131. löggjafarþing — 65. fundur
 2. feb. 2005.
Þróun á lóðaverði.
fsp. BJJ, 470. mál. — Þskj. 722.

[12:46]
Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Húsnæðismál hafa verið í brennidepli á síðustu missirum. Mikil gerjun hefur átt sér stað á húsnæðismarkaðnum með tilkomu hagstæðra lánamöguleika sem Íbúðalánasjóður og bankarnir veita landsmönnum öllum. Ég er ekki í vafa um að aukið aðgengi íbúðarkaupenda að lánsfjármagni, fjármagni á mun lægri vöxtum en áður hafa þekkst hér á landi hefur haft þau áhrif að íbúðaverð hefur hækkað verulega ásamt því sem íslenskri þjóð vegnar vel þar sem raunkaupmáttaraukning er um 45% frá 1995.

En eru þetta einu haldbæru skýringarnar? Ég tel svo ekki vera. Á síðustu missirum hefur borið svo við að lóðaverð undir íbúðarhúsnæði hefur hækkað stórlega á síðustu árum. Mörg sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa tekið þann kostinn að bjóða út lóðir undir íbúðarhúsnæði með þeim afleiðingum að svimandi háar upphæðir heyrast í því samhengi.

Það væri kannski sök sér að hafa slíkt fyrirkomulag ef nægt framboð væri af lóðum undir íbúðarhúsnæði. En staðreyndin er hins vegar sú að of lítið af lóðum er undir íbúðarhúsnæði sem gerir það að verkum að þegar svo fáar lóðir eru boðnar fer verðið upp úr öllu valdi, lóðaverð hækkar, húsnæðisverð hækkar sem hefur svo áhrif á þróun verðlags í landinu, verðbólguna sem hækkar húsnæðislán allra landsmanna hvort sem eigandi húsnæðisins býr í Reykjavík eða á Húsavík. Ég tel, hæstv. forseti, að hér sé um varhugaverða þróun að ræða og ljóst ef fram heldur sem horfir með áframhaldandi verðhækkunum á húsnæði gæti orðið kollsteypa á húsnæðismarkaðnum, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu.

Því er mikilvægt, hæstv. forseti, að vandað sé til verka en því miður vaknar sú tilfinning að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi ef eitthvað er stuðlað að hækkun íbúðaverðs og ef fram heldur sem horfir er stutt á hengiflugsbrúnina. Það segir sig sjálft að þegar brunabótamat eða fasteignamat er tugum prósentna undir söluverðmæti viðkomandi húseignar þá er nauðsynlegt að staldra við.

Til þess að átta sig á þróun mála hef ég lagt fyrir hæstv. fjármálaráðherra eftirfarandi spurningar:

1. Hver hefur þróun lóðaverðs íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu verið árin 2000–2005 og hvernig hefur verð á íbúðarhúsnæði þar þróast á sama tímabili?

2. Hver hefur þróun lóðaverðs á Akureyri verið árin 2000–2005 og hvernig hefur verð á íbúðarhúsnæði þar þróast á sama tímabili?

3. Telur ráðherra að lóðaverð íbúðarhúsnæðis hafi haft mikið að segja um þróun verðlags íbúðarhúsnæðis?



[12:49]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hér er hreyft athyglisverðu máli. Því miður liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um allt það sem hv. þingmaður spyr um, sem er í fyrsta lagi:

„Hver hefur þróun lóðaverðs íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu verið árin 2000–2005 og hvernig hefur verð á íbúðarhúsnæði þar þróast á sama tímabili?“

Því er til að svara að ráðuneytið hefur ekki yfir að ráða sundurliðuðum upplýsingum um markaðsverð einstakra lóða og landspilda á mismunandi svæðum á landinu út frá kaupsamningum um slíkar eignir. Sölur á óbyggðum lóðum eru strjálar enda eignarlóðir í miklum minni hluta hér á landi. Lóðasölur og sölur á byggingarrétti lands er oft hluti af kaupsamningum um gömul hús sem ætlunin er að rífa. Í slíkum tilfellum skortir nákvæmar upplýsingar um fjölda væntanlegra lóða og byggingarmagn til að unnt sé að leiða raunverulegt lóðaverð af slíkum samningum.

Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins hefur fasteignamat íbúðarhúsalóða á höfuðborgarsvæðinu hins vegar hækkað um 187% frá árinu 2000. Athuga verður að innifalið í þeirri hækkun fasteignamats er endurmat Fasteignamatsins árið 2001 sem var umfangsmikil leiðrétting á matsgrunninum, árlegur framreikningur fasteignamats og aukinn fjöldi lóða á byggingarmarkaði. Hin almenna aukning sem orðið hefur á byggingarmagni hverrar lóðar leiðir þannig af sér hærra lóðarmat. Samkvæmt vísitölu fasteignaverðs íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu sem Fasteignamat ríkisins gefur út hækkaði hins vegar verð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu um 67,6% frá janúar 2000 til desember 2004. Samkvæmt útreikningum Fasteignamatsins sem byggja á þinglýstum kaupsamningum nam hækkun á ársmeðaltölum íbúðaverðs í Reykjavík á milli áranna 2000 og 2004 um 40,4%.

Í öðru lagi spyr hv. fyrirspyrjandi:

„Hver hefur þróun lóðaverðs á Akureyri verið árin 2000–2005 og hvernig hefur verð á íbúðarhúsnæði þar þróast á sama tímabili?“

Það sama á við og áður að ekki liggja fyrir sundurliðaðar upplýsingar um markaðsverð einstakra lóða og landspilda á Akureyri út frá kaupsamningum frekar en í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins hefur fasteignamat íbúðarhúsa og lóða á Akureyri hins vegar hækkað frá árinu 2000 um 244%. Eins og á höfuðborgarsvæðinu er í þeirri hækkun fólgið endurmat fasteignamats árið 2001, árlegur framreikningur fasteignamats og aukinn fjöldi lóða og byggingarmagns. Samkvæmt útreikningum Fasteignamats ríkisins sem byggja á þinglýstum kaupsamningum nam hækkun á ársmeðaltölum íbúðaverðs á Akureyri milli áranna 2000 og 2004 um 40,3% sem er nánast sama tala og í Reykjavík.

Í þriðja lagi spyr hv. fyrirspyrjandi:

„Telur ráðherra að lóðaverð íbúðarhúsnæðis hafi haft mikið að segja um þróun verðlags íbúðarhúsnæðis?“

Eins og tæpt er á hér að framan eru ekki fyrir hendi nægileg gögn til að leggja sjálfstætt mat á það hvernig verð á lóðum undir íbúðarhúsnæði hefur haft áhrif á þróun verðlags íbúðarhúsnæðis. Sölur á óbyggðum lóðum eru fátíðar og lóðasölur og sölur á byggingarrétti eins og áður hefur komið fram oft fólgnar í kaupsamningum um gömul hús sem ætlunin er að fjarlægja. Í slíkum tilfellum skortir án sérstakrar könnunar nákvæmar upplýsingar um fjölda væntanlegra lóða og byggingarmagn á þeim til að unnt sé að leiða raunverulegt lóðaverð af samningunum. En jafnframt hefur ekki verið safnað með kerfisbundnum hætti upplýsingum um lóðaverð í útboðum sveitarfélaga hér á landi. Hins vegar er alveg ljóst af þeim tölum sem hér hafa verið raktar að lóðaþátturinn hefur haft verulega þýðingu í þeirri hækkun á fasteignaverði sem orðið hefur á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri á því tímabili sem fyrirspyrjandi spyr um.



[12:53]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Birki J. Jónssyni fyrir að vekja athygli á þessu stóra máli. Ég er sammála því sem kom fram í forsögu hans að spurningunum að þetta er auðvitað stórt mál. Við þekkjum það, þingmenn Reykjavíkur, að þróunin á húsnæðismarkaði er orðin mikið áhyggjuefni og búin að vera lengi. Við þekkjum það að þegar menn stunda þá iðju, eins og verið hefur í Reykjavíkurborg, að vera með skort á lóðum og bjóða upp þær fáu lóðir sem eru, þá gerist ekkert annað en að húsnæðisverð hækkar og þar af leiðandi leiguverð og það kemur illa niður á þeim sem kaupa sér húsnæði en þó sérstaklega kemur það illa niður á þeim sem minnst mega sín.

Ég vil enn og aftur, virðulegi forseti, þakka málshefjanda og hæstv. fjármálaráðherra fyrir fyrirspurnir og svör þeirra í þessu stóra máli.



[12:54]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er hreyft ákaflega athyglisverðu máli og sérstök ástæða til að þakka hv. málshefjanda fyrir það og hæstv. fjármálaráðherra fyrir greinargóð svör.

Eins og nú horfir mælist varla nokkur verðbólga hér á landi ef undan er skilin hækkun húsnæðiskostnaðar og það er sú hækkun sem síðan kallar fram hækkun á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands sem hefur haft það í för með sér að gengi krónunnar hefur verið að hækka, útflutningsgreinunum og samkeppnisgreinunum til sérstakrar bölvunar og þar með atvinnulífinu á landsbyggðinni. Það er þá undarlegt að hugsa til þess ef stefna í lóðamálum tiltekinna sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er líka farin að hafa þessi áhrif þegar grannt er horft að það er síðan farið að valda verðbólguþrýstingi sem verður til þess að hækka gengi íslensku krónunnar og valda sérstökum búsifjum og vandræðum á landsbyggðinni. Þetta er auðvitað vítahringur sem verður að rjúfa. Ég hef hvatt til þess opinberlega og ég held að ekkert úrlausnarefni í íslenskri hagstjórn sé brýnna heldur en einmitt það.



[12:56]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það hendir stundum hv. 6. þm. Reykv. n. að bera inn áróðursræður úr borgarstjórnarsalnum í Reykjavík við hliðina á okkur. Það er ástæða til að andæfa því sem komið hefur fram hjá honum að það sé lóðaskortur í Reykjavík sem sé ábyrgur fyrir hækkun fasteignamats og húsnæðisverðs. Það eru auðvitað allt aðrar ástæður. Í fyrsta lagi er lóðasvæðið eða íbúðarsvæði á höfuðborgarsvæðinu ekki bundið við Reykjavík heldur tekur til allra byggðanna í grenndinni og hins stærri þríhyrnings kringum Reykjavík. Í öðru lagi er það ósköp einfaldlega þannig að fasteignamatið á Akureyri hefur hækkað jafnmikið og í Reykjavík og við þurfum að fá sérstakar skýringar á því hvort það sé vegna lóðaskorts í Reykjavík.

Það eru aðrir hlutir sem skipta máli. Það er aukinn aðgangur að fjármagni til húsnæðiskaupa m.a. og spurning er: Er hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson á móti þeim aðgangi?



[12:57]
Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svörin og einnig hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni.

Það sem kemur mér þægilega á óvart í svari hæstv. ráðherra er sú þróun sem hefur átt sér stað á Akureyri hvað fasteignaverð varðar og eru í raun allt aðrar tölur en umræðan almennt hefur endurspeglað á síðustu árum. Staðreyndin er greinilega sú að frá árinu 2000 hafa verðmæti fasteigna á Akureyri haldið hlutfallslega í fasteignir í Reykjavík. Slíkt endurspeglar styrk Akureyrar á síðustu árum, enda er það markmið ríkisstjórnarinnar að efla Eyjafjarðarsvæðið sem öflugt mótvægi við höfuðborgarsvæðið.

Það er nauðsynlegt að halda þar áfram að fjölga opinberum störfum til að styrkja þetta svæði áfram og þar verða stjórnvöld að taka sig á sem og á öðrum stöðum á landinu.

Hæstv. forseti. Ég tel að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu verði að leita leiða til þess að hafa áhrif á að lóðaverð haldi ekki áfram að hækka í framtíðinni eins og þróunin hefur verið á síðustu missirum. Það er skylda sveitarfélaganna að standa vörð um hagsmuni íbúa sinna og sú þróun sem hefur átt sér stað í hækkun á lóðaverði er ekki til þess fallin að bæta hag íbúa viðkomandi sveitarfélaga né þjóðarbúsins eins og hefur komið fram í þessari ágætu umræðu.