131. löggjafarþing — 65. fundur
 2. feb. 2005.
Landssími Íslands.
fsp. SigurjÞ, 360. mál. — Þskj. 413.

[12:01]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég vil beina eftirfarandi spurningu til hæstv. fjármálaráðherra:

Hefur Landssími Íslands hf. tryggt fjárhagslegan aðskilnað í þeirri starfsemi sem lýtur sérstaklega að virðisaukandi þjónustu, t.d. internetþjónustu og GSM-farsímaþjónustu?

Þetta mál snýst um það hvort hæstv. fjármálaráðherra og þá ríkisstjórnin hafi yfirleitt áhuga á að tryggja samkeppni á fjarskiptamarkaði og einnig hvort ríkisstjórnin hafi áhuga á því að fyrirtæki í eigu ríkisins fari að lögum.

Ég hef spurt hæstv. fjármálaráðherra þessarar sömu spurningar tvívegis áður og þá hefur orðið fátt um svör. Jú, það hefur fengist upp að Landssímanum sé skylt að fara að lögum. Samt sem áður er eins og það sé ákaflega erfitt fyrir hæstv. fjármálaráðherra að ganga úr skugga um hvort það fyrirtæki sem hann ber ábyrgð á og er handhafi hlutabréfs sem þjóðin á fari að lögum. Þetta er auðvitað með ólíkindum, sérstaklega í ljósi þess að ef á að tryggja frið um einkavæðingu Símans er ótækt að hafa þetta ekki uppi á borðinu og koma ekki samkeppnismálum á tært hvað varðar fyrirtæki í eigu ríkisins. Að vera með það í einhverri leynd og feluleik og fara síðan í alls konar útúrsnúninga þegar spurt er einfaldra spurninga er ekki boðlegt.

Þess vegna ætla ég hér og nú að reyna enn einu sinni að fá það upplýst hvort þetta ágæta fyrirtæki, Landssími Íslands sem hæstv. fjármálaráðherra ber ábyrgð á, fari að lögum sem hann hefur sjálfur bent á í svari sínu að eigi að gera það.



[12:03]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Mér er ekki kunnugt um annað en að Landssími Íslands fari að lögum.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson ber fram fyrirspurn sama efnis og hann hefur áður gert. Þeirri spurningu var skriflega svarað á vorþingi 2004, og skyldum spurningum sömuleiðis. Megininntakið sem fram hefur komið í þeim svörum af minni hálfu er að í gildi eru reglugerðir og lög um fjarskipti og um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri fjarskiptafyrirtækja. Ráðuneytinu sem ég ber ábyrgð á er ekki kunnugt um að Póst- og fjarskiptastofnun hafi farið fram á það við Landssímann að hann viðhefði fjárhagslegan aðskilnað milli tiltekinna rekstrarsviða.

Vegna þess að þessi spurning er aftur fram komin tel ég ástæðu til að ítreka fyrri afstöðu mína sem er sú að fjármálaráðuneytið telur ekki eðlilegt að það svari fyrir stefnu eða ákvarðanir Landssímans í einstökum málum, jafnvel þótt fyrirtækið sé að langmestu leyti í eigu ríkisins. Sú afstaða grundvallast á því í fyrsta lagi að félagið er hlutafélag að einkarétti og er sem slíkt skráð á íslenskum hlutabréfamarkaði, og hlutabréf í félaginu ganga kaupum og sölum í Kauphöll Íslands.

Í öðru lagi vegna þess að þrátt fyrir að íslenska ríkið eigi ráðandi hlut í Landssímanum hefur ríkið sem eigandi ekki áhrif á daglega stjórn þess né svarar fyrir stefnu þess, heldur kýs til þess sérstaka stjórn sem svarar fyrir stefnu félagsins og tekur ákvarðanir um málefni þess og ber á því stjórnunarlega ábyrgð.

Í þriðja lagi er það svo að í krafti stærðar og markaðsráðandi stöðu þessa félags hvílir á því margvísleg lagaskylda samkvæmt fjarskiptalögum, samkeppnislögum, lögum um verðbréfaviðskipti og fleiri lögum. Í þessum lögum er jafnframt mælt fyrir um eftirlitsskyldu ýmissa aðila gagnvart félaginu. Það er hlutverk viðeigandi stofnana eins og Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppnisstofnunar að hafa eftirlit með aðilum í samkeppni á fjarskiptamarkaði, og Kauphallar Íslands að hafa eftirlit með aðilum sem skráðir eru á verðbréfamarkaði.

Póst- og fjarskiptastofnun hefur umsjón og eftirlit með framkvæmd fjarskiptamála á Íslandi samkvæmt fjarskiptalögum auk þess sem stofnuninni ber að stuðla að samkeppni á sviði fjarskiptaþjónustu og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti. Samkeppnisyfirvöld hafa með höndum að framfylgja bannreglum samkeppnislaga, að ákveða aðgerðir gegn samkeppnishamlandi hegðun fyrirtækja og óréttmætum viðskiptaháttum og stuðla að auknu gagnsæi markaðarins. Ljóst er að fyrirtækið, Landssíminn, hefur talið sig bundið af ákvörðunum Póst- og fjarskiptastofnunar, samkeppnisyfirvalda og annarra eftirlitsstofnana sem beint hefur verið til þess og er ráðuneytinu ekki kunnugt um að framangreindir aðilar hafi gert athugasemdir við núverandi framkvæmd Landssímans á lögum þeim eða reglum sem um þetta mál gilda.



[12:07]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Svarið er með sama hætti og áður. Það er greinilegt að ráðherrann er upptekinn og hefur ekki gefið sér tíma til að ganga úr skugga um það hvort Landssíminn hafi farið að lögum. Mér finnst það með ólíkindum. Í stað þess þylur hann hér upp úr lögum um að fyrirtækinu beri að gera það og að þetta sé í einhverjum farvegi. Auðvitað ætti ráðherra og sérstaklega fjármálaráðherra að tryggja það að fyrirtæki sem hann ber ábyrgð á fari að samkeppnislögum, sérstaklega í ljósi þess að eins og alþjóð veit er Landssíminn fastagestur til úrskurðar og aðfinnslu hjá Samkeppnisstofnun. Það ætti að vera metnaðarmál ríkisstjórnarinnar að ganga úr skugga um að fyrirtæki í eigu ríkisins fari að landslögum.

Ég ætla líka að vekja athygli á öðru. Þegar samþykkt var að gera Landssímann að hlutafélagi — svo er að heyra sem hæstv. ráðherra skjóti sér á bak við hlutabréfalög, að fyrirtækið sé orðið hlutafélag og því á ábyrgð stjórnar, eins og svo margt annað eftir að stjórnin tók þátt í ríkisvæðingu — var í nefndaráliti samgöngunefndar mælt með því að setja Landssímann í sölu en þá var einmitt talað um að efla og búa vel að eftirlitsaðilum og að þeim yrði tryggður nægur mannafli og fjármagn til að sinna því eftirliti sem þeim væri ætlað. Þannig má ætla að það þyrfti að ráða í 2–3 stöðugildi vegna aukinnar samkeppni á fjarskiptamarkaði. Þetta hefur ekki verið gert. Nei, í staðinn kemur fjármálaráðherra hér, segist ekkert vita og skýlir sér á bak við hlutabréfalögin.