131. löggjafarþing — 65. fundur
 2. feb. 2005.
Íslenskukennsla fyrir útlendinga.
fsp. JBjart, 355. mál. — Þskj. 408.

[15:12]
Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. dómsmálaráðherra lýtur að íslenskukennslu fyrir útlendinga. Í nóvember síðastliðnum var haldin ráðstefna í Reykjavík um þetta á vegum Alþjóðahússins. Þar komu til leiks flestir sem hafa verið að starfa að og vinna að íslenskukennslu fyrir útlendinga í íslensku samfélagi undanfarin ár. Bæði fyrir þá ráðstefnu og eftir hana heyrum við eða heyri ég af og til ákveðnar umkvartanir um hvernig staðið er að íslenskukennslunni eða kannski eiginlega ábendingar um hvað betur mætti fara í íslenskukennslu fyrir útlendinga.

Það sem ég sérstaklega beini til hæstv. dómsmálaráðherra í þessu er íslenskukennslan sem er skilyrði fyrir útgáfu búsetuleyfis. Ég tel að það sé sá hluti íslenskukennslunnar í íslensku samfélagi sem fyrst og fremst heyrir undir hæstv. dómsmálaráðherra. Þetta var á sínum tíma gert að skilyrði fyrir búsetuleyfinu. Það voru færð rök fyrir því bæði í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar og eins í framsöguræðu þáverandi formanns nefndarinnar. Í henni var m.a. gerð grein fyrir því að íslenskukunnátta sé forsenda þess að menn geti tekið virkan þátt í íslensku samfélagi og það sé mikilvægt að útlendingar sem hyggjast setjast að á Íslandi aðlagist íslensku samfélagi sem fyrst og það séu ekki hagsmunir bara útlendingsins sjálfs heldur líka hagsmunir samfélagsins í heild. Meiri hlutinn í nefndaráliti sínu og formaður meiri hlutans í ræðu sinni lagði áherslu á að tryggt yrði nægilegt framboð á námskeiðum í íslensku um land allt og jafnframt á það að gjaldið fyrir námskeiðin yrði hóflegt.

Á þessum tíma þegar mælt var fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndarinnar gat formaður allsherjarnefndar þess líka að fram hefðu komið ábendingar um að fram að þeim tíma hafi ekki verið nægilegt framboð af þessum námskeiðum og lagði áherslu á það að með því að við í meiri hlutanum vildum lögbinda þetta sem skilyrði fyrir búsetuleyfi þá værum við að sýna hvað okkur væri mikil alvara í því að tryggja að Íslendingar næðu sem bestum tökum á íslenskunni og líka að þá væri komin ákveðin skylda. Þá væri komin ákveðin skylda á stjórnvöld að stuðla að því að námsefnið væri nægjanlegt.

Ábendingarnar eru ýmsar um það sem betur mætti fara. En vegna þessa máls beini ég til hæstv. dómsmálaráðherra fyrirspurnum um framkvæmd lögboðinna námskeiða, hvort framboðið sé fullnægjandi um land allt, hvort það sé nægilegt framboð á sérmenntuðum kennurum og á námsefni sem hæfi ólíkum þörfum útlendinga og loks hvort mat hafi verið lagt á það hvort 150 kennslustundir skili þeim árangri sem að er stefnt.



[15:15]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Frú forseti. Ég þakka þessar spurningar.

Núgildandi lög um útlendinga tóku gildi þann 1. janúar 2003. Það var fyrst með samþykkt þeirra laga eins og fram hefur komið sem sú stefna var mörkuð að áður en varanlegt búsetuleyfi yrði gefið út skyldi umsækjandi hafa sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga. Á þeim lagagrundvelli hefur dómsmálaráðuneytið sett ákvæði um íslenskukennslu umsækjenda um dvalarleyfi inn í reglugerð um útlendinga, nr. 53/2003. Í reglugerðina er sett sú regla að umsækjandi um búsetuleyfi hafi lokið námskeiðum í íslensku sem sé að lágmarki 150 stundir. Þá er í reglugerðinni ákvæði um lágmarkstímasókn og undanþágu fyrir þá sem standast íslenskupróf og fyrir þá sem af líkamlegum eða andlegum ástæðum geta ekki tekið þátt í slíku námskeiði.

Af hálfu dómsmálaráðuneytisins hefur verið litið svo á að nýta beri þá þjálfun og reynslu sem safnast hefur fyrir hjá þeim sem kenna útlendingum íslensku, en fjölmargir aðilar hafa kennt útlendingum íslensku eins og kunnugt er. Má þar nefna framhaldsdeildir víða um land, Námsflokka Reykjavíkur, Fjölmenningu og fleiri. Fyrsta skrefið til að hrinda í framkvæmd þessum ákvæðum laganna fólst í því að halda námskeið fyrir þá kennara sem halda vilja námskeið fyrir útlendinga sem hyggjast sækja um búsetuleyfi, þar sem jafnframt var leiðbeint um samræmt námsefni.

Unnið hefur verið að frekari undirbúningi varðandi þennan þátt málsins í samvinnu við Kennaraháskóla Íslands. Samþykkt var í fjárlögum fyrir árið 2005 eins og þingmenn vita að veita 5 millj. kr. í verkefni af þessum toga. Samið hefur verið um það við Kennaraháskóla Íslands að hann taki þetta verkefni að sér og hafa farið fram viðræður á grundvelli þessarar samþykktar Alþingis um fjárveitingu við Kennaraháskólann á undanförnum dögum um að fyrir mitt þetta ár liggi fyrir námskrá, tillögur um námsefni, tillögur um þær kröfur sem á að gera til þeirra sem veita kennslu á þessum námskeiðum og aðra þá þætti sem gera það kleift að gera ákveðnar og skýrari kröfur en unnt hefur verið að gera miðað við þau ákvæði í reglugerð og lögum sem við búum við. Ég tel að það hafi verið ákaflega mikilsvert skref sem var stigið á síðasta ári í samvinnu dóms-, mennta- og fjármálaráðuneyta að vinna að því að fá fagmenn í háskóla til að vinna að þessu verki og er Kennaraháskóli Íslands að vinna að því núna.

Á meðan unnið hefur verið að því að skipuleggja menntun leiðbeinenda hafa dómsmálaráðuneytið og Útlendingastofnun litið svo á að rétt væri að stilla kröfum til þeirra námskeiða sem umsækjendur um búsetuleyfi hafa sótt í hóf og hefur ekki verið gerð krafa um að dómsmálaráðuneytið hafi samþykkt námskeiðshaldara sérstaklega. Hefur í framkvæmd verið látið við það sitja að umsækjendur skili vottorðum um íslenskunám í tilsettum tímafjölda frá starfandi skólum og námsflokkum án þess að eftir því sé gengið að viðkomandi námskeiðshaldarar gerðu ítarlega grein fyrir því námi sem um er að ræða.

Einnig hefur verið samið við Fjölmenningu um að halda stöðupróf, auk þess sem Fjölmenning hefur haldið námskeið fyrir leiðbeinendur. Hafa íslenskupróf fyrir útlendinga verið haldin víða um land. Þannig hefur verið leitast við að koma til móts við þarfir þeirra útlendinga sem hafa lært íslensku og sækja vilja um búsetuleyfi á meðan unnið er að því að koma hér upp hópi viðurkenndra leiðbeinenda sem getur sinnt þessu verkefni til frambúðar.

Ég vil benda á að í flestum löndum Evrópu hefur sú krafa orðið háværari að undanförnu að þeir sem þar setjast að til langframa tileinki sér þá færni sem nauðsynleg er til að geta orðið virkir þátttakendur í samfélaginu og það sé fyrir miklu að hér sé ekki tjaldað til einnar nætur heldur sé markvisst unnið að því að byggja upp hæfan hóp sérmenntaðra kennara til að takast á við þetta verkefni.

Einnig hefur komið fram, eins og þingmenn vita, í öllum könnunum að þeir útlendingar sem hér búa leggja ríka áherslu á að fá tækifæri til að læra íslensku. Yfir 90% þeirra telja að þeir eigi að fá tækifæri til þess og vilja í raun læra íslensku. Við áttum okkur á því líka þegar við lítum til reynslu annarra þjóða að það er lykilatriði fyrir okkur eins og þær þjóðir að auðvelda útlendingum að tileinka sér tungu okkar Íslendinga þannig að þeir verði virkir þátttakendur í samfélaginu. Þar sem sú leið er ekki farin er hætta á að fólk einangrist og minnihlutahópar myndist. Það er ekki stefna okkar eins og margoft hefur komið fram á Alþingi og við viljum að allir fái notið sín sem best í okkar þjóðfélagi. Til þess að gera það þurfa menn að kunna íslensku.



[15:20]
Herdís Á. Sæmundardóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hafa orðið um þetta mikilvæga mál og tek undir að það er ákaflega brýnt að efla íslenskukennslu fyrir útlendinga. Ekki einungis í þeim tilgangi að gera þeim kleift að aðlaga sig betur að íslensku samfélagi, heldur ekki síður í þeim tilgangi að við getum nýtt þá krafta, hæfileika og þekkingu sem þessir nýju íbúar búa yfir og geta fært samfélagi okkar, bæði til að auka menningu okkar og ekki síður í því skyni að auðga atvinnusköpun og nýsköpun í atvinnulífinu.

Fram kom hjá hæstv. ráðherra að verið er að vinna að þessu máli. Ég hvet til þess að bæði námsefnisgerð fyrir útlendinga verði aukin mjög, sem og að kennaramenntun fyrir þá aðila sem kenna útlendingum verði efld.



[15:21]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu fyrirspurn.

Mér er kunnugt um að námskeið eru í boði fyrir útlendinga um allt land á vegum símenntunarmiðstöðvanna. Það er hins vegar oft erfiðleikum háð að koma þeim á vegna þess að námskeiðin eru tiltölulega dýr vegna þess að víða eru fáir á hverjum stað sem geta sótt umrædd námskeið og verða þau þar með miklu dýrari en ella. Auk þess sem auðvitað er oft skortur á viðeigandi námsefni en það horfir nú að ýmsu leyti til bóta. Einn erfiðleikinn enn ef svo má segja er ef fólk kemur af fjarlægum málsvæðum þar sem hljóð eru allt önnur en í tungumáli okkar, ritmálið annað og tungumálið svo gjörólíkt að Íslendingar geta ekkert ímyndað sér það. Einn stærsti hjallinn á þessum vegi er einmitt kostnaðurinn. Þar tel ég að ríkið þurfi að koma til móts við (Forseti hringir.) einstaklingana að svo miklu leyti sem stéttarfélög gera það ekki.



[15:23]
Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í sambandi við þau lög sem sett voru um árið um málefni útlendinga og búseturétt þeirra, þá var þeim gert að sækja námskeið eða íslenskunám sem væri 150 kennslustundir. Það vantaði hins vegar í þann pakka að slíkt kostar auðvitað peninga. Enn sem komið er er ekki til námsefni eftir því sem mér skilst nema fyrir 50 stunda nám og það er ekkert samræmi á milli þess sem verið er að kenna því til viðbótar.

Mér skilst, eins og kom fram hér áðan, að námskeiðin kosti mikið og menntamálayfirvöld hafa ekki lagt til nægjanlegt fé til að gera fólki kleift að fara á þessi námskeið.

Í þessu eins og ýmsu öðru hefur verið bent á aðra. Mér fannst ekki koma nægilega fram í svörum hæstv. ráðherra áðan, (Forseti hringir.) með peningamálin. Hann talar um 5 milljónir, en þær hrökkva skammt.



[15:24]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér er hreyft ákaflega þörfu máli. Það er auðvitað mjög mikilvægt að sú stefnumótun sem hér hefur verið tekin upp að reyna að koma í veg fyrir að útlendingar einangrist í málhópum sínum, ef hægt er að orða það svo, og að þeir nái tengslum við þjóðfélagið, gangi fram sem markvissast.

Ég vil líka draga það sérstaklega fram að ég tel að í hópi þeirra erlendu ríkisborgara sem hér hafa sest að sé falin mikil þekking og mikil reynsla sem geti fært íslensku þjóðfélagi mikinn ábata þegar fólk nær tökum á málinu og tökum á því að eiga eðlileg samskipti í þjóðfélaginu.

Ég lít svo á að eftir miklu sé að slægjast fyrir íslenskt þjóðfélag að ná þessum málum fram með þeim hætti að útlendingar öðlist lágmarksþekkingu og samskiptaformið við íslensk stjórnvöld geti orðið eðlilegt.



[15:25]
Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargott svar hans. Í svari hæstv. ráðherra kom fram að við erum komin það langt í dag að við erum að leggja grunninn með fjárframlagi nú á fjárlögum fyrir 2005 að undirbúningi þess að mennta kennarana, mennta leiðbeinendur, viðurkennda leiðbeinendur. Það segir sig í rauninni sjálft að við eigum jafnframt svolítið langt í land með að mæta þeim þörfum sem fyrir eru í samfélaginu.

Ég hlýt að undirstrika að í áframhaldandi vinnu að þessum málum sé lögð í fyrsta lagi áhersla á að tryggt sé nægjanlegt framboð um land allt. Í öðru lagi að gert sé ráð fyrir mismunandi þörfum útlendinganna, ekki bara eftir aldri þeirra og móðurmáli, heldur líka eftir lestrargetu. Í ljós hefur komið að sumir þessir útlendingar eru ekki einu sinni læsir. Það kallar á fólk með allt annan undirbúning og allt annað kennslu- og námsefni.

Svo vil ég líka draga það fram af því ég hef fulla trú á því út frá orðum ráðherra að við ætlum að ná í höfn í þessu máli, að ég held að raunveruleikinn sé sá að útlendingar sem vilja sækja þessar 150 kennslustundir sem hæstv. ráðherra gat um að væri ekki gengið fast á eftir, þurfa að endurtaka byrjendanámskeið. Þeir þurfa að taka sama námskeiðið þrisvar sinnum til að ná 150 stundum — og eftir stendur þá spurningin sem ég vil gjarnan beina til ráðherra — að það verði lagt mat á það hvort þessar 150 kennslustundir skili þessum árangri sem að er stefnt, þ.e. að auðvelda útlendingum aðlögun að íslensku samfélagi. Og ég vil fá að gleðjast sérstaklega yfir því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra hvað hann lagði mikla áherslu á gildi þess, ekki bara fyrir samfélagið, heldur fyrir útlendingana sjálfa, sérstaklega að tryggja að þeir einangruðust ekki í samfélagi okkar.



[15:28]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Frú forseti. Ég get fullvissað þingmenn um að unnið er að þessu með það að markmiði að þessar 150 kennslustundir nýtist þeim sem þær hljóta og einnig að búið verði þannig um hnúta að menn geti stundað þetta nám án þess að það verði þeim of dýrkeypt í sjálfu sér þegar litið er til kostnaðar. Hins vegar eru ekki í neinum lögum heimildir til að greiða þennan kostnað úr ríkissjóði. Þegar lögin voru sett var gengið að því sem vísu að menn yrðu að afla sér fjár til þess að standa undir kostnaðinum sjálfir. Það hefur verið síðan gengið til þess eins og þingmenn vita að stórefla starfsmenntasjóði. Ég veit að þeir koma að þessum málum og fjölmargir aðrir koma líka að því að fjármagna þetta, en ríkið á að sjá um að umbúnaðurinn sé viðunandi og það er það sem við erum að vinna að og verið er að vinna að því í samvinnu við Kennaraháskóla Íslands.

Að sjálfsögðu á inntakið í náminu, þessar 150 kennslustundir, að vera þess eðlis að sómi sé að því. Menn geta líka velt því fyrir sér hvort 150 stundir séu nægar. Við sjáum að í öðrum löndum hafa menn farið eins og í Þýskalandi í 600 stundir og í enn öðrum löndum er krafist enn lengra náms í tungumáli til að menn fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru að þessu leyti.

Þetta eru því allt skref sem þarf að stíga og velta fyrir sér. Aðalatriðið er að við erum sammála um það hér að leggja beri áherslu á þennan þátt. Það er mikilvægt. Síðan eigum við í sameiningu að vinna að því að gera sem flestum kleift að stunda þetta nám og tryggja að inntakið í náminu sé þess eðlis að það sé þess virði að stunda það.