131. löggjafarþing — 79. fundur
 23. feb. 2005.
umræður utan dagskrár.

Þróun íbúðaverðs.

[15:30]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs er þróun íbúðaverðs, og þá sérstaklega íbúðaverðs í Reykjavíkurborg og á höfuðborgarsvæðinu.

Ástæðan er einföld. Slík hækkun kemur einstaklega illa niður á ungu fólki og efnaminna fólki og við erum búin að sjá núna á undanförnum mánuðum og missirum hækkun upp á allt að 20–30%. Ef við skoðum hækkun leiguverðs, sem er erfiðara að mæla, í það minnsta hafa menn ekki jafnnákvæmar upplýsingar, er verið að tala um jafna og þétta hækkun á undanförnum árum og að hækkunin sé orðin allt að rúmlega 70% frá árinu 1997. Þetta er augljóslega mjög erfitt fyrir það fólk sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið í fyrsta skipti og á sama hátt er eðli málsins samkvæmt erfitt fyrir efnaminna fólk sem þarf að leigja að búa við þessar aðstæður.

Á sama hátt er augljós áhætta sem fylgir núverandi ástandi þar sem í rauninni er gert ráð fyrir því að íbúðaverð hækki jafnt og þétt. Það liggur alveg fyrir að niðursveifla á þessum markaði mun hafa alvarlegar afleiðingar og í rauninni alvarlegri afleiðingar en niðursveifla á hlutabréfamarkaði.

Ef við skoðum ástæður þessa eru margar þeirra ekki slæmar. Það er ekki slæmt að hér hafi aukist mjög kaupmáttur á undanförnum árum, það er í sjálfu sér ekki neikvætt að hér hafi aukist aðgangur að ódýru lánsfé og að aðilar sem áður voru ekki á þessum markaði, eins og t.d. bankar, hafi komið inn á hann með þeim hætti sem við þekkjum. Það er í sjálfu sér heldur ekki slæmt að hækkanir hafi komið á einstaka húsnæði vegna staðsetningar og ástands.

Það liggur hins vegar alveg fyrir að hér er ýmislegt sem opinberir aðilar geta gert til að halda þessum hækkunum í skefjum. Til að mynda horfir sá sem hér stendur til þess að á undanförnum 10 árum hefur verið viðvarandi lóðaskortur í Reykjavíkurborg. Fyrrverandi borgarstjóri, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, lýsti því yfir þegar hún tók við að hún teldi að hér væri um að ræða að Reykjavíkurborg mundi tapa á því að stækka. Í ofanálag kom hér upp, eins og menn þekkja, uppboðsstefna sem þýðir á mæltu máli að aðili sem byggir sér íbúð í fjölbýli borgaði áður fyrr um 500 þús. kr. í lóðarkostnað en nú er kostnaðurinn þetta 4–6 millj. kr.

Ef einhver trúir því ekki að um sé að ræða lóðaskort á þessu svæði þurfa menn ekki annað en að líta til mannfjöldaþróunar. Á undanförnum 10 árum hafa verið mestu fólksflutningar inn á höfuðborgarsvæðið í Íslandssögunni. Íslendingum hefur fjölgað um 10% á þessum tíma. Í Reykjavík hefur íbúum fjölgað um 13% ef menn taka Kjalarnes inn í, og á sama hátt hefur í því sveitarfélagi sem hefur haft lóðaframboð fjölgað um 57%. Ef menn skoða brottflutta umfram aðflutta hafa þeir verið mun fleiri í Reykjavík á undanförnum fjórum árum, þ.e. 1.300 manns.

Þetta er ekki bara alvarlegt í núinu, virðulegi forseti, því að það liggur alveg fyrir að allar mannfjöldaspár segja okkur að fjölga muni á höfuðborgarsvæðinu. Menn nefna tölur eins og 40 þús. manns til ársins 2030 þannig að þetta er ekki bara vandamál í núinu heldur liggur alveg fyrir að ef framboð á lóðum eykst ekki verður vandinn enn þá stærri.

Ef einhver trúir því, virðulegi forseti, að framboð á lóðum hafi ekki áhrif á verð fasteigna ætti sá hinn sami að beita sér fyrir því að endurskoða allar hagfræðikenningar. Hagfræðin byggir nefnilega á hinum frægu kenningum um framboð og eftirspurn.

Það er hins vegar að mörgu fleiru að hyggja og að sjálfsögðu hljótum við að hyggja að því hvort við eigum við þessar aðstæður, þar sem bankar hafa komið jafnmyndarlega og raun ber vitni inn á þennan markað, að endurskoða hlutverk ríkisins á markaðnum. Ýmislegt fleira má nefna, t.d. hljótum við líka að skoða þá aðstoð sem við erum með við þá aðila sem kaupa sér húsnæði í fyrsta skipti, hvort rétt sé að viðhalda því kerfi sem er við lýði, vaxtabótakerfinu, sem nýtist ekki sem skyldi við þær aðstæður sem við þekkjum nú.

Ég vil þess vegna byrja á því að spyrja ráðherrann þriggja spurninga:

1. Hverjar telur ráðherrann vera ástæður mikillar hækkunar fasteignaverðs?

2. Telur ráðherra að sveitarfélög hafi með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi stuðlað að hækkun lóðaverðs, og hyggst ráðherra grípa til aðgerða vegna þessa?

3. Telur ráðherra að hlutverk Íbúðalánasjóðs kunni að breytast í ljósi hræringa á íbúðalánamarkaði?



[15:35]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu.

Það er ljóst að um er að ræða margar samverkandi ástæður fyrir hækkun fasteignaverðs. Fyrir liggur að það hefur hækkað jafnt og þétt frá árslokum 1998. Það er því varhugavert að taka of djúpt í árinni um þróun næstliðinna ára.

Ein skýring hækkandi fasteignaverðs er aukinn kaupmáttur launa. Fram á það hefur verið sýnt að laun og fasteignaverð leita jafnvægis gagnvart hvort öðru til lengri tíma litið. Frá því í janúar 1996 til janúar 2005 hefur kaupmáttur launa aukist um nálægt 30% yfir tímabilið í heild. Þessi mikli kaupmáttarauki skýrir þó ekki nema að hluta til þá miklu hækkun sem hefur orðið á húsnæðisverði undanfarna mánuði.

Í kjölfar innkomu bankanna á þennan markað í fyrrasumar bötnuðu lánamöguleikar fyrir kaupendur stærri eigna verulega. Það virðist hafa leitt til þess að hækkun sérbýlis hefur verið tvöföld á við hækkun í sambýli á undanförnum sex mánuðum. Því má halda fram með góðum rökum að nokkuð hafi skort á að raunverð hafi verið á stærri eignum á undanförnum árum.

Á síðustu missirum höfum við hins vegar einnig séð hækkanir sem ekki virðast að fullu skýrast af markaðslögmálum. Kanna þarf hvort einhverjir markaðsbrestir séu fyrir hendi sem koma í veg fyrir að verðlag endurspegli raunverulegt framboð eigna, eins og stundum virðist vera. Til að reyna að varpa ljósi á það hef ég óskað eftir því við Rannsóknarsetur í húsnæðismálum á Bifröst að það skoði hvaða þættir það eru sem vega þyngst í þróun fasteignaverðs undangenginna mánaða.

Hæstv. forseti. Við undirbúning hækkunar hámarksláns Íbúðalánasjóðs var ávallt gert ráð fyrir að það yrði í áföngum á kjörtímabilinu. Höfuðáhersla var lögð á að forðast að breytingin leiddi til verðspennu á fasteignamarkaði. Liður í því var m.a. að viðhalda þaki á hámarkslánum Íbúðalánasjóðs. Bankarnir hófu að veita íbúðalán í lok ágústmánaðar án hámarksfjárhæðar og upp að 80% af verðgildi eigna. Sú breyting hafði auðvitað áhrif til hækkunar fasteignaverðs, eins og Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið bentu á á þeim tíma. Við þessar breyttu markaðsaðstæður voru engar forsendur til að halda áfram þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að hækkun lánshlutfalls Íbúðalánasjóðs yrði í áföngum enda lánaframboð bankanna margfalt á við framboð Íbúðalánasjóðs. Það hefði ekki haft nein áhrif á fasteignaverð þótt möguleikar þeirra sem minna hafa milli handanna og fólks á landsbyggðinni hefðu verið skertir með því að vængstýfa Íbúðalánasjóð með hægfara hækkun hámarksláns.

Þetta var samhljóða niðurstaða Alþingis 2. desember sl. þegar samþykkt var að 90% lán yrðu að veruleika samhliða verulegri hækkun hámarksláns sjóðsins.

Eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson bendir á hefur ítrekað komið fram að lítið samstarf virðist vera milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til að stuðla að jafnvægi í framboði byggingarlóða. Jafnframt hafa að undanförnu borist fréttir af geysiháum tilboðum við útboð sveitarfélaga á byggingarrétti. Jafnvel má segja að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafi fundið þarna nýjan tekjustofn því draga má í efa að í öllum tilvikum hafi kostnaður sveitarfélaganna af landakaupum og gatnagerð verið jafnmikill og þeir fjármunir sem þau innheimta fyrir byggingarréttinn.

Ég er sammála hv. þingmanni um að ekki sé eðlilegt að lóðaúthlutun verði sveitarfélögum að sérstakri tekjulind, og sveitarstjórnir hljóta að verða að gæta sín á því að stuðla ekki með aðgerðum sínum að hækkun fasteignaverðs. Ég tel jafnvel koma til álita að setja í lög ákvæði um grunn lóðaverðs og mun láta kanna kosti og galla slíkrar lagasetningar. Ég hef í hyggju að ræða við sveitarfélögin um þessi mál á næstu vikum og heyra sjónarmið þeirra. Ég tek þannig undir það með hv. þingmanni að full þörf sé á að skoða þetta mál betur.

Hæstv. forseti. Aðeins rúmir tveir mánuðir eru síðan Alþingi samþykkti lög um innleiðingu 90% íbúðalána. Um það mál náðist þverpólitísk sátt og í því fólst bein viðurkenning á því að Íbúðalánasjóður hafi áfram mikilvægu hlutverki að gegna á íbúðalánamarkaði. Það hefur ekkert breyst í þessu efni frá samþykkt laganna og ég tel ótímabært nú að ræða hugsanlegar breytingar á hlutverki Íbúðalánasjóðs. Sjóðurinn þarf þó að sjálfsögðu að aðlaga sig breyttum aðstæðum í viðskiptaumhverfi sínu.

Eftir innkomu bankanna á íbúðalánamarkaði í ágúst sl. varð strax vart samdráttar í markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs. Meginástæðan var án efa sú að hámarkslán sjóðsins höfðu undanfarin ár ekki fylgt verðlags- eða launaþróun. Með hækkun hámarksláns í 14,9 millj. kr. virðist ágætt jafnvægi vera komið á. Jafnframt var viðmiðun við brunabótamat íbúðar hækkað úr 85% í 100%. Hlutdeild Íbúðalánasjóðs í nýjum lánum til íbúðakaupa er nú í kringum 50% en var um 75% þegar mest lét.

Hæstv. forseti. Ég hef ítrekað sagt að fullt tilefni sé til að fagna þeim lágu vöxtum sem nú bjóðast íbúðakaupendum fyrir forgöngu Íbúðalánasjóðs og það er von mín að vextir muni halda áfram að lækka. Ég tel hins vegar augljóst að Íbúðalánasjóður hafi áfram mikilvægu hlutverki að gegna og að sjóðurinn tryggi ákveðinn stöðugleika á íbúðalánamarkaði. Þrátt fyrir að sú breyting sem orðið hefur á lánsframboði sé jákvæð fyrir þróun húsnæðismarkaðar er jafnljóst að sjóðurinn og sú fyrirgreiðsla sem hann veitir er forsenda fyrir jöfnum aðgangi almennings að lánsfé til fasteignakaupa óháð búsetu eða fjárhagslegri forsögu. Það hefur ekki breyst.



[15:41]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fasteignir hækka fyrir austan, þær hækka fyrir norðan, þær hækka í Árborg og á Akranesi og í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Það er hins vegar aðeins eitt sem hv. þingmaður, borgarfulltrúinn Guðlaugur Þór Þórðarson, sér og það er lóðaverð í Reykjavík. Ég held að það sé kominn tími til að hv. þingmaður átti sig á því að við erum, félagarnir, komnir yfir Vonarstrætið og á vettvang landsmálanna. Hér eru þau til umfjöllunar.

Þó að hækkandi lóðaverð hafi vissulega einhver áhrif á fasteignaverð vita allir að það er ekki meginskýringin á fasteignahækkunum að undanförnu. Nýbyggingar eru aðeins 10% af fasteignamarkaðnum og lóðaverð nýbygginga þar af leiðandi langt innan við 5% af þessum markaði. Það er sú ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að ráðast í að auka verulega framboð á lánsfjármagni til íbúðakaupa á mestu umsvifatímum í efnahagslífi Íslendinga sem hlaut að leiða til verulegra hækkana. Allir sáu það fyrir og vissu, og ríkisstjórnin gekk að því með opin augun.

Nú, þegar verðið hefur farið svo hátt upp, er full ástæða til að vara við því að hér geti verið of langt gengið og að menn þurfi að vera viðbúnir niðursveiflum. Þetta eru eflaust erfiðir tímar fyrir þá sem eru að festa fé í íbúðum í fyrsta sinn og þurfa að skuldsetja sig svo mikið sem raun ber vitni. Að ætla að bregðast við því með einhverri opinberri verðlagsnefnd um lóðaverð í sveitarfélögum er hins vegar fásinna. Þá fá menn bara úthlutað á einhverju opinberu, niðurgreiddu verði og fara svo að braska með úthlutunina eins og hvern annan happdrættisvinning á byggingamarkaðnum. Menn voru farnir að stunda það. Ég vísa þeim lausnum hæstv. félagsmálaráðherra algjörlega á bug.

Ef menn vilja auka lóðaframboð hér, þar sem eftirsóttast er, í miðborginni og vesturbænum, er auðvitað einfaldast að flytja bara innanlandsflugið til Keflavíkur og gefa 10–15 þús. manns tækifæri á því að búa í hjarta borgarinnar (Forseti hringir.) og skapa það lóðaframboð hér sem þarf. (Forseti hringir.) Ég lýsi því yfir að ég er tilbúinn til þess með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að flytja um það tillögu á Alþingi Íslendinga.

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þingmenn að fara ekki of langt fram úr ræðutíma sínum.)



[15:43]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að beina sjónum okkar að þessu viðfangsefni. Ég get alveg fyrir mitt leyti fyrirgefið honum að ruglast á Ráðhúsinu og þingsalnum. Ég á erfiðara hins vegar með að fyrirgefa honum að reyna ekki að grafast fyrir um raunverulegar orsakir þeirrar verðsprengingar sem er að verða hér í landinu öllu á íbúðarhúsnæði, allt að 50% á undanförnum tveimur árum. Og ég get ekki fyrirgefið að hann skuli hvergi minnast á fasteignaheildsala, braskara, sem eiga hér sök á, að því er talið er.

Ég tel að við þurfum að beina sjónum okkar að hlut bankanna í þessu efni. Ég vek athygli á því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur farið þess á leit að gerð verði ítarleg úttekt á þessu máli og hefur lagt fram sérstakt þingmál um eignatengsl bankanna inn á fasteignamarkaðinn. Ef bankarnir koma þar beint að máli með beinu eignarhaldi, eða óbeint með því að fjármagna fasteignaheildsalana, eru þeir brotlegir við landslög. Það er undrunarefni að Fjármálaeftirlitið hafi ekki fyrr tekið á þessum málum á fastari hátt en gert hefur verið.

Þá vil ég jafnframt lýsa furðu minni á því að þingmaður Sjálfstæðisflokksins skuli taka undir með samtökum eða samráðsvettvangi banka og verðbréfafyrirtækja í aðför þessara aðila að Íbúðalánasjóði. Það er Íbúðalánasjóður sem hefur haft forgöngu um að færa vexti niður til hagsbóta fyrir íbúðakaupendur. Ég get ekki tekið undir með þingmanni Samfylkingarinnar sem gagnrýnir Íbúðalánasjóð fyrir þetta lofsverða framtak. Ég gagnrýni hins vegar bankana og samráðsvettvang þeirra fyrir að reyna að bola út af markaði þeim aðila sem er þeim skeinuhættastur.



[15:46]
Gunnar Örlygsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil hefja ræðu mína á að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að færa þetta mál til umræðu á þinginu.

Þróun fasteignaverðs að undanförnu hefur ekki farið fram hjá nokkrum Íslendingi. Verð á íbúðarhúsnæði hefur hækkað umtalsvert á nokkrum mánuðum, einkum á höfuðborgarsvæðinu og öðrum nágrannabyggðum höfuðborgarsvæðisins.

En hvað veldur þeirri þróun? Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið svo fyrirsjáanlegur að kenna lóðaskorti og skipulagsmálum í Reykjavíkurborg um hækkunina. Aðrir, þá sérstaklega talsmenn framsóknar, hafa kennt bönkunum um. Það hljóta að teljast einkennileg rök að lóðaskorti sé um að kenna í okkar fámenna landi. Enn einkennilegri eru þau rök framsóknarmanna að tilvera bankanna á fasteignamarkaðnum eigi sök á verðhækkunum, sérstaklega í ljósi þeirrar staðreyndar að Íbúðalánasjóður starfar í dag með sparisjóðunum á þessum markaði.

Þá hlýtur að teljast eðlileg þróun, eftir einkavæðingu ríkisbankanna, að bankarnir taki að sér lánveitingar til neytenda á fasteignamarkaði. Þessi umræða mun og getur eingöngu endað á einn veg: Stokka verður upp starfsemi Íbúðalánasjóðs á þann veg að hann fari alfarið af samkeppnismarkaði við bankastofnanir og taki að sér þrengra hlutverk sem lúti að veikari byggðum samhliða því félagslega hlutverki sem hann á að gegna. (Gripið fram í.)

Því miður er Sjálfstæðisflokkurinn í gíslingu Framsóknarflokksins hvað þessar þörfu breytingar varðar enda Íbúðalánasjóður sem heilagur kaleikur sem enginn má hreyfa við. Engra nýrra frétta er að vænta frá vinstri flokkunum tveimur í þessu máli enda eru ríkisafskipti eingöngu af hinu góða á þeim bænum. Svo virðist sem Frjálslyndi flokkurinn sé eina stjórnmálaaflið í landinu sem talar fyrir þörfum breytingum á Íbúðalánasjóði enda aðhyllist flokkurinn frjálst markaðskerfi og hafnar ríkisforsjá svo lengi sem hvers kyns sérréttindi og einokun verða ekki á hendi einkaaðila eftir breytingar.



[15:48]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Fréttir hafa borist af því í vikunni að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað í janúarmánuði einum um 5,1% að meðaltali. Á undanförnu ári hefur íbúðaverð hækkað um tæp 28%.

Við þessar aðstæður er ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu þeirra sem í fyrsta sinn eru að leigja eða fjárfesta í fasteign. Aðgerðum stjórnvalda í húsnæðismálum hefur verið ætlað að tryggja öryggi og jafnrétti í þeim málaflokki, það er tilgangur laga um húsnæðismál að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

Til að mæta því hlutverki enn betur en hingað til hefur Alþingi nýverið samþykkt að hækka lánshlutfallið hjá Íbúðalánasjóði í 90%, upp að ákveðnu hámarki. Á sama tíma hefur gjörbreyting orðið á möguleikum almennings til að fjármagna íbúðakaup á góðum kjörum, einkavæðing ríkisbankanna og innkoma þeirra á íbúðalánamarkaðinn hefur leitt í ljós að þörfin fyrir aðgerðir af ríkisins hálfu hefur breyst. Í veigamiklum atriðum má ganga svo langt að segja að þörfin hafi horfið algjörlega. Þetta á sérstaklega við um þau lán sem sjóðurinn veitir í beinni samkeppni við viðskiptabankana. Hverjum dytti í hug við núverandi aðstæður að stofna Íbúðalánasjóð til þess að veita slík lán?

Breyttar aðstæður hljóta að kalla á endurskoðun á hlutverki ríkisins í málaflokknum. Auk þess sem ég hef áður nefnt er mikilvægt að aðrar aðgerðir opinberra aðila sem ætlað er að auðvelda fyrstu íbúðakaup verði teknar upp og skoðaðar. Vaxtabótakerfið er til að mynda langt frá því að vera gallalaust og sú spurning hlýtur að verða æ áleitnari hvort þeim fjármunum sem í það kerfi er varið mætti ekki verja með markvissari og árangursríkari hætti.

Ég vil loks taka undir með þeim sem minnst hafa á hlutverk sveitarfélaganna í þessum málum. Ef einhver markaður á Íslandi lýtur lögmálum framboðs og eftirspurnar þá er það fasteignamarkaðurinn. Sveitarfélögin og samtök þeirra hljóta að þurfa að íhuga vandlega hvað þau geta gert til að koma til móts við þarfir þeirrar kynslóðar sem um þessar mundir þarf að kaupa sína fyrstu fasteign.



[15:50]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. 90% húsnæðislánin voru eitt af aðalkosningamálum Framsóknarflokksins í síðustu kosningum. Þetta baráttumál varð að veruleika í desember á þinginu. Málið fór til félagsmálanefndar og þar náðist þverpólitísk samstaða um málið. Því var breytt eilítið og það fór í gegn með 45 samhljóða atkvæðum. Stjórnarandstaðan lýsti sig mjög ánægða með málið eins og stjórnarsinnar.

Nú spyrja menn: Af hverju hefur íbúðaverð hækkað? Eins og fram kom hjá hæstv. félagsmálaráðherra eru orsakirnar margar. Kaupmáttur launa hefur hækkað. Bankarnir komu inn á markaðinn í ágúst með 80% lán með engu þaki. 90% lánin komu síðan inn og við bætist kostnaðurinn við byggingarreitina sem hv. málshefjandi gerði að aðalmáli ræðu sinnar. Það er erfitt að segja til um það, virðulegur forseti, hvar aðalorsökin liggur en hún er örugglega blanda af öllu þessu.

Ég fagna því sem fram kom í ræðu hæstv. félagsmálaráðherra, að Rannsóknarsetrið í húsnæðismálum á Bifröst muni kanna þetta mál ofan í kjölinn. Í apríl kemur frá þeim skýrsla sem væntanlega mun leiða sannleikann í ljós.

Ég vil að endingu taka undir þau viðhorf sem hér hafa komið fram, þ.e. að það er ekkert á þessari stundu sem segir að þörf sé á að taka nýjar ákvarðanir varðandi Íbúðalánasjóð. Hann hefur verið mjög mikilvægt tæki fyrir allan almenning hér á landi til að kaupa sér íbúðir, bæði á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Íbúðalánasjóður er vissulega mikið aðhald fyrir bankana. Við vitum ekki hvernig bankarnir munu þróast í framtíðinni, hvort þeir hafi úthald á þessum markaði og hvað muni gerast ef Íbúðalánasjóður fer, hvort bankarnir muni þá halda vöxtum sínum og kvöðum á íbúðalánum. Að mínu mati bendir ekkert til þess að það þurfi að taka neinar ákvarðanir nú varðandi framtíð Íbúðalánasjóðs.



[15:52]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hafa verið miklar sveiflur í húsnæðisverði, og þá sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum. Fasteignaverð hefur stórhækkað frá árinu 1998 þegar það lá reyndar mjög lágt.

Á síðustu mánuðum hefur íbúðaverð hækkað svo gríðarlega að gera má ráð fyrir því að stórir hópar, ekki síst ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum, muni lenda utan við húsnæðislánakerfið um langa tíð.

Virðulegi forseti. Ég tel að fara verði vel yfir þennan markað þar sem heildarsýn fáist yfir mismunandi þætti málsins og aðkomu mismunandi aðila, ekki síst aðkomu ríkisvaldsins sem er stór gerandi í þeim breytingum á fasteignamarkaði sem nú hafa skilað svo rosalegri hækkun á fasteignaverði.

Ég fagna þeim yfirlýsingum sem fram komu hjá fjármálaráðherra, að hann hafi þegar samið við Rannsóknarsetrið á Bifröst um slíka athugun og tel að það verði mikilvægt framlag inn í umræðuna á næstu mánuðum.

Það má, virðulegi forseti, rekja hina miklu hækkun fasteignaverðs til yfirlýsinga Framsóknarflokksins um 90% lánin fyrir síðustu kosningar. Þar með voru gefnar yfirlýsingar um gerbreyttar forsendur á þessum markaði, þar sem Íbúðalánasjóður var kominn inn á markað bankanna. Þeir höfðu lánað íbúðakaupendum það sem var umfram 60% veðsetningarhlutfall Íbúðalánasjóðs, höfðu séð um að brúa bilið á milli lána Íbúðalánasjóðs og hátt upp í kaupverð íbúða. (HjÁ: Á okurvöxtum.) Bankarnir komu í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar á húsnæðislánamarkaðinn og buðu lægri vexti og hærra veðhlutfall.

Margir hafa notfært sér þessa stöðu þar sem önnur eins kjör og nú voru ekki í boði þegar Íbúðalánasjóður var einráður á markaði. Það er því skiljanlegt að mikil hreyfing verði á fasteignamarkaði við þessar aðstæður. Hvað hefur þessi ríkisstjórn gert til að sannfæra fólk um að þessir lágu vextir séu varanlegt ástand? Mitt svar við því er: Ekkert. Því er nærtækt að telja að undirliggjandi ástæður þessara miklu hækkana séu þær að fólk treysti ekki stjórnvöldum og treysti því ekki að um varanlegt ástand sé að ræða.



[15:55]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart þótt talsmenn nýfrjálshyggjunnar í Sjálfstæðisflokknum hafi það að meginmarkmiði að tala niður Íbúðalánasjóð. (Gripið fram í: Ekki gleyma Frjálslynda flokknum.) Hins vegar hygg ég að mörgum sjálfstæðismönnum sem aðhylltust sjónarmiðið „stétt með stétt“ hafi ekki endilega hugnast boðskapur frjálshyggjumanna Sjálfstæðisflokksins, að höfuðmeinið í íslenskum húsnæðismálum væri Íbúðalánasjóður og að hann þrengdi sér inn á markað bankakerfisins í húsnæðismálum. Drottinn minn dýri!

Hitt er alvörumál hver staðan er, hversu gríðarlega húsnæðiskostnaður hefur vaxið af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar, að bankarnir reyna að þrengja sér inn á markaðinn og yfirtaka með þessum hætti. Vísitala húsnæðiskostnaðar síðan árið 1997 hefur nær tvöfaldast, vaxið um 100% meðan neysluverðsvísitalan hefur hækkað um rúmlega 30%. Vísitala fasteignaverðsins spilar mjög stóran þátt í almennri hækkun á neysluverðsvísitölunni. Húsnæði er ekki lengur bara nauðsynlegt til að koma sér upp þaki yfir höfuðið heldur er það orðin verslunarvara. Ég hef þess vegna lagt fram fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um hvort ekki væri rétt að skoða hlut fasteignaverðsins í vísitölunni.

Er það rétt að fasteignaverðsbóla á höfuðborgarsvæðinu, keyrð áfram með þeim hætti sem hér hefur verið rakið, eigi að keyra upp vísitöluna fyrir alla landsmenn með þeim afleiðingum að lánin hækki og gengið hækki og atvinnuöryggi og staða atvinnuveganna bíði tjón af? Er það rétt?



[15:57]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. félagsmálaráðherra sérstaklega fyrir góð svör. Ég fagna því að Rannsóknarsetri á Bifröst verði falið að skoða málið og að skoðað verði hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að sveitarfélögin stuðli að hækkun fasteignaverðs og nýti lóðaskort og þá neyð sem honum fylgir sem tekjustofn.

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á nokkru. Hér komu tveir þingmenn og gerðu athugasemdir við að hér væri rætt um málefni Reykjavíkurborgar. Það var hv. þm. Ögmundur Jónasson, þingmaður Reykvíkinga, og hv. þm. Helgi Hjörvar, einnig þingmaður Reykvíkinga. Það vill svo til að hv. þm. Helgi Hjörvar er í Samfylkingunni sem hafði sem sérstakt baráttumál að hér yrði borgarstefna tekin upp á vettvangi þingsins, borgarstefna.

Ég vil segja hv. þingmanni að ég hika ekki við að taka upp málefni Reykvíkinga og Reykjavíkurborgar hvenær sem mér dettur það í hug. Mér finnst að við ættum að gera meira af því. En hv. þm. Ögmundur Jónasson og hv. þm. Helgi Hjörvar töluðu um braskara, að það ætti að taka á þessum bröskurum. Ég vek athygli hv. þingmanna á því að R-listinn hefur verið að braska með lóðir í Norðlingaholti með einkaaðilum. Og hvað skyldu þeir hafa grætt? Eina, tvær milljónir? Nei. Rúmlega 800 millj. kr. í það minnsta, á lóðabraski. Það verður gott að sjá þessa aðila, varaborgarfulltrúann og hv. þm. Helga Hjörvar, beita sér fyrir því að braskið verði stöðvað. Á sama hátt hefur hækkun á fasteignamati og hækkun fasteignaskatta, afleiðingar lóðaskortsstefnunnar, hækkað tekjur Reykjavíkurborgar af fasteignagjöldum um 114%.

Virðulegi forseti. Ég hlakka til að sjá hv. þingmenn taka til hendinni. Við þurfum ekki bara að taka til hendinni hér á þingi til að mæta þessu heldur svo sannarlega líka hinum megin við Vonarstrætið.



[15:59]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu.

Hv. þm. Helgi Hjörvar gerði lögfestingu 90% lánanna að sérstöku umfjöllunarefni og er rétt að rifja það upp fyrir þingmanninum af þessu tilefni að full samstaða var um málið á Alþingi eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir rifjaði upp áðan. Málið var samþykkt með 45 greiddum atkvæðum, enginn sagði nei og enginn sat hjá, hæstv. forseti.

Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir tók þátt í umræðunni. Það er rétt að vekja athygli á því að það er athyglisvert að þeir sömu og hafa neitað því staðfastlega að Framsóknarflokkurinn ætti nokkurn heiður af vaxtalækkun húsnæðislána á undanförnum missirum hafa nú sammælst um að hafa hátt um að hækkun á fasteignaverði sé Framsóknarflokknum einum að kenna. Það er stærðfræði, hæstv. forseti, sem gengur ekki upp.

Hv. þm. Gunnar Örlygsson gerði lánaframboð bankanna að umfjöllunarefni, gagnrýndi þann er hér stendur fyrir málflutninginn áðan. Lánaframboð bankanna síðasta haust gerbreytti fjármögnun á lánamarkaði. Allir sérfræðingar höfðu verið sammála um að hógvær hækkun hámarksláns Íbúðalánasjóðs í 90% gæti, ef óvarlega væri að verki staðið, valdið verðhækkunum. Um þetta vitna skýrslur Seðlabankans og efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins frá því í vor og snemma í sumar. Engan óraði fyrir því, hæstv. forseti, að bankarnir kæmu á undan inn á markaðinn og byðu ótakmörkuð lán upp í 80 og jafnvel 100% af kaupverði í einni svipan. Það liggur í augum uppi að slík stökkbreyting hlýtur að hafa mikil efnahagsleg áhrif í för með sér. Innkoma bankanna á markaðinn var fagnaðarefni. Ég hef fagnað henni, en hún hafði auðvitað í för með sér óheppilegar aukaverkanir.

Hæstv. forseti. Ég get að lokum tekið undir það með hv. þingmanni og málshefjanda, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, að það kunni að vera ástæða til þess að fara sérstaklega yfir stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði í ljósi breytinga á undanförnum mánuðum og aðstæðum þess til að festa kaup á sínu fyrsta húsnæði. Lögfesting 90% lánanna var liður í slíku verkefni en það kann vel að vera að við þurfum að skoða það enn frekar.