfaldur hlutur og allir stjórnendur hljóta að leggja áherslu á það og þá kemur auðvitað mjög skýrt fram hvert hráefnishlutfallið er. Þær tölur sem hv. þingmaður nefndi eru ábyggilega ekkert fjarri lagi, 50–60% hráefnishlutfall. Við höfum auðvitað séð hvað hefur verið að gerast í fiskvinnslunni ef við lítum yfir smátíma. Það er að við þær aðstæður sem skapast hafa á undanförnum árum þar sem sannarlega hefur orðið hækkun á hráefnisverði, sem hefur bæði komið fram í bókum blandaðra sjávarútvegsfyrirtækja og hreinna fiskvinnslufyrirtækja, þá hefur hráefnishlutfallið verið að hækka. En hvað hefur gerst? Launahlutfallið hefur verið að lækka. Ástæðurnar eru þær að bæði hefur orðið tæknibreyting og launakostnaður af þeim ástæðum lækkað, en líka hitt að það fer ekki á milli mála að þessi hækkun á hráefniskostnaði hefur leitt til þess að laun fiskverkafólks hafa setið eftir. Það er auðvitað augljóst mál að þegar verið er að skipta einhverri púllíu hefur þetta áhrif og sem hluti af breytilegum kostnaði hefur launaþátturinn í fiskvinnslunni verið að lækka (Forseti hringir.) sem hefur auðvitað verið afleiðing af því að hráefnisverðið hefur verið að hækka.



[14:55]
Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki alveg á því sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði úr þessum ræðustóli, eitthvað í þá veru að tillagan væri afar óskýr og óljós og markaði ekki nógu vel markmiðin. Það segir jú í tillögunni að skipa skuli þriggja manna nefnd sem hafi það verkefni að semja frumvarp til laga um fjárhagslegan aðskilnað milli reksturs útvegs annars vegar og fiskvinnslu í landi hins vegar. Síðan segir um það sem menn vilja marka inni í þessum lögum:

„Lögunum verði ætlað að skapa skilyrði til eðlilegrar verðmyndunar á öllum óunnum fiski á markaði og stuðla að heilbrigðum og gegnsæjum viðskiptaháttum í fiskviðskiptum, og koma þannig á eðlilegum samkeppnisskilyrðum á því sviði.“

Ég held að þetta sé nokkuð skýrt orðað. Og miðað við það sem tillagan hljóðar upp á að verði sem vegvísir fyrir nefndina til að vinna málið er ekki hægt að draga aðra ályktun af því en að við viljum í fyrsta lagi fjárhagslegan aðskilnað, það er liggur algjörlega fyrir, og við lítum einnig svo á að fjárhagslegur aðskilnaður eigi að stuðla að eðlilegri verðmyndun og það geti orðið til þess að skapa skilyrði til þess að allur óunninn fiskur á Íslandi verði seldur á markaði.

Þetta held ég að öllum hljóti að vera ljóst og þar af leiðandi erum við auðvitað að segja að þau skilyrði sem núna ríkja í fiskviðskiptum séu ekki eðlileg og það sé eðlilegt að skilja þarna á milli.



[14:57]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má vel vera að ég hafi ekki haft skýrleika til þess að skilja einhverja hluti sem hv. þingmanni finnst mjög auðskiljanlegir. Ég hugga mig þó a.m.k. við að vera ekki alveg einn um það í þessum sal því ég hef ekki heyrt betur en að menn hafi túlkað þessa tillögugrein dálítið út og suður, og eftir þessa umræðu er það t.d. alls ekki ljóst og verður auðvitað að skýra það í meðferð nefndarinnar þegar hún tekur málið fyrir, við hvað hér er átt nákvæmlega.

Hér vísaði hv. þingmaður í orðin „eðlilegrar verðmyndunar á öllum óunnum fiski á markaði“. Er hv. þingmaður þar með að segja að aðili sem á útgerð og fiskvinnslu megi ekki eiga innbyrðis viðskipti um þessi mál? Á hv. þingmaður við það? Eða á hv. þingmaður t.d. við það sem hv. þm. Jón Bjarnason gerði að meginumræðuefni í ræðu sinni að það mætti ekki hafa það fyrirkomulag sem núna ríkir að menn selji beint á erlenda markaði og menn eigi að selja í gegnum innlenda markaði? Er það t.d. hluti af því máli sem hér er verið að tala um? Það er auðvitað heilmikið mál. Við vitum eins og kom fram í máli hv. þingmanns að það hefur orðið mikil aukning á útflutningi á óunnum fiski án þess að hann komi við á íslenskum fiskmörkuðum. Það getur auðvitað haft heilmikil áhrif á aðra verðmyndun í landinu. Á hv. þingmaður við það? Það eru slíkir hlutir sem þurfa auðvitað að liggja algjörlega skýrir fyrir því umræðan hefur a.m.k. ekki skýrt það.



[14:58]
Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú svolítið annað hvað sá sem hér stendur vildi gera ef hann fengi því ráðið eins og sagt er. Þetta er hins vegar tillaga sem ég vonast til að fái góðar umræður í sjávarútvegsnefnd og að þar leiti menn auðvitað ráða eins og gefur að skilja, margra manna, og síðan komi málið aftur inn í þingið í þeim búningi sem menn telja að það eigi að vera í. Ég spyr hv. þingmann að því hvort hann styðji það ekki að málið fái vegferð út úr sjávarútvegsnefnd og komi hér til umræðu aftur eftir væntanlega góða vinnu nefndarinnar.

Það er auðvitað einnig svo, hæstv. forseti, að ef það verður algjörlega fjárhagslegur og rekstrarlegur aðskilnaður á milli útgerðar og fiskvinnslu, þá er ekkert sem segir að í framtíðinni verði sömu hluthafar beggja megin. Hluthafar gera auðvitað kröfu til þess að viðkomandi atvinnurekstur sé rekinn með hagnaði. Þar af leiðandi fara hagsmunirnir ekkert endilega saman þó að þeir geti farið saman.



[14:59]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af því sem hv. þingmaður sagði um hvernig meðferð málið mundi fá í sjávarútvegsnefnd. Ég sit þar eins og aðrir óbreyttir þingmenn. Auðvitað hefði ég mikinn áhuga á því að málið yrði krufið til mergjar, að við færum vel ofan í þetta, ræddum við hagsmunaaðila, færum t.d. yfir það með fulltrúum í fiskvinnslu á Patreksfirði, Ísafirði og Sauðárkróki svo ég taki bara þrjá staði þar sem ég þekki nokkuð til og veltum því svolítið fyrir okkur með þeim aðilum hvaða áhrif þetta hefði ef t.d. væri farið eftir túlkun þeirrar tillögu sem felur í sér að útgerðarmenn og fiskverkendur sem reka sameiginlega fyrirtæki megi ekki eiga viðskipti eins og gefið var til kynna fyrr í umræðunni. Við skulum bara … (Gripið fram í.) Við skulum bara fara ofan í þessi mál þannig að menn geri sér nákvæmlega grein fyrir hvað við er að eiga. Aðilar sem hafa t.d. lagt ofuráherslu á að styrkja hráefnisöflun sína vegna þess að þeir hafa séð að það er forsendan fyrir því að þeir gætu sinnt mörkuðunum. Við skulum bara ræða þessi mál við þessa aðila. Ég held að það væri mjög spennandi og ef það leiðir (Forseti hringir.) eitthvað jákvætt í ljós afgreiðum við málið væntanlega.



[15:01]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil gjarnan spinna svolítið áfram það sem hefur verið rætt á undanförnum mínútum. Mér finnst t.d. hægt að fagna því að sú hreinskilni hafi verið í umræðunni sem gætti hjá hv. þm. Einari Guðfinnssyni. Hann spurði áðan hvort óeðlilegt væri að menn hefðu hag af því að fá hráefnið til vinnslu sem þeirra eigin skip veiddu. Greinilegt var að hann leit á það sem eðlilegan hlut að hráefnisverðið væri mun lægra en það verð sem hægt er að fá á markaði. Það er gott að menn skuli meðganga þá hugsun sína, því fyrir liggur að útgerðarmenn hafa skrifað undir það í samningum við sjómenn að leita skuli hæsta verðs. Ef menn eru þeirrar skoðunar að hæsta verðið eigi ekki að koma fram tel ég að það sé tvískinnungur í því þó vægt sé til orða tekið sem menn hafa gert þegar þeir skrifuðu undir samninga við sjómennina sína.

Þó það væri ekki annað en sú skuldbinding sem útgerðarmenn hafa gengist undir með þeim undirskriftum ætti það auðvitað að þýða að hér væri fjárhagslegur aðskilnaður til þess að tryggja að hægt væri að standa við þessa samninga. Það hefur ekki verið í gegnum tíðina.

Ég er fyrir mitt leyti á þeirri skoðun, og get sagt það einu sinni enn, að ég er alveg sannfærður um að það yrði gríðarleg sprenging í sjávarútveginum ef allur fiskur færi um markaði, ef öll fyrirtæki í sjávarútvegi þyrftu að standa í samkeppni um hráefni á markaði. Það þarf ekki annað en fara í þau fyrirtæki sem hafa lifað af í því óvinsamlega umhverfi sem hefur verið hvað varðar fiskvinnsluna í landinu, þar sem fiskvinnslufyrirtæki án útgerðar hafa raunverulega staðið frammi fyrir því að keppa við fyrirtæki sem fengu úthlutun á aflaheimildunum og eru að keppa á sömu mörkuðum og þau um afurðir á erlendum mörkuðum — þau fyrirtæki fengu sem sagt úthlutanirnar í forgjöf. Þær úthlutanir eru í dag á milli 300 og 400 milljarða virði.

Halda menn að það sé auðvelt að keppa í fiskvinnslu við þau fyrirtæki sem fengu kvótann í forgjöf á markaðinn? Nei, það er sko ekki auðvelt. Það er bara afrek að fiskvinnsla án útgerðar skuli hafa staðið þetta af sér, skuli vera til. Það er einmitt sama fiskvinnslan sem hefur orðið til þess að markaðurinn er orðinn eins og hann er í dag með ferskar afurðir á erlenda markaði. Það er löngu kominn tími til þess að menn breyti þessu fyrirkomulagi. Hvers vegna skyldu menn ekki vera með þetta fyrirkomulag annars staðar en hér? Einfaldlega vegna þess að það er miklu skýrara og skilvirkara að menn séu í því sem þeir eru bestir í.

Ég skil satt að segja ekki hvers vegna menn í sölum Alþingis eru á þeirri skoðun að þeir sem ekki ráða við verðið á markaðnum og geti ekki keppt um verðið á markaðnum þurfi einhverja sérstaka vernd með reglum frá hv. Alþingi. Þeir sem geta ekki borgað nema 80 kr. fyrir hráefnið eigi að fá einhverja sérstaka vernd gagnvart hinum sem geta borgað 120 kr. En það hefur verið í gangi allan tímann og menn vilja verja með öllum ráðum. Það er ekki einu sinni skilningur á því að þeir aðilar þurfi a.m.k. að standa frammi fyrir því að það sé skýr fjárhagslegur aðskilnaður þannig að hægt sé að sjá hvaða verð þetta eru nákvæmlega. Hvað mundi gerast þá? Það er bara eitt sem mundi gerast ef ekkert annað breyttist í þeirra rekstri, að þeir yrðu að fara að borga sjómönnunum rétt verð eins og fæst fyrir fisk á markaði. Auðvitað yrði það útgjaldaaukning fyrir mörg þessara fyrirtækja.

Ég er hins vegar á þeirri skoðun að ef menn kæmust einhvern tíma alla leið í málinu þar sem allur fiskur færi á markað og tæki þar verð yrði auðvitað að stokka alla þessa hluti upp, menn þyrftu að semja upp á nýtt. Það hefur aldrei verið eðlilegt að sjómenn fengju skipt út úr fiskverði með kvótaverðinu ofan á. Það hefur aldrei verið eðlilegt og það skal ég segja í þessum ræðustól. Auðvitað hefðu menn þurft að breyta þessum hlutum ef koma hefði átt einhverjum eðlilegum skiptum með þetta.

Það er fleira sem kemur að á hv. Alþingi og menn hafa rætt á undan í umræðunni. Það er t.d. með þennan gámafisk. Hvaða skýringar eru á því að menn skuli flytja fisk út í gámum og fyrir hann skuli fást mun lægra verð en það verð sem er á mörkuðum? Hvaða skýring er á því frá útgerðarmönnum? Hefur það verið skoðað? Hefur t.d. Samkeppnisstofnun kíkt á þetta mál? Ég efast um það. Samkeppnisstofnun hefur ekki fengist til þess að skoða málefni sjávarútvegsins fram að þessu. Það er einhver maðkur í mysunni þegar útgerðarmenn vilja ekki hæsta verð á markaði, þegar þeir vinna ekki einu sinni fiskinn sjálfir. Hvers vegna vilja þeir þá ekki hæsta verð á markaði?

Það er bara ein skýring til á því — þeir fá einhverja fjármuni sem ekki sjást í bókhaldinu hjá þeim. Það er svo einfalt. Það getur ekki verið sú skýring fyrir hendi að menn haldi áfram að selja á markaði þar sem þeir fá miklu lægra verð en þeir gætu fengið annars staðar. Sú skýring heldur ekki, hún gengur ekki upp. Hin er miklu líklegri að ekki komi allt til grafar sem um er að tefla sama með hvaða hætti það er, ég ætla ekki að spá um það. Ýmislegt getur spilað inn í þetta, t.d. hvernig kvóti er reiknaður o.s.frv. Það er að mörgu að hyggja þegar verið er að gá að því hvort menn séu að ákveða hlutina skynsamlega en ég efast ekki um að útgerðarmenn geri það þó fyrir liggi að verðið sem sést að borgað sé sé lægra í þessu tilfelli.



[15:09]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Hér er um mjög mikilvægt hagsmunamál að ræða fyrir íslensku þjóðina. Það varðar frjáls viðskipti og hvort samkeppni eigi að ríkja í viðskiptum með einn helsta atvinnuveg þjóðarinnar.

Við í Frjálslynda flokknum leggjum mjög mikla áherslu á eðlilega samkeppni og að frjáls viðskipti fái að ríkja í viðskiptalífinu. Fiskvinnslur án útgerða hafa ítrekað kvartað yfir því að svo er ekki. Kvartanir hafa ekki bara komið fram hjá forsvarsmönnum í blöðum og víðar heldur hefur einnig verið kvartað við Samkeppnisstofnun. Þessi mál hafa velkst í kerfinu mánuðum og árum saman og það kemur engin niðurstaða. Það er með ólíkindum að þessi mál fái enga niðurstöðu. Það eru ekki bara mál sem varða tryggingamarkaðinn sem fá ekki niðurstöðu fyrr en eftir ár og daga, heldur er það höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar og það er auðvitað með ólíkindum. Það er orðið tímabært að menn spyrji að því hvers vegna menn fá enga niðurstöðu í þessi mál.

Annað er afar sérstakt að nú berast þær fréttir að þeir sem hafa viljað halda þessu ástandi, þ.e. að markaðslögmálin fái ekki að ríkja í þessum atvinnuvegi, m.a. Landssamband íslenskra útvegsmanna, nú berast fréttir af því að þeir séu mjög ósáttir þessa dagana yfir olíusamráðinu og krefjist jafnvel bóta vegna ólöglegs samráðs. Auðvitað skilur maður það en þeir ættu einnig að hafa skilning á því að þetta ástand, að sumir þurfi að greiða talsvert hærra verð fyrir fiskinn í húsi, er mjög óeðlilegt. Auðvitað á að gæta jafnræðis.

Mér fannst þetta vera tímamótaræður sem voru haldnar áðan. Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Jón Bjarnason, hélt mjög góða ræðu um að markaðslögmálin ættu að ríkja í þessum viðskiptum. Ég er honum sammála. Svo kom hv. þm. þingmaður Einar K. Guðfinnsson og sá alla meinbugi á því að markaðslögmálin fengju að ganga sinn gang. Það er óneitanlega mjög sérstakt. Síðan þvældi hann málinu fram og aftur um hvert raunverulegt innihald tillögunnar er. Raunverulegt innihald tillögunnar er einmitt að markaðslögmálin fái að ríkja.

Það er mjög sérstakt að t.d. formaður sjávarútvegsnefndar skuli ekki skuli vera hér og taka þátt í umræðunni því þetta er mjög mikilvægt mál eins og hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, Einar K. Guðfinnsson, gaf til kynna. Auðvitað eiga þeir að vera til umræðu um þetta mjög mikilvæga mál. (Gripið fram í: Sækja hann.) (Gripið fram í: Sækja formanninn.) Já, ég hefði talið að hann ætti að sjá sóma sinn í því að vera hér og taka þátt í umræðunni og lýsa skoðun sinni á þessu mikilvæga máli.

Eins og áður segir er þetta mjög mikilvægt mál, enda er sjávarútvegurinn undirstöðuatvinnugreinin. Þess vegna væri mjög eðlilegt að varið væri miklum tíma í einmitt að ræða viðskiptaumhverfi sjávarútvegsins og þann vanda sem blasir við greininni. Það þýðir ekkert að loka augunum fyrir því, það sjá allir þann vanda sem vilja sjá hann á annað borð að það vantar nýliða í atvinnugreinina. Nýliðar eru mjög mikilvægir í atvinnugreinum yfir höfuð. Ég hefði talið að það væri almennt viðurkennt að það sé mjög mikilvægt að fá nýja aðila í atvinnugreinar, en það virðist sem kvótaflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, sem koma hér eða koma ekki vilji halda utan um kerfi sem hindrar að nýliðar komist inn í atvinnugreinina.

Síðan er það flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn sem kennir sig stundum við frjáls viðskipti. Sjálfur formaður þingflokksins kemur og ver sérstaklega þessi atvinnuhöft og höft á samkeppni, óréttmæta viðskiptahætti vil ég segja. Í raun ætti að vera löngu búið að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvað líði því að tekið verði á þessum málum hvað varðar samkeppni í aðalatvinnugrein þjóðarinnar, að fiskvinnslur án útgerðar búi við skerta samkeppnisstöðu miðað við þær sem hafa yfir kvótanum að ráða.

Auðvitað skipta nýliðar máli, eins og ég sagði áðan. Þeir skipta verulegu máli vegna þess að þeir hafa komið með nýjar hugmyndir og þeir nýliðar sem hafa smeygt sér inn í þessa atvinnugrein hafa ítrekað sýnt fram á það að þeir hafa jafnvel búið til nýja markaði. Þeir voru framarlega í því að koma á viðskiptum hvað varðar ferskfisksútflutning. Einnig setja þeir ákveðna pressu á þá sem eru fyrir í atvinnugreininni.

Auðvitað ættu sjálfstæðismenn að átta sig á þessu og í rauninni sætir það furðu að Sjálfstæðisflokkurinn komi hér í veg fyrir eðlilegt viðskiptaumhverfi. Það eru öfugmæli að flokkurinn kenni sig við frjáls viðskipti og sé síðan í þessum ræðustól að mæla á móti þeim.

Ég sé að tíma mínum er að ljúka en það sem ég ætlaði að minnast á hér eru ýmis atriði. Það kom fram á ágætri ráðstefnu sem ég sótti hjá Fiskvinnslu án útgerðar, á aðalfundi, í mjög góðri ræðu Tryggva Leifs Óttarssonar hvert mikilvægi fiskmarkaða er og það að stjórnvöld hafa ekki séð sér neinn hag í því að tryggja þessum mikilvæga atvinnuvegi góð rekstrarskilyrði. Það kom t.d. fram í ræðu hans að þeir fá einungis starfsleyfi til eins árs í senn og síðan þurfa þeir að sækja um upp á nýtt. Það er óneitanlega mjög sérstakt.

Ég tel að það væri mikill akkur í því fyrir þessa umræðu hér í dag að fá fram hjá formanni sjávarútvegsnefndar afstöðu hans í þessu máli vegna þess að það skiptir einmitt byggðarlag hans mjög miklu máli að markaðslögmálin og markaðirnir fái að ráða í fiskvinnslu enda er það svoleiðis erlendis. Við erum undantekningin. Erlendis er það ástand algjör undantekning sem hér er regla. Hér er allur fiskur á föstu verði en erlendis er reglan sú að fiskur sé á markaði.



[15:17]
Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Þessi umræða er mjög athyglisverð. Mér finnst sérstaklega athyglisvert að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson veigrar sér við því að ræða efni þessarar tillögu og hvaða afleiðingar það mundi hafa ef algjörlega væri skilið á milli veiða og vinnslu og ef farin yrði sú leið sem hann hér leggur til, að allur fiskur verði látinn á markað. Hann veigrar sér alveg við því að ræða hvaða afleiðingar það mundi hafa.

Meðflutningsmaður hans, hv. þm. Jóhann Ársælsson, 2. þm. Norðvest., sagði það í ræðu sinni áðan að það yrði gríðarleg sprenging í sjávarútveginum ef allur fiskur færi á markað. Því væri fróðlegt að vita hvaða hugmyndir hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur um það, hvort hann sé sammála meðflutningsmanni sínum um að þá yrði algjör sprenging í sjávarútveginum og hvernig hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sér fyrir sér hvað út úr því kemur.

Það er mjög merkilegt að hlusta á það sem menn hafa sagt hér á undan. Flestir eða allir þeirra hafa komið að sjávarútvegi og þó heyrir maður raddir eins og þessar frá tveim hv. þingmönnum Samfylkingarinnar, annars vegar hv. þm. Jóhanni Ársælssyni og hins vegar hv. þm. Jóni Gunnarssyni, þennan tón: Þeir sem bestir eru í fiskvinnslu eiga að vera í fiskvinnslu, þeir sem bestir eru í útgerð eiga að vera í útgerð, eins og þessi mál séu þannig vaxin að þetta séu tveir aðskildir hlutir sem hægt sé að skilja á milli.

Nú vita þessir þingmenn báðir — og það veit hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson fullvel — að sá mikli árangur sem við höfum náð, t.d. í útflutningi á ferskum sjávarafurðum, er kominn til vegna þess að útflutningsaðilar hafa getað treyst á hráefnið. Ef við tökum t.d. frystihús Samherja á Dalvík sem dæmi vitum við að Samherji þarf að geta tryggt sér hráefni til þess að geta skuldbundið sig á erlendum mörkuðum vegna þess að þeir þurfa að afhenda fiskinn á réttum tíma, á sama vikudegi árið um kring. Þar kemur engin afsökun til greina. Og það er ekki einungis að þeir verði að geta tryggt sér hráefni, heldur verða þeir að geta skýrt frá því nákvæmlega hvar fiskurinn er veiddur, á hvaða dýpi og hvert sé hitastigið í sjónum til þess að geta náð því verði sem þeir ná og til þess að þeir geti náð þeim mörkuðum sem þeir ná. Þetta vita allir þessir þingmenn, þeir vita hvers vegna þessi árangur er og þess vegna er málflutningur þeirra hér allur falskur og holur hljómur í honum. Það er deginum ljósara að það er ástæðan fyrir hinum sterku frystihúsum sem hér hafa risið, eins og frystihús Samherja á Dalvík, frystihús Útgerðarfélags Akureyringa og hin sterku frystihús á Akranesi, svo að talað sé við hv. þm. Jóhann Ársælsson. Við getum talað um frystihúsin við Ísafjarðardjúp við hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson. Ég veit nú ekki um hvaða frystihús maður á að tala við hv. þm. Sigurjón Þórðarson. (Gripið fram í.)

Ætli allir þessir þingmenn viti ekki að þessi stóru og vel reknu frystihús eru í því góða horfi sem þau eru í í dag vegna þess að þau hafa getað tryggt sér hráefni og vegna þess aðgangs sem hafa að fiski. Þar fyrir utan finnst mér ömurlegt, af því að við sátum nú saman þing Alþýðusambandsins á sínum tíma, ég og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, að hann skuli tala um þessi mál æ ofan í æ án þess að víkja að því í eitt einasta skipti hvað verður um fiskvinnslufólkið sem vinnur í þessum frystihúsum ef það á að þurfa að búa við það að ekki sé hægt að tryggja reglulegt hráefni til húsanna.

Ég held að það sé kominn tími til þess að við tölum ekki aðeins um þá sem eru á sjónum. Við skulum líka tala um þá sem eru í landi. Við skulum líka tala um það verkafólk sem enn vinnur í fiskvinnslu og hugsa okkur hvernig staða þess er. Það er liðin tíð að menn sætti sig við það að láta senda sig heim vegna þess að fiskur berist ekki að landi. Það er liðin tíð að menn í fiskvinnslu sætti sig við það að fá kannski ekki vinnu í tvo eða þrjá mánuði. Þess vegna þurfum við að tala um þetta allt í samhengi og gera okkur grein fyrir því að slíkur rekstur getur ekki staðið nema húsin fái hráefni árið um kring. Húsin geta ekki staðið undir sér, þau geta ekki byggt upp þá fjárfestingu sem þau þurfa að ráðast í til þess að vera samkeppnisfær, t.d. við Kínamarkað — þetta vita hv. þingmenn — nema þau geti byggt sig upp, sparað vinnuafl og lagt í mikla fjárfestingu.

Við getum t.d. horft á það sem er að gerast í dag, þær miklu breytingar sem hafa orðið á loðnuveiðum og -vinnslu. Hvernig væri ástandið í þeim málum ef eigendur loðnufrystihúsa gætu ekki tryggt sér fyrir fram aðgang að loðnunni? Ætli menn hefðu þá margir ráðist í þá nauðsynlegu fjárfestingu sem þurfti til þess að réttlætanlegt væri að fara í þær framkvæmdir? Það eru líka enn fleiri frystihús sem ekki hafa komið sér upp aðstöðu til þess að frysta loðnu. Auðvitað veltur slík fjárfesting á því að eigendur fjármagnsins, eigendur húsanna, geti séð það fyrir að þau fái nægilegt hráefni til þess að fjárfestingin standi undir sér.

Það er merkilegt að heyra þessa hv. þingmenn tala um samkeppni og gera sér ekki grein fyrir því að aðalsamkeppnin sem við Íslendingar eigum í er auðvitað erlendis á hinum hörðu mörkuðum og í þeim löndum sem sækja nú fram eins og t.d. Kína, að við getum fengið sem hæst verð fyrir vöruna sem er auðvitað kjarni málsins.

Mér þótti athyglisvert að hv. þingmenn — hv. 10. þm. Suðurk. komst svo að orði að aðstöðumunur væri á milli þeirra sem fengu úthlutun á fiskkvóta á sínum tíma og reka fiskvinnslu og hinna sem ekki fengu úthlutun. Ætli það séu nákvæmlega sömu eigendurnir að fiskvinnslufyrirtækjunum og voru fyrir 20 árum? (Gripið fram í.) Ég hygg að það sé nú ekki. Eigum við að líta til Akraness, hv. þm. Jóhann Ársælsson? Eru sömu eigendurnir að fiskvinnslufyrirtækjum á Akranesi og í útgerð á Akranesi og voru þegar kvótanum var úthlutað? Hv. þingmaður veit að það er ekki, það er ekki um það að ræða.

Hér er auðvitað verið að tala um hluti sem ekki eru réttir til þess að varpa upp mynd sem er fölsk. Með sama hætti er athyglisvert þegar hv. þm. Jóhann Ársælsson talar um það að útgerðarmenn láti tekjur sem þeir hafa af sjávarafla ekki koma fram í reikningum. (Gripið fram í.) Útgerðarmenn fá fjármuni sem ekki sjást í bókhaldi, sagði hv. þingmaður. Hvað á svona orðbragð að þýða? Eða þegar hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson gefur í skyn að útgerðarmenn brjóti almennt í bága við samkeppnislög og séu þar með lögbrjótar?

Hvers vegna taka hv. þingmenn málið upp á slíkum grundvelli? Hvers vegna reyna þeir ekki að tala um þessi mál af sanngirni og hófsemi og eins og þau liggja fyrir?



[15:26]
Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvernig stendur á þessu stórkostlega skilningsleysi stjórnarliða þegar kemur að sjávarútvegsmálum? Ég hef eina skoðun á því: Metnaðarleysi, stórkostlegt metnaðarleysi. Sjávarútvegur er ekki ræddur innan stjórnarflokkanna svo sem sýnt er. Hér vantar framsóknarmenn enda hafa þeir talið landbúnað stærstu atvinnugrein þjóðarinnar og það er því kannski sú eina góða skýring sem þar liggur fyrir.

Ég vil spyrja hv. þm. Halldór Blöndal spurningar: Hvernig stendur á því að hv. þingmaður heldur að fyrirtæki eins og Samherji, sem ég tek undir með honum að er gott fyrirtæki, geti ekki áfram keypt hráefni til vinnslu þó svo að fiskur fari á markað? Ef þeir eru svona góðir í vinnslu og markaðssetningu, af hverju geta þeir ekki farið í keppni við önnur og yngri fyrirtæki í landinu um hráefni? Þetta eru nefnilega tveir gjörólíkir hlutir, annars vegar útgerð og hins vegar fiskvinnsla.

Mér finnst hún ótrúleg, þessi skammsýni, virðulegi forseti, að hv. þingmaðurinn skuli virkilega halda að fyrirtæki eins og HB Grandi og Samherji geti ekki áfram keypt hráefni til vinnslu sinnar (Forseti hringir.) þó svo að hér verði aðskilnaður á útgerð og fiskvinnslu í landinu.



[15:27]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér er ljúft að svara þessu. Það stendur svo á að það er framleiðslustjórinn í landi sem stjórnar fiskveiðunum og ákveður hverju sinni hvaða fisk er komið með og þar fram eftir götunum sem fellur inn í vinnsluna. Mér væri mjög ljúft að fara með hv. þingmanni, 10. þm. Suðvest., Gunnari Örlygssyni, norður til Akureyrar og Dalvíkur og gefa honum tækifæri til að kynnast því hvernig vinnslan er byggð upp og þeim viðhorfum sem þar ráða.



[15:28]
Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Svona örlítið hv. þm. Halldóri Blöndal til upplýsingar hef ég starfað í sjávarútvegi um 15–16 ára skeið og var nýlega á Eyjafjarðarsvæðinu, m.a. í viðræðum og góðu sambandi við fiskverkendur og sjómenn á svæðinu. Ég afþakka því námskeið hv. þm. Halldórs Blöndals hvað þetta varðar, svo er víst.

Grundvallaratriðið í þessu máli er að hér verði jöfn samkeppni. Sjálfstæðismenn, þessi hægri flokkur á Íslandi, þessi stóri hægri flokkur á Íslandi sem hefur viljað kenna sig við frjáls viðskipti, drifkraft einstaklingsins, frumkvæðið, vill koma í veg fyrir það, þessi stóri hægri flokkur á Íslandi, að heilbrigð og eðlileg nýliðun verði í okkar stærstu atvinnugrein í dag, sjávarútvegi.

Það er algjört grundvallaratriði að samkeppnismismun fiskvinnslna verði eytt svo að tryggt megi vera að við sækjum fram í matvælaiðnaði með sama hætti og til að mynda Danir, Frakkar, Færeyingar og svo má lengi telja, en flestar þjóðir standa okkur miklu framar þegar kemur að matvælaiðnaði.



[15:29]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur barist fyrir og vill tryggja samkeppni í sjávarútvegi eins og í öðrum greinum, líka í fjölmiðlun.

Hv. þingmaður spurði mig hvort það væri samhengi á milli veiða og vinnslu hjá Samherja og ég sagði honum að svo væri og ég reyndi útskýra það fyrir honum. Nú vill hv. þingmaður ekki þiggja það að kynna sér þessi mál betur og mér eru satt að segja vonbrigði að því. Ég hefði haft mjög gaman af því að heimsækja Samherja með honum þannig að hann hefði getað skipst á skoðunum við þá menn sem þar stjórna og þar leggja á ráðin og líka kynnst þeim viðhorfum sem liggja hjá þeim til grundvallar því að nauðsynlegt sé að stjórna veiðum úr landi til þess að verðmæti sjávaraflans verði sem mest og til þess að hægt sé að svara kröfum markaðarins.



[15:30]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ótrúlegt að heyra hvílíka vantrú hv. þingmaður hefur á hinum stóru, öflugu sjávarútvegsfyrirtækjum, að þau geti ekki þolað að sitja við sama borð og önnur fyrirtæki í landinu þegar kemur að samkeppni um fiskinn á markaðnum.

Ég vil líka leiðrétta það, af því að hv. þingmaður talar um að þeir haldi uppi hæsta verðinu á markaðnum. Hverjir hafa tryggt hæst verð á markaði á undanförnum árum? Það eru fyrirtækin sem við vorum að tala hér um áðan, fiskvinnsla án útgerðar. Þeim hefur tekist í gegnum mörg ár að tryggja afhendingu til viðskiptavina sinna erlendis, t.d. Toppfiskur hér í Reykjavík sem hefur verið um 15 ára skeið í þessum útflutningi. Þeir eru í raun og veru sporgöngumenn, þeir hjá stóru fyrirtækjunum koma í kjölfarið. Þegar búið var að vinna þessa markaði komu stóru fyrirtækin á eftir. Ég er sannfærður um að markaðurinn muni sjá til þess að hægt verði að stjórna veiðum í samræmi við bestu þarfir.



[15:32]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki kunnugur því hvort eitthvert eitt fyrirtæki hefur fengið hærra verð á tilteknum sjávarafla en önnur. Hitt veit ég að stóru fyrirtækin flytja út ferskan fisk á markað og standa þannig í samkeppni, t.d. við Kínverja og við aðra matvöruframleiðendur. Þetta er auðvitað ekki kjarni málsins.

En hitt vil ég spyrja hv. þingmann um, sem mér finnst vera kjarni málsins: Er það svo að Samfylkingin sem heild, þingflokkur Samfylkingarinnar, standi á bak við tillöguflutning hv. þm.? Má líta svo á að allir þingmenn Samfylkingarinnar, þar á meðal hv. þm. Einar Már Sigurðarson og hv. þm. Kristján L. Möller, séu sammála þessum tillöguflutningi? Þeir eru ekki í salnum í dag og ekki hægt að spyrja þá en það væri gott að fá að vita hvort svo sé. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson lýsti því yfir að hans flokkur stæði á bak við tillögugerðina.



[15:33]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri kannski ekki síður ástæða til að spyrja hv. þingmann að því hvort allir sjálfstæðismenn séu á móti því að eðlilegt samkeppnisumhverfi komist á í sjávarútvegi. Ég held að hann ætti bara að líta í hliðarsal til að skoða þann fyrsta sem kæmi kannski til greina að kanna hvort hefði sömu skoðun og hann.

Það er nú bara einfaldlega þannig að Samfylkingin hefur barist fyrir því að hér komist á eðlilegt samkeppnisumhverfi í sjávarútvegi. Það hlýtur að vera órjúfanlegur hluti þess að markaðurinn sé látinn leysa úr því hverjir eigi að fá fiskinn sem veiðist við Ísland og líka að markaðurinn sé látinn leysa úr því hverjir eigi að fá réttinn til þess að veiða þann fisk. Allt er þetta hluti af því að búa til eðlilegt samkeppnisumhverfi í þessari mikilvægu atvinnugrein. Það ættu sjálfstæðismenn að skilja. Mér finnst að þeir ættu að setjast niður og velta fyrir sér á hvaða braut þeir eru (Forseti hringir.) í sambandi við grunnatvinnuvegi eins og landbúnað og sjávarútveg á Íslandi.



[15:34]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það kom fram sem mig raunar grunaði, að Samfylkingin stendur ekki á bak við þessa þingsályktunartillögu enda varla von til þess, eins og hún er fram lögð og varla von til þess, eins og hv. þm. lýsir afleiðingum hennar og framkvæmd ef samþykkt yrði. Enda kom það fram fyrir síðustu alþingiskosningar að frambjóðendur Samfylkingarinnar í mínu kjördæmi, sérstaklega þó hv. þm. Einar Már Sigurðarson, töluðu ekki á sömu nótum og Samfylkingin í sjávarútvegsmálum. Menn satt að segja lítt hrifnir yfir því að forsætisráðherraframbjóðandinn, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, skyldi slysast til Austurlands og opna munninn um sjávarútvegsmál.

Ég hygg að hér sé lítill minnihlutahópur Samfylkingarinnar staddur í salnum og svo mun það vera.



[15:35]
Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal vék að því áðan — sem ég mun koma að í ræðu á eftir — að ég hafi ekki viljað ræða efni tillögunnar. Ég mótmæli því harðlega að ég sé ekki tilbúinn að ræða efni þessarar tillögu. Það kemur glöggt fram í tillögunni að það sé æskilegt að skapa skilyrði til þess að fiskur verði seldur á markaði og að fyrirtæki sitji þar við sama borð.

Ég tel eðlilegt að stuðla að samkeppni. Við leggjum til að nefnd verði falið að semja um það lög og finna þann farveg sem á skapa þessum málum. Þessi mál hafa verið mikið deiluefni í íslenskum sjávarútvegi og ég mótmæli því algjörlega að það muni ekki þjóna hagsmunum Íslands að auka samkeppni í sjávarútvegi.



[15:36]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað ætli þessi hv. þingmaður eigi við með því að segja að það sé ekki samkeppni í sjávarútvegi? Það mætti halda að honum sé algjörlega ókunnugt um hvaða ástand er á fiskmarkaði og annars staðar. Það er auðvitað bullandi samkeppni í sjávarútveginum. Ef hv. þingmaður á við það að það hamli samkeppni að menn geti ekki róið eins og hver vill þá er það rétt. Það er sjálfgefið vegna þess að það þarf að takmarka sókn í fiskstofna. Þá er sjálfgefið að menn geta ekki fiskað eins og þeir vilja.

En það hefur oft komið fram í umræðum á Alþingi að hv. þingmaður hefur ekki þau sjónarmið þegar hann talar um fiskveiðar að hann vilji virða umhverfissjónarmið og hann virðir ekki eðlileg friðunarlögmál í þeim efnum. Hann hefur ekki komið með neinar tillögur sem bera vott um það. Sama gildir um þessa sífelldu endurtekningu um samkeppni þar sem hann ætlast til að hver og einn geti fiskað það sem hann vill.



[15:37]
Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er stundum sagt að menn kasti steinum úr glerhúsi. Ég held að hv. þingmanni hafi orðið á að labba á glervegg í málflutningi sínum.

Ég held að ég þekki það rétt, hæstv. forseti, að árangur af þeirri fiskveiðistefnu sem hann og flokkur hans hefur staðið fyrir hafi verið að gefa okkur um 200 þús. tonn árum saman, sem er helmingi minni afli en áður en við fórum að stýra fiskveiðum með því lagi sem nú tíðkast. Það að tala um sérstakan verndunarárangur af þessari stefnu eða uppbyggingarárangur er nánast eins og að labba á glervegg, eins og ég orðaði það.

Ég mótmæli því harðlega að ég sé ekki tilbúinn að leggja til ýmislegt sem ég tel geta orðið til að byggja upp fiskstofna við Ísland. Við í Frjálslynda flokknum höfum m.a. spurt: Er það svo að það borgi sig áfram að veiða alla þessa loðnu til bræðslu? Halda menn að það skili árangri við uppbyggingu fiskstofnanna?



[15:38]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það kom fram sem ég sagði um hv. þingmann, þ.e. hvaða sjónarmið hann í grófum dráttum hefur til fiskveiða og sókn í fiskstofna.

En það er annað athyglisvert um tillögur hans í þeim efnum. Flestar tillögur hans hafa gengið út á að reyna að styrkja kvótahlut þeirra báta sem sterkastir eru í hans eigin kjördæmi. Benda mætti á það að þær tillögur sem hann hefur helst mælt fyrir hafa verið í þá áttina. Ef hv. þingmaður telur pólitísk afskipti, af því hverjir helst megi veiða fiska og hverjir ekki, vera í samræmi við heilbrigða samkeppni og sérstaklega eftirsóknarvert þá er ég honum fullkomlega ósammála um það.

En ef hv. þingmaður ætlar að ræða efni tillögu sinnar hér á eftir þá hlakka ég til að hlusta á lýsingar hans á þeim rekstrargrundvelli sem sú fiskvinnsla hefur sem hann ætlar að svipta rétti til veiða.



[15:40]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var undarlegt að sitja í salnum og hlusta á hv. þm. Halldór Blöndal standa á öndinni við að snúa út úr því máli sem hér er til umræðu. Við erum að fjalla um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri útgerðar og fiskvinnslu. Það er allt og sumt sem verið er að tala um og veldur geðshræringu hv. þingmanns.

Telur hv. þingmaður eðlilegt að venjulegar samkeppnisreglur gildi í sjávarútvegi eins og í annarri atvinnustarfsemi á Íslandi? Það er fyrsta spurning mín. Síðan þætti mér vænt um það ef hv. þingmaður gæti sagt mér hvað veldur því að hlutfall hráefnis af söluverðmæti fyrirtækis í fiskvinnslu án útgerðar er í kringum 80% þegar hlutfall hráefnis af söluverði fyrirtækja sem einnig stunda útgerð er í bilinu 50–55%. Er það vegna þess að fyrirtæki sem stunda líka útgerð kunna svo mikið betur til verka í fiskvinnslu eða selja vöru sína á svona miklu hærra verði en hin fiskvinnslufyrirtækin?



[15:41]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er almennt viðurkennt og augljóst að íslenskur sjávarútvegur hefur skilað betri árangri en sjávarútvegur í öðrum löndum. Um það er hv. þingmanni kunnugt. Við höfum séð að hann getur staðið vel undir sér við erfið rekstrarskilyrði og hefur brugðist við nýjum aðstæðum á markaði með undraskjótum hætti.

Hitt finnst mér eftirtektarvert að hv. þingmaður skuli líta svo á að þessi tillaga hér sé svo sem ekki annað en bókhaldsatriði. Hv. þm. Jóhann Ársælsson orðaði það svo að ef þessi tillaga yrði samþykkt og hún næði fram að ganga, yrði framkvæmd, yrði gríðarleg sprenging í sjávarútveginum, ef allur fiskur færi á markað.

Nú ætlar hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson að útskýra fyrir okkur á eftir hvað þetta þýðir hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni. Ég tók því svo að hann hefði lofað því. Ef til vill tekur hv. þm. Jón Gunnarsson aftur til máls líka til að skýra þetta.



[15:42]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er vani reyndra þingmanna að svara ekki spurningum ef erfitt er að svara og fabúlera heldur um eitthvað annað þann stutta tíma sem þeir hafa til svara.

Hv. þm. Halldór Blöndal svaraði hvorugri spurningunni sem ég varpaði fram í fyrra andsvari mínu. Mér þætti vænt um að hv. þingmaður reyndi að svara þeim í seinna andsvari sínu.

Jafnsögufróður maður og hv. þm. Halldór Blöndal fór í máli sínu út í ákveðna sögufölsun þar sem hann hélt því fram að stóru frystihúsin og stóru útgerðirnar hefðu verið frumherjar við að koma ferskum fiski á markað með flugi. Það er ekki rétt. Það vita það allir sem komið hafa nálægt þessum iðnaði og það hef ég sjálfur gert undanfarin 25 ár. Það voru litlar fiskvinnslur sem flestar hverjar náðu sér í hráefni frá öðrum sem hófu útflutning á ferskum flökum og hafa rutt þá braut sem stóru fyrirtækin fylgja nú og gerast sporgöngumenn þessara litlu fyrirtækja.



[15:43]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum að tala um sjávarútveginn í heild. Á sínum tíma, þegar þetta byrjaði, var ferskur fiskur fluttur út með flugvélum. Síðan er geymslutækni orðin mun betri en áður sem hefur gjörbreytt þessum málum. Við skulum ekki fara út í það. En ef hv. þingmaður er að gera lítið úr þeim hlut sem stóru frystihúsin eiga í útflutningi á ferskum sjávarafurðum þá hann um það.

Ég vil í annan stað segja að við sjálfstæðismenn viljum auðvitað að rekstrargrundvöllur sjávarútvegsins sé traustur og eðlilegur og að þar ríki eðlileg og heilbrigð samkeppni sem tekur mið af því að við verðum að takmarka sóknina í fiskstofnana. Þegar hv. þingmenn reyna að gefa í skyn að hér sé hægt að reka sjávarútveg með því að hver geti sótt sjóinn eins og honum sýnist, eins og þeir óbeint hafa gert, þá er það auðvitað glamur.



[15:44]
Gunnar Örlygsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þingmálið sem hér er til umræðu varðar fjárhagslegan aðskilnað útgerðar og vinnslu. Áður en ég kem beint að því máli er kannski vert að tala almennt um sjávarútveginn á Íslandi og fiskmarkaðinn. Við söltum fisk, vinnum fisk í flug, frystum fisk og herðum og svo mætti lengi telja. Fyrirtækin sem framleiða afurðirnar eru af ýmsum toga og dreifð um allt landið.

Sum fyrirtæki byggja hráefnisöflun sína á fiskmörkuðunum á meðan önnur fyrirtæki afla hráefnis með veiðum sinna eigin skipa og þriðji kosturinn, sem reyndar hefur ekki gengið vel upp á Íslandi, er að Rússafiskur hefur verið keyptur til uppþíðingar, endurfrystingar og útflutnings, aðallega til Bandaríkjanna.

Í sjálfu sér er málið afskaplega einfalt. Ástæðan fyrir því að málið kemur fram er fyrst og fremst alvarlegur samkeppnismismunur innan fiskvinnslunnar. Ég hef sjálfur rekið fiskvinnslu og þekki af eigin raun hvernig er að vinna af krafti fyrir því að búa til markaði á erlendri grundu, t.d. í Evrópu fyrir karfa og steinbít og svo má lengi telja, ár eftir ár. Ég hef orðið vitni að því að þegar markaðurinn stækkar og dafnar þá koma stóru fyrirtækin og taka kökuna af manni. Ég hef margoft rekið mig á þetta persónulega á starfsferli mínum sem fiskverkandi.

Ástæðan fyrir því að þeir stærri, sem búa yfir miklum skipakosti og miklum aflaheimildum, geta náð markaðnum af þeim, sem hafa sótt á nýjar slóðir og búið markaðinn, er fyrst og fremst sá mikli munur á samkeppnisaðstöðu sem um ræðir. Út á þetta gengur þetta mál, á mannamáli.

Auðvitað vekur það furðu mína að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki vera hlynntur þessu máli. Helstu rök sjálfstæðismanna gegn málinu eru þau að það verði erfitt fyrir stóru fyrirtækin í landinu að útvega hráefni fyrir stóra markaði. Hér hefur enginn gefið í skyn, hvorki af hálfu stjórnarliða né stjórnarandstæðinga, að með þessu verði hætt að veiða fisk. Við viljum bara breyta farveginum í þá átt að allir hafi jafnan rétt á að bjóða í ferskar afurðir og allur ferskur fiskur fari á markað. Áfram munu útgerðir og fyrirtæki sem búa yfir þessum aflaheimildum njóta góðs af því góða verði sem jafnan fæst á fiskmörkuðum.

Með því að allir standi jafnfætis í fiskvinnslunni mun hins vegar opnast á nýliðun og það er grundvallaratriði hjá hverri þjóð, ég tala nú ekki um í svo stórum atvinnuvegi hverrar þjóðar, að nýliðun sé í iðngreininni. Það er algert grundvallaratriði. Nægir þar að nefna fjármálamarkaðinn á Íslandi sem samanstendur fyrst og fremst af ungu fólki og metnaðarfullu sem hefur sótt fram, eins og allir Íslendingar þekkja, á undanförnum árum í gífurlegri útrás.

Þegar horft er til íslensks fiskiðnaðar — ég leyfi mér að taka dæmi úr minni heimabyggð, Suðurnesjum, Reykjanesbæ — þá hefur hann koðnað niður. Fyrirtæki, fiskvinnslur án útgerðar, sem þar hafa starfað í gegnum árin hafa flestar gefist upp. Við höfum ekki boðið þessu unga fólki aðgang að greininni.

Nýverið, virðulegi forseti, gerði ég mér þann dagamun að heimsækja flestar fiskvinnslur í Reykjanesbæ. Ekki eru þær margar. Það sem vakti athygli mína, þegar ég fór inn í kæligeymslur þessara fyrirtækja, var að hráefnið var svo til ekkert. Það vantar hráefni á fiskmarkaðinn. Árið 2003 voru boðinn upp 30 þús. tonn af ferskum afurðum á fiskmarkaðnum á Íslandi. Heildarveiðin er talin í hundruðum þúsunda tonna.

Síðasti viðkomustaðurinn í þessari ferð minni var þjónustufyrirtæki í Reykjanesbæ sem sérhæfir sig í slægingu, þrifum, flokkun og karar fiskinn og gámar fyrir erlenda aðila. Þegar ég leit inn í kæligeymsluna hjá þessu fyrirtæki kom í ljós að á fjórða hundrað tonna af heilum fiski var að fara í gáma fyrir fyrirtæki á Englandi og í Frakklandi. Í hinum húsunum voru geymslurnar tómar. Þær voru gersamlega tómar.

Það er ástæða fyrir því að þetta þingmál er lagt fram, virðulegi forseti. Mér þykir agalegt að hlusta á málflutning stjórnarliða sem einkennist fyrst og fremst af algjöru metnaðarleysi og skilningsleysi á þessari höfuðatvinnugrein þjóðarinnar. Hér hefur enginn framsóknarmaður talað, virðulegi forseti. Einn þingmaður úr röðum hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins auk fulltrúa þeirra úr sjávarútvegsnefnd hefur talað. Mér þykir með ólíkindum að formaður sjávarútvegsnefndar, hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, skuli ekki vera við þessa umræðu. Hann kann að vera ósammála okkur sem fylkjum okkur á bak við þetta mál en það er eins og hann forðist umræðuna, virðulegi forseti. Það er eins og hann hræðist þessar rökræður.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra en vil enda á því að lýsa yfir furðu minni yfir því að flokkur sem kennir sig við hægri pólitík á Íslandi, flokkur sem vill kenna sig við frumkvæði og drifkraft einstaklingsins, skuli ekki hlynntur því að ungt fólk fái aðgang að stærstu atvinnugrein okkar.



[15:51]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum í dag tillögu til þingsályktunar um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri útgerðar og fiskvinnslu. Þar er ályktað að Alþingi feli ríkisstjórninni að skipa nefnd sem fái það verkefni að semja frumvarp til laga um fjárhagslegan aðskilnað milli reksturs útgerðar annars vegar og fiskvinnslu í landi hins vegar.

Ég tel að hér sé á ferðinni þarft og gott mál. Hv. þm. Jón Gunnarsson fór áðan yfir sögu þessa máls á Alþingi og greindi réttilega frá því að mælt hefði verið fyrir þingsályktunartillögunni mörg undanfarin ár en hún hafi alltaf hlotið sömu örlög. Hún hefur verið afgreidd í atkvæðagreiðslu frá hinu háa Alþingi inn í sjávarútvegsnefnd og síðan ekki söguna meir. Eftir það heyrist ekki meira af henni. Ég verð að segja að þau vinnubrögð eru vægast sagt forkastanleg.

Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson hélt áðan ræðu þar sem hann fór mikinn í gagnrýni sinni á þessa þingsályktunartillögu og fann henni flest til foráttu. Nú situr hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson í sjávarútvegsnefnd. Hann er reyndar ekki í salnum að því ég fæ best séð en mig langar að spyrja hann: Hvers vegna er hann ekki reiðubúinn til að taka umræðu um þessa þingsályktunartillögu í sjávarútvegsnefnd Alþingis þar sem hann á sæti? Hvers vegna hefur hann ekki verið reiðubúinn til þess undanfarin ár? Hann hefur verið þar í nokkur ár. Hvers vegna hefur hann ekki viljað taka umræðu um þessa þingsályktunartillögu? Hvers vegna hefur þingmeirihlutinn í sjávarútvegsnefnd ekki viljað koma með breytingartillögur við tillöguna? Hvers vegna hafa þeir ekki viljað senda hana aftur í sali hins háa Alþingis, fá hana inn í síðari umræðu, til atkvæðagreiðslu og hreinlega fella hana í eitt skipti fyrir öll fyrst hún hugnast þeim svona afskaplega illa?

Það er satt best að segja, virðulegi forseti, bæði sóun á tíma og peningum að hér séu lagðar fram þingsályktunartillögur og mælt fyrir þeim á hinu háa Alþingi ár eftir ár, þær sendar inn í nefndir og hagsmunaaðilar beðnir um umsagnir en síðan ekki söguna meir. Þetta er sóun á tíma og peningum og Alþingi er dýrt í rekstri. Okkur ber skylda til þess, okkur sem erum á hinu háa Alþingi, að sjá til þess að störf Alþingis séu ávallt sem skilvirkust til gagns fyrir land og þjóð.

Virðulegi forseti. Ég minntist áðan á umsagnir og mig langar að fara aðeins yfir þær. Ég skoðaði aðeins sögu þessa máls þegar ég undirbjó mig fyrir umræðuna. Ég hef nokkrar umsagnir fyrir framan mig og það kemur í ljós að samtök sjómanna, stéttarfélög sjómanna, eru eindregið fylgjandi þessari tillögu. Bæði Sjómannasamband Íslands og Vélstjórafélagið. Þegar við komum hins vegar að Sambandi fiskvinnslustöðva, sem eru fiskvinnslustöðvar í eigu útgerðar sem eiga kvóta, þá eru samtök fiskvinnslustöðva alfarið á móti þessu og telja að þessar breytingar mundu valda skaða. Í bréfi sem undirritað er af Arnari Sigurmundssyni, formanni Samtaka fiskvinnslustöðva, og dagsett 26. nóvember 2003 segir, með leyfi forseta:

„Við teljum að slíkar breytingar gætu á skömmum tíma orðið til þess að minnka atvinnuöryggi fiskvinnslu og möguleika sjávarútvegsfyrirtækja til útrásar í framtíðinni. Rekstur sjávarútvegsfyrirtækja krefst mikillar skipulagningar jafnt í veiðum, vinnslu og markaðssetningu afurðanna. Rofni þessi keðja er afkoman í hættu.“

Ég vil fá að nota tækifærið til að lýsa þeirri skoðun minni að ég hef engar áhyggjur af því að núverandi fyrirtæki, fiskvinnslufyrirtæki, sjávarútvegsfyrirtæki sem eiga kvóta og hafa stundað fiskvinnslu í mörg ár og jafnvel um áratuga skeið, með fullkomna vinnslu, mikla sérþekkingu og duglega menn sem stjórna þessum fyrirtækjum, ættu erfitt með að spjara sig í frjálsri samkeppni um hráefni á mörkuðum. Ég hef engar áhyggjur af því. Að sjálfsögðu mun þeim fyrirtækjum takast að útvega sér það hráefni sem þau þurfa á að halda í frjálsri samkeppni, að sjálfsögðu. Það er fásinna að tala eins og fiskveiðar muni nánast leggjast af við það að skilja fjárhagslega á milli veiða og vinnslu á Íslandi. Það er vitleysisumræða og þar er verið að mála skrattann á vegginn, heldur betur.

Mig rekur minni til þess að hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, sem er fjarverandi sem stendur, nefndi það í ræðu sinni að hann og ótilgreindir nefndarmenn í sjávarútvegsnefnd hefðu hitt einhverja Norðmenn, menn úr norskum sjávarútvegi, sem sögðu að í Noregi væri allt á vonarvöl vegna þess að þar væri skilið á milli veiða og vinnslu. Annaðhvort eru þetta fordómar hjá hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni eða þá að hann talar af hreinni vanþekkingu. Málið er að í Noregi gilda mjög sérstök lög. Þar er á hverju ári samið á milli samtaka sjómanna, sem einnig eru iðulega útgerðarmenn, við samtök fiskvinnslu um fast lágmarksverð á fiski. Það verð hefur oft og tíðum verið mjög hátt enda ekki í neinum tengslum við lögmál framboðs og eftirspurnar. Lögmál framboðs og eftirspurnar fá ekki að ráða eins og við leggjum til með þessari þingsályktunartillögu. Þar er þetta miðstýrt verðmyndunarkerfi. Það er að stórum hluta ástæðan fyrir því að norskur sjávarútvegur á í erfiðleikum. Það er reginfirra hjá hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni að halda því fram að vandræði norsks sjávarútvegs hafi eitthvað með skilin milli fiskvinnslu og veiða að gera.

Í Færeyjum er skilið milli veiða og vinnslu. Þar er prinsippið það að fiskur fari á markað en hins vegar geta fiskvinnslufyrirtæki gert langtímasamninga við útgerðir og sjómenn fiskiskipa um að þau landi afla sínum hjá tilteknum fyrirtækjum til lengri tíma. En þá skal verð á hverjum tíma, upp úr skipinu, taka mið af markaðsverði, þ.e. verði á frjálsum uppboðsmörkuðum á hverjum tíma. Með þeim hætti geta stærri fiskvinnslufyrirtæki í Færeyjum tryggt sér fastan aðgang eða áskrift að hráefni. Þar gilda lögmál hins frjálsa markaðar, hin frjálsa samkeppni ræður verðmynduninni á hverjum tíma.

Við skulum muna, hæstv. forseti, að verð getur bæði verið hátt og lágt. Hér gildir lögmálið um framboð og eftirspurn og maður skyldi ætla að maður ekki þurfi að veita hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, stjórnmálaflokksins sem boðar frjálsa samkeppni á mörkuðum, grunnkúrs í hagfræði úr ræðustól Alþingis, fræða þá um hvernig lögmálið um framboð og eftirspurn virkar. Það er með ólíkindum. Það er nefnilega þannig, hæstv. forseti, að verðmyndun á fiski, eins og hún er í dag, er mjög gölluð og meira að segja útgerðarmenn kvarta yfir því.

Ég er með viðtal úr fréttablaðinu Vaktin sem gefið er út í Vestmannaeyjum, við Sigurgeir Brynjar Kristjánsson sem er forstjóri Vinnslustöðvarinnar. Hann kennir því um að stór hluti af ferskfisksafla Vestmannaeyinga er fluttur óunninn úr landi. Hann segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Miðstýrð verðlagning Verðlagsstofu gerir það að verkum að það borgar sig ekki að vinna fisk.“

Miðstýrð verðlagning. Hér er hann að kvarta yfir því að verðlagning á fiski á Íslandi sé miðstýrð og þess vegna þurfi hann að flytja hráefnið úr landi. Ég læt máli mínu lokið að sinni en ég mun koma nánar inn á þessi atriði í seinni ræðu minni um þetta mál.



[15:59]
Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram fróðleg umræða um þessa tillögu lengi dags enda kannski ekki vanþörf á að menn tækju upp umræður sem sneru að sjávarútveginum í landinu. Það hefur vakið athygli þeirra sem á umræðuna hlýða að stjórnarandstaðan annars vegar og stjórnarliðar skiptast í tvo andstæða hópa í þessu máli. Þeir stjórnarliðar sem hér hafa talað, sem hafa eingöngu verið frá Sjálfstæðisflokknum, hafa talið að málið í heild sinni væri mjög slæmt og mundi leiða til mikilla vandræða ef fylgt yrði eftir þeirri hugsun að taka upp verðmyndun sem tengdist fiskmarkaði og tryggja fjárhagslegan aðskilnað milli veiða og vinnslu.

Ég hygg að sennilega sé ekki hægt að draga upp skarpari andstæður í þessari umræðu milli okkar í stjórnarandstöðunni annars vegar og ríkisstjórnarflokkunum hins vegar en þau ummæli hv. þm. Halldórs Blöndals, sem ég held að ég hafi náð að skrifa orðrétt eftir honum áðan. Hann spurði mig hvaða rekstrargrundvöll ég teldi að fiskvinnslufyrirtæki hefðu sem ekki hafa rétt til fiskveiða.

Ég veit ekki til þess að tillaga okkar gangi út á það að menn megi ekki gera út til fiskveiða. Það er með engum hætti verið að leggja höft á það með þessari tillögu, breyta því hverjir gera út hér á landi. Það er algjör misskilningur hjá hv. þm. Halldóri Blöndal ef hann dregur þá ályktun að við séum að setja fótinn fyrir það að menn geti gert út. Við ætlumst hins vegar til þess að þessar rekstrareiningar, fiskvinnslan annars vegar og útgerðin hins vegar, verði aðskildar og hafi sínar eigin forsendur, sitt eigið bókhald og sínar eigin hagnaðartölur. Það er ekkert sjálfgefið að hluthafar séu þeir sömu í útgerð og fiskvinnslu þó að fyrirtækin séu verulega tengd. Ég bendi á það, hæstv. forseti, að það er til þó nokkuð af slíkum fyrirtækjum þar sem t.d. hluti áhafnar og skipstjóri eiga í útgerð með fiskvinnslufyrirtækjum.

Það er ekki með neinum hætti verið að ákveða það með þessari tillögu hverjir gera út á Íslandi. Ég átta mig alls ekki á þeirri fullyrðingu, sem kemur fram í spurningunni vil ég segja, að fiskvinnslur megi ekki eiga aðild að útgerð og hafi ekki rekstrargrundvöll nema þær hafi fiskveiðiheimildir eða kvóta. Heldur hv. þm. Halldór Blöndal því fram að kvótinn skipti öllu máli í því að fiskvinnslur geti rekið sig? Ég mótmæli því að svo sé, að fiskvinnslurnar þurfi endilega að hafa eignarhald á kvóta til að geta rekið sig, og ég vil til sönnunar því benda á rekstur fjölmargra fyrirtækja innan Samtaka fiskvinnslustöðva án útgerðar sem hafa markað braut nýrra fiskviðskipta og nýrra vinnslugreina hér á landi á undanförnum árum.

Það er einfaldlega þannig að stóru útgerðarfyrirtækin hér á landi hafa í raun verið sporgöngumenn þessara fyrirtækja. Það er bara svo, sérstaklega í ferskfiskvinnslunni. Þau hafa verið að koma inn í ferskvinnsluna á eftir þeim fyrirtækjum sem rutt hafa brautina. Ég get nefnt fyrirtæki eins og Toppfisk sem hefur allan sinn tíma keypt hráefni sitt á markaði og rekur myndarlega fiskvinnslu úti á Grandanum í Reykjavík, kaupir fisk á fiskmörkuðum vítt og breitt um landið af ýmsum útgerðum, stórum sem smáum. Þetta er fyrirtæki sem byrjaði mjög snemma að flytja út ferskan fisk og leita að mörkuðum fyrir ferskan fisk þannig að það fer ekkert á milli mála hverjir hafa verið að ryðja brautina í þessari nýsköpun varðandi ferskfiskinn. Það verður ekki með rökum sett yfir á þau fyrirtæki sem stærst eru í sjávarútvegi á Íslandi. Þau höfðu því miður ekki þessa framsýni á sínum tíma þó að þau hafi síðar farið að keppa inni á þessum markaði og jafnvel komið þar inn með boð á verði á fiski sem hefur verið undir því verði sem menn hafa verið að flytja út á.

Í fyrirtækinu Nýfiski í Sandgerði vorum við sem vorum þar á ferð í síðustu viku upplýstir um það af forustumönnum þess fyrirtækis — og er ég með það á blöðum hér í salnum — að almennt hefði Nýfiskur verið að fá 30% hærra verð fyrir afurðir sínar en hefði verið í hefðbundnum greinum í sjávarútvegi. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þau fyrirtæki sem hafa verið að leita að þessum nýju mörkuðum, m.a. fyrir ferskfiskinn, hafa aukið verðmæti sjávarútvegs geysilega fyrir íslensku þjóðina. Það getur ekki verið hlutverk okkar að tryggja að þeir sem hafa aflaheimildirnar geti með einhverjum hætti haldið uppi óeðlilegri samkeppni til framtíðar út á það að hafa veiðiréttinn. Það getur ekki verið hlutverk okkar að tryggja það. Við hljótum að eiga að tryggja það að menn sitji við sama borð varðandi það að geta rekið hér fiskvinnslur, þurfi að vera útsjónarsamir við að leita að mörkuðum, þurfi að keppa á nokkurn veginn jafnréttisgrundvelli að þessu leyti.

Tillagan sem slík sem hér er flutt markar að vísu braut inn á þennan farveg vegna þess að ef fram gengur mun hún aðskilja rekstur fiskvinnslu og útgerðar. Eins og ég gat um gera þeir sem eiga í útgerð annars vegar og fiskvinnslu hins vegar kröfu til þess að fyrirtækin séu rekin með hagnaði. Það mun auðvitað skerpa línurnar og vonandi verða allar tölur uppi á borðum. Ég held að viðskiptahættir mundu breytast af því smátt og smátt. Ég held að það mundi leiða til þess að t.d. sjómenn fengju í framtíðinni sambærilegt verð hvar sem þeir störfuðu á landinu miðað við þann fisk og þau gæði sem þeir legðu á land. Það er auðvitað orðið mjög fróðlegt að skoða hvað er að gerast á íslenskum fiskmörkuðum og hvað hefur verið tekið þar upp á undanförnum árum til að tryggja að menn séu að kaupa þar gæðafisk, tryggja að þeir hafi rekjanleika vörunnar.

Mér fannst gæta misskilnings hjá hv. þm. Halldóri Blöndal, sem kom fram í máli hans, að eingöngu væri um rekjanleika að ræða ef fiskiskip væri í eigu fiskvinnslu og þar væri dagmerkt og getið um hvar fiskur væri veiddur o.s.frv. Á fiskmörkuðunum er fiskur einfaldlega merktur, hv. þingmaður, frá hvaða skipi hann er, hvar hann var veiddur og með hvaða veiðarfærum. Þessi miði er einfaldlega límdur á körin og fylgir þeim alla leið, enda þurfa fiskvinnslur án útgerðar með nákvæmlega sama hætti og fiskvinnslur sem eru tengdar útgerð að gera grein fyrir því hvaðan fiskurinn er kominn, í hvaða veiðarfæri hann var veiddur, frá hvaða svæðum hann kemur o.s.frv. Þar á er engin mismunun. Sú krafa kemur frá kaupendum og þeir leita eftir þessari vitneskju.

Það er mjög æskilegt fyrir allar fiskvinnslur að þær starfi þannig að þær geti verið í sambærilegu umhverfi og að hver og einn finni hjá sér hvata til að gera sem allra best í sinni vinnslu úr sínu hráefni eða úr því hráefni sem menn kaupa. Fiskvinnslurnar í landinu hafa verið að sérhæfa sig til að vinna ýmsar fisktegundir á undanförnum árum og markaðirnir hafa ekki átt minnstan þátt í því að fiskvinnslur gátu sérhæft sig.

Tökum sem dæmi litla fiskvinnslu í Hafnarfirði, Hamrafell sem leggur mikið upp úr því að vinna steinbít, kaupir hann vítt og breitt af landinu. Það væri nánast ekki hægt að reka fiskvinnslu nema sérhæfa sig í steinbít ef hún ekki hefði aðgang að því að kaupa hráefnið á mörkuðum. Það verður að segjast alveg eins og er að slík dæmi má finna í mörgum vinnslugreinum sem menn hafa verið að sérhæfa sig í. Fiskvinnslur án útgerðar hafa verið að sérhæfa sig og fiskvinnslan sem rekin er af stærri fyrirtækjunum hefur einnig verið að sérhæfa sig hin síðari ár. Við getum tekið dæmi núna af Granda sem yfirtók HB á Akranesi og vinnur núna í Reykjavík, karfa og ufsa að mestu leyti ef ég veit rétt, en þorskur og ýsa eru unnin á Akranesi. Þetta er ákveðin sérhæfing og ekkert nema gott um það að segja að menn reyni slíkt. Fiskvinnslur án útgerðar sem kaupa allan sinn fisk á mörkuðum eru líka í sérhæfingu og útgerðin sem slík skiptir ekki 100% máli í því hvort útgerð geti sérhæft sig. Það er eingöngu aðgangur að markaði og hráefni.

Ég held, hæstv. forseti, að menn verði að líta þannig á þá tillögu sem hér er flutt að hún miði að því að breyta viðskiptaháttum með ferskan fisk á Íslandi til framtíðar. Hún leitast við að tryggja það að menn eigi möguleika á að kaupa íslenskan fisk sem veiddur er hér á miðunum og þá er ég líka að tala um þann fisk sem verið er að flytja út í gámum, að fiskvinnslum sé gefinn kostur á að bjóða í það hráefni. Það er ekkert sem mælir sérstaklega með því að fiskurinn sé fluttur út óunninn án þess að menn fái að bjóða í hann. Það er ekkert sem mælir með því . Það hlýtur að vera svo að þeir sem eru að flytja út ferskan fisk séu að leita að hinu hæsta verði. Hvers vegna er þá verið að meina íslenskum fiskvinnslum að bjóða í þann fisk sem verið er að flytja út? Ég tel að menn ættu að hugleiða þetta vandlega. Þetta er m.a. mál sem mér finnst tengjast mjög mikið því máli sem við erum að ræða.

Ég held líka að það yrði fyrirtækjunum til góðs, bæði stórum og smáum, ef sú þróun sem við erum að leitast eftir að verði með þessari tillögu fengi að halda innreið sína í íslenskan sjávarútveg.

Það er auðvitað hægt að setja margs konar reglur um viðskiptaform. Tillaga okkar gerir ráð fyrir slíkum reglum. Það er auðvitað hægt að hugsa sér að á ákveðnum tímum sjái menn til þess að ákveðinn hluti af hráefninu skuli seldur á fiskmarkaði frá hvaða útgerð sem er. Það hlutfall gæti verið stígandi á einhverju árabili. Tillagan markar ekki nákvæmlega þá vegferð en hitt er algjörlega ljóst að hún á að skapa skilyrði til eðlilegrar verðmyndunar á öllum fiski á markaði, stuðla að heilbrigðum og gegnsæjum viðskiptaháttum í fiskviðskiptum og koma þannig á því sem við köllum eðlileg samkeppnisskilyrði á því sviði. Ég held að þetta hljóti öllum að vera skiljanlegt og ég held, hæstv. forseti, að ef slík viðskipti kæmust á — segjum að það tæki t.d. fimm ár, jafnvel tíu að koma því endanlega á að allur fiskur væri seldur á fiskmarkaði — væri slík aðlögun öllum til bóta, ekki síst íslensku þjóðinni sem fengi meira fyrir auðlind sína þegar upp verður staðið en er í dag. Það hlýtur að vera markmið okkar að ná fram breytingum án þess að valda kollsteypum sem leiða þó til þess að við fáum meira út úr íslenskum sjávarútvegi en við höfum núna.



[16:14]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Einu sinni hafði hv. þm. Halldór Blöndal, núverandi hæstv. forseti Alþingis, mikinn skilning á því að tryggja nauðsyn þess að nýliðun væri í íslenskum sjávarútvegi. Ég kom aðeins áðan inn á það að ég hefði verið að grúska í sagnfræðinni, gömlum þingskjölum o.s.frv. Ég skoðaði þá m.a. feril þessarar þingsályktunartillögu. Ég fór líka lengra aftur í tímann, aftur til desembermánaðar árið 1983. Þá var til umræðu að setja á kvóta í íslenskum sjávarútvegi. Síðan eru liðin 22 ár. Þá stóð hér í pontu hv. þm. Halldór Blöndal og sagði eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ég dreg enga dul á að ég hef ávallt verið vantrúaður á að unnt sé að standa vel að fiskveiðum á Íslandsmiðum með því að setja hverju skipi, stóru og smáu, sérstakan kvóta. Til þess eru aðstæður of ólíkar, enda veit ég ekki til að útfærðar hugmyndir að slíku kvótakerfi hafi verið settar fram. Á þessu stigi málsins tel ég nauðsynlegt að eftirfarandi komi fram:

Til þess að kvótakerfi á fiskveiðar sé réttlætanlegt er óhjákvæmilegt að taka tillit til óvenjulegra og sérstakra aðstæðna þeirra útgerðarmanna eða útgerða sem lagt hafa í nýja fjárfestingu, fest kaup á fiskiskipi eða kannski lagt öðru. Ég veit dæmi þess að ungir menn hafa fest kaup á togara nýlega, kostað miklu til að endurbæta hann og lagt eigur sínar að veði í þeirri fullvissu að þeir hefðu sömu möguleika og aðrir til að bjarga sér þótt fyrri eigendum togarans hafi verið mislagðar hendur um aflabrögð. Í slíku tilviki er með öllu óverjandi að ákveða umræddu skipi aflakvóta eftir aflabrögðum þess meðan það var í eigu fyrri eigenda.“

Þannig talaði hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Halldór Blöndal, á hinu háa Alþingi 12. desember árið 1983 og varði rétt íslenskra borgara til að hasla sér völl í íslenskum sjávarútvegi. Hann var meira að segja reiðubúinn til að hlúa að því að ungir og efnilegir menn gætu haslað sér völl í útgerð og það gerði hann svikalaust. Núna, 22 árum síðar, stendur sami þingmaður í pontu og ver einokunarrétt þessara sömu manna til að ráða því sjálfir hvernig verðmyndun á fiski fari fram á Íslandi, hvernig verðmyndunin sé á hráefninu sem aflað er af þeirra skipum og fært inn í þeirra hús. Mér finnst að þingmaðurinn sé að verja óverjandi viðskiptahætti, ég ætla ekki að segja ólögmæta en þetta eru óheilbrigðir viðskiptahættir.

Ég hef enga trú á því að þessir þá ungu menn sem nú eru orðnir aðeins eldri, dugnaðarmenn, ættu í einhverjum vandræðum með að spjara sig þó við mundum skilja á milli veiða og vinnslu. Að sjálfsögðu ættu þeir ekki í neinum vandræðum með það. Þeir færu létt með það og ég skil satt best að segja ekki hvað íslenskir útvegsmenn óttast þó að við mundum skilja fjárhagslega milli veiða og vinnslu á Íslandi, ég hreinlega skil það ekki en það er eitthvað sem þeir óttast mjög. Þeir veðja hreinlega á að stjórnarflokkarnir á Alþingi slái skjaldborg um þessi einkaréttindi þeirra, um rétt þeirra til að ákveða nánast einhliða verðmyndun á fiski á Íslandi. Það kemur glöggt fram í umsögn frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna sem barst inn á Alþingi 6. desember árið 2003, umsögn um þessa sömu þingsályktunartillögu eftir að hafði verið mælt fyrir henni síðast. Þar segir m.a. í stuttu bréfi þar sem hvergi eru tilgreind nein rök fyrir því af hverju má ekki skoða þessa leið, það er bara hreinlega sagt: „Við leggjumst alfarið gegn samþykkt tillögurnar þar sem tillaga sama efnis hefur áður verið flutt án þess að fá framgang treystum við því að það sama gerist nú.“ Bréfið er undirritað af Friðriki Þór Arngrímssyni, framkvæmdastjóra LÍÚ. Þeir treysta því að þingsályktunartillagan verði stöðvuð á hinu háa Alþingi með öllum tiltækum ráðum, að hún fari enn eina ferðina í sjávarútvegsnefnd og eigi ekki afturkvæmt þaðan. Svona koma þessir herrar upp um sig af og til, eflaust alveg óvart en það er alltaf jafngaman að grípa þá glóðvolga þegar þeir koma upp um sig. Ég hygg að ef þessi leið yrði farin, að hráefnið færi á hinn frjálsa markað og að verðmyndunin yrði frjáls, þá mundum við ná miklu meiri virðisauka út úr sjávarútveginum en í dag.

Virðulegi forseti. Ég er með tölur fyrir framan mig um útflutning á fiski frá Íslandi á síðasta ári, 2004, og 2003. Óunnið hráefni sem rennur úr landi. Þetta eru nokkuð sláandi tölur. Árið 2003 var flutt út frá Íslandi 34.331 tonn, árið 2004, í fyrra, voru þetta rétt tæp 50 þús. tonn. Aukningin var 45% á milli ára. Verðmætið er líka mikið. Í fyrra var útflutningsverðmætið upp á 8 milljarða. Árið þar á undan upp á rúma 5,5 milljarða.

Margar sjávarútvegsbyggðir á Íslandi þurfa að þjást mikið út af því að óunninn afli er að flæða úr landinu án þess að fiskvinnslur hér á landi fái nokkur tækifæri til að bjóða í hann. Tökum Vestmannaeyjar sem dæmi. Í fyrra var fluttur út óunninn afli frá útgerðarfyrirtækjum í Vestmannaeyjum að verðmæti 2,4 milljarðar. Þetta er mjög stór hluti af heildarkökunni sem fer frá Íslandi. Er þetta sanngjarnt? Er sanngjarnt að atvinnulífið í Vestmannaeyjum þurfi að blæða fyrir það að útgerðarmenn hafa einkarétt á því að selja fiskinn til þeirra sem þeim dettur í hug? Af hverju má ekki bjóða þennan afla upp? Af hverju mega íslenskar fiskvinnslur ekki fá tækifæri til að keppa um þetta hráefni? Það er talað um að það geti skapað um 100 manns vinnu bara í Vestmannaeyjum og gríðarlegan virðisauka ef aflinn yrði unninn þar.

Ég hlýt að vekja athygli á því í lok máls míns að hvorki formaður sjávarútvegsnefndar, hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, sem er þingmaður Vestmannaeyja, né varaformaður sjávarútvegsnefndar, hv. þm. Birkir J. Jónsson, hafa látið svo lítið að láta sjá sig í allan dag. Þetta er í fyrsta sinn í langan tíma sem við tökum umræðu um sjávarútvegsmál og bæði formaður og varaformaður sjávarútvegsnefndar skrópa í þingsal.



[16:23]
Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Norðvest., Guðjóni A. Kristjánssyni, fyrir að hafa tekið aftur til máls og farið betur ofan í efni tillögunnar en hann hafði áður gert. Ég verð samt sem áður að lýsa vonbrigðum mínum yfir því að hv. þingmaður tók ekki fast á og hikaði mjög við að ræða hvaða afleiðingar tillagan mundi hafa ef hún næði fram að ganga og yrði framkvæmd, sem aftur á móti hv. 2. þm. Norðvest., Jóhann Ársælsson, gerði mjög myndarlega þegar hann sagði að það yrði sprenging í sjávarútveginum ef allur fiskur færi á markað. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson vildi draga úr þessu með því að segja að það mætti e.t.v. draga að slíkt gerðist, (Gripið fram í.) kannski fimm ár, kannski tíu ár, eitthvað þvílíkt, og vildi draga úr því að tillagan kæmi strax til framkvæmda. Raunar mátti heyra það á ræðu hans að hann vildi standa í báðar lappirnar, tvísté þannig að gefa þeim fiskvinnslum sem ekki eru með útgerð það í skyn að hann vildi setja allan fisk á markað en um leið reyna að halda hinum rólegum með því að segja að hann ætlaði svo sem ekki að taka neitt frá þeim.

En málið er ekki þannig vaxið því það er takmarkaður fiskur í sjónum og sami fiskurinn verður ekki unninn tvisvar og fluttur út ferskur, bæði hjá þeirri fiskvinnslu sem ekki hefur útgerð og hefur útgerð. (Gripið fram í.) Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur stundum staðið uppi í ræðustóli og borið sérstaklega fyrir brjósti lítil sjávarpláss sem hv. þingmaður segist vera sérstakur fulltrúi fyrir. Ef við t.d. mundum hugsa okkur það í því sjávarplássi sem nyrst er og afskekktast, Grímsey, hvaða afleiðingar það mundi hafa fyrir byggðina þar ef allur fiskur sem veiddur yrði þyrfti að fara á markað. Hvaða forsendur væru þá fyrir byggð í Grímsey? Það er erfitt að sjá það og ljóst að Grímseyingar mundu ekki una í eyju sinni ef þeir fengju ekki að leggja sig fram og njóta þess sem hafið í kringum eyjuna gefur af sér, nýta þann kvóta sem eyjarskeggjar hafa til að sjá sjálfum sér farborða.

Auðvitað vilja þeir vera frjálsir að því að standa að útgerð sinni og fiskvinnslu sinni eins og þeim þykir hagkvæmast og best, bæði út frá hagsmunum sjálfs sín í þröngri merkingu þess orðs en einnig vilja þeir nokkuð á sig leggja til að halda eyjunni í byggð.

Ég spurði hv. þingmann áðan í vissu samhengi hvaða rekstrargrundvöll fiskvinnslan hefði ef höggvið yrði á tengsl veiða og vinnslu. Auðvitað átti ég við þau stóru fiskvinnslufyrirtæki sem nú eru rekin og háð því að geta gengið að öruggum afla vegna þess að sami aðili á fiskvinnslufyrirtækið og útgerðina eða það eru þá systurfyrirtæki. Ég tók sem dæmi fyrirtæki eins og hraðfrystihús HB Granda á Akranesi sem er mjög vel rekið frystihús og það var alveg rétt sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði að það er verkaskipting á milli þess frystihúss og frystihússins í Reykjavík sem byggist á því að þessi tvö frystihús geta gengið að öruggu hráefni. Ef því væri ekki til að dreifa mundi verkaskiptingin að sjálfsögðu falla um sjálfa sig. Þar að auki veit hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson að til að standast þá hörðu samkeppni sem nú er, m.a. vegna ódýrs vinnuafls í öðrum löndum, er svo komið að fiskvinnslustöðvar standa ekki undir sér nema þær hafi mjög mikla veltu, nema mjög mikið af hráefni, fiski, fari í gegnum þær fiskvinnslustöðvar sem er forsendan fyrir því að þær geti rekið sig.

Ef þarna yrði höggvið á yrði auðvitað ekki sami rekstur áfram. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þá mundi annar rekstur taka við. Þá mundi meir og meir af fiskvinnslunni flytjast til þeirra staða sem næst eru útflutningshöfn eða útflutningsflugvelli og getum við þá horft ýmist til Austurlands eða svæðisins í kringum Faxaflóa. Ég skil það ósköp vel að hv. 10. þm. Suðurk., Jón Gunnarsson, vill berjast fyrir sína menn á Suðurnesjum. Hann vill styrkja stöðu þeirra í fiskvinnslunni en á kostnað annarra með sama hætti og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur viljað styrkja sjávarútveg á Vestfjörðum, auðvitað á kostnað annarra í greininni. Þetta er auðvitað skiljanlegt. Ég er hins vegar talsmaður þess að við eigum að standa þannig að veiðum og vinnslu að það gefi þjóðarbúinu sem mest í aðra hönd og ég vil reyna að það sé staðið þannig að þessum fyrirtækjum að þeir sem við þau starfa hafi örugga afkomu, örugga vinnu og geti horft til framtíðar. Á þeim rökum stend ég gegn því að klippa á það samhengi sem verið hefur á milli veiða og vinnslu því ég trúi því að það sé rétt sem hv. þm. Jóhann Ársælsson segir að það verði mikil sprenging í sjávarútveginum ef þetta nái fram að ganga.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur enga tilraun gert til að lýsa því hvað við taki af rústunum eftir að sprengingin hefur orðið. Væri þó vissulega ástæða til að hann gerði það þar sem hann er talsmaður Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum og það verður auðvitað að liggja ljóst fyrir hvernig Samfylkingin sér þessi mál fyrir sér. Hér áðan treysti hv. þingmaður sér ekki til að segja að sú tillaga sem hér liggur fyrir sé studd af þingflokki Samfylkingarinnar, að einstakir þingmenn í Samfylkingunni standi á bak við þennan tillöguflutning. Hér í þingsalnum eru tveir hv. þingmenn Samfylkingarinnar auk hv. þm. Jóhanns Ársælssonar. Ég veit ekki hvort þeir hafa eitthvað til málanna að leggja, það væri fróðlegt að heyra það í ræðu þannig að menn geti gert vel grein fyrir málum sínum. Ég er persónulega ókunnugur skoðunum hv. 7. þm. Reykv. s., Marðar Árnasonar, um sjávarútvegsmál og væri fróðlegt að fá um þau að vita. Mér skilst að hann og hv. þm. Pétur H. Blöndal tali mikið saman í sjónvarpi á morgnana. Það er að vísu ekki uppáhaldsþáttur minn en má vera að hann hafi einhvern tíma þar komið inn á sjávarútvegsmál án þess að spurnir hafi af því farið eða það hafi þótt tíðindi.

Ég tók eftir því að hv. þm. Jón Bjarnason geldur varhuga við efni tillögunnar þannig að það er ekki rétt hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að stjórnarandstöðuflokkarnir standi á bak við þennan tillöguflutning.



[16:31]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þingmaður erum sammála um að auðvitað eigi stefnan að vera þannig að það gefi þjóðinni sem mest í aðra hönd sem sjávarútvegurinn er að fást við. En við höfum ekki sömu skoðanir á því hvernig best sé að gera þá hluti. Ég hef t.d. heldur ekki þessar óskaplegu áhyggjur af stóru fyrirtækjunum í sjávarútvegi þó að það kæmist á eðlilegt samkeppnisumhverfi í sjávarútveginum. Ég held að þau muni standa sig ágætlega í því. En það munu verða miklar breytingar. Það var það sem ég átti við með sprengingu. Það munu verða miklar breytingar. Sérhæfingin mun aukast í sjávarútveginum í heild eins og hún gerði gagnvart þeim fyrirtækjum sem hafa verið að vinna á markaðnum eftir að hann kom og þannig verður hagræðing í allri þessari vinnslu. Ég held að það sé ekki vafi á því að það mundi verða til mikils góðs fyrir sjávarútveginn í landinu og alveg sérstaklega auka fiskvinnslu í landinu og minnka útflutning á óunnum fiski.



[16:32]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég átta mig ekki á því hvort hv. þingmaður er svo ókunnugur hér á landi að honum sé ekki kunnugt um að frystihúsum hefur verið lokað vegna þess að hráefni hefur skort. Það er ekki hægt að bæta úr því hjá þeim frystihúsum sem nú berjast í bökkum með því að setja allan fisk á markað vegna þess að það yrði tilhneiging til þess að hann safnaðist fyrir á þeim stöðum sem næstir eru útflutningshöfn eða flugstöð. Auðvitað mundi þetta gera reksturinn erfiðari á þeim stöðum sem fjærst eru sem hafa verið að byggja sig upp með því að eiga kvóta og styrkja þannig veiðar og vinnslu í senn. Þetta veit hv. þingmaður. Og hann veit að með þessari tillögu er verið að vega að smæstu sjávarplássunum



[16:33]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hin litlu sjávarpláss eiga nú við vanda sem hefur orðið til vegna sjávarútvegsstefnunnar. Það mundi minnka þennan vanda ef aðgangurinn að hráefninu væri frjáls vegna þess að þá gætu komið upp fiskvinnslur og staðið áfram fiskvinnslur sem eru í þessum litlu sjávarplássum. Vandi þeirra er sá, og þess vegna hafa þær margar lokað, að þær hafa ekki aðgang að hráefni og þessi aðgangur hefur hreinlega verið að minnka á undanförnum árum. Það kemur minna á fiskmarkaðina en áður.

Ég tel að það sé ekki spurning að fiskvinnslan í landinu mundi aukast og það yrði fiskvinnsla sem stæði undir sér sem mundi aukast — það yrði ekki fiskvinnsla sem þarf að hafa áhyggjur af vegna þess að hún geti ekki borgað hæsta fiskverð. Fiskvinnsla sem kaupir á markaði er að glíma við hæsta verðið. Verðið mundi auðvitað eitthvað lækka í heild ef allur fiskur færi um markaði en það mundi líka auka vinnsluna verulega mikið.



[16:34]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er erfitt að fá hv. þingmann til að tala um ástandið eins og það raunverulega er. Það eru litlir útgerðarmenn úti á landi, eins og hv. þingmaður veit, sem reyna að bjarga sér með því að veiða og salta sjálfir sinn fisk og á grásleppuvertíð salta þeir sjálfir sín hrogn.

En það sem hv. þingmaður er að leggja til er að banna þessum útgerðarmönnum bæði að verka (Gripið fram í.) sinn fisk og hann vill leggjast líka gegn því að þeir fái að salta sín hrogn því að allt verður að setja á markað. Hv. þingmaður vill algjörlega klippa þarna á, eins og hann segir, hann vill sprengingu í sjávarútveginum. Hann vill að önnur öfl komi þar að verki og hann vill ekki að áfram verði unnið á þeim forsendum sem gert hefur verið. Það er kjarni málsins.



[16:35]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal spurði hvernig færi fyrir Grímseyingum ef skilið yrði milli veiða og vinnslu. Nú er mjög lítið af fiski verkað úti í Grímsey. Megnið af því fer í land og stór partur af því er unninn á Ólafsfirði og í Hrísey og á öðrum stöðum á Norðurlandi. Ég veit ekki betur en að í Grímsey hafi verið starfræktur til margra ára fiskmarkaður eða útibú frá fiskmarkaði. Ég hef í sjálfu sér engar áhyggjur af því að þeir sem hefðu áhuga á því að verka fisk úti í Grímsey gætu ekki keppt um hráefni þó að við mundum skilja á milli veiða og vinnslu.

Hv. þm. Halldór Blöndal talar mikið um litlu sjávarbyggðirnar og hvernig þær muni endanlega fara fram af þverhnípinu ef við förum þessa leið. Mig langar bara til að minna á að margar þessara byggða eiga nú þegar í miklum vandræðum. Nýjasta dæmið er Stöðvarfjörður þar sem verið er að taka frá þeim kvótann, hráefnið, og loka fiskvinnslunni. Það er ekki vegna þess að verið sé að skilja á milli veiða og vinnslu.



[16:36]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er nú þakklátur hv. þingmanni að hann skuli ætla að vísa mér til vegar í Grímsey og kenna mér á það hverjir þar búa og hvernig þeir haga sér. Mætti hann gjarnan koma hér upp aftur og halda þeirri góðu kennslu áfram. Það er athyglisvert sem hann segir um þá hluti, að það sé svo sem engin fiskverkun í Grímsey. Þá vitum við það. Það er svona eins og eitt með öðru. Má vera að t.d. á Ólafsfirði treysti menn á hráefni en kaupi ekki allt á markaði.

Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni, og að því vék ég áðan í ræðu minni, að Stöðvarfjörður er eitt dæmi um það að þar er verið að loka frystihúsi af þeim sökum að hráefni hefur vantað. Við getum tekið annað dæmi á Raufarhöfn og þar fram eftir götunum. Það er vegna þess að það er ekki nægilegur fiskur í sjónum til þess að allir geti fengið þann fisk sem þeir þurfa á að halda.



[16:38]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að það sé ný söguskýring að hráefnisskortur valdi því að verið sé að loka húsinu á Stöðvarfirði. Ég man ekki betur en stjórnendur Samherja hafi gefið þá skýringu að það sé fyrst og fremst óhagstætt gengi sem valdi því að þeir telji að rekstur þar sé ekki lengur arðbær. Ég hef sjálfur mjög miklar efasemdir um það og hef beðið í ofvæni eftir því að fjölmiðlar færu nú að kafa nánar ofan í þetta mál og skoða hvernig málum er háttað á Stöðvarfirði. En ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með að það hefur ekki gerst og okkur skortir upplýsingar um hvað í raun hefur gerst á Stöðvarfirði því ekki er mjög langt síðan við gátum heyrt og lesið um það í fjölmiðlum að þar væri allt í blóma og gengi mjög vel í vinnslu og þaðan færi m.a. mikið af fiski á markaði erlendis.

Mig langar bara til að koma því að hér — tími minn er stuttur — að það hvernig við förum að því að skilja á milli veiða og vinnslu er að sjálfsögðu útfærsluatriði sem ætti að ræða. Það ætti m.a. að ræða í sjávarútvegsnefnd. Það er ekki verið að boða hér neina byltingu sem muni kollvarpa öllu, að sjálfsögðu ekki. Þetta eru allt saman spurningar um útfærslur (Forseti hringir.) og aðferðir.



[16:39]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður lauk ræðu sinni eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hér fyrr í dag, með því að segja að þessi tillaga skipti svo sem engu máli, það væri ekki verið að boða neina kollsteypu og þar fram eftir götunum.

Af hverju skyldi hv. þingmaður gera það? Vegna þess að hann gerir sér grein fyrir því að efni þessarar tillögu felur það í sér að fjölmörg fyrirtæki munu ekki hafa rekstrargrundvöll, fjölmargt fólk í fiskvinnslu, verkafólk í fiskvinnslu, mun missa atvinnu sína og þetta mun hafa í för með sér á sumum stöðum mikla erfiðleika í byggðarlögunum vegna þess að fólk hefði ekki að neinni vinnu að hverfa. Þessi tillaga miðar beint í hjartastað þeirra fyrirtækja sem halda uppi byggð á sumum stöðum og það verður sviðin jörð eftir ef þessi tillaga verður framkvæmd og nær fram að ganga.



[16:41]
Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég undra mig mjög á þeim viðhorfum sem hv. þm. Halldór Blöndal er að lýsa hér. Ég er hér með skýrslu í höndunum sem heitir „5 ára átak til að auka verðmæti sjávarfangs“. Hún birtist í október 2002 og var unnin fyrir sjávarútvegsráðuneytið.

Þar segir um þorskinn, með leyfi forseta:

„Ef allur heill óunninn þorskur, sem fluttur var út 2001, væri nýttur í fersk flök þá gæti það skilað 300 milljónum ISK í auknum útflutningstekjum ...“

Þar segir um ýsuna, með leyfi forseta:

„Ef öll ýsa sem flutt er út heil fersk 2001 væri tekin til vinnslu og framleidd fersk flök í flug þá væri hægt að gera ráð fyrir að heildarverðmæti ýsuafurða hækkuðu um 450 milljónir ISK ...“

Þetta er stefna sem sjávarútvegsráðuneytið lét vinna. Ég hefði talið að sú tillaga sem við höfum hér verið að flytja væri beinlínis til þess að ýta undir aukið verðmæti í sjávarútvegi. Ég er alveg sannfærður um að við mundum auka verðmætið og verðmætasköpun í sjávarútvegi og við mundum auka atvinnu í sjávarútvegi ef hún fengi fram að ganga. Það er ekki spurning að ég tel að við værum þá að vinna þjóðinni mikið gagn.

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld standa vörð um frjálsa verslun og taka þátt í gerð alþjóðlegra samninga. Þau eiga að sjá til þess að sú verðmætasköpun sem á sér stað komi þjóðinni allri að gagni ...“

Þetta er stefnumótun sjávarútvegsráðuneytisins, hv. þm. Halldór Blöndal.



[16:42]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður las upp kafla um að æskilegt væri og gott, við getum sagt nauðsynlegt, að sporna við því að óunninn fiskur yrði fluttur úr landi í gámum. Ég hef aldrei lýst mig andsnúinn því, síður en svo. Þvert á móti er ég mjög hlynntur því að fiskur sé unninn hér á landi ferskur til útflutnings.

Með því að við eigum sterk sjávarútvegsfyrirtæki þá vinnum við á móti þeirri þróun að fiskurinn fari óunninn úr landi. Það er kjarni málsins. Þess vegna er ég ekki hlynntur því að höggva á tengsl veiða og vinnslu. Ef við horfum á stóru sjávarútvegsfyrirtækin þá hafa þau einmitt gengið fram í því að opna nýja markaði. Þau hafa tryggt búsetu á stöðum og þau hafa líka gripið til úrræða sem duga til þess að reyna að halda framleiðslunni í því horfi að hún standi undir sér, m.a. með dýrri fjárfestingu og öðru slíku eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson veit fullvel.



[16:43]
Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Ég er ánægður með að við hv. þm. Halldór Blöndal séum sammála um að eðlilegt sé að stuðla að því að auka verðmæti íslensks sjávarútvegs. Ég held að það sé nú kannski ágæt niðurstaða af þessum umræðum.

Við erum hins vegar greinilega mjög ósammála um hvaða aðferðir geti leitt til þess að auka verðmæti íslensks sjávarútvegs. Ég átta mig á því eftir þessa umræðu að hv. þm. Halldór Blöndal lítur svo á að eingöngu stór fyrirtæki sem hafa yfir kvóta að ráða geti séð til þess að verðmæti aukist í íslenskum sjávarútvegi. Ég er honum algjörlega ósammála um það þannig að við höfum bara sína skoðunina hvor á því hvernig eigi að vinna að þessum málum.

Við teljum að það megi vinna þessu máli mikinn framgang með því að stuðla að því að verðmyndun íslensks sjávarútvegs fari fram á markaði og við erum tilbúnir að vinna að því og reyna að ná sátt um hvernig það gæti orðið.



[16:44]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef dregið fram nauðsyn þess að lítil fyrirtæki geti starfað eins og í Grímsey. Ég hef líka vakið athygli á því í sambandi við loðnufrystingu að til þess að fyrirtæki leggi í þann mikla kostnað sem því fylgir að setja upp allan þann búnað til þess að loðnufrysting geti gengið vel fyrir sig þurfa menn að hafa mikið fjármagn á bak við sig og hafa aðgang að öruggu hráefni. (GAK: Finnst þér ...) Þetta veit hv. þingmaður að er rétt og hann veit að sú bylting sem hefur orðið í uppsjávarfiskinum er vegna þess að þar koma sterk fyrirtæki að sem ráða bæði yfir vinnslunni og yfir veiðunum. Þegar hann talar um að slíta þetta hvort tveggja í sundur er hann að gera það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði, hann er að varpa sprengju inn í íslenskan sjávarútveg. (GAK: Við erum ekki miklir sprengju...)



[16:45]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Gerst hefur sá óvenjulegi atburður að hv. þm. Halldór Blöndal hefur óskað eftir að hlýða á skoðanir mínar um tiltekið efni og ég tel ekki annað sæmilegt en að veita hv. þingmanni hlutdeild í þeim skoðunum úr því að sérstaklega er eftir þeim óskað.

Þá er í fyrsta lagi að segja að það er stefna Samfylkingarinnar sem liggur á bak við tillögu þeirra hv. þingmanna Guðjóns A. Kristjánssonar, Jóhanns Ársælssonar og fleiri. Í öðru lagi vekur athygli — þannig að ég snúi þessu nú við — að hv. þm. Halldór Blöndal sagði áðan að ein af afleiðingum þessa máls væri sú að fiskvinnslan mundi færast af útflutningshöfnum og útflutningsflugvöllum. Hann gerir sem sé ráð fyrir að það sé einhver kostnaður sem veldur því að fiskvinnslan er ekki þar nú þegar. Hver skapar þeirri fiskvinnslu samkeppnisstöðu sem getur verið fjarri útflutningshöfnum og útflutningsflugvöllum? Er það fiskverðið, hv. þm. Halldór Blöndal?



[16:46]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef við tökum til dæmis þá fiskvinnslu sem er við Eyjafjörð þá eru þetta gömul og gróin og stór fyrirtæki. Það er með mikilli tæknivæðingu og miklu magni sem þeim hefur tekist að reka sig. Sérstaklega er þetta áberandi í rækjunni. Þá skiptir miklu máli að hægt sé að hafa tvær eða þrjár vaktir til að vinna lengur og virðist þó ekki ætla að duga til, t.d. núna, til að hægt sé að halda rækjuvinnslum opnum.

En úr því að hv. þingmaður segir að Samfylkingin standi á bak við þessa tillögu væri fróðlegt að fá að vita hvort líta beri svo á að flokkssamþykkt Samfylkingarinnar sé á bak við þetta, þingflokksins, eða er það ágiskun hv. þingmanns að allir þingmenn Samfylkingarinnar standi á bak við þennan tillöguflutning?



[16:47]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal virðist gera ráð fyrir því að við þá einföldu athöfn að skilja í sundur veiðar og vinnslu hverfi fiskvinnsla af Eyjafjarðarsvæðinu. Ég vil gjarnan fá staðfestingu á því að þetta sé skoðun hans vegna þess að þá gerir hann jafnframt ráð fyrir því að fiskvinnsla á Eyjafjarðarsvæðinu sé í sjálfu sér óhagkvæm nema með þeim sérstaka stuðningi sem sú fiskvinnsla hefur nú af því að sterk útgerðarfyrirtæki eru stödd þar. Það er sem sé skoðun hv. 2. þm. Norðurl. e. að fiskvinnsla á Eyjafjarðarsvæðinu sé í sjálfu sér óhagkvæm og að koma þurfi til þessi sérstaki stuðningur sem fiskvinnslan hefur af tengslum sínum við sjávarútveginn. Þetta vildi ég gjarnan fá að heyra.

Í öðru lagi er mér illa við að svara spurningum nákvæmlega án þess að leita heimilda og mér hefur ekki tekist það í þingsalnum. Hér eru ekki tölvur við höndina, eins og hv. þingmaður veit ágætlega, en ég hygg að hér sé um að ræða landsfundarsamþykkt flokksins frá þar síðasta landsfundi en skal kanna það betur þegar við komum í 2. umr. um sjávarútvegsmál, ég og hv. þm. Halldór Blöndal.



[16:48]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að rekja það sem ég hef áður sagt um hagkvæmni þess að samræma veiðar og vinnslu, út á það gengu ræður mínar og ég vísa til þeirra um það.

Á hinn bóginn þykir mér þetta merkilegt og sjálfsagt að halda því vel til haga að þau sjónarmið sem hafa komið fram í umræðunum og sú tillaga sem hér hefur verið lögð fram er stefna Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum og er það auðvitað áhugavert. Ég hygg að þau skilaboð sem kjósendur í Norðurlandi eystra fengu fyrir síðustu kosningar hafi ekki verið þau frá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar, Einari Má Sigurðarsyni og Kristjáni Möller, að þeir væru þeirrar skoðunar sem hér kemur fram en það mun þá svo vera og þá liggur það ljóst fyrir og það er alltaf gott þegar mál upplýsast.



[16:49]Útbýting:

[16:50]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Mér þykir rétt að bæta við andsvarasyrpuna áðan af þeim sökum að það var eiginlega frekar ég sem sat fyrir svörum en hv. þm. Halldór Blöndal í það skiptið, að ég hef ekki rætt þessi mál sérstaklega við hv. þingmenn, félaga mína Einar Má Sigurðarson og Kristján Möller. Vera má að þeir hafi einhverjar athugasemdir við þessa tillögur eða þá stefnu sem ég hygg að Samfylkingin hafi samþykkt, ég segi þetta aftur með fyrirvara, á þar síðasta landsfundi. Ég hef ekki heyrt þær athugasemdir en þeir hafa auðvitað fullan rétt til þeirra eins og aðrir samfylkingarmenn. Við búum við málfrelsi og skoðanafrelsi í Samfylkingunni en tökum hins vegar afstöðu þegar við erum til þess búin með atkvæðagreiðslu eða almennu samþykki þar sem mönnum leyfist að hafa aðra skoðun. Það mun vera gömul hefð sem einnig var fyrir hendi í Sjálfstæðisflokknum fyrr á tímum og ég hygg að hún hafi enn þá verið við lýði þegar hv. þm. Halldór Blöndal gekk í flokkinn og að ég held enn þá þegar hv. þm. Halldór Blöndal var kjörinn á þing fyrir flokkinn í árdaga þó hún hafi látið á sjá á síðari tímum.

Ég vil segja í framhaldi af þeim umræðum sem ég hef hlýtt á eftir að ég kom í salinn og einnig á skrifstofu minni áður en ég hoppaði yfir túnið, að það hefur verið sérkennilegt að hlusta á tvo gamla íhaldsmenn, hv. þingmenn Einar K. Guðfinnsson og Halldór Blöndal, vera hér hvor sem annar í andstöðu sinni við þessa tillögu og ekki í fyrsta sinn vegna þess að í raun og veru hafa þeir ekki fært fram nein þau rök sem gildi, sem eru tæk í sæmilega heiðarlegri almennri umræðu um málið.

Af hverju er þetta borið fram? Hvaða mál mundi þetta leysa? Hvað mundi gerast ef þessi þingsályktunartillaga yrði samþykkt? Í fyrsta lagi mundi fiskverð á landinu væntanlega breytast og þá á ég við almennt fiskverð, verð í kringum allan fisk en ekki bara þann fisk sem við höfum tiltekið fiskverð á markaði eða einhverja samninga um milli veiða og vinnslu. Þetta varðar auðvitað sjómenn ákaflega miklu og þetta hefur verið baráttumál þeirra lengi, ætli það sé ekki a.m.k. áratugur eða hálfur annar síðan þeir báru fyrst fram þetta mál í svipuðu formi og hv. þingmenn Guðjón A. Kristjánsson og fleiri til að tryggja að þeir væru ekki hlunnfarnir í kjörum með fölsku fiskverði, með fiskverði sem væri búið til út frá annarra hagsmunum en þeirra þar sem þeir eru víðast í þeirri stöðu að vera í félagi um söluna á fiskinum, félagi við útgerðarmann sem selur síðan öðrum aðila fiskinn, sem er fiskvinnslan. Ef svo vill til að útgerðarmaðurinn og fiskvinnslan eru sama persónan í þeim viðskiptum er hætt við að þegar svo háttar verði sjónarmið félagans í sölufélaginu ekki efst á blaði í viðskiptunum.

Í öðru lagi — eins og auðvitað hefur verið rakið ágætavel bæði í þessari umræðu og í fyrri umræðu um þetta mál, en þess var sérstaklega óskað að ég gerði grein fyrir afstöðu minni til þessa sjávarútvegsmáls á þinginu og þess vegna er ég hér — mundi þessi tillaga jafna samkeppnisstöðu í fiskvinnslunni milli þeirra fiskvinnslufyrirtækja sem eiga kvóta eða hafa aðgang að kvóta og þeirra sem ekki hafa kvótann. Þetta mundi sem sagt verða skref í átt til heilbrigðra viðskiptahátta í fiskviðskiptum.

Í þriðja lagi er sennilegt að staðbundin uppbygging mundi aukast aftur á stöðum sem liggja best við sjó því það var í raun kvótakerfið sem fór með hana á ýmsan hátt. Þar mundi verða uppbygging og þetta fyrirkomulag mundi styrkja þær byggðir sem best liggja við sjávarútvegi en þar er þjóðhagslega skynsamlegast að upp byggist sú vinnsla og það starf sem að sjávarútvegi lýtur en ekki á þeim stöðum sem ekki liggja vel við sjávarútvegi. Það er ósköp einfalt. Ég er bara Reykvíkingur og kannski þess vegna leyfi ég mér að koma auga á þetta og segja það í stólnum af því að það er feimni við það af hálfu ýmissa annarra.

Í fjórða lagi hefur, eins og bent er á í greinargerðinni, þetta mál ákveðin tengsl við lögbundin markmið samkeppnislaga. Ég vil ekki frekar en hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson segja að þeir viðskiptahættir sem nú tíðkast séu ólögmætir en þeir eru óeðlilegir og allt að því ósiðlegir og ég er sammála hv. þingmanni um það.

Ég vil síðan segja að að sjálfsögðu eins og hefur verið rakið er hvorki þessi tillaga né neitt annað einhver sá stóri kross sem leysir alla hluti og stofnar guðsríki á jörðu eða kemur hér á einhverri þeirri paradís sem við göngum í eins og Adam og Eva, þurfum ekki þing og þurfum ekki reglur. Auðvitað eru undantekningar sem þarf að taka til greina. Ein af þeim eru staðir eins og Grímsey þar sem háttar þannig til að fiskmarkaðir geta ekki leyst málin. Markaður er ekki alltaf svarið og er ekki hin endanlega lausn á öllum málum. Önnur undantekning er auðvitað frystitogararnir og vinnsla af því tagi sem um þurfa að gilda sérstakar reglur.

Spurningin er þá aftur, forseti: Af hverju eru þeir hv. þingmenn Halldór Blöndal og Einar K. Guðfinnsson og félagar þeirra, þó sennilega ekki allir hv. þingmenn, á móti þessu máli úr því að öll skynsemi og öll rök mæla með því og einmitt sú skynsemi og þau rök sem þeir hafa eða flokkur þeirra hefur haft uppi við um samkeppni, um markaði, um eðlileg viðskipti og á heiður skilið fyrir að hafa haft það í orði og sérstakan heiður fyrir að hafa rekið þá stefnu á borði sem ekki hefur því miður verið á síðari tímum. Jú, það er vegna þess, svo maður vitni aftur í ræðu hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, að Landssamband íslenskra útvegsmanna skipar svo fyrir að þeir skulu vera á móti málinu. Landssambandið gerir slíka skilyrðislausa kröfu til hlýðni af hálfu þessara manna að hætt er að láta fylgja röksemdir með þeirri fyrirskipan. Það er vegna þess að þessir menn líta á sig sem fulltrúa hagsmuna á þinginu, ekki sem fulltrúa almennings, líta á sig sem fulltrúa sérhagsmuna, fyrirtækja sem eiga kvóta og leggjast því gegn tillögu sem með einhverjum hætti skerðir kvótann, hagsmuni fyrirtækjanna en eykur almennan rétt í málefni sem snertir sameiginlega auðlind þjóðarinnar í hafinu. Þar eru þeir félagar samkvæmir sjálfum sér, því það er yfirleitt stefna þeirra og Sjálfstæðisflokksins á síðari tímum að skerða þennan rétt í þágu hagsmunanna.



[16:59]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal var með útúrsnúninga af ýmsu tagi og ég sé ástæðu til að bæta fáeinum orðum við það sem ég hef sagt í dag. Fyrst vil ég koma því á framfæri að ég er ekki talsmaður Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum. Við í Samfylkingunni höfum þann sið að láta slík hlutverk ganga á milli manna í þinginu og Jón Gunnarsson er talsmaður okkar í sjávarútvegsmálum núna frá því í haust eða vetur.

Vegna þess að hv. þm. Halldór Blöndal fór mikinn yfir því að ég hefði nefnt orðið sprenging í sjávarútvegi og útlistaði hvað ég hefði átt við með því, þá vil ég fá að gera það sjálfur aðeins betur. Ég tel að ef raunverulegur aðskilnaður veiða og vinnslu verður í landinu og fiskmarkaðir fá að rækja hlutverk sitt vel muni sérhæfing í vinnslu sjávarafurða verða miklu meiri en hún er núna. Fiskmarkaðirnir sýndu okkar fram á það hvernig ná má sérhæfingu í sjávarútvegi á Íslandi án þess að það sé gert innan stórra fyrirtækja. Fiskmarkaðirnir gerðu útgerðarmönnum kleift, sem sjálfir voru t.d. með vinnslu, að leggja hluta af sínum afla upp á fiskmarkaði en vinna sumt sjálfir. Auðvitað geta útgerðarmenn sem eru líka með vinnslu, eiga þá tvö fyrirtæki í sjávarútvegi, haldið því áfram ef skilja á milli veiða og vinnslu. Það er auðvitað einfalt mál, þetta er allt til staðar.

Hv. þingmaður var líka með útúrsnúning hvað það varðaði að benda á að þá mættu ekki einhverjir grásleppukarlar salta hrognin sín og einyrkjar sem hefðu saltað fiskinn sinn kannski einhvers staðar úti á landi mættu það ekki heldur. Við leggjum hér til að skipuð verði nefnd til að setjast yfir það með hvaða hætti megi koma þessu fyrirkomulagi á. Auðvitað þurfa menn að útfæra slík atriði. Engum dettur í hug að hægt sé að aðskilja veiðar og vinnslu um borð í frystitogara. Við erum ekki að fara fram á það. Við erum að fara fram á að menn finni einfaldar, skýrar og framkvæmanlegar leiðir til þess að það geti orðið eðlilegt viðskiptaumhverfi í sjávarútvegi. Það er ekki núna og umræðan í dag hefur sýnt ákaflega vel fram á það. Hér hafa menn komið í ræðustól og upplýst það að þeir geri sér fullkomlega grein fyrir því að sjávarútvegurinn á Íslandi, stóru fyrirtækin í landinu séu að borga miklu lægra fiskverð en þau ættu að gera miðað við verðmæti fisksins. Sömu sjávarútvegsfyrirtæki eða forráðamenn þeirra hafa skrifað undir það að leita skuli hæsta verðs til þess að finna út hvað sjómennirnir eigi að fá. Það er ekki rétt gefið. Það þarf auðvitað að koma á skynsamlegu, skilvirku og heiðarlegu kerfi. Á meðan tvískinnungurinn er með þeim hætti sem hann hefur verið fram að þessu í þessari grein þá er ekki von að vel fari.

Hv. þm. Halldór Blöndal hélt því fram að fólk mundi missa vinnuna unnvörpum í fiskvinnslu ef þetta gerðist. Ég er honum svo innilega ósammála um það. Ég er algjörlega sannfærður um að ef við kæmumst yfir í kerfi þar sem miklu stærri hluti fisksins færi um markaði þá yrðu miklu fleiri fiskvinnslur starfræktar í landinu á hinum ýmsu stöðum vegna þess að aðgangurinn að fiskinum ykist auðvitað og sérhæfingin gæti fengið að njóta sín við fiskvinnslu og útflutning á fiski.

Það er svo sérstakt við þetta allt saman að það er í raun og veru bara nóg að fara á námskeið sem er í því fólgið að kynna sér rekstur fyrirtækja sem hafa verið rekin á undanförnum árum í fiskvinnslu án útgerðar til þess að sjá ljósið í þessu máli. Ég ráðlegg hv. þm. Halldóri Blöndal að fá sér námskeið af þessu tagi, fara í gegnum þetta, láta menn sem hafa staðið í þessum rekstri sýna sér þessi fyrirtæki og hvað þau hafa verið að gera á undanförnum árum. Þá held ég að hljóti að renna upp fyrir honum eins og öllum öðrum sem hafa séð þessa hluti hvað hægt er að gera með því að láta markaðinn hjálpa til, láta markaðinn ráða því hverjir fá hráefnið í hendurnar og gefa fyrirtækjunum tækifæri til að komast að því hráefni. Auðvitað mun það gerast að lokum. Íhaldsmenn munu auðvitað ekki halda þessu fyrirkomulagi til enda en þeir geta tafið það og geta tafið það árum saman. Þeir hafa gert það fram að þessu og munu halda áfram að reyna að gera það og það er auðvitað mjög slæmt að svo skuli vera.

Ég ætlaði bara að koma því skila sem ég hef nú þegar sagt. Mér finnst dapurlegt að þeir sem hér hafa talað af hálfu stjórnarliða skuli ekki vera tilbúnir til að skoða þessi mál vandlega en vona menn verði tilbúnir til þess að fara í gegnum málið í sjávarútvegsnefnd og koma því aftur inn í sali Alþingis þannig að menn geti tekið afstöðu til þess. Satt að segja verður maður alltaf að halda í vonina um að að lokum sleppi menn úr klónum á hagsmunaaðilunum í sjávarútvegi hvað þessi málefni varðar og láti ekki sífellt einhverja einstaka aðila sem ráða þar ferðinni og hafa gert í gegnum tíðina hafa vit fyrir sér, hagsmunaaðila sem horfa bara á sitt eigið fyrirtæki og óttast allar breytingar, eru logandi hræddir við að standa sig ekki á markaðnum ef þeir þurfa að standa frammi fyrir því að bjóða í eigið hráefni og það þótt þeir eigi sjálfir fyrirtækin sem veiða fiskinn. Það er ekki hátt risið á slíkri afstöðu, það verð ég að segja. Ég vona bara, hæstv. forseti, að við fáum góða niðurstöðu í sjávarútvegsnefndinni.



[17:07]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls aftur í umræðunni en verð þó að gera það í ljósi þeirra viðbragða sem stjórnarliðar, sem hér hafa talað, hafa sýnt þeirri litlu tillögu til þingsályktunar sem hér er lögð fram og rædd í fjórða skiptið í sölum Alþingis.

Það er í raun undarlegt að horfa á og upplifa það að í hvert skipti sem lögð eru fram mál sem tengjast sjávarútvegi virðist aldrei vera hægt að ræða um það mál sem verið er að leggja fram. Stjórnarliðar þurfa alltaf að hlaupa út um víðan völl og kalla „úlfur, úlfur“, þyrla upp alls konar reyk og rykskýjum til að reyna að fela það sem verið er að tala um og kjarna þess sem verið er að tala um.

Hér er verið að leggja fram tillögu til þingsályktunar um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri útgerðar og fiskvinnslu. Markmiðið með því er að reyna að draga fram hjá þeim fyrirtækjum sem bæði reka útgerð og fiskvinnslu kostnað, tekjur og gjöld sem fylgja hvorum þætti þessa rekstrar fyrir sig. Þá rjúka menn upp og segja: Það mun verða upphlaup á landsbyggðinni, það mun verða landauðn á landsbyggðinni o.s.frv., o.s.frv.

Samkeppnislög eru sett hér á Íslandi til að reyna að tryggja það að sá stóri í krafti þeirrar aðstöðu sem hann hefur skapað sér kannski á undanförnum árum og þeirri aðstöðu sem hann hefur skapað sér á markaði geti ekki beitt óheiðarlegum og ósiðsamlegum aðferðum til að koma í veg fyrir samkeppni nýrra aðila. Lögin eru ákaflega skýr hvað það varðar að þau eru sett til þess að reyna að koma í veg fyrir að þeir sem hafa notið sérhagsmuna eða haft sérstaka aðstöðu í sinni grein geti ekki nýtt þá aðstöðu til að kæfa með ólöglegum eða ósiðsamlegum hætti þá samkeppni sem er að fæðast.

Í samkeppnislögunum segir að lögin hafi það markmið að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Ég sé ekki betur en þetta markmið eigi vel við um sjávarútveginn. Lögin segja einnig, með leyfi forseta:

„Markmiði þessu skal náð með því að:

a. vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri,“ — á þetta við í sjávarútvegi? Eru einhverjar óhæfilegar hindranir og takmarkanir á frelsi í atvinnurekstri í sjávarútvegi?

„b. vinna gegn óréttmætum viðskiptaháttum, skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum,“ — er þetta til í sjávarútvegi á Íslandi? Er ástæða til að skoða það?

„c. auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum.“

Þetta eru þrjú meginmarkmið samkeppnislaga og ég sé ekki betur en að öll þau markmið eigi vel við hvað varðar sjávarútveginn og full ástæða til að skoða rekstrarumhverfi hans með tilliti til þeirra markmiða sem koma fram í samkeppnislögunum.

En það er ekki einu sinni verið að fara fram á það með þessari þingsályktunartillögu, ekki í þessu skrefi. Það er eingöngu farið fram á að aðskilja fjárhagslega rekstur útgerðar og fiskvinnslu, það verði fjárhagslegur, bókhaldslegur aðskilnaður þannig að menn sjái svart á hvítu hvernig hvor þáttur stendur í rekstri þeirra stóru fyrirtækja sem sinna báðum þessum þáttum. Það er allur glæpurinn sem hér fer fram.

Hér hefur verið rætt um ferskfiskútflutning og að stóru öflugu fyrirtækin, sem bæði eru með útgerð og fiskvinnslu, séu farin að flytja út ferskan fisk á markaði erlendis og þurfi að geta afhent þann fisk á hverjum degi og miðað við pantanir o.s.frv. Þetta er allt satt og rétt, en inn á hvaða markaði eru þessi fyrirtæki að fara?

Markaðir sem smærri fiskframleiðendur hafa verið að vinna í gegnum tíðina, koma á, styrkja og rækta hist og her um Evrópu og Bandaríkin, liggja núna undir því sem ég vil leyfa mér að kalla árásarverðlagningu frá þessum stóru aðilum sem eru bæði með útgerð og fiskvinnslu. Minni aðilar sem hafa verið að sinna þessum mörkuðum, framleiða þessa vöru, hágæðavöru, borga hátt verð fyrir fiskinn og selja hann háu verði erlendis, upplifa núna samkeppni sem þeir hafa ekki upplifað áður.

Sú samkeppni er ekki að koma frá Kína, hún kemur frá stóru útgerðunum sem hafa bæði útgerð og fiskvinnslu á sínum höndum. Er það allt í lagi og engin ástæða til að gjalda varhuga við að þetta geti gerst með þeim hætti að þeir sem ráða því nánast hvað þeir kalla það að fiskurinn kosti frá útgerð til fiskvinnslu, geti beitt tímabundinni árásarverðlagningu til að ýta hinum út af markaði? Þetta væru kölluð óheiðarleg samkeppni í öðrum greinum. Þetta er óheiðarleg samkeppni í sjávarútvegi og okkur ber að taka á slíkum málum og laga þau þegar þau koma upp.

En þá koma hér hagsmunagæslumenn stórútgerðanna, tala ekkert um það mál sem hér er undir, blása um eitthvað allt, allt annað eins og hv. þm. Halldór Blöndal hefur gert í sínu undarlega máli í dag. Ég verð þó að segja hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni það til hróss að hann hélt sig nánast við þá tillögu sem hér var verið að ræða og ræddi efni hennar en það gerði ekki hv. þm. Halldór Blöndal heldur óð hér, mér liggur við að segja í þvílíku rugli, út um víðan völl að það var varla fyrir mann með báða fætur jafnlanga að fylgja honum eftir.

En af hverju gerist þetta? Jú, það gerist vegna þess að þessir stjórnarþingmenn, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, eru hér í grímulausri hagsmunagæslu fyrir stórútgerðirnar í landinu. Það liggur við að stundum þegar maður situr á skrifstofunni sinni og er að horfa á skjáinn, á suma hv. þingmenn tala hér úr pontu Alþingis, að það vanti ekkert annað en að það renni fyrir neðan myndina svona borði eins og stundum gerist í sjónvarpinu þar sem á stendur: Hv. þingmaður er í boði stórútgerðarinnar. Þvílík er hagsmunagæslan, þvílíkt er grímuleysið og satt að segja sjáum við það endurspeglast í þessari litlu þingsályktunartillögu að þetta skuli vera í fjórða skiptið sem menn leggja hana hér fram og hún skuli alltaf hafa verið kæfð og drepin í sjávarútvegsnefnd. Hún hefur aldrei fengið að koma aftur inn í sali Alþingis þannig að hér gætu menn rætt þær umsagnir sem fram hefðu komið, hér gætu menn rætt efni þessa máls og tekið afstöðu til þess.

Af hverju gera menn það ekki? Það er vegna þess að hagsmunagæslumenn stórútgerðar vilja ekki rétta upp hönd og fella svona tillögu heldur er hún látin sofna líknardauða í sjávarútvegsnefnd undir stjórn hv. formanna sem yfirleitt koma frá stjórnarflokkunum. Og merki um hvernig þetta gengur fyrir sig á Alþingi í dag: Hv. formaður sjávarútvegsnefndar hefur ekki látið sjá sig í salnum alla umræðuna.



[17:15]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Rétt er að vekja athygli á að það eru fleiri sem hafa ekki látið sjá sig í umræðunni og ég sakna sárt framsóknarmanna en þeir sjá greinilega ekki ástæðu til að ræða tillöguna. Hvað veldur? Eru þeir á sífelldum flótta í umræðunni um sjávarútvegsmál? Ég tel svo vera eða er skýringin einfaldlega sú að þeir hafa ekki vit á því sem á að ræða hér? Hvort er það? Þora þeir ekki að standa við það að þeir eru fulltrúar þess að viðhalda, ég vil segja óréttmætum viðskiptaháttum? Hvar eru þeir í umræðunni? Ég lýsi eftir þeim. Þeir hafa ekki látið sjá sig og ég tel það vera ákveðna skömm fyrir flokkinn að geta ekki tekið þátt í umræðu um mjög mikilvægt mál sem varðar samkeppnismál, sjávarútvegsmál og landsbyggðina. En þetta er kannski hluti af nútímavæðingu Framsóknarflokksins að ræða helst ekki mál sem varða landsbyggðina. Það á að ræða önnur mál. Ef á að hækka eitthvað á landsbyggðinni, þá taka þeir þátt í því og leggja mikla orku og jafnvel kapp í það.

Einnig er mjög sérstakt að verða vitni að því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi meiri skilning á markaðslögmálum en Sjálfstæðisflokkurinn. Það er afar sérstakt að sjá að t.d. hinir ungu og efnilegu þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þeir fjórir sem komust á þing, koma ekki til að ræða um samkeppnismál og frjálsa viðskiptahætti og hvernig við förum heiðarlega að í viðskiptum. Nei, þeir þora það ekki. Þeir láta þingforsetanum það eftir, hv. þm. Halldóri Blöndal. Hann gerði það mjög eftirminnilega og maður fer að efast um hvort hann sé þingmaður kjördæmisins í rauninni, Norðausturkjördæmis, eftir þá ræðu og í raun efast ég um að hann sé þingmaður Eyjafjarðar eftir að hafa hlustað á ræðu hans. Ég tel hann einna helst vera þingmann Samherja. Það var eins og hann teldi að sjávarútvegur snerist eingöngu um eitt fyrirtæki, Samherja. Það er alveg með ólíkindum að hlusta á þvílíka ræðu og þegar á að ræða um hvort jafnræði eigi að vera meðal fyrirtækja þá fer hann í að ræða um Samherja, hann fer að ræða um sókn í fiskstofna. Hvar er Sjálfstæðisflokkurinn? Hvar eru hinir ungu efnilegu þingmenn? Það er eingöngu sendur fram á völlinn aldinn þingforseti og hann ræðir um Samherja og sókn í fiskstofna. En þetta er í rauninni mjög alvarleg umræða.

Sérstaklega ættu ungir þingmenn að hafa skilning á því að atvinnuvegir ganga ekki til lengdar nema ákveðin endurnýjun og nýliðun verði. Þessi tillaga gæti einmitt opnað á að nýliðun yrði. Að vísu hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra einhvern skilning á því að hægt sé að auka verðmæti sjávarfangs og hann fór þá leið að stofna opinberan sjóð. Það er mjög sérstakt að verða enn og aftur vitni að því að flokkur sem vill báknið burt fer þá leið að í staðinn fyrir að opna atvinnuveginn fyrir nýliðun og nýjum hugmyndum þá stofnar hann opinberan sjóð. Það er hans leið og það er verulegt áhyggjuefni. Ég tel að þetta atriði afhjúpi í raun þessa flokka. Þetta eru ekki flokkar sem vilja að almenn lög gildi í landinu heldur er verið að halda verndarhendi yfir einhverju ákveðnu fyrirtæki, eins og hæstv. þingforseti gerir gagnvart Samherja. Ég verð eiginlega að spyrja í framhaldi af því sem hv. þm. Jón Gunnarsson kom inn á að hæstv. forseti væri í boði Samherja. Auðvitað þarf maður að velta þessu fyrir sér. Er eitthvert samhengi t.d. á milli þess að Sjálfstæðisflokkurinn leynir því hverjir greiða í kosningasjóði flokksins og þess hvað hann er tregur til að láta venjuleg lögmál gilda sem gilda annars staðar í heiminum? Meira að segja í Færeyjum virðist fiskvinnsla þrífast mjög vel ef almenn lögmál gilda. Nei, það má ekki ljóstra því upp. Auðvitað veltir maður því fyrir sér hvort t.d. hæstv. þingforseti sé í boði Samherja því hann hafi einfaldlega greitt vel í kosningasjóð Sjálfstæðisflokksins og sé í boði Samherja og vilji þess vegna halda því boði opnu.

Ég tel að þessi umræða sé með ólíkindum og eftir hana stendur að framsóknarmenn hafa ekki látið sjá sig og sjálfstæðismenn hafa verið með mjög undarlegan málflutning og ég verð að segja að þetta er þessum flokkum einfaldlega til skammar.