131. löggjafarþing — 67. fundur
 7. feb. 2005.
Upplýsingar um stjórnunar- og eignatengsl í viðskiptalífinu.

[15:10]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. viðskiptaráðherra um hvað líði því að gert sé aðgengilegt, t.d. á vef Samkeppnisstofnunar, að hægt verði að fylgjast með þeim breytingum sem eiga sér stað á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi.

Við vitum að það er verið að vinna að skýrslu núna um þessi stjórnunar- og eignatengsl. Slík skýrsla var unnin árið 2001 og líka árið 1994 þannig að hún virðist vera gerð á 4–5 ára fresti. Í þau tvö skipti sem slík skýrsla hefur verið lögð fram hefur hún verið mjög umfangsmikil og ég held að mér sé óhætt að segja að t.d. árið 1994 hafi úttektin verið tæpar 500 blaðsíður í bókarformi. Það segir sig hins vegar sjálft að þegar slík skýrsla er lögð fram er hún jafnvel þegar orðin úrelt vegna þess að á degi hverjum eiga sér stað miklar breytingar á þessum eigna- og stjórnunartengslum. Því er mikilvægt að þetta sé uppfært jafnóðum þannig að hægt sé að fylgjast með þeirri samþjöppun sem á sér stað á markaði á hverjum tíma, almenningur geti gert það, fjölmiðlar og stjórnmálamenn. Því spyr ég hvort ráðherrann sjái einhverja annmarka á því að þetta sé uppfært á vef Samkeppnisstofnunar og að þar sé hægt að fylgjast með þessum málum.



[15:12]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég sé ekki að það séu annmarkar á því að þessar upplýsingar séu á vef Samkeppnisstofnunar. Það er rétt sem kom fram að mjög umfangsmikil skýrsla var unnin árið 2001 og ég man ekki betur en að hún hafi kostað 14 millj. kr. Miklir hlutir eru að gerast á fjármálamarkaði og í viðskiptalífinu þannig að breytingar eru örar og ég held að það sé erfitt að koma því svo fyrir að alltaf séu nýjustu upplýsingar og réttar upplýsingar til staðar. Það væri alveg að æra óstöðugan að geta fylgt því eftir en ég tel að það sé mikilvægt með vissu millibili að uppfæra upplýsingarnar.

Það eru ákveðin vonbrigði í mínum huga að þessi skýrsla sem var svona gríðarlega umfangsmikil og dýr í vinnslu varð síðan ekki eins spennandi, sýndist mér, og þeir höfðu reiknað með sem komu fram með beiðni um skýrslugerðina. Það varð ekki mikil umfjöllun um þessa skýrslu og það þótti mér verra. En síðan þá hafa miklir hlutir gerst og eins og kom hér fram er verið að uppfæra þetta. Það er með þessar upplýsingar eins og allar upplýsingar sem stjórnvöld vinna og eru til staðar af hálfu stjórnvalda að það er mikilvægt að aðgengi sé að þeim. Við erum þekkt fyrir það, Íslendingar, að standa frekar vel að vígi í sambandi við upplýsingasamfélagið og upplýsingar stjórnvalda það ég best veit.



[15:14]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka viðskiptaráðherra fyrir að taka vel í málið en ég hefði kannski átt að vera aðeins beinskeyttari í fyrirspurn minni og spyrja hvort ráðherrann væri tilbúin að beita sér fyrir því að þetta verði gert þannig að við getum á hverjum tíma fengið upplýsingarnar eins og menn vita þær réttastar á þeim tíma sem þær fara inn á vef Samkeppnisstofnunar. Ég geri ráð fyrir að það sé t.d. hægt að keyra saman upplýsingar úr Kauphöllinni sem færu þá inn á vef Samkeppnisstofnunar og þá gætu menn einfaldlega unnið úr þeim eins og þeim hentaði hverju sinni.

Það kann vel að vera að skýrslan árið 2001 hafi ekki þótt ýkja spennandi og skýringarinnar kann að vera að leita í því að þegar skýrslan kom út var hún þegar orðin úrelt. Eins og við vitum eiga sér stað svo miklar breytingar á hverjum tíma á þessum eigna- og stjórnunartengslum að 500 blaðsíðna skýrsla sem búið er að verja jafnvel 14 millj. kr. í er kannski unnin fyrir lítið ef hún er ekki uppfærð stöðugt. Þess vegna beini ég þessari fyrirspurn til ráðherrans.



[15:15]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Eins og ég hef margoft lagt áherslu á er Samkeppnisstofnun ekki fjarstýrt úr viðskiptaráðuneytinu. Hún tekur sínar ákvarðanir og hefur verið fullbær til þess fram til þessa þannig að ég tel að þeir hafi fullt vald til að taka þessa ákvörðun upp á eigin spýtur. Ég tek hins vegar undir það með hv. þingmanni að því meiri upplýsingar sem eru til staðar hjá stofnuninni og aðgengilegar fyrir almenning þeim mun betra.



[15:16]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég geri mér grein fyrir því að það á að sjálfsögðu ekki að fjarstýra opinberum stofnunum úr ráðuneytum. Hins vegar getum við haft og höfum væntanlega um það stefnu að gegnsæið sé sem mest og að almenningur eigi sem auðveldastan aðgang að upplýsingum og geti fylgst með þeim og dregið af þeim upplýsingum sínar ályktanir. Við getum auðvitað haft uppi þá stefnu og þá skoðun að þessar upplýsingar eigi að vera tiltækar á vef Samkeppnisstofnunar og beint því til stofnunarinnar að hún skoði það og vinni í því. Til þess þarf hún auðvitað líka fjármuni og þeir fjármunir eru skammtaðir af hinu háa Alþingi.