131. löggjafarþing — 84. fundur
 7. mars 2005.
Eignarhald á Hótel Sögu og fleiri fyrirtækjum.

[15:23]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Í gær flutti hæstv. landbúnaðarráðherra ávarp fyrir búnaðarþingi að Hótel Sögu. Nú vill svo til að Hótel Saga er reist fyrir fé bænda á seinni hluta síðustu aldar, upp úr 1960, og því vil ég spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra sem vill hag bænda sem bestan hvort hann hyggist breyta eignarhaldinu á Hótel Sögu og því sem því tengist — það eru fleiri hótel sem tengjast þessu — þannig að bændur eignist hlutabréf í þessu fyrirtæki og geti selt þau. Það veitir ekki af hjá sumum bændum, sérstaklega sauðfjárbændum.

Þá vildi ég líka spyrja hann hvort hann hygðist ekki gera það sama við aðrar stórar eignir sem bændur eiga sameiginlega en ekki hver um sig, t.d. Mjólkursamsöluna, Mjólkurbú Flóamanna og fleiri eignir sem eru með milljarða í sjóðum í eiginfé, og bændur hafa kostað, komið upp og reist en eiga ekki beint eignarhald að. Er ekki eðlilegt að breyta þessu í hlutafélag sem bændur eigi beint?

Tilefni þessarar fyrirspurnar er að bóndi hringdi í mig fyrir nokkrum árum — hann þurfti að lifa á 90 þús. kalli á mánuði, sagðist ekki kaupa pitsu — hann sagðist eiga í Hótel Sögu og honum veitti ekkert af því að drýgja þessar tekjur sem eru 90 þús. kall á mánuði með því að nota eignarhlut sinn í Hótel Sögu.



[15:25]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Stendur ekki upp hér í dag varðmaður eignarréttarins á Íslandi og ætlast til þess að landbúnaðarráðherra fálmi inn í fyrirtæki sem hann hefur ekkert með að gera. Hið glæsilega hótel, Hótel Saga, var byggt fyrir frumkvæði Búnaðarfélags Íslands. Þá var Þorsteinn Sigurðsson bændahöfðingi uppi á Vatnsleysu og þeir byggðu þetta myndarlega hótel og eignuðust síðan Hótel Ísland. Þetta er alfarið hlutafélag í eigu Bændasamtaka Íslands í dag. Landbúnaðarráðherra má ekki einu sinni hafa skoðun á því, af því að hann virðir svo þennan eignarrétt, hvað þeir eigi að gera við hann en ég hygg að þeir reki þessi fyrirtæki sín nú á ferðamannatímum fyrir talsvert mikinn arð sem nýtist þá bændum í heild sinni. Þeir verða að taka ákvörðun um það, bændur Íslands, í gegnum sinn félagsskap hvað þeir gera við þessar miklu eignir í borginni. Þær eru þeirra eign, þeirra ákvörðunarréttur og hann virði ég.

Svo gæti ég auðvitað haft alls konar skoðanir á því hvað ætti að gera við peninginn, en er ekki best að ég sleppi því í dag? (Gripið fram í.)



[15:26]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Þetta er ekki alveg svona einfalt. Sumar þessar stofnanir sem ég nefndi, eins og Mjólkurbú Flóamanna og fleiri, eru reknar sem sjálfseignarstofnanir og þar eiga menn stofnfé eins og í sparisjóði. Þegar þeir svo falla frá ber dánarbúinu að innleysa stofnbréfið á nafnverði. Allur arðurinn, allur hagnaðurinn, arður margra ára sem byggist á því að mjólkurverð hefur verið of lágt til bænda situr eftir. Enginn á hann, ekki einu sinni bóndinn sem lagði hann til. Þessu þarf að breyta með lögum, það er ekki hægt öðruvísi, og ég reikna með að það sé svipað með Bændahöllina, að þar þurfi að breyta lögum til að fjármagnið geti farið aftur til bændanna sem lögðu það fram. Ég ber hagsmuni bænda fyrir brjósti. (Gripið fram í: … þjóðnýta.)



[15:27]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Mjólkurbú Flóamanna og Mjólkursamsalan í Reykjavík eru ekki sjálfseignarstofnanir. Þetta eru fyrirtæki í eigu bænda samtíðarinnar og um þau hefur verið farið lögfræðilega þannig að þetta eru fyrirtæki í eign bændanna og eru samvinnufyrirtæki rekin undir þeim formerkjum og þeim lögum. Bændurnir eiga þessi fyrirtæki alfarið og ég vona að hv. þm. Pétur H. Blöndal sem virðir eignarréttinn og vill að menn séu ríkir öfundist ekki yfir því þó að einhver fyrirtæki sem bændurnir eiga séu vel stæð. Þetta hafa verið mjög öflug fyrirtæki í þróun og markaðssetningu og í þjónustu við neytendur, þau hafa verið vel rekin og eru bændunum í dag mikilvægari en fyrr.

Þau hafa þjónað neytendum afar vel þannig að bændurnir fara einnig með þetta mál. Við skulum virða það.