131. löggjafarþing — 64. fundur
 1. feb. 2005.
Endurskoðun á sölu Símans, fyrri umræða.
þáltill. JÁ o.fl., 44. mál. — Þskj. 44.

[17:22]
Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á sölu Símans. Eins og hæstv. forseti sagði er þetta mál nr. 44 og kom fram strax í upphafi þings en þá kom einnig fram annað þingmál sem Vinstri grænir fluttu um Símann og fór fram umræða um það í haust. Síðan hefur þetta mál legið án þess að verða tekið til umræðu. En það er kannski að sumu leyti ágætt að liðið hefur svolítill tími því að ýmislegt hefur gerst frá því að sú umræða sem ég nefndi áðan fór fram í haust.

En ég ætla að snúa mér að tillögunni sjálfri. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Kristján L. Möller og Björgvin G. Sigurðsson. Tillögugreinin er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að endurskoða fyrirætlanir um sölu Símans með það að markmiði að tryggja eðlilega samkeppni á fjarskiptamarkaði og uppbyggingu á fjarskiptaneti landsins. Í þessu skyni verði grunnnet Símans skilið frá öðrum rekstri og tryggt að eignarhald þess verði til framtíðar óháð öðrum fyrirtækjum í fjarskiptaþjónustu.“

Í greinargerð segir:

Allt frá því að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ákvað að stefna að sölu Símans hafa verið deilur um málið. Samfylkingin hefur stutt þá einkavæðingu á fjarskiptamarkaði sem í þessu felst, en sett það að skilyrði fyrir stuðningi við málið að grunnnet Símans yrði skilið frá öðrum rekstri og tryggt að eignarhald þess verði til framtíðar óháð öðrum fyrirtækjum í fjarskiptaþjónustu. Yfirburðir Símans á fjarskiptamarkaði hljóta að fela í sér verulegan vanda þótt ekki bætist við að fyrirtækið hafi öll önnur fjarskiptafyrirtæki í greip sinni vegna eignarhalds á öllum mikilvægustu farvegum fjarskipta. Ríkisstjórnarflokkarnir skelltu skollaeyrum við aðvörunum um þær hættur sem falist gætu í því að einkavæða einokunaraðstöðu af þessu tagi og 4. september 2001 kynnti Sturla Böðvarsson samgönguráðherra fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um að selja hlutafé í Símanum. Fyrst átti að selja 25% hlutafjár til kjölfestufjárfestis sem skyldi svo hafa rétt til að kaupa 10% til viðbótar, þ.e. 35% sem hefði verið ráðandi hlutur í fyrirtækinu. Einnig átti að selja 15% til almennra fjárfesta en engin skyldi þó mega kaupa yfir 5%. Þessar fyrirætlanir undir forustu Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra fóru reyndar algerlega út um þúfur eins og frægt varð. Einungis seldust 5% til almennra fjárfesta og aðrar sölufyrirætlanir gufuðu upp.

Nú, þremur árum síðar, hugðist fjármálaráðherrann Geir H. Haarde sem hafði tekið við forræði á hlutabréfum í Símanum af samgönguráðherranum gera nýja tilraun í samvinnu við einkavæðingarnefndina sem nú er komin undir forustu ráðuneytisstjórans í forsætisráðuneytinu. En eitthvað tafði málið og ekki gekk rófan og nú er einkavæðingarnefndin komin undir forræði Framsóknarflokksins. Ríkisstjórnin hefur ekki breytt fyrirætlunum sínum um að selja grunnnet Símans með fyrirtækinu sem er gríðarlega umdeilt mál, líka í Framsóknarflokknum eftir því sem ég best veit og ekki hefur frést að það mál hafi verði tekið til neinnar meðhöndlunar aftur þó að til þess hafi allur sá tími gefist sem hefur liðið síðan hæstv. ráðherra Sturla Böðvarsson gafst upp á því að selja Símann á sínum tíma. Þetta er allt saman sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að á síðasta ári komust ríkisstjórnin og Alþingi í framhaldi af því að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að skilja flutningsnet raforkunnar frá annarri starfsemi á raforkumarkaðnum til að tryggja eðlilega samkeppni eins og það hét. Það er skoðun flutningsmanna þessarar tillögu að svipuð rök hljóti að gilda um grunnnet Símans og grunnnet raforkukerfisins og við kvittum algerlega undir þá niðurstöðu sem menn komust að hvað varðar grunnnet raforkugeirans. Þar á aftur að verða uppstokkun á eignarhaldi en grunnnetið hefur þó verið skilið frá sem skiptir gríðarlega miklu máli.

Nú þegar er ljóst af hræringum á fjarskiptamarkaði að verði grunnnet Símans selt með honum verða til a.m.k. tvö, sumir segja allt að fimm grunnnet í landinu. Ljóst er að slík uppbygging kostar gríðarlega fjármuni og það borgar enginn brúsann nema notendur fjarskiptaþjónustunnar í landinu. Það er því mikið í húfi. Stjórnvöld eru augljóslega á rangri leið í þessu máli en það er mögulegt samt sem áður enn þá að snúa við á þessari braut ef það verður gert áður en menn hefja sölu á hlutum í Landssímanum. Það er full ástæða til að láta reyna á það hvort sá mikli stuðningur sem var á hv. Alþingi við að skilja grunnnet raforkukerfisins frá öðrum rekstri í orkugeiranum er enn til staðar hvað fjarskiptakerfið Símans varðar.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég ætla ekki að gefa upp vonina fyrr en þessi sala hefur farið fram. Alltaf eru nýir liðsmenn að bætast í hóp þeirra sem vilja að grunnnetið verði skilið frá. Síðustu daga, t.d. 27. janúar sl., komu fjarskiptafélögin í landinu, þ.e. Og Vodafone, eMax ehf. ásamt Inter og samtökum aðila sem veita internetþjónustu fram á sjónarsviðið og mótmæltu fyrirhugaðri sölu ríkisins á grunnneti fjarskiptaþjónustu samhliða sölu Símans. Og það er ástæða til að hlusta á þessa aðila. Þeir eru að slást á þessum markaði og munu gera það í framtíðinni. Það er nú þegar farið að reyna á samskiptin milli þessara fyrirtækja og Símans og þau kvarta sárlega undan þeim. Mikil tortryggni er í gangi milli þessara fyrirtækja gagnvart Símanum og það er full ástæða til að halda að sú tortryggni muni ekki hverfa ef ekki verður breyting á þessum hlutum.

Þeir benda á nákvæmlega sömu rök og ég hef hér rakið hvað varðar Landsnetið. Hvers vegna ekki að fara sömu leið og gert var með raforkukerfið? Þeir benda á að Síminn hafi staðið sig mjög illa í þjónustu við þessi fyrirtæki. Þann 29. janúar birtist t.d. frétt í Morgunblaðinu þar sem gerð var grein fyrir því að orðið hafi fimm vikna töf á afgreiðslu á úthlutunum til Og Vodafone frá Póst- og fjarskiptastofnun að hluta til, þar sem þeir eru sem sagt að snúa sér til Póst- og fjarskiptastofnunar og biðja um að hún hlutist til um að Landssíminn afgreiði 90 pantanir af ADSL-tengingum fyrir viðskiptavini Og Vodafone.

Þetta eru ekki fyrstu kvartanirnar sem hafa komið fram um þessi samskipti. Það virðist liggja nokkuð ljóst fyrir að ekki séu tæknileg vandamál til staðar sem séu alla vega ekki vel yfirstíganleg hvað það varðar að skilja grunnnetið frá. Það hefur alla vega ekki verið farið skýrt yfir það í sölum þingsins eða í umfjöllun í samgöngunefnd þingsins.

Ég held að full ástæða sé til þess að kalla nú eftir svörum í sölum Alþingis frá bæði Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum um hverju menn svara þeirri gagnrýni sem er uppi á að ekki skuli vera skilið á milli hvað varðar grunnnet Landssímans og það gert að sérstöku fyrirtæki. Ég er á þeirri skoðun að núna eigi að gera úrslitatilraun til þess að koma mönnum á réttar brautir hvað þetta varðar og að það sé hreint ekki of seint. Ég kalla þess vegna eftir því að talsmenn stjórnarflokkanna mæti hér í umræðuna og geri grein fyrir afstöðu sinni, hvort þeir séu ekki tilbúnir til þess að fara yfir þessi mál upp á nýtt. Það hefur liðið það langur tími og hér hefur komið fram ágætur rökstuðningur fyrir því. Sá rökstuðningur er reyndar fólginn í því að taka undir það sama og við höfum haldið fram langtímum saman, samfylkingarmenn og stjórnarandstaðan í heild, þ.e. að skynsamlegast sé að skilja grunnnet Landssímans frá.

Það er líka orðið alveg ljóst að röksemdir hæstv. ráðherra þessara mála, þ.e. samgönguráðherrans, um að þær reglur sem voru settar á Alþingi tryggi að menn fái alls staðar þessa þjónustu vegna þeirra skilyrða sem voru sett, þ.e. að það verði að þjónusta alla sem koma inn á markaðinn, ganga ekki upp. Fyrirtækin kvarta hástöfum yfir þjónustu Landssímans.

Ætla menn að fara að búa til einhvers konar bákn til þess að fylgja því eftir að Landssími Íslands sinni þeim viðskiptavinum sem eiga að nýta grunnnetið hjá honum? Ég sé ekki fyrir mér að það verði gert. Það er annað sem gerist. Það verða bara til fleiri grunnnet með ærnum kostnaði. Það er niðurstaðan sem menn stefna að með því að halda þessum kúrs til streitu sem ríkisstjórnin hefur sett í þessu máli.



[17:34]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um endurskoðun á sölu Símans, þeirri ákvörðun sem ríkisstjórnin hefði tekið um að selja skuli Símann.

Í tillögunni sem hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur mælt fyrir segir svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að endurskoða fyrirætlanir um sölu Símans með það að markmiði að tryggja eðlilega samkeppni á fjarskiptamarkaði og uppbyggingu á fjarskiptaneti landsins.“

Lögð er áhersla á að grunnnet Símans verði skilið frá öðrum rekstri.

Rétt er að minna á í þessu sambandi að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fluttu einnig tillögu fyrr í haust á þingskjali 4 — það er 4. mál sem skráð var inn til þings í haust — um að stöðvað verði söluferli Landssímans og farið ofan í hvernig staða mála er, endurskoða þetta í heild sinni og kanna hvernig staða mála er í fjarskiptum í landinu og hvernig þeim verði best komið til frambúðar. Það er alveg ljóst að fjarskipti, símaþjónusta, eru hluti grunnalmannaþjónustu sem allir landsmenn eiga að hafa jafnan aðgang að. Þetta er einn af þeim þáttum sem skapa grunn fyrir atvinnulíf, búsetu og samskipti fólks í landinu.

Það var lögð áhersla á það á sínum tíma, í upphafi síðustu aldar, að koma síma um allt land, á alla bæi landsins. Lögðu margir mikið á sig í þeim efnum, bæði hið opinbera og einstaklingar, bændur og jarðeigendur. Ég man eftir því sem krakki að þá var ég að aðstoða við að draga út símastaura og það var allt saman gefins vinna. Þjóðin tók þátt í því. Það var þjóðarátak að koma upp fjarskiptum, símaþjónustu, um allt land.

Svo á allt í einu nú að taka þetta þjóðarátak, allt í einu geta ráðherrar sem eru blindaðir í sínum einkavæðingardraumum ákveðið að taka þennan sameiginlega þjóðarauð, markaðsvæða hann og selja hann. Það er umræða sem við erum búin að taka oft hér og verður aldrei of oft tekin þangað til þetta ferli verður stöðvað.

Sú tillaga sem hér er til umræðu um að endurskoða þetta söluferli allt saman og taka grunnnetið frá er góðra gjalda verð og vert að hún sé skoðuð. Þá flokkar maður hvað er grunnnet og hvað grunnþjónusta. Vegurinn og nauðsynleg þjónusta við þá samgönguæð sem grunnnetið er mundi þá flokkast undir þessa almennu grunnþjónustu.

Við höfum heyrt það síðustu dagana að heyrst hafa varúðarraddir frá einmitt svokölluðum samkeppnisaðilum um að stórhættulegt sé að selja þetta grunnnet, þá grunnþjónustu sem öllum á að standa til boða, bæði neytendum og líka þeim sem vilja bjóða fram þjónustu sína í gegnum þetta grunnnet.

Það er kannski nýtt að það skuli koma hljóð úr þessu horni, einmitt úr samkeppnishorninu, um að ekki séu svo miklar líkur til þess að hér á Íslandi skapist nokkurn tíma það samkeppnisumhverfi að hér hlaupi hver um annan þveran til að ná viðskiptum vítt og breitt um landið á grundvelli samkeppni. Ætli það sé ekki að renna upp fyrir mönnum það ljós að það verði nú aldrei rekið nema í raun eitt símafyrirtæki hér á landi sem getur staðið undir því að geta veitt þjónustu úti um allt land?

Við getum fengið hér nokkur fyrirtæki sem geta fleytt rjómann af viðskiptum á alþéttbýlustu svæðunum. Þau geta komið og rúllað og komið og rúllað, eins og reynslan hefur verið undanfarin ár. Ég veit ekki hvað margar kennitölur eru búnar að koma upp nú á undaförnum fimm árum í fjarskiptamálum á stórþéttbýlissvæðinu. Þær hafa komið og farið, allar saman sprottið upp á grundvelli hugsjóna um frjálsa samkeppni og allar dáið fyrir sömu hugsjón, risið aftur í nýrri kennitölu og dáið aftur. Nú stöndum við því nánast uppi með tvö fyrirtæki. Annað er Og Vodafone sem rann saman úr nokkrum slíkum dánarbúum. Og Vodafone er samansafn af dánarbúum fjarskiptafyrirtækja sem öll voru byggð upp í anda þessarar hugsanlegu frjálsu samkeppni. Öll hafa þau sjálfsagt kostað sitt, sjálfsagt skilað einhverju.

Raunin verður náttúrlega bara sú að hér verður ekki nema eitt fjarskiptanet og fjarskiptakerfi. Hví skyldum við líka vera að byggja upp tvöfalt kerfi út um allt land? Það væri svipað og við færum að bjóða það að byggja vegi og Samskip væri með sinn veg og Eimskip með sinn veg o.s.frv. og svo kæmu sjálfsagt þingmenn með annan veg. Það er sams konar hugsunarháttur á bak við það og að hér væri farið að leggja gagnaflutningsnet og -kerfi um allt land hlið við hlið í mörgum brautum.

Frú forseti. Því er afar brýn ástæða til þess að Alþingi krefji ríkisstjórnina um að taka þetta mál allt saman til endurskoðunar, þ.e. söluferli Símans. Það er nöturlegt að Halldór Ásgrímsson, hæstv. forsætisráðherra, skuli vera formaður einkavæðingarnefndar, formaður þess flokks sem er, eins og komið hefur fram í skoðanakönnunum, hvað mest á móti einkavæðingu Landssímans. Íbúar hinna dreifðu byggða sem margir hafa til þessa stutt Framsóknarflokkinn hafa verið alfarið á móti einkavæðingu Landssímans, á móti einkavæðingu þessara fjarskipta vegna þess að þeir sjá í því að þeirra hagur verði fyrir borð borinn. Og Síminn er nú ekki aldeilis á horleggjunum. Ekki er hann baggi á þjóðinni. Hann er að skila kannski um þrem milljörðum króna í arð á ári. Tveir, þrír milljarðar í tíu ár, arðurinn, er sama upphæð og menn voru að hugsa um að leggja í byggingu sjúkrahúss. Væri ekki nær að nota arðinn af Landssímanum og styrk Landssímans til þess að byggja upp öflugt og gott fjarskiptakerfi í landinu? Það er (Forseti hringir.) okkar hlutverk hér.



[17:42]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að Síminn hefur beitt bæði verðlagningu og tæknilegum hindrunum til þess að koma í veg fyrir að önnur fjarskiptafélög geti boðið upp á nægilega góða þjónustu. Það gildir ekki síst um hinar dreifðu byggðir.

Þetta mál sem hér liggur undir í umræðunni er þess vegna ekki síst landsbyggðarmál. Við þingmenn sem höfum verið iðnir við að fara út á landsbyggðina til þess að tala við fólkið heyrum þetta nánast á hverjum einasta fundi. Menn koma upp og hafa áhyggjur af því að verið sé að skapa tvenns konar samfélag innan hins netvædda heims á Íslandi, þ.e. annars vegar samfélag sem býr við háhraðaþjónustu, hágæðaþjónustu að því er netfjarskipti varðar og hins vegar samfélag úti á landi sem býr við miklu verri kost. Á tímum þegar fjarmenntun, fjarkennsla og hvers konar fjarviðskipti færast í vöxt skiptir þetta mjög miklu máli. Ég geng svo langt, frú forseti, að halda því fram að þetta mál muni skipta sköpum varðandi samkeppnishæfni landsbyggðarinnar.

Ég vil hins vegar í upphafi máls míns, frú forseti, spyrja: Hvar eru hæstv. ráðherrar sem þetta mál varðar? Hvar eru hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. samgönguráðherra? Nú hefur sá þingmaður sem hér stendur ekki lagt í vana sinn að fá ráðherra flutta hreppaflutningum úr ráðuneytum sínum hingað til þess að vera við umræðu. En það er sérstök ástæða fyrir því að ég spyr eftir þessum tveimur hæstv. ráðherrum. Hún felst í því að í gær og í dag hafnaði forseti Alþingis því að þingmaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, fengi að eiga orðastað utan dagskrár um dreifikerfið og uppbyggingu þess við hæstvirta ráðherra. Það var rökstutt með því að þetta mál væri hér í umræðu undir. Þess vegna fyndist mér nú í lagi að þessir ágætu ráðherrar létu sjá sig hér.

Sú tillaga sem hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur mælt fyrir og flytur ásamt öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar er í anda þeirrar stefnu sem Samfylkingin hefur mótað á þessu sviði. Við teljum fullkomlega í lagi að flytja samkeppnisreksturinn sem tilheyrir Símanum yfir á einkamarkað. Við höfum sett það sem algjört skilyrði fyrir stuðningi okkar við það mál að grunnnet Símans yrði áður skilið frá öðrum rekstri og tryggt að eignarhald grunnnetsins verði til framtíðar óháð öðrum fyrirtækjum í fjarskiptaþjónustu.

Ég hóf mál mitt, frú forseti, á að lýsa því yfir að yfirburðir Símans á fjarskiptamarkaði hefðu leitt til þess að hér hefur ekki þróast eðlileg samkeppni. Hin sterka staða Landssímans hefur leitt til þess að smærri fyrirtæki, sem hafa reynt að þróa þjónustu og varning sem tengjast og eru háð fullkomlega ótrufluðum aðgangi að dreifikerfinu, hafa mjög átt í vök að verjast. Staðan er einfaldlega þannig að í dag liggja fjölmargar kvartanir á borði Póst- og fjarskiptastofnunar sökum einokunartilburða Símans. Það er staðreynd að Síminn hefur hreðjatak á þessum markaði eins og er nú þegar. Eigi síðan að einkavæða Símann með manni og mús, dreifikerfinu og öllu saman, óttast ég að það muni leiða til þess að hér verði til gríðarlega sterkt fyrirtæki sem hafi í reynd einokunarstöðu. Það er algjörlega í andstöðu við þá stefnu sem Samfylkingin hefur í þessum efnum. Við viljum sem mest frelsi og óhefta samkeppni en hins vegar liggur ljóst fyrir að ríkisstjórnin fetar í þessu máli slóð sem gengur í þveröfuga átt.

Ríkisstjórnin hefur haldið því fram að þetta mál hafi verið skoðað fyrir fjórum árum og þá hafi niðurstaðan verið sú að það væri tæknilega annmörkum bundið að skilja að grunnnetið og annan rekstur Símans. Í dag hefur tæknin einfaldlega breyst. Það er auðveldara en áður, það auðvelt að meira að segja helstu fjarskiptafyrirtæki sem eiga í keppni víð Símann lýsa því yfir að tæknilega sé ekkert að vanbúnaði að gera það.

Það hlýtur að skipta máli þegar önnur fyrirtæki, eins og Og Vodafone, eMax og samtök þeirra sem selja þjónustu yfir dreifikerfið, taka höndum saman og lýsa því yfir að það komi ekki til greina frá þeirra sjónarhóli að selja dreifikerfið með öðrum hluta Símans. Forsvarsmenn þeirra hafa lýst því yfir að það verði aldrei friður um þá ráðstöfun. Dugar þetta ekki, frú forseti, til þess að ríkisstjórnin staldri a.m.k. við og skoði hvort ekki sé rétt að endurskoða málið? Ég spyr, frú forseti: Hvar eru talsmenn Framsóknarflokksins í þessu máli? Ég spyr sérstaklega um talsmenn Framsóknarflokksins í fjarskiptamálum. Þeir gerðu sig breiða á dögunum þegar menn voru að ræða þessi mál og lýstu því yfir að þeir hefðu það eitt að markmiði að verja samkeppnishæfni landsbyggðarinnar í þessu efni.

Það er alveg ljóst og liggur fyrir, t.d. í yfirlýsingu annarra fjarskiptafyrirtækja og þeirra fyrirtækja sem selja þjónustu m.a. til landsbyggðarinnar, að ef núverandi áætlun ríkisstjórnarinnar verður ekki breytt muni landsbyggðin sitja skör lægra. Meginmarkmiðið á að vera að hér ríki frjáls samkeppni án nokkurra viðskiptahindrana. Það gerist aldrei á meðan Landssíminn hefur þau ofurtök sem hann hefur í dag og á meðan það á líka að tryggja honum slík ofurtök til frambúðar með því að láta grunnnetið fylgja sölu samkeppnishluta Símans.

Samfylkingin hefur því lagt fram tillögu um að endurskoða þessar fyrirætlanir. Grunnur þeirrar endurskoðunar á að vera að skilja dreifikerfi Símans frá öðrum rekstri og tryggja að eignarhaldið verði til framtíðar óháð öðrum fyrirtækjum í fjarskiptaþjónustu.

Það er athyglisvert að nákvæmlega sama fyrirkomulag og við erum hér að leggja til hefur ríkið sjálft tekið upp varðandi raforkumarkaðinn. Það hefur skilið flutningsnet raforkunnar frá annarri starfsemi orkufyrirtækja. Ég rifja upp hver var helsta ástæða ríkisvaldsins til þess að gera það. Það var, frú forseti, til að tryggja eðlilega samkeppni. Ef það þarf að skilja grunnnetið frá á raforkumarkaðnum til þess að tryggja eðlilega samkeppni þá þarf líka að gera það varðandi fjarskipti.

Ég legg til, frú forseti, að þingheimur samþykki þessa tillögu Samfylkingarinnar.



[17:51]
Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það hefur verið nefnt í þeim ræðum sem haldnar hafa verið að eðlilegt sé að talsmenn stjórnarflokkanna mættu í þessa umræðu. Það er ekki eins og að á ferðinni sé eitthvert smámál, þ.e. sala á þessu stóra fyrirtæki okkar landsmanna, Símans. Ég spyr frú forseta hvort það sé líklegt að hæstv. ráðherrar sem hér voru nefndir, t.d. hæstv. samgönguráðherra eða hæstv. forsætisráðherra, verði tiltækir til að mæta í þingsal og ræða þetta mál. Ég heyri að hæstv. forseti hugsar sig um.

Mér finnst þetta mál stærra en svo að hægt sé að smeygja sér fram hjá þeirri umræðu. Hér ættu því að mæta í salinn talsmenn stjórnarflokkanna hvað þessi málefni varðar. Hér er ekki sjáanlegur formaður samgöngunefndar, sem ætti þó að vera hér staddur. Hér er enginn talsmaður Framsóknarflokksins í salnum nema frú forseti, sem ég veit reyndar að er á mælendaskránni og ég fagna því. En frá Sjálfstæðisflokknum hafa menn ekki verið margir mættir. En núna komnir í dyrnar þeir sem hafa líklega forræði í þessu máli, eða hvað?

Ég spyr aftur forseta þingsins hvort við megum eiga von á því að hæstv. samgönguráðherra geti verið hér tiltækur.



[17:53]
Forseti (Jónína Bjartmarz):

Því er til að svara, við ræðu hv. 2. þm. Norðvest., Jóhanns Ársælssonar, að forseti hefur gert þeim aðilum sem hann nefndi til sögunnar viðvart um að þeirra sé óskað, að frátöldum hv. forsætisráðherra sem hefur fjarvistarleyfi í dag og er ekki á landinu.



[17:53]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mér finnast það sanngjörn tilmæli hjá hæstv. forseta að óska eftir því að þeir ráðherrar sem málið varðar komi til umræðunnar. Hér er hins vegar um algjört grundvallaratriði að ræða að því er varðar frjálsa samkeppni og frjáls viðskipti. Hér er líka um grundvallaratriði að ræða hvað varðar stefnu og stefnusamþykktir þessarar ríkisstjórnar. Ég vil fara fram á það, vegna þess að ekki kom fram í svari hæstv. forseta hvort ráðherrarnir mundu koma til fundarins, að þessari umræðu verði frestað þangað til þeir koma. Þá væri eftir atvikum hægt að taka upp til umræðu önnur mál sem eru á dagskrá.



[17:54]
Forseti (Jónína Bjartmarz):

Forseta finnst rétt að taka fram að um leið og hv. þm. Jóhann Ársælsson, 2. þm. Norðvest., óskaði eftir því að talsmenn stjórnarflokkanna á sviði samgöngumála væru hér viðstaddir þá var beiðninni komið á framfæri. Það hefur ekki unnist tími til að fá nokkur viðbrögð frá þeim talsmönnum stjórnarflokkanna sem óskað var eftir.



[17:55]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér er afar merkilegt mál á ferðinni. Ég tel vert að hafa í huga að heimild ríkisstjórnarinnar til sölu á hlutabréfum í Símanum er komin til ára sinna. Forsendur hafa breyst frá því að hún var samþykkt. Reyndar man ég ekki nákvæmlega hvort það eru fjögur eða fimm ár síðan það var. Þá fór allt út um þúfur, sú sölutilraun sem þá var reynd.

En síðan hefur margt breyst. Það er því afar mikilvægt að þessi umræða fari fram og ríkisstjórnin geri grein fyrir þeim aðferðum sem hún ætlar að stunda við sölu á þeim hlutabréfum og hvaða markmiðum hún hyggst ná með sölunni.

Það getur ekki gengið upp að hafna umræðum um fjarskiptanetið og söluaðferðina vegna þess að það mál sé á dagskrá, að hæstv. ráðherrar sem sjá um söluna skuli ekki sitja hér og taka til máls og gera grein fyrir því hvernig þeir hyggist standa að málum.

Þetta er ekki síður alvarlegt sökum þess að á Íslandi gilda engin lög um hvernig ríkiseignir skuli seldar eða með þær farið. Þannig ráða fyrst fremst ákvarðanir ráðherra hverju sinni hvernig að því er staðið auk ákvarðana einkavæðingarnefndar. Í því ljósi, virðulegi forseti, er afar mikilvægt að hæstv. ráðherrar komi og geri grein fyrir sjónarmiðum sínum til þess að Alþingi geti tekist á við þetta mál.

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að taka undir þau sjónarmið sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson setti fram áðan, að það sé ástæða til að fresta umræðunni þar til viðkomandi hæstv. ráðherrar sem óskað hefur verið eftir geta verið viðstaddir. Það er afar mikilvægt að á Alþingi fari fram umræða um þetta stóra mál. Það þarf að vera hægt að skiptast á skoðunum við forustumenn ríkisstjórnarinnar. Það getur ekki gengið að þingmenn stjórnarandstöðunnar tali út í tómið og við sjálfa sig. Það mun ekki tryggja að fram komi sú aðferð sem ríkisstjórnin hyggst styðjast við þegar og ef til sölunnar kemur.



[17:58]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það er óneitanlega sérkennilegt að ræða mikilsverð stefnumál eins og það sem hér er til umfjöllunar án þess að þeir sem með þessi mál fara af hálfu ríkisstjórnarinnar séu í þingsal og gefi því gaum sem hér er sagt og án þess að formenn þeirra nefnda sem eiga eftir að fjalla um málið láti svo lítið að sitja í þingsalnum og hlusta á þau rök sem fram eru borin. Mér sýnist þetta orðin lenska í þingsalnum að þeir aðilar láti sig vanta og finnist með einhverjum hætti fyrir neðan sína virðingu að eiga einhver orðaskipti við stjórnarandstöðuna í þingsölum. Mér finnst ansi illa komið fyrir þinginu ef menn mega búa við það af hálfu stjórnarsinna.

Varðandi málið sem hér er mælt fyrir, þingsályktunartillögu um endurskoðun á sölu Símans, þá tel ég um mjög brýnt mál að ræða og tímabært. Ég tel mikilvægt að Alþingi og ríkisstjórn taki á þessu máli hið fyrsta. Eins og hér hefur komið fram var mörkuð sú stefna fyrir allnokkrum árum síðan að stefna að sölu Símans. Það ferli var hafið þótt því hafi ekki verið lokið. Þá virðist ríkisstjórnin hafa markað sér þá stefnu að selja fyrirtækið í einu lagi, þ.e. bæði virðisaukandi þjónustu og fjarskiptaþjónustu Símans og hins vegar grunnnetið líka. Því andmælti m.a. Samfylkingin.

Nú kann vel að vera að menn hafi á þeim tíma einhverra hluta vegna talið að það væri skynsamleg leið að fara en ég held að allir hugsandi menn hljóti að sjá það í dag að sú leið er kannski hvað verst ef til sölu Símans kemur. Ég er næstum því sannfærð um að ef menn töluðu saman um málið og færu vel yfir það væri hægt að ná um það pólitískri samstöðu að fara ekki þá leið að selja grunnnetið með fjarskiptaþjónustu Símans eða þeirri virðisaukandi þjónustu sem Síminn er með á sínum snærum.

Þetta segi ég vegna þess að ef svo fer fram sem horfir er veruleg hætta á því að fólk lokist inni í tveimur mismunandi kerfum, annars vegar í fjarskiptakerfi hjá Símanum og hins vegar hjá Og Vodafone og þeim fyrirtækjum sem því tengjast og til verði mismunandi „vöndlar“ eins og kallaðir eru, heildstæð þjónusta sem boðin er hjá hvorum aðila fyrir sig og engir gagnvegir verði þar á milli og fólk lokist inni í öðru hvoru kerfinu og nýir aðilar sem vilja komast inn í annaðhvort að selja þjónustu eða framleiða efni og dreifa því komist ekki inn á markaðinn, það verði engin nýliðun á þessu sviði eins og svo mikilvægt er.

Nú er staðan sú að verið er að dreifa efni og upplýsingum, kannski fyrst og fremst efni en reyndar upplýsingum líka, í gegnum fjögur mismunandi kerfi. Það er í fyrsta lagi breiðband Símans og ADSL-tengingin sem Síminn hefur, koparinn hjá Símanum. Þar er verið að dreifa efni og þar þarf að fjárfesta verulega til þess að það kerfi fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru, bæði í grunnkerfinu og eins í móttökubúnaði og aðgangsstýringu sem þarf að vera hjá hverjum og einum sem tekur við þeim gögnum sem send eru eða því efni sem sent er í gegnum kerfið. Í öðru lagi erum við með Norðurljós eða Digital Ísland og örbylgjuna, það er dreifikerfi fyrir stafrænt sjónvarp í eigu þeirrar samsteypu. Í þriðja lagi erum við með Íslandsmiðil á vegum Landsvirkjunar sem dreifir efni með jarðbundnum gervihnattasendi og í fjórða lagi er Orkuveita Reykjavíkur að fjárfesta í ljósleiðara.

Það eru fjórir aðilar að fjárfesta í mismunandi dreifikerfum og eru í samkeppni um viðskiptavinina. Allir ætla sér að fjárfesta í grunnneti, allir ætla að fjárfesta í móttökubúnaði og hverjir borga svo brúsann þegar upp er staðið? Það eru auðvitað neytendur.

Þrír af þessum fjórum aðilum eru opinberir aðilar, Síminn, Íslandsmiðill á vegum Landsvirkjunar og Orkuveita Reykjavíkur. Þetta eru opinber fyrirtæki sem þarna eiga hlut að máli og eru að fjárfesta bæði í dreifikerfum og móttökubúnaði. Ég held því að áður en menn stíga það óheillaspor að selja Símann úr eigu ríkisins með grunnnetinu ættu menn að fara mjög vandlega yfir það hvort ekki er hægt að sameinast í einu fyrirtæki, einu landsneti eins og í raforkukerfinu, að það verði eitt landskerfi sem allir þessir aðilar gætu áttu hlut í og hægt væri að nota mismunandi útfærslur eftir því sem hentaði á hverjum stað. Það er nefnilega ekki víst að það henti alls staðar það sama.

Við vitum að það verður ekki lagður ljósleiðari í allar byggðir landsins. Í þeim tilvikum er hægt að nota Íslandsmiðilinn eða dreifinguna með jarðbundnum gervihnattasendum eins og Landsvirkjun er með og í einhverjum tilvikum er hægt að nota koparinn o.s.frv. Það er því hægt að búa til mismunandi möguleika á því að dreifa efni, gögnum og upplýsingum eftir háhraðatengingum til landsins alls. Þetta opnar á möguleikann á þessu og sparar fjárfestingu í dýru grunnneti og dýrum og mismunandi móttökubúnaði. Ef hægt er að spara í því er auðvitað hægt að nota þá fjármuni í að tryggja að landið allt hafi aðgang að háhraðatengingu, því eins og fram kom í máli þeirra sem á undan töluðu skiptir það sköpum. Það skiptir sköpum fyrir byggð í landinu að aðgangur að þessari upplýsingahraðbraut, sem er háhraðatenging, verði greið hvar sem menn búa á landinu. Þetta er algjört grundvallaratriði fyrir byggð í landinu að menn hafi aðgang að háhraðatengingum. Það er hægt að fjárfesta í því í þágu landsmanna allra ef menn verja ekki milljörðum á milljarða ofan til þess að fjárfesta í grunnneti þar sem keppnin er mest eins og á höfuðborgarsvæðinu.

Hættan sem ég held að sé kannski mest núna er sú að menn lokist inni í mismunandi dreifiveitum og það verði ekki nýliðun í greininni ef svo heldur fram sem horfir.

Virðulegi forseti. Ég hefði viljað tala talsvert lengra mál um þetta en ég sé að tíma mínum er að ljúka, en ég kem kannski aftur og ræði um þetta vegna þess að ég held að það sé ekki of seint að fara í þessa aðgerð. Það er ekki of seint en tíminn er að renna frá okkur. Tíminn er að renna frá okkur og það var samin um þetta sérstök greinargerð fyrir samgönguráðuneytið í apríl 2003. Þar var lagt til að þessi leið (Forseti hringir.) yrði farin og ég held að menn ættu að dusta rykið af þeirri greinargerð og fara út í þær aðgerðir sem þar voru lagðar til.



[18:06]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Verið að ræða ákaflega mikilvægt mál. Það liggur auðvitað fyrir eftir margar innkomur í umræðu um þessi mál að við í Frjálslynda flokknum höfum ekki viljað fara þá leið að selja grunnnetið með Símanum og styðjum þar af leiðandi heils hugar þá tillögu sem verið er að ræða. Við höfum talið mikið glapræði að ætla að aðhafast það að selja Símann í heilu lagi með grunnnetinu og þeim möguleikum sem þar felast. Það mundi einnig koma í veg fyrir að Íslendingar hvar sem væri á landinu fengju bestu þjónustu sem völ væri á, að þeim væri tryggður aðgangur að góðu fjarskiptakerfi, að þeim væri tryggður aðgangur að háhraðatengingum og að allir landsmenn sætu þar við sama borð.

Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir minntist á skýrsluna sem Jafet Ólafsson var formaður fyrir og var unnin fyrir samgönguráðuneytið, sem lagði upp með þá leið að reynt skyldi að koma á neti háhraðatengingar sem allir landsmenn hefðu aðgang að. Það er algjörlega rétt að á það var bent að til þess þyrfti að grípa því ella væri hætta á því eins og hv. síðasti ræðumaður lýsti að við færum í þrjár til fjórar útfærslur á dreifikerfi og lokuðumst inni í þeim skápum sem við keyptum aðgang að hverju sinni.

Ég hef komið að því nýlega í ræðustól að það væri ekki björt framtíð fyrir Íslendinga að þurfa að vera í viðskiptum og nánast lokast af við þann eina viðskiptaaðila sem þeir keyptu þjónustu af, hvort sem það væri í háhraðatengingunum, í aðgangi að sjónvarpi eða í aðgangi að símaþjónustu og ættu ekki kost á því nema með verulegum viðbótarkostnaði að hafa aðgang að eðlilegum nútímamáta varðandi fjarskipti hjá öðrum. Ég held að mesta hættan felist í því. Það er mikill hraði á þeirri tækni sem við erum almennt að tala um, tengingunum og háhraðatengingunum, og menn eru að fjárfesta í þessum kerfum.

Ég held að það sé algjörlega rétt sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vék að áðan og ég hef áður komið að í þessum ræðustól að það gæti farið svo að Íslendingar ættu aðgang að dýrustu þjónustu á norðurhveli jarðar vegna þess að við værum að koma okkur upp tveim til fjórum kerfum og allir þyrftu að fá kostnaðinn fyrir þeim til baka því það borgar jú enginn þetta nema neytendurnir þegar upp er staðið og kostnaðurinn þyrfti að koma til baka með því að verðleggja þjónustuna til íslenskra neytenda.

Ég held að þetta sé mönnum orðið algjörlega ljóst. Ég veit ekki nákvæmlega hvar mistökin liggja í því að þessi stefnumótun, sem ég tók þannig að samgönguráðuneytið hefði tekið undir á sínum tíma, er í þeim farvegi sem hún virðist vera, að menn stefna hver í sína áttina.

Ég er helst á því að menn hafi hálfpartinn misst þetta frá sér vegna þess að Póst- og fjarskiptastofnun úthlutaði Stöð 2 á sínum tíma 16 örbylgjurásum sem varð til þess að þeir fóru á fulla ferð í það dreifikerfi og með nýja myndlykla o.s.frv.

Einnig er algjörlega ljóst og hefur m.a. komið fram í viðtölum við forsvarsmenn í Og Vodafone að þeir eru ósáttir við samskiptin við Landssímann og aðgengið þar að og að ekki sé verið að tryggja jafna samkeppnisstöðu. Markmiðið sem lagt er upp með í þessari tillögu er að tryggja eðlilega samkeppni á fjarskiptamarkaði og uppbyggingu á fjarskiptaneti landsins og að grunnnet Símans verði skilið frá við sölu Símans. Ég held að það sé alveg bráðnauðsynlegt í þessari stöðu að menn taki þá pólitísku ákvörðun að grunnnet Símans verði ekki selt með Símanum. Það held ég að sé bráðnauðsynlegt að gera og ég vonast til þess að íslensk stjórnvöld, þ.e. þeir sem nú ráða, ríkisstjórnin, séu þó það vel tengd og upplýst að þau sjái að sú stefnumótun sem lagt var upp með á sínum tíma, að selja Símann ásamt dreifikerfinu, fær ekki staðist miðað við hagsmuni þjóðarinnar til næstu framtíðar. Þess vegna ber auðvitað að breyta þeirri ákvörðun og undanskilja grunnnetið sem allra fyrst frá hugsanlegri sölu á Landssímanum.

Þar með held ég að upp komi sú staða að hægt sé að leita leiða til að búa til sameiginlegt fyrirtæki þar sem öll fyrirtækin sjá hag í því að vera með eitt dreifikerfi og eiga aðgang að því hvernig sem eignarhaldið á því verður. Ég gæti alveg hugsað mér að eignarhaldið á dreifikerfinu væri þannig, a.m.k. til að byrja með, að ríkið ætti stóran hlut þó að aðrir aðilar kæmu þar að en yfir þetta yrði síðan sett sérstök stjórn. Það verður svo að ráðast þegar fram í sækir hvort menn vilja selja hlut í því dreifikerfi til annarra en ég held að þetta sé alveg bráðnauðsynlegt mál að vinna að.

Ef allt um þrýtur tel ég að það yrði hreinlega að fara þá leið sem við fórum í raforkulögunum, að stofna sérfyrirtæki í eigu íslenska ríkisins, í eigu allra Íslendinga, sem ætti það dreifikerfi sem Síminn hefur nú. Opnaður verði alger aðgangur og allir eigi aðgang þar að og reyna verði þá á það hvort þeir aðilar sem eru að leggja út sín nýju dreifikerfi sjái ekki hag í því að versla við það fyrirtæki ef boðinn væri aðgangur með eðlilegum viðskiptakjörum og eðlilegri þjónustu, því það er jú það sem við viljum öll fá og er auðvitað líka það sem íslenska þjóðin vill fá og á rétt á. Við, hv. alþingismenn, eigum að sjá til þess að Íslendingar verði ekki að kaupa dýrustu fjarskiptaþjónustu sem þekkist á norðurhveli jarðar í framtíðinni.



[18:15]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langaði að leggja nokkur orð í belg hvað varðar umræðuna um sölu Símans. Eins og ég kom að, og fleiri hv. þingmenn í umræðunni áðan, þykir mér miður að fulltrúar og forustumenn ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna skuli ekki taka þátt í umræðunni því að hér er um mikið stórmál að ræða. Reyndar er það svo að þau lög sem gilda um sölu ríkisins á hlutafé í Landssímanum eru frá árinu 2001 þannig að umræðan á þinginu hefur ekki verið mikil um þessa aðferðafræði frá því að lögin voru samþykkt en þar heimilaði Alþingi að selja allt hlutafé Símans.

Frá þeim tíma hefur margt breyst, tækninni hefur fleygt fram og í dag er fullyrt að þeir tæknilegu örðugleikar sem menn báru fyrir sig á sínum tíma um að aðskilja grunnnetið séu ekki lengur til staðar. Forsendur og allt umhverfi hvað þetta varðar er breytt og því full ástæða til að ræða þessa hluti og mikilvægt að skiptast á skoðunum um málið því þetta er alveg gríðarlega stórt mál. Það skiptir miklu fyrir allan almenning í landinu og það skiptir miklu máli fyrir lífsgæði fólks hér á landi.

Ég held að enginn velkist í vafa um að fyrir lífsgæði fólks, einkanlega á landsbyggðinni, mun skipta miklu máli hvernig þessu máli vindur fram. Ef málið fer í þann farveg að fyrirtækið verður selt í einu lagi og þau sjónarmið verða uppi í fyrirtækinu að litlar sem engar fjárfestingar verði á þeim svæðum þar sem fólk er færra þá er alveg ljóst að lífsgæði þess fólks, umhverfi þess fólks mun versna borið saman við lífskjör annars staðar. Fjarskipti eru orðin svo stór þáttur í öllu daglegu lífi fólks og við sjáum það m.a. bara á hinu háa Alþingi að hér er varla nokkur þingmaður sem ekki er með farsímann á sér hvert sem hann fer. Þetta skiptir því allan almenning í landinu miklu máli.

Þess vegna finnst mér nauðsynlegt, virðulegi forseti, að svara þeim grundvallarspurningum sem mér finnst ekki hafa fengist svör við frá ríkisstjórnarmeirihlutanum eða fulltrúum hans: Hvert er meginmarkmiðið með sölu Símans? Er það fyrst og fremst að styrkja ríkissjóð? Er það fyrst og fremst að kalla eftir peningum í ríkissjóð svo hægt sé að nota þá fjármuni í eitthvað annað? Eða er verið að horfa til þess að þróun á fjarskiptamarkaði taki stórstígum framförum og það sé líklegra að það gerist undir forustu einkaaðila en ríkisins? Þetta finnast mér vera grundvallarspurningar sem nauðsynlegt er að takast á við.

Það verður vitaskuld fátt um svör ef enginn úr stjórnarliðinu tekur þátt í umræðunni og ekki síst sökum þess að Alþingi hefur í reynd enga aðkomu að málinu lengur nema í því að reyna að kalla eftir umræðu. Það er búið að víkja frá eða hafna beiðni um umræðu utan dagskrár um mál af þessum toga vegna þess að þetta mál er á dagskrá en það skilar vissulega ekki hinu sama ef við fáum ekki þessa umræðu upp í þessu öllu saman.

Virðulegi forseti. Þó að ég sé oft og tíðum á öndverðum meiði við hv. þm. Jón Bjarnason þá benti hann á ákveðin atriði sem vissulega skipta máli í þessari umræðu. Hv. þingmaður benti á að uppbygging alls dreifikerfisins var á sínum tíma að hluta til einhvers konar þjóðarátak. Það er þannig að sá sem hefur aðgang eða hefur umráð og yfirráð yfir grunnneti Símans hefur aðgang að nánast öllum heimilum í landinu. Það eru gríðarleg verðmæti að hafa aðgang að öllum heimilum landsins og í þeirri miklu og öru þróun sem á sér stað á fjarskiptamarkaði og á sér stað í tækninni hvað þetta varðar er ég sannfærður um að í því felast alveg ofboðsleg verðmæti.

Sú mikla þróun sem einnig hefur átt sér stað hvað varðar að þróa koparinn sem liggur inn á hvert einasta heimili, nýta hann betur með bættum endabúnaði, gerir það að verkum að hægt er að senda miklu meira yfir þennan kopar, miklu meira af upplýsingum og miklu meira en menn gerðu ráð fyrir á sínum tíma þegar þessi umræða fór fram árin 2000 og 2001. Svo ör er þessi þróun.

Þess vegna verð ég að segja það, virðulegi forseti, að við þurfum að taka þessa umræðu upp á nýjan leik. Við verðum að viðurkenna að þó að við á einhverjum tíma höfum uppi tiltekna skoðun og teljum hana rétta, kann tíminn að breyta svo miklu að við verðum að vera tilbúin að endurskoða okkur. Ég er sannfærður um að þróun á samskiptamarkaði, og væntanlega um leið þróun í því að skapa almenningi í landinu lífsgæði, yrði betri og örari ef við skildum að grunnnetið og samkeppnisreksturinn. Ég held einnig, eins og hér hefur verið dregið fram með mjög skýrum hætti í þessari umræðu, að við værum þá ekki að ráðast í „óþarfar“ fjárfestingar. Svíar hafa til að mynda lent í því að fjárfesta í fleiri grunnnetum en þeir kannski ella þyrftu og það má segja sem svo að með því móti værum við ekki að nýta fjármunina sem skyldi. Það er því mikilvægt að þingið taki upplýsta og stefnumótandi ákvörðun um hvernig það vilji sjá þessa þróun.

Ég er alveg sannfærður um það og ætla svo sem ekkert að tala um það hér og nú hvernig Síminn hefur hegðað sér á samkeppnismarkaði — ég efast um að nokkurt fyrirtæki eigi fleiri úrskurði hjá samkeppnisyfirvöldum en Síminn og ég ætla ekki að fara að draga það fram hér — en ég vil líka leyfa mér að fullyrða að einkavædd einokun er ekki betri en ríkisrekin einokun. (JBjarn: Miklu, miklu verri, ekki líkja því saman.) Og miklu verri kallar hv. þm. Jón Bjarnason fram í, sem flutti hér ágæta tölu um eitt fyrirtæki, eitt land og einn flokk í ræðu sinni. En ég er alveg sannfærður um að það mun ekki færa okkur fram þau skref sem við viljum sjá. Þess vegna sakna ég þess mjög í þessari umræðu, þó að ég viðurkenni fúslega að mér finnist ekki alltaf ríkisstjórnarflokkarnir leggja mikið inn í umræðuna, að heyra ekki þau sjónarmið sem þeir standa fyrir í þessu máli, einkanlega vegna þess að á Íslandi gilda engin lög um það hvernig selja eigi ríkisfyrirtæki eða ríkiseignir. Þar af leiðandi hefur Alþingi mjög takmarkaða (Forseti hringir.) möguleika á því að koma að þessu máli eins og staðan er nú, virðulegi forseti.



[18:23]Útbýting:

[18:24]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson talaði mjög hóflega hér áðan og þess vegna liggur kannski ekki beinast við að beina andsvari mínu til hans. Hins vegar sló það mig mjög í umræðunni áðan — af því að ég var að reyna að glöggva mig á málinu og hver fyrirætlun Samfylkingarinnar væri með þessu máli — þau stóru orð sem aðrir flokksmenn Samfylkingarinnar höfðu hér uppi, til að mynda staðhæfingar um það, án þess að ég nefni nokkra sérstaka þingmenn, að Síminn hefði hreðjatak á samkeppnisaðilum sínum og hann beitti bæði tæknilegum hindrunum og hindrunum með verðlagningu.

Það er náttúrlega alveg ljóst að Síminn hefur ráðið yfir grunnnetinu en með fjarskiptalögunum á að vera tryggt að Síminn hleypi hindrunarlaust öllum samkeppnisaðilum sínum um samkeppnisreksturinn inn á grunnnetið. Og vegna þessara stóru staðhæfinga leikur mér forvitni á að vita, af því líka að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hélt því fram að ekkert fyrirtæki ætti jafnmörg mál hjá Samkeppnisstofnun, hversu mörg af þessum málum hafi verið úrskurðuð Símanum í vil, og það sem skiptir máli varðandi ætlaðar hindranir, hversu mörg mál þetta fyrirtæki á hjá Póst- og fjarskiptastofnun, af því að allt sem varðar hindranir í aðgangi að grunnnetinu heyrir undir þá stofnun.

Ég leyfi mér því að beina þessari spurningu til hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar: Hversu mörg mál eru þetta? Af því að þingmenn Samfylkingarinnar hafa ekki borið annað fyrir sig en fréttaflutningi frá samkeppnisaðilum Símans.



[18:26]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að sá sem hér stendur sé mikill áhugamaður um heiðarlega og öfluga samkeppni verð ég að játa að ég er ekki með þær tölulegu staðreyndir á hreinu um hversu mörg mál hefur verið úrskurðað hjá Samkeppnisstofnun og Póst- og fjarskiptastofnun frá því að þessar stofnanir voru settar á laggirnar. Hins vegar tel ég mig muna það rétt að elstu málin séu frá árunum sennilega 1995 og 1996, og síðan hefur því verið haldið fram af samkeppnisaðilum Símans að beitt hafi verið tæknilegum viðskiptahindrunum með skipulegum hætti til þess að koma í veg fyrir að önnur fyrirtæki njóti sama aðgangs að almenningi og Síminn hefur.

Á hinn bóginn væri mér það bæði ljúft og skylt að afla þessara upplýsinga þar sem ég hef þær ekki í handraðanum. En ég veit að þetta eru mörg mál og ég veit að mörg þeirra hafa gengið og gengu sérstaklega Símanum í mót á síðari hluta tíunda áratugarins. Ég þekkti þessa sögu kannski örlítið betur þá en ég geri í dag.

Það er hins vegar alveg ljóst og það er ekkert „óeðlilegt“ við það að Síminn reyni að tryggja stöðu sína og noti þau tæki sem hann hefur til þess. Það reynir hvert einasta fyrirtæki að tryggja sinn hag eins og kostur er. Af þeim sökum er óeðlilegt að einhver aðili eða eitthvert fyrirtæki hafi þá stöðu að aðrir þurfi að koma á hnjánum til þess að hafa þann aðgang sem aðrir hafa til þess að tryggja jafna samkeppnisstöðu. (Forseti hringir.) Það er lykilatriði.



[18:28]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Það kemur í ljós að til grundvallar öllum stóru orðunum hér úr ræðustól frá þingmönnum Samfylkingarinnar um aðgangshindranir, að Landssíminn beiti hindrunum, bæði tæknilegum og með verðlagningu til að koma í veg fyrir samkeppni, stendur í rauninni ekkert á bak við. Þetta eru ekkert annað en sögusagnir. Mér finnst alveg lágmark að til grundvallar svona stórum staðhæfingum liggi einhverjar upplýsingar, að menn byggi mál sitt hér á einhverjum rökum og á einhverjum gögnum sem þeir geta vísað til.

Hér hafa mörg stór orð verið sögð, að Síminn standi sig illa gagnvart öðrum fyrirtækjum, hann hafi hreðjatak o.s.frv. En ég vek athygli á því að í skrifuðum texta ályktunarinnar sjálfrar segir að yfirburðir Símans á fjarskiptamarkaði hljóti að fela í sér verulegan vanda. Hver hefur nokkurn tíma sagt að það sé bara ljótt út af fyrir sig að vera myndarlegur? Þetta er spurningin um hvort Síminn er einhvers staðar að misnota aðstöðu sína. Ég minni hv. þm. Lúðvík Bergvinsson á að fjarskiptalögin áttu að tryggja að það væru engar aðgangshindranir og úrskurðaraðilinn í þessum málum er Póst- og fjarskiptastofnun.

Frú forseti. Nóg um þetta. Í tillögunni er gert ráð fyrir að grunnnet Símans sé skilið frá öðrum rekstri og tryggt að eignarhald þess verði til framtíðar óháð öðrum fyrirtækjum í fjarskiptaþjónustu. Nú langar mig að spyrja hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hvað hann ætli, og Samfylkingin, flutningsmenn tillögunnar, að gera við önnur grunnnet sem byggð hafa verið upp því undir það get ég tekið í málflutningi hv. þingmanns að er þjóðhagslega óhagkvæmt. Hvað ætlið þið að gera við önnur fyrirtæki og þetta óháð öðrum fyrirtækjum? Vill Samfylkingin að það sé áfram rekið af ríkinu eða á það að vera sérstakt einkafyrirtæki sem rekur grunnnetið? Það er því ljóst að þessi tillaga til þingsályktunar kallar í rauninni fram fleiri spurningar en hún nokkurn tíma svarar.



[18:30]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikill er máttur eftirlitsstofnana. Hv. þingmaður orðaði það einhvern veginn á þá leið að eftirlitsaðilar ættu að sjá til að hér yrðu engin lögbrot framin. Samkeppnisstofnun hefur starfað frá árinu 1994. Þó var uppi verðsamráð í olíumálum allan þann tíma. Tilvist þessara stofnana tryggir ekki að brot séu ekki framin. Hins vegar hafa þau það hlutverk að hafa eftirlit og reyna með því að koma í veg fyrir að brot séu framin. Við viljum gjarnan búa til umhverfi til að reyna að tryggja að þessi brot séu ekki framin. Það er okkar framlag í þessu máli.

Það eru mýmargir úrskurðir til um að Síminn hafi í gegnum tíðina brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni er mér bæði ljúft og skylt að útvega hv. þingmanni þá úrskurði.

Í umræðunni hefur verið bent á að samkeppnisaðilar á þessum markaði kvarta hástöfum yfir því að fá ekki þann aðgang sem lög kveða á um. Hv. þingmaður segir að ef við höfum ekki skýr dæmi þá verðum við að sanna það. Hún segir einfaldlega að fylgi ekki frekari sannanir en orð þessara aðila þá sé ekkert að marka þá gagnrýni. Ég vil mótmæla því.

Við eigum að skilja við þetta mál á þann veg að ekki séu fyrir hendi aðstæður fyrir fyrirtæki til að komast í einokunaraðstöðu. Það er kjarninn (Forseti hringir.) í okkar máli við þessa umræðu, virðulegi forseti.



[18:33]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég heyrði ekki betur en að dregið væri í efa að Síminn hefði ekki alltaf farið rétt að í samkeppnismálum. Ég hef hins vegar undir höndum bréf frá Inter, sem eru samtök fyrirtækja sem veita Símanum samkeppni. Ég hef fylgst náið með þrautagöngu þeirra við að ná fram rétti sínum gegn risanum á markaðnum, Símanum. Það er í raun með ólíkindum og lýsir sérkennilegum viðhorfum að þingmaður úr Framsóknarflokknum, sem ber ábyrgð á fjárskorti Samkeppnisstofnunar og því verklagi sem þar tíðkast, skuli láta eins og allt sé í himnalagi hvað þessa samkeppni varðar. Ég gæti rakið fjölmörg dæmi um annað.

En ég ætla að grípa hér niður í bréf frá ritara Inter. Þar segir að árið 2004 hafi málsmeðferðartími að meðaltali verið rúmir 16 mánuðir hjá Samkeppnisstofnun, til að ná fram úrskurði um kvörtun. Þegar loksins tókst að fá botn í málið var tilboðið sem var kvartað yfir, sem Síminn hafði að öllum líkindum boðið ólöglega, runnið út og sá úrskurður sem Samkeppnisstofnun, undir stjórn hæstv. viðskiptaráðherra sem ber ábyrgð á þessu sleifarlagi, hafði ekkert að segja.

Það er einnig athyglisvert, í allri umræðunni um Samkeppnisstofnun og samkeppnislög, um grunnnetið og hvernig eigi að selja Símann, að Framsóknarflokkurinn dregur vagninn í umræðunni. Skoðanakannanir segja að flokksmenn Framsóknar séu mótfallnir þessari sölu. Ég veit ekki hvað hv. þingmönnum Framsóknarflokksins gengur til, annað en að þjóna Sjálfstæðisflokknum í þessu máli. Það kom fram í umræðunni fyrr í dag að Sjálfstæðisflokkurinn er greinilega ekki á því að byggja upp heiðarlega viðskiptahætti. Þingmenn flokksins sáu mikla galla á því hvað varðar fisksölu og aðskilnað veiða og vinnslu. Framsóknarflokkurinn tók ekki þátt í þeirri umræðu og virtist þjóna Sjálfstæðisflokknum þar og það er með ólíkindum. Ég tel að framsóknarmenn ættu að huga að því hvort almennur vilji flokksmanna birtist í þeirri stefnu sem þeir framfylgja eða hvort þar ráði aðeins þjónkun B-deildarinnar við A-deild Sjálfstæðisflokksins.

Það er staðreynd að þeir sem ráða munu yfir grunnnetinu munu komast í einokunaraðstöðu. Það þýðir ekki að horfa fram hjá því. Menn hafa t.d. aðra stefnu þegar kemur að flutningi á raforku. Þá er ákveðið að hafa flutningskerfið sér. En þegar kemur að kerfi sem á að flytja gögn og veita fyrirtæki einokunaraðstöðu við slíka flutninga horfir málið allt í einu öðruvísi við. Þá á ekki að vera sérbókhald eða aðskilnaður þar á milli.

Auðvitað eiga menn að skoða málið og reyna að tryggja samkeppni á þessu sviði eins og öðrum. Það er í raun furðulegt að horfa upp á að menn vilji selja Símann í einu lagi með grunnnetinu og þeirri þjónustu sem rekin er í samkeppni. Hvað gengur mönnum til? Það hefur aldrei komið fram, ekki hjá hæstv. ráðherrum. Þeir sjá ekki sóma sinn í því að vera viðstaddir umræðuna og útskýra mál sitt.

Nú er það svo að ég hef a.m.k. í tvígang gengið eftir því að hæstv. fjármálaráðherra svaraði fyrir það fyrirtæki sem hann ber ábyrgð á. Ég hef ítrekað spurt hann út í það hvort hann hafi gengið úr skugga um það að fyrirtæki sem hann ber ábyrgð á fari að samkeppnislögum. Svarið var í bæði skiptin með ólíkindum. Hann hefur ekki gengið úr skugga um hvort þar sé farið að landslögum. Nei, svarið er eitthvað á þá leið að hæstv. ráðherra sé ekki kunnugt um hvort fyrirtækið hafi farið að landslögum. Er ekki metnaðurinn meiri en svo að ráðherra sjái ekki ástæðu til að ganga úr skugga um að ríkisfyrirtæki í samkeppni við einkafyrirtæki fari að landslögum í samkeppnismálum? Mér finnst það undarlegt.



[18:39]
Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Í ræðu hv. þingmanns kom fram að hann furðaði sig mjög á stöðu mála varðandi samkeppnismál hjá Símanum. Hið sama hefur komið fram í máli fleiri þingmanna í kvöld. Hv. þingmenn hafa verið spurðir: Hve mörg kærumál liggja hjá Póst- og fjarskiptastofnun og hver er staðan almennt varðandi internetþjónustu sem veitt er af öðrum fyrirtækjum en Símanum? En þeir hafa ekki getað gefið nein svör.

Ég verð að segja að þetta mál er dálítið sérkennilega sett fram. Ég skil háttvirtan 1. flutningsmann málsins, hið prentaða mál, þegar hann las upp úr textanum og fór yfir efni tillögunnar. Síðan koma aðrir þingmenn með allt aðrar meiningar. En þeir geta ekki sagt hvað þeir eru í raun að þrasa um.

Í ljós kemur að eitt slíkt mál liggur hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Um það standa deilur en ekki alvarlegar. Sé litið til annarra aðila en Símans hver er þá staðan þar á háhraðanetinu? 48% þeirra sem nota netið fá þá þjónustu hjá öðrum en Símanum. Síminn hefur látið tæpan helming háhraðatenginganna til samkeppnisaðilanna.

Ég er sannfærður um að sala Símans muni stuðla enn frekar að betri þróun, eins og hraðinn hefur verið á þessu máli hjá okkur Íslendingum. Í málum sem þessum tökum við aldrei fet heldur tökum við þau í stökkum. Með lögum þeim sem við settum um fjarskipti hefur verið komið í veg fyrir að eitt fyrirtæki geti misnotað aðstöðu sína. Það er mergurinn málsins.



[18:41]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott ef ég hef vakið hv. þingmann til umhugsunar um þessi mál. Ég hef fylgst náið með samkeppnismálum á fjarskiptamarkaði. Þeir sem keppa við Símann, t.d. í Skagafirði þar sem ég hef rætt við menn um málið, hafa kvartað sáran undan stöðunni. Ég hef hér bréf frá Inter sem ég gæti lesið úr. Þeir hafa sent inn erindi til Samkeppnisstofnunar um það hve langan tíma tekur að fá niðurstöðu í mál. Ég tel að það væri sómi af því að tryggja samkeppnina. Ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn vakni til þess verks með okkur í Frjálslynda flokknum og öðrum flokkum að tryggja samkeppni á þessum markaði og einnig að Samkeppnisstofnun vinni verk sín þannig að það taki ekki 16 mánuði að fá niðurstöðu í mál.

Hv. formaður samgöngunefndar talaði um kvartanir til Póst- og fjarskiptastofnunar en mig minnir að þegar frumvarpið varðandi þá stofnun var samþykkt — ég var reyndar ekki á þingi þá en kynnti mér engu að síður málið — hafi einmitt verið rætt um að fjölga starfsmönnum sem sinntu þessum málaflokki. Mér skilst að það hafi ekki verið gert. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann hafi fylgt því eftir.



[18:43]
Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur komið í ljós að lög sem sett voru um fjarskipti hafa virkað. Hitt er annað mál að mér er ekki kunnugt um hversu mikil fjölgun starfsmanna hefur verið hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Það er dálítið merkilegt ef hv. þingmaður hefur upplýsingar um að fleiri mánuði taki fyrir aðila úti á landi að fá úrskurð í málum sem lögð eru fyrir þá stofnun þá kemur það mér verulega á óvart í ljósi þess að þar liggur aðeins eitt kvörtunarmál fyrir. Þá má a.m.k. ætla að þar sé hratt unnið fyrst ekki hafa safnast upp ágreiningsatriði, eins og hv. þingmaður kom inn á.

En ég er alveg sannfærður um að lög um fjarskipti munu tryggja öðrum aðilum greiðan aðgang að nettengingu þeirri sem fyrir er. Ég tel að við þurfum ekki að óttast að Síminn beiti einokunaraðstöðu gagnvart öðrum fyrirtækjum sem vilja komast inn á nettenginguna. Það segir sig sjálft, eins og ég sagði áðan, að það eru 52% þeirra sem fá internetþjónustu sem eru á háhraðatengingu Símans.



[18:45]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég átti við þau mál sem hefur verið kvartað yfir til Samkeppnisstofnunar. Þar er málshraðinn það hægur að það tekur að meðaltali 16 mánuði að fá afgreiðslu mála.

Ég held að þeir í Sjálfstæðisflokknum, og ég vona að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sé þeirra á meðal, ættu að hugsa sinn gang varðandi það að þetta taki svona langan tíma. Á meðan eftirlitsstofnanir taka ekki á þeim sem eru markaðsráðandi, hvaða samkeppni ætla menn þá að færa inn? Hafa menn engar áhyggjur af því að vera að selja þessa einokunaraðstöðu til einkaaðila þegar menn hafa ekki eflt Samkeppnisstofnun meira en svo að hún ræður ekki einu sinni við opinbert fyrirtæki sem er að langstærstum hluta í eigu ríkisins?



[18:46]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem í pontu til að halda því til haga og árétta það að ég nefndi Samkeppnisstofnun ekki einu orði í andsvari mínu áðan. Ég vil, þó að ég sé hvorki sérstakur sérfræðingur á sviði fjarskipta og þaðan af síður talsmaður flokks míns í þeim málum, halda því til haga sem fróðleik við hv. þm. Sigurjón Þórðarson að eftirlit með rekstri fjarskiptaþjónustu til að tryggja eðlilega samkeppni er í höndum tveggja stofnana, önnur er Samkeppnisstofnun og hin er Póst- og fjarskiptastofnun.

Það sem lýtur að því sem málið gengur út á og að málflutningi hv. samfylkingarþingmanna að Landssíminn beiti aðgangshindrunum, tæknilegum og með verðlagningu, það heyrir beint undir Póst- og fjarskiptastofnun. Það er sú stofnun sem er til umræðu og viðkemur þessu þingmáli. Ég nefndi aldrei Samkeppnisstofnun á nafn.

Ég trúi því ekki að einhver ætli að halda því fram að hin fjarskiptafyrirtækin sem eru í samkeppni við Landssímann láti það yfir sig ganga að þau séu beitt aðgangshindrunum, tæknilegum eða með verðlagningu. Þau hljóta að leita til þess aðila, þeirrar stofnunar sem að lögum á að taka á málinu og úrskurða. Þau hljóta að leita þangað eftir leiðréttingu sinni og mér er ekki kunnugt um að það sé nokkur bið eftir úrskurðum frá þeirri stofnun. Það er eitt mál óafgreitt þar núna og ég veit ekki til þess að það sé nokkur bið frá þeirri stofnun.

Varðandi meinta einokunarstöðu Símans þá snýst málið ekki um að vera markaðsráðandi. Það snýst um það hvort verið er að misnota markaðsráðandi stöðu. Með fjarskiptalögunum, sem mig minnir að allir flokkar á þingi hafi tekið þátt í að samþykkja um að Síminn veitti öðrum fyrirtækjum á fjarskiptamarkaði þessa þjónustu, þá komum við á fót þeirri stofnun sem hefur úrskurðarvald um þetta og fyrirtæki leita leiðréttingar hjá.



[18:49]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að biðjast afsökunar á því ef ég hef rangtúlkað orð hv. þm. Jónínu Bjartmarz. En ég á síður von á því að þessi ágætu samtök, Inter, séu sífellt að sækja rétt sinn gagnvart ríkisfyrirtækinu sem er stjórnað af ríkisstjórninni til stofnunarinnar sem er stjórnað af hæstv. viðskiptaráðherra, að þau séu sífellt að sækja ef þau hafa ekkert þangað að sækja. Heldur hv. þingmaður að þau séu bara að gera þetta af einhverjum óvitaskap? Það held ég ekki.

Hvað sem því líður væri áhugavert að fá að heyra hvort hv. þingmaður hafi ekki áhyggjur af því að stór meiri hluti hennar eigin flokksmanna sé andvígur sölunni og sérstaklega hvernig eigi að standa að henni.



[18:50]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var eitt það aumlegasta sem ég hef heyrt í umræðunni, að hv. þm. Sigurjón Þórðarson láti að því liggja að fyrirtæki á fjarskiptamarkaði sem eru beitt meintri aðgangshindrun með verðlagningu Símans inn á grunnnetið leiti ekki leiðréttinga. Er hv. þingmaður að halda því fram að þau borgi einhvern taxta sem Landssímanum dettur í hug mánuðum og árum saman en leiti ekki til þeirrar stofnunar sem getur og hefur leiðréttinguna á hendi sér? Þetta lýsir alla vega ekki mikilli kunnáttu á rekstri.

Mergur málsins er sá að allir flokkar á þingi stóðu að því að samþykkja fyrirkomulagið um að Landssíminn mundi reka grunnnetið, aðrir ættu frjálsan aðgang að því og við komum á fót því fyrirkomulagi að ákveðin stofnun úrskurðar um það hvort Síminn hlítir lagaskyldunni eða ekki. En grunnurinn undir mál Samfylkingarinnar er að verið sé að beita hindrunum og þess vegna megi undir engum kringumstæðum selja grunnnetið með.

Hitt er svo allt önnur umræða sem við tökum hugsanlega í annan tíma og rétt að halda því til haga að allt sem frá mínum flokki, Framsóknarflokknum, hefur komið fram í málinu, öll afstaða okkar miðar að því hvernig við getum best og mest tryggt eðlilega samkeppni á fjarskiptamarkaði, neytendum og landsmönnum öllum til góða.



[18:52]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef einmitt spurt um þessa hluti og bar upp spurningu á síðasta þingi: Hefur Landssími Íslands tryggt fjárhagslegan aðskilnað í þeirri starfsemi sem lýtur sérstaklega að virðisaukandi þjónustu, t.d. internetþjónustu, GSM-farsímaþjónustu og NMT-farsímaþjónustu? Þegar maður spyr hæstv. fjármálaráðherra slíkra einfaldra spurninga þá svarar hann ekki. Hvernig ætli standi á því?

Svarið hans er, eins og ég las upp áður: „Ráðuneytinu er ekki kunnugt um það hvort Póst- og fjarskiptastofnun hafi farið fram á það við Landssímann að hann viðhafi fjárhagslegan aðskilnað í umræddri starfsemi.“ Hæstv. fjármálaráðherra treystir sér sem sagt ekki til að ganga úr skugga um það hvort fyrirtækið sem hann ræður nánast einn yfir fari að lögum. Ef menn hafa ekkert að fela í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum og allt á að vera neytendum til hagsbóta hefðu menn rænu á því að svara svona einföldum spurningum. Þá væru menn ekki að velkjast í vafa um hvort staðið væri við hlutina.