131. löggjafarþing — 79. fundur
 23. feb. 2005.
Húsnæðismál Landspítala -- háskólasjúkrahúss.
fsp. LMR, 523. mál. — Þskj. 792.

[14:33]
Fyrirspyrjandi (Lára Margrét Ragnarsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Vatnsmýrin við Hringbraut hefur verið umræðuefni fjölmargra hagsmunaaðila undanfarin ár. Reykvíkingar hafa haft mikinn áhuga á að byggja íbúðarhúsnæði í Vatnsmýrinni ásamt verslunar- og þjónustubyggingum. Sumir vilja loka flugvellinum í Vatnsmýri en aðrir halda honum og síðast en ekki síst hafa stjórnvöld heilbrigðismála lagt kapp á að sameinuðu bráðasjúkrahúsi verði komið undir eitt þak við Hringbraut. Þannig munu sparnaður og hagkvæmni nást sem best.

Yfirstjórn Landspítala hefur lagt kapp á að byggja nýbyggingu við Hringbraut, ekki til norðurs eða nýta svæði gamla Landspítalans og hjúkrunarskólans en hluta þeirra bygginga þarf að rífa bráðlega. Hugmyndin er ekki ný. Stefnt hefur verið að því að byggja við Hringbraut allt frá 1970 og þá með allt öðrum forsendum um íbúafjölda og aðra þróun sem síðan hefur orðið á höfuðborgarsvæðinu. Nú skal áfram halda og í suðurátt út í eftirsótt og dýrmætt land — í Vatnsmýrina.

Ýmsir hafa skoðað staðsetningu nýs sameinaðs bráðasjúkrahúss, svokallaðs sómatísks eða líkamlegs sjúkrahúss, en ráð voru gefin við mismunandi forsendur. Þannig var ráðgert að fyrirtækið Ementor ætlaði að skoða þörf fyrir bráðasjúkrahús með tilliti til fólksfjölgunar á höfuðborgarsvæðinu og vaxandi hlutfalls eldri borgara. Ementor-ráðgjafar voru sammála um nauðsyn nýbyggingar og skoðuðu lóðir við Hringbraut, í Fossvogi og á Vífilsstöðum. Þessir ráðgjafar töldu mjög erfitt að byggja við Hringbraut og nýta áfram eldri byggingar. Aðrar deildir en sómatískar bráðadeildir væru ekki fyrirstaða fyrir að byggja í Fossvogi þar sem litið er á lóðir í Fossvogi og Hringbraut sem eina lóð í því tilviki, enda stutt á milli.

Sænska ráðgjafarfyrirtækið White var fengið til að gera eina, og aðeins eina, yfirlitsteikningu sem miðaðist við framtíðarbráðaspítala. Það var við Hringbraut. Svokallaður samanburður var gerður við aðra staði sem komu til greina en ekki aðlagaður staðháttum, heldur skipulag við Hringbraut sett hreinlega á kortið í Fossvogi, óbreytt frá tillögu White við Hringbraut. Fáir efast um nauðsyn á nýbyggingu bráðaspítala í Reykjavík. Hún þarf að koma fljótt og við það verður ekki unað að bíða í áratug eða tvo.

Í byrjun ársins kom utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokks fram með þá hugmynd að væntanlegt söluandvirði Símans mætti nýta til nýbyggingar. En hefur verið faglega staðið að mati á kostum og göllum við byggingu á mismunandi stöðum? Hefur fólk lesið vef LSH um kosti nýbyggingar? Þar kemur fram að nálægð við Háskóla Íslands, þekkingarþorp og rannsóknarstofnanir styrki samvinnu við háskólann og verði sú samfella sem eflir mannlíf með grænum grundum, laufgum lundum og útsýni til suðurs, allt frá Nauthólsvík til Reykjavíkurhafnar. Þetta eru sem sagt mjög sérstakar forsendur og heldur furðulegar, herra forseti, og vil ég því beina eftirfarandi spurningum til ráðherra:

Hvers vegna var vinna við deiliskipulag Landspítala – háskólasjúkrahúss við Hringbraut ekki boðin út á almennum markaði, en sjálf hönnunin boðin út?

Hvers vegna var heildarskipulagningu ekki lokið áður en ráðist var í byggingu barnaspítala, eins og lagt var til af Ementor?

Tengist skýrsla breska ráðgjafarfyrirtækisins Weeks frá 1970 þessum fyrirhuguðu framkvæmdum?

Hefur verið gerður samanburður á sparnaði og skilvirkni þjónustu í Fossvogi og við Hringbraut í áætlunum um nýbyggingar?

Er áætlað að taka nýbygginguna við Hringbraut í notkun í áföngum eða í heild, og hvenær er það áætlað?

Hefur verið metin hagkvæmni staðsetningar sjúkrahúss við Hringbraut eða á öðrum lóðum sem taldar eru nær miðju höfuðborgarsvæðisins?

Herra forseti. Þetta eru nokkuð margar spurningar en ég vonast til þess að … (Forseti hringir.) og tíminn er búinn.



[14:38]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv. s., Lára Margrét Ragnarsdóttir, hefur beint til mín sex spurningum um húsnæðismál Landspítala – háskólasjúkrahúss.

Spurt er: „Hvers vegna var vinna við deiliskipulag Landspítala – háskólasjúkrahúss við Hringbraut ekki boðin út á almennum markaði, en sjálf hönnunin boðin út í samkeppni?“

Nú stendur yfir opið forval á allt að sjö vinnuhópum sem taka munu þátt í samkeppni skipulags svæðisins. Forvalið var boðið út á almennum markaði, m.a. á Evrópska efnahagssvæðinu, í Bandaríkjunum og Kanada auk Íslands. Ekkert hefur verið ákveðið með hönnun mannvirkja enda liggur ákvörðun um hönnun eða byggingar ekki endanlega fyrir.

„Hvers vegna var heildarskipulagningu LSH ekki lokið áður en ráðist var í byggingu barnaspítala, eins og ráðgjafarfyrirtækið Ementor lagði til?“

Ráðgjafarfyrirtækið Ementor skilaði skýrslu sinni til Landspítala í október 2001 en bygging barnaspítala var þá mjög langt komin. Var spítalinn opnaður formlega í janúar 2003. Í skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins sem er á heimasíðu Landspítala – háskólasjúkrahúss er því ekki vikið að nauðsyn heildarskipulags áður en ráðist er í byggingu barnaspítala. Bygging barnaspítala var að sjálfsögðu í samræmi við heildarskipulag svæðisins eins og það var þegar ákvörðun um þá byggingu var tekin. Byggingin fellur vel að áformum um frekari uppbyggingu á svæðinu.

„Tengist skýrsla breska ráðgjafarfyrirtækisins Weeks frá 1970, sem byggð var á spám um þróun höfuðborgarsvæðisins um og fyrir þann tíma, ákvörðun um fyrirhugaða nýbyggingu LSH við Hringbraut?“

Tengsl þessarar 35 ára gömlu skýrslu við ákvörðun um byggingu LSH við Hringbraut er óbein, en skýrslan bendir til að þá þegar hafi áhugi á staðsetningu háskólasjúkrahúss verið bundinn við sama svæði og nú hefur verið valið til uppbyggingar. Einn liður í undirbúningsvinnu nefndar þeirrar sem gerði tillögu til mín um staðarval fyrir LSH í janúar 2002 var að skoða tillögur Weeks og þá samninga sem gerðir voru í tengslum við Weeks-áætlun.

„Hefur verið gerður samanburður á sparnaði og skilvirkni þjónustu í Fossvogi og við Hringbraut í áætlunum um nýbyggingar?“

Í áætlun um nýbyggingar hefur ekki verið gerður slíkur samanburður. Úttekt Ríkisendurskoðunar á kostum sameiningar þessara spítala liggur hins vegar fyrir og horft hefur verið til hennar við skipulagsvinnuna.

„Er áætlað að taka nýbygginguna við Hringbraut í notkun í áföngum eða í heild, og hvenær er það áætlað?“

Í skýrslu nefndar um uppbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss sem gefin var út í apríl 2004 er annars vegar gerð grein fyrir tímaáætlun framkvæmdanna við nýjan landspítala og hins vegar tímaáætlun fyrir forathugun þessa verkefnis. Er ánægjulegt að geta þess að tímaáætlun fyrir forathugun stenst, og með ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 18. janúar sl. um að heimila áframhaldandi vinnu við undirbúninginn er tryggt að sú áætlun raskist ekki. Tímaáætlun framkvæmda er einnig kynnt í þessari skýrslu en þar kemur í ljós að gert er ráð fyrir að 1. áfanga ljúki árið 2011 en 4. og síðasta áfanga verði lokið milli 2018 og 2020. Að sjálfsögðu ræður fjármögnunin mestu um hvenær tekst að taka sjúkrahúsið í notkun en ljóst er að hagkvæmni næst með því ef hægt væri að hraða þessu verkefni.

„Hefur verið metin hagkvæmni staðsetningar sjúkrahúss við Hringbraut eða á öðrum lóðum sem taldar eru nær miðju höfuðborgarsvæðisins?“

Hagkvæmni staðsetningarinnar var metin af nefnd sem skilaði heilbrigðisráðherra tillögum sínum í janúar 2002 og kynntar hafa verið opinberlega. Í störfum þeirrar nefndar voru skoðaðir ýmsir möguleikar til staðsetningar sjúkrahússins. Niðurstaða lá fyrir í janúar 2002 og hefur verið unnið á grundvelli hennar síðan.

Ég hef nú svarað hv. þingmanni eftir því sem kostur er á svo stuttum tíma um svo viðamikið mál sem hér er um að ræða. Áfram verður unnið að málinu með þeim hætti að kynna jafnóðum þá áfanga sem nást og ákvarðanir um næstu skref. Næst mun val þeirra hópa sem gefst kostur á að taka þátt í skipulagsvinnunni verða gert opinber. Þá stefnir nefnd um uppbyggingu LSH að því að skila mér þriðju áfangaskýrslu sinni nú í vor.

Ég vil í lok máls míns leggja áherslu á að bygging Landspítala – háskólasjúkrahúss er mikilvægt samfélagslegt verkefni. Ég fagna þeirri samstöðu sem náðst hefur um framgang þessa máls þó að ljóst sé að þegar mörg og mismunandi sjónarmið takast á er hætta á að framkvæmdir tefjist. Hingað til höfum við borið gæfu til að vera samstiga í áformum okkar og áætlunum og ég hygg að það séu fá mál sem þjóðin er jafneinhuga um og þörfin fyrir að byggja nýjan hátæknispítala.



[14:43]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég get í sjálfu sér tekið undir þau orð hæstv. ráðherra að þjóðin sé einhuga um að hafa öflugan og sterkan landspítala, Landspítala – háskólasjúkrahús. Þá veltir maður fyrir sér í ljósi orða hæstv. ráðherra hvers vegna heilu stofurnar nú séu jafnvel lokaðar vegna rekstrarfjárskorts. Hvers vegna standa heilu álmurnar í sjúkrahúsum, hvort sem er á Suðurlandi eða Akureyri, ónotaðar vegna rekstrarfjárskorts? Ef okkur er svona annt um — sem ég tel mig vita að okkur sé — öflug sjúkrahús og mikla möguleika á að sinna þar störfum hljótum við að hugsa fyrst til þessa. Það er a.m.k. mitt mat.

Þá er ég einnig að velta fyrir mér, herra forseti, af hverju Landspítalinn sé skikkaður til að taka af rekstrarfé sínu, að mig minnir, til að fara út í skipulags- og undirbúningsvinnu að nýju sjúkrahúsi sem ekki hefur verið samþykkt á fjárlögum. Mér vitanlega er ekki komin nein heimild til að starta þessari vinnu á fjárlögum. Ég legg áherslu á að menn flýti sér hægt og manni þá fyrst það sem er fyrir hendi með sómasamlegum hætti eins og á Landspítalanum.



[14:44]
Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur fyrir að taka upp málefni Landspítala – háskólasjúkrahúss, nýbyggingarinnar sem við höfum svo sannarlega aldrei tekið neitt mjög langa umræðu um. Það er þó vissulega fagnaðarefni að þessi bygging er að fara af stað.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra spurningar sem vafalaust hefur verið svarað áður: Þegar tekin var ákvörðun um að byggja upp á þessum stað, hver var þá kostnaðurinn við að byggja upp samsvarandi húsnæði í Fossvogi? Var það metið eða borið saman? Nú á nefnd að fjalla um hlutverk Landspítala – háskólasjúkrahúss, hefur reyndar ekki haldið fundi lengi en er búin að boða til fundar núna. Þarf hún ekki að ljúka störfum áður en endanleg niðurstaða liggur fyrir hvað varðar bygginguna og notagildi hennar? Hefur verið tekin ákvörðun um að nota söluandvirði Símans til að byggja upp miðað við þær áætlanir sem hæstv. ráðherra lagði fram?



[14:45]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur fyrir að taka þetta mál upp. Ég tel vert að fara fljótlega að skoða í mikilli alvöru að sameina sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu og skoða hvaða hagkvæmni náist fram með þeim hætti.

Ég vara þó við því að tengja þetta sölu Símans því að hún er algert sérmál. Mér finnst að sala Símans eigi í rauninni að vera á þeim forsendum að fjarskiptum landsmanna sé vel borgið í framtíðinni. Eins á einmitt að skoða það mál sem hér um ræðir út frá þeirri forsendu að við náum fram góðri stofnun sem er hagkvæmari í rekstri en þær sem fyrir eru. Margt leiðir getum að því að það muni verða með sameiningu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu.



[14:46]
Fyrirspyrjandi (Lára Margrét Ragnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er ljóst að allt er afskaplega óljóst um framtíðarskipulag Landspítala – háskólasjúkrahúss og að engar meginákvarðanir hafa verið teknar í sjálfu sér nema þá innan heilbrigðisráðuneytis og innan Landspítala – háskólasjúkrahúss af þeim stjórnendum sem þar ráða, þ.e. stjórn spítalans. Það er heilbrigðisráðuneytið sem ræður eftir því sem reynsla mín er.

Ég hjó eftir því að ráðherra taldi að þarna væru mörg mismunandi sjónarmið á ferðinni. Hann sagði að þegar menn tækjust á um svona lagað væri hætta á að bygging gæti tafist. Það er einmitt þess vegna sem ég tel að svo hljótt hafi verið um fólk sem hefur tjáð aðrar og mismunandi skoðanir eða skoðanir um það að svona spítali væri betur kominn í Fossvogi en við Landspítala, einmitt af þeim ástæðum að þetta fólk vill ekki eða þorir ekki að tefja málið. Þess vegna höfum við ekki séð, eins og ég hef ítrekað við önnur tækifæri, orð frá þessum hópi þegar skrifað hefur verið í blöð og rætt í fjölmiðlum um heilbrigðismál. Ég bið ráðherra hér með að svara mér eða til þingsins aftur þeim spurningum sem ég lagði fram um óbeina tengingu við 35 ára gömul gögn frá Weeks-skýrslunni sem tengjast þessari staðsetningu við Hringbraut og um að hagkvæmni náist ekki á forsendum einhverra lauslegra talna heldur á forsendum sem taka má mark á.



[14:49]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram varðandi þá umræðu sem hér hefur farið fram að það sem gert hefur verið í undirbúningi þessa stóra máls hefur verið þannig að hvert stig hefur verið kynnt í ríkisstjórn. Það er ekki rétt að það séu bara heilbrigðisráðuneytið og Landspítalinn sem hafi fjallað þarna um. Skýrslur þær sem hafa verið gerðar hafa verið kynntar í ríkisstjórn jafnóðum. Þetta er mál af þeirri stærðargráðu að það verður auðvitað kynnt. Það er ekki búið að gera meira í þessu máli en að ákveða að fara í samkeppni um deiliskipulag á lóðinni. Þess vegna er ekki búið að ákveða hvernig hús verða þar byggð, hversu mörg eða hvert byggingarmagnið verður. (Gripið fram í: En það verður í …) Þarna er búið að taka ákvörðun um að fara í deiliskipulag á lóðinni við Hringbraut, já, og semja við Reykjavíkurborg um byggingarmagn og mörk lóðarinnar. Þetta hefur allt saman verið kynnt, bæði opinberlega og í ríkisstjórn.

Það er alveg ljóst, og ég tek undir með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni, að það er skynsamlegt að sameina sjúkrahúsin á einum stað. Auðvitað er stefnt að því. Síðan get ég tekið umræðu við hv. 8. þm. Norðvest., Jón Bjarnason, um fjármögnun sjúkrahúsanna í landinu. Ég hef bara ekki tíma til að taka hana í fyrirspurnatíma en ég er alveg óhræddur við að taka slíka umræðu við hv. þingmann, og meira en það.

Ég undirstrika að þetta er stórt verkefni og hvert einasta skref sem þarna verður stigið verður kynnt í ríkisstjórn og fjárlaganefnd þegar sá tími er kominn.