131. löggjafarþing — 79. fundur
 23. feb. 2005.
Stuðningur við börn flutningsskyldra starfsmanna.
fsp. MF, 518. mál. — Þskj. 787.

[12:54]
Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Á undanförnum mánuðum og árum hefur mikið verið rætt um það á hvern hátt megi sem best tryggja stuðning barna þess fólks af erlendum uppruna sem kýs að flytja til landsins og hafa búsetu hér. Rætt hefur verið um félagslegan stuðning og félagslega aðlögun fjölskyldnanna og að gera þurfi þeim kleift að aðlagast þjóðfélaginu sem allra best. Teknar hafa verið ákvarðanir um að í skólakerfinu verði tekið sérstaklega á málefnum þessara barna og áhersla er lögð á að skólakerfið taki vel á móti þeim einstaklingum sem sumir hverjir hafa stundað nám í skólum í heimalandi sínu og koma hingað í gerólíkt umhverfi. Þetta er allt saman gott og mætti vera betra en er á réttri leið. Við viljum taka vel á móti þessum fjölskyldum og veita þeim þann stuðning sem mögulegt er.

Í utanríkisþjónustunni starfar fjöldi flutningsskyldra starfsmanna, fjölskyldufólk sem tekur sig upp í okkar þágu og býr erlendis árum saman. Það er gífurleg félagsleg röskun fyrir börn að flytja héðan til langdvalar erlendis, nýtt félagslegt umhverfi, nýtt skólakerfi og önnur menning. Ég hef velt því fyrir mér með hvaða hætti við styðjum við bakið á þessum fjölskyldum, þó einkum börnum flutningsskyldra starfsmanna. Hvað gerum við þegar þau flytja héðan til búsetu erlendis? Er eitthvert skipulegt kerfi sem styður við bakið á fjölskyldunum og auðveldar flutninginn? Ekki síður þegar þær koma aftur til landsins eftir margra ára búsetu erlendis. Börn þessa fólks hafa þá sum hver stundað nám í erlendum skólum og þekkja jafnvel ekki annað. Þau hafa fallið inn í félagslegt umhverfi í öðru landi og flytja síðan aftur heim, jafnvel í óákveðinn tíma. Það má telja þau eins konar nýbúa í landinu sínu, í skólakerfinu okkar og það er að vissu leyti framandi umhverfi sem þau þurfa að venjast og læra á, á sama hátt og börn fjölskyldna af erlendum uppruna sem hingað flytja. Það er nauðsynlegt að hugað sé vel að stuðningi við fjölskyldur flutningsskyldra starfsmanna. Í raun er ekki einungis sá fjölskyldumeðlimur sem hefur formlega stöðu starfsmanns utanríkisþjónustunnar fulltrúi þjóðarinnar erlendis. Ég lít þannig á að fjölskyldan í heild sinni sé fulltrúi okkar. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Hvernig er háttað stuðningi við börn flutningsskyldra starfsmanna í utanríkisþjónustunni við heimkomu eftir búsetu erlendis, t.d. hvað varðar skólagöngu og félagslega aðlögun?

2. Er starfandi sérstakur fjölskylduráðgjafi í utanríkisráðuneytinu? Ef ekki, mun ráðherra beita sér fyrir því að svo verði?



[12:57]
utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Virðulegi forseti. Áður en ég svara þeim spurningum beint sem hv. þingmaður beindi til mín og ég þakka fyrir vil ég nefna að auðvitað býr fjöldi annarra aðila en flutningsskyldir starfsmenn í utanríkisþjónustunni við sömu aðstæður. Það hefur löngum verið svo að gríðarlegur fjöldi námsfólks sem stundar hvers konar framhaldsnám erlendis er þar einmitt með börn sín á viðkvæmasta aldri sem gefur auga leið vegna þess á hvaða aldri námsmennirnir eru sem stunda framhaldsnámið. Það lendir í þessu sama, að rífa börn sín upp úr öðru umhverfi, öðrum tungumálum, öðrum vinahópum o.s.frv. Þetta á því ekki eingöngu við um flutningsskylda starfsmenn utanríkisráðuneytisins, við skulum hafa það í huga.

En vegna spurninganna sem hv. þingmaður beindi sérstaklega til mín vil ég svara þeim. Fyrri spurningin er svolátandi: „Hvernig er háttað stuðningi við börn flutningsskyldra starfsmanna í utanríkisþjónustunni við heimkomu eftir búsetu erlendis, t.d. hvað varðar skólagöngu og félagslega aðlögun?“

Svar við spurningunni er þetta: Í fyrirmæla- og leiðbeiningarbók utanríkisþjónustunnar, gr. 5.3.15, segir að ráðuneytið skuli, með leyfi forseta:

„Veita styrk vegna stuðningskennslu á Íslandi fyrir börn sem flytja búferlum til Íslands vegna flutnings foreldris í starfi.“

Ráðuneytið hefur túlkað greinina rúmt og leitast við að koma til móts við þarfir barna flutningsskyldra starfsmanna við heimflutning, m.a. með því að greiða sérstaklega fyrir stuðningskennslu vegna þessara barna.

Þá er spurt um það hvort starfandi sé sérstakur fjölskylduráðgjafi í utanríkisráðuneytinu og ef svo sé ekki hvort ráðherra muni beita sér fyrir að svo verði til stofnað. Svarið við því er að til þessa hefur enginn sérstakur fjölskylduráðgjafi verið starfandi í ráðuneytinu. Hins vegar hefur ráðuneytið gert sérstakan samning við sálfræðing sem er kallaður til þegar upp koma vandamál á sérsviði hans, en það er sérstaklega gert ráð fyrir að viðkomandi aðili komi að málum sem varða einelti og aðra áreitni en hann getur líka veitt aðstoð í öðrum málum sem upp koma. Ráðuneytið hefur einnig mótað sérstaka fjölskyldustefnu utanríkisþjónustunnar sem hefur það sem markmið að bregðast við áhrifum sem starf á vegum þjónustunnar hefur á fjölskyldu starfsmanna.

Vegna síðari liðar spurningarinnar finnst mér sjálfsagt að athuga hvort þessum málum megi koma betur fyrir, m.a. með þeirri hugmynd sem hv. þingmaður varpar fram.



[12:59]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mér datt í hug að koma með eina stutta ábendingu, að tæknin hefur sem betur fer gert það að verkum að þessi mál eru hugsanlega ekki alveg jafnslæm og þau voru fyrir örfáum árum. Við sjáum mjög miklar framfarir hvað varðar notkun á netinu, bæði með að senda sjónvarpsefni en líka texta og annað og mér datt í hug þegar ég hlustaði á umræðuna að það væri kannski sök sér fyrir íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir því að einmitt sjá til þess að barnaefni, sjónvarpsefni, fræðsluefni og jafnvel kennsluefni væri dreift út á netið til að Íslendingar búsettir erlendis gætu nálgast það fyrir börn sín, til að mynda þau sem starfa á vegum íslenskra stjórnvalda í erlendum ríkjum en einnig fyrir íslenska námsmenn og aðra Íslendingar sem eru búsettir erlendis. Þarna held ég að séu miklir möguleikar og jafnvel mikil eftirspurn og þörf. Þetta væri kannski þarft mál að hugleiða.

Þetta var bara stutt athugasemd.



[13:00]
Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og tek undir að það eru auðvitað fleiri hópar sem búa erlendis um ákveðinn tíma og þá með ung börn, sérstaklega námsmenn eða þeir sem sjálfir ákveða að sækja vinnu erlendis.

Það er samt svolítið ólíkt, einfaldlega vegna þess að það er ákveðið óöryggi sem alltaf fylgir því að vera flutningsskyldur starfsmaður utanríkisþjónustu hvers lands og menn vita ekki alltaf nákvæmlega hvert þeir flytja eða til hvaða starfa þeir fara hverju sinni. Ástæða þess að ég spyr um fjölskylduráðgjafann er ekki einungis sú að það þurfi einstaklinga sem haldi utan um börn flutningsskyldra starfsmanna þegar þau koma til landsins, heldur ekki síður það sem snýr að mökum flutningsskyldra starfsmanna sem oft á tíðum eiga mjög erfitt með að fá tímabundna vinnu hérna og eftir því sem ég skil best þá eru nýlegar breytingar varðandi lífeyrissjóð maka þannig að greiðslurnar falla niður þegar maki kemur heim en aðeins er um að ræða greiðslur þegar dvöl er erlendis. Það hefur oft á tíðum reynst mjög erfitt að fá vinnu og mörg vandamál geta komið upp hjá fjölskyldum flutningsskyldra starfsmanna. Auðvitað eru flestir sem betur fer mjög sterkir einstaklingar sem standast vel þetta álag, en það gæti þurft að standa betur að verki varðandi það hvernig hlúa má að fjölskyldum þessara starfsmanna. Ég fagna því ef hæstv. ráðherra vill skoða þá hugmynd að ráðinn verði fjölskylduráðgjafi að ráðuneytinu.

Varðandi þá athugasemd sem kom fram hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni er nú starfandi íslenskuskóli á netinu. Ég hef reynt að fylgjast vel með því hvað gert er og hvað unnið er varðandi börn sem búa erlendis, sérstaklega starfsmanna utanríkisþjónustunnar, starfsmanna okkar. Það er starfandi íslenskuskóli á netinu.