131. löggjafarþing — 65. fundur
 2. feb. 2005.
Sala ríkiseigna.
fsp. LB, 412. mál. — Þskj. 541.

[12:17]
Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og flestum er kunnugt hefur núverandi ríkisstjórn og jafnvel sú sem sat á undan henni haft talsverða forgöngu um það að selja ríkiseignir. Í gegnum tíðina hefur umræða um þessa sölu verið margvísleg og ýmislegt farið í loftið. Oft og tíðum hafa menn verið mjög hugsi og gagnrýnir á þær aðferðir sem notaðar hafa verið við sölu. Má til að mynda nefna það að í dag er í gangi mál sem hefur verið höfðað vegna sölu á bréfum í Íslenskum aðalverktökum. Það er því að minni hyggju gríðarlega mikilvægt að þegar ríkið selur ríkiseignir sé aðferðafræðin gegnsæ og yfir vafa hafin.

Ég veit að á árinu 1996 setti ríkisstjórnin sér verklagsreglur um útboð og sölu ríkisfyrirtækja en veruleikinn er samt sem áður sá að þær reglur eru mjög óljósar og fátt neglt niður þannig að það liggi algerlega ljóst fyrir hvernig skuli staðið að sölu og hverjir geti keypt. Ég tel fulla ástæðu til að endurskoða það og reyna þá að eyða ákveðinni óvissu sem hefur fylgt mismunandi aðferðum við sölu á eignarhlutum ríkisins í fyrirtækjum og útboðum.

Það sem einnig vekur athygli í þessum verklagsreglum er 10. gr. sem kveður á um að heimilt sé að víkja þessum reglum frá við sérstakar aðstæður. Það hefur á stundum verið gert. Á sama hátt hefur þetta söluferli verið túlkað þannig að ákvæði stjórnsýslulaga eigi ekki við um kaup og sölu eigna ríkisins.

Af þessum sökum, virðulegi forseti, finnst mér afar mikilvægt að við ræðum þessi mál hér, ræðum það hvernig menn sjá framtíðina fyrir sér og ekki síst í ljósi þess að líklega er fyrirhuguð núna stærsta sala ríkisins frá upphafi, þ.e. sala á Símanum. Af þessum sökum, virðulegi forseti, hef ég borið hér fram fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra.

Hún er svona:

1. Hver fer með umboð ríkisins við sölu ríkiseigna, af hvaða reglum er hann bundinn og til hvaða sjónarmiða ber honum að líta þegar ákvörðun er tekin um málsmeðferð og hvernig að sölunni skuli staðið?

2. Gilda samræmdar reglur um sölu ríkiseigna eða sérstakar reglur í hverju tilviki? Er misjafnt hvaða aðferð er notuð eftir því hver annast sölu?

3. Er í undirbúningi lagasetning um hvernig fara skuli að við sölu ríkiseigna?



[12:20]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Í fyrsta lagi, virðulegi forseti, er spurt:

Hver fer með umboð ríkisins við sölu ríkiseigna, af hvaða reglum er hann bundinn og til hvaða sjónarmiða ber honum að líta þegar ákvörðun er tekin um málsmeðferð og hvernig að sölunni skuli staðið?

Í 40. gr. stjórnarskrárinnar segir m.a. að ekki sé heimilt að selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild. Samkvæmt 2. tölul. 5. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, nr. 3/2004, fer fjármálaráðuneytið með mál er varða eignir ríkisins, þar á meðal verðbréf og hlutabréf, svo og fyrirsvar þeirra vegna nema lagt sé til annars ráðuneytis.

Um sölu ríkiseigna gilda ákvæði 3. mgr. 70. gr. laga nr. 94/2001, um opinber innkaup, þar sem segir að Ríkiskaup ráðstafi eignum ríkisins sem ekki er lengur þörf fyrir samkvæmt nánari ákvörðun fjármálaráðuneytisins.

Í 29. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, er að finna ákvæði um að ríkisaðilar í A-hluta skuli hverju sinni afla heimildar í lögum til að kaupa, selja, skipta eða leigja til langs tíma eftirfarandi eignir:

1. Fasteignir.

2. Eignarhluta í félögum.

3. Skip og flugvélar.

4. Söfn og safnhluti.

5. Aðrar eignir sem verulegt verðgildi hafa og ekki falla undir töluliði 1–4.

Á grundvelli laga um fjárreiður ríkisins og laga um opinber innkaup hefur fjármálaráðuneytið sett reglugerð nr. 206/2003, um ráðstöfun eigna ríkisins. Í reglugerðinni er mælt fyrir um þá málsmeðferð sem gildir við sölu á eignum ríkisins og hvernig að sölunni skuli staðið. Er vísað til hennar varðandi frekari upplýsingar um þá málsmeðferð sem gildir um ráðstöfun slíkra eigna.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, er spurt:

Gilda samræmdar reglur um sölu ríkiseigna eða sérstakar reglur í hverju tilviki? Er misjafnt hvaða aðferð er notuð eftir því hver annast sölu?

Við þessari spurningu vil ég segja það að þau lög sem vísað er til hér að framan ásamt reglugerð 206/2003, um ráðstöfun eigna ríkisins, sem sett var með stoð í þeim eru um þær almennu réttarheimildir sem gilda um ráðstöfun á eignum ríkisins. Í sérlögum kunna hins vegar að vera sérstakar heimildir um ráðstöfun tiltekinna eigna, sbr. jarðalög nr. 81/2004, þar sem sérstaklega er mælt fyrir um sölu ríkisjarða og málsmeðferð við slíka sölu. Einnig hefur verið ákveðið að einkavæðingarnefnd fari með sölu á eignarhlutum ríkisins í fyrirtækjum í samráði við fjármálaráðherra og þann ráðherra sem fer með eignarhlutann. Þrátt fyrir þetta gilda þó almennt þau meginsjónarmið og meginreglur sem koma fram í áður tilgreindri reglugerð um ráðstöfun eigna ríkisins.

Þau meginsjónarmið eru í örstuttu máli þau að í fyrsta lagi sé fyrir hendi lagaheimild til sölunnar enda sé eignin þess eðlis að gerð sé krafa um það í lögum. Í öðru lagi er sett lágmarksverð á eignina sem venjulega er fundið með verðmati og í þriðja lagi að hún sé auglýst til sölu á opinberum vettvangi þannig að allir eigi þess kost að bjóða í hana. Eignin er að því búnu seld hæstbjóðanda enda sé fram boðið verð yfir ásettu lágmarksverði.

Í þriðja lagi er spurt:

Er í undirbúningi lagasetning um hvernig fara skuli að við sölu ríkiseigna?

Svarið er það, eins og áður er komið fram af minni hálfu hér, að slík löggjöf er þegar fyrir hendi og ekki í undirbúningi önnur lagasetning um þetta efni.



[12:24]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Sala ríkiseigna og meðferð þeirra er stórmál og afar athyglisverð eru hér orð hæstv. fjármálaráðherra um að farið sé eftir reglum og að allir skuli eiga jafnan rétt til að bjóða í þær — nema ef sérstakt frávik verður, eins og er í þessum lið nr. 10, að víkja megi frá þessum reglum. Það hefur að mínu viti verið gert í flestum tilvikum.

Bankarnir, voru þeir seldir eftir þeim reglum sem upp voru settar í byrjun? Nei. Reglan sem gilti var að þeim skyldi skipt jafnt milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Mun ekki sú sama regla gilda núna um Símann? Er þetta ekki eina reglan sem í gangi er, þ.e. helmingaskiptaregla Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins um þessar ríkiseignir? Er ekki óþarfi að vera með allar þessar reglur á blaði sem ekkert er farið eftir? Er ekki bara að skipta þessu, og hvernig á að skipta Símanum á milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins? Ég held að það sé spurningin sem við stöndum nú frammi fyrir, frú forseti.



[12:25]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það var fróðlegt að hlusta á svar hæstv. fjármálaráðherra við þeirri fyrirspurn sem hér var lögð fram. Það að samræmdar reglur gildi um hvernig ríkisfyrirtæki séu seld, heimildar sé aflað til að gera það og þetta sé allt saman í eðlilegum og sjálfsögðum farvegi þar sem auglýst er útboð og hæstbjóðandi fái — ég hélt satt að segja að hæstv. ráðherra væri að tala um eitthvað annað en sölu ríkiseigna þegar hann lýsti þessu ferli. Allir þeir sem fylgst hafa með þeirri sögu gera sér grein fyrir því að sérstakar reglur gilda í hverju einstöku tilviki, og oft og tíðum eftir að lagt er af stað í þá ferð að selja er þeim reglum breytt til að laga þær að þörfum einhvers kaupanda sem virðist jafnvel hafa verið valinn fyrir fram.

Vona ég að hæstv. fjármálaráðherra sjái þörfina fyrir það að setja heildstæða löggjöf um þetta efni.



[12:26]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það kom fram að það væri farið eftir reglum — stundum, ekki alltaf, en stundum. Þá er rétt að huga að því, vegna þess að þetta snýst um meðferð á opinberum fjármunum, hvort það sé farið eftir einhverjum reglum þegar ríkisfyrirtæki sem er búið að hlutafélagavæða fara í ríkisvæðingu, eins og t.d. þegar Skjár einn var ríkisvæddur. Það væri fróðlegt að vita hvort einhverjar reglur væru í smíðum hjá fjármálaráðuneytinu varðandi það vegna þess að hér er um að ræða gríðarmikla fjármuni, opinbera fjármuni í eigu almennings, sem verið er að festa. Í rauninni ættu reglurnar að vera gagnsæjar svo að þær væru hafnar yfir allan vafa.



[12:27]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að við verðum að vanda okkur þegar við seljum ríkiseignir.

Mig langaði til að nota tækifærið hér til að vekja athygli á svari við fyrirspurn sem ég fékk í síðustu viku, fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra um það hvernig helmingsandvirði af söluverðmæti Steinullarverksmiðjunnar hefði verið varið á sínum tíma, 105 millj. kr. Samkvæmt lagabreytingu frá árinu 2002 um Steinullarverksmiðjuna átti að verja 105 millj., þ.e. helmingnum af söluverðmætinu, til samgöngubóta eða annarra verkefna í sveitarfélögunum.

Í svarinu kemur í ljós að helmingi af þessu andvirði, þ.e. 105 millj., var varið í Norðvest. til fiskeldisrannsókna, annars vegar 70 millj. til fiskeldisrannsókna við Hólaskóla og síðan 35 millj. í barraeldi, þ.e. eldi á fisktegund sem sýnt er að ekki er hægt að ala hér með hagkvæmum hætti. Þessum peningum var kastað í eldisstöð sem var gjaldþrota að því virðist, virðulegi forseti, til þess að skera lánardrottna niður úr snörunni.



[12:28]
Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa miklum vonbrigðum með að ekki sé fyrirhugað að setja skýrar lagareglur um hvernig fara eigi með sölu eigna ríkisins.

Það er vissulega rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að hægt er að vitna til margvíslegra reglna sem um þetta gilda. Ef þær væru tæmandi og fullnægjandi þá hefði ekki þurft að setja sérstakar verklagsreglur af forsætisráðuneytinu um þessa sölu og kveða síðan sérstaklega á í þeim reglum um að víkja megi þeim reglum frá. Það er afar mikilvægt að sala ríkiseigna sé trúverðug og fólk trúi því að leitað sé hagstæðustu tilboða og að allir hafi þar jöfn tækifæri. Það olli mér því miklum vonbrigðum þegar mér varð ljóst að þeir sem bjóða í þessi bréf, til að mynda fyrirtækja, hafa ekki möguleika á því að fá upplýsingar um önnur tilboð og hvernig þeim var háttað af þeim sökum að þessi söluaðferð er túlkuð þannig að stjórnsýslulög eigi ekki við um hana af einhverjum sérstökum ástæðum. Ég held að það væri miklu trúverðugra og miklu betra, og það mundi tryggja ákveðna gagnsæi í meðferð þessara mála, að um þetta giltu skýr lög á Alþingi sem Alþingi setti.

Við erum að tala um mjög stór mál. Fram undan er sala Símans, stærsta sala sem ríkið hefur ráðist í og að minni hyggju væri mjög skynsamlegt og mjög mikilvægt að þegar að þeirri sölu kemur þá verði hún að mestu leyti yfir gagnrýni hafin og um hana kunni að myndast og takast mikil sátt. Ég ætla ekki að rekja það sem aðrir hér hafa gert um hvernig ríkiseignum hefur tíðum verið skipt. Það er umræða sem ekki verður kveðin niður nema settar verði skýrar og gagnsæjar reglur um hvernig skuli fara með sölu ríkiseigna og því lýsi ég sérstökum vonbrigðum með að ekki skuli verið að vinna að setningu slíkra reglna.



[12:31]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það þarf ekki að setja lög sem þegar eru í gildi. Það þarf ekki að setja reglur sem búið er að setja. Það gilda um þetta skýr lagaákvæði og skýrar reglur, m.a. í reglugerð sem ég hef hér í höndunum og nefndi í mínu fyrra svari. En aðalatriðið er, og það hygg ég að þingmenn séu almennt sammála um, að það þarf að standa vel að sölu ríkiseigna og það þarf að gera það með eðlilegum hætti á grundvelli þessara reglna og ég held að það hafi í aðalatriðum tekist í gegnum tíðina. Það er mikilvægt að ríkið fái sannvirði fyrir sínar eignir og að almenningur sem tekur þátt í viðskiptum eða vill eignast það sem verið er að selja hafi traust á því að allt sé með felldu í slíkum viðskiptum.

Það má hins vegar ekki rugla saman aðferðinni við að selja tiltekna eign eða fyrirtæki og svo hins vegar því hvað gert er við andvirðið. Mér virtist gæta ákveðins misskilnings í ræðu hv. þingmanns Magnúsar Hafsteinssonar hvað það atriði varðar. Hann var ekki ánægður með ráðstöfun á söluandvirði einnar tiltekinnar eignar. Það er annað mál en verið er að spyrja hér um í dag.