131. löggjafarþing — 65. fundur
 2. feb. 2005.
Kynja- og jafnréttissjónarmið í fjárlagagerð.
fsp. SF, 361. mál. — Þskj. 414.

[12:09]
Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Með þátttöku okkar Íslendinga á heimsráðstefnu kvenna í Beijing 1995 tókum við á okkur ákveðnar skuldbindingar. Þá skuldbundu Norðurlöndin sig til að flétta kynja- og jafnréttissjónarmið inn í alla pólitíska ákvarðanatöku. Þetta hefur á ensku verið kallað „gender main streaming“. Þetta á m.a. við um gerð fjárlaga sem gegna lykilhlutverkum í pólitískum forgangsverkefnum landanna. Fjárlög sem eru gagnsæ og vel unnin hvað varðar kynjasjónarmið hafa mikla þýðingu til að tryggja þróun í átt til jafnréttissamfélags, bæði hér á Íslandi sem og annars staðar á Norðurlöndunum. Allir vita sem hafa komið nálægt stjórnmálastarfi að fjárlög eru aðalstýritækið varðandi alla stefnumótun sem þingið kemur fram með. Fjárlögin eru aðalskjalið, má segja, þannig að það er mjög mikilvægt að Ísland standi sig vel í þessu verkefni og nái að samtvinna jafnréttissjónarmið inn í fjárlagagerðina.

Í þessu norræna verkefni á að koma á fót samvinnuhópi og það eru tveir aðilar frá Íslandi í honum, Eyþór Benediktsson frá fjármálaráðuneytinu og Silja Bára Ómarsdóttir frá Jafnréttisstofu. Það á sem sagt að koma á samvinnu milli fjármálaráðuneyta og fleiri aðila til að vinna aðferðir til að meta fjárveitingar á forsendum jafnréttis. Þetta er örugglega frekar flókið en Norðurlöndin eru á fullu í að koma þessu í gagnið núna og því mjög spennandi að heyra hvað hæstv. fjármálaráðherra hefur að segja um verkefni okkar. Hér á Íslandi var ákveðið að okkar verkefni fælist í að gera úttekt á almannatryggingakerfinu sérstaklega og skoða hvernig örorkugreiðslur færu til kynjanna. Það er alveg ljóst að í gegnum tíðina hafa verk kvenna verið minna metin fjárhagslega en verk karla og allir vita að hefðbundin kvennastörf, aðallega þessi umönnunarstörf, hafa færst út á stofnanir og þar eru þau frekar lágt launuð. Það er hægt að koma með mörg dæmi um það hvernig staða kvenna hefur verið slakari en staða karla varðandi laun og varðandi hvernig fjárlögin koma út gagnvart ólíkum hópum, þ.e. gagnvart kynjunum.

Mér finnst þetta verkefni afar spennandi. Það er mikilvægt að við stöndum vel við bakið á því og mig langar að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvert þetta verkefni er komið og hvort staðið hafi verið myndarlega fjárhagslega á bak við það. Spurning mín hljóðar svo, virðulegi forseti:

Hvernig miðar því verkefni hér á landi að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið í fjárlagagerð?



[12:13]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir leggur hér fyrir mig fyrirspurn sem hún hefur þegar kynnt, hefur reyndar að hluta til svarað fyrirspurninni sjálf. Það er vissulega rétt sem kom fram í máli þingmannsins að það mun hafa verið á árinu 2002 sem settur var á fót norrænn starfshópur á vegum fjármálaráðherra Norðurlandanna. Honum var falið að gera tillögur um norrænt verkefni um samþættingu fjárlagagerðar og jafnréttis. Málið á sér þó lengri aðdraganda, eins og fram er komið, en á þessum vettvangi, þ.e. á vettvangi norrænu fjármálaráðherranna, hefst það með þessu verkefni.

Í hópnum voru einn fulltrúi frá fjármálaráðuneyti hvers lands og einn fulltrúi jafnréttismála í hverju Norðurlandanna. Starfshópurinn setti fram þá tillögu að unnið yrði að samþættingu fjárlagagerðar og jafnréttis í hverju landi fyrir sig með tilraunaverkefni en auk þess yrði ráðinn verkefnisstjóri sem hefði yfirumsjón með fræðslu og utanumhaldi um verkefnin.

Með íslenska verkefninu er ætlunin að skoða hvernig fjármunir á sviði almannatryggingakerfisins dreifast á milli kynjanna. Stofnaður hefur verið stýrihópur sem stjórnar verkefninu og í honum sitja fulltrúar frá fjármálaráðuneytinu, Jafnréttisstofu og Tryggingastofnun ríkisins. Drög að verkefnaáætlun liggja fyrir og er fulltrúi frá Jafnréttisstofu verkefnisstjóri. Áætlað er að norræna verkefnið standi til ársloka 2006 en áætlað er að íslenska verkefninu geti jafnvel verið lokið nokkru fyrr. Norræna verkefninu mun ljúka með skýrslu og gerð handbókar um það hvernig nýta megi reynslu úr þessum tilraunaverkefnum til að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið á öðrum sviðum opinberrar starfsemi.

Við gerum okkur vonir um að út úr þessu geti komið góð niðurstaða og vísbendingar um það hvernig hægt sé að halda þessu starfi áfram.

Út af spurningu þingmannsins varðandi fjárveitingar til þessa verkefnis er mér ekki kunnugt um að þar hafi verið nein sérstök vandamál. Það hefur verið gert ráð fyrir því að kosta þetta innan þeirra ramma sem viðkomandi stofnanir hafa.



[12:15]
Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið og kýs að túlka það svo að gangur mála sé góður og fullur vilji til að styðja vel við bakið á þessu verkefni.

Ég tel jafnframt tilefni til þess að spyrja miðað við gang mála: Munum við sjá afrakstur af þessu verkefni í vinnslu fjárlaga á næstunni? Gæti hæstv. fjármálaráðherra upplýst þingheim um það hvenær hann sér fyrir sér að við getum sagt með sóma að jafnréttissjónarmið séu samtvinnuð inn í fjárlagagerð á Alþingi? Það er alveg ljóst að svo er ekki í dag, menn eru að fikra sig áfram alls staðar á Norðurlöndunum. Hin löndin eru komin eitthvað lengra en við, enda með mun meira umleikis, meiri sérfræðinga og miklu öflugri jafnréttisbaráttu á alla kanta. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvenær megum við búast við því að sjá árangur, að sjá áhrif á fjárlagagerð okkar á Íslandi?



[12:16]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er spurning sem ég treysti mér ekki til þess að svara til neinnar hlítar. Ég tel ólíklegt að bein niðurstaða úr þessu verkefni verði tiltæk við fjárlagagerð fyrir næsta ár, 2006, en hugsanlega strax í kjölfarið á því.