131. löggjafarþing — 79. fundur
 23. feb. 2005.
Sala eignarhluta Landsbanka Íslands í Vátryggingafélagi Íslands.
fsp. SigurjÞ, 509. mál. — Þskj. 774.

[14:16]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Nú er mikið verið að ræða sölu ríkisfyrirtækja. Það stendur til að selja Landssímann og Landsvirkjun og í tilefni af því er rétt að líta yfir farinn veg og skoða söguna, hvernig staðið hafi verið að sölu á eignum almennings.

Við sölu bankanna var upphaflega rætt um að þeir yrðu í dreifðri eignaraðild. Síðan breyttist það og nýtt hugtak kom upp, kjölfestufjárfestar, sem var notað yfir velunnara stjórnarflokkanna. Þeir fengu þetta virðulega nafn og þeir einir fengu að kaupa bankana. Fleiri álitamál hafa komið upp, svo sem hvað hafi fengist fyrir eigur almennings en í miðju einkavæðingarferli Landsbankans voru rifnar út úr bankanum eigur og seldar aðilum tengdum Framsóknarflokknum. Þá á ég við söluna á hlut Landsbankans í Vátryggingafélagi Íslands, 27% hlut. Ég tel þess vegna rétt að spyrja hvað Landsbankinn hafi fengið fyrir þann hlut.

Umrædd sala var mjög umdeild og hún var talin staðfesting á því að flokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, skiptu þarna á milli sín eigum almennings. Í kjölfar sölunnar treysti Steingrímur Ari Arason sér ekki lengur til að vera í einkavæðingarnefnd ríkisstjórnar og sagði sig úr henni. Ég tel þess vegna að það væri mjög upplýsandi að fá fram hvert söluandvirði Vátryggingafélags Íslands var.



[14:18]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson beinir til mín fyrirspurn um það hvert hafi verið söluverð eignarhluta Landsbanka Íslands í Vátryggingafélags Íslands sem seldur var í aðdraganda að sölu bankans árið 2002.

Þessu er til að svara að samkvæmt tilkynningum frá Landsbanka Íslands og Vátryggingafélagi Íslands sem birtar voru í fréttakerfi Kauphallarinnar seldi Landsbankinn 27% hlut í Vátryggingafélagi Íslands þann 28. ágúst 2002 fyrir tæplega 3,8 milljarða kr. Þann 3. janúar 2003 tilkynnti Landsbanki Íslands að bankinn hygðist nýta sölurétt samkvæmt samningi við Ker hf., eignarhaldsfélagið Andvöku, eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga og Samvinnulífeyrissjóðinn og selja rúmlega 21% hlut sinn í VÍS fyrir rúmlega 3 milljarða kr. Að þeim viðskiptum loknum átti Landsbankinn 1,64% hlut í VÍS. Landsbankinn seldi því samtals 48,32% hlut í VÍS fyrir um 6,8 milljarða kr. í aðdraganda að sölu bankans árið 2002.



[14:20]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar upplýsingar og vek athygli á því að nú í haust var 12,7% hlutur seldur á 3,4 milljarða. Samkvæmt svari hæstv. ráðherra hefur virði hlutar VÍS nærri tvöfaldast á tveimur árum. Ég tel þessar tölur sýna að velunnarar Framsóknarflokksins hafi gert ágætiskaup í hlut Landsbankans í VÍS.