131. löggjafarþing — 71. fundur
 10. feb. 2005.
athugasemdir um störf þingsins.

Ummæli forsætisráðherra um stuðning við Íraksstríðið.

[10:31]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Í gær gaf hæstv. forsætisráðherra út lýsingar sínar á þeim tildrögum sem leiddu til þess að Ísland, eða öllu heldur forustumenn í ríkisstjórn Íslands lýstu yfir stuðningi við innrás Breta og Bandaríkjamanna í Írak. Margvíslegar upplýsingar sem þar komu fram eru þess eðlis að það er algjörlega nauðsynlegt að ræða þær í þessum sal við hæstv. forsætisráðherra.

Hæstv. forsætisráðherra hefur hins vegar ekki tök á því að vera hér viðstaddur. Hann er úti á landi og ég ætla þess vegna ekki í neina efnislega umræðu um þetta en óska hins vegar eftir því við hæstv. forseta að til þess að greiða fyrir því að við í stjórnarandstöðunni getum rætt þessi alvarlegu mál við hæstv. forsætisráðherra hlutist hæstv. forseti til um það að síðar í dag verði boðað til nýs fundar eftir að hæstv. forsætisráðherra er kominn frá Ísafirði. Hann er á leiðinni þaðan núna og þá getum við rætt þessi mál við hann og hreinsað loftið eftir atvikum, ef það er þá hægt. Þetta er ósk okkar í stjórnarandstöðu, frú forseti, og okkur þætti vænt um ef hægt yrði að fá svör við henni.



[10:33]
Forseti (Jóhanna Sigurðardóttir):

Forseti hefur, að höfðu samráði við formenn þingflokka, fallist á þessa ósk. Um eittleytið í dag verður settur nýr fundur og þá gefst þingmönnum tækifæri til að ræða við hæstv. forsætisráðherra um það efni sem hv. þingmaður nefndi.



[10:33]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka forseta fyrir þessa viturlegu ákvörðun, og sanngjörnu. Ég held að öll rök mæli með því að okkur gefist kostur á að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra um þetta efni, og þótt fyrr hefði verið. Það er búið að vera bagalegt að hæstv. forsætisráðherra hefur valið að ráðstafa tíma sínum annars staðar en hér í þinginu þessa viku. Við höfum heyrt frá honum úti á landi, á viðskiptaþingi og víðar þar sem hann hefur jafnvel verið að senda þingmönnum tóninn eða ræða mál sem á sama tíma hafa verið til umfjöllunar á þinginu. Svona er þetta. Eftir að hæstv. forsætisráðherra kom úr skíðaleyfi sínu hefur hann valið að ráðstafa tíma sínum annars staðar en hér á þingi.

Það er því ekki seinna vænna en að við sjáum framan í hæstv. forsætisráðherra hér á þingi eftir hádegið og eigum þess kost að ræða við hann, m.a. þau ummæli sem hann lét falla í fréttaviðtölum í gærkvöldi um aðdraganda hinnar dæmalausu ákvörðunar um stuðning Íslands við Íraksstríð. Ég fagna því og þakka forseta fyrir viðbrögðin.