131. löggjafarþing — 65. fundur
 2. feb. 2005.
Fræðsla um meðferð kynferðisafbrotamála.
fsp. BjörgvS, 105. mál. — Þskj. 105.

[12:59]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Á haustdögum ársins 2004 var haldin nokkuð merkileg ráðstefna um menntun fagfólks og meðferð í kynferðisafbrotamálum. Var markmiðið með þeirri ráðstefnu að þar voru kallaðir til fulltrúar margra deilda Háskóla Íslands og Lögregluskólans til að fara yfir og gefa innsýn í á hve ólíkan hátt námskrár menntastofnana taka á og fjalla um kynferðislegt ofbeldi og kynbundið ofbeldi almennt. Þar voru tekin sérstaklega til og kom ágætlega fram á þeirri ráðstefnu að víða væri þekking hinna ýmsu fagstétta sem koma að málefnum kynferðisafbrota takmörkuð, ólík og að sumu leyti óviðunandi.

Það er eins og þar var sagt mjög mikilvægt að þessi málaflokkur komist á dagskrá með hófstilltum og vönduðum hætti þannig að menntunarmál og fræðslumál fagstéttanna sem eiga og þurfa að taka á forvörnum, fræðslu og meðferð við kynferðisafbrotamálum séu eins góð og hugsast getur. Því vildi ég beina þeirri fyrirspurn sem hér um ræðir til hæstv. heilbrigðisráðherra um menntun ólíkra fagstétta hvað varðar kynferðisafbrotamál og hvernig þeim málum væri háttað.

Þetta er stór liður í baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum, stór liður í því hvaða úrræði börnunum bjóðast, hvernig þær fagstéttir sem vinna með börn og unglinga og þá sem verða fyrir þessum hroðalegasta glæp allra glæpa taka á því og hvernig fagstéttirnar fara að því að greina þegar efasemdir vakna um slíkan voðaverknað. Slíkt hefur komið í ljós í könnunum. Hvort sem menn vefengja þær eða ekki stendur samt í könnun frá 2002 að um 17% íslenskra barna verði fyrir kynferðislegri misnotkun fyrir 18 ára aldur, fimmta hver stúlka og tíundi hver drengur. Þetta eru mjög ótrúlegar tölur og vonandi eru þær allt of háar þó að sumir haldi því fram að þær séu of lágar. Alltént er um að ræða mikið samfélagsmein, hroðalegan glæp sem við verður að bregðast með öllum mögulegum ráðum, ekki síst hvað varðar forvarnir, fræðslu og meðferð slíkra mála og því beini ég þessari fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra.



[13:02]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 7. þm. Suðurk., Björgvin G. Sigurðsson, hefur beint til mín eftirfarandi fyrirspurn:

„Er hafin vinna við að samræma og efla fræðslu og þekkingu fagstétta um meðferð kynferðisafbrotamála?“

Spurningin er víðtæk en svar mitt tekur mið af heilbrigðisþjónustu eingöngu og þeim fagstéttum sem starfa á því sviði. Það er ekki hafin nein vinna svo að mér sé kunnugt við að samræma fræðslu og þekkingu fagstétta um meðferð kynferðisafbrota og ekki kannast starfsmenn heilbrigðisþjónustu við áform um það. Heilbrigðisstéttirnar hafa hins vegar á undanförnum árum lagt töluvert mikla vinnu í að efla þekkingu á þessu sviði jafnhliða því að upplýsingar um umfang og afleiðingar kynferðisafbrota hafa aukist. Þróun þekkingar á þessu sviði er mjög mikilvæg og sú reynsla sem hefur fengist af neyðarmóttöku vegna nauðgana og annarri þjónustu á svipuðu sniði hefur verið nýtt til að fræða heilbrigðisstarfsmenn og verðandi heilbrigðisstarfsmenn betur en áður um ýmsa þætti þessa viðkvæma hluta heilbrigðisþjónustunnar. Þessi miðlun þekkingar fer þó fyrst og fremst fram í menntastofnunum og að minna leyti með starfsþjálfun á heilbrigðisstofnunum.

Enginn ágreiningur er um það að þessum þætti þjónustunnar þarf að sinna eins vel og kostur er, og öllum eru raunar ljósar hinar alvarlegu afleiðingar sem þessi afbrot geta haft á þá sem fyrir þeim verða. Oft er um að ræða langtímaáhrif sem ekki eru endilega tengd með skýrum hætti við afbrotið og er því mikilvægt að starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar séu vakandi fyrir orsökunum og vel í stakk búnir til að mæta þörfum þessara skjólstæðinga ef þeir leita sér hjálpar.

Eins og áður segir eru ekki uppi nein sérstök áform um að samræma þessa þekkingu. Ábyrgð á menntun heilbrigðisstétta er ekki nema að hluta til á herðum heilbrigðisþjónustunnar svo að ljóst er að samræming mundi þýða samvinnu fleiri ráðuneyta í þessu mikilvæga máli.



[13:04]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Ég tek undir hans góða vilja til að efla fræðslu og forvarnir og þróa alla þá þekkingu sem til staðar er í samfélaginu til að vinna gegn slíku tjóni og meðhöndla fórnarlömb þessa voðaglæps.

Hæstv. ráðherra segir að ekki séu áform um samræmingu á þekkingu fagstéttanna. Hins vegar sé um að ræða samstarfsverkefni margra ráðuneyta og vil ég nota tækifærið hér að lokum til að hvetja hæstv. ráðherra til að skoða það mál vel og beita sér jafnvel síðar fyrir því að ráðuneytin hafi með sér samvinnu um að efla og samræma þekkingu á sviði kynferðisafbrotamála. Ég held að það gætu orðið mjög farsæl skref, mjög mikilvæg skref til lengri tíma litið til að sem allra best og með sem vönduðustum hætti sé brugðist við meðhöndlun fórnarlamba kynferðisafbrota. Það gæti haft veruleg áhrif í þeirri vinnu allri. Eins og fram kom hjá fagstéttunum er þekkingin mjög ólík, stundum alls ekki nægjanleg og mjög er mikilvægt held ég að samræma þessa þekkingu þannig að undir liggi samræmd grundvallarþekking þó að fagstéttirnar taki svo á málinu á ólíkum stigum og hver með sínum hætti.