131. löggjafarþing — 65. fundur
 2. feb. 2005.
Þjónusta við innflytjendur.
fsp. JBjart, 356. mál. — Þskj. 409.

[15:45]
Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Í annað skiptið á þingfundi þessum ber ég fram fyrirspurn um málefni innflytjenda auk málefna útlendinga og íslenskukennslu. Eitt af því sem við verðum vör við í samskiptum okkar við útlendinga og útlendingasamfélagið hér er, eins og við öll þekkjum, að töluvert er kvartað yfir því að ráðuneytin vísi hvert á annað og málaflokkurinn mismunandi þarfir útlendinga sé ekki sameinaður innan stjórnsýslunnar, undir eitthvert eitt ráðuneyti. Öll þekkjum við umræðuna um atvinnuleyfin annars vegar og dvalarleyfin hins vegar. Þrátt fyrir mjög gott samstarf Vinnumálaskrifstofu og Útlendingastofnunar hafa menn enn þá orð á þessu.

Á dögunum var í umræðunni Gallup-könnun um fordóma gagnvart útlendingum. Hæstv. félagsmálaráðherra sagði þá, frú forseti, að fyrir lægju drög að tillögum um heildarskipulag á þjónustu við innflytjendur og sérstökum hópi hefði verið falið að útfæra tillögurnar. Síðan sagði ráðherrann að hann ætti von á niðurstöðum fyrir áramót og tillögum um hvernig málefnum innflytjenda verði best fyrir komið í stjórnsýslunni til framtíðar.

Mér leikur auðvitað forvitni á að vita, frú forseti, hvað nefndarstarfinu líður. Margt annað er forvitnilegt varðandi heildartilhögun á málefnum innflytjenda innan stjórnsýslunnar en bara íslenskukennslan. Það væri því gaman ef ráðherrann gæti upplýst það. En fyrirspurn mín til hæstv. félagsmálaráðherra lýtur að því hvort gera megi ráð fyrir að þær tillögur sem hann vísaði til í ræðu sinni, um heildarskipulag þjónustu við innflytjendur og um fyrirkomulag þjónustunnar innan stjórnsýslunnar, taki líka til tilhögunar íslenskukennslu fyrir útlendinga.

Vert er að halda því til haga að útlendingahópurinn er stór og fólk með misjafnar þarfir. Í umræðunni fyrr í dag um fyrirspurn sem ég beindi til dómsmálaráðherra var aðeins talað um íslenskukennslu sem skilyrði búsetuleyfis en innflytjendur og útlendingar á Íslandi eru náttúrlega stór og fjölbreytilegur hópur. Eins og ég sagði í upphafi hefur útlendingasamfélagið á Íslandi m.a. bent á að erfitt sé að átta sig á hver beri ábyrgð á hverju. Svo sitja ráðherrar undir því í þessu máli eins og stundum áður að þeir vísi málaflokknum hver á annan.



[15:48]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þm. Jónínu Bjartmarz fyrir að taka þessi mál upp á þingfundi með þeim hætti sem raun ber vitni.

Til mín er beint ákveðinni spurningu. Eins og þegar hefur komið fram í umræðu um málefni útlendinga að undanförnu er að störfum samráðshópur á mínum vegum sem hefur það verkefni að fylgja eftir tillögum um framtíðarskipulag um málefni útlendinga, einkum hvað varðar félagslega þjónustu við þá. Í því felst m.a. að þjónustan verði samræmd um allt land. Hér er bæði átt við skipulag og rekstur þjónustunnar. Þessi hópur á enn fremur að fjalla um framtíðarskipulag á móttöku flóttamannahópa og starfsemi flóttamannaráðs.

Ég geri ráð fyrir, hæstv. forseti, að fá tillögur starfshópsins í hendur síðar í þessum mánuði. Hópnum er falið að fjalla um aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi. Þá er fyrst og fremst miðað við ýmsa almenna þjónustu svo sem félagsþjónustu, upplýsingamiðlun til innflytjenda, túlkun, söfnun upplýsinga, rannsóknir og ráðgjöf. Í honum er ekki fjallað um svið sem heyra afmarkað undir önnur ráðuneyti, svo sem heilsugæslu eða menntun, þar með talda íslenskukennslu. Félagsmálaráðuneytið lítur svo á að íslenskukennsla fyrir útlendinga, námsframboð, námsefni og kennsla, heyri undir menntamál og sé á forræði menntamálaráðuneytisins. Þar með rættist spá hv. þingmanns um að málefninu væri að vissu leyti vísað á annað ráðuneyti. Þrátt fyrir það geri ég mér grein fyrir því, hæstv. forseti, að íslenskukennsla fyrir útlendinga, ekki síst fyrir börn og ungmenni, er afar mikilvægur þáttur í að tryggja farsæla aðlögun innflytjenda að samfélaginu. Lágmarksgeta í íslensku er forsenda þess að einstaklingar fái tækifæri til að taka þátt í samfélaginu og að gagnkvæm aðlögun eigi sér stað.

Að mínu mati er augljóst að stjórnvöld þurfa að tryggja að útlendingar hafi aðgang að námskeiðum í íslensku. Þekking í íslensku er grundvallaratriði gagnvart því að ekki myndist einangraðir minnihlutahópar fólks sem er af erlendu bergi brotið.

Eitt af skilyrðum þess að útlendingur fái búsetuleyfi, en það felur í sér rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi, er að hann hafi sótt námskeið í íslensku, samanber 1. mgr. 15. gr. útlendingalaga. Þess má geta, hæstv. forseti, að við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið í ár var samþykkt 5 millj. kr. tímabundið framlag til að móta kröfur um námskeið í íslensku fyrir útlendinga sem sækja um búsetuleyfi samkvæmt lögum um útlendinga. Dómsmálaráðuneytið hefur leitað til Kennaraháskólans í því sambandi.

Ég vil sömuleiðis minnast á, hæstv. forseti, að í janúar kynnti Fjölmenningarsetur á Vestfjörðum helstu niðurstöður könnunar sem gerð var meðal erlendra starfsmanna frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Könnunin var gerð á Vestfjörðum og Austurlandi. Niðurstöðurnar eru að mörgu leyti fróðlegar og kom m.a. fram, sem kannski kemur engum á óvart, að við þyrftum að efla íslenskukennslu fyrir þann hóp. Raunar kom fram að hópurinn kallaði mjög ákveðið eftir því. Stefnt er að því að gera sambærilega könnun og þegar hefur verið gerð á Austurlandi og Vestfjörðum um allt land.

Hæstv. forseti. Ljóst er að við getum gert mun betur varðandi íslenskukennslu fyrir útlendinga bæði hjá börnum og fullorðnum. Að störfum er samráðshópur með fulltrúum dómsmála-, menntamála- og félagsmálaráðuneytis um íslenskukennslu fyrir útlendinga. Í ljósi niðurstaðna könnunarinnar sem ég minntist á fyrr hafa átt sér stað viðræður milli áðurnefndra ráðuneyta um nauðsyn þess að gefa því starfi nánari gaum, efla samstarfið, gera það formlegra og víkka viðfangsefni starfshópsins. Það er vilji til að svo verði. Samhliða því má gera ráð fyrir að tryggja þurfi aukið fjármagn til frambúðar til íslenskukennslu fyrir útlendinga.



[15:52]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn sem er tímabær. Það er mikilvægt að sá starfshópur sem er að störfum á vegum félagsmálaráðuneytisins skili sem fyrst af sér og að brugðist verði við tillögum hans. Vinna þarf í nánu samstarfi milli ráðuneytanna að því er snertir hvert og eitt þeirra. Þessi málaflokkur er ekki eyland.

Það er mikilvægt að stuðla að því að innflytjendur aðlagist sem fyrst íslenskum aðstæðum og menningu. Íslenskan er lykillinn að því að fólk aðlagist samfélaginu þannig að ekki myndist einangraðir hópar. Það væri ávísun á fordóma og útlendingahatur. Námskeið í íslensku er lykillinn að farsælli lausn þeirra mála. Fyrir þá sem sækja um búsetu og þarf því að vera í boði íslenskunám á hverjum stað. Til þess er hægt að nota grunnskólakerfið. Það verður að vera innflytjendum að kostnaðarlausu svo að það skili sér.



[15:53]
Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Mig langar fyrst að nefna það, af því að það var mjög umdeilt mál í sölum Alþingis á sínum tíma þegar við samþykktum útlendingalögin og það að lögbinda að útlendingar skyldu sækja námskeið í íslensku og það ríkir mikil jákvæðni gagnvart þeirri ráðstöfun. Fólk telur það vera til hagsbóta og að ef skyldan væri ekki fyrir hendi telja menn að þeir og ættingjar þeirra mundu síður sækja þessi námskeið. Ég tel að það sé alveg hárrétt.

Á sínum tíma var jafnframt talið að ákveðin rök væru fyrir því að þetta skyldi kosta útlendinga, að sækja þessi námskeið, og þeir kynnu þá betur að meta þau. Ýmis rök voru nefnd fyrir því. En jafnframt, af því að þjónustan átti að kosta, var lögð áhersla á að gjaldið yrði hóflegt. Kannski er það þess vegna að 150 stundirnar eru ekki nema 150 stundir. Spurningin er hvort 150 stundirnar duga. Ég veit að t.d. í Noregi eru þetta 1.100 stundir, innflytjandanum að kostnaðarlausu.

Það er því alla vega ljóst að rétt væri að láta meta hvort það er raunhæft að reikna með því að 150 stundir dugi útlendingi til að öðlast þá færni í íslensku að hann geti aðlagast samfélaginu. Það er jú markmiðið með þessu öllu.

Ég þakka ráðherranum fyrir ágætt svar hans. Mér sýnast málin í góðum höndum. Ráðherrar þriggja ráðuneyta eru að reyna að ná saman til að dekka allt þetta svið. Hvað varðar íslenskukennsluna þá er ég að hugsa um að strika hana út af lista þessara þriggja ráðherra. Nú sýnist mér að boltinn sé á milli menntamálaráðherra og dómsmálaráðherra af því að menntamálaráðherra ræður Kennaraháskólanum og fær fjárveitingu til að þróa kennslufræðina í kringum starfið uppi í Kennaraháskóla. Hæstv. félagsmálaráðherra segir með réttu að námsframboð, námsefni og annað séu á ábyrgð menntamálaráðherra. Ég held því að eftir því sem þessu starfi vindur fram nái menn betri lendingu í því og sníði af því agnúana.



[15:56]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég tel hana gagnlega og raunar nauðsynlegt að ræða mál innflytjenda og útlendinga í íslensku samfélagi. Fjöldi innflytjenda hefur meira en tvöfaldast á um tíu árum. 1995 voru þeir 4.800 talsins en í árslok 2003 á ellefta þúsund. Hlutfall erlendra ríkisborgara af mannfjöldanum á Íslandi jókst frá því að vera 1,8% 1995 í 3,5% 2003. Það er því full ástæða til að gera aðlögun þeirra eins hnökralausa og mögulegt er og móta heildarstefnu í samræmi við það. Ég tek undir það með hv. þm. Jónínu Bjartmarz.

Ég vil sömuleiðis nota tækifærið, hæstv. forseti, til þess að vekja athygli á því að á vegum flóttamannaráðs er unnið að könnun á högum og aðstæðum þeirra flóttamanna sem hingað til lands hafa komið frá því að þeir fyrstu komu frá Ungverjalandi árið 1956. Þegar niðurstöður úr þeirri könnun, samhliða upplýsingum úr könnun Fjölmenningarseturs sem ég minntist á fyrr, liggja fyrir höfum við kost á að leggja góðan grunn að stefnumótun stjórnvalda í málefnum innflytjenda.

Ég vil sömuleiðis nota tækifærið og nefna nokkur atriði sem hafa komið fram í könnun Fjölmenningarsetursins. Í hópi erlendra starfsmanna á Vestfjörðum og Austurlandi virðist vera mikið frumkvæði. Um 39% svarenda höfðu áhuga á að hefja eigin rekstur eða stofna fyrirtæki. Um 12% höfðu þegar hafið undirbúning að slíku. Um 69% svarenda áttu börn og vekur athygli að um 42% þeirra áttu barn eða börn sem bjuggu í upprunalandi viðkomandi. Tæplega helmingur vildi búa á sama stað á Íslandi og þeir bjuggu á en af þeim sem vildu búa annars staðar völdu 64% höfuðborgarsvæðið. Aðrir vildu búa annars staðar á landsbyggðinni. Hátt hlutfall taldi menntun ekki nýtast í núverandi starfi og fáir höfðu reynt að fá menntun sína metna hér á landi. Helsta tilgreinda ástæðan var skortur á íslenskukunnáttu og yfir 90% svarenda höfðu áhuga á að læra meiri íslensku.