131. löggjafarþing — 76. fundur
 17. feb. 2005.
breyting á XVII. viðauka við EES-samninginn, fyrri umræða.
stjtill., 438. mál (hugverkaréttindi). — Þskj. 644.

[11:16]
utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 110/2004 frá 9. júlí 2004, um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu.

Gerð er grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir.

Í tilskipuninni er kveðið á um að höfundum og rétthöfum svokallaðra skyldra réttinda skuli tryggður einkaréttur til hvers konar eftirgerðar verka sinna. Skal einkarétturinn þannig ekki aðeins ná til áþreifanlegra eintaka heldur einnig t.d. til afrita í rafrænu formi. Höfundum skal einnig tryggður réttur til miðlunar verka sinna.

Unnið er að innleiðingu gerðarinnar í menntamálaráðuneytinu.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni umræðunni verði þessari tillögu vísað til hv. utanríkismálanefndar.



[11:17]
Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur hér mælt fyrir á fyrstu fimm dagskrárliðum þessa fundar, fimm þingsályktunartillögum er varða breytingar á EES-samningnum. Eins og ég gat um fyrr á þessum fundi munum við samfylkingarmenn, eins og venja er, skoða allar þær þingsályktunartillögur með opnum huga og gera það sem í okkar valdi stendur til að þær geti verið afgreiddar frá hinu háa Alþingi fyrr en síðar eftir að hefðbundin ítarleg umfjöllun hefur farið fram um málið í utanríkismálanefnd.