131. löggjafarþing — 76. fundur
 17. feb. 2005.
breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn, fyrri umræða.
stjtill., 435. mál (vinnutímatilskipunin). — Þskj. 641.

[11:08]
utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2004, um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn, og fella inn í samninginn tilskipun nr. 2003/88/EB, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma.

Gerð er grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir. Með tilskipuninni er verið að sameina í eina heild tilskipun eldri gerðar um sama efni en að hluta til er um nýmæli að ræða.

Tilskipunin felur í sér lágmarksreglur um skipulag vinnutíma að teknu tilliti til öryggis og heilbrigðis starfsmanna. Hún gildir um daglegan og vikulegan lágmarkshvíldartíma, árlegt orlof, um hlé á hámarksvinnutíma á viku og tiltekna þætti í tengslum við næturvinnu, vaktavinnu og vinnumynstur. Efni tilskipunarinnar hefur verið innleitt í íslensk lög að því er varðar flestar starfsgreinar en innleiðing tilskipunarinnar krefst lagabreytingar að því er varðar þær stéttir sem ekki falla undir vinnutímareglur laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og aðrar reglur gilda ekki um. Unnið er að innleiðingu tilskipunarinnar í félagsmálaráðuneytinu.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessari tillögu vísað til hv. utanríkismálanefndar.



[11:10]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér er verið að innleiða reglur um ýmislegt sem snýr að launþegum, vinnutíma og vinnutímafyrirkomulag, vaktafyrirkomulag, frítíma og önnur ýmisleg félagsleg réttindi. Neðarlega á bls. 3 segir, með leyfi forseta:

„Efni tilskipunarinnar hefur verið innleitt í íslensk lög að því er varðar flestar starfsgreinar með lögum nr. 68/2003, um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum ... Innleiðing tilskipunar þessarar krefst lagabreytinga að því er varðar reglur um vinnutíma þeirra stétta er falla ekki undir vinnutímareglur laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og aðrar reglur gilda ekki um. Þó kemur einnig til greina að innleiða efni hennar með kjarasamningum samtaka aðila vinnumarkaðarins.“

Nú þykist ég vita að um þetta hafi verið þó nokkuð fjallað á undanförnum árum en það er aðallega út af þessum lið sem mig langar að spyrja hvaða efni það helst væri sem menn teldu koma til greina að leysa með kjarasamningum sem ekki hefur enn þá náðst samkomulag um. Ef hæstv. utanríkisráðherra hefur upplýsingar um það væri það gott en auðvitað verður fjallað um þetta mál nánar síðar. Það kemur þá kannski betur fram.



[11:11]
utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Ég hef það ekki á hraðbergi til að svara því í einstökum atriðum. Mér þykja þó þær lýsingar sem á málinu eru gefnar á bls. 2 og 3 skýra það þokkalega. Ég hlýt að vekja athygli á því líka vegna þess að eins og kom fram í máli mínu þegar ég mælti fyrir tillögunni verður lagabreyting að fylgja þessari tillögu. Þá gefst færi á því að taka þá þætti til efnislegrar umræðu.

Ég geri mér grein fyrir því að ég hef ekki þá þekkingu á málefnum vinnumarkaðarins sem hv. þingmaður hefur eftir áratuga starf sitt á þeim vettvangi þannig að ég ráðlegg honum í mikilli vinsemd að fylgjast glöggt með málinu þegar það kemur í lagabreytingaferlið og eins eftir því sem málin þokast í gegnum nefndir þingsins. En ég er ekki með á hraðbergi einstaka þætti er snúa að því sem annars vegar mun snerta kjarasamninga og hins vegar lagasetningaratriðið.