131. löggjafarþing — 65. fundur
 2. feb. 2005.
Húðflúrsmeðferð eftir brjóstakrabbamein.
fsp. ÁRJ, 290. mál. — Þskj. 313.

[13:21]
Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég legg fram fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra sem er samhljóða fyrirspurn sem ég lagði fyrir hann fyrir þremur árum, um hvað liði ákvörðun um greiðsluþátttöku heilbrigðiskerfisins í húðflúrsmeðferð í kjölfar aðgerða vegna brjóstakrabbameins.

Frá því að ég spurðist fyrir um þetta hefur lítil breyting orðið á þó að ráðherrann hafi tekið mjög vel í fyrirspurnina og sýnt henni mikinn skilning og sagt að koma þyrfti til móts við þær konur sem vilja frekar húðflúrsmeðferð í stað erfiðrar ígræðslumeðferðar hjá lýtalæknum til að byggja upp geirvörtur eftir brjóstnám og uppbyggingu nýs brjósts.

Eins og við þekkjum, og kom reyndar fram í máli mínu þegar ég talaði fyrir fyrirspurninni síðast, er húðgræðslumeðferðin mjög erfið konum og er kerfinu mun dýrari en húðflúrsmeðferð. Húðflúrsmeðferðin er árangursríkari og farið að taka hana upp í öðrum löndum mun meir en þá leið sem kerfið greiðir fyrir hér. Menn hafa tekið þetta upp bæði hjá lýtalæknum og einnig hafa snyrtifræðingar eða hjúkrunarfræðingar tekið að sér að annast þessa húðflúrsmeðferð, en hér á landi hafa konur sem hafa valið þá leið þurft að fara á stofur hjá húðflúrsmeisturum og þurft að borga fyrir þetta sjálfar sem er náttúrlega ekki boðlegt þar sem þarna er um ákveðna heilbrigðismeðferð að ræða að mínu mati.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður þessu máli? Hann fól samninganefnd að skoða málið gaumgæfilega ofan í kjölinn, eins og hann nefndi í svari sínu á sínum tíma, og ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað kom út úr þeirri skoðun? Munu heilbrigðisstéttir taka þetta að sér eða munu húðflúrarar geta sinnt þessu innan heilbrigðiskerfisins og mun frumvarp um græðara t.d. eitthvað auðvelda þetta? Ég vil gjarnan fá svar við því frá hæstv. ráðherra af því að ég veit að margir sem þurfa á slíkri húðflúrsmeðferð að halda vegna læknismeðferðar bíða eftir þessu, ekki einungis vegna uppbyggingar á nýju brjósti heldur einnig af ýmsum öðrum ástæðum eins og t.d. að láta útbúa nýjar augabrúnir þegar fólk missir hárið o.s.frv. Það væri því fróðlegt að fá að heyra hjá hæstv. ráðherra hvað þessu máli líður í kerfinu.



[13:23]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Reykv. s., Ásta R. Jóhannesdóttir, spyr: „Hvað líður ákvörðun um greiðsluþátttöku heilbrigðiskerfisins í húðflúrsmeðferð í kjölfar aðgerðar vegna brjóstakrabbameins?“ Hún hefur rakið fyrri umræður okkar um málið og geri ég ekki athugasemdir við það.

Húðflúrsmeðferð er af mörgum talin góð aðferð til að ná eðlilegu útliti þegar brjóst eru endurhönnuð eftir aðgerðir vegna brjóstakrabbameins. Lýtalæknar framkvæma þær aðgerðir fyrst og fremst. Það er þó ekki einhlítt að húðflúrsmeðferð sé eina aðferðin í þessum tilvikum.

Húðflúrsmeðferð hefur komið til tals á fundum samninganefndar heilbrigðisráðuneytisins og lýtalækna. Þar hefur komið fram að lýtalæknar hafa fengið húðflúrsmenn til að framkvæma meðferðirnar á stofum lýtalækna ef konur hafa sérstaklega óskað eftir því. Ljóst er að meðferðin er ekki alveg hættulaus þar sem uppfylla verður ströngustu kröfur um hreinlæti á viðkvæmum líkamshluta auk þess sem meðferðaraðilinn er ekki heilbrigðisstarfsmaður.

Viðræðum samninganefndar við lýtalækna lauk á þann hátt að nefndin treysti sér ekki til að gera samning um þennan meðferðarþátt þar sem of mörg vafaatriði eru á ferðinni.

Í fyrsta lagi að Tryggingastofnun gerir ekki samning um aðgerðir sem ekki eru framkvæmdar af viðurkenndu heilbrigðisstarfsfólki.

Í öðru lagi að ísetning litarefna í húð sem þarf að endurnýja með jöfnu millibili krefst umhverfisskurðstofulæknis.

Í þriðja lagi að aðgerðin er fremur fegrunar- en lýtaaðgerð og lýtur ekki að betra heilbrigði.

Síðan bar svo við að tilboð barst frá hjúkrunarfræðingi sem fengist hefur við húðflúrsmeðferðir um að taka að sér framkvæmd þessara aðgerða. Samninganefnd átti nokkra fundi með þeim aðila ásamt umboðsmanni hans en verðhugmyndir þeirra voru svo fjarri öllu lagi að ekki þótti verjandi að semja um það að svo stöddu.



[13:26]
Þuríður Backman (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspurnina og að hún skuli hafa verið endurtekin núna og þakka fyrir þau svör sem hæstv. ráðherra bar fram þar sem hann upplýsti að reynt hafi verið að semja við lýtalækna um greiðslu fyrir húðflúrsmeðferð, sérstaklega á konum til að byggja upp svæði sem líkist geirvörtum og umgjörð geirvartnanna og eins augabrúnir. Það er eðlilega margt að varast hvað varðar það að fá húðflúrara til að vinna slík verk en ég mótmæli því að þetta skuli vera flokkað undir fegrunaraðgerð frekar en lýtalækningar þar sem það getur haft mjög djúpstæð áhrif á andlega heilsu konunnar að hafa geirvörtu og brjóst sem lítur vel út. Ég (Forseti hringir.) hvet hæstv. ráðherra til að líta á þetta sem eitt og hið sama.



[13:27]
Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég varð fyrir svolitlum vonbrigðum því ég gerði ráð fyrir að aðeins lengra hefði miðað í málinu. Fram kom í máli hæstv. ráðherra að farið er að gera þessar húðflúrsaðgerðir á stofum undir eftirliti lýtalækna og ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki full ástæða ef það er gert að Tryggingastofnun taki þátt í að greiða fyrir það þegar þetta er gert undir eftirliti lækna eins og viðgengst erlendis?

Ég veit að þær konur sem ég var í sambandi við fyrir þremur árum hafa gefist upp á biðinni og fóru einmitt þessa leið en þær þurftu að standa allan straum af kostnaði sjálfar sem er þó nokkuð mikill. Þetta kostar rúmar 25 þús. kr. en aðgerð lýtalæknis við að byggja upp brjóstvörtu er yfir 50 þús. kr. á spítala. Það væri því hagkvæmt fyrir kerfið að greiða fyrir þetta ef það er undir eftirliti læknis.

Ég spyr hæstv. ráðherra einnig að því hvort það verði ekki mögulegt þegar frumvarp um græðara verður orðið að lögum þar sem það heimilar greiðslu fyrir verk þeirra á stofnun ef læknir kallar þá til.

Síðan vil ég taka undir með hv. þm. Þuríði Backman að þetta er ekki fegrunaratriði, þetta er lýtaaðgerð. Þetta getur haft mjög alvarleg sálræn áhrif á konu, áhrif á hennar andlegu heilsu ef mistekst með svona aðgerð. (Gripið fram í.) Það er atriði að þetta líti vel út og verði gert sem best og ég veit að það hefur verið mun árangursríkara þegar þær hafa farið í húðflúrsmeðferðina en þá leið sem viðgengst á sjúkrahúsum með húðflutningana. Ég hvet því hæstv. ráðherra til að beita sér að nýju við að þetta verði tekið upp.



[13:30]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hefur orðið um málið og fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa því.

Ég tel að hér sé í rauninni um tvíþætt mál að ræða. Í fyrsta lagi hvort lagaumhverfið sé hreint og í öðru lagi hvort tekin verði ákvörðun um að taka þarna upp greiðsluþátttöku. Ég tel að það þurfi að vera alveg ljóst að það sé kleift lagalega. Við erum að vinna að endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu o.s.frv. og lagafrumvarp um græðara er til umfjöllunar í Alþingi. Það er náttúrlega einboðið, enda kom það fram í svari mínu, að þetta mál er á dagskrá samninganefndarinnar og er ekki búið að leggja það fyrir róða þar þannig að við höldum áfram að ræða þar um þessa skilgreiningu.

Ég ætla mér ekki þá dul að fara að deila við hv. þingmenn um það hvort þetta er lýtaaðgerð eða fegrunaraðgerð. Sú skilgreining hefur verið uppi en þetta er atriði sem sjálfsagt er að sé í umræðu hjá fagfólki og þær skilgreiningar sem menn hafa. Málið er á dagskrá áfram en ég get ekki lofað neinum dagsetningum í þessu efni, ég verð að segja það í fullri einlægni, en ég tel að það sé áríðandi að við höldum áfram að meðhöndla í samninganefndinni hvaða möguleikar eru þar uppi.