131. löggjafarþing — 79. fundur
 23. feb. 2005.
Samstarf við Rauða kross Íslands um móttöku flóttamannahópa.
fsp. ÁI, 373. mál. — Þskj. 437.

[13:03]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn minni er beint til hæstv. félagsmálaráðherra og lýtur að samstarfi stjórnvalda og Rauða kross Íslands um móttöku flóttamannahópa.

Í fyrsta lagi spyr ég hverju það sæti að samningur ráðuneytisins við Rauða kross Íslands um móttöku hópa flóttamanna hafi ekki verið endurnýjaður.

Samningur af þessu tagi var gerður árið 1996 til fimm ára en síðan endurnýjaður munnlega til árs í senn. Samkvæmt heimildum mínum var búið að gera drög að endurnýjuðum samningi skömmu fyrir kosningarnar 2003 og að því er mér hefur verið tjáð þá hafi hæstv. fyrrverandi hæstv. félagsmálaráðherra ekki viljað ljúka málinu rétt fyrir kosningar. Þetta var á árinu 2003, síðan rann það ár til enda og 2004 kom. Nú erum við komin fram á árið 2005, en ekki hefur verið gengið frá þessum samningi. Hverjar eru skýringarnar?

Í öðru lagi er spurt um hvort hæstv. ráðherra hafi markað stefnu í móttöku flóttamannahópa og ef svo er, hver sú stefna sé.

Það er mikilvægt að stefna okkar sé skýr í þessum efnum. Íslendingar hafa vissulega tekið á móti flóttamönnum í tímans rás, en það hefur verið tilviljanakennt og breytilegt frá ári til árs hvernig þessum málum er háttað. Sum árin hefur ekki verið tekið á móti neinum flóttamönnum þótt yfirleitt hafi það þó verið gert, stundum fáum, í öðrum tilvikum mörgum eins og árið 1999 þegar fjöldi flóttamanna var hér hvað mestur á síðari árum.

Ég tel tvíþætta ástæðu fyrir því að hafa skýra stefnu í þessum efnum.

Í fyrsta lagi er það því miður svo að aldrei er skortur á flóttamönnum í heiminum. Við eigum að axla skyldur okkar í samfélagi þjóðanna og móta um það skýra stefnu um hvernig við berum okkur að í því efni.

Í öðru lagi þurfa þessi mál að vera í skipulegum farvegi, bæði okkar sjálfra vegna og vegna Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem annast skipulagningu á heimsvísu. Hún þarf að vita að hverju hún geti gengið, hvaða úrræði eru til boða hverju sinni. Það mun vera svo að ein tíu lönd í heiminum hafa skuldbundið sig til að taka tiltekinn fjölda, fastan fjölda flóttamanna árlega. Við eigum að sjálfsögðu að vera í þeim hópi. Þarna eru Norðurlöndin, Kanada, Sviss, Ástralía og fleiri ríki. Við eigum að vera í þeim hópi.

Þá er ég kominn að þriðju og síðustu spurningunni sem er á þessa lund:

Hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna leitað eftir því að Ísland bætist í hóp ríkja sem setja sér markmið um tiltekinn lágmarksfjölda flóttamanna sem tekið er við?



[13:06]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina.

Fyrst vil ég segja að íslenska ríkið hefur tekið á móti flóttamönnum með reglubundnum hætti allt frá árinu 1996, en það ár kom fyrsti hópurinn til landsins eftir að Flóttamannaráð Íslands var stofnað árið 1995. Tvisvar féll móttaka flóttamanna niður. Það var árið 2002 og 2004, en annars hafa hóparnir komið reglulega frá 1996.

Alls er um að ræða 218 manns sem hafa komið frá átakasvæðunum á Balkanskaga. Móttaka flóttamannanna hefur verið framkvæmd í góðri samvinnu við Rauða kross Íslands í samræmi við samning ráðuneytisins og Rauða krossins frá árinu 1996 sem þá var gerður til fimm ára. Samhliða var gerður samningur við viðkomandi sveitarfélag sem tók á móti hverjum hópi en eins og mönnum er kunnugt brugðust sveitarfélögin afar vel við því að taka á móti hópunum í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og Rauða krossinn.

Samningur Rauða krossins og ráðuneytisins um móttöku flóttamanna rann út árið 2001 en tekið hefur verið tvisvar á móti flóttamönnum síðan á grundvelli sama samnings án þess að hann hafi formlega verið endurnýjaður.

Hæstv. forseti. Eins og áður hefur komið fram hér í þingsölum er nefnd á mínum vegum að skoða málefni innflytjenda í heild sinni. Verkefni hennar er m.a. að fjalla um framtíðarskipulag á móttöku flóttamanna og starfsemi flóttamannaráðs. Ég hef tekið þá ákvörðun að bíða með að gera nýjan samning við Rauða kross Íslands um móttöku flóttamanna þar til niðurstöður nefndarinnar liggja fyrir og ráðuneytið getur tekið afstöðu til þeirra. Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni að drög að samningi liggja fyrir og ég á ekki von á öðru en að á þeim megi byggja.

Í öðru lagi er spurt hvort ráðherra hafi markað stefnu í móttöku flóttamanna og ef svo er hver hún sé.

Því er til að svara að þegar heildarsýn hefur fengist á málið í kjölfar vinnu framangreindrar nefndar, sem ég á raunar von á að skili af sér á næstu dögum, verður framtíðarstefna við móttöku flóttamanna hér á landi undirbúin. Í þessu sambandi er þó rétt að minna á að slík stefna verður að vera sveigjanleg með tilliti til aðstæðna hverju sinni í heiminum.

Ég vil geta þess, hæstv. forseti, að á vegum flóttamannaráðs er nú unnið að rannsókn á högum og aðstæðum allra flóttamanna á Íslandi sem hafa komið til landsins frá árinu 1975. Meðal þess sem er kannað er hvernig flóttamönnum hefur gengið að aðlagast hér á landi, mat þeirra á þjónustu og þátttöku í íslensku samfélagi og enn fremur leggja þeir almennt mat á eigin líðan. Sérstaklega er kannað hvernig unglingum líður í skóla og hvernig þeim gengur að aðlagast íslenskum aðstæðum. Fyrstu niðurstöður eru væntanlegar upp úr miðjum desember. Þessar niðurstöður munu augljóslega verða okkur leiðarljós við stefnumótunina. Má reyndar segja að slík rannsókn sé forsenda þess að hægt sé að marka slíka stefnu. Þannig verður annars vegar byggt á vinnu nefndarinnar sem ég hef þegar minnst á og hins vegar á niðurstöðum hinnar umfangsmiklu könnunar þegar framtíðarstefnan verður mótuð.

Í þriðja lagi er spurt hvort Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi leitað eftir því að Ísland bættist í hóp þeirra ríkja sem setja sér markmið um tiltekinn lágmarksfjölda flóttamanna sem tekið er við.

Engin sérstök tilmæli hafa borist frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um að íslensk stjórnvöld setji sér ákveðin markmið um móttöku tiltekins lágmarksfjölda flóttamanna. Fulltrúar Flóttamannastofnunarinnar hafa hins vegar lagt á það áherslu í samræðum sínum við fulltrúa íslenskra stjórnvalda að Ísland taki árlega við ákveðnum fjölda flóttamanna og axli þannig sína ábyrgð á flóttamannavandanum í heiminum. Segja má að Íslandi hafi axlað sína ábyrgð með því að taka reglulega á móti flóttamönnum með skipulögðum hætti, án þess þó að við höfum með formlegum hætti sett okkur markmið um tiltekinn lágmarksfjölda ár hvert.

Í október síðastliðnum var hér í heimsókn frú Machiko Kondo, sem er nýskipaður fulltrúi Flóttamannastofnunarinnar fyrir baltnesku löndin og Norðurlönd. Við fengum einnig forvera hennar í starfi í heimsókn hingað á síðastliðnu vori. Í janúar síðastliðnum fór formaður flóttamannaráðs ásamt fulltrúa utanríkisráðuneytis í ráðinu til aðalstöðva Flóttamannastofnunarinnar í Genf og kynntu sér starfsemi stofnunarinnar, fengu upplýsingar um frá hvaða svæðum stofnunin teldi heppilegast að taka á móti flóttafólki og fleira. Fram kom að alls staðar væri þörfin mjög brýn.

Hæstv. forseti. Vilji minn stendur til þess að taka á móti hópi flóttamanna í ár. Flóttamannaráð hefur á undanförnum fundum sínum fjallað um hvaðan fólkið muni koma sem fyrirhugað er að taka á móti á þessu ári og óskað hefur verið eftir nánari upplýsingum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Á þessari stundu hefur ekki verið ákveðið hvaðan fólkið muni koma eða um samsetningu hópsins.

Hæstv. forseti. Ég held mér hafi orðið á mismæli hér áðan þegar ég talaði um að niðurstöður könnunarinnar lægju fyrir í desember. Það voru mismæli og ég á von á því að þær liggi fyrir í næsta mánuði, sem er mars að sjálfsögðu, hæstv. forseti.



[13:11]
Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að ræða þetta mál. Þessa dagana eru um tíu ár síðan tillögur nefndar sem Bragi Guðbrandsson veitti forstöðu sáu dagsins ljós m.a. um flóttamannaráð og að við tækjum árlega við 30 flóttamönnum. Síðari hlutinn var nú ekki samþykktur, þannig að það hefur verið, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi, svolítið gloppótt hvað við höfum tekið á móti flóttamönnum.

Hins vegar er alveg ljóst að það hefur mælst vel fyrir hjá Íslendingum að við Íslendingar eigum hlutdeild í að gefa flóttafólki nýtt heimili og nýtt líf. Þess vegna eigum við að stefna að því að gera þetta árlega. Það er ágætt að gera úttekt á hvernig fólki hefur reitt af en það er mjög mikilvægt að loka ekki á aðkomu flóttafólks á meðan.

Ég les svör ráðherra þannig að ekki sé kannski beinlínis búist við stefnubreytingu og ef svo er, þá er ég ánægð ef við höldum áfram að sinna þessum skyldum.



[13:12]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er feginn að hæstv. ráðherra leiðrétti þessar dagsetningar. Mér brá svolítið í brún þegar hann sagði að fyrstu niðurstaðna úr rannsóknum á þessu sviði væri að vænta í lok ársins, en þær munu koma í næsta mánuði og það er vel.

Ljóst er að svolítil lausatök hafa verið á þessum málum á undanförnum árum. Eins og fram kom í upphafsorðum mínum hafa menn verið að endurnýja samninga við Rauða krossinn til eins árs í senn. Ég tek eftir því líka varðandi flóttamannaráðið sem upphaflega var skipað 1995 og þá til fjögurra ára í senn, að fram kemur á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins að skipunartími þess hefur einnig verið framlengdur til eins árs.

Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að mikilvægt er að byggja stefnumótun á vitneskju og rannsóknum. Ég fagna því að það skuli gert og vona að þeirri vinnu verðið hraðað.



[13:14]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu.

Það er rétt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson bendir á að flóttamannaráð hefur nú einungis verið skipað til eins árs. Það er einmitt af sömu ástæðu og ég rakti í ræðu minni áðan að við erum með þessi mál til heildarendurskoðunar. Mér þótti rétt að það yrði þá skipað til skemmri tíma en áður var gert á meðan við værum að sjá fram úr því með hvaða hætti við vildum koma þessum málum fyrir í framtíðinni.

Það má við þessa umræðu rifja upp að á fullveldisdaginn í fyrra var ýtt úr vör verkefninu Framtíð í nýju landi sem er samstarfsverkefni ríkisins, Reykjavíkurborgar, Rauða krossins, Velferðarsjóðs barna og Alþjóðahúss. Þar er ungum innflytjendum boðið upp á aðstoð, ráðgjöf og þátttöku í ýmsum verkefnum sem miða að því að styðja þá í námi og starfi. Fyrsti þátttökuhópurinn er einmitt Víetnamar, sem margir hverjir eru tengdir eða afkomendur flóttamannanna sem komu hingað til lands fyrir 25 árum.

Ég vil líka geta þess að það kerfi sem við höfum byggt upp á Íslandi við móttöku flóttamanna, stuðningsmannakerfið sem við höfum stuðst við, hefur notið verðskuldaðrar athygli á erlendum vettvangi. Í því felst að hver flóttamannafjölskylda fær svokallaðan stuðningsmann eða stuðningsfjölskyldu sem tekur hana að sér fyrsta árið og aðstoðar við ýmis dagleg verkefni og kynnir samhliða fyrir innflytjendum íslenska siði og venjur. Stuðningsfjölskyldan er þannig fólkinu innan handar við hvaðeina sem kemur upp í samskiptum við opinbera aðila og má segja að í mörgum tilvikum hafi stuðningsfjölskyldan leitt flóttamannafjölskylduna inn í nýja heimalandið. Þessi aðferð hefur vakið verðskuldaða athygli í nágrannalöndum okkar og m.a. hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.