131. löggjafarþing — 75. fundur
 16. feb. 2005.
Réttur foreldra vegna veikinda barna.
fsp. JóhS, 139. mál. — Þskj. 139.

[12:02]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra um rétt foreldra vegna veikinda barna en réttur þeirra er hverfandi hér á landi samanborið við önnur Norðurlönd. Vinnuveitendur greiða einungis 10 veikindadaga að hámarki fyrir börn undir 13 ára aldri án tillits til hver sjúkdómurinn er, fjölda barna eða hjúskaparstöðu foreldra. Þennan rétt er ekki hægt að flytja á milli ára, t.d. ef barn er veikt í 14 daga í einu og 10 veikindadagar er allt sem foreldrar fá alveg sama hve börnin eru mörg. Annars staðar á Norðurlöndum nær rétturinn ýmist til 16 eða 18 ára aldurs barna og heimilaður dagafjöldi nær til hvers barns um sig innan fjölskyldunnar, t.d. 120 dagar á ári fyrir hvert barn í Svíþjóð síðast þegar ég skoðaði þetta. Auk þess er athyglisvert að annars staðar á Norðurlöndunum greiðir hið opinbera að mestu bætur vegna launataps aðstandenda sjúkra barna. Hér á landi er slíkur stuðningur enginn ef undan eru skildar umönnunarbætur til að mæta útgjöldum og kostnaði vegna fatlaðra og langveikra barna.

Nauðsynlegt er að undirstrika rækilega að umönnunarbætur bæta ekki tekjutap foreldra í veikindum barna en eru hugsaðar til að mæta auknum útgjöldum og kostnaði vegna fatlaðra barna. Þótt umönnunarbætur hafi aukist verulega á umliðnum árum eru bæði barnabætur og réttur foreldra frá vinnu í veikindum barna án launataps mun minni hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum. Því er líka rétt að halda til haga að það er ekki bara að réttur foreldra vegna vinnu í veikindum barna er sláandi minni hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum heldur eru réttindi barna og foreldra þeirra líka almennt miklu betur tryggð annars staðar á Norðurlöndunum en hér á landi. Býnt er að bæta veikindarétt foreldra vegna allra barna eins og lagt var upp með í þeirri tillögu sem samþykkt var á Alþingi 2002, en þar er kveðið á um að Alþingi feli ríkisstjórninni að skipa nefnd sem hafi það verkefni að gera tillögur um hvernig unnt sé að tryggja betur rétt foreldra til launa í fjarveru úr vinnu vegna veikinda barna. Að þeirri nefndarskipan áttu að koma tvö ráðuneyti auk aðila vinnumarkaðarins og samtaka um málefni barna. Í starfi sínu átti nefndin að hafa hliðsjón af fjármögnun og fyrirkomulagi réttinda sem gilda um bætur fyrir launatap aðstandenda sjúkra barna og átti að leggja niðurstöðu fyrir Alþingi árið 2002 á haustþingi.

Ég vil undirstrika að þótt brýnt sé að bæta veikindarétt foreldra vegna allra barna, eins og tillaga okkar gerði ráð fyrir á árinu 2002, er ekkert eins brýnt og að bæta þegar og setja í forgang að bæta veikindarétt foreldra vegna langveikra barna. Nógu lengi hafa foreldrar langveikra barna beðið úrlausnar í málinu og hljóta allir að sjá að erfiðleikar foreldra eru nægir fyrir, bæði félagslegir og fjárhagslegir, þó ekki bætist við að foreldrar geti ekki verið hjá langveikum börnum í veikindum þeirra og allir sjá að atvinnuöryggi þeirra hlýtur að vera alvarlega ógnað líka þegar réttur þeirra í þessu efni er ekki viðurkenndur. Ég vænti þess að fá skýr svör ráðherra um úrbætur í þessu efni.



[12:05]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir þann áhuga sem hún hefur sýnt þessu mikilvæga máli og vil nota tækifærið til að greina frá mikilvægum skrefum sem við erum að stíga í fyrsta sinn hér á landi til að koma til móts við þennan viðkvæma hóp í samfélagi okkar.

Frá árinu 2001 hefur verið starfandi nefnd sem ætlað var að fjalla um aukinn rétt foreldra langveikra barna á vinnumarkaði. Skipun nefndarinnar átti rætur sínar að rekja til stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum langveikra barna frá árinu 2000. Sú nefnd var skipuð á sambærilegum grunni og kveðið var á um í þingsályktun þeirri sem samþykkt var á Alþingi og þingmaðurinn rakti, um aukinn rétt foreldra vegna veikinda barna. Þótti því eðlilegt að fela þeirri nefnd að fjalla jafnframt um efni þingsályktunarinnar í stað þess að skipa nýja nefnd.

Nú er svo komið að nefndin hefur mótað tillögur sínar og ég kynnti þær í ríkisstjórn í gær. Skemmst er frá því að segja að ríkisstjórnin samþykkti fyrir sitt leyti að ríkið komi í framtíðinni til móts við foreldra langveikra barna og fatlaðra barna með greiðslum úr ríkissjóði. Samþykkt hefur verið að leggja til við Alþingi að foreldrar langveikra eða fatlaðra barna eigi rétt á greiðslum í allt að þrjá mánuði þegar börn veikjast alvarlega eða greinast með alvarlega fötlun. Lagt er til að greiðslurnar nemi um 90 þús. kr. á mánuði. Voru m.a. fjárhæðir fullra umönnunargreiðslna og lágmarksgreiðslna úr fæðingarorlofssjóði fyrir 50%–100% starf hafðar til hliðsjónar við ákvörðun þeirrar fjárhæðar.

Við innleiðingu á kerfinu er lagt til að það taki gildi í áföngum. Þannig er gert ráð fyrir greiðslu í einn mánuð á fyrsta ári eftir að framkvæmd hefst, tveimur mánuðum á öðru ári og að á þriðja árinu komi kerfið að fullu til framkvæmda.

Að auki hefur verið samþykkt að leggja til við Alþingi að aukinn réttur komi til þegar um er að ræða mjög alvarleg veikindi eða fötlun. Staðreyndir sýna að um 40 börn veikjast mjög alvarlega eða greinast með mjög alvarlega fötlun á hverju ári þannig að annað foreldrið geti ekki stundað vinnu til lengri tíma. Þegar slíkar aðstæður koma upp hefur ríkisstjórnin samþykkt að foreldrar barnanna eigi rétt á framangreindum greiðslum í allt að níu mánuði.

Á sama hátt og varðandi þriggja mánaða réttinn er gert ráð fyrir að kerfið verði tekið upp í áföngum. Þannig komi fyrstu þrír mánuðirnir til framkvæmda á fyrsta árinu, ári síðar bætist þrír mánuðir við og á þriðja árinu verði rétturinn orðinn fullir níu mánuðir. Skilyrði fyrir greiðslunum yrði, hvort sem rétturinn væri til þriggja eða níu mánaða, að foreldrar legðu tímabundið niður launað starf á sama tíma, en gert er ráð fyrir að um sameiginlegan rétt foreldra verði að ræða sem þeir geti skipt sín í milli að eigin vild. Áhersla er lögð á að ríkissjóður greiði jafnframt launatengd gjöld ofan á greiðslur til foreldra þannig að foreldrar haldi áfram uppsöfnun tiltekinna réttinda, svo sem lífeyrisréttinda. Enn fremur er gert ráð fyrir því að foreldrar eigi þess kost að greiða áfram til stéttarfélaga á þeim tíma.

Ég er þeirrar skoðunar að leggja beri áfram áherslu á að foreldrar haldi virkum tengslum við vinnumarkaðinn þrátt fyrir veikindi barna sinna. Eins og flestum er kunnugt um hefur verið litið á það sem hlutverk aðila vinnumarkaðarins að semja um rétt foreldra til fjarveru frá vinnu vegna veikinda barna í kjarasamningaviðræðum sín á milli. Samkvæmt kjarasamningum eiga foreldrar rétt á 7–10 daga fjarveru á ári hverju en fjöldi daga er misjafn eftir kjarasamningum einstakra félaga. Það gat því vart talist á verksviði umræddrar nefndar sem slíkrar að fjalla um þau tilteknu réttindi enda þá farið inn á svið kjarasamninga.

Hins vegar er skoðun mín að mikilvægt sé að starfsmenn mæti ákveðnum skilningi af hálfu vinnuveitenda þegar þeir þurfa að vera fjarverandi vegna tilfallandi veikinda barna. Ýmsar leiðir eru færar í þessu efni en auk sveigjanlegs vinnutíma má nefna tímabundið hlutastarf eða heima- eða fjarvinnu sem er að verða æ algengari með bættri tækni.

Hæstv. forseti. Það er og hefur verið þýðingarmikið að foreldrar eigi þess kost að leita til sjúkra- og styrktarsjóða stéttarfélaga sinna á a.m.k. fyrstu þremur mánuðunum af veikindum barnsins og eins og fram kemur í drögum að tillögum umræddrar nefndar. Þannig er gert ráð fyrir að foreldrar nýti fyrst rétt sinn hjá styrktar- og sjúkrasjóðunum fyrir þann tíma en síðan taki við þær greiðslur sem ríkið greiðir. Það fellur þó ávallt í hlut sérhvers styrktar- og sjúkrasjóðs stéttarfélags að ákvarða reglur sínar um greiðslur til foreldra vegna veikinda barna þeirra og ljóst að sjóðirnir eru misjafnlega í stakk búnir til að veita þau réttindi. Það er mikilvægt að fyrstu skrefin á þeirri braut sem við höfum ákveðið að feta séu stigin með stefnufestu og varfærni í senn. Reynslan verður síðan nýtt til að meta stöðuna á þessu sviði.

Ég legg áherslu á það og útiloka alls ekki að við munum þegar innleiðingu þessa nýja réttar er lokið halda áfram að efla réttarstöðu foreldra langveikra barna á vinnumarkaði. Rétt er að undirstrika að framangreindar tillögur tryggja foreldrum langveikra barna ekki leyfi frá störfum af þeim sökum. Því hefur ríkisstjórnin samþykkt að samhliða rétti til greiðslna úr ríkissjóði verði aldursmörk barna varðandi rétt foreldra til foreldraorlofs samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof hækkuð úr 8 ára aldri í 18 ára aldur. Með því er veitt aukið svigrúm fyrir foreldra til að vera heima hjá börnum sínum þegar sérstakar aðstæður gefa tilefni til, en foreldrar eiga rétt á foreldraorlofi í 13 vikur til að annast börn sín.



[12:10]
Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er oftar sem maður kemur í ræðustólinn til að skamma hæstv. ráðherra en að hrósa þeim en ég vil óska hæstv. ráðherra til hamingju með þau skref sem hafa verið stigin og þá samþykkt sem ríkisstjórnin hefur gert og jafnframt hrósa hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur verið einlægur baráttumaður fyrir bættum réttindum foreldra vegna veikinda barna.

Mig langar þó að varpa spurningu til hæstv. ráðherra varðandi rétt foreldra sem eiga börn sem hafa ánetjast fíkniefnum og þurfa á mikilli umönnun að halda og jafnframt rétt beggja foreldra til að fá styrk sem þurfa að fara með börn sín utan í læknaaðgerðir. Það skiptir miklu máli að réttur þeirra sé líka skoðaður sérstaklega, því hingað til hefur siglinganefnd aðeins samþykkt greiðslur vegna annars foreldris þegar nauðsynlegt er að báðir fari. Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra skiptir miklu máli að báðir foreldrar geti tekist á við vandann.



[12:11]
Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég vil eins og síðasti hv. ræðumaður þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að hreyfa málinu og eins taka undir árnaðar- og hamingjuóskir til hæstv. félagsmálaráðherra því að yfirlýsingu hans ber sannarlega að fagna. Þetta eru tímamót því eins og fram kom bæði hjá hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra er réttur vegna langveikra barna í dag enginn, en með yfirlýsingunni er verið að stíga afskaplega mikilvæg skref. Þetta eru tímamót að foreldrar langveikra barna geti verið heima allt frá þremur mánuðum og jafnvel upp í níu mánuði í alvarlegustu tilvikum og eins hækkun á aldri vegna foreldraorlofs.

Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað að þetta er gæfuríkt skref sem verið er að stíga og tek jafnframt undir með hæstv. ráðherra að mikilvægt er að vinnuveitendur sýni málinu skilning sem stjórnvöld hafa mótað og lýst yfir og ég fagna því.



[12:12]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þakkir til hæstv. ráðherra fyrir þessi tíðindi og fagna þeim og þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir ötula baráttu fyrir réttindum þessa hóps, sem eru foreldrar langveikra barna. Nú er löng bið eftir úrbótum senn á enda og vissulega þarf að taka víðar á. Ég tek undir með hv. þm. Margréti Frímannsdóttur að huga þarf að styrkjum til utanferða, huga þarf að foreldrum barna í erfiðum vímuefnavanda en hér er verulega verið að taka á. Staðan hefur verið afleit hjá þessum börnum og foreldrum þeirra. Við höfum verið mun aftar en nágrannaþjóðirnar hvað varðar réttindi þannig að ég fagna svo sannarlega þessum tíðindum og óska öllum til hamingju og sérstaklega náttúrlega foreldrum fatlaðra barna sem sjá fram á betri tíð og ríkari stuðning frá hinu opinbera.



[12:14]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna innilega yfirlýsingu hæstv. ráðherra. Þetta er merkur dagur og gríðarlegur áfangi í baráttumálum aðstandenda langveikra barna sem lengi hafa beðið eftir úrlausn í þessum málum og sjá þetta nú rætast á þessum degi. Hér er stigið stórt skref, alls ekki nægjanlega stórt en mjög merkur áfangi í baráttunni sem ég fagna mjög vegna þess að hjá foreldrum langveikra barna hafa verið miklir félagslegir og fjárhagslegir erfiðleikar eins og ég nefndi í máli mínu áðan. Öryggi foreldra langveikra barna hefur verið ógnað vegna þess að hið opinbera hefur ekki komið til móts við þá í veikindum þeirra þannig að það er virkilega ástæða til að fagna þessu.

Ég vænti þess að greiðslurnar sem verið er að tala um í þrjá mánuði komi til viðbótar umönnunargreiðslum og skerði þær ekki. Ég tel mikilvægt að fá það fram og líka mikilvægt að styrktar- og sjúkrasjóðir verkalýðsfélaganna dragi ekki úr þeim stuðningi sem þeir hafa veitt langveikum börnum þegar ríkið kemur loksins myndarlega að málinu eins og hér er gert.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær má vænta þess að fram komi frumvarp um þetta á þingi þannig að hægt sé að lögfesta þetta og er ekki hugmynd ráðherra að lögin taki gildi þegar í stað þannig að foreldrar langveikra barna þurfi ekki að bíða lengur en orðið er? Um þingsályktunartillöguna sem vinnan er sprottin úr var breið samstaða á Alþingi. Þingmenn allra flokka fluttu þetta mál um aukinn rétt foreldra vegna veikinda barna. Hún var að vísu miklu víðtækari og náði til fleiri en langveikra barna þannig að ég tek því þannig að við séum að stíga fyrsta mikilvæga skrefið á þeirri leið að tryggja almennt aukinn rétt foreldra vegna veikinda barna og ég tek sannarlega undir að þetta á að vera í forgangi eins og ráðherrann hefur lagt þetta upp.



[12:16]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þær undirtektir sem þetta mál fær í sölum þingsins. Hér er vissulega brýnt viðfangsefni sem við tökumst á við og ég vænti þess að við gerum það í sameiningu. Mér heyrast viðbrögðin ekki benda til annars.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spyr hvenær vænta megi þess að hér líti dagsins ljós frumvarp sem tekur á þessum breytingum. Ég vonast til þess að það verði á þessu vori. Samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því í gær gerir ráð fyrir gildistöku um næstu áramót þannig að fjárlagafrumvarp fyrir árið 2006 beri þessa merki.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir spurði mig tveggja spurninga sem ég verð að viðurkenna að ég kann ekki svörin við. Báðar heyra líka kannski frekar til friðar hæstv. heilbrigðisráðherra. Þannig vill til að þetta mál er á mínu borði vegna þess að það snertir vinnumarkaðsmál og rétt foreldra til fjarveru frá vinnu. En þarna er vissulega hreyft mikilvægum spurningum sem hljóta að koma til skoðunar við útfærslu málsins.

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin hefur, eins og fram kom í máli mínu áðan, samþykkt þessar tillögur. Mér var það mikilvægt að fá tækifæri til að kynna þær fyrst hér á Alþingi þar sem þingmenn hafa látið sig málið miklu varða, ekki síst hv. fyrirspyrjandi. Ég mun beita mér fyrir því að sjálfsögðu að þessar tillögur komist sem fyrst til framkvæmda enda er það skoðun mín að það sé mikilvægt að samfélagið í heild, bæði ríkisvaldið og samtryggingarkerfi aðila vinnumarkaðarins, komi til móts við þær fjölskyldur sem lenda í þeim aðstæðum sem hér eru til umræðu.

Við þekkjum flest dæmi um það að fótunum er nánast kippt undan fólki þegar langvarandi veikindi eða fötlun barna er annars vegar. Okkur ber beinlínis skylda til að taka á þeim málum og það er verið að gera nú.