131. löggjafarþing — 69. fundur
 9. feb. 2005.
Reiknilíkan fyrir rekstur sýslumannsembætta.
fsp. MF, 305. mál. — Þskj. 333.

[12:32]
Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn á þskj. 333 sem er orðin nokkuð öldruð. Það er ekki við hæstv. ráðherra eða starfsmenn þingsins að sakast heldur mig sjálfa því vegna fjarveru minnar hefur fyrirspurnin ekki verið tekin fyrir.

Árið 1999 skipaði þáverandi dómsmálaráðherra nefnd um gerð reiknilíkans fyrir rekstur sýslumannsembætta. Samkvæmt erindisbréfi nefndarinnar var markvisst starf hennar að stuðla að sem bestri nýtingu fjármuna til rekstrar og þjónustu sýslumannsembætta og kerfisbundinni skiptingu fjármuna milli embættanna. Einnig átti að stefna að því að gera kostnað einstakra embætta samanburðarhæfan, að einingarkostnaður yrði sambærilegur að teknu tilliti til mismunandi aðstæðna.

Í október 2002 svaraði þáverandi dómsmálaráðherra, Sólveig Pétursdóttir, fyrirspurn minni um vinnulok nefndarinnar á þá leið að í upphafi ársins 2003 mætti vænta áfangaskýrslu nefndarinnar. Vinnan hefði reynst viðameiri en gert var ráð fyrir. Töf hennar mætti þó einkum rekja til athugunar nefndarinnar á löggæsluhluta embættanna þar sem vaktafyrirkomulag löggæslunnar væri mjög mismunandi eftir fjölda lögreglumanna, fjölda útibúa og stærð umdæma í ferkílómetrum. Engu að síður upplýsti ráðherra að reiknilíkanið væri þá, í október 2002, að stærstum hluta tilbúið.

Á þeim tímapunkti var helst horft til þess að nota líkanið til að skoða hvar helst bæri að leggja áherslu á úrbætur á fjárlögum til embættanna. Núverandi ráðherra hefur rætt um breytingar á starfi og skipulagi lögreglu- og sýslumannsembætta og má því ætla að vinna nefndarinnar sem skipuð var 1999 hafi verið nýtt við tillögugerð um framtíð sýslumannsembættanna og verkefni þeirra. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hefur nefnd sem skipuð var 1999 um gerð reiknilíkans fyrir rekstur sýslumannsembætta lokið störfum? Ef svo er, hvenær skilaði nefndin af sér og hver var niðurstaðan varðandi fjárþörf og mannaflaþörf hjá einstökum embættum? Ef ekki, hvenær má vænta þess að nefndin ljúki störfum og verður skýrsla hennar rædd á Alþingi?



[12:34]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda var árið 1999 skipuð nefnd um gerð reiknilíkans fyrir rekstur sýslumannsembætta. Samkvæmt erindisbréfi nefndarinnar var markmið starfs hennar að stuðla að sem bestri nýtingu fjármuna til rekstrar og þjónustu sýslumannsembætta og kerfisbundinni skiptingu fjármuna milli embætta. Einnig var stefnt að því að gera kostnað einstakra embætta samanburðarhæfan og að einingarkostnaður yrði sambærilegur hjá embættunum að teknu tilliti til mismunandi aðstæðna.

Nefndin hóf störf sín með því að afla upplýsinga hjá öðrum Norðurlöndum um hvort sambærilegt verk hefði verið unnið þar. Af þeim svörum sem bárust reyndist svo ekki vera. Nefndin kynnti sér líka reiknilíkan í rekstri framhaldsskóla og háskóla hér á landi. Þá var aflað upplýsinga um einstaka rekstrarþætti hjá sýslumannsembættum.

Í starfi nefndarinnar kom fram að gerð reiknilíkans sem mælir á raunsæjan hátt rekstrarkostnað sýslumannsembætta reyndist vera mun flóknara en talið var í upphafi og tafði það störf nefndarinnar. Má fyrst og fremst rekja það til löggæsluhlutans, eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, í starfi sýslumanna, en vaktafyrirkomulag löggæslunnar í landinu er með mjög mismunandi hætti eftir fjölda lögreglumanna, hvort rekin eru eitt eða fleiri útibú, stærð umdæmisins í ferkílómetrum talið o.fl.

Vandinn sem nefndin stóð frammi fyrir var í megindráttum sá að finna jafnvægið á milli þess að einfalda líkanið ekki um of þannig að það mældi ekki á raunhæfan hátt kostnað við rekstur embættanna og hins vegar að gera líkanið ekki svo flókið að það yrði ekki handhægt vinnutæki. Sú millileið hefur enn ekki fundist þótt vinna við sjálft líkanið sé langt komin.

Fyrir um ári setti ég á laggirnar verkefnisstjórn um nýskipan lögreglumála. Í skipunarbréfi var henni falið að horfa til vinnu reiknilíkansnefndarinnar en í skipunarbréfinu sagði að frekari vinna við það hlyti að taka mið af þeim markmiðum sem nú væru að mótast um skipan löggæslu og innra starf lögreglunnar. Það er mat mitt, eins og fram kemur í skipunarbréfinu, að vel ígrundað og sanngjarnt reiknilíkan um alla meginþætti í starfi sýslumanna og lögreglu sé liður í því að væntanlegar breytingar verði árangursríkar auk þess sem líkan af þessu tagi geti verið ómetanlegt hjálpartæki við framkvæmd breytinganna.

Verkefnisstjórn um nýskipan lögreglumála skilaði fyrir stuttu skýrslu sinni og er þar vikið að þessum atriðum. Þar kemur fram að verkefnisstjórnin telur skynsamlegt að leitað verði leiða til að ljúka vinnu við reiknilíkanið. Að mati hennar ættu lykilbreyturnar að vera stærð umdæmis og fjöldi íbúa, annars vegar í þéttbýli og hins vegar í dreifbýli, í viðkomandi umdæmi auk þess sem horfa þurfi til upplýsinga um afbrot og tegundir þeirra. Leggur verkefnisstjórnin til að ríkislögreglustjóra verði falið að ljúka vinnu við gerð reiknilíkansins og gæti líkanið orðið mælikvarði á löggæslustörf, mikilvægt tæki við árangursmælingar á sviði löggæslu og við stýringu löggæslu.

Ég hef ekki mótað afstöðu mína til tillagna verkefnisstjórnarinnar og þær tillögur eru nú til umræðu á vettvangi lögreglunnar og á meðal sýslumanna, en ég er sammála því mati verkefnisstjórnarinnar að mikilvægt sé að taka upp reiknilíkan af þessum toga og mun beita mér fyrir því að það verði gert og að sjálfsögðu kemur að því að málið verði rætt frekar á Alþingi.



[12:38]
Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að færa fyrirspurnina inn til Alþingis, til hæstv. dómsmálaráðherra. Hér hefur líka verið vitnað í þá skýrslu og niðurstöður úr nefndarvinnu sem ráðherra hefur verið með í gangi, þ.e. um nýskipan löggæslumála.

Á þeim stutta tíma sem við höfum vil ég leyfa mér að leggja eftirfarandi fyrirspurn fyrir hæstv. ráðherra: Er skýrslan ef til vill dulin aðferð til árásar á að fækka opinberum störfum á landsbyggðinni, eins og sýslumönnum, starfsmönnum sýslumannsembætta og lögreglumanna? Ég hef ekki lesið yfir alla skýrsluna en mér virðist að verið sé að ganga einhverja slíka göngu. Það kemur oft upp í huga minn að fyrrv. dómsmálaráðherrar, sérstaklega Sjálfstæðisflokksins, hafa oft haft það að keppikefli að leggja niður og fækka sýslumannsembættum. Er hér dulin árás á opinber störf á landsbyggðinni í þessum geira?



[12:39]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég gat ekki áttað mig á því af svari hæstv. dómsmálaráðherra hvort nefndin sem verið er að spyrja um sé enn starfandi og ágætt ef hægt væri að fá það upplýst hvort svo sé. Nefndin er þá búin að starfa á sjötta ár við verkefnið sem henni var falið án þess að skila niðurstöðu og eðlilegt að spyrja hvort nefndin hafi verið virk allan þann tíma, hvort hæstv. ráðherra geti upplýst okkur um fjölda funda nefndarinnar á þessum tæpum sex árum og kostnað af nefndarstarfinu sem ekki virðist hafa orðið nein bein niðurstaða af. Við hljótum að gera þá kröfu þegar slíkar nefndir eru settar á laggirnar að þær vinni skilvirkt, skili af sér innan þeirra tímamarka sem sett eru og því eðlilegt að við viljum fá að vita: Hefur nefndin verið virk allan þennan tíma, hve oft hefur hún fundað og hver hefur kostnaður orðið?



[12:40]
Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það veldur vissulega vonbrigðum að reiknilíkanið sem átti að vera nánast tilbúið í byrjun árs 2003 skuli ekki enn vera til staðar. Mér er fullkunnugt um að fulltrúar sýslumannsembættanna vítt og breitt um landið væntu mjög mikils af starfi nefndarinnar og fyrst og fremst að það kæmi fram í leiðréttingum á fjárveitingum til embættanna þannig að það mætti styrkja þau. Það væri tekið meira tillit til þeirra aðstæðna sem væru á hverjum stað. Ég verð auðvitað að lýsa yfir vonbrigðum mínum með að reiknilíkanið skuli ekki vera komið og orðið virkt í áætlun fjárveitinga og jafnframt í áætlun á mannafla á hverju svæði sem skiptir mjög miklu máli.

Annað stakk mjög í augu og ég hef kannski ekki tíma til að fara yfir en mig langar aðeins að vitna í ræðu hæstv. dómsmálaráðherra sem var við störf 2002. Hún er svona, með leyfi forseta:

„Samkvæmt erindisbréfi nefndarinnar var markmið starfs hennar að stuðla að sem bestri nýtingu fjármuna til rekstrar og þjónustu sýslumannsembætta og kerfisbundinni skiptingu fjármuna milli embætta. Einnig var stefnt að því að gera kostnað einstakra embætta samanburðarhæfan og að einingarkostnaður yrði sambærilegur hjá embættunum að teknu tilliti til mismunandi aðstæðna. Áður en til skipunar nefndarinnar kom höfðu dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra sameiginlega kannað möguleikana á því að skilgreina rekstur sýslumannsembætta með kerfisbundnari hætti en gert var með það fyrir augum að fá betri yfirsýn yfir fjárþörf embættanna og að stuðla að jafnari skiptingu og betri nýtingu.“

Virðulegi forseti. Ég get haldið áfram. Ræðan sem embættismenn úr dómsmálaráðuneytinu hafa lagt fyrir ráðherra er frá orði til orðs eins og ræða hæstv. dómsmálaráðherra var í október 2002 þegar þáverandi ráðherra, Sólveig Pétursdóttir, svaraði fyrirspurninni.



[12:42]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Það kemur ekki á óvart að menn svari spurningum á sambærilegan hátt þegar verið er að spyrja um sama efni. Eru menn að biðja um að ekki sé sagður sannleikurinn? Ég skil ekki hvaða veður menn eru að gera út af þessu og sýnir náttúrlega að það vakir ekki fyrir hv. þingmönnum að ræða þetta á málefnalegum forsendum.

Fram kemur í svari mínu að unnið hefur verið að málinu og það kemur líka fram ákveðin tillaga um að næsta skref í þessu verði að ríkislögreglustjóri taki málið fyrir og farið verði að útfæra þetta samhliða þeim breytingum sem lagt er til að gerðar verði miðað við þá skýrslu sem nú liggur fyrir. Menn eiga náttúrlega að leggja áherslu á það þegar þeir eru að fjalla um málefni lögreglunnar en ekki eitthvað sem gert var árið 1999 eins og þróunin hefur verið. Ef þingmenn fara yfir þetta er fjárhagsmálum sýslumannsembættanna ekki þannig fyrir komið að það hafi staðið þeim fyrir þrifum að reiknilíkanið hafi ekki verið smíðað.

Ég tel mjög mikilvægt að þegar að slíkri líkanagerð er staðið að það sé gert á góðum og traustum forsendum og ég beitti mér fyrir því þegar ég var menntamálaráðherra fyrir skólastigin og ég mun líka beita mér fyrir því þegar ég lít til rekstrar sýslumannsembættanna. Það er ekki þannig og alls ekki rétt að gefa þá mynd af fjárhagsstöðu sýslumannsembættanna að það hafi staðið henni og fjárhagsstöðu þeirra fyrir þrifum að reiknilíkanið hefur ekki verið smíðað.

Varðandi það sem hv. þingmaður Kristján L. Möller sagði er algerlega rangt og út í hött að leggja skýrsluna upp með þeim hætti sem hann gerði og raunar fráleitt og sýnir hve ómálefnalegir menn geta verið þegar þeir standa uppi í þessum ræðustól.