131. löggjafarþing — 65. fundur
 2. feb. 2005.
Smíði nýs varðskips.
fsp. MÞH, 368. mál. — Þskj. 432.

[15:30]
Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að leggja fyrirspurn fyrir hæstv. dómsmálaráðherra. Hún hljóðar svo:

Hvað líður undirbúningi stjórnvalda að smíði nýs varðskips fyrir Landhelgisgæsluna?

Ég held að allir Íslendingar geti sammælst um mikilvægi þess fyrir okkur, þessa eyþjóð sem hefur lífsviðurværi sitt af hafinu að verulegu leyti, að búa á hverjum tíma yfir öflugum varðskipum. Varðskipin hafa gegnt mjög mikilvægu hlutverki við strendur Íslands allt frá því að þjóðin fór að sækja út fyrir fjöruborðið, ef svo má segja, fyrst varðskip í eigu Dana og síðan varðskip í eigu okkar Íslendinga. Þessi skip hafa oft og tíðum skipt mjög miklu máli við ýmiss konar eftirlit í landhelginni, fiskveiðieftirlit einkum og sér í lagi en á síðari árum hafa einnig komið fram þarfir varðandi t.d. eftirlit í tengslum við hugsanlegt smygl á fíkniefnum og nú hugsanlegar varnir gegn hryðjuverkaógn. Síðasta haust fengum við hér upp að ströndum vægast sagt vafasama heimsókn rússnesks herskipaflota sem lýsti því yfir að hann væri kominn hingað upp að 12 mílunum til að stunda heræfingar, lá hér síðan vikum saman og enginn vissi í raun og veru hvað var á ferli.

Við höfum líka séð að við þurfum á varðskipum að halda, til að mynda þegar veður eru válynd við Ísland, svo sem þegar snjóflóðin féllu á Vestfjörðum fyrir 10 árum. Snjóflóð féllu á Vestfjörðum í vetur. Við höfðum fyrir örfáum dögum tilvik þar sem stórt flutningaskip lenti í vandræðum suðaustur af landinu og þá kom berlega í ljós að gömlu varðskipin okkar réðu varla við þetta verkefni.

Í Reykjavík varð stórbruni nálægt hafnarsvæðinu í vetur og þar skipti miklu máli að danskt varðskip var í höfn sem gat hjálpað okkur með dælubúnað til að dæla sjó á hið mikla bál sem logaði þar. Ég held að öllum sé því ljóst að við erum í raun og veru að leika okkur að eldinum, ef svo má segja, með því að sinna því ekki að efla skipakost Landhelgisgæslunnar. Það er að sanna sig ítrekað að við þurfum á almennilegum skipum að halda. Þó að þau skip sem við höfum í dag séu góðra gjalda verð, svo skammt sem þau ná liggur mér við að segja, og hafi skilað mjög góðu starfi í gegnum árin eru þau í dag orðin gjörsamlega úrelt.

Hér hefur í mörg ár verið umræða um að hefja smíði á nýju varðskipi en það er eins og málið hafi stoppað einhvers staðar í kerfinu. Það hefur ekkert frést af því lengi og þess vegna legg ég þessa fyrirspurn fyrir hæstv. dómsmálaráðherra í dag.



[15:33]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Frú forseti. Ég mótmæli því að núverandi varðskip okkar séu gjörsamlega úrelt eins og hv. fyrirspyrjandi komst að orði, síður en svo. Þau eru alls ekki úrelt, þessi varðskip hafa dugað okkur vel og geta dugað okkur vel áfram. Ég var síðast í hádeginu um borð í varðskipinu Tý sem var að koma frá Austfjörðum þar sem það tók þátt í björgunarstörfum, eins og við vitum, um síðustu helgi vegna bilunar hjá Dettifossi. Ég fór yfir það með skipherra Týs hvernig þeir stóðu að þeirri björgun. Ég er sannfærður um það eftir þann fund að það að taka þannig til orða að varðskipið Týr sé gjörsamlega úrelt er ranghermi og stenst ekki á nokkurn hátt.

Það breytir ekki hinu að unnið hefur verið að því, eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, að smíða nýtt varðskip. Sérstök smíðanefnd var að störfum fram til ársins 2000 og síðan unnu Ríkiskaup að gerð útboðsgagna á grunni hugmynda nefndarinnar. Gert er ráð fyrir að það skip sem þar var til skoðunar mundi kosta 3–4 milljarða króna, eins og hugmyndirnar liggja fyrir núna.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það eigi að fara yfir alla þá kosti sem fyrir hendi eru þegar menn velta því fyrir sér hvort það sé skynsamlegt fyrir okkur að smíða svo stórt skip og meta það að nýju miðað við þróunina sem orðið hefur á þeim árum sem liðin eru frá því að menn lögðu af stað í þann leiðangur sem hefur skilað þeirri niðurstöðu að við þurfum 3–4 milljarða króna til að framkvæma tillögur sem liggja á borðinu.

Eins og fram hefur komið í fréttum undanfarið höfum við, nýr forstjóri Landhelgisgæslunnar og ég, átt fundi um þessi mál. Ég ræddi þau einnig um borð í varðskipinu Tý í dag og fór yfir hugmyndir um það hvaða leiðir væru bestar til þess að ráðast í endurnýjun á skipastóli Landhelgisgæslunnar. Það er augljóst að fleiri kostir eru til í stöðunni en sá að við látum sérsmíða skip fyrir okkur. Víða um lönd og víða um heim er verið að smíða skip sem fullnægja þeim kröfum sem við mundum gera og eigum að gera. Mér finnst alveg sjálfsagt að skoða þá kosti til hlítar og að við veltum því fyrir okkur hvort ekki sé unnt að nálgast þetta viðfangsefni á ódýrari hátt en hugmyndirnar um nýtt og miklu stærra skip en við höfum átt til þessa gera ráð fyrir.

Þetta verður skoðað og ég býst við því að við fáum haldfestu í málinu tiltölulega fljótt. Þá verða hugmyndir kynntar og þá verður líka gefið færi á því að starfsmenn Landhelgisgæslunnar fái tækifæri til að kynna sér þau skip sem til álita kunna að koma, leggja mat á málið og athuga til þrautar hvort ekki sé hægt að fara skemmri leið að því markmiði að endurnýja skipakost Landhelgisgæslunnar en þá að ráðast í smíði á þessu stóra og dýra skipi sem yrði sérsmíðað fyrir okkur.

Ég vil líka geta þess að ég tel að það eigi að eiga sér stað samvinna milli okkar og nágrannaþjóða okkar á þessu sviði. Það ber að vinna að því skipulega og gera samstarfssamninga við þjóðirnar í Norður-Atlantshafi um hvernig staðið er að eftirliti. Við sjáum t.d. að Norðmenn eru að gera sérstakar og nýjar ráðstafanir vegna siglinga risastórra olíuskipa frá svæðum í Barentshafi suður á milli Noregs og Íslands. Þar hafa menn gripið til ráðstafana sem eru til þess fallnar að gæta öryggis. Ég tel að við eigum að tengjast slíkum ráðstöfunum og að það eigi að efla samstarf milli þjóðanna við Norður-Atlantshaf í þessu skyni.

Ég hef lagt á ráðin með nýjum forstjóra Landhelgisgæslunnar og starfsmönnum hennar um að gengið verði til þess samstarfs og það einnig gert á formlegri hátt en nauðsynlegt er til að styrkja enn frekar öryggisgæslu og eftirlit hér á okkar slóðum.

Það að danskt skip var af tilviljun statt í Sundahöfn þegar eldur kviknaði í Hringrás var heppni. Vafalaust hefði annað skip, líka með búnaði, getað aðstoðað en það breytir engu um, var ekkert atriði og verður ekkert atriði þegar menn leggja mat á það hvort endurnýja þurfi varðskipakost okkar Íslendinga.



[15:38]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég er nærri viss um að skipstjórnarmönnum Landhelgisgæslunnar hefur lengi verið ljóst að núverandi varðskip mundi ekki ráða við stærstu skip sem hér sigla til landsins við vissar veðuraðstæður. Ég held að reynslan við Suðausturland undanfarna viku hafi sýnt okkur það vel og vandlega. Það var mikil mildi að vindur skyldi standa þar af landi en ekki á land.

Við erum líka að fá hér olíuskip upp að landinu og inn á Faxaflóa, og flutningar til álverksmiðja munu aukast hingað þannig að það er vissulega mikil þörf í framtíðinni fyrir stærra og öflugra skip. Ég held að við ættum að skoða það vandlega hvort ekki sé rétt að við byggjum það skip sem talað hefur verið um lengi á undanförnum árum.



[15:39]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn og vil leggja aðeins orð í belg. Það er nauðsynlegt að endurnýja skipakost Landhelgisgæslunnar. Ég held að allir séu sammála um það sem hafa aðeins kynnt sér málið, og þótt ekki hafi nema fylgst með björgunaraðgerðum varðskipanna Ægis og Týs fyrir nokkrum dögum. Þó að þau séu með sterkar og góðar vélar eru þau gömul, en sérstaklega eru þau of lítil miðað við það hvað fraktskipin hafa stækkað. Það er erfiðleikum bundið að vera í björgunaraðgerðum með svo stór skip.

Hvort haldið verður áfram þeim hugmyndum sem uppi hafa verið um að smíða sérstakt varðskip miðað við íslenskar aðstæður eða hvort leitað verður að skipi í þessum tilgangi skal ég ekkert segja um. Það sem skiptir máli er að þeir sem vinna við Landhelgisgæsluna séu þá fullsáttir um þá lausn sem verður valin.



[15:41]
Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa undrun minni. Þegar maður skoðar söguna sést að þetta mál var komið í mjög fastan og ákveðinn farveg að því er virtist í dómsmálaráðherratíð Þorsteins Pálssonar og Sólveigar Pétursdóttur. Árið 1998 var mjög mikið talað um að fara ætti út í að smíða nýtt varðskip og þá var meira að segja búið að taka þá ákvörðun að ekki yrði leitað útboða heldur yrði samið beint við ákveðna aðila, m.a. hér á landi. Hinn 1. apríl árið 2000 var hæstv. þáverandi dómsmálaráðherra Sólveigu Pétursdóttur kynnt smíðalýsing að nýju 105 metra löngu varðskipi. Útlitsteikningar lágu fyrir. Þetta skip átti þá að kosta 2,4 milljarða króna. Síðan er eins og ekkert hafi gerst og ég tel að það sé á margan hátt ámælisvert að menn skuli ekki hafa sýnt meiri festu í þessu máli, þ.e. að leita lausna til að finna út í hvaða farveg við viljum koma þessu máli, þ.e. hvernig við ætlum að hafa og efla skipakost Landhelgisgæslunnar í framtíðinni.

Ég var ekki alveg sáttur við svör hæstv. dómsmálaráðherra áðan. Mér fannst hann tala mjög óskýrt. Hann sagði í raun og veru ekki skýrt hvaða lausnir lægju á borðinu, hvað menn væru að hugsa í þessum málum. Var hann að tala um að það ætti að kaupa skip? Á að kaupa notað skip, á að taka skip á leigu eða á að fara út í nýsmíði? Við erum að leita eftir svörum við þessum spurningum.

Ég hef sjálfur varpað fram þeirri hugmynd, gerði það m.a. í viðtali við Ríkisútvarpið þann 24. júlí síðasta sumar, að við ættum að skoða þann möguleika að leigja skip. Ég sá að nýráðinn forstjóri Landhelgisgæslunnar varpaði þessari hugmynd fram í Fréttablaðinu fyrir örfáum dögum og ég tel að hún sé góðra gjalda verð og að við ættum hiklaust að skoða hana. Það er þó nokkur vinna að skoða þetta mál því að við þurfum að gera okkur grein fyrir því hvernig við ætlum að útfæra þetta. Ef við ætluðum að leigja skip, m.a. erlendis frá, væri það til að mynda svolítið neyðarlegt ef það skip væri varðskip fyrir Íslendinga og sigldi kannski undir einhverjum hentifána.



[15:43]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að ræða þetta mál af þeirri léttúð sem kom fram í máli síðasta ræðumanns. Að sjálfsögðu eru allir kostir skoðaðir. Það er hægt að leigja skip og það er hægt að láta sérsmíða skip og allar leiðir eru færar í þessu. Aðalatriðið er, eins og kom fram í máli hv. þm. Þuríðar Backman, að menn séu sáttir við niðurstöðuna. Ég held að í sjálfu sér hafi engin sérstök sátt ríkt um það að verja 3–4 milljörðum króna í smíði nýs stórs varðskips. Ég held að ekki hafi verið komin nein sú niðurstaða varðandi það mál að hægt sé að segja að einhver endanleg niðurstaða hafi orðið í víðtækri sátt.

Menn hafa alltaf verið með opinn huga í þessu, velt fyrir sér öllum kostum og skoðað. Það þarf að skilgreina þarfirnar og átta sig á því hvaða verkefni blasa við Landhelgisgæslunni. Það hefur komið fram í ræðum manna í dag að það er ekki síst öryggi vegna þess að skip á hafinu í kringum landið hafa stækkað og þá þarf að huga að skipi sem hefur mikið dráttarafl og mikinn kraft til að bregðast við þeim aðstæðum. Í þessu tilliti þurfum við ekki að finna upp hjólið, það hefur þegar verið fundið upp. Spurningin er hvort við ætlum að láta laga það að okkar sérstöku þörfum og þeim kröfum sem við gerum. Það að standa hér upp, berja sér á brjóst og tala um nauðsyn þess að það þurfi að smíða eitthvert sérstakt skip held ég að sé ekki rétta afstaðan í málinu ef menn ætla að vera raunsæir og vinna að því í raun og veru að endurnýja skipakost Landhelgisgæslunnar á skynsamlegasta hátt.