131. löggjafarþing — 79. fundur
 23. feb. 2005.
Riðusmit og varnaraðgerðir gegn riðu.
fsp. AKG, 461. mál. — Þskj. 710.

[13:16]
Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Hin illvíga riðuveiki í sauðfé er þekkt víða um heim en hefur verið þekkt hér í rúm 100 ár. Talið er að hún hafi borist hingað með dönskum hrúti til Skagafjarðar, breiðst síðan út um allt landið og valdið miklum búsifjum og andstreymi meðal sauðfjárbænda auk umtalsverðra fjárútláta af almannafé.

Skipulegar aðgerðir gegn riðuveiki hófust hér á landi árið 1978 og hafa borið umtalsverðan árangur þó að enn sé nokkuð langt í að við séum laus við sjúkdóminn.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í greinargerð Sigurðar Sigurðarsonar, dýralæknis sauðfjársjúkdóma, sem var meðal fylgiskjala með þingsályktunartillögu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar um verndaráætlun fyrir svæði sem eru ósýkt af sauðfjárriðu. Sigurður segir svo, með leyfi forseta:

„Fyrstu einkenni eru breytileg frá degi til dags, meira áberandi suma daga en aðra. Langt getur verið í að einkenni verði stöðug. Því getur þurft að skoða kind á þessu stigi oftar en einu sinni til að vera viss. Sjaldan koma öll einkenni riðuveiki fram í einni og sömu kindinni. Fyrstu einkennin eru mjög breytileg milli bæja og landsvæða, jafnvel milli kinda í sömu hjörð.“

Síðar segir Sigurður, með leyfi forseta:

„Smitefnið er hvorki baktería né veira heldur prótein […] Smitefnið þolir langa suðu og flestar dauðhreinsiaðferðir. Helst er það klór sem vinnur á smitefninu. Engin varnarlyf eru til við riðu, engin lyf til lækninga og engar aðferðir til að leita að smitberum. Riða virðist geta legið í landi árum saman. Ekki er víst enn þá, hvernig sjúkdómurinn lifir í umhverfinu.“

Auk þess eru smitleiðir margar og ekki allar þekktar, t.d. var nýlega sett fram tilgáta um að staðbundnir heymaurar geymdu í sér smitefni og gætu sýkt fjárstofn eftir langan tíma. Tilraunamýs sem sprautaðar voru með lausn af heymaurum frá íslenskum riðubæjum, sem þó höfðu verið fjárlausir mánuðum saman, sýktust. Förgun heyfengs er því meðal mikilvægustu þátta í varnaraðgerðum gegn riðu.

Í morgun barst mér skriflegt svar við fyrirspurn um kostnað vegna riðuveikivarna og þar kemur fram að árlegur kostnaður síðustu fimm árin eru frá tæplega 80 og upp í 120 milljónir. Þessi illvígi sjúkdómur kom í haust upp í Skagafirði á svæði þar sem riðu hafði ekki orðið vart í 18 ár og á Suðurlandi í haust gaus hann upp á nokkrum bæjum. Óvenjumörg tilfelli komu upp á síðasta ári miðað við undanfarin ár. Sú staðreynd varð mér tilefni til að spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra eftirfarandi spurninga:

1. Hvaða aðferðir eru notaðar til að koma í veg fyrir endurtekið riðusmit?

2. Eru uppi hugmyndir um að endurskoða núverandi aðferðir við:

a. förgun,

b. forvarnir?

3. Er vitað hve lengi riðuveira getur varðveist í jörð?

4. Hefur komið til álita að brenna hræ og heyfeng þar sem riða hefur komið upp því það er vitað að smitið getur geymst lengi í jörð?



[13:19]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Hvaða aðferðir eru notaðar til að koma í veg fyrir endurtekið riðusmit?

Endurtekið riðusmit má kalla það þegar veikin kemur aftur og aftur upp á sama svæði, á einum bæ eftir annan, en einnig það þegar veikin kemur aftur í ljós á bæjum þar sem öllu fé hefur verið fargað, sótthreinsað og byrjað með ósýkt fé eftir fjárleysi.

Engin örugg aðferð er til að greina riðuveiki í lifandi fé, engin slík aðferð er þekkt. Skoða verður heilasýni úr dauðum skepnum. Vitað er að riðuveiki er lengi að búa um sig og þegar hún loksins er greind eru oftast fleiri kindur smitaðar en þær sem sýnilega eru veikar. Í sumum tilfellum hefur smitefni fundist í allt að þriðjungi kinda sem fargað er „heilbrigðum“, þ.e. án þess að þær sýni nokkur merki um veikindi á bæjum þar sem riða kemur upp. Veikin getur því óhindrað dreifst til nýrra staða ef ekki er leitað skipulega að henni með töku heilasýna úr heilbrigðu sláturfé. Mjög mikilvægt er að geta leitað að veikinni í sjálfdauðu fé og kindum sem lógað er vegna þess að þær sýna merki um vanþrif og eru veikar.

Sýni úr þessum hópi skila sér því miður illa til rannsóknar. Margt af þessu fé er grafið án skoðunar. Þetta er e.t.v. meginástæða þess hve erfitt er að hreinsa sýktu svæðin af smitinu. Leitast er við að hraða samningum við eigendur sýktra hjarða um bætur á framkvæmd hreinsunaraðgerða og farga hjörðum þar sem veikin hefur greinst eins fljótt og auðið er. Öll gripahús eru tæmd og haugur grafinn með hræjunum, slitnar innréttingar fjarlægðar og þeim eytt, öllum heyjum frá riðutíma og eldri fyrningum eytt, hús og heygeymslur eru sótthreinsaðar rækilega með tveimur mismunandi sótthreinsiefnum og mauraeitri og yfirborði síðan lokað, tré með fúavarnarefni en steini og járni með kraftmikilli málningu. Jarðvegsskipti eru gerð umhverfis fjárhúsin.

Hv. þingmaður spyr: „Eru uppi hugmyndir um að endurskoða núverandi aðferðir við förgun og forvarnir?“

Núverandi aðferðir við riðuvarnir byggja á þeirri stefnu að farga eins fljótt og unnt er fjárhjörðum þar sem veikinnar verður vart. Einnig að farga öllu fé á heilum svæðum þar sem veikin hefur náð að breiðast út og líkur eru til að fé sé smitað á mun fleiri bæjum en greinst hafa. Með þessari aðferð virðist hafa tekist að uppræta riðuveiki úr 12 varnarhólfum af 24 sem sýkt voru þegar aðgerðir hófust 1978 og síðan hertar 1986. Veikin hefur komið upp aftur á aðeins 6% þeirra bæja sem byrjað hafa fjárbúskap á ný eftir niðurskurð.

Þrátt fyrir þennan augljósa árangur er ástæða til að endurmeta þær baráttuaðferðir sem notaðar hafa verið síðustu tæp 30 ár í ljósi fenginnar reynslu og nýrrar þekkingar á þessu sviði. Ég hef því ákveðið að slíkt starf skuli hafið og mun skipa starfshóp í það verkefni á næstu dögum.

Hvað er vitað um riðuveiruna, getur hún varðveist í jörð?

Sýkt heilasýni hafa verið grafin í jörðu í tilraunaskyni. Eftir þrjú ár voru þau rannsökuð á ný. Smitkrafturinn hafði þá dofnað nokkuð en hvarf ekki. Smitefnið virðist því geta lifað lengur en þrjú ár í jörðu, ekki er vitað með vissu hve miklu lengur. Reynsla hér á landi sýnir að riðuveiki getur komið upp aftur á þeim stað í nýju og heilbrigðu fé eftir langt fjárleysi án þess að hægt sé að finna eða benda á nýja smitleið til staðarins. Veikin virðist því með einhverjum hætti geta geymst á sama staðnum árum saman, einkum þar sem hún hefur náð að magnast. Nokkur dæmi eru um lengri tíma en tíu ár, jafnvel allt að 20 árum.

Síðast er spurt hvort komið hafi til álita að brenna hræ og hey.

Oft hefur verið rætt um að brenna hræ þar sem riðuveiki hefur komið upp. Það er seinlegt verk og dýrt og hefur hvað eftir annað verið horfið frá því vegna kostnaðar. Heyjum hefur stundum verið brennt og sömuleiðis brennanlegum innréttingum úr gripahúsum en tregða er að fá leyfi til slíks vegna reykmengunar. Að sjálfsögðu væri æskilegra að geta eytt hræjum, heyi og innréttingum með brennslu en að grafa þau. (Forseti hringir.) Áformað er að gera kostnaðaráætlun vegna kaupa og reksturs á færanlegum samstæðum sem nota mætti til þess að eyða slíkum úrgangi við háan hita og lágmarksumhverfismengun. (Forseti hringir.)



[13:25]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda og ráðherra fyrir þessa ágætu umræðu um erfitt og viðkvæmt mál sem hefur snert mörg byggðarlög illa. Það beinir einnig sjónum að málefnum förgunar á sláturúrgangi almennt og þeirri alvarlegu stöðu sem er núna uppi í þeim málefnum þar sem segja má að stjórnvöld hafi dæmt kjötmjölsverksmiðjuna í Flóa til dauða með því að hafna því að skoða upptöku einhvers konar förgunar- eða eyðingargjalds á sláturúrgangi sem hefði getað skotið rótum undir starfsemi slíkra verksmiðja því þær eru mjög mikilvægur þáttur í förgun sláturúrgangs, mjög umhverfisvænn og eðlilegur þáttur í stað þess að beita aðferðum eins og að urða sláturúrgang í jörð.

Ég vil því nota tækifærið og skora á hæstv. ráðherra, sem ég ræddi þetta mál við fyrir hálfum mánuði, að endurskoða hug sinn og stjórnvalda í þessu máli þannig að starfsemi slíkra verksmiðja megi fá notið sín, enda um mjög mikilvægt umhverfis- og atvinnumál að ræða.



[13:26]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta er mjög þarft og stórt mál sem hér er rætt, um riðu. Ég tek undir þau stefnumið sem eru að markmiðið sé að uppræta riðu í íslensku sauðfé. Þá skiptir líka miklu máli að vera með mjög strangar reglur um innflutning á landbúnaðarvörum, kjötvörum og öðru slíku til þess að riðan berist ekki hingað til lands eða aðrir sjúkdómar því að þetta er þekkt í hjörðum erlendis.

Ég vil því spyrja ráðherra hvort ekki sé enn tryggt að ekki verði slakað á í innflutningi á kjötvörum til landsins þannig að smithættan aukist ekki með því. Við höfum undanþágu frá samningi við Evrópusambandið um að undanskilja landbúnaðarvörur frjálsum innflutningi.

Enn fremur hvort ráðherrann muni ekki beita sér fyrir að skoða flutning á sláturfé á milli hólfa (Forseti hringir.) þannig að þau hólf, þau svæði sem eru frí af riðunni verði það örugglega áfram og engin áhætta tekin þar af opinberri hálfu.



[13:28]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Mér finnst full ástæða til þess að umræður um þessi mál fari fram og ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli hafa tekið ákvörðun um að setja þessi mál núna í skoðun. Það er örugglega full ástæða til að gera það, það er búið að vera ákveðið andvaraleysi undanfarin ár. Riðusmit hefur farið á milli landshluta nokkuð örugglega vegna þess að menn hafa sýnt gáleysi. Það er líka vegna ákvarðana stjórnvalda hvað varðar sláturhús, það virðist vera farinn af stað flutningur sláturfjár sem ekki getur gengið til framtíðar. Menn verða að horfast í augu við það að ef þeir ætla að vernda þau svæði þar sem ekki er riða og þar sem náðst hefur árangur í að losna við hana þá verða menn að stýra flutningi sláturfjár þannig að ekki sé verið að flytja smitefni á milli hólfanna. Það er veruleg hætta á því með því fyrirkomulagi sem komið er upp núna.



[13:29]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé mjög brýnt að við tökum ítarlega og vandaða umræðu um það hvernig við ætlum að verjast gegn riðunni og hvernig við hreinlega ætlum að útrýma henni úr landinu. Þetta er það hættulegur sjúkdómur, það alvarlegur og skaðlegur sjúkdómur að við verðum að losna við hann. Við verðum hreinlega að losa okkur við þessa óværu í landinu.

Ég á sæti í landbúnaðarnefnd og þar áttum við í þessari viku mjög góðar viðræður við fulltrúa Bændasamtakanna, yfirdýralækni og fulltrúa frá landbúnaðarráðuneytinu. Ég vona svo sannarlega að þær umræður og umræðan sem fór fram í þinginu fyrr í þessari viku verði upphafið að nýrri sókn gegn þessum vágesti og leiði til þess að við hugsum hlutina svolítið upp á nýtt og ákveðum í eitt skipti fyrir öll að nú skuli þessi óvættur hrakinn héðan. Hann hefur fengið að geisa allt of lengi og mál er að linni.



[13:30]
Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir þessa umræðu og fagna sérstaklega orðum hæstv. landbúnaðarráðherra um skipan starfshóps til að fara yfir varnaraðgerðir gegn riðu en vil þó taka fram að gestir sem komu fyrir hv. landbúnaðarnefnd í gær lýstu því yfir að þeir væru nokkuð ánægðir með þær aðgerðir sem nú tíðkast.

Það eru augljóslega miklir hagsmunir okkar allra að komið sé í veg fyrir riðu og sérfræðingar telja að það muni takast. Við erum því bjartsýn um það.

Ég vil koma inn á eitt atriði og það er að leggja verður áherslu á merkingar og þá merkingar um sóttvarnalínur. Það er alveg ótækt að til að mynda ferðamenn skuli ekki virða slíkar merkingar og ljóst er að takmarka verður umferð yfir þessi mörk vegna þess að þarna er riðan að berast.



[13:31]
Drífa Hjartardóttir (S):

Herra forseti. Hér fer fram mikil umræða um riðu eins og fram fór í landbúnaðarnefnd í gær þar sem við fórum yfir þessi mál með yfirdýralækni, fulltrúum Bændasamtakanna og fleirum. Þar kom fram að riða hefði borist með dönskum hrút hingað til lands fyrir um það bil 100 árum og síðan höfum við verið að berjast við þennan vágest.

Ég vil taka fram að mjög vel hefur verið unnið að þessum málum af hálfu yfirdýralæknisembættisins alla tíð. Það hefur verið skorið mjög mikið niður af fjárstofnum. Einnig kom fram að þetta er aðeins í fullorðnum ám og það er líka athyglisvert að bændur setja ekki fullorðnar ær í sláturhús heldur grafa þær jafnvel heima vegna þess hversu lítið fæst fyrir kjötið.

Ég vil taka undir með þeim sem hafa rætt um varnargirðingarnar. Þær eru ekki virtar af þeim sem ferðast um landið og mikið vantar upp á að frætt sé um hvað þetta skiptir miklu máli og að ekki sé farið yfir varnargirðingar með hey og annað.



[13:32]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka eins og aðrir þessa umræðu og eins það að hæstv. landbúnaðarráðherra sé búinn að skipa nefnd til að fara vel yfir þessi mál. Það sem gerir okkur erfitt fyrir og hefur gert alla tíð er að smitleiðir eru ekki þekktar og ekki hvernig smitefnið hagar sér, þannig að það gerir okkur erfiðara fyrir. Samt þekkjum við ýmsar smitleiðir sem við höfum núna undanfarið ekki tekið nægilega vel á. Það er t.d. flutningur á milli hólfa, urðun sláturúrgangs og varnargirðingar. Þetta eru þættir sem við vitum að eru ekki í nógu góðu lagi. Það kostar aftur á móti fjármuni að koma þessu í lag og ef við viljum vernda íslenska stofninn og halda riðu í skefjum verðum við að leggja út í þennan kostnað.



[13:34]
Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Herra forseti. Það er ekki að furða þótt margir vilji gera athugasemd því að eins og fram kom í fyrri ræðu minni áðan er um að ræða mjög mikið mál og mjög kostnaðarsamt fyrir ríkið og einstaklingana auk þess sem það veldur miklum hörmungum í lífi bænda sem fyrir þessu verða.

Auðheyrt var á fundi landbúnaðarnefndar í gær að þeim mönnum sem þar mættu var alls ekki rótt vegna flutninga farartækja sem fara á milli sýktra og ósýktra svæða með sláturfé í sláturtíðinni.

Athyglisvert var að heyra í svari hæstv. landbúnaðarráðherra að ekki eru brennd hræ og hey vegna kostnaðar og reykmengunar. En í þessu tilfelli erum við að tala um val á milli reykmengunar annars vegar og svo jarðvegsmengunar hins vegar sem sýnt er og sannað að getur orðið til endurtekins smits.

Fróðlegt verður að sjá nýjar tillögur frá hæstv. ráðherra og ég vænti þess að þær muni fela í sér leiðir til varnar þeirri hættu sem skapast vegna nýrra aðstæðna í landbúnaði þar sem menn eru að samnýta og eiga saman tæki til jarðyrkju og landbúnaðar og þar með er komin hætta á að smit flytjist á milli bæja með þeim tækjum.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið.



[13:36]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa öflugu umræðu og hversu margir hv. landbúnaðarnefndarmenn tóku þátt í henni og sýna málinu skilning og áhuga um varnir. Það er nú svo að tækninni fleygir fram og skimunin er að uppgötva hinn sjúka grip fyrr. Það gerist nú og þess vegna getur hafa komið hrina sem minnkar svo aftur við þessi strangari próf. Við skulum vona það og við skulum vona að við útrýmum riðunni.

Hvað kjötmjölsverksmiðjuna varðar hefur engin dæmt hana til dauða. Ég fór yfir það að hún er sjálfstætt fyrirtæki í eigu KB-bankamanna og á að heita eyðingarverksmiðja, tekin hefur verið ákvörðun um það af eigendunum að hún er eyðingarverksmiðja. Ég get sagt í þessari umræðu að auðvitað væri það æskilegast fyrir framtíð Íslands að úrgangur úr dýrum og öll sjálfdauð dýr færu í gegnum slíkar verksmiðjur.

KB-bankamenn höfðu samband við mig í gær og sögðust mundu eiga á næstunni fund með mér og umhverfisráðuneytinu til að fara yfir útreikninga sína á stöðu fyrirtækisins. Ég hef reyndar sagt að það væri mátulegt á þennan öfluga KB-banka að reka þetta fyrirtæki í heila öld. En nóg um það.

Ekki verður slakað á neinum innflutningi hvað kjötvörur varðar eða áhætta í þeim efnum tekin, það er ekkert á dagskrá og vonandi stendur þingið fast vörð um að það þurfum við Íslendingar að gera heilbrigðisins vegna. En þetta er eilíf barátta og auðvitað þarf að fara yfir það að menn taki enga áhættu hvorki í flutningum né í kringum sláturhús. Riða hefur aldrei greinst í lömbum en ég er klár á því miðað við núverandi aðstæður að mikilvægt er að fara yfir þessar reglur allar, líka hvaða kvaðir á að leggja á t.d. jarðir sem ekki hefur komið upp riða á þó að það séu sýkt svæði því að atvinnustarfsemi sveitanna hefur líka verið að breytast mikið og þetta veldur auðvitað ólgu og óróa. Starfshópurinn mun skila af sér vonandi eftir nokkra mánuði og þá mun ég óska þess að landbúnaðarnefnd komi að því máli og kynni sér það starf. En ég þakka þessa ágætu umræðu.