131. löggjafarþing — 79. fundur
 23. feb. 2005.
athugasemdir um störf þingsins.

Lánshæfismat Landsvirkjunar.

[12:02]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Í Hálffimmbirtingu greiningardeildar KB-banka í gær er skýrt frá því undir fyrirsögninni „Lánshæfismat endurspeglar ekki undirliggjandi rekstur“ að matsfyrirtækið Standard & Poor’s staðfesti lánshæfismat Landsvirkjunar en endurskoði horfurnar fyrir fyrirtækið úr stöðugum í neikvæðar.

Ástæða þess að horfurnar eru endurskoðaðar er að útlit er fyrir að ríkið ætli að einkavæða Landsvirkjun. Lánshæfismat Landsvirkjunar tekur mið af skilyrðislausri ábyrgð ríkisins á skuldbindingum stofnunarinnar frekar en að rekstur stofnunarinnar sé svo traustur að hann standi undir lánshæfismatinu, segir þar. Með öðrum orðum hangir lánshæfismatið á ríkisábyrgðinni, á ábyrgð eigendanna, en byggir ekki á traustum rekstri fyrirtækisins.

Enn fremur er fjallað um það í þessari birtingu bankans að arðsemi Landsvirkjunar hafi undanfarin ár verið mjög lítil og talsvert undir verðbólgu á tilteknu viðmiðunartímabili. Fyrirtækið hefur ekki haldið í við verðlagsþróun hvað efnahag snertir. Enn fremur er vikið að því að eigi að einkavæða Landsvirkjun sé það nánast óhugsandi án þess að eiginfjárstaða félagsins verði styrkt.

Þetta staðfestir, frú forseti, að yfirlýsingar hæstvirtra ráðherra undanfarna daga hafa þegar skaðað fyrirtækið. Þetta staðfestir í öðru lagi að lánshæfismat Landsvirkjunar hangir á ábyrgð eigendanna en byggir ekki á traustum rekstri. Og þetta staðfestir í þriðja lagi það sem ég hélt hér fram í gær að til þess að hægt verði að fara í þá einkavæðingu sem ráðherrar hafa boðað verður fyrst að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækisins og til þess á að ná í milljarðana frá Rarik.

Hæstv. ríkisstjórn verður (Forseti hringir.) að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli, (Forseti hringir.) svo alvarlegar eru þær (Forseti hringir.) yfirlýsingar sem gefnar hafa verið og það tjón sem af þeim hefur hlotist.



[12:04]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur sjálfsagt talið sig komast í feitt þegar hann rak augun í frétt um nýja tilkynningu Standard & Poor’s um Landsvirkjun. Því miður verð ég að hryggja hann með því að hér er um storm í vatnsglasi að ræða.

Það er svo langt því frá að Standard & Poor’s sé að gefa fyrirætlunum stjórnvalda neikvæða umsögn. Fyrirtækið staðfestir lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar, það er engin breyting á lánshæfiseinkunninni. Hún er áfram AA- og horfurnar stöðugar.

Hefði fyrirtækið ætlað að breyta horfum varðandi fyrirtækið hefði það sagt horfurnar neikvæðar en ekki stöðugar. Það var ekki gert. Standard & Poor’s staðfestir lánshæfismat á útistandandi skuldum og þeirri skuldabréfaútgáfu sem fram undan er. Sá er kjarni málsins.

Það er hins vegar annar mælikvarði sem lánshæfismatsfyrirtæki leggja til grundvallar og það eru horfur fyrir Landsvirkjun sem eyland án alls utanaðkomandi stuðnings. Þetta er kallað á ensku „Corporate Credit Rating“. Standard & Poor’s metur horfur Landsvirkjunar að þessu leytinu til neikvæðar vegna þess að ríkið mun ekki taka ábyrgð á nýjum lánum ef fyrirtækið verður einkavætt. Lánshæfismatsfyrirtækið er því að gera þá skyldu sína að gefa markaðnum til kynna að það sé mikil umræða fram undan um framtíð Landsvirkjunar. Þetta eru engar nýjar fréttir. Það hefur alltaf legið fyrir að lánshæfismat Landsvirkjunar væri lægra ef ábyrgðir eigenda væru ekki til staðar. Ábyrgðir eigenda eru hins vegar til staðar og munu verða það áfram nema um annað semjist.



[12:06]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá hæstv. viðskiptaráðherra, það eru í sjálfu sér ekki tíðindi að það leiði til lakari lánskjara fyrir Landsvirkjun ef hún nýtur ekki ríkisábyrgðar. Ég held að það hafi almennt verið mönnum kunnugt. Þessar fréttir staðfesta hins vegar að það er núna á alþjóðlegum fjármálamarkaði viðurkennd opinber stefna íslensku ríkisstjórnarinnar að til álita komi að einkavæða þetta fyrirtæki.

Þær áhyggjur sem lánveitendur lýsa með þessari greiningu eru líka áhyggjur sem við, skattgreiðendur á Íslandi, eigum að hafa sem ábyrgðarmenn á þessum skuldbindingum. Landsvirkjun hefur gefið út skuldabréf til áratuga sem við vitum ekki einu sinni hvar eru stödd í heiminum, mörg hver, eða hver á þessa stundina og útilokað er að létta ábyrgðum okkar af nema með mjög stórtækum aðgerðum.

Ég ítreka þess vegna þá spurningu sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra í gær við umræðuna og hún svaraði ekki: Kemur til greina að einkavæða Landsvirkjun með ábyrgðum okkar, með opinberum ábyrgðum á skuldbindingum fyrirtækisins, að afhenda það einkaaðilum með ábyrgðum skattgreiðenda í landinu? Er hæstv. ráðherra e.t.v. tilbúin til að lýsa því yfir að ekki komi til greina að selja einkaaðilum aðgang að ábyrgðum skattgreiðenda á lánapakka upp á 100 milljarða?



[12:08]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Glannaskapur hæstv. iðnaðarráðherra í yfirlýsingum er þegar farinn að vinna tjón. Ég velti fyrir mér hvort þetta mál, þessi glannaskapur hæstv. ráðherra, hafi verið tekið upp í ríkisstjórn. Það að verið sé að skerða lánshæfismat Landsvirkjunar, eins stærsta fyrirtækis landsins, vegna glannalegra yfirlýsinga er mikill ábyrgðarhlutur. (Gripið fram í.) Það skerðist ef eitthvað er að marka orð hæstv. ráðherra um að hún ætli að einkavæða og selja fyrirtækið.

Sé hins vegar ekkert að marka orð ráðherrans og þau bara sögð út í bláinn og allir trúa því er kannski allt í lagi, enda er það það sem kemur fram hjá Standard & Poor’s, að verði ábyrgðir ríkisins óbreyttar, líka varðandi framtíðarlántökur, muni fyrirtækið halda þessu lánshæfismati.

Verði hins vegar eitthvað að marka yfirlýsingar hæstv. iðnaðarráðherra um að það eigi að einkavæða og selja Landsvirkjun gefur þetta eftirlitsfyrirtæki Landsvirkjun mínus. Verum minnug þess að meginhluti raforkuframleiðslu Landsvirkjunar er bundinn í stóriðju með langtímasamningum þannig að þar er engu hægt að breyta ef menn ætla að bæta eiginfjárstöðuna. Eina leiðin er þá að selja almennum notendum rafmagn á hærra verði til að styrkja eiginfjárstöðuna eða þá að skrifa eignirnar niður og reikna þær ekki á kostnaðarverði heldur selja þær með afslætti. Það er þá hin leiðin ef það á að fara að bæta eiginfjárstöðu fyrirtækisins.

Alvarlegastar eru, frú forseti, þessar glannalegu yfirlýsingar hæstv. iðnaðarráðherra sem studdar eru af hæstv. fjármálaráðherra. Ég held að þetta ætti að taka fyrir í ríkisstjórn og ræða.



[12:10]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Fyrir nokkrum dögum vakti það athygli að þingmaður hér á þinginu sakaði fasteignasala á Íslandi, og sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, um að kjafta fasteignaverðið upp. Nú verður gaman að vita hvað sá þingmaður segir við iðnaðar- og viðskiptaráðherra hæstv. þegar hún hefur blaðrað lánshæfismat Landsvirkjunar niður. Það er það sem hefur gerst. Iðnaðarráðherra hæstv. veit greinilega ekki hvað hún vill. Hún hefur engin plön í gangi, engar áætlanir liggja fyrir, málið hefur ekki verið rætt í öðrum þingflokki ríkisstjórnarinnar og það sem gerist er að það verður uppnám hjá almenningi, hjá þeim sem um málið eiga að véla, og uppnám hjá þeim sem eru að skoða stórfyrirtæki eins og Landsvirkjun og athuga lánshæfi þeirra.

Það verður svo að segja um þetta fyrirtæki að við þurfum skýringar á því sem sami ráðherra hæstv. tæpti hér á í gær, og svaraði ekki betur þó að hún væri þráspurð utan úr sal, að sameiningin við Rarik og Vestfirðinga mundi væntanlega bæta eiginfjárstöðuna. Við viljum fá skýringar á því.

Hvers vegna þarf að bæta eiginfjárstöðu Landsvirkjunar? Er það að koma í ljós sem haldið var fram hér fyrir ári eða tveimur að nýjustu framkvæmdir á vegum þessa fyrirtækis hafi verið fjárhagslega óheilbrigðar, að þær hafi veikt stöðu Landsvirkjunar til langframa? Vont er það. Því var haldið fram hér að þær hugleiðingar væru fullkomin della og kjaftæði og blaður úti í bæ. Nú þarf iðnaðarráðherrann og viðskiptaráðherrann að skýra fyrir okkur hvernig á því stendur að það þarf að bæta eiginfjárstöðu Landsvirkjunar.

Í tilefni nýlegra ályktana hér í bænum vil ég svo segja að það er kannski eins gott að við Reykvíkingar tökum til fótanna og hlaupum út úr þessu fyrirtæki eins og það virðist vera statt. Norðlendingar hafa ákveðið að gera það, m.a. bæjarfulltrúi VG á Akureyri og sennilega er það mjög skynsamlegt hjá Valgerði Bjarnadóttur að losa sig við alla ábyrgð á þessu fyrirtæki.



[12:12]
Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Umræður í þáskildagatíð, ég tala nú ekki um ef þær eru í viðtengingarhætti líka, verða alleinkennilegar eins og hér má heyra. Hér hafa þingmenn talað um tjón sem Landsvirkjun hafi orðið fyrir, skaða sem Landsvirkjun hafi orðið fyrir. Og hver er sá skaði, frú forseti?

Sá skaði er að Landsvirkjun nýtur enn og mun njóta óbreytts lánstrausts. Engin breyting hefur orðið á lánshæfi Landsvirkjunar. Svo koma þingmenn hver á fætur öðrum og tala um tjón sem orðið sé. Það er von að menn reki upp stór augu.

Hér er talað um að kjafta upp eða kjafta niður. Þá held ég að menn ættu líka að velta fyrir sér heyrn. Það kom fram í ræðu hæstv. iðnaðarráðherra að það er staðfest að lánshæfismat Landsvirkjunar hefur ekki breyst. (Gripið fram í.) Það er hins vegar vitað, frú forseti, að Landsvirkjun stendur núna í miklum framkvæmdum. Það var vitað og gert ráð fyrir. Það þarf ekki mikla snillinga til að sjá að þegar fyrirtæki stendur í miklum framkvæmdum reynir að sjálfsögðu á fjárhaginn eins og menn gerðu ráð fyrir. En það er líka vitað, og til þess var lagt upp í þá för, að þær fjárfestingar sem Landsvirkjun stendur fyrir núna munu skila fyrirtækinu og þjóðarbúinu öllu verulegum tekjum. Um það snýst málið.

En nú er líka fróðlegt að sjá að hér hanga hinir hörðustu andstæðingar Kárahnjúka og þeirra framkvæmda sem þar eru fyrir austan á þessu síðasta hálmstrái og leyfa sér meira að segja að halla réttu máli. Lánshæfismat Landsvirkjunar er hátt og það hefur ekki breyst.



[12:15]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það var verulegur skaði hvað þessi mál varðar að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og ég trúi því að hæstv. fjármálaráðherra hafi átt hlut að máli, skyldi bæta þessum yfirlýsingum við annars ágæta niðurstöðu sem var fólgin í því að leysa Reykvíkinga og Akureyringa út úr Landsvirkjun. Um það mál held ég að geti orðið nokkuð víðtæk samstaða. Það spillir því máli að menn skyldu blanda saman hugarórum um einkavæðingu Landsvirkjunar og sameiningu orkufyrirtækja í eigu ríkisins í eitt stórt fyrirtæki og eyðileggja þar með möguleikann á að búa til samkeppnisumhverfi á raforkumarkaðnum. Þetta er allt saman óskiljanlegt.

Ég átta mig ekki á því hvers konar umræður hafa farið fram í ríkisstjórninni um þetta en ég efast ekki um að þær hafi farið fram og niðurstaðan orðið þessi, að stefna að þessu og jafnvel að það verði hægt að láta fara að selja úr þessu stóra fyrirtæki eftir jafnvel þrjú ár. Það er algjörlega glórulaust að þetta sé möguleiki. Þeir sem það vilja þurfa a.m.k. að útskýra fyrir landsmönnum með hvaða hætti eigi að vera hægt að standa að þessu.

Allt er þetta tómt fljótræði. Ég held að framsóknarmenn gerðu best á fundi sínum sem hefst um þessa helgi með því að reka málið almennilega ofan í ráðherra sinn og snúa ofan af þeirri vitleysu sem þarna er komin í gang en standa við það sem er skynsamlega gert.



[12:17]
Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Umræðan sem hér fer fram á fyllilega rétt á sér miðað við yfirlýsingarnar og miðað við umfjöllunina undanfarna daga og fréttaflutning. Það er sjálfsagt að við ræðum þetta mál ítarlega og sérstaklega yfirlýsingar um áform stjórnvalda. Ég undirstrika að hingað til höfum við bara heyrt um áform og það er ekki búið að taka neina ákvörðun um að einkavæða Landsvirkjun. Ég er satt best að segja ekki viss um að það eigi eftir að gerast. Ég er ekki sannfærð um að það ferli verði sem hér hefur verið lýst undanfarna daga miðað við viðbrögð ýmissa stjórnarliða og miðað við að engin yfirlýsing hafi komið frá ríkisstjórninni sem slíkri um þetta mál.

En ef það skyldi vera svo að ríkisstjórnin ætlaði að fara með það í alvarlega skoðun að einkavæða Landsvirkjun, einkavæða orkuframleiðslu og orkudreifingu og allt saman, þá bið ég um að menn skoði reynslu nágrannalandanna, ekki síst Noregs. Þar var þetta gert og endaði þannig að skammta þurfti rafmagn til almennings og breytingunum var ekki beinlínis fagnað í Noregi þegar svo var komið.

Við skulum a.m.k. reyna að læra af mistökum sem gerð hafa verið og skoða það sem gerst hefur annars staðar og taka þá reynslu með í umfjöllunina þegar við förum að ræða þetta mál í alvöru. Ég reikna náttúrlega með að það eigi eftir að koma aftur inn í þingið.



[12:19]
utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur lengi legið fyrir að þau sveitarfélög sem ásamt ríkinu eru með eignaraðild að Landsvirkjun hafa viljað losa sig við þá eignaraðild. Ríkið hefur léð máls á því að það verði gert. Við þær aðstæður er sjálfsagt að ríkið kanni með hvaða hætti er hentugast að koma fyrir skipan raforkumála á sínum eignarhluta í raforkufyrirtækjum þannig að hentugast sé, til að mynda með sameiningu Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins. Það er sjálfsagt og eðlilegt.

Engin ákvörðun hefur verið tekin um einkavæðingu Landsvirkjunar og þegar menn nefna það að vel geti farið á því í framtíðinni að fjármagn, sem er í eðli sínu langtímafjármagn sem er ekki fljótandi á markaði, til að mynda fjármagn lífeyrissjóða, geti átt vel heima í fjárfestingum í Landsvirkjun þá er ekkert að slíkum umræðum.

Þið ágætu þingmenn hafið haldið því fram að staða Landsvirkjunar sé veik, neikvæð og ömurleg, (Gripið fram í.) ef það væri nú svo, halda menn að einhverjir mundu leggja peninga í það fyrirtæki? Halda menn að einhverjir mundu leggja pening í slíku fyrirtæki? Halda menn að einhver færi að kaupa í því fyrirtæki? Að sjálfsögðu ekki.

Menn mundu auðvitað leggja fjármuni inni í fyrirtækið, aðilar sem hafa nægan tíma eins og lífeyrissjóðir og aðrir þess háttar, vegna þess að þeir hefðu trú á því fyrirtæki, teldu að það mundi bera ávöxt. Ella ekki. Áhættan er því engin og engin ástæða til að mála þessar grýlur á veggi.

Það lá fyrir að eigið fé Landsvirkjunar mundi lækka verulega þegar sú staða væri uppi að lántökur væru miklar, miklar framkvæmdir og tekjurnar ekki farnar að skila sér inn. Það lá alltaf fyrir, er til í öllum göngum og hefur ekkert breyst hvað það varðar. En það liggur líka fyrir í sömu gögnum að eigið fé Landsvirkjunar mun í framtíðinni vaxa hægt og örugglega og Landsvirkjun verða traust og öflugt fyrirtæki hér eftir sem hingað til.



[12:21]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Auðvitað er hverjum manni það ljóst að yfirlýsingar hæstv. iðnaðarráðherra eru í besta falli vítaverður glannaskapur. Í versta falli verður það gert sem hæstv. ráðherra var að boða, sem er náttúrlega hroðaleg framtíðarsýn, að búa til einokunarrisa í orkumálum í landinu, enn stærri en fyrir er, einkavæða hann svo og selja jafnvel til útlanda og ráðstafa þar með afnotaréttinum að þeim auðlindum sem undir liggja.

Gallinn er sá að mark hefur verið tekið á hæstv. ráðherra í útlöndum. Markaðurinn neyðist til að taka það alvarlega þegar ráðherra í embætti gefur yfirlýsingar. Markaðurinn hefur ef til vill ekki áttað sig á því, sem kann að vera, að hæstv. ráðherra sé umboðslaus og landlaus, ekki síst í eigin flokki. Gærdagurinn var ekki góður fyrir hæstv. ráðherra þegar mannfall var í stuðningi við hana. Fyrstur reið á vaðið formaður þingflokks Framsóknarflokksins og sór þetta allt af sér í gær. Síðan kom varaformaður Framsóknarflokksins, hæstv. landbúnaðarráðherra, og þá tveir, þrír þingmenn, þannig að það er ekki björgulegt. Hér kemur hæstv. utanríkisráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, og segir engar ákvarðanir hafa verið teknar um þetta í ríkisstjórn og þetta sé allt á hugmyndastigi.

Hvað voru hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. fjármálaráðherra að gera með yfirlýsingum sínum? Þær hafa sannanlega skaðað Landsvirkjun. Það þýðir ekki að neita því. Það er á prenti, það er á Reuters úti um allan heim í formi tilkynningar frá Standard & Poor's um að þessi breyting hafi átt sér stað hvað varðar horfur um lánshæfismat Landsvirkjunar inn í framtíðina. Það eru skilaboð sem skipta miklu máli.

Það þarf enginn að segja mér, hvað sem hæstv. ráðherra reynir að bera sig mannalega, að Friðrik Sophusson eða stjórn Landsvirkjunar sé hamingjusöm með blaðrið í hæstv. ráðherrum.



[12:23]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þingmenn geta talað um blaður en mér varð hugsað til þess hvernig ástatt væri fyrir þessu þjóðfélagi ef þeir menn sem hér hafa talað um blaður, hv. þm. Mörður Árnason og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, færu með stjórn þessa lands. Það er hætt við því að samkeppnisstaða Íslands væri ekki sú sem hún er í dag. Við erum í fimmta sæti. Ætli það sé ekki vegna þess (Gripið fram í.) að það hefur verið haldið vel á málum af hálfu þeirrar ríkisstjórnar sem hér hefur farið með völdin síðustu tíu ár? (Gripið fram í.) Það er erfitt að tala til hv. þingmanna sem heyra ekki það sem maður segir, heyra ekki þegar ég segi að engin breyting hefur orðið á lánshæfismati Landsvirkjunar, engin breyting.

Þegar ég er að tala um að það verði hugsanlega árið 2008 eða síðar sem þessu fyrirtæki gæti verið breytt í hlutafélag, sem opnaði á möguleika á að nýir aðilar komi að rekstri fyrirtækisins, þá eru það ákveðin skilaboð. Þetta getur komið til greina. Þetta er langt inni í framtíðinni þannig að þegar hv. þingmenn keppast við að nota stærstu orðin um það sem ég sagði þá er það á misskilningi byggt. Þetta er ákveðin opnun og hver skilur ekki að ef til þess kæmi að þetta fyrirtæki yrði einkavætt þá yrði ekki lengur um ríkisábyrgðir að ræða og að það mundi breyta lánshæfismatinu? (Gripið fram í.) Þetta er svo augljóst.

Þeir hv. þingmenn sem hér hafa hæst eru sannarlega ekki stuðningsmenn þessa fyrirtækis. Þeir hafa alltaf fyrirlitið það, alltaf, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, og allar framkvæmdir sem þar hafa átt sér stað á síðustu árum.