131. löggjafarþing — 67. fundur
 7. feb. 2005.
einkamálalög og þjóðlendulög, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 190. mál (gjafsókn). — Þskj. 190, brtt. 756.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[15:46]

[15:45]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Með breytingartillögu þeirri sem verið er að greiða atkvæði um er gert ráð fyrir að b-liður 126. gr. verði áfram inni. Við erum búin að fjalla um það í ótal ræðum í þremur umræðum á þinginu hvaða réttarbót var talin vera til staðar með ákvæðinu þegar það var leitt í lög.

Ég hef haldið því fram, hæstv. forseti, að stjórnarþingmenn þurfi að hugleiða verulega alvarlega hvaða réttarbót er verið að afnema. Mér þykir mjög miður að horfa á atkvæðatöfluna og sjá að stjórnarþingmenn virðast ekki hafa ætlað að vitkast af þeim góðu ræðum sem hér hafa verið fluttar varðandi þá réttarbót sem hæstv. dómsmálaráðherra ætlar að fella út úr lögunum. Þar fetar hann áfram þá braut sem hann hefur að mínu mati fetað óhóflega, þ.e. að þrengja réttindi borgaranna í ýmsum málum og þar með að gera samfélag okkar ólýðræðislegra.

Ég greiði að sjálfsögðu atkvæði með þessari breytingartillögu.



Brtt. 756 felld með 27:21 atkv. og sögðu

  já:  AKG,  ÁÓÁ,  ÁRJ,  BjörgvS,  GAK,  GÁS,  GÖg,  GÖrl,  HHj,  ISG,  JÁ,  JBjarn,  JGunn,  KJúl,  KolH,  KLM,  MÞH,  MF,  SigurjÞ,  SJS,  ÖJ.
nei:  ArnbS,  ÁMM,  ÁMöl,  BÁ,  BJJ,  BjarnB,  BBj,  DrH,  EKG,  EOK,  GHH,  GHj,  GÞÞ,  GHall,  GÁ,  GunnB,  HBl,  JónK,  KÓ,  MS,  PHB,  SAÞ,  SKK,  SF,  StB,  VS,  ÞKG.
15 þm. (ÁMagn,  DJ,  EMS,  HÁs,  HjÁ,  JóhS,  JBjart,  KHG,  LB,  MÁ,  RG,  SP,  ÞSveinb,  ÞBack,  ÖS) fjarstaddir.

Frv.  samþ. með 28:21 atkv. og sögðu

  já:  ArnbS,  ÁMM,  ÁMöl,  BÁ,  BJJ,  BjarnB,  BBj,  DrH,  EKG,  EOK,  GHH,  GHj,  GÞÞ,  GHall,  GÁ,  GunnB,  HBl,  HjÁ,  JónK,  KÓ,  MS,  PHB,  SAÞ,  SKK,  SF,  StB,  VS,  ÞKG.
nei:  AKG,  ÁÓÁ,  ÁRJ,  BjörgvS,  GAK,  GÁS,  GÖg,  GÖrl,  HHj,  ISG,  JÁ,  JBjarn,  JGunn,  KJúl,  KolH,  KLM,  MÞH,  MF,  SigurjÞ,  SJS,  ÖJ.
14 þm. (ÁMagn,  DJ,  EMS,  HÁs,  JóhS,  JBjart,  KHG,  LB,  MÁ,  RG,  SP,  ÞSveinb,  ÞBack,  ÖS) fjarstaddir.
3 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[15:46]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra er með stuðningi þingmeirihlutans að skerða rétt þorra Íslendinga til gjafsóknar. Málið er þeim mun alvarlegra, því hér er verið er að koma í veg fyrir að mál fái gjafsókn sem hafa iðulega verið höfðuð á hendur ríkinu, svo sem mannréttindamál, umhverfismál, læknamistök, eignarréttarmál, skaðabætur o.s.frv.

Ég vil vitna í umsögn laganefndar Lögmannafélagsins en þar stendur, með leyfi forseta:

„Laganefnd Lögmannafélags Íslands telur að með samþykkt frumvarpsins væri stigið skref aftur á bak að því er varðar aðgang einstaklinga að dómstólum.“

Ég vil gera þessi orð að mínum og að sjálfsögðu mun ég segja nei við þessu frumvarpi.



[15:47]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Með því frumvarpi sem verið er að greiða atkvæði um er hið almenna ákvæði laganna um að hægt sé að fá gjafsókn þegar úrlausn máls hefur verulega almenna þýðingu fyrir umsækjandann felld brott og viðmiðið verður, ef frumvarpið verður að lögum, fyrst og fremst fjárhagslegt. Það er því beinlínis rangt sem haldið hefur verið fram að verið sé að ganga atbeina stjórnvalda til þess að koma í veg fyrir málssókn á hendur þeim. Allar sömu heimildir verða áfram til staðar í lögunum. Viðmiðið um það hvort gjafsókn verður veitt verður hins vegar það hvort fjárhagur umsækjandans sé þannig að rétt sé að fallast á umsóknina. Það er það sem verið er að gera með frumvarpinu og er eina breytingin sem um er að ræða.

Það er allt önnur umræða hvort viðmið í reglugerðinni í þessu efni sé of lágt. Menn hefðu betur einbeitt sér að þeirri umræðu og haldið því fram að hækka bæri viðmiðið en að halda því fram að stjórnvöld séu að koma í veg fyrir málsókn á hendur sér, vegna þess að það er beinlínis rangt.



[15:48]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í ljósi þess að breytingartillaga okkar hefur verið felld af stjórnarmeirihlutanum mómælum við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þeirri skerðingu á mannréttindum sem verið er að leiða í lög með því að vera á móti frumvarpinu, þó að við séum alls ekki á móti því að fólk fái gjafsókn þegar það á í fjárhagslegum erfiðleikum en við höfum oft verið rangtúlkuð í þeim efnum.

Verið er að fjárhagstengja réttlætið í þessu máli og það er ósvinna sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs mótmælum.