131. löggjafarþing — 79. fundur
 23. feb. 2005.
Meðferð Darfúr-málsins fyrir Alþjóðasakamáladómstólnum.
fsp. ÞSveinb, 511. mál. — Þskj. 779.

[12:26]
Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Stærsta ríki Afríku, Súdan, er stríðshrjáð land. Í rúma tvo áratugi hefur geisað borgarastyrjöld í suðurhluta landsins, skelfilegt stríð sem kostað hefur tvær milljónir manna lífið. Nú hefur loks tekist að stilla til friðar í Suður-Súdan og von er til þess að fólk geti tekið til við endurreisnarstarfið sem bíður þess.

Annars staðar í þessu gríðarstóra landi, í Darfúr-héraði, hefur ríkt sannkölluð vargöld undanfarin tvö ár. Íbúar héraðsins hafa einnig risið upp gegn stjórnvöldum í Khartúm eins og fólk gerði í Suður-Súdan, en Khartúm-stjórnin hefur svarað með því að siga herflokkum vígamanna, einhvers konar málaliðum sem nefnast Janjaweed, á óbreytta borgara héraðsins. Sannað er að stjórnvöld hafa útvegað þeim vopn og lengst af látið framferði þeirra óátalið. Hryllilegir stríðsglæpir hafa verið framdir af báðum fylkingum í Darfúr-héraði af Janjaweed-mönnum og uppreisnarmönnum.

Sérstök rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna, skipuð af framkvæmdastjóra þeirra, Kofi Annan, skilaði skýrslu til öryggisráðsins í liðnum mánuði. Niðurstaða hennar er að í Darfúr-héraði hafi verið framdir stríðsglæpir og að draga verði þá sem ábyrgir eru fyrir þeim fyrir dóm, fyrir Alþjóðasakamáladómstólinn í Haag.

Enginn veit nákvæmlega hversu margir hafa látið lífið í átökunum í Darfúr síðastliðin tvö ár. Margt bendir þó til þess að a.m.k. 200 þúsund manns liggi í valnum. Þriðjungur íbúa héraðsins, rúmar tvær milljónir af sex, eru á flótta í Darfúr eða nágrannaríkinu Tsjad. Illa hefur gengið að fá stjórnvöld og uppreisnarmenn til að semja um frið en viðræður hafa þó staðið yfir með tilstilli Sameinuðu þjóðanna. Og friðarsamkomulagið við suðurhluta landsins vekur vonir.

Í ljósi þessa vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvaða afstöðu ríkisstjórn Íslands hefur til þess að draga þá sem grunaðir eru um stríðsglæpi í Darfúr fyrir Alþjóðasakamáladómstólinn en vitað er að um það standa deilur innan öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.



[12:28]
utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur spurst fyrir um meðferð Darfúr-málsins fyrir Alþjóðasakamáladómstólnum, Hún spyr:

„Hvaða afstöðu hefur ríkisstjórn Íslands til þess að menn grunaðir um að hafa framið stríðsglæpi í Darfúr-héraði í Súdan verði látnir svara til saka fyrir Alþjóðasakamáladómstólnum?“

Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda skipaði öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hinn 18. september síðastliðinn sérstaka nefnd til að rannsaka hvort glæpir gegn mannkyninu hefðu verið framdir í Darfúr-héraði í Súdan. Skýrsla nefndarinnar skilgreinir fjögur meginmarkmið rannsóknarinnar:

Í fyrsta lagi hvort framin hefðu verið alvarleg brot gegn alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindalögum, í öðru lagi að ganga úr skugga um hvort um þjóðarmorð væri að ræða, í þriðja lagi að finna þá einstaklinga sem hefðu staðið að þessum glæpum og í fjórða lagi að gera tillögur um hvernig þessir aðilar yrðu látnir svara til saka fyrir brot sín.

Eins og einnig kom fram hjá fyrirspyrjanda voru niðurstöður þessarar nefndar afhentar Kofi Annan framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í lok síðasta mánaðar. Þær niðurstöður eru skýrar og afdráttarlausar. Samkvæmt skýrslunni ber ríkisstjórn Súdans ásamt Janjaweed-skæruliðahópnum ábyrgð á alvarlegum brotum gegn alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindalögum. Þótt nefndin komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið framið þjóðarmorð tekur hún fram að niðurstaða þessi dragi í engu úr alvöru þeirra glæpa sem framdir hafa verið.

Nefndin leggur eindregið til að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna feli Alþjóðlega sakamáladómstólnum að taka fyrir mál þeirra einstaklinga sem nefndin hefur grun um að beri ábyrgð á þessum glæpum. Nefndin er þeirrar skoðunar að glæpirnir í Darfúr-héraði uppfylli þau viðmið sem Rómarsamþykktin um Alþjóðlega sakamáladómstólinn kveður á um. Það hlýtur að vera markmið allra ríkja að láta stríðsglæpamenn í Darfúr svara til saka sem allra fyrst. Með því er líklegra að komið verði í veg fyrir frekari glæpi af þessu tagi. Langlíklegast er að skilvirkasta leiðin til að leita þessa réttlætis sé að fela Alþjóðlega sakamáladómstólnum að taka það fyrir.

Eins og áður hefur verið sagt, sem rétt er að ítreka, er þessi ákvörðun í höndum öryggisráðsins. Það er auðvitað mikilvægt að öll aðildarríki þess sýni nauðsynlegan sveigjanleika til að komist verði að niðurstöðu sem fyrst þannig að draga megi hina brotlegu, við skulum segja hina grunuðu þar til sekt er endanlega sönnuð, fyrir rétt.



[12:31]
Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra svörin. Ég verð að segja eins og er að ég hefði kosið að hæstv. utanríkisráðherra kvæði aðeins fastar að orði vegna þess að auðvitað er það rétt að skilvirkasta leiðin til að þeir sem grunaðir eru um að hafa framið glæpi gegn mannkyni og stríðsglæpi svari til saka er að þeir séu dregnir fyrir dóm í Haag. Það þýðir að það er hægt að hefja það ferli samstundis, sama dag og það er ákveðið af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Eins og við vitum eru uppi hugmyndir um það, sérstaklega hjá Bandaríkjastjórn, að það verði ekki gert heldur verði stofnaður jafnvel sérstakur stríðsglæpadómstóll. Við vitum öll og þekkjum öll ástæður þess. Þær eru þær að Bandaríkjastjórn er ekki aðili að Alþjóðlega sakamáladómstólnum í Haag og vill helst ekki að mál fari þangað.

Hæstv. utanríkisráðherra talaði um sveigjanleika við að finna lausn í þessu máli. Ég vona að sá sveigjanleiki felist ekki í því að hæstv. ríkisstjórn Íslands styðji þá fyrirætlan Bandaríkjastjórnar að reyna að koma í veg fyrir að þeir sem grunaðir eru um stríðsglæpi í Darfúr-héraði, og þar hefur verið nafngreindur 51 maður samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna, svari til saka fyrir Alþjóðlega sakamáladómstólnum í Haag.

Það er auðvitað mjög mikilvægt að Íslendingar standi vörð um þær alþjóðastofnanir sem við erum aðilar að og tökum þátt í. Það felst m.a. í því að styðja það að þær taki fyrir mál af þessu tagi.

Því má einnig bæta við í lokin, frú forseti, að þetta er líklega nokkuð dæmigert viðfangsefni í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og varpar ljósi á það, ef Íslendingar skyldu einhvern tíma skjóta þar inn fæti, við hvað þarf að eiga.



[12:33]
utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi erum við þeirrar skoðunar, enda aðilar að þeim dómstóli, að skilvirkasta leiðin væri að sá dómstóll tæki þetta mál að sér. Það er enginn vafi að það væri einfaldast og skilvirkast. Það eru reyndar ekki eingöngu Bandaríkjamenn sem hafa fyrirvara í þeim efnum. Kína gerir það einnig og þar erum við komin með tvö ríki sem hafa neitunarvald í öryggisráðinu. Það getur verið ágætt að berja sér á brjóst og segja: Við hvikum ekki frá einu eða neinu, þá gerist kannski heldur hvorki eitt né neitt.

Auðvitað verða menn á einhverju stigi að vega það og meta hvort best sé að halda sig við það að þetta gangi til Alþjóðlega sakamáladómstólsins og láti svo skeika að sköpuðu hvort þessi tvö stórveldi beiti þar neitunarvaldi sínu eða hafi þann sveigjanleika til að bera að segja: Meginmarkmiðið hlýtur þó eftir allt saman að vera að sitja ekki fastur í stofnanahugsun heldur þeirri að árangri verði náð, að hinir grunuðu verði dregnir fyrir rétt, rétt sem treysta megi að fari málefnalega með það vald sem honum er fengið fremur en að málið dagi uppi vegna þess að menn nái ekki árangri vegna ágreinings í öryggisráðinu.

Það er þetta sem ég var að segja. Stefna okkar er alveg klár. Við verðum að átta okkur á þessum veruleika. Það eru ekki bara Bandaríkjamenn, og væri þó alveg yfrið nóg í öryggisráðinu, heldur einnig Kína. Eftir því sem ég skil málið er Rússland, sem er ekki aðili að þessum dómstól, því hins vegar fylgjandi að það megi láta það mál ganga til dómstólsins að þessu sinni. Þetta er vandinn í hnotskurn.