131. löggjafarþing — 69. fundur
 9. feb. 2005.
Raforkuverð til garðyrkju.
fsp. BjörgvS, 415. mál. — Þskj. 549.

[13:30]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra hvort til skoðunar sé í ráðuneyti hennar að mæta brýnni þörf garðyrkjunnar fyrir ódýrara rafmagn og sérstaklega í tengslum við ný raforkulög sem tóku gildi um áramótin, þar sem einingum í sölu við raforku var skipt upp í framleiðslu, flutning, dreifingu og sölu.

Hægt er að halda því fram að ríkisvaldið hafi brugðist garðyrkjunni á liðnum árum, en sú stóriðja í grænmetisframleiðslu býr við miklu lakari kjör en t.d. stóriðjan í kaupum sínum á raforku. Framleiðsla á grænmeti og blómum byggist að mjög mikli leyti á notkun á rafmagni og hefur framleiðsla garðyrkjubænda margfaldast eftir að þeir tóku í þjónustu sína hvers konar lýsingu. Það var mjög sláandi frétt t.d. í Bændablaðinu á dögunum þar sem segir að garðyrkjubóndi á Melum á Flúðum, Guðjón Birgisson, borgi 3 milljónir í rafmagn á mánuði, 3 milljónir fyrir ylræktarstöð sína á Melum. Hann segir í fréttinni í Bændablaðinu að fyrir um tíu árum hafi garðyrkjubændur verið að lýsa miklu minna en nú noti þeir margfalt meira rafmagn og uppskeri og framleiði miklu meira, uppskerutíminn sé miklu styttri og þeir nái að framleiða miklu meira og betri vöru.

Raforkuverðið á að færa eins mikið niður og hægt er. Garðyrkjan er gjaldeyrissparandi hollustugrein. Hún er sannkölluð græn stóriðja. Það er ósanngjarnt að grein sem byggir að svo miklu leyti á raforku skuli lúta svo ósanngjörnum kjörum samanborið við erlenda stóriðju. Í leiðinni er verið að skekkja framleiðslustöðu grænmetis og blóma verulega í samanburði við erlenda vöru. Það er miklu betri og heilbrigðari leið að bjóða garðyrkjunni upp á ódýrara rafmagn eins og gerist og gengur til stóriðjukaupenda. Þar erum við að niðurgreiða með vissum hætti framleiðslu á áli og annarri stóriðju sem erlendir stóriðjuframleiðendur framleiða hér fyrir okkar raforku. Garðyrkjan kaupir rafmagnið á margfalt hærra verði. Fróðlegt væri að heyra frá hæstv. ráðherra, ef hún er með þær tölur á hreinu, hve munar miklu, en heyrst hefur að sá munur sé jafnvel þrefaldur eða fjórfaldur sem garðyrkjan þurfi að kaupa miklu dýrara rafmagn.

Finna verður leið til að lækka raforkuverð að mínu mati, annars lendir garðyrkjuframleiðslan í enn þá meiri vanda en nú er. Við eigum að byggja undir þessa grein, sérstaklega í ljósi breyttra laga þar sem fram hefur komið að lendi hækkanirnar á garðyrkjubændum er heilsársframleiðsla á grænmeti og blómum komin í taprekstur og þar með uppnám. Þessi tímamót sem felast í nýjum raforkulögum þarf að nota til að finna garðyrkjunni þann stað í fyrirkomulagi okkar að hún njóti sambærilegra kjara við kaup á rafmagni og erlend stóriðja gerir nú.



[13:33]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn þessi lýtur að hækkun á raforkuverði til gróðurhúsabænda. Þótt málefni þessara aðila falli undir verksvið landbúnaðarráðuneytis finnst mér rétt að gera grein fyrir ástæðum fyrir breytingum á raforkuverði til þessara aðila.

Frá og með síðastliðnum áramótum hefur sú breyting orðið á að ekki er heimilt að mishátt gjald sé fyrir flutning og dreifingu raforku eftir því til hvers orkan er notuð. Það kemur hins vegar ekki í veg fyrir að við setningu gjaldskrár fyrir orku, flutning og dreifingu verði tekið tillit til þess að orkunotkun gróðurhúsabænda er talsverð og að hluta til er hægt að haga henni þannig að hún falli utan álagstoppa. Slík gjaldskrárákvæði byggja á því að þeir notendur sem eru eins settir varðandi orkunotkun og nýtingu njóti sömu kjara en ekki er gert ráð fyrir sérstökum afsláttarkjörum til einstakra fyrirtækja eða fyrirtækjahópa.

Hvað orkuþáttinn sjálfan varðar er það hins vegar svo að orkusölum er heimilt að veita afslætti til gróðurhúsabænda ef fyrirtækin sjá sér hag í því og gæta þess að fara ekki á svig við samkeppnisreglur.

Í gildi er aðlögunarsamningur frá árinu 2002 milli fjármála- og landbúnaðarráðherra annars vegar og garðyrkjubænda hins vegar. Í samningi þessum er ylræktendum tryggt raforkuverð með niðurgreiðslum sem er sambærilegt og það verð sem garðyrkjubændur í nágrannaríkjum okkar stendur til boða.

Í sérstöku samkomulagi milli Rafmagnsveitna ríkisins og garðyrkjubænda var kveðið á um framkvæmd niðurgreiðslunnar. Að auki veitti Landsvirkjun Rarik allt frá árinu 1997 helmingsafslátt af aflgjaldi til gróðurhúsalýsingar. Landsvirkjun felldi hins vegar niður þennan afslátt í mars á síðasta ári en Rarik hefur framlengt óbreytt þetta samkomulag við gróðurhúsabændur meðan unnið hefur verið að lausn málsins.

Ein af ástæðum fyrir aukinni fjárþörf til niðurgreiðslna raforku til gróðurhúsabænda er sú að mikil aukning hefur orðið á raforkunotkun til lýsingar á síðustu tveimur árum. Á árinu 2004 jókst notkun þeirra um 40% og gert er ráð fyrir að hún aukist nokkuð enn. Er það vitaskuld gleðiefni að vöxtur og uppbygging skuli vera í þessari landbúnaðarframleiðslu sem á í mikilli samkeppni við innfluttar afurðir.

Verið er að skoða möguleika á auknum niðurgreiðslum til garðyrkjubænda samkvæmt aðlögunarsamningi þeirra við ríkið til að mæta vanda þeirra og er erindi garðyrkjubænda um þetta efni til umfjöllunar í landbúnaðarráðuneytinu. Vil ég um þetta atriði vísa til ummæla landbúnaðarráðherra á hinu háa Alþingi á fimmtudaginn í síðustu viku en þar sagðist hann gera sér grein fyrir að mikla peninga þyrfti til að koma til móts við þarfir garðyrkjubænda og nefndi í því sambandi 55–60 millj. kr. og unnið væri að lausn málsins í ráðuneytinu. Ég veit að þar er unnið af kappi að lausn málsins og þykist fullviss um að viðunandi úrlausn fáist.



[13:37]
Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Það er mjög mikilvægt að garðyrkjan sitji ekki uppi með þá hækkun sem á henni lendir núna við breytingu á raforkulögunum. Garðyrkjan er náttúrlega mjög mikilvægur þáttur í landbúnaði og á Suðurlandi er þetta eina stóriðjan sem við höfum. Rafmagnið er framleitt á Suðurlandi en okkar stóriðja, sem er garðyrkjan, nýtur ekki neins eða lítils góðs af því.

Mikil aukning hefur orðið á lýsingu í garðyrkju og með því hafa gæði framleiðslunnar aukist til muna. Eins og kom fram hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni er einn garðyrkjubóndi að greiða 3 milljónir á mánuði, 110 þús. á dag, í raforkukostnað, þannig að þetta er mjög dýrmætur kaupandi hjá Landsvirkjun.

Ég tel mjög mikilvægt að greinin sitji ekki uppi með þessa hækkun og til niðurgreiðslna verði að koma, hvort sem það verða 40, 50 eða 60 millj. kr. Ég vil geta þess af því landbúnaðarnefnd var til umræðu í þinginu í gær að næsti fundur mun m.a. verða tileinkaður garðyrkjunni.



[13:38]
Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ekki er annað hægt en að kenna í brjósti um hæstv. iðnaðarráðherra sem jafnframt er ráðherra byggðamála að koma hér og reyna að svara einhverju um þá fyrirspurn sem hér er komin fram. Hækkun til garðyrkjubænda. Hækkun til fiskeldisstöðva. Stórhækkanir á notendur á landsbyggðinni sem nota rafhitun til upphitunar. Hvað sagði svo ráðherra um daginn í skýrsluumræðunni um raforkuna? Draga úr hækkuninni á landsbyggðarfólk. Sei, sei, en 10% á að ganga yfir íbúa þar. Hvað gerist með garðyrkjuna? Það veit enginn enn þá og þetta langt um liðið.

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en kennt í brjósti um hæstv. byggðamálaráðherra að koma hér og reyna að snúa sig út úr þessu svari með tali um allt og ekki neitt. Aumt er það hlutverk og kaldar eru þær kveðjur. Sannarlega eru þær kaldar kveðjurnar frá Framsóknarflokknum til landsbyggðarfólks og þeirra sem stunda garðyrkjustörf eða fiskeldismanna í framhaldi af því sem hér hefur verið rætt um raforkumálin. Þetta átti aldrei að gerast sem er að ganga yfir okkur núna.



[13:40]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra reyndi að beina þessu máli alfarið á hæstv. landbúnaðarráðherra, þetta væri mál hans en ekki iðnaðarráðuneytisins. Nú er það svo, eins og við höfum áður sagt í umræðum við hæstv. ráðherra, að hún hefur yfir að segja bæði Landsvirkjun og Rarik og því kemur þetta mál henni verulega við.

Garðyrkjan er að sjálfsögðu stóriðja þeirra sveita og byggða þar sem hún er stunduð. Það er undarlegt að velta því fyrir sér að stóriðja í erlendri eigu getur fengið hér samninga um raforkuverð sem er langt, langt fyrir neðan það verð sem hægt er að semja við hina innlendu stóriðju í sveitum.

Því hlýt ég að spyrja: Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að Landsvirkjun, sem heyrir undir hana, og Rarik sömuleiðis muni bjóða betra verð til garðyrkjubænda fyrir þá raforku sem þeir þurfa að nota?

Ef hægt er að semja um lágt verð til erlendrar stóriðju hlýtur eins að vera hægt að semja um lágt verð til innlendrar stóriðju.



[13:41]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta klúður sem við ræðum um í dag er að sjálfsögðu á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og þá einkum og sér í lagi hæstv. iðnaðarráðherra. Þetta er enn eitt dæmið um að stórum lagabálkum er nánast þröngvað í gegnum þingið á elleftu stundu og þeir afgreiddir af hroðvirkni og síðan kemur í ljós að þeir eru stórgallaðir. Þetta eru náttúrlega óafsakanleg vinnubrögð.

Nú sjáum við að bændur kvarta yfir þessu. Það er ekkert skrýtið. Maður hefur fylgst með umræðu í fjölmiðlum og þetta er ískyggilegt ástand sem er að skapast. Að sjálfsögðu hljótum við að skoða til að mynda garðyrkjubændur, t.d. á Suðurlandi. Þingmenn sem hafa talað hér á undan mér hafa réttilega bent á að þetta er stóriðja í þeim landshluta og sá landshluti framleiðir mikið af raforku. Hvers vegna ætti hann þá ekki að fá að njóta þess til að mynda í lækkuðu verði á raforku?

Ég trúi svo ekki öðru fyrr en ég tek á því að sérstaklega landsbyggðarþingmenn, en líka allir þingmenn hvar í flokki sem þeir standa, hljóti að leggja pressu á ríkisstjórnina um að þessir hlutir verði lagfærðir.



[13:42]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég verð að segja að mér finnst það ákaflega aumleg og dapurleg útkoma hjá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og byggðamálaráðherra og reyndar hjá orkufyrirtækjunum líka að garðyrkjan okkar, græna stóriðjan okkar Íslendinga, skuli núna þurfa að sæta þessum stórhækkunum á raforkuverði sem er að verða ef allt stefnir í og það á sama tíma og sömu aðilar keppast við að boða okkur fagnaðarerindið um það að gefa erlendum stórfyrirtækjum rafmagn, sem eru að borga kannski um einn þriðja fyrir kílóvattstundina af því sem innlendum aðilum er boðið í heildsölu fyrir rafmagn. Ætli það sé nema um 1 kr. á kílóvattstund sem stóriðjan borgar um þessar mundir á sama tíma og heildsöluverðið frá framleiðendum í nýja fína raforkuumhverfi hæstv. iðnaðarráðherra eru kannski 3 kr. Þetta er nú niðurstaðan. Og vísar svo öllum vandanum á aumingja ræfils landbúnaðarráðherrann, sem er nú ekki með mikla sjóði til að leysa (Forseti hringir.) úr þessum vanda. Það er nú ekki stórmannlegt. Ég minni á það að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) var sérstaklega spurð um þessa hluti fyrir áramót og hefði átt að svara þá.



[13:44]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Mér er eiginlega skapi næst að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort hún sé ekki búin að fá nóg af eigin axarsköftum í þessu máli. Hvort ekki sé að verða komin sú staða að hún geti farið að viðurkenna það að sú tillaga sem ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon bárum hér upp, um að fresta framkvæmdahliðinni á þessu máli, hafi verið nokkuð skynsamleg. Hún sæti þá ekki hér í eilífum vandamálum með öll sín verk að reyna að snúa út úr öllu og lagfæra eitthvað án þess að hafa hugmynd um hvert hún ætlar.



[13:44]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum og ráðherra fyrir umræðuna. Það sem stendur eftir þessa umræðu er að ríkisstjórnin segir pass í þessu máli. Hún skilar auðu þegar kemur að lausn á vanda garðyrkjunnar í ljósi hás orkuverðs og rafmagnsverðs. Það hvað gerist með garðyrkjuna er ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar og árangursleysi og áhyggjuleysi Framsóknarflokksins af málefnum landbúnaðarins hlýtur að vera farið að nálgast það að vera algjört, eins og fram kom ágætlega í umræðu hér í gær um deyfðina uppi í landbúnaðarráðuneyti þar sem hæstv. ráðherra hefur ekki komið nokkru einasta máli frá sér svo mánuðum skiptir.

Það sem hér um ræðir er alvarlegt mál. Garðyrkjan er stóriðjugrein innan landbúnaðarins, 80–90% afurða hennar koma frá svæði þar sem megnið af raforkunni er framleitt, þ.e. á Suðurlandsundirlendinu. En garðyrkjan nýtur þess í engu. Hún er sett út í horn. Hún á í miklum vanda og tekin hafa verið dæmi um það, eins og ég nefndi í upphafi, að tilteknir garðyrkjubændur greiða allt að 100 þús. kr. á dag í rafmagn. Það fara 100 þús. kr. á dag í rafmagnsreikninginn. Þetta eru hrikalega háar tölur.

Um leið fær erlend stóriðja raforkuna á allt að fjórfalt lægra verði ef þær tölur eru réttar og virðist af svörum hæstv. ráðherra að dæma enginn áhugi eða velvilji fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að gera garðyrkjunni kleift að njóta sömu kjara, að njóta þess að kaupa ódýrari raforku, verða þannig samkeppnishæfari við aðra framleiðslu og innflutta þannig að heilsársframleiðsla á grænmeti og blómum fái þrifist án þess að verða fyrir barðinu á erlendri samkeppni sem nýtur styrkja og niðurgreiðslu.

Ég vil því aftur brýna ráðherrann og skora á hana að gera eitthvað í þessum málum og líta til þess að garðyrkjan fái raforkuna á sanngjörnu verði þannig að hún fái þrifist hér áfram.



[13:47]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hér falla stór orð og mikið kapphlaup hófst um stærsta orðið greinilega. Ég ætla að biðja hv. þingmenn að kenna ekki í brjósti um mig. Það er engin ástæða til þess. Ég hef það mjög gott og var á glæsilegum fundi á Siglufirði í gær á vegum Framsóknarflokksins og er því í mjög góðu skapi í dag. (BjörgvS: Hvað voru margir?) Þar voru fleiri tugir manna.

Annaðhvort skilja hv. þingmenn ekki þetta nýja fyrirkomulag eða þá að þeir tala eitthvað út í loftið því það er svo ótrúlegt að hlusta á þennan málflutning. (SJS: Hver talar nú út í loftið?) Það er þannig að þetta er ekki mitt málefni, eins og hér er sagt, að beita mér fyrir því að Landsvirkjun og Rarik bjóði lægra verð. Ég stjórna ekki þessum fyrirtækjum frá degi til dags. Þetta gerist á markaði. Það er nú bara þannig. (Gripið fram í.) Þessi viðskipti gerast á markaði. Þegar samið er um raforku til stóriðju þurfa báðir að hafa hag af, bæði orkusalinn og fyrirtækið sem slíkt. Þannig er þetta.

Hvað varðar garðyrkjuna (Gripið fram í.) hins vegar þá er ég mjög glöð að heyra hvað garðyrkjan á mikinn stuðning í þingsalnum. Ég er algjörlega sammála um því að þetta er mjög mikilvæg atvinnugrein. Ég sagði áðan að viðræður eru í gangi. Landbúnaðarráðuneytið fer með þennan málaflokk og er að beita sér í því að þannig umhverfi geti skapast í kringum garðyrkjuna að þessi mikilvæga atvinnugrein geti haldið áfram sínum rekstri. Málið er í farvegi. Ég bið hv. þingmenn að hlusta á hvað sagt er úr þessum ræðustól. Svo er talað um klúður og axarsköft, að ég viti ekki hvert ég sé að fara og þar fram eftir götunum. Það vil svo vel til að ég veit það bara mjög vel og ég þykist skilja þetta kerfi, en svo held ég að sé nú ekki með alla sem hér hafa talað í þessari umræðu.