131. löggjafarþing — 68. fundur
 8. feb. 2005.
Endurskoðun á sölu Símans, frh. fyrri umræðu.
þáltill. JÁ o.fl., 44. mál. — Þskj. 44.

[15:25]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta mál var til umfjöllunar hér í þinginu í síðustu viku og þá setti ég mig á mælendaskrá í umræðunni til þess að svara m.a. þingmönnunum Jónínu Bjartmarz og Guðmundi Hallvarðssyni sem þá tóku til máls. Nú eru þau víðs fjarri góðu gamni og sitja ekki í þingsalnum. Það er nú svolítið erfitt að halda uppi umræðu með þessum hætti þegar maður setur sig á mælendaskrá eftir ræður þingmanna og síðan er málinu frestað og svo þegar málið kemur til umræðu aftur eru þeir ekki mættir í þingsal sem tóku þátt í umræðunni hið fyrra sinni. Ég verð að viðurkenna, virðulegur forseti, að mér finnast þessi vinnubrögð á hinu háa Alþingi nokkuð sérkennileg.

Klukkan hálftvö í dag þegar þing kom saman var helst eins og maður væri mættur á þorrablót þar sem landbúnaðarráðherra væri aðalræðumaður og skemmtanahaldari og umræðuefnin voru aðallega saltkjöt og baunir. Nú virðist eins og þingmönnum hafi orðið svo þungt af þessu saltkjöts- og baunaáti að menn hafi ekki komist til þingsalar í dag. Þetta er að verða eins og í dauðs manns gröf hérna og menn eru með eintal sálarinnar í þingsalnum og enginn úr stjórnarliðinu, (Gripið fram í.) ég segi að það er eins og í dauðs manns gröf hjá stjórnarliðinu því að hér er enginn af stjórnarliðinu til þess að ræða mál sem eru stórmál og skipta verulegu fyrir hagsmuni almennings í landinu.

Áðan var verið að ræða lögreglulög, það var verið að ræða lög um dómstóla, skipan hæstaréttardómara, sem er auðvitað eitthvað sem dómsmálaráðherra og formaður allsherjarnefndar ættu að sjálfsögðu að vera viðstaddir. Nú erum við að ræða endurskoðun á sölu Símans og að sjálfsögðu ætti samgönguráðherra að vera hér og hlýða á vegna þess að þetta er mál sem er einmitt mjög á döfinni þessa dagana og er mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum vegna þess að það eru æ fleiri að vakna upp við þann vonda draum að það er óskynsamlegt að setja Símann og hafa Símann í söluferli og gera ekki ráð fyrir því að aðskilja grunnnetið frá virðisaukandi þjónustu Símans.

En hér hefur ekki sést nokkur einasti maður í stjórnarliðinu, hvorki ráðherra né þingmaður, og mér væri næst að halda að messufall væri á Alþingi ef stjórnarandstæðingar héldu ekki uppi merkjum Alþingis og þeirrar málstofu sem hér á auðvitað að standa í þingsölum. Ég hlýt að lýsa furðu minni á því hvernig vinnubrögðin eru á hinu háa Alþingi og að maður skuli þurfa, virðulegur forseti, að standa í ræðustól og eiga orðastað við tvo þingmenn sem tóku þátt í umræðunni í síðustu viku áður en málinu var frestað og þeir eru síðan hvergi nærri. Mér er nær að halda að annar þeirra, Guðmundur Hallvarðsson, sé bara með leyfi frá þinginu þessa dagana og verði ekkert hér næsta hálfa mánuðinn þannig að það verður erfitt að eiga orðastað við þann þingmann þó að hann hafi blandað sér í umræðuna í síðustu viku.

Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort þetta gefi ekki tilefni til þess að fresta málinu enn frekar og við tökum það bara upp þegar þessir þingmenn eru mættir hér til leiks, virðulegur forseti. Ég óska eftir því ef menn hafa ekki mikið á móti því að málinu verði einfaldlega frestað.

En það er kannski of seint fyrir mig því að ég er hér í minni annarri ræðu, ég tók þátt í umræðunni í síðustu viku. En það sem ég ætlaði að vekja athygli manna á er að við eigum að gæta almannahagsmuna og ég tel að þá og því aðeins séum við að gæta almannahagsmuna að við komum í veg fyrir að það verði margföldun í því dreifikerfi sem verið er að byggja upp í landinu til að miðla upplýsingum og efni eins og nú lítur út fyrir að verði gert.

Ég vil vekja athygli þingmanna á því að við Íslendingar erum að byggja upp vísi að öllum þeim dreifileiðum sem hægt er að bjóða í dreifikerfi fyrir sjónvarp og upplýsingar, öllum þeim dreifileiðum sem hægt er að bjóða erum við að byggja upp í þessu 300 þús. manna samfélagi. Við bjóðum upp á ADSL eða gamla koparinn. Við bjóðum upp á MMDS, það er verið að byggja það upp. Það er verið að byggja upp ljósleiðara. Það er verið að byggja upp gervihnattasendingar á landi og það er verið að byggja upp DVDT-sendingar eins og þær heita. Allt þetta er verið að byggja upp núna fyrir 300 þús. manna samfélag á vegum mismunandi aðila.

Í stað þess að þetta gerist svona væri auðvitað miklu nær að sameina alla þessa kosti í einu fyrirtæki og reyna að ná utan um þá fjárfestingu sem á sér stað í dreifikerfi landsins. Það þýðir ekki fyrir Símann að koma og segja: „Síminn á koparkerfið og það gæti náð til stærsta hluta landsmanna. Það á að duga og svo seljum við það bara í hendurnar á einhverjum einkaaðilum …“, vegna þess að þeir sem eru í samkeppni við Símann, hvort sem það eru símafyrirtæki eða þeir sem eru að dreifa margvíslegu efni og eru í samkeppni við Símann um það munu ekki treysta Símanum. Þeir treysta ekki Símanum í dag þó hann sé í ríkiseigu og þeir munu enn síður gera það þegar hann er kominn í hendurnar á einkaaðilum. Það er því tómt mál að tala um að segja bara við menn: „Við höfum koparinn. Síminn hefur yfir dreifileiðum að ráða sem menn geta nýtt sér.“ Efnisframleiðendurnir og þeir sem selja efni eða símaþjónustu munu ekki sætta sig við það. Þeir munu ekki sætta sig við að þurfa að eiga allt sitt undir fyrirtæki sem þeir eru í samkeppni við, fyrirtæki sem er í samkeppni við viðskiptavini sína.

Þess vegna er það skoðun mín að mikilvægt sé að grunnkerfið sé aðskilið frá virðisaukandi þjónustu Símans og menn freisti þess að ná utan um þessi mál og byggja upp eitt fyrirtæki sem hefur mismunandi valkosti til að bjóða upp á eftir því sem hentar á hverjum stað á landinu. Sums staðar hentar koparinn, annars staðar er það ljósleiðarinn, á enn öðrum stöðum geta það verið gervihnattasendingar, það fer eftir aðstæðum á hverjum stað. Til þess að við getum tryggt aðgang allra landsmanna að háhraðanettengingum verður að hafa heildstætt kerfi sem býður upp á mismunandi lausnir eftir hagsmunum hvers byggðarlags fyrir sig.

Þetta finnst mér að sé umræða sem við verðum að taka núna. Hún er mjög mikilvæg áður en lengra er haldið í söluferli Símans. Eins og við sjáum af umræðunni í fjölmiðlunum er engin sátt um það í samfélaginu að selja grunnnetið frá Símanum.

Ég vil að lokum minna enn einu sinni á greinargerð starfshóps um stafrænt sjónvarp á Íslandi sem var unnið fyrir samgönguráðuneytið í apríl 2003, vegna þess að nákvæmlega þar er lagt til að það sé byggt upp eitt grunnkerfi. Ég tel að við eigum að fara að þeim tillögum sem þar voru settar fram og mér finnst sérkennilegt að á sama tíma og slík stefnumörkun er í samgönguráðuneytinu sé ríkisstjórnin að vinna í allt aðra átt í gegnum söluferli Símans.



[15:33]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að ég er hættur að undrast að sjá ekki stjórnarliða í þingsölum og vil árétta að það sé full þörf á að þeir fari að láta sjá sig, sérstaklega í þessu máli vegna þess að hv. þm. Hjálmar Árnason hafði mjög villandi ummæli í sjónvarpsþætti sem ég tel mjög alvarlegt. Sjálfur þingflokksformaður Framsóknarflokksins sem stendur fyrir sölunni hafði villandi málflutning um að enginn vissi hvað grunnnetið væri. Þetta væri eitthvað sem væri ekki hægt að skilgreina og það væri ekki hægt aðskilja eitthvað sem enginn vissi hvað væri. Ég tel fulla þörf á því að menn komi og standi fyrir máli sínu þegar menn eru að þvæla fram og aftur í fjölmiðlum með villandi ummælum um almannahagsmuni. Auðvitað skiptir þetta máli og er stjórnarflokkunum og sérstaklega Framsóknarflokknum til skammar að vera að villa um í umræðunni um almannahagsmuni.

Þess vegna tel ég það Framsóknarflokknum til mikillar skammar að geta ekki verið hér og staðið fyrir máli sínu.



[15:35]
Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Umræðunni virðist vera að ljúka núna. Hún fór auðvitað fram í síðustu viku að mestu leyti, en það er full ástæða til að þessi mál séu rædd. Hér hafa orðið miklar breytingar og eru áfram fyrirsjáanlegar miklar breytingar í þessum málum öllum. Það er ekki sjáanlegt annað en það sem hæstv. samgönguráðherra lagði upp með á sínum tíma, þegar hann var með frumvörp í þinginu og lög voru sett í framhaldi af því þar sem gert var ráð fyrir alþjónustu, hafi verið til lítils. Rökstuðningurinn hjá hæstv. ráðherra gekk út á það að með ákvæðunum um alþjónustuna væri komið í veg fyrir að hér yrði margföld fjárfesting hvað varðaði grunnkerfi af því tagi sem við erum að tala um.

Framhaldið hefur sýnt að þetta mistókst. Það er alveg auðséð í hvað stefnir ef grunnkerfi Símans verður selt með honum. Aðilarnir sem eru að keppa á þessum markaði munu ekki treysta Símanum vegna þess að hann er í bullandi samkeppni við þá. Það getur hver maður séð hvernig slíkt fyrirkomulag virkar. Halda menn virkilega ef maður lítur til starfsmanna Símans í framtíðinni að þeir muni ekki leggja áherslu á að láta verkefni sem koma Símanum vel ganga fyrir öðrum verkefnum?

Sögurnar sem ganga núna um hvernig tekið sé á þessum málum, meira að segja áður en búið er að selja Símann sem ætti þó að vera tímabil þar sem Síminn mundi vara sig verulega á því að beita ekki slíkum aðferðum, ganga samt út á að þetta sé gert.

Ég ætla ekki að fara að segja frá þeim hlutum sem mér hafa verið sagðir, vegna þess að ég hef ekki sannanir fyrir þeim. En ég veit að það ganga ýmsar sögur og reyndar hafa sum fyrirtæki látið það koma fram opinberlega að þau hafi verið tafin á afgreiðslum hjá Símanum. Eitt er það atriði að það hafi verið settur upp búnaður á vegum Símans og vegna þess að viðskiptaaðilarnir voru ekki nógu margir sem Síminn hafði til þess að nýta þann búnað hafi verið slökkt á honum, þó að það hafi verið viðskiptavinir sem þurftu á honum að halda á vegum samkeppnisaðilanna. Þetta eru m.a. sögurnar sem ganga um þessi samskipti.

Það að það séu einhver stórkostleg tæknileg vandamál á því að skilja grunnnet Símans frá er alveg hægt að vísa til föðurhúsanna. Það eru ekki meiri vandamál að mati þeirra sérfræðinga sem ég hef talað við á því að skilja grunnnet Símans frá en eru á því að skilja grunnnet í raforkukerfinu frá annarri þjónustu. Þetta eru bara skilgreiningaratriði sem þarf auðvitað að fara í gegnum og ákveða hvernig eigi að koma fyrir.

Hins vegar er öllum ljóst sem vilja vita að við erum að glíma við pólitíska niðurstöðu sem varð á milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins um að selja skyldi grunnnetið með Símanum. Sjálfstæðismenn höfðu það í gegn. Framsóknarmenn höfðu allt aðra skoðun á málinu fyrir nokkrum missirum. Þá voru þeir allir á því að það ætti að skilja grunnnetið frá. Nú frétti ég af hæstv. forsætisráðherra úti í bæ sem er með yfirlýsingar um að það standi ekki til að breyta ákvörðuninni um þetta, grunnnetið verði selt með Símanum. Hæstv. forsætisráðherra virðist stunda það þessa dagana að senda pólitískar yfirlýsingar út um allt, annars staðar en í sölum Alþingis. Af hverju hann velur sér aðra staði til að tala er kannski umhugsunarefni fyrir okkur þingmenn.

Mér finnst full ástæða til þess að menn fylgi þessum málum eftir og láti finna fyrir þeim þrýstingi sem þarf að vera til þess að ríkisstjórnin bakki í málinu. Við höfum séð núverandi ríkisstjórn bakka í málum. Það eru því til afturábakgírar hjá henni. Það er bara að sjá til þess að þeir verði notaðir.

Mér finnst ástæða til þess að það verði gert í þessu máli og hvet menn til þess að fylgja því fast eftir að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að selja grunnnetið með Símanum verði endurskoðuð.



[15:40]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í síðustu viku þegar við ræddum þetta mál sagði ég, og var ansi bláeygð þegar ég sagði það, að ég væri sannfærð um að allir sanngjarnir menn sem litu á þessi mál núna í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á markaðnum og tækninni á undanförnum árum sæju að það væri ekki skynsamlegt út frá almannahagsmunum að selja grunnnet Símans við þá sölu sem þar er fyrirhuguð. Það getur vel verið að það sé skynsamlegt út frá söluverði ef menn eru bara að horfa á það hvaða aura þeir fá í ríkiskassann, en ekki út frá almannahagsmunum.

Ég hef talað við marga menn bæði í stjórnarliði og meðal stjórnarandstæðinga og ég veit að mjög margir eru hugsi yfir þessum málum og óttast að grunnnetið sé selt með.

En síðan ég sagði þetta hefur hæstv. forsætisráðherra verið að halda ræður norður á Akureyri eða hvar það nú var þar sem hann sagði að það kæmi ekki annað til álita en að grunnnetið væri selt með. Hann valdi þann staðinn, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson benti á, að tala úti í bæ í stað þess að tala hér í þingsölum við okkur sem hér erum. Mér finnst mikilvægt að þessi umræða eigi sér stað hér og menn fari yfir málið alveg frá grunni og reyni að átta sig á því hvar almannahagsmunirnir liggja í málinu. Umræðan verður að eiga sér stað í þingsalnum en ekki einhvers staðar á fundum forsætisráðherra úti í bæ.

Þess vegna kem ég hér upp, virðulegur forseti, til þess að undirstrika þetta, en á þetta var m.a. minnst í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar.



[15:43]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér mjög alvarlegt mál og það hefur verið tekið þannig til orða, m.a. af hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að við Íslendingar værum að gera tilraun með nánast öll kerfi sem þekkt eru á norðurhveli jarðar við dreifingu á margmiðlunarefni og fjarskiptum. Sá sem hér stendur vakti einmitt máls á því þegar við ræddum málið síðast, áður en umræðu var frestað, að við gætum verið að stefna í þá átt að á Íslandi væru Íslendingar að gera sérstaka tilraun á því að hafa mörg fjarskiptakerfi og mundum ef óbreytt gengi eftir lenda í því að þurfa að greiða dýrustu afnotagjöld sem þekkt væru.

Mér barst í hendur í blaðið Blaðamaðurinn, félagstíðindi Blaðamannafélags Íslands, þar sem nokkur umræða er um fjölmiðla og fjarskipti. Þar er ágætis úttekt, greinargerð af málþingi sem haldið var á vegum Reykjavíkurakademíunnar um þróun og áhrif fjölmiðlasamsteypa o.s.frv. Þar flutti erindi Elva Ýr Gylfadóttir, sem er reyndar starfsmaður svokallaðrar fjölmiðlanefndar. Ég ætla að leyfa mér að lesa úr grein hennar. Tilvitnun mín hefst á stuttum kafla sem er um samkeppni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Almennt er talið að samkeppni stuðli að verðlækkun á markaði þar sem tveir eða fleiri aðilar eru að keppa sín á milli. Þróunin á fjölmiðlamarkaðnum virðist hins vegar vera sú hér á landi að Íslendingar munu greiða mun hærra verð fyrir sjónvarpsefni en í nágrannalöndunum. Það eru ýmsar ástæður fyrir því og er ætlunin að rekja þær í stuttu máli.“

Síðan segir hún, undir fyrirsögninni „Hærra verð og fleiri stöðvar“, með leyfi forseta:

„Nú þegar eru íslenskir áhorfendur að greiða mun hærra verð fyrir minna sjónvarpsefni en íbúar nágrannaríkja okkar.

Dæmi má nefna að áskrift að á annað hundrað sjónvarpsstöðvum þar sem sýndar eru kvikmyndir, íþróttir, skemmtiefni og barnaefni og fleira kostar 41 pund hjá Sky í Bretlandi.

Canal Digital í Noregi býður nokkra tugi innlendra og erlendra sjónvarpsstöðva með fjölbreyttu úrvali fyrir 399 norskar krónur. Bæði þessi fyrirtæki bjóða áskrifendum stafræna þjónustu í gegnum gervihnött.

Á Íslandi erum við hins vegar að sjá nokkuð hærra verð á hliðrænu dreifikerfi. Stöð 2, Sýn, Bíórásin og Fjölvarpið hefur kostað 7.944 kr. miðað við netverð fyrirtækisins. Áskrifendur sem kaupa stafræna þjónustu Norðurljósa nú gætu hins vegar þurft að greiða á annan tug þúsunda króna fyrir úrvalið og þurfa fyrst um sinn að skuldbinda sig í 12 mánuði til að kaupa þjónustuna.

Síminn býður nú yfir 40 erlendar stöðvar á Breiðvarpinu fyrir 3.995 kr. Þennan mikla verðmun milli landa má að nokkru leyti skýra með smæð íslensks markaðar. Hins vegar á eftir að ráðast í fjárfestingar til að klára uppbyggingu á stafrænum dreifikerfum hér, sem nú þegar er búið að byggja upp víða erlendis.

Ljóst er að íslenskir áhorfendur munu þurfa að greiða niður þá fjárfestingu með áskriftargjöldum sínum.“

Ég ætla ekki að vitna meira í greinina að sinni en hvet fólk til að kynna sér umfjöllunina í þessu blaði. Hún er ákaflega fróðleg og dregur fram það sem hér hefur verið rætt, þ.e. hvert við stefnum með tilraunastarfsemi okkar með dreifikerfi hér á landi. Ég tek því heils hugar undir umræðuna um að vert sé að skoða hvort dreifikerfi Símans verði algjörlega skilið frá við sölu fyrirtækisins. Stjórnvöld verða að hafa áhrif á það að í framtíðinni verði boðin aðgangur að margmiðlun, háhraða margmiðlun, þar sem íslenskir neytendur fá aðgang að slíku á hliðstæðu verði og býðst í nágrannalöndunum. Ef það verður ekki, virðulegi forseti, þá velti ég fyrir mér, sem ég hef nefnt áður, hvort það gæti orðið svo að í framtíðinni sjái íslenskir neytendur sér betur borgið með því að kaupa þjónustu af erlendum stöðvum, erlendar sjónvarpsstöðvar í gegnum gervihnött, fremur en að gerast áskrifendur að þeim möguleikum sem boðið verður upp á hér á landi. Það væri slæm staða, hæstv. forseti.

Okkur er nauðsynlegt að taka þetta mál til gaumgæfilegrar endurskoðunar. Frá því að deilurnar um fjölmiðla og fleira tengt þeim málaflokki urðu á síðasta ári hefur myndin, framtíðarsýnin breyst nokkuð. Það kemur fram í áðurnefndu blaði og þeirri umræðu sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vék réttilega að. Þetta mál þarf að skoða upp á nýtt og er hreint ábyrgðarleysi af forustu ríkisstjórnarinnar ef á að keyra það fram eins og það er í dag.



[15:49]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er rætt um áformin um sölu Símans. Ég vil í upphafi vekja athygli á því að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa ítrekað flutt mál um að stöðva söluferli Landssímans, sem nú heitir Síminn, til að fara ofan í það mál og kanna hvort við séum þar á réttri braut. Á að stöðva það alveg eða selja hluta af honum? Í okkar huga er alls ekki einsýnt að við eigum að halda áfram þeirri vegferð sem nú er með sölu Landssímans.

Það er líka rétt að vekja athygli á því að þessi umræða fer fram hér á Alþingi. Við höfum ítrekað rætt málið bæði í haust og nú eftir áramót. Við höfum rætt um um söluferli Símans. Við höfum viljað eiga skoðanaskipti við þá ráðherra sem fara með þessa málaflokka, hæstv. fjármálaráðherra sem fer með hlutabréfin í Símanum, hæstv. samgönguráðherra sem á að bera ábyrgð á fjarskiptamálum í landinu og ekki hvað síst hæstv. forsætisráðherra sem er formaður einkavæðingarnefndar og hefur þar af leiðandi yfirumsjón með þessu ferli.

Hæstv. forsætisráðherra velur að taka þessi mál til umræðu í dag á viðskiptaþingi, þegar hann ætti einmitt að vera hér. Alþingi er vinnustaður hans númer eitt og hér á hann að svara fyrir málið. Hæstv. forsætisráðherra gæti þá líka svarað því hvers vegna hann hlustar í engu á vilja kjósenda Framsóknarflokksins. Fyrir rúmum tveimur árum gerði Gallup viðamikla skoðanakönnun meðal þjóðarinnar um viðhorf hennar til þess hver ætti að eiga Símann. Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar svaraði því til að hann ætti að vera í opinberri eigu. Mikill meiri hluti framsóknarmanna vildi afdráttarlaust að Síminn væri í opinberri eigu. Langhæsta hlutfall framsóknarmanna á landsbyggðinni var þeirrar skoðunar. Á milli 70 og 80% sem sögðust hafa stutt Framsóknarflokkinn við síðustu alþingiskosningar vildu að Síminn væri áfram í opinberri eigu. Hæstv. forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins ættu kannski líka að vera til svara um hvernig hann rekur þetta mál þvert gegn vilja flokksmanna sinna og segja okkur hvort hann telji að ekkert hafi breyst í umgjörð fjarskiptamála í landinu sem krefjist þess að þessi mál séu endurskoðuð, að endurskoða þá ákvörðun að selja Símann.

Á undanförnum dögum hafa borist afdráttarlausar yfirlýsingar og kröfur frá öðrum aðilum á fjarskiptamarkaðnum sem krefjast þess að þessi mál verði endurskoðuð, að ákvörðunin um að selja Símann í heilu lagi verði endurskoðuð. Þeir telja að ekki verði byggt upp fullnægjandi og öflugt fjarskiptanet um allt land sem nái til allra landsmanna eða fleiri en eitt slíkt net. Það verði aldrei byggt upp nema eitt meginnet fyrir fjarskipti, til að senda út myndir eða stunda gagnaflutninga, sem þeir sem selja slíka þjónustu þurfa að hafa aðgang að.

Hvers vegna skoðum við þetta þá ekki út frá því þjóðhagslega sjónarmiði að það verði eitt öflugt gagnaflutninganet í landinu öllu sem nái til allra landsmanna og geti veitt þeim fyrirtækjum þjónustu sem vilja stunda fjarskipti og gagnaflutninga. Þessi grunnþjónusta ætti jú öll að vera í eigu landsmanna, grunnútbúnaður sem tryggir jafnrétti í fjarskiptum, jafnrétti í símaþjónustu, jafnrétti í gagnaflutningum og jafnrétti við dreifingu á sjónvarpsefni o.s.frv.

Ég tel svo mikið grundvallarmál á ferðinni að ólíðandi sé annað en að það verði tekið til endurskoðunar. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vöruðum strax við einkavæðingu á fjarskiptum. Við höfum lagst gegn henni alla tíð og gerum það enn. Við viljum að við séum ein þjóð í þessu landi. Við viljum að það ríki jafnrétti. Við viljum ekki að þjóðinni sé skipt upp í tvennt eða þrennt varðandi aðgengi að þeirri grunnþjónustu sem fjarskiptin eru.

Það er fullkomin heimska, finnst mér, ef menn halda að landið allt geti orðið samkeppnismarkaður í fjarskiptum. Ég held að meginmálið sé að tryggja fjarskiptin. Við ættum miklu frekar að tryggja öllum landsmönnum góð fjarskipti og það sé gert á ábyrgð þjóðarinnar, enda sjáum við hvernig hefur gengið á undanförnum árum. Stofnuð hafa verið ýmis fjarskiptafyrirtæki, símafyrirtæki, hvort sem þau hafa kallast Tal eða eitthvað annað, en hafa eðlilega jafnóðum lagt upp laupana. Það er ekki svo einfalt mál að byggja upp fjarskiptakerfi sem nær til allra landsmanna með viðunandi hætti.

Það er tiltölulega auðvelt að byggja upp fjarskipti fyrir Reykjavíkursvæðið en það er ekki viðunandi eitt og sér. Þótt hægt sé að fleyta rjómann af viðskiptum á Stór-Reykjavíkursvæðinu og í allra mesta þéttbýlinu um skamma hríð þá er það engin framkoma varðandi fjarskiptaþjónustu við þjóðina í heild. Enda hafa þessi fyrirtæki lagt upp laupana. Þau eru nú orðin sameinuð í fyrirtæki sem heitir Og Vodafone. Við erum núna með tvö fyrirtæki sem stunda slík fjarskipti hér á landi.

Mér segir svo hugur að ef búið verður að markaðsvæða þetta að fullu og bréfin geta gengið kaupum og sölum á markaði þá muni ekki verða nema eitt fyrirtæki á þeim markaði. Það yrði einkavædd einokun á fjarskiptamarkaði ef svo heldur fram sem horfir og vilji ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar nær fram að ganga. Er það í samræmi við skoðanir kjósenda Framsóknarflokksins sem lýstu því yfir í fjölmennri og ítarlegri skoðanakönnun að mikill meiri hluti þeirra vildi að Síminn og þjónusta hans væri í opinberri eigu en yrði ekki markaðs- og einkavædd? Ég held að hæstv. forsætisráðherra ætti að koma og svara fyrir það.



[15:58]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á sölu Símans þar sem aðallega er rætt um hvort grunnkerfið eigi að seljast með fyrirtækinu eða vera sérfyrirtæki, svipað og gert er í raforkunni.

Þegar litið er til grunngerðar íslensks þjóðfélags, þ.e. infrastrúktúrs sem kallað er, þá verður fyrst fyrir flutningur á almennum vörum, þ.e. siglingar og aðallega vegakerfið. Síðan er það orkuflutningur af ýmsu tagi, raforkuflutningur og heitavatnsleiðslur, sem sumar hverjar eru mjög langar eins og frá Þingvöllum til Reykjavíkur. Olíuflutningar með bifreiðum eru í einkaeigu og síðan eru það gagnaflutningar sem hér hafa verið til umræðu og tengjast því að Síminn hefur yfir ákveðnu kerfi að ráða til að flytja gögn, ljósleiðara og koparleiðslukerfi.

Þegar við ræddum um markaðsvæðingu raforkukerfisins þótti eðlilegt að taka kerfið út úr, þ.e. að eitt fyrirtæki sæi um flutning á orku. Þar er líka nokkuð stöðluð tækni í gangi, þ.e. við raforkuflutning. Þá er ég ekki að tala um olíuflutninga eða það að flytja heitt vatn. Það er ekki í augsýn ný tækni sem mælir gegn því að hafa eina staðlaða lausn á flutningi á raforku.

Þegar við tölum um gagnaflutninga er hins vegar óskaplega mikið að gerast, frú forseti. Fyrir tíu árum held ég að ekki hefði hvarflað að nokkrum manni að selja leyfið með Símanum vegna þess að þá var bara ein lausn sem var koparinn. Reyndar örlaði þá á nýrri lausn sem var ljósleiðarinn sem Síminn sá líka um.

Núna er, eins og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kom svo ágætlega inn á í ræðu sinni áðan þegar hún kvartaði undan því að stjórnarþingmenn hlýddu ekki á umræðuna, mjög mikil gerjun í gangi, sérstaklega í gagnaflutningum. Stærðfræðileg þjöppun gagna er í mikilli þróun. Við erum með ljósleiðarakerfi. Við erum með ADSL-kerfi í koparnum. Við erum með kerfi sem flytur gögn með tækni sem notuð er í gervitunglum. Það er eiginlega allt á floti í þeim efnum og gerjun mikil. Það er ekki á hreinu og liggur ekki ljóst fyrir hvað verður ofan á. Þess vegna erum við í allt annarri stöðu í flutningum á gögnum núna en t.d. í raforkunni. Það er ekkert víst að það kerfi sem Síminn býr yfir og situr yfir muni sigra í þessari þróun tækninnar.

Svo gleymdi ég að nefna, frú forseti, dýrustu eðlisfræðitilraun Íslandssögunnar, þ.e. tilraunin sem Orkuveita Reykjavíkur fór út í við að dreifa gögnum eftir venjulegu raforkukerfi. Það er afskaplega áhugaverð eðlisfræðitilraun en mjög dýr og því miður mistókst hún. Hún kostaði Reykvíkinga milljarða.

Núna alveg síðustu daga heyrir maður af netsímum þar sem hægt er að hringja ókeypis milli landa og hefði það nú einhvern tíma þótt frétt. Það er sem sagt óskaplega mikil gerjun í gangi í þessum efnum. Þess vegna held ég að raforkuflutningarnir og gagnaflutningarnir séu ekki sambærilegir og að í lagi sé að selja kerfið með Símanum vegna þess að það muni örugglega koma einhver ný tækni innan mjög stutts tíma sem verður bæði miklu ódýrari og veitir Símanum samkeppni.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson kom einmitt inn á það að samkeppni yrði erlendis frá í gegnum gervitungl. Það er bara akkúrat málið. Landssíminn eða Síminn mun ekkert verða samkeppnislaus með sitt kerfi. Það verður samkeppni erlendis frá.

Í fólki togast alltaf á stöðnun og samkeppni. Á að vera ein matvöruverslun fyrir allt landið á vegum ríkisins eða fjöldamargar litlar búðir. Auðvitað eru fjöldamargar litlar búðir miklu dýrari lausn. Það er náttúrlega alveg á hreinu. Það er miklu ódýrara að hafa bara eina matvöruverslun fyrir allt landið. En það er svo merkilegt með samkeppnina að hún nær niður verðinu í dýrari lausninni og þess vegna hafa allar þjóðir valið samkeppni þar sem hægt er að koma henni við. Það sem við erum að horfa á hér í sambandi við gagnaflutninga er einmitt dýrari lausn sem veldur samkeppni og mun knýja fram lægsta verð fyrir neytendur þegar fram líða stundir. Ég er alveg sannfærður um það. Þar fyrir utan eru þegar komnar fram mjög ódýrar lausnir fyrir fólk t.d. við að hringja til útlanda.

Þegar maður horfir á alla þessa þætti tel ég vera allt í lagi að selja Landssímann með kerfinu. Þar fyrir utan eru menn náttúrlega búnir að setja skilyrði um að hann verður að veita samkeppnisaðilum aðgang að kerfinu á kostnaðarverði þannig að menn eru búnir að reyna að leysa það vandamál og sumir telja að það sé bara þokkalega leyst. Ef aðrir kæmu með annað kerfi við hliðina á þá yrðu þeir að veita Símanum aðgang að sínu kerfi á kostnaðarverði.

Þar sem við horfum fram á svona mikla þróun og mikinn hraða þá held ég að vel sé þess virði að selja Landssímann með þessu kerfi vegna þess að nýjar lausnir munu koma sem veita þessu kerfi samkeppni, hvort sem það verða gervitungl frá útlöndum eða gervitunglalausnir á landi sem er mjög ódýr lausn líka. Það eru margir aðilar í þessum geira. Landsvirkjun er að vinna að kerfi, Orkuveita Reykjavíkur er að vinna að kerfi, Og Vodafone er með kerfi og Síminn er með sitt kerfi. Við erum því með mörg kerfi og þó að hægt sé að færa rök fyrir því að uppbygging á þeim verði dýrari þá á einmitt samkeppnin að pressa fram lægsta verðið fyrir neytendur.



[16:05]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég má til með að koma hér upp á eftir hv. þm. Pétri Blöndal. Ég vil byrja á að þakka honum fyrir að taka þátt í umræðunni. Það má segja honum til hróss umfram aðra stjórnarþingmenn að hann kemur gjarnan hér til leiks þegar eftir því er kallað að eiga orðastað við stjórnarþingmenn og ástæða er til þess að þakka fyrir það.

Hins vegar fór hann með sína alkunnu möntru um samkeppnina og ágæti hennar og margt er hægt að taka undir í því að almennt getur það vissulega átt við að samkeppnin sé af hinu góða. En ekki á það nú alls staðar við. Ég hygg t.d. ekki að við fengjum ódýrustu vatnslagnirnar með því að leggja þær af mörgum fyrirtækjum í sveitarfélögum. Við fengjum heldur ekki ódýrasta skólpið ef við værum með margar skólplagnir lagðar af mismunandi fyrirtækjum í einu og sama sveitarfélaginu og ég held heldur ekki að við fáum ódýrasta dreifikerfið fyrir upplýsingar og sjónvarpsefni ef margir aðilar fjárfesta fyrir milljarða í svipuðum dreifileiðum. Við fengjum jú einhverja samkeppni á höfuðborgarsvæðinu. Við fengjum hana ekki í hinum dreifðu byggðum landsins. Einhver verður auðvitað að borga alla þessa fjárfestingu og það verða að sjálfsögðu neytendur. Ég tel að markaðurinn hér standi ekki undir allri þeirri fjárfestingu. Þar af leiðandi held ég að þessi samanburður við matvöruverslunina eigi alls ekki við. Við erum að tala hér um fjárfestingu af allt annarri stærðargráðu og að sjálfsögðu verða neytendur að borga brúsann.

Ég vil líka láta það koma fram að alltaf er til staðar tortryggni af hálfu fyrirtækja sem þurfa að kaupa þjónustu af fyrirtæki sem er í samkeppni við viðskiptavini sína. Það er t.d. fyrirtæki eins og Síminn, það er t.d. fyrirtæki eins og 365 netmiðlar eða hvað það nú heitir. Maður er hættur að geta talað um þetta fyrirtæki. Maður veit aldrei hvernig maður á að nefna það. (Forseti hringir.) Það er mikilvægt að fyrirtæki eigi aðgang að einhverri dreifiveitu sem er hafin yfir þessa tortryggni.



[16:08]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er eflaust rétt hjá hv. þingmanni að um suma atvinnustarfsemi, t.d. vatnsveitur, sé hægt að færa rök fyrir því að tvöfalt kerfi yrði of dýrt jafnvel þó að samkeppni mundi reyna að þrýsta verðinu niður, svo að maður tali nú ekki um skólp. Það hefur reyndar ekki verið reynt en það getur vel verið að samkeppni verði um skólp. Það er t.d. að koma núna varðandi sorp og hugsanlegt er að fram komi samkeppnisfyrirtæki við Sorpu í Reykjavík. En ljóst er að samkeppnin krefst ákveðins markaðar, ákveðinnar stærðar á markaði og ég held t.d. að landsbyggðin geti kvartað undan því að skortur sé á samkeppni t.d. í olíu- og bensínsölu úti á landi þó að kannski sé einhver vísir að samkeppni í Reykjavík.

En ég tel, og færði rök fyrir því í máli mínu, að gagnaflutningar séu í svo örri þróun núna og að til eru svo margar lausnir og sumar hverjar alls ekki dýrar, eins og sú sem Landsvirkjun er að vinna að, að sú fjölbreytni mun kalla fram ódýrustu lausnina fyrir neytendur og ef einhverjir fara út í allt of dýrar fjárfestingar þá er það bara þeirra biti eins og alltaf í atvinnulífinu. Ég held að vegna þessarar öru þróunar muni einmitt gagnaflutningar geta fallið undir sama svið og matvöruverslun, þ.e. að aukin samkeppni þrýsti verðinu niður.



[16:10]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi þær mismunandi gagnaflutningaleiðir sem er verið að þróa núna þá er það vissulega alveg rétt að þær eru margar og mismunandi. Eins og er er það náttúrlega kannski aðallega koparinn. En allir vita að menn reyna að nýta sér koparinn því að hann er fjárfesting sem er til staðar, rétt eins og Orkuveitan var að nýta sér raflagnirnar af því að þær voru til staðar og það er skynsamlegt.

Hins vegar held ég að engum blandist hugur um það ef við erum að tala um gagnvirk samskipti að ljósleiðarinn sé framtíðin og þá erum við að tala um verulegar fjárfestingar sem liggja í ljósleiðaravæðingunni. Hættan er sú að þar fari nokkrir aðilar af stað. Síminn hefur fjárfest í ljósleiðurum. Orkuveita Reykjavíkur er að fjárfesta í ljósleiðurum. Landsvirkjun á ljósleiðara. Það er miklu nær að þessir aðilar leggi þessa ljósleiðara sína saman og veiti öllum aðgang að þeim. Þá getur orðið nýsköpun á þessum markaði og þá geta nýir aðilar komið inn. Það getur orðið nýliðun og þeir þurfa ekki að tortryggja þá sem veita þeim efnin um sínar dreifileiðir.



[16:11]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í því felst ákveðin hætta þegar menn þykjast hafa séð lausnir framtíðarinnar. Hv. þingmaður sagði að ljósleiðarinn væri framtíðin. Er það svo? Ég er ekkert viss. Það eru að koma fram lausnir núna sem hugsanlega gera það að verkum að ljósleiðarinn verður hreinlega úreltur vegna þess að hann er mjög dýr. Hann er mjög dýr á endastöðinni þar sem hann mætir heimilinu. (Gripið fram í.)

Ég er því ekkert viss um að sú staðlaða lausn sé á endanum það sem framtíðin muni gefa okkur í gagnaflutningum. Þetta er nefnilega akkúrat það sem samkeppnin laðar fram. Hún laðar fram nýja tækni og nýjar lausnir en hins vegar stöðlun, þ.e. að gera eitthvað að opinberu kerfi, opinberu dreifikerfi eins og gert er í raforkunni, stoppar alla framþróun — þar koma engar nýjar lausnir — einmitt með hliðsjón af sokknum kostnaði eins og í koparleiðslunum og núverandi ljósleiðarakerfi.



[16:12]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hverjum manni er í sjálfsvald sett að trúa á tilteknar pólitískar kenningar. Hins vegar er varasamt þegar menn trúa gagnrýnislaust og beinlínis hættulegt ef slíkir menn komast í valdaaðstöðu, aðstöðu til að stýra einu þjóðfélagi. Það á við, alla vega að hluta til, um hv. þm. Pétur H. Blöndal, formann efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Hann segir að líta megi á það sem nánast algilda reglu að samkeppni færi verðlag niður.

Nú vill svo til að áður en Síminn var gerður að hlutafélagi bjuggu Íslendingar við lægsta kostnað af síma í heiminum öllum. Þótt litið væri til allrar heimsbyggðarinnar voru afnotagjöld og símkostnaður Íslendinga lægri en gerist nokkurs staðar annars staðar innan OECD.

Annað er að við erum nú að fara með þessa þjónustu, ef vilji ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga, raforkugeirann einnig og aðra grunnþjónustu, inn á markaðstorg í krafti þessarar trúar hv. þingmanns að markaðsvæðingin komi til með að gagnast neytendum á þennan hátt, að verðlagið muni lækka.

Nú eru þær fréttir að berast frá Evrópu að einkavæðing og markaðsvæðing raforkunnar hafi ekki leitt til þess að verðlag hafi lækkað, það hafi gerst í sumum tilvikum gagnvart stórkaupendum, stórfyrirtækjum. En gagnvart almenningi hefur þetta ekki gerst. Það hefur í mörgum tilvikum hækkað.

Það sem er að gerast auk þess er að örfá fyrirtæki eru að sölsa undir sig allan markaðinn. Fákeppni á þessum markaði er að styrkjast. (Forseti hringir.) Óttast hv. þingmaður eða vill hv. þingmaður ekki draga einhverja lærdóma af þessari þróun?



[16:14]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu hefur hv. þingmaður aðra heimssýn en ég, ég hef löngu fallist á það. Ég hlusta á mál þingmannsins og viðurkenni rök hans og staðhæfingar með hliðsjón af heimssýn hans og rök hans og staðhæfingar eru réttar miðað við heimssýn hans. Við erum bara með mismunandi skoðanir og mismunandi heimssýn og ég vil gjarnan fá að hafa mína heimssýn í friði. Það er ekki þar með sagt að ég geti ekki hlustað á rök annarra manna eins og ég geri í þessari umræðu. Ég hef hlustað á alla umræðuna frá byrjun til enda og tek mið af og hlusta á þau rök sem koma fram og reyni að koma með rök á móti. Þannig er nú einu sinni umræða.

Varðandi það að við höfum haft lægsta kostnað í heimi, það var rétt, við vorum með lægsta kostnað í heimi nema til útlanda. Það var óskaplega dýrt að hringja til útlanda. Það var óskaplega dýrt að hringja til Íslands frá útlöndum. Ég man það sem námsmaður. Það var meiri háttar fjárfesting að hringja til Íslands og tók tvo klukkutíma að panta símtal á járnbrautarstöðinni í Köln. Þetta hefur breyst og ég er ekki viss um að íslenskir neytendur mundu vilja hafa fastlínusamband enn þá. Ég hugsa að íslenskir neytendur vilji gjarnan hafa GSM-símann sinn hvar sem þeir eru og þeir hafa einmitt valið það þrátt fyrir miklu hærri kostnað. Þeir vilja hafa þessa þjónustu. Þeir vilja eins og hv. þingmenn hér í salnum hafa sinn síma hjá sér. Og nú eru að koma í krafti samkeppninnar millilandasímtöl sem eru ókeypis. Ég veit ekki hvað getur verið ódýrara en það. Hvað getur verið ódýrara en það sem er ókeypis?



[16:16]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Var ekki einhver frjálshyggjumaður sem sagði að enginn málsverður væri ókeypis? Ég man ekki betur, og menn vildu skoða reikninga fyrir öllu sem gert … (Gripið fram í.) Já, var það ekki?

Þegar skoðuð eru gögn frá OECD og heildarsímakostnaður landsmanna er metinn þá var hann lægri hér á landi en nokkurs staðar innan OECD. Það kemur m.a. fram í mjög góðu riti, Símablaðinu, þar sem rifjaðir eru upp þættir úr 90 ára sögu Félags íslenskra símamanna.

Ég virði mismunandi, ólíkar pólitískar skoðanir. Hv. þingmaður segist hafa aðra heimssýn, aðra pólitíska sýn en ég, en ég vil gera greinarmun á því sem annars vegar er huglægt og lýtur að skoðunum manna og hins vegar hinu sem er hlutlægt og byggir á staðreyndum, mælanlegum staðreyndum. Það eru þessar mælanlegu staðreyndir sem ég er að vísa til. (Forseti hringir.) Ég er að vísa til reynslu annarra þjóða af mælanlegum staðreyndum og um það eigum við ekki að þurfa að deila.



[16:17]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Íslenskir neytendur hafa valið að nota GSM-síma í staðinn fyrir fastan síma sem bundinn er við kopar heima hjá sér. Þeir hafa valið það þrátt fyrir hærri kostnað. Þeir vilja frekar fá þjónustu, hún er þeim meira virði. Það er bara einfalt mál. Það er miklu ódýrara að nota heimilissímann í dag og auðvitað gætu allir Íslendingar notað hann og eingöngu hann og ekkert meira. En þeir vilja borga meira fyrir meiri þjónustu. Þeir vilja fá betri þjónustu.

Það er kannski sá munur á mér og hv. þingmanni að ég trúi á samkeppni, ég trúi á einstaklinginn og ég trúi á frjálsan markað en hv. þingmaður trúir á eitthvað allt annað.



[16:19]
Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég trúi líka á samkeppni og það að hægt sé að hafa markað þannig að hann geti virkað sem frjálst samkeppnisumhverfi. Ég spyr hv. þingmann, af því að hann ber ábyrgð á því með ríkisstjórninni sem hann styður, hvort hann telji að það verði virkilega raunhæft samkeppnisumhverfi á þeim markaði sem hér verður til ef Síminn verður seldur með grunnnetinu hafandi í kringum 70% af öllum viðskiptum á þessum markaði og tangarhald á þeim sem þurfa að flytja efni um grunnnetið hjá honum. Finnst hv. þingmanni virkilega — ég gat ekki betur heyrt áðan í ræðu hans — að það sé allt í lagi að öll þau pínulitlu fyrirtæki sem eru á þessum markaði fyrir utan Símann séu að bisa við að búa til ný grunnnet í landinu? Ég held því ekki fram að ekki megi vera til fleiri grunnnet en það sem Síminn hefur en er það svo að hv. þingmaður telji að það verði eitthvert vit í þessari samkeppni með því fyrirkomulagi? Mér finnst t.d. síðustu fréttir af Skjá 1 þar sem forsvarsmenn þess fyrirtækis komu með grátstafinn í kverkunum til að segja frá því að nú sé búið að taka frá þeim möguleikann á því að senda út, sé vísbending um hvað getur gerst þegar menn eiga allt undir önnur fyrirtæki sem þeir eiga í samkeppni við að sækja. Ég tel þess vegna að við eigum heimtingu á því hér á landi þegar verið er að einkavæða þessa starfsemi að það verði gert með það að markmiði að til verði trúverðugt samkeppnisumhverfi þar sem þau fyrirtæki sem eru að fóta sig á markaðnum fái tækifæri til að gera það í eðlilegu umhverfi. Það hallist ekki svo á sem í stefnir.



[16:21]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég trúi því að það myndist raunhæf samkeppni vegna þeirrar öru þróunar sem er að gerast einmitt núna þessa dagana. Ég nefndi í ræðu minni erlenda samkeppni, ég nefndi netið og þá tækni sem Fjarki og Íslandsmiðill eru að þróa, ég nefndi þá tækni sem Orkuveita Reykjavíkur er að þróa og ég sé ekki annað en að eitthvað af þessum kerfum muni veita Símanum mjög öfluga samkeppni í því að flytja gögn á sífellt þjappaðra formi og á sífellt ódýrari hátt.



[16:22]
Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá bið ég hv. þingmann að svara þeirri spurningu hvort hann telji þetta einhverja óskaplega nauðsyn fyrir Símann. Er ekki hægt að sleppa Símanum inn í þessa samkeppni öðruvísi en að hann hafi þetta forskot á önnur fyrirtæki í þessum bransa? Er það virkilega svo að þessu stóra fyrirtæki, sem hefur staðið sig svo vel í gegnum tíðina, sé ekki óhætt í því samkeppnisumhverfi sem þannig yrði til? Hvað er á bak við það að ekki megi kljúfa þetta í sundur? Við erum ekki að halda því fram að eignarhaldið á þessu grunnlínufyrirtæki geti ekki með einhverjum hætti verið þannig að það sé jafnvel á almennum markaði. Við höldum því bara fram að það megi ekki vera í eigu þess sem er í samkeppni við aðra. Þannig getum við búið til í upphafi einkavæðingarinnar almennilegt umhverfi fyrir fyrirtækin til þess að slást í samkeppninni. Hv. þingmaður gerir kannski grein fyrir þessu.



[16:23]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var búinn að því. Ég var búinn að gera grein fyrir því að vegna hinnar miklu þróunar og hraða í breytingum muni það engu breyta hvort Landssíminn verður seldur með kerfinu eða án, hann muni engu að síður lenda í samkeppni.

Á örfáum árum hefur hann tapað, eins og hv. þingmaður sagði, markaðshlutdeild úr 100% niður í 70% þannig að ég hugsa að vegna þess hve markaðurinn vex mjög hratt muni samkeppnin verða meiri og það verði jafnstærri aðilar á markaðnum. Svo megum við ekki gleyma öllum heiminum. Hann er hérna rétt fyrir utan. Hann er meira að segja yfir Íslandi með gervitunglin og þar mun koma samkeppni ef verðin verða of há innan lands.



[16:24]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal, talsmaður Sjálfstæðisflokksins við þessa umræðu, segist trúa einu og aðrir trúi einhverju öðru. Það er kannski vandinn við þessa umræðu að hún byggir af hálfu ríkisstjórnarinnar fyrst og fremst á trúarbrögðum. Stjórnarliðar hafa við umræðuna almennt neitað að horfa til reynslu annarra þjóða og einnig til reynslunnar innan lands. En það var reyndar ekki að hv. þm. Pétri H. Blöndal, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem þó reyndar kemur til umræðunnar og tekur þátt í henni sem er góðra gjalda vert, sem ég vildi beina orðum mínum, heldur til samstarfsflokksins í ríkisstjórn sem hefur engan fulltrúa við þessa umræðu og þá sérstaklega formanns þess flokks, hæstv. forsætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar. Hann er einkavæðingarráðherrann í ríkisstjórninni. Hann fer með einkavæðingarmál. Undir hann heyrir einkavæðingarnefnd.

Nú bregður svo við að þegar við ræðum þetta mikilvæga mál kýs hann að sitja þing Verslunarráðsins. Hann kýs að ræða við Verslunarráðið en hunsar þá umræðu sem fram fer á Alþingi og við þurfum að fletta upp á vef forsætisráðuneytisins til að frétta af viðhorfum hæstv. forsætisráðherra. Þar er nú komin ræða sem hann flutti í dag þegar hann ávarpaði Verslunarráðið og áhugamennina þar um markaðsvæðingu og sagði þar m.a. að einkavæðing og sala hlutabréfa í fyrirtækjum í eigu ríkisins hafi verið eitt af stærstu og helstu stefnumálum ríkisstjórnarinnar og fullyrti að mjög vel hefði tekist til. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ég leyfi mér að fullyrða að einkavæðingarferlið, ef svo má að orði komast, hafi gengið vel undanfarin ár og til þess fallið að auka samkeppni og skilvirkni í þjóðfélaginu, neytendum til hagsbóta.“

Vorum við ekki að ræða fyrir örfáum dögum um reynsluna af markaðsvæðingu raforkukerfisins? Var ekki verið að ræða þar um stórhækkun á rafmagni? Ég man ekki betur. Er það virkilega svo að menn telji að þau skref sem stigin hafa verið á þessu sviði hafi öll verið til góðs fyrir neytendur og samfélagið? Eru menn búnir að gleyma því að sú stofnun sem við erum að ræða um hér hefur skilað tugum milljarða króna í ríkissjóð skattborgurum til hagsbóta og nú ætla menn að afsala sér þessu fyrirtæki? Hæstv. forsætisráðherra segir í ræðu sinni um söluna á Símanum, með leyfi forseta:

„Með sölu á hlut ríkisins í Símanum er jafnframt ráðist í stærstu einstöku einkavæðingu Íslandssögunnar, og því afar mikilvægt að vel takist til.“

Nú ætla ég að leyfa mér að spyrja: Hvað á hæstv. forsætisráðherra við þegar hann segir að mikilvægt sé að vel takist til? Fyrir hvern? Fyrir íslenskt samfélag? Fyrir þau fyrirtæki sem komast yfir þennan bita? Fyrir Framsóknarflokkinn? (Gripið fram í.) Nú kann einhver að segja að þetta séu ósvífnir útúrsnúningar. Svo er ekki vegna þess að þegar ríkisbankarnir voru seldir var sérstaklega búið þannig um hnútana að það gagnaðist fyrirtækjum sem ríkisstjórnin og þá sérstaklega Framsóknarflokkurinn taldi vera sér tengd. Það er staðreynd. Ég minnist þess þegar hæstv. bankamálaráðherrann, hæstv. viðskiptamálaráðherrann sagði hér einhverju sinni á þingi að til væru fyrirtæki sem væru nátengd Framsóknarflokknum, okkar fyrirtæki, minnir mig að hún hafi sagt. Það væri fróðlegt að fletta því upp í þingtíðindum. En þannig var búið um söluna á ríkisbönkunum að ríkisstjórnin gæti makkað um söluna við tiltekin fyrirtæki í stað þess að fara með þá sölu út á markað.

Ég tek undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram á hæstv. forsætisráðherra, einkavæðingarráðherrann í ríkisstjórninni, að vera ekki viðstaddur þessa mikilvægu umræðu. Mér finnst það mjög ámælisvert að hann skuli kjósa að sitja fund Verslunarráðsins í stað þess að ræða við Alþingi, og ætla ég þá að láta liggja milli hluta að hann hafi farið í skíðaferð í frí á meðan Alþingi sat og málefni sem honum tengjast voru til umræðu.

Hæstv. forseti. Ég minni á að fyrir liggur annað þingmál sem tengist sölunni á Símanum frá hv. þingmönnum Steingrími J. Sigfússyni og Jóni Bjarnasyni. Þar er lagt til að sölunni á Símanum verði skotið á frest. Það er sett fram í nauðvörn vegna þess að eins og allir þekkja vorum við andvíg því í upphafi að gera Símann að hlutafélagi og síðan að selja það, en í nauðvörn er sú tillaga sett fram, að sölunni verði skotið á frest til ársloka 2008.

Ég vitnaði áðan í nýútkomið Símablað þar sem rifjaðir eru upp þættir í 90 ára sögu símans, mjög fróðlegt rit sem var í umsjá Þorsteins J. Óskarssonar, þar sem hann víkur að einkavæðingunni á Símanum. Hann rifjar upp rök sem fram komu með frumvarpinu þegar það kom fram 1996.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Augljóst er að stjórnendur sjálfstæðs íslensks fyrirtækis á sviði póst- og fjarskiptaþjónustu geta á mun auðveldari hátt brugðist við síbreytilegum aðstæðum á markaði og segja má að sjálfstætt hlutafélag á þessu sviði yrði að öllum líkindum mun arðbærara fyrirtæki, samkeppnishæfara og jafnframt áhugaverðari vinnuveitandi fyrir starfsfólk heldur en ríkisstofnun með svipuðu sniði og verið hefur.“

Við höfum rifjað það upp við umræður á Alþingi hvernig þessu þjónustufyrirtæki í eigu þjóðarinnar sem skilaði okkur lægstu símgjöldum í heiminum, hvernig það var gert að fjárfestingarfyrirtæki sem tapaði mörg hundruð milljónum króna á áhættufjárfestingum í Ameríku og víðar, sem seldi húsið við Austurvöll fyrir 820 millj. kr. og leigði síðan sjálfu sér fyrir stóran hluta af því á mánuði hverjum.



[16:32]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég má til með að koma inn á það sem hv. þingmaður sagði um trú manna á einkavæðingu, trú manna á hitt og þetta. Hingað til hefur þetta verið kallað sannfæring og í stjórnarskránni ber þingmönnum að fara að sannfæringu sinni og það geri ég. Ég er ekkert sérstaklega fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu, ég er aðallega fulltrúi sjálfs mín þó að stjórnarandstaðan reyni alltaf að þrýsta manni inn í það að vera fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Ég er ekki einu sinni í þeirri nefnd sem fjallar um þetta.

En ég trúi á það að einkavæðing sé betri en ríkiseign, ég trúi á það og sagan hefur sýnt mér það. Það var nefnilega þannig á Íslandi að bankarnir voru í ríkiseigu og lánuðu oft á tíðum með pólitískum vilja. Ég man ekki eftir því að þeir hafi nokkurn tíma skilað arði í ríkissjóð. (Gripið fram í: Nú!) Nei. Þau kröfðust meira að segja — Landsbankinn þurfti aðstoð ríkissjóðs, víkjandi lán og annað slíkt á tímabili. Það var ekki fyrr en bankarnir voru einkavæddir sem þeir fóru að skila gífurlegum hagnaði. Nú segja náttúrlega sumir að það sé á kostnað neytenda en svo er heldur ekki. Vaxtamunur, sem er aðalkostnaður neytenda, munurinn á því sem sparifjáreigendur fá og því sem skuldarar greiða hefur farið hratt minnkandi, mjög hratt minnkandi. Samkeppnin er því mikil í þessum geira þannig að ég styð mína sannfæringu og trú við reynslu af einkavæðingu bankanna.

Hv. þingmaður sagði að menn komist yfir þennan bita. Nú vill svo til að hann er í stjórn lífeyrissjóðs, hann gæti bara boðið í þennan bita. Hann gat líka boðið í bankana á sínum tíma ef þeir voru svona óskaplega góður kostur að kaupa.



[16:34]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu eiga menn að vera trúir sannfæringu sinni. En ég geri þá kröfu til þeirra sem stýra samfélagi okkar eða eiga drjúga hlutdeild í því að þeir byggi trú sína og sannfæringu á rökum sem þá standast skoðun. Og það tel ég ekki vera.

Ég held að ég geti fullyrt að það sé röng staðhæfing hjá hv. þingmanni að ríkisbankarnir — væntanlega er hann að vísa til Landsbanka og Búnaðarbanka — hafi fengið styrki frá hinu opinbera, ríkinu. Landsbankinn fékk lán upp úr 1990 eða á fyrri hluta tíunda áratugarins sem var greitt til baka, það var allt greitt til baka, það er staðreynd.

Landssíminn skilaði tugum milljarða … (Gripið fram í.) Já, allt í lagi, en ég held að það sé rangt sem hv. þingmaður sagði þar, það sé bara rangt. Þetta skulum við skoða en ég tel að þetta sé röng fullyrðing.

Síðan er ég að staðhæfa að Landssíminn hafi skilað miklum fjármunum inn í ríkissjóð, fjármunum sem hann verður að verulegu leyti sviptur vegna þess að hann kemur aðeins til með að fá peninga inn í skatthirslurnar í gegnum skatta, sem verða óneitanlega miklu, miklu minni fjárhæðir.

Hvað varðar hv. þingmann og Sjálfstæðisflokkinn og tengsl hans við hann þá hef ég nú trú á því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi komið eitthvað við sögu þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal var gerður að formanni efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.



[16:36]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er rétt hjá hv. þingmanni, ég var kosinn í efnahags- og viðskiptanefnd sem formaður. En ég er ekki að tala hér sem slíkur, ég er að tala sem einfaldur þingmaður og ræða um einkavæðingu bankanna og einkavæðingu Landssímans.

Þegar menn kaupa fyrirtæki veit hv. þingmaður að menn kaupa hagnað framtíðarinnar. Fyrirtæki sem er með góðan og mikinn hagnað er selt hærra verði en annað sem er með lakan hagnað þannig að þegar Landssíminn verður seldur fær ríkissjóður hagnað allrar framtíðar eða trú manna á þann hagnað, og jafnvel oft meira í þeirri trú kaupenda að þeir geti bætt hann með bættum rekstri með því að auka hagnaðinn enn meira. Þannig er hagnaðurinn seldur.

En í sambandi við að ég hafi ekki fært rök fyrir máli mínu þá ég vil nú bara nefna það, herra forseti, að laun hafa hækkað hér á landi sem hvergi annars staðar í heiminum síðan Sjálfstæðisflokkurinn kom inn í ríkisstjórn. Og vegna þess frelsis sem menn hafa innleitt á markaði, vegna þess frelsis í fjármagnsflutningum og frelsis fyrirtækja, lækkun skatta o.s.frv. hefur hagur almennings stórbatnað. Hagur ríkissjóðs hefur verið með miklum ágætum, yfirleitt afgangur, mikill afgangur. Áður fyrr var þetta dúndurtap á hverju einasta ári.

Ég tel mig því aldeilis geta fært rök fyrir því að frelsi einstaklingsins og samkeppnin sé bara ágætismál. Ég vil ekki hugsa til þess hvernig þetta var einu sinni í sambandi við gjaldeyriskaup og gjaldeyrishöft og allt það. Þetta mikla tækifæri, þessi mikla veltuaukning vegna frelsisins og samkeppninnar hefur leitt til þess að hægt er að lækka skatta umtalsvert án þess að ríkissjóður beri tjón af.



[16:38]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ætli það eigi ekki við um okkur flest að við teljum að samfélaginu hafi miðað fram á við þegar litið er til undangenginna áratuga, að ekki sé minnst á fyrri aldir þegar Íslendingar bjuggu við mjög bágan kost. Hins vegar held ég að skýringar hv. þingmanns á framförunum séu nokkuð umdeilanlegar.

Við skulum ekki gleyma því, þó að ég ætli ekki að gerast svartsýnismaður eða úrtölumaður, við skulum samt sem áður vera raunsæ. Staðreyndin er sú að bankarnir hafa verið að taka að láni í útlöndum á undanförnum missirum mörg hundruð milljónir króna, ef ekki milljarða. (Gripið fram í: Án ríkisábyrgðar.) Án ríkisábyrgðar! Hvílíkur barnaskapur er þetta? Við erum að tala um efnahagslíf einnar þjóðar og hvernig á því er haldið að sjálfsögðu. Það er auðvitað nokkuð sem kemur öllu samfélaginu við þegar það gerist að viðskiptahalli er orðinn viðvarandi ár eftir ár. Menn gera ráð fyrir að hann sé á þessu ári 60–70 milljarðar kr., menn gera ráð fyrir 150 milljörðum á næsta ári, menn eru að tala um 50 milljarða á árunum sem þar koma á eftir eða alls uppsafnaðan viðskiptahalla fram til 2010 upp á 500 milljarða kr. Þetta eru peningar sem eru teknir að láni sem að sjálfsögðu þarf síðan að greiða fyrir þannig að við skulum ekki dansa á einhvern óábyrgan hátt eins og mér heyrist hv. þingmaður gera.

Hins vegar verð ég að segja að mér finnast frjálshyggjumenn skipta um gír ansi oft í þessum málum. Þegar starfsemi er á vegum ríkisins er sagt að það þurfi að færa hana út á markað og innleiða samkeppni. (Forseti hringir.) Þegar hún er þangað komin þarf að sameina, þá þarf að sameina kraftana (Forseti hringir.) og þá er talað um samlegðaráhrif o.s.frv. (Forseti hringir.) Eitt sagt í dag, annað á morgun, allt eftir því hvað þjónar hagsmunum fjármagnseigenda.



[16:41]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið áhugaverð umræða sem nú er í reynd fram haldið því að hér er verið að halda áfram umræðu sem fór fram eða hófst fyrir nokkrum dögum og lýtur að þingsályktunartillögu Jóhanns Ársælssonar og fleiri um að fela ríkisstjórninni að endurskoða fyrirætlanir um sölu Símans.

Þeirri umræðu sem hefur farið fram og er fyrst og fremst ætlað að fjalla um hvort sala Símans í heilu lagi sé aðferðafræðin sem fleyti okkur í fjarskiptamálum skref áfram eða hvort sala fyrirtækis sem hefur markaðsráðandi stöðu eins og Síminn sé æskileg, hvort æskilegt sé að selja hann í heilu lagi eða undanskilja grunnnetið.

Á viðskiptaþingi Verslunarráðsins í dag fjallaði hæstv. forsætisráðherra um þetta mál og valdi það að ræða málið þar í stað þess að koma hér og ræða það á hinu háa Alþingi við hv. þingmenn, þá fullyrti hæstv. forsætisráðherra að besta leiðin til að selja Símann væri að selja hann í einu lagi. Ef farin yrði önnur leið mundi það skapa óvissu um sölu á fyrirtækinu og draga úr verðmæti Símans. Þetta fullyrti hæstv. forsætisráðherra og því hefði maður kannski talið, eftir að hafa hlýtt á og lesið þá ræðu sem hann flutti í dag, að markmið ríkisstjórnarinnar með sölu á Símanum væri fyrst og fremst að fá hátt verð fyrir Símann. Það væri kjarni málsins, að fá eins hátt verð fyrir Símann og kostur væri án þess að velta fyrir sér hvaða afleiðingar það kynni að hafa í för með sér að selja Símann í heilu lagi og í raun að afhenda einkaaðilum markaðsráðandi fyrirtæki á þann hátt sem hér er uppi.

Það sem hins vegar stingur í stúf er að annars staðar í sömu ræðu hæstv. forsætisráðherra segir hann, með leyfi forseta:

„Markmið íslenskra stjórnvalda með sölu á hlut sínum í Símanum eru skýr: að auka samkeppni á fjarskiptamarkaði enn frekar og bæta þannig hag neytenda.“

Ef ég því dreg þessar tvær fullyrðingar saman þá segir hæstv. forsætisráðherra að besta leiðin til að tryggja hag neytenda og besta leiðin til að tryggja þróun á fjarskiptamarkaði sé að selja Símann í einu lagi.

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að mótmæla þessum fullyrðingum og það er mat mitt að með því að gera það á þennan hátt séum við að vega að því að hér verði einhver viti borin samkeppni. Það er eins og fram hefur komið í umræðunni að þó að menn eigi vitaskuld ekki að trúa í blindni á einhverjar slíkar kenningar þá ætla ég að leyfa mér að fullyrða að þar sem samkeppni tekst — og þá er ekki verið að tala um olíumarkað eða eitthvað slíkt þar sem menn dunda sér við að semja um verð, eða aðra markaði — en þar sem raunveruleg samkeppni tekst og það tekst að halda henni við, þar sé hag neytenda best borgið.

Það er hins vegar stórmál að tryggja samkeppnina. Þess vegna vil ég leyfa mér að gjalda mikinn varhuga við því að selja jafnöflugt markaðsráðandi fyrirtæki og Síminn er í einu lagi og grunnnetið með.

Það er verðugt umhugsunarefni að Síminn er í dag í krafti grunnnets síns og einkanlega kopartenginganna, hvað svo sem framtíðin kann að bera í skauti sér, með viðskiptasamband við hvert einasta heimili í landinu. Það felast gríðarleg verðmæti í að vera tengd inn á hvert einasta heimili í landinu, og að ætla að láta jafnstórt og öflugt fyrirtæki fara í einu lagi verandi með þessa aðstöðu og ætla sér að treysta á að ein lítil stofnun geti tryggt að samkeppni sé á þessum vettvangi finnst mér eins og að menn séu að fara af stað með mikla trú en lítið í farteskinu.

Ég vildi vekja sérstaklega athygli á þessu, virðulegi forseti. Símafyrirtækin, þau fyrirtæki sem eru í samkeppni við Símann, hafa öll goldið varhuga við því að gera þetta með þessum hætti vegna þess að reynslan hefur kennt þeim, þrátt fyrir góðan og hástemmdan vilja löggjafans að tryggja öllum aðkomu að grunnnetinu, að það hefur ekki tekist með þeim hætti að ásættanlegt er. Þess vegna hafa þau fyrirtæki sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að grunnnetið verði aðskilið.

Hins vegar finnst mér ekkert mæla því í mót að grunnnetið sé svo selt sérstaklega. Það er alveg ástæðulaust fyrir ríkið að vera í samkeppni við önnur grunnnet, en það er mat mitt að til þess að tryggja samkeppni sem er mjög erfitt eins og menn þekkja því það er miklu auðveldara fyrir forstjóra fyrirtækja, fyrir stjórnendur að semja um verð þegar fá fyrirtæki eru á markaðnum eins og reynslan ber með sér, þannig að ef við ætlum að búa til raunverulega samkeppni sem tryggir hag neytenda, samkeppni sem knýr menn áfram til að þróa og bæta rekstur sinn þarf að vera raunveruleg samkeppni til staðar og að minni hyggju næst hún ekki fram með þessari aðferðafræði. Því hefði ég viljað sjá önnur sjónarmið uppi en fram komu í ræðu hæstv. forsætisráðherra í dag.

Ég sagði fyrr í umræðunni að ég saknaði þess mjög að hæstv. ráðherrar tækju ekki þátt í jafnmikilvægri umræðu og hér fer fram, því það er mat mitt að salan muni skipta miklu máli. Hún muni skipta miklu máli um þróun atvinnugreinar sem er í örum vexti og ég óttast að þróunin verði ekki jafnhröð og öflug ef sú leið verður farin sem hér er ætlað að fara. Það er líka sannfæring mín að það umhverfi og þau viðhorf sem voru uppi fyrir tæpum fimm árum þegar samþykkt var að selja hlutabréf í Símanum eigi ekki endilega við í dag. Þess vegna hefði verið mikilvægt að hér færu fram öflug skoðanaskipti milli ráðherra og þingmanna um það umhverfi sem nú er uppi í stað þess að stjórnarandstaðan, að hv. þingmanni Pétri H. Blöndal undanskildum, hefur að mestu haldið uppi einræðu um sjónarmið þar sem verið er að reyna að tryggja sölu sem tryggir samkeppni, en í sjálfu sér, virðulegi forseti, kemur það ekki á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki vilja taka þátt í þeirri umræðu af meiri krafti en verið hefur.