131. löggjafarþing — 65. fundur
 2. feb. 2005.
Iðnaðarframleiddar transfitusýrur í matvælum.
fsp. ÞBack, 403. mál. — Þskj. 511.

[16:04]Útbýting:

[16:05]
Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra varðandi transfitusýrur. Ekki vita allir hvað þetta er og hafa kannski ekki miklar áhyggjur af því sem eðlilegt er. Engu að síður hefur töluverð umræða verið í gangi í Evrópu, sérstaklega á Norðurlöndunum og Danmörku þá kannski helst, undanfarin ár varðandi óhollustu þessarar tegundar fitu sem við köllum hér á landi herta fitu og hefur komið í ljós í mörgum rannsóknum að er mjög óholl. Miklar rannsóknir eru í gangi hvað varðar óhollustu þessarar fitu en það hefur komið í ljós að hún hefur áhrif á hjarta- og æðasjúkdóma, hún hefur hugsanlega áhrif á tíðni sykursýki tvö og hugsanlega líka á þróun fósturs í móðurkviði.

Transfitusýrurnar koma fyrir með tvennum hætti í matvælum. Annars vegar eru það transfitusýrur sem myndast þegar fljótandi olía er hert í iðnaðarframleiðslu til þess að smjörlíki og slíkar vörur haldi betur formi, séu þéttari í sér. Helsti hvati til iðnaðarframleiddrar transfitusýru er að það er ódýrari framleiðsla og smjörlíkið geymist betur og þær vörur sem þessi fita er notuð í. Síðan myndast transfitusýrur í vömb jórturdýra fyrir tilstilli baktería sem finnast þar. Þær sýrur eru þó myndaðar á annan hátt og í mjög litlu magni.

Þessar sýrur eru í sætmeti og kexi og kökum, vínarbrauði, skyndibitafæðu og borðsmjörlíki. Þær eru í mjög mörgum matvælum sem eru á borðum okkar í dag og er mjög erfitt að forðast. Ef við skoðum íslensku pakkningarnar utan um viðbit og smjörlíki er sundurgreint hvernig fitan er samsett og þá stendur bara framleitt úr hertri olíu en ekki í hve miklu magni.

Danir eru búnir að koma böndum á þessa framleiðslu. Það má ekki vera meira en 2% af transfitusýru í vöru og ég tel mjög mikilvægt að við förum að þeirra dæmi og reynum að minnka magn transfitusýra í mat hér á landi.



[16:08]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Nokkrir smjörlíkisframleiðendur hér á landi hafa minnkað magn af transfitusýrum í borðsmjörlíki en ekki er vitað um magn transfitusýra í iðnaðarsmjörlíki, þ.e. því smjörlíki sem t.d. bakarí og stóreldhús nota. Mælst hefur mjög hátt magn af transfitusýrum í örbylgjupoppkorni í Danmörku en ekki er vitað um ástand mála hér á markaði.

Danmörk er eina landið svo að vitað sé sem hefur sett reglur um innihald transfitusýra í matvælum. Í Bandaríkjunum verður skylt að hafa magn af transfitusýrum merkt í næringargildislýsingu frá og með árinu 2006. Hér á landi er fylgst með framgangi þessara mála hjá nágrannaþjóðum okkar en ekki hefur verið tekin ákvörðun um að setja reglur um transfitusýrur í matvælum.

Í vísindaáliti EFSA, Matvælaöryggisstofnunar Evrópu, kemur fram að neysla á mettaðri fitu er talin vera meira áhyggjuefni en neysla á transfitusýrum og samkvæmt landskönnun árið 2002 sem Manneldisráð framkvæmdi fá landsmenn að meðaltali um 16% orkunnar frá mettaðri fitu en ráðleggingar eru í þá veru að ekki ættu að koma meira en að hámarki 10% orkunnar frá mettaðri fitu.

Þess má geta að neysla landsmanna á transfitusýrum hefur minnkað frá 1996 þegar hún var um 5,4 grömm á dag en hún var árið 2002 að meðaltali 3,5 grömm á dag, mest hjá karlmönnum á aldrinum 20–39 ára, 4,2 grömm á dag. Þess má geta að þessar tölur eru nokkru hærri hér á landi en sambærilegar neyslutölur hjá öðrum Evrópuþjóðum.



[16:10]
Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa jafnmikilli óánægju með þetta svar hæstv. umhverfisráðherra eins og ánægju með fyrra svar ráðherra við fyrri fyrirspurn.

Danir byrjuðu á því að setja sér það takmark að leyfa ekki meira en 1% af transfitusýrum í viðbiti og í mat en fengu ekki undirtektir hjá Evrópusambandinu með það. Nú hafa þeir sett reglugerð um hámark transfitusýra í mat og þeir banna hærra innihald en þetta og það skal vera vel merkt. Ef það er 1% eða minna má merkja vöruna að hún sé transfitusýrulaus. Það var álitið að þessi reglugerð mundi á einhvern hátt verða heftandi í viðskiptalegu tilliti fyrir Dani en það hefur sýnt sig að svo er ekki. Aðrar þjóðir og framleiðendur á þessari vöru hafa litið til Dana og lagað sig að þessum kröfum.

Þetta er manneldissjónarmið, miklar rannsóknir eru í gangi og allt bendir til þess að þetta litla magn sem er í matvælum í dag hafi mjög skaðleg áhrif á heilsu manna. Mér finnst mjög mikilvægt að bíða ekki eftir því að Evrópusambandið setji einhver tilmæli. Tilskipun ESB mun koma og við getum gert þetta rétt eins og Danir og verið þar í nokkrum fararbroddi. Miðað við það frjálsræði sem er í Bandaríkjunum hafa rannsóknir sýnt það mikil áhrif af transfitusýrum að Bandaríkjamenn munu frá því árinu 2006 setja þá kröfu á framleiðendur að þeir tilgreini hversu mikið magn af transfitusýru sé í matnum. Er það meira en þeir eru vanir að gera.



[16:13]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessar spurningar og þá umfjöllun sem hún hefur haft um þessi mál sem eru svo sannarlega ekki einföld. Ég vil hins vegar ítreka að ekki ber að skilja orð mín svo að ekki sé áhugi á þessum málum í umhverfisráðuneytinu. Staða málanna er einfaldlega sú að við erum að fylgjast með reynslu annarra þjóða, og þá einkum Dana, en að svo stöddu hafa ekki verið teknar neinar ákvarðanir um framhaldið.