131. löggjafarþing — 65. fundur
 2. feb. 2005.
um fundarstjórn.

Mælendaskrá og umræðuefni í fyrirspurnum.

[15:09]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þannig háttar til undir þessum dagskrárlið að fyrirspyrjandi hefur umræðuna og síðan kemur ráðherra. Síðan koma aðrir þingmenn. Um það var sérstaklega úrskurðað hér í fyrra að síðan ljúki fyrirspyrjandi sínu máli, sé síðastur hinna almennu ræðumanna og síðan komi ráðherra og ljúki umræðunni. Þetta gerir auðvitað ákveðnar kröfur til þeirra sem þátt í því taka, gerir þær kröfur að menn reyni að færa umræðuna fram svona hver af öðrum og það gerir þær kröfur til ráðherra, fyrir utan að svara spurningunni í fyrstu ræðu sinni, að víkja ekki að nýju efni í lok ræðunnar og ræða um allt aðra hluti en þá sem hún var um spurð án þess að þingmenn fái tækifæri til þess að bregðast við eða þeir sem rætt var við.

Hér gerðist t.d. það, forseti, að rætt var um muninn á drengjum og stúlkum í grunnskóla og leikskóla.

(Forseti (JóhS): Forseti verður að biðja hv. þingmann um að halda sig við efnið fundarstjórn forseta en að fara ekki aftur að ræða fyrirspurn sem er komin af dagskrá.)

Forseti. Ég er að því. Ég er að lýsa umræðunni eins og hún gekk. Ég er ekki að færa inn í hana nýtt efni.

Lokasvar ráðherrans var hins vegar um allt aðra hluti. Það var um einkaskóla, um rekstrarform skóla og um frammistöðu Sjálfstæðisflokksins og annarra stjórnmálaflokka í sveitum landsins við að reka grunnskólana. Ef þetta á að verða siðurinn hér á þinginu, forseti, þá hljótum við að breyta þessum dagskrárlið þannig að þingmönnum gefist kostur á því að svara ráðherra þegar hann færir fram ný efni í lokasvar sitt, en ekki er til þess ætlast. Eða er það svo, forseti?



[15:11]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Það komu hér ýmsir þingmenn, ekki bara einn heldur tveir ef ekki þrír, sem sérstaklega fjölluðu um heimsókn Samfylkingarinnar í þennan glæsilega barnaskóla sem er í Garðabæ ...

(Forseti (JóhS): Hér er ekki verið að tala um fundarstjórn forseta.)

Hæstv. forseti. Ég er að útskýra mitt mál og hvernig fundarstjórn forseta samræmist nákvæmlega því sem var sagt hér áðan. Ég er að útskýra hvernig það var. Það er alveg ljóst að ég var að halda mig við fundarstjórn og fundarsköp þingsins í mínu síðara svari með því að taka upp það sem þingmenn höfðu verið að ræða um á undan mér. Mátti ég ekki innan fundarskapa þingsins ræða nákvæmlega þá punkta sem þingmenn sjálfir höfðu bryddað upp á? Ég var ekki að koma með þá heldur voru það þingmenn sjálfir. Eða er það bara þannig að það sé svo erfitt fyrir þingmenn að hlusta á þessa punkta sem ég nefndi?



[15:12]
Forseti (Jóhanna Sigurðardóttir):

Þessari fyrirspurn er svarað.

Forseti gat ekki heyrt að hæstv. menntamálaráðherra færi út fyrir þau mörk sem var verið að ræða hér en ítrekar óskir sínar um það að ef beðið er um orðið undir fundarstjórn forseta þá haldi þingmenn sig við það.