131. löggjafarþing — 75. fundur
 16. feb. 2005.
Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja.
fsp. MÞH, 499. mál. — Þskj. 761.

[12:29]
Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hygg að mörgum hafi brugðið illilega í brún þegar héraðsfréttablaðið Fréttir sem kemur út í Vestmannaeyjum greindi frá því á forsíðu þann 13. janúar sl. að skurðstofunni við Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja yrði lokað í sumar í einar sex vikur. Þetta stóð til að gera vegna fjárskorts. Talað var um að það vantaði á bilinu 10–12 millj. til að hægt yrði að halda skurðstofunni opinni í þessar vikur.

Á sama tíma bárust okkur fréttir af því að svokölluð G-II vakt við heilbrigðisstofnunina yrði lögð niður frá áramótum, sennilega einnig vegna fjárskorts. Þetta voru hvort tveggja mjög alvarleg tíðindi því að eins og allir vita eru allsérstakar aðstæður í Vestmannaeyjum. Hvers vegna skyldi það vera? Jú, Vestmannaeyjar eru eyjar og búa því ekki við sömu möguleika til samgangna og við sem erum á hinni stóru eyju Íslandi, ef svo má segja, uppi á fastalandinu eins og menn orða það gjarnan. Ef eitthvað ber út af í Vestmannaeyjum og skurðstofan er lokuð geta menn fljótlega lent í vondum málum því að þá eru þeir háðir samgöngum til að geta leitað læknishjálpar. Þetta ætti að vera augljóst öllum sem skoða það mál.

Það væri líka mjög alvarlegt ef bakvaktir á heilsugæslustöðinni væru ekki lengur fyrir hendi því að vakthafandi læknar geta þurft að fara frá í neyðartilvikum, til að mynda í sjúkraflug eða til að sinna öðrum verkefnum. Það geta orðið slys. Ef þeir þurfa að fara úr bænum er hann varnarlaus á meðan hvað varðar möguleika á því að geta kallað til lækni eins og fyrirkomulagið lítur út með þessum hætti, þ.e. að bakvaktin sé ekki fyrir hendi. Þetta er að sjálfsögðu algjörlega óverjandi og ég hygg að hæstv. heilbrigðisráðherra sé mér sammála í þessu.

Í ljósi þessara atriða hef ég lagt eftirfarandi fyrirspurn fyrir hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja:

Hyggst ráðherra grípa til einhverra aðgerða til að koma í veg fyrir að skurðstofu Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja verði lokað í a.m.k. sex vikur í sumar?

Hyggst ráðherra sjá til þess að svokölluð G-II bakvakt heilsugæslulækna við stofnunina, sem felld var niður um síðustu áramót, verði tekin upp að nýju?



[12:32]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hefur beint til mín spurningum um þjónustu Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja.

Svarið við fyrri spurningunni er einfalt, hvort ráðherra hyggist grípa til einhverra aðgerða til að koma í veg fyrir að skurðstofu Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja verði lokað í a.m.k. sex vikur í sumar: Það er verið að fara yfir allar rekstrarforsendur stofnunarinnar í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu með það í huga að koma í veg fyrir að skurðstofunni verði lokað. Ég á von á því að það takist að koma í veg fyrir það.

Heilbrigðisstofnunin er rekin með halla og hefur verið rekin með nokkrum halla undanfarin ár, 12,5 millj. árið 2003, 20 millj. árið 2004 og hann stefnir í 33,4 millj. fyrir árið 2004, 20 millj. samkvæmt rekstraráætlun en stefnir í 33,4 millj. Uppsafnaður halli í árslok 2004 stefnir því í 95,8 millj. kr. sem nemur um 20% af fjárlögum 2005 fyrir stofnunina.

Fjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja á árinu 2005 eru um 485 millj. kr. sem skiptast þannig að framlög til heilsugæslusviðs eru rúmlega 90 millj., til sjúkrasviðs tæplega 318 millj. og vegna hjúkrunarrýma rúmlega 77 millj. Stofnunin hefur 19 sjúkrarými og 16 hjúkrunarrými. Mér sýnist, borið saman við aðrar heilbrigðisstofnanir, að hér sé ekki naumt skammtað til Vestmannaeyja en stofnunin hefur kynnt ráðuneytinu ýmsar aðgerðir til að ná niður rekstrarhalla fyrir árið 2005. Engu að síður er gert ráð fyrir að hallinn nemi um 10 millj. kr. Hins vegar tel ég alveg ljóst að stofnunin verði að vinna að aukinni samnýtingu á vöktum enda er vaktakostnaðurinn mjög stór hluti heildarrekstrarkostnaðar stofnunarinnar. Ég tel að þar megi tvímælalaust ná hagræðingu. Afar brýnt er að bakvaktir manna verði í auknum mæli sameiginlegar.

Virðulegi forseti. Sérstaða Vestmannaeyja með tilliti til samgöngumála er öllum vel þekkt. Áhersla hefur verið lögð á að öflug og örugg heilbrigðisþjónusta standi íbúunum til boða árið um kring. Ég stefni að því að svo verði áfram, bæði með því að viðhalda tryggri sjúkrahúsþjónustu sem og sjúkraflutningum þegar á þarf að halda. Tvennt þarf að tryggja, öryggi íbúanna og skynsamlegan rekstur. Annað markmiðið þarf ekki að útiloka hitt.



[12:35]
Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fyrir að beita sér fyrir því að tryggja að ekki komi til sumarlokunar skurðstofu Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja. Vegna landfræðilegrar sérstöðu okkar Eyjamanna, er mikilvægt að sérstakt tillit sé tekið til öryggisþátta sem hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur haft að leiðarljósi við þessa ákvörðun. Ég fagna einnig þeirri ákvörðun að hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og hans fólk ætli að skoða vaktafyrirkomulag sérstaklega. Ég veit að hægt er að fá niðurstöðu í því máli í samvinnu við heimamenn. Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja er öflug stofnun með mjög hæfu starfsfólki og hefur alla burði til að auka enn frekar þjónustu og taka til sín verkefni.

Með endurnýjun á 2. og 3. hæð stofnunarinnar er komin aðstaða sem er til fyrirmyndar en enn á eftir að ljúka framkvæmdum á skurðstofugangi. Jafnframt er komin göngudeild fyrir sykursjúka. Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja hefur bætt sérfræðiþjónustu mikið, gerð eru um 100 áreynslupróf á ári og 100 ómskoðanir fara fram á hverju ári. Það sparar heilbrigðiskerfinu á annað hundrað ferðir á ári til sérfræðinga í Reykjavík.



[12:36]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ekki fannst mér alveg nægilega skýrt það svar sem kom hér frá hæstv. ráðherra heilbrigðismála. Það gengur einfaldlega ekki að skurðstofu í Vestmannaeyjum verði lokað í sumar. Það er ekki hægt að auglýsa að bannað sé að veikjast alvarlega meðan skurðstofa er lokuð, sérstaklega ef ekki er hægt að komast til fastalandsins.

Það sem mér fannst hæstv. ráðherra segja okkur var að verið væri að leita leiða til að koma í veg fyrir að skurðstofunni yrði lokað en mér fannst hann ekki segja okkur að búið væri að negla það niður að hún yrði opin í allt sumar. Það er munur í mínum huga á því að leita leiða, skoða rekstur og reyna að finna fjármuni til að halda skurðstofunni opinni eða lofa því bara og segja: Það gengur ekki að loka skurðstofu á stað eins og Vestmannaeyjum. Við munum halda henni opinni. Á þessu er munur í mínum huga og vona ég að hæstv. ráðherra kveði skýrar að orði þegar hann kemur í seinna svar sitt.



[12:37]
Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fyrir mjög skýr og góð svör áðan. Að sjálfsögðu verður skurðstofunni ekki lokað og það kom mjög skýrt fram í máli hæstv. ráðherra. Við, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, vorum á ferð í Vestmannaeyjum í síðustu viku, komum við á sjúkrahúsinu og fórum yfir stöðuna með starfsmönnum stofnunarinnar. Það kom fram eins og hjá hv. þm. Guðjóni Hjörleifssyni að það er mjög aðkallandi að ljúka skurðstofuganginum. Það fer ekkert á milli mála að skurðstofa verður að vera starfrækt allt árið í Vestmannaeyjum. Það gerir sérstaða Vestmannaeyja og öryggi íbúanna þar.



[12:38]
Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Jóni Gunnarssyni með það að mér fannst hæstv. ráðherra ekki tala nógu skýrt. Hann sagði að verið væri að fara yfir málin og hann vonaði að það tækist að finna lausn. Þetta er ekki það sama og að segja að skurðstofan verði opin í þessar sex vikur í sumar. Þetta er heldur ekki það sama og að segja að bakvaktirnar verði teknar upp að nýju. Þarna á er stór munur.

Hæstv. ráðherra hlýtur að geta talað skýrar en hann gerði áðan. Hann sagði réttilega að það hlyti að vera þannig að þessi stofnun fengi ekki nægilega vel skammtað fé af fjárlögum á hverju ári. Stjórnvöld hljóta að bæta úr því við afgreiðslu næstu fjárlaga en nú, þegar málið snýst um svo lágar upphæðir, kannski 10, í mesta lagi 15 millj. kr., hlýtur að vera hægt að finna peninga fyrir því. Vestmannaeyingar eiga það fyllilega skilið að þeir peningar verði fundnir þannig að þessum málum verði kippt í liðinn.

Það var mjög athyglisvert að heyra hv. þm. Drífu Hjartardóttur segja að að sjálfsögðu yrði skurðstofunni ekki lokað. Hún er 1. þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurk. og við vitum að Framsóknarflokkurinn er yfirleitt vanur að gera það sem Sjálfstæðisflokkurinn segir honum að gera. Þarna verður því vonandi breyting á.

Annars sakna ég þess, fyrst hæstv. landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson er í salnum, ráðherra Suðurlands, að hann skuli ekki taka þátt í umræðunni. Það hefði verið athyglisvert að heyra sjónarmið hans í þessu máli. (Landbrh.: … skýr í þessu máli.) Þá býð ég hæstv. landbúnaðarráðherra að koma hingað í ræðustól og greina frá þeim því að Vestmannaeyingar eru að fylgjast með.



[12:40]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Mér finnast þessar umræður dálítið sérkennilegar hjá hv. fyrirspyrjanda og hv. 10. þm. Suðurk. Ég hélt að það hefði komið mjög skýrt fram í svari mínu að við erum að vinna að því í ráðuneytinu að tryggja fjármuni til þess að halda skurðstofunni opinni. Það er vilji okkar ef það hefur verið eitthvað óljóst í svari mínu, sem það var auðvitað ekki. Þess vegna er verið að vinna að þessu. Við erum að tryggja fjármuni til þess að halda skurðstofunni opinni. Sá er vilji okkar og við höfum lagt á það áherslu, eins og ég sagði í svari mínu, að öflug og örugg heilbrigðisþjónusta standi íbúunum til boða árið um kring. Það er ekkert annað sem hangir hér á spýtunni og mér finnst dálítið sérkennilegt að vera að reyna að draga úr því. Þess vegna erum við að vinna að þessu máli og það eru engin undirmál í því. Ég hef látið þá skoðun mína í ljósi að öryggi íbúanna verði tryggt með því að halda skurðstofunni opinni og loka henni ekki. Þess vegna er verið að reyna að finna fjármuni í það. Það er bara hrein niðurstaða í þessu máli.