131. löggjafarþing — 76. fundur
 17. feb. 2005.
breyting á IX. viðauka við EES-samninginn, fyrri umræða.
stjtill., 434. mál (fjármálaþjónusta). — Þskj. 640.

[11:04]
utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 38/2004 og 103/2004, um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn, og fella inn í samninginn annars vegar tilskipun nr. 2003/6/EB, um innherjasvik og markaðsmisnotkun, og hins vegar reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 2273/2003 og tilskipanir 2003/124/EB og 2003/125/EB um óhlutdrægna kynningu og birtingu upplýsinga um hagsmunaárekstra. Gerð er grein fyrir efni ákvarðananna í tillögunni og eru þær prentaðar sem fylgiskjöl með henni ásamt þeim gerðum sem hér um ræðir.

Tilskipun 2003/6/EB miðar að því að samræma reglur er lúta að innri markaði á sviði fjármála í Evrópu og styrkja tiltrú fjárfesta á verðbréfamörkuðum, m.a. með því að mæla fyrir um bann við innherjasvikum og markaðsmisnotkun. Í reglugerð 2273/2003 og tilskipunum 2003/124/EB og 2003/125/EB er að finna nánari útfærslu á ákvæðum hennar.

Hæstv. viðskiptaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi sem innleiðir gerðina að hluta og er hún til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði þessari tillögu vísað til hv. utanríkismálanefndar.



[11:05]
Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Það er með þessa tilskipun ESB að okkur er gert að yfirtaka hana samkvæmt EES-samningi. Í fljótu bragði við fyrri umr. máls virkar hún talsvert óljós. Gangur mála hefur auðvitað verið sá að utanríkismálanefnd hefur fengið þær til umfjöllunar, kafað ofan í þær og síðan hefur gjarnan fylgt í kjölfarið lagasetning um svipað mál.

Hæstv. utanríkisráðherra nefndi í framsöguræðu sinni að hæstv. viðskiptaráðherra, og þingið raunar, væri með mál til umfjöllunar sem þessari þingsályktunartillögu tengdist en mig langaði til að spyrja hvort hæstv. utanríkisráðherra gæti með örfáum orðum gert þinginu grein fyrir því hvaða aðrar praktískar breytingar þetta hefði í för með sér fyrir íslenskan fjármálamarkað, hvort það væri eitthvað sem máli skipti og gerði það að verkum að íslenskt atvinnulíf og hinn íslenski fjármálamarkaður þyrfti að gera stórar breytingar á verklagi sínu sem verið hefur.



[11:06]
utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Ég tel að hér sé ekki um veigamiklar breytingar að ræða sem muni hafa nein stórbrotin áhrif á það umhverfi sem viðskiptalíf okkar býr við. Hins vegar er um samræmdar reglur að ræða sem eðlilegt er að menn taki upp og búi þá við samhæfðar reglur sem snúa að þessum þáttum viðskiptalífsins. Ég held reyndar að flestir sem fylgjast með og hafa verið að fylgjast með á undanförnum árum átti sig á því að þörf er á því að styrkja trú manna á verðbréfamörkuðum og því að þar séu leikreglur skýrar og klárar, þar séu innherjasvik hættuminni en verið hefur og að markaðsmisnotkun geti ekki átt sér stað.

Auðvitað er það aldrei svo að menn hnýti á þessum vettvangi Evrópu eða heimsins alls þá hnúta eða skapi þau skilyrði að hætta á slíkri misnotkun hverfi. Það er auðvitað ekki svo en samræmdar gegnsæjar reglur sem þeir viðskiptaaðilar sem eiga viðskipti yfir landamæri geti gengið að og búið við eru að mínu mati nauðsynlegar.