131. löggjafarþing — 83. fundur
 3. mars 2005.
um fundarstjórn.

Umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins.

[10:58]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í 2. mgr. 55. gr. þingskapa stendur, með leyfi forseta:

„Jafnan er heimilt að gera stutta athugasemd um atkvæðagreiðslu, um fundarstjórn forseta og til þess að bera af sér sakir.“

Ég hélt að það gengi fram fyrir aðrar umræður en ég fellst að sjálfsögðu á ósk frú forseta að umræður um störf þingsins megi halda áfram þar til þeim lýkur, eftir 20 mínútur, en ég bað um orðið í þeim miðjum.

Ég vil geta um eftirfarandi: Í umræðunni hafa menn rætt eitt tiltekið mál sem búið er að ræða í utandagskrárumræðu. Hér hefur sem sagt orðið utandagskrárumræða um það mál, framhald og endurtekning. Auk þess hefur verið beint fyrirspurnum til hæstv. forsætisráðherra. Við erum með sérstaka fyrirspurnatíma, bæði fyrir óundirbúnar og undirbúnar fyrirspurnir, fyrir utan náttúrlega skriflegar fyrirspurnir. Auk þess hefur verið mælt fyrir einu ákveðnu máli sem er til umræðu í þinginu.

Frú forseti. Mér finnst þetta ekki vera fundarstjórn í samræmi við þingsköp Alþingis og ég vil ekki að málin þróist þannig að við séum með utandagskrárumræður undir margs konar formerkjum og komin með fyrirspurnir til ráðherra undir margs konar formerkjum og farin að ræða einstök þingmál sem fyrir liggja frumvörp um í hinu háa Alþingi undir þessum lið. Til þess höfum við 1., 2. og 3. umr.



[11:00]
Forseti (Þuríður Backman):

Forseti vill geta þess að hv. þingmaður óskaði ekki eftir að bera af sér sakir, heldur óskaði hann eftir að koma upp undir liðnum um fundarstjórn forseta. Miðað við það sem hv. þingmaður las hér upp úr þingsköpum taldi forseti rétt að ljúka fyrst umræðum um störf þingsins innan þess tíma sem ætlaður er fyrir slíkar umræður áður en þingmanni yrði gefið orðið, um fundarstjórn forseta, þar sem hv. þingmaður óskaði ekki eftir að bera af sér sakir.

Forseti vill þó geta þess að þessar umræður um störf þingsins hafa verið að þróast með þessum hætti undanfarna tvo vetur, og það í fullu samráði við og að frumkvæði hæstv. forseta þingsins, Halldórs Blöndals, sem hefur leyft umræður af þessum toga.



[11:01]
Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ég sé mig tilneyddan til að kveðja mér hljóðs um fundarstjórn forseta vegna þess að ég beindi ákveðinni fyrirspurn undir þessum lið sem við vorum að ræða áðan til hæstv. forsætisráðherra sem hann svaraði ekki. Það er mjög veigamikið, virðulegi forseti, að hæstv. forsætisráðherra svari þeirri spurningu sem hér hefur verið lögð fram um þetta. Þetta er veigamikið atriði gagnvart því máli sem forseti leyfði að yrði rætt hér áðan í þær 20 mínútur sem voru til ráðstöfunar undir liðnum um störf þingsins. Það er hárrétt sem kom fram hjá sitjandi þingforseta að þetta er sú þróun sem hæstv. forseti þingsins, Halldór Blöndal, hefur hvatt til.

Virðulegi forseti. Ég verð að árétta spurningu mína, gera þá athugasemd og vera óánægður með það að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki svara hinni einföldu spurningu: Hefur Samkeppnisstofnun skilað til ríkisstjórnar, forsætisráðherra eða fjármálaráðherra skýrslu um alvarlegar afleiðingar (Forseti hringir.) þess að grunnnetið verði selt með Símanum?

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna hv. þingmann um það að halda sig við efni þessa dagskrárliðar, um fundarstjórn forseta, og fara ekki í efnisumræðu undir þessum dagskrárlið, misnota ekki dagskrárliðinn til þess.)



[11:03]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mótmæli þeim skilningi sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur á þeim lið sem við vorum að ræða áðan, þ.e. liðnum um störf þingsins. Það er ekkert eðlilegra en að hér ræði menn um störf þingsins, um þau mál sem fyrir liggja. Nú liggja t.d. fyrir tvö óafgreidd mál vegna sölu Símans og það er full ástæða til þess að þingnefndir taki þau mál núna til afgreiðslu og ákveði hvernig með þau skuli fara eftir að þessi mál koma upp eins og þau eru að gera þessa dagana. Ég held að sú krafa hljóti og eigi eðlilega að geta komið fram hér við umræður um störf þingsins.

Þess vegna finnst mér algjörlega eðlilegt að menn geti farið í umræðu af því tagi sem fór fram hér áðan og ekkert við því að segja.



[11:04]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hlutverk þingsins er í mínum huga tvennt. Það er annars vegar löggjafarsamkunda og hins vegar málstofa þar sem umræða fer fram um það sem efst er á baugi hverju sinni í samfélaginu. Það er ekkert óeðlilegt við það að hér þróist sú venja og sú hefð að hægt sé að taka í upphafi fundar upp mál sem ofarlega eru á baugi í samfélaginu hverju sinni. Án þess að ég ætli að gefa hæstv. forseta þingsins einhverja einkunn fyrir störf sín vil ég þó segja að þetta er eitt af því sem hann hefur átt þátt í að þróa, og það til betri vegar. Ég tek undir með þeim sem því hafa haldið fram í þessari umræðu að þetta sé góð þróun og mikilvæg. Það er afar mikilvægt að Alþingi taki þátt í umræðu um þau mál sem eru ofarlega á baugi hverju sinni og upplýsi jafnvel um afstöðu kjörinna fulltrúa til einstakra mála.

Ég mótmæli alfarið þeim skilningi sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur á því sem hér hefur verið rætt og ítreka í þetta sinn að ég er mjög sáttur við þá þróun sem hæstv. forseti þingsins hefur þó átt þátt í að móta í þessu tiltekna máli.



[11:06]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Eins og rækilega hefur komið fram í umræðunni kvaddi ég mér hljóðs um störf þingsins vegna þess máls sem hér hefur verið rætt. Það eru stöðug og sterk skilaboð frá samfélaginu í ákveðnu máli sem viðvíkur sölu Landssímans. Þess vegna er í hæsta máta eðlilegt að taka eitt umdeildasta mál hér til umræðu þegar nýjar upplýsingar koma fram eða mál standa með þeim hætti að það sé ástæða til þess að þingið láti það til sín taka.

Hæstv. forsætisráðherra sem fer með þetta mál kom inn í umræðuna og ég fagnaði því. Það er síðan í valdi hvers og eins hverju svarað er undir þessum dagskrárlið. Hv. þm. Pétri H. Blöndal virðist vera þetta eitthvert viðkvæmnismál og hann kom þannig fram. Hann er kannski viðkvæmur fyrir því að mögulega verði snúið af þeirri braut að selja Landssímann og þess vegna sé hættulegt að taka málið upp. Það má vel vera, ég vona að svo verði.

Auðvitað verðum við samt að taka mál hér upp þó að það sé einstökum flokkum eða mönnum viðkvæmt. Það tel ég að við höfum verið að gera og menn verða að taka því þó svo að hér séu rædd mál á þeim grunni sem er ekki í samræmi við vilja og löngun einstakra þingmanna, eins og í þessu tilviki hv. þm. Péturs H. Blöndals.



[11:08]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal gerir athugasemdir við fundarstjórn forseta vegna þess að hér fór fram umræða undir liðnum athugasemdir um störf þingsins um söluna á Símanum. Þetta form hefur verið að þróast, eins og hér hefur komið fram, á undanförnum missirum í það að þegar menn kveðja sér hljóðs um störf þingsins verður þetta æ líkara utandagskrárumræðum.

Það er kannski ekkert undarlegt, frú forseti, þar sem það tekur orðið afskaplega langan tíma að draga hæstvirta ráðherra upp í utandagskrárumræður. Sá sem hér stendur bíður þess að tvær umræður utan dagskrár verði teknar fyrir í þinginu. Önnur beiðnin var lögð fram í nóvember á síðasta ári, beiðni um að ræða framtíð varnarsamningsins við Bandaríkjamenn við hæstv. utanríkisráðherra. Sú beiðni var endurnýjuð í janúar og eftir samtal við hæstv. utanríkisráðherra í gær skilst mér að umræðan komist á dagskrá eftir 10–15 daga. Það var beðið um hana í nóvember og kannski er ekki undarlegt að menn nýti sér þá þetta form, athugasemdir um störf þingsins, til að reyna að ræða við ráðherrana þau mál sem hæst ber hverju sinni þegar svona langan tíma tekur að fá fram utandagskrárumræður.

Hin utandagskrárumræðan er við hæstv. heilbrigðisráðherra um framtíð bráðaþjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Það var búið að setja hana hér á dagskrá. Hæstv. ráðherra óskaði eftir því að umræðunni yrði frestað, sem ég varð við, um eina viku. Síðan eru liðnar þrjár vikur. Það er ekkert skrýtið þó að þingmenn komi hér upp og ræði störf þingsins þegar jafnilla gengur að draga ráðherra upp til að ræða þau mál sem hæst ber hverju sinni.

Það vakti athygli mína að fyrst tók hv. þm. Pétur Blöndal þátt í umræðunni um störf þingsins, eins og hver annar þingmaður. Eftir að hann hafði lýst hér skoðunum sínum og tekið að fullu efnislegan þátt í umræðunum bað hann um orðið til að mótmæla því að umræðan færi fram. Ég skil ekki svona athugasemdir og verð að segja bara alveg eins og er að ef þingmaðurinn er ósáttur við það að þessi umræða fari fram undir þessum lið hefði hv. þingmaður átt að koma strax í pontu, biðja um orðið undir liðnum um fundarstjórn forseta og sýna þá af sér þann mannsbrag að mótmæla því að þessi umræða færi fram með þessum hætti en taka ekki fyrst þátt í henni að fullu og mótmæla henni svo.



[11:10]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Eins og ég las upp úr 2. mgr. 55. gr. þingskapa Alþingis eru talin upp þrjú atriði þar sem hægt er að biðja um umræðu undir liðnum um fundarstjórn forseta. Það er stutt athugasemd um atkvæðagreiðslu, um fundarstjórn forseta og til þess að bera af sér sakir. Þetta er talið upp í einni setningu.

Ég tel og það er mín skoðun að þessi atriði gangi fram fyrir og rjúfi aðra umræðu í þinginu. Frú forseti hefur hins vegar aðra skoðun á því og ég að sjálfsögðu hlíti henni.

Varðandi það að ég hafi tekið þátt í umræðunni og síðan rætt um fundarstjórn forseta — ég veit ekki betur en að hv. þm. Jón Bjarnason hafi einmitt verið að gagnrýna mig fyrir að ég þyrði ekki að fara í umræðuna. Hann sagði að ég vildi banna svona umræðu af því að ég vildi ekki umræðuna. En ég var einmitt að sýna að ég vildi umræðuna. Ég er ekkert hræddur við hana. Ég fór í hana en mér finnst þetta mjög vafasöm þróun. Þetta er mjög vafasöm þróun með störf þingsins því að við eigum að ræða um störf þingsins, það að nefndir geri ekki eitthvað ákveðið, það að eitthvað sé að gerast innan þingsins. Við eigum ekki að tala efnislega um eitthvert ákveðið mál, ekki umræður utan dagskrár. Til þess höfum við ákveðna leið í þingsköpum. (Gripið fram í.)

Menn geta rætt um að það taki langan tíma, það er sannarlega umræða um störf þingsins. Menn geta rætt um að það taki langan tíma og beðið forseta um að taka inn fleiri utandagskrárumræður, það eru störf þingsins, en ekki að taka einstakar umræður efnislega undir þessum lið. Það er þetta sem ég á við.

Við erum líka með þrjár umræður fyrir hvert mál. Þess vegna er óþarfi að vera að ræða efnislega einstök mál undir liðnum um störf þingsins. Við höfum til þess leiðir í þingsköpum.

Ef umræðan dregst hins vegar lengi og málin bíða mjög lengi getur maður farið yfir í störf þingsins og talað um að þetta og þetta mál hafi beðið of lengi. Það er rökfræðilega um störf þingsins.

Hér hafa meira að segja komið fram fyrirspurnir til ráðherra undir liðnum um störf þingsins. Það hefur ekkert með störf þingsins að gera nema þær fyrirspurnir hafi hrannast upp og að þingið hafi ekki valdið því að svara fyrirspurnum þokkalega. Þá getur maður rætt það undir liðnum um störf þingsins að fyrirspurnir þurfi að bíða lengi. Ég veit ekki betur en að menn séu að gera hér stórátak í því að svara einmitt fyrirspurnum með því að byrja klukkan 12 á miðvikudögum.

Þetta er um störf þingsins og ég vil ekki að menn séu að blanda öðrum liðum saman við. Við höfum þingsköp sem eru lög frá Alþingi og ef við viljum breyta þessu skulum við breyta þingsköpunum.



[11:13]
Forseti (Þuríður Backman):

Forseti. vill áminna hv. þingmenn um að gæta þess að ávarpa bæði forseta og aðra þingmenn með réttmætum hætti.



[11:14]
Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér aðeins til að staðfesta að ágætissamkomulag hefur verið um það meðal þingflokksformanna og stjórnar þingsins að hægt sé að koma hér upp undir liðnum um störf þingsins með einstök mál. Hæstv. ráðherrum er auðvitað í sjálfsvald sett hvort þeir mæta til þess að svara fyrirspurnum en engu að síður hefur hv. þingmönnum verið gert það kleift að taka upp mál hér undir liðnum um störf þingsins.

Hv. þm. Pétur Blöndal hefur töluvert til síns máls varðandi túlkun á þingsköpum en þetta er þróun sem hefur verið rædd innan þingflokkanna með forsetum. Ég held að það væri skynsamlegt að þingflokkarnir tækju þessa umræðu um þingsköp innan sinna raða. Við skulum ekki eyða löngum tíma hér í að kýta um þetta, við getum rætt það innan þingflokka.

Virðulegi forseti. Af því að ég ræði hér um fundarstjórn forseta legg ég til að við göngum til dagskrár.



[11:15]
Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ég ætla ekki út í efnislega umræðu um það sem við ræddum áðan undir liðnum athugasemdir um störf þingsins. Ég vek einu sinni enn athygli á því að hæstv. forsætisráðherra svaraði ekki einfaldri spurningu, hvorki játandi né neitandi, sem er grundvallaratriði. Ef Samkeppnisstofnun hefur skilað skýrslu, áliti um söluna á Símanum og grunnnetinu til ríkisstjórnar eða einstakra ráðherra, á auðvitað allur þingheimur, allir þingmenn, að fá að sjá þau gögn. Þess vegna spurði ég hæstv. forsætisráðherra, einmitt nú þegar hann er hér viðstaddur, út í þetta atriði. Þess vegna vil ég enn einu sinni vekja athygli á því að hæstv. forsætisráðherra treysti sér ekki til að koma í ræðustól á Alþingi og svara þessari einföldu spurningu um skýrsluna eða álitsgjöfina frá Samkeppnisstofnun, hvorki játandi né neitandi.

Ég verð þá, virðulegi forseti, að nota aðrar leiðir til að fá svar við þessu ef hæstv. forsætisráðherra, sem nú er farinn úr salnum en ég sé að situr í næsta herbergi, treystir sér ekki til að svara þessu fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar.