131. löggjafarþing — 69. fundur
 9. feb. 2005.
Förgun sláturúrgangs.
fsp. BjörgvS, 476. mál. — Þskj. 728.

[15:40]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. landbúnaðarráðherra sem lýtur að förgun sláturúrgangs og afdrifum kjötmjölsverksmiðjunnar í Flóa. Það sem ég spyr um er eftirfarandi:

1. Er til skoðunar að taka upp úrvinnslugjald á allar sláturafurðir til að tryggja eðlilegan rekstrargrundvöll fyrir verksmiðjur á borð við kjötmjölsverksmiðjuna í Hraungerðishreppi?

2. Er eitt af skilyrðum fyrir útflutningi lambakjöts til Evrópulanda að hér starfi verksmiðja sem fargar sláturúrgangi?

3. Er til skoðunar að heimila kjötmjölsverksmiðjum að framleiða mjöl til fóðurs fyrir loðdýr?

4. Stendur til að samræma reglur urðunarstaða sem taka á móti sláturúrgangi þannig að kjötvinnslur og sláturhús landsins sitji við sama borð hvað varðar gjaldtöku og frágang sláturúrgangs?

Á því síðasta er verulegur munur. Hérna er um að ræða mikið umhverfismál þar sem það er mjög brýnt frá umhverfislegum sjónarmiðum. Förgun sláturúrgangs var með þeim hætti sem kjötmjölsverksmiðjan, eða Förgun eins og hún heitir, stendur fyrir. Einnig er að sjálfsögðu um að ræða mikilvægt atvinnumál í byggðunum þar sem starfræksla slíkrar verksmiðju elur af sér ýmis störf.

Eins og greint er frá í Bændablaðinu verður kjötmjölinu lokað. Öllu starfsfólki verksmiðjunnar Förgunar á Suðurlandi var sagt upp um síðustu mánaðamót og blasir ekki annað við en að það hverfi frá störfum og að verksmiðjan fari í þrot. Markaðslegar forsendur þeirrar verksmiðju breyttust mjög við kúariðuna og síðan þá hefur verið ljóst að móta þyrfti nýja stefnu. Það hefur hins vegar ekki verið gert. Ráðuneyti landbúnaðar- og umhverfismála hafa að mínu mati ekki komið þar nægjanlega að og er hægt að halda því fram að langskynsamlegasta leiðin til að eyða slíkum úrgangi sé að gera það í slíkum verksmiðjum en hins vegar þarf að skjóta undir þær stoðum þannig að þær fái þrifist og að þær hafi í rauninni tilverugrundvöll. Til að mæta þeim vanda sem þessar verksmiðjur eru í og til að gera starfsgrundvöll þeirra eðlilegan þarf að mínu mati að skoða það að taka upp t.d. úrvinnslugjald á allar sláturafurðir til að tryggja það í fyrsta lagi að hann sé urðaður, honum eytt og fargað með skynsamlegum hætti fyrir umhverfið og í öðru lagi væru slíkar verksmiðjur með eðlilegan rekstrargrundvöll en ekki í eilífum kröggum gangandi fyrir stjórnvöld um úrlausnir sinna mála.

Þess vegna hefur líka flogið fyrir að útflutningur á lambakjöti til ákveðinna landa sé skilyrtur við það að hér starfi slík verksmiðja. Er það í sjálfu sér ekkert ótrúlegt þar sem um er að ræða mjög mikilsvert umhverfismál, að sláturúrgangi sé fargað með þessum hætti. Einnig held ég að það sé mikilvægt að reyna að nýta hann sem allra best, svo sem til að framleiða mjöl til fóðurs fyrir loðdýr.

Þess vegna beini ég þessari fyrirspurn til hæstv. ráðherra, sérstaklega af því að verksmiðjan er í kröggum, henni verður lokað ef ekki verður gripið til aðgerða.



[15:43]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Kjötmjölsverksmiðjan í Hraungerðishreppi, eða eyðingarverksmiðjan sem hún kannski flokkast frekar undir eftir breytingar, er í eigu öflugasta banka Íslands, KB-banka, um þessar mundir eftir að hún hafði farið í þrot, eins og kunnugt er. Mjög öflugir aðilar stofnuðu til hennar á sínum tíma og málin þróuðust með þeim hætti að upp kom kúariða, allt kjötmjöl féll í verði og Asíumarkaðurinn sem þeir höfðu heyrði þá sögunni til. Þetta er nú sagan.

Hv. þingmaður spyr:

Er til skoðunar að taka upp úrvinnslugjald á allar sláturafurðir til að tryggja eðlilegan rekstrargrundvöll fyrir verksmiðjur á borð við kjötmjölsverksmiðjuna í Hraungerðishreppi?

Urðun úrgangs fellur undir verksvið umhverfisráðuneytisins. Ég minni á hinn bóginn á að til að hægt væri að innleiða tilskipun Evrópusambandsins 1993/31/EB, um urðun úrgangs, og 2000/76/EB, um brennslu úrgangs, setti Alþingi fyrstu almennu lögin, nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Í lögunum segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið og mengi ekki vatn, jarðveg né andrúmsloft, svo og að draga úr hættu sem förgun úrgangs getur haft á heilsu manna og dýra.

Jafnframt er það markmið laganna að dregið verði skipulega úr myndun úrgangsefna eftir því sem unnt er. Þeim úrgangi sem myndast verði komið í endurnotkun og endurnýtingu og nauðsynlegri förgun úrgangs háttað þannig að hann nái jafnvægi við umhverfi sitt á sem skemmstum tíma.“

Er þetta í samræmi við skipun nefndar sem ég skipaði, og skilaði af sér skýrslu um eyðingu dýraleifa á síðasta ári.

Á grundvelli laganna hefur umhverfisráðherra sett þrjár reglugerðir, 737/2003, um meðhöndlun úrgangs, 738/2003, um urðun úrgangs, og 739/2003, um brennslu úrgangs. Mér er hins vegar ekki kunnugt um hvort til stendur að taka upp úrvinnslugjald á sláturafurðir en sláturleyfishafar þurfa að greiða sveitarfélögum sérstakt gjald fyrir móttöku sláturúrgangs. Þess vegna getur verið hagkvæmt fyrir sláturleyfishafa að nýta sér eyðingarverksmiðjuna sem þarna stendur.

Næsta spurning er: Er eitt af skilyrðum fyrir útflutningi lambakjöts til Evrópulanda að hér starfi verksmiðja sem fargar sláturúrgangi?

Nei, ekkert slíkt skilyrði er fyrir hendi.

Er til skoðunar að heimila kjötmjölsverksmiðjum að framleiða mjöl til fóðurs fyrir loðdýr?

Reglugerð landbúnaðarráðherra nr. 660/2000, um meðferð og nýtingu á sláturúrgangi og dýraafgangi, fjallar um söfnun, flutning, geymslu, meðferð, vinnslu og nýtingu á slátur- og dýraúrgangi. Reglugerðin nær jafnframt til brennslu og urðunar á slíkum úrgangi. Í reglugerðinni er úrgangur flokkaður í þrjá flokka, sérlega hættulegan úrgang, hættulegan úrgang og hættulítinn úrgang. Lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, kveða á um að hræ dýra, sláturúrgangur og sláturafurðir sem ekki eru nýttar eða eru óhæfar til manneldis skuli meðhöndla, geyma, flytja eða eyða á þann hátt að ekki valdi hættu á útbreiðslu smitefna og annarra skaðlegra efna. Sama gildir um annan úrgang frá dýrum. Afurðir þessar er enn fremur óheimilt að nota sem dýrafóður nema samkvæmt sérstöku leyfi yfirdýralæknis. Ef eigendur kjötmjölsverksmiðjunnar, eða eyðingarverksmiðjunnar sem ég tel að hún heiti nú, ákveða að framleiða mjöl til fóðurs fyrir loðdýr eingöngu úr hættulitlum úrgangi sé ég ekkert því til fyrirstöðu. Öll lög og allar þessar reglugerðir standa til þess að það er hægt í dag, enda hafi verksmiðjan samráð við embætti yfirdýralæknis þar um.

Stendur til að samræma reglur urðunarstaða sem taka á móti sláturúrgangi þannig að kjötvinnslur og sláturhús landsins sitji við sama borð hvað varðar gjaldtöku og frágang sláturúrgangs?

Eins og ég gat um áðan falla reglur um urðunarstaði undir verksvið umhverfisráðherra og er ég af þeim sökum ekki í stakk búinn til að veita svör við þessari spurningu.



[15:48]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Saga kjötmjölsverksmiðjunnar á Suðurlandi er að sjálfsögðu mikil sorgarsaga. Kannski rann á vissan hátt upp fyrir manni ljós þegar maður hlustaði á hæstv. landbúnaðarráðherra þylja upp þessar löngu romsur af alls konar reglugerðum og fargani sem er í kringum meðhöndlun á sláturúrgangi. Þær eru alveg hreint með ólíkindum, allar þessar reglur, en svona er þetta víst.

Það var fagnaðarefni að heyra að ráðherrann sæi því ekkert til fyrirstöðu að hægt væri að heimila kjötverksmiðjum að framleiða mjöl til fóðurs fyrir loðdýr ef skilyrðum um slíka framleiðslu væri fullnægt. Það liggur í augum uppi að einmitt þessi úrgangur verði notaður í fóðurframleiðslu fyrir loðdýr á sama hátt og okkur berast gleðilegar fregnir af því að slóg úr íslenskum eldislaxi er nú notað í loðdýrafóður hér á landi. Vonandi mun þessi þróun halda áfram og vonandi eigum við eftir að sjá meira af slíku í framtíðinni.



[15:49]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Svar ráðherrans var í megindráttum býsna sorglegt enda fólust nánast engin fyrirheit í því um rekstrargrundvöll fyrir verksmiðjur á borð við kjötmjölsverksmiðjuna í Flóa fyrir eyðingarverksmiðjur. Hann svaraði í sjálfu sér engu til um afstöðu sína til þess hvort hann muni beita sér fyrir því að tekið verði upp sérstakt úrvinnslugjald þannig að slíkar verksmiðjur fái þrifist og hafi eðlilegan rekstrargrundvöll. Ætla ég að brýna hann aftur um það að svara því hvert viðhorf hans sé í málinu. Stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir sofandahátt í málefnum kjötmjölsverksmiðjunnar, fyrir að hafa ekki svarað ítrekuðum óskum þeirra sem hafa rekið þessa verksmiðju um eðlilegan rekstrargrundvöll fyrir hana. Ástæða er til að syrgja þennan sofandahátt stjórnvalda og brýna þau til að taka til hendinni og beita sér fyrir því að verksmiðjan, sem er mjög mikilvæg í umhverfislegu tilliti, fái starfað áfram og að skoðað verði hratt og ítarlega hvort grundvöllur sé fyrir því að taka upp sérstakt úrvinnslugjald á sláturúrgang þannig að verksmiðjan gæti leitað þangað og rekið sig á slíkum gjöldum, sérstaklega þar sem hún er að svara brýnni þörf fyrir mjög mikilvægt umhverfismál.

Í sjálfu sér er þó gleðilegt að heyra að núna sé hægt að framleiða loðdýrafóður að uppfylltum vissum skilyrðum. Er vonandi að það verði skoðað frekar. Ég vil hins vegar nota tækifærið og skora á hæstv. ráðherrann að beita sér fyrir því að tekið verði upp eða a.m.k. skoðað hvort hægt sé að taka upp sérstakt úrvinnslugjald þannig að slíkar verksmiðjur fengju þrifist. Um er að ræða mjög gott mál og mikilvægt umhverfismál sem ætti að gera það að verkum að allur sláturúrgangur færi inn í slíkar verksmiðjur og kæmi svona út.



[15:52]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Um leið og hv. þingmenn tala um sorgarsögu kjötmjölsins vil ég hafa það alveg á hreinu að þegar til verksmiðjunnar var stofnað af mjög öflugum aðilum, sláturfélögum, sveitarfélögum, Sorpu og fleirum, fór ég með mínum þáverandi ráðuneytisstjóra, Birni Sigurbjörnssyni, sem þekkti mjög vel til þessara mála og vissi hvað þau voru viðkvæm, á fund stofnendanna. Það má aldrei gerast í matvælalandinu Íslandi að við notum kjötmjöl til eldis dýra sem eru notuð til manneldis. Það snýr að kúariðu og BSE, það snýr að hreinu Íslandi o.s.frv. þannig að við vöruðum mjög við því. (BjörgvS: Getum við ekki látið …?) Hér er ég búinn að segja að þetta er hægt hvað loðdýrafóður varðar. Ég vil bara vekja athygli á því að sterkasti banki þessa lands á þetta fyrirtæki í dag, sterkasti bankinn, KB-banki. Hann tók þátt í því með þessum fyrirtækjum að fjármagna þetta fyrirtæki. Áfall á heimsmarkaði olli því hvernig fór. Auðvitað hljóta þeir að leita allra leiða til að reka þessa verksmiðju sem eyðingarverksmiðju.

Ég get ekki svarað hér spurningum sem eru á fagsviði annars ráðherra. Ég hygg að landbúnaðurinn sem oft er talinn vera í vörn og eiga erfitt þoli líka illa viðbótargjaldtökur ofan á sláturkostnað sinn. Ég tel að þetta sterka fyrirtæki, KB-banki, hljóti að leita allra leiða til að reka verksmiðjuna sem eyðingarverksmiðju og auðvitað hlýtur að vera eðlilegt að horfa til þess í framtíðinni að slík verksmiðja starfi og jörðin taki ekki við þessum úrgangi eins og verið hefur í gegnum aldir. Þessu þarf að eyða, og sláturfélögin borga stórgjald til sveitarfélaganna vegna eyðingar á slíku. Það gjald getur allt eins farið til verksmiðjunnar. Ég tel, hæstv. forseti, að þessi verksmiðja hafi ágætan grundvöll til að starfa sem eyðingarverksmiðja með það að aukabúgrein að framleiða loðdýrafóður.