131. löggjafarþing — 69. fundur
 9. feb. 2005.
Íslenskir fiskkaupendur.
fsp. KLM, 487. mál. — Þskj. 743.

[12:15]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Frú forseti. Á nýliðnu ári voru tæplega 50 þús. tonn af óunnum fiskafla send á erlendan markað og seld fyrir um 8,2 milljarða kr. Verðmætið jókst um 46% frá árinu 2003 og jókst útfluttur afli um 43%. Sem dæmi um útflutt magn voru rúm 6 þús. tonn af ýsu flutt út óunnin fyrir um 2,4 milljarða kr. Mestur útflutningur er frá Vestmannaeyjum, um 31% af heildarmagninu.

Virðulegi forseti. Til samanburðar fyrir árið í fyrra voru seld tæp 100 þús. tonn fyrir um 11,3 milljarða kr. á öllum fiskmörkuðum á Íslandi. Fyrirspurn mín til hæstv. sjávarútvegsráðherra vegna þessa er svohljóðandi:

Hefur ráðherra í hyggju að leggja til breytingar á lögum og reglum sem tryggja að íslenskir fiskkaupendur geti boðið í fisk sem nú er fluttur óunninn úr landi á markað erlendis?

Með breytingu á reglugerð nr. 105 frá 14. febrúar 2003 var stigið lítið jákvætt skref, nánast hænuskref, í þessa átt. Þá var útflytjendum á óunnum afla gert skylt að tilkynna með minnst 24 klukkutíma fyrirvara til Fiskistofu þá ætlun sína að flytja út óunninn afla. Það hænuskref hefur hins vegar engu skilað og er nánast gagnslaust. Nokkrir fiskverkendur hafa reynt þetta og oftast ekki fengið svar. Með hinu fullkomna uppboðskerfi Íslandsmarkaðar geta erlendir aðilar boðið í fiskinn í samkeppni við íslensk fyrirtæki.

Á það mætti reyna hver væri hæstbjóðandi áður en fiskurinn yrði fluttur út. Kerfið mundi því bæði styrkja innlenda fiskverkendur í hráefnisöflun og íslenska fiskmarkaði auk þess að auka atvinnu hér á landi. Þetta er að mínu mati sanngjörn leið, virðulegi forseti, til verðmyndunar sem eykur um leið íslensk umsvif og jafnframt stöðugleika í vinnslu hér heima, styrkir markaðsstöðu okkar fyrir ferskan fisk, útilokar ekki erlenda kaupendur frá óunnum afla og skerðir ekki heldur tekjur sjómanna. Við mundum með þessu búa til alþjóðlega samkeppni með íslenskan fisk. Þetta er því mikið sanngirnismál.

Frú forseti. Ég hef gert grein fyrir ástæðunni fyrir því að ég legg þessa fyrirspurn fyrir hæstv. sjávarútvegsráðherra, þ.e. að 50 þús. tonn voru flutt óunnin úr landi á síðasta ári og aðeins helmingi meira fer í gegnum hina íslensku fiskmarkaði.



[12:18]
sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Því er til að svara að ég hef engar fyrirætlanir um að breyta fyrirkomulaginu eins og það er í dag. Ég tel að útflutningsálagið sem í gildi er og þeir möguleikar sem fiskvinnslan hefur til að nálgast upplýsingar um fyrirætlaðan útflutning eigi að nægja í opnu markaðshagkerfi til þess að þeir sem telja sig geta boðið betur í fiskinn en þeir sem selja hann eiga von á að fá á erlendum mörkuðum hafi möguleika til að kaupa fiskinn.

Það er kannski rétt að nefna í þessu samhengi, þar sem hv. þingmaður fór með tölur um útflutning á óunnum fiski á síðasta ári, að umtalsverð aukning varð á þeim útflutningi. Ef ég man tölurnar rétt fór hann úr tæplega 30 þús. tonnum í 50 þús. tonn. Þar munar mestu um aukinn útflutning á ýsu en ástæða þess er að sjálfsögðu sú að ýsukvóti hefur vaxið mjög að undanförnu og veiðin þar með. Þar með hefur þurft að leita nýrra leiða til markaðssetningar á þeim afurðum. Það hefur reyndar verið áhyggjuefni hve mikið verðið á ýsu hefur lækkað vegna hins aukna framboðs.

Ef við síðan skoðum þetta í samhengi við niðurstöður frá svokallaðri fiskmarkaðsnefnd frá því snemma árs 2003 þá sést greinilega, af þeim niðurstöðum, að ástæða þess að aðilar flytja út fisk óunninn er sú að þeir fá hærra verð fyrir hann á erlendum mörkuðum en þeir hefðu líkast til fengið á innlendum markaði. Ég held að rétt sé að álykta sem svo að innlendir fiskseljendur flytji fisk á erlendan markað óunninn þegar þeir telja líkur á að fá hærra verð fyrir hann þar en þeir fengju á innlendum mörkuðum eða þegar þeir þurfa að leita nýrra markaða vegna aukins framboðs, eins og raunin virðist hafa verið með ýsuna. Út frá þeim forsendum hef ég ekki neinar fyrirætlanir um að breyta fyrirkomulaginu.



[12:21]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég verð að lýsa vonbrigðum með svar hæstv. ráðherra við fyrirspurn hv. þm. Kristjáns L. Möllers. Ég á erfitt með að trúa því að hæstv. ráðherra skuli ekki telja eðlilegt að íslenskir fiskkaupendur standi jafnfætis a.m.k. erlendum fiskkaupendum við að bjóða í fisk sem veiddur er úr sameiginlegri auðlind okkar.

Ef ástæðan er sú að verðið fyrir óunninn fisk erlendis er hærra en á innlendum fiskmörkuðum þá væri afskaplega auðvelt fyrir eigendur aflans, ef við getum kallað þá það, að bjóða í fiskinn hér heima, flytja hann út og hagnast á því háa verði sem væri á erlendum fiskmarkaði. Getur verið að mismunandi vigtarreglur, yfirvigt á erlendum mörkuðum, hafi eitthvað með þetta að gera? Það vita allir sem til þekkja að þegar fiskkaupendur erlendis kaupa eitt kíló þá fá þeir ekki eitt kíló heldur 1,1 eða 1,2 kg. Þar með gengur náttúrlega ekki eins á kvótann með því að selja fiskinn erlendis þótt vigtarálag sé á kvótanum.

Ég skora á hæstv. ráðherra að endurskoða afstöðu sína því að ég trúi ekki að hún geti staðist til framtíðar.



[12:22]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er full ástæða til að vera vonsvikinn yfir undirtektum hæstv. sjávarútvegsráðherra. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að hann skilji ekki málið. Til staðar er gríðarlega mikil tækni hjá innlendum fiskmörkuðum þannig að hægt er að vera staddur annars staðar í Evrópu og gera tilboð í samkeppni við innlenda aðila hér. Þarna er verið að markaðssetja íslenska auðlind og því er eðlilegt að hún komi hér á markað.

Það skyldi þó ekki vera að lagaumgjörð íslenskra fiskmarkaða, eins og hæstv. ráðherra ýjaði að, sé með þeim hætti að þeir séu ekki samkeppnishæfir við erlenda markaði varðandi t.d., eins og minnst var á áður, vigtun og mat á gæðum aflans. Þá á náttúrlega að laga það. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann taki það ekki með í reikninginn við endurskoðun á lögum um fiskmarkaði, að það verði ekki samkeppnishindrandi.



[12:23]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það eru ekki margir dagar síðan við ræddum um þessi mál á Alþingi. Við ræddum þá frumvarp um fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu sem tveir þingmenn, Frjálslynda flokksins og Samfylkingar, hafa lagt fram á Alþingi nokkur ár í röð.

Að sjálfsögðu ætti allur afli að fara á markað ef allt væri með felldu, uppboðsmarkað þar sem menn gætu keppt á jafnréttisgrundvelli um hráefnið. Ég vil í þessu sambandi nefna að t.d. í Færeyjum, þar sem er skilið milli veiða og vinnslu, hefur töluvert af hráefnið farið óunnið úr landi. Þar fallast menn á það núna að setja reglur um að allur afli fari á markað og verði boðinn upp, það sé í raun langheilbrigðasta umhverfið til verðmyndunar og gagnist öllum til lengri tíma litið að lögmál markaðarins fái að ráða og heiðarleiki í opnum viðskiptum.



[12:24]
Gunnar Örlygsson (Fl):

Virðulegur forseti. Það sem kemur kannski mest á óvart í þessari umræðu er að svo virðist sem hv. þingmenn Vinstri grænna sýni markaðslögmálinu meiri skilning en hæstv. ráðherra sem kemur úr röðum sjálfstæðismanna. Ég minnist þess úr síðustu kosningabaráttu að hæstv. ráðherra Árni Mathiesen greindi frá því að hann hefði það markmið að tvöfalda verðmæti sjávarfangs á Íslandi á 10 árum. 50 þús. tonn af óunnu hráefni sem fer á markað erlendis mundu skila 4–7 milljörðum kr. aukalega í kassann ef það væri unnið heima.

Það hefur oft komið fram í umræðunni, eins og kom fram í máli hv. þingmanns Jóns Gunnarssonar, að vigtarfyrirkomulag erlendis á óunnu hráefni er undir kastljósi þeirra sem áhuga hafa á sjávarútvegi. Svo virðist sem það sé með öðru sniði en hér heima. Vert væri að fá að vita frá hæstv. ráðherra hvort hann hyggist kanna það mál sérstaklega til að þagga niður þær raddir sem hafa verið nokkuð háværar um þau mál að undanförnu.



[12:26]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hráefnisskorturinn kann að vera helsta vandamál íslenskrar fiskvinnslu. Það kom mjög skýrt fram í nefnd sem ég stýrði um málefni fiskvinnslunnar fyrir fáeinum árum. Þess vegna er mjög eðlilegt að fiskverkendur horfi til þessara 50 þús. tonna sem nú fara í sölu beint til útlanda án þess að menn hafi möguleika á að bjóða í þann fisk.

Hinu verða menn þó að gera sér grein fyrir, að ef þetta er selt á almennum markaði þar sem bæði útlendingar og Íslendingar geta keppt þá er ekki þar með sagt að sá afli fari allur til vinnslu hérlendis. Hann getur auðvitað lent í höndunum á erlendum fiskverkendum. Það sem mér finnst skipta máli í þessu sambandi er að með því að fiskurinn fari um íslenska fiskmarkaði væri tryggt ákveðið jafnræði íslenskra og erlendra fiskverkenda en jafnframt tryggt að ráðstöfunarrétturinn væri útgerðarmannsins. Þannig á það skilyrðislaust að vera. Það á auðvitað að vera þannig að útgerðarmaðurinn hafi rétt til að ráðstafa afla sínum, hvort hann vill nota hann í sína eigin fiskvinnslu, selja hann á fiskmarkaði eða hvernig hann vill gera það. Hann getur selt hann hæstbjóðanda ef svo ber undir.

Aðalatriðið finnst mér að menn horfi til þess að ráðstöfunarrétturinn er útgerðarmannsins og það eigi að gilda jafnræði milli íslenskrar og erlendrar fiskvinnslu.



[12:27]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni með að jafnræði milli fiskkaupenda erlendis og á Íslandi eigi að vera leiðarljós í þessum efnum. Þegar hæstv. ráðherra breytti reglugerðinni og steig þar hænuskref sem ég nefndi, sem ekkert gagn hefur gert, þá sagði m.a. í fréttatilkynningu sem ráðuneytið gaf út að ráðherrann vonaðist til að þetta ýtti undir frekari verðmætasköpun hér heima, skapaði fleiri störf í sjávarútvegi og yrði raunveruleg viðbót við þau störf sem falla munu til í sérstöku atvinnuátaki ríkisstjórnarinnar. Reglugerðin mundi taka gildi 15. apríl 2003.

Virðulegi forseti. Ég gagnrýndi áðan að þessi markmið hefðu ekki náðst og verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með svar hæstv. ráðherra, að hann ætli ekki að beita sér fyrir þessu. Ég spyr auðvitað: Hverra hagsmuna er verið að gæta hér? Bjó að baki eitthvað annað en kom fram í fréttatilkynningunni? Já, mér virðist það. Fréttatilkynningin er ágæt og þau markmið sem þar koma fram en störf og stefnumið ráðherrans eru allt annað. Það að útflytjendur þurfi að tilkynna sig Fiskistofu með 24 klukkustunda fyrirvara og það sé tilkynnt til þeirra sem hafa skráð netfang sitt inn að einhver afli sé að fara út virðist engu breyta. Fiskkaupendur hér á landi hafa reynt að bregðast við en það hefur ekki gengið upp. Kerfið sem ráðherrann beitti sér fyrir og koma þarna á er því handónýtt.

Hæstv. ráðherra sagði áðan að hærra verð fengist fyrir aflann á erlendum mörkuðum — sem sannarlega hefur komið fram — en hann orðaði það þannig að: „… hærra verð fengist fyrir aflann á erlendum mörkuðum en þeir hefðu líkast til fengið á innlendum markaði.“ Hann segir „líkast til“ og það er málið vegna þess að á þetta hefur ekki reynt.

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra um eitt. Það á að gilda hið opna markaðshagkerfi í þessu eins og öðru. En mér sýnist ráðherra Sjálfstæðisflokksins, hæstv. sjávarútvegsráðherra, ekki beita sér fyrir því. Þess vegna er það verkefni okkar að halda áfram að inna eftir þessu og athuga hverra hagsmuna er verið að gæta í þessu sambandi.



[12:29]
sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson sagðist vilja að íslenskir fiskkaupendur stæðu jafnfætis erlendum fiskkaupendum. Íslenskir fiskkaupendur standa betur en erlendis fiskkaupendur vegna þess að þeir hafa nálægðina. Þeir hafa að auki upplýsingarnar og síðan er útflutningsálagið þeim í vil. Það ætti líka að vega upp á móti hugsanlegum mismun á færslum eða vigtun en það er hins vegar atriði sem Fiskistofa hefur eftirlit með að sé í lagi.

Hv. þingmenn tala um að markaðsfyrirkomulagið eigi að ríkja í þessu tilfelli. Þetta er opinn og frjáls markaður sem hér er um að ræða. En það virðist eins og hv. þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, ég hélt reyndar síður að það ætti við frjálslynda en það getur þó líka verið, telji að hinn frjálsi markaður sé alltaf skipulagður uppboðsmarkaður. Það er bara ekki þannig. Hinn frjálsi markaður er opinn og allir geta tekið þátt í honum á ýmsa vegu. Niðurstaðan af þessu fyrirkomulagi, þessum breytingum sem við gerðum, varð ekki eins og ég vonaðist eftir. Það var einfaldlega vegna þess að innlendu fiskkaupendurnir hafa ekki verið tilbúnir til að greiða eins gott verð fyrir fiskinn og fæst fyrir hann á erlendum mörkuðum í þeim tilfellum sem fiskurinn er fluttur út. Það fæst mjög gott verð og stundum hámarksverð fyrir ferskan fisk, óunninn í roði. Það er hágæðavara á háu verði og til þess að fyrir hann fáist rétt verð þarf að flytja hann út í því formi en ekki unninn. Þannig virkar hinn frjálsi markaður. Hann verðleggur og það er hann sem ræður því hvernig við deilum hráefni á markaðinn.