131. löggjafarþing — 86. fundur
 9. mars 2005.
Urriðastofnar Þingvallavatns.
fsp. MÞH, 346. mál. — Þskj. 392.

[12:00]
Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Fyrirspurnin sem ég legg fyrir hæstv. forsætisráðherra er að vísu orðin nokkuð gömul. Hún var fyrst lögð fram í maí á síðasta ári en þá vannst ekki tími til að afgreiða hana áður en þingi lauk. Ég lagði hana aftur fram þann 18. nóvember síðastliðinn og síðan hafa vikurnar og mánuðirnir liðið en nú er loks komið að því að þessari fyrirspurn verði svarað. Þessi fyrirspurn hljóðar svo:

Hvað er að frétta af störfum nefndar sem Alþingi fól ríkisstjórninni 3. mars 1998 að skipa og gera átti tillögur um leiðir til að endurreisa urriðastofna Þingvallavatns?

Ástæðan fyrir því að ég ber fram þessa fyrirspurn er sú að ég hnaut um það í fyrra þegar ég var að lesa gömul þingskjöl að á sínum tíma hefði verið afgreidd þingsályktunartillaga með miklum glans sem hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að gera tillögur um leiðir til að endurreisa urriðastofna Þingvallavatns.“

Flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu voru hv. þm. Guðni Ágústsson, sem þá var formaður landbúnaðarnefndar en er núna landbúnaðarráðherra, hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Árni M. Mathiesen, sem nú er sjávarútvegsráðherra. Landbúnaðarnefnd samþykkti þessa tillögu einróma á sínum tíma og hún var síðan afgreidd í lokaatkvæðagreiðslu, samhljóða af þingmönnum sem þá voru á þingi.

Ástæðan fyrir því að Alþingi ályktaði að fela ríkisstjórninni að skipa þessa nefnd er sú að mörg undanfarin ár hafa farið fram miklar umræður um þennan merka fiskstofn, Þingvallaurriðann, bæði á Alþingi og líka í þjóðfélaginu. Fram hafa komið fyrirspurnir og þingsályktunartillögur, fyrirspurnir sem hefur verið svarað og síðan þingsályktunartillögur sem ekki höfðu fengið afgreiðslu árið 1992. Síðan var þessi ályktun afgreidd í mars árið 1998 og þá hefði mátt ætla að málið væri komið í góðan farveg. En mér hefur, þrátt fyrir mikla vinnu og yfirlegu í ýmsum gögnum og lestur góðra bóka, ekki tekist að koma auga á neitt varðandi störf þessarar nefndar sem Alþingi fól ríkisstjórninni að skipa. Því spyr ég réttilega hæstv. forsætisráðherra: Hvað er að frétta?



[12:04]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Að tilhlutan Landsvirkjunar og í samvinnu við Veiðifélag Þingvallavatns hefur verið unnið að því að skapa ný skilyrði til hrygningar og uppeldis fyrir urriða í útfalli Þingvallavatns. Þær aðgerðir hafa m.a. falið í sér að koma þar fyrir möl sem talin er henta til hrygningar fyrir urriða, hrognagreftri og sleppingum urriðaseiða. Markmiðið með þeim aðgerðum er að þar geti orðið sjálfbær urriðastofn.

Veiðimálastofnun hefur í umboði Landsvirkjunar komið að þessum aðgerðum og jafnframt stundað rannsóknir á árangri þeirra sem Landsvirkjun kostar ásamt rannsóknum á fiskstofnum vatnsins. Þar er megináherslan lögð á vöktun fiskstofnanna með tilliti til sleppinga. Samhliða aðgerðum sem Landsvirkjun stendur að hóf Veiðimálastofnun rannsóknir á fiskstofnum vatnsins. Rannsóknir hafa sýnt að allnokkur hrygning og uppeldi urriða er í Öxará sem virðist vera aðalhrygningarstaður urriðans.

Urriði til undaneldis var veiddur með ádrætti í Öxará haustið 1999–2003. Hrognum og seiðum frá þessum fiskum hefur verið sleppt í Þingvallavatn. Samtals var á þessum árum dreift um 100 þús. sumaröldum urriðaseiðum og 3.900 eins árs seiðum. Um 30 þús. þessara seiða hafa verið örmerkt. Reikna má með að sleppingar þessar komi til með að auka veiði á urriða í vatninu til muna.

Að auki hafa verið grafin um 10.150 hrogn við útfall Þingvallavatns og í Ölfusvatnsá. Hrognagröftur við útfallið virðist ekki hafa tekist sem skyldi en hins vegar benda rannsóknir til þess að hrognagröftur í Ölfusvatnsá hafi skilað árangri. Margt er þó enn óljóst varðandi lífshætti urriða í Þingvallavatni og er vonast til að rannsóknir Veiðimálastofnunar sem unnar eru fyrir Landsvirkjun muni auka þekkingu á lífshlaupi urriðans og samspili við aðra fiskstofna í vatninu.

Annað rannsóknarverkefni hófst árið 1999 og miðar að því að afla ítarlegrar þekkingar á lífsháttum urriðans í vatninu svo sem á aldri, vexti, kynþroskastærð, fæðuvali, farleiðum og stofnrannsóknum. Frá árinu 2003 hefur fyrirtækið Laxfiskar ehf. rannsakað Þingvallaurriðann með notkun rafeindafiskmerkja í samvinnu við rafeindafiskmerkjaframleiðandann Stjörnuodda og Hafrannsóknastofnun. Þessar rannsóknir á atferli og vistfræði Þingvallaurriðans eru vel á veg komnar og hafa niðurstöður þeirra nú þegar gefið mikilvæga innsýn í líf þessara fiska. Þegar rannsóknunum verður lokið og marktækni þeirra náð því stigi sem til er ætlast er þess vænst að notadrjúg þekking á lífsháttum Þingvallaurriðans verði tiltæk. Slík vitneskja er nauðsynleg því miklu skiptir að aðgerðir af mannavöldum á Þingvallasvæðinu taki mið af lífsháttum Þingvallaurriðans. Þannig verður best stuðlað að því að urriðinn í Þingvallavatni skipi áfram þann eðlilega sess sem hann hefur í merkri náttúru Þingvallavatns.

Á síðasta ári var unnin yfirgripsmikil stefnumörkun Þingvallanefndar fyrir þjóðgarðinn á Þingvöllum til ársins 2024. Þar kemur m.a. fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Þjóðgarðurinn leggur sitt af mörkum í viðhaldi og endurreisn lífríkis Þingvallavatns í samstarfi við aðra aðila, t.d. með verndun hrygningarstöðva í Öxará. Fjölbreytni og útbreiðsla tegunda hefur verið könnuð og kortlögð. Fylgst er með breytingum á vistkerfinu með skipulegum hætti og orsakir breytinga greindar.“

Enn fremur segir, með leyfi forseta:

„Dregið hefur verið úr yfirborðssveiflum í Þingvallavatni til að vernda búsvæði kuðungableikju og urriða og sömuleiðis hefur urriðanum á ný opnast farvegur niður í Efra-Sog þar sem áður var náttúrulegt útfall Þingvallavatns.“

Í ljósi þess hve vel margvíslegar rannsóknir eru á veg komnar, sem hafa það að markmiði að endurreisa urriðastofninn í Þingvallavatni, og hvaða árangri þeir hafa skilað nú þegar þá tel ég ekki sömu þörf á að skipa sérstaka nefnd og þegar umrædd þingsályktunartillaga var samþykkt á Alþingi fyrir tæpum sjö árum. Þá vekur ný stefnumörkun Þingvallanefndar og stuðningur nefndarinnar við rannsóknir á vistkerfi Þingvallavatns góðar vonir um að urriðastofninum sé borgið til lengri framtíðar.



[12:08]
Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta svar var hreinlega ekki boðlegt. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra hvað væri að frétta af störfum nefndarinnar. En þessi nefnd hefur samkvæmt þessu aldrei verið skipuð. Alþingi mælti fyrir því fyrir sjö árum, eins og hæstv. forsætisráðherra benti á, að skipuð yrði slík nefnd. Í ljós kemur að þessi nefnd hefur aldrei verið sett á laggirnar. Vilji Alþingis hefur með öðrum orðum verið hunsaður af framkvæmdarvaldinu og það hlýtur að vera grafalvarlegt mál.

Að öðru leyti var svar hæstv. forsætisráðherra ekki annað en upplestur á staðreyndum sem ég hef sjálfur hér fyrir framan mig og er t.d. hægt að nálgast á heimasíðu Veiðimálastofnunar og líka á heimasíðu Landsvirkjunar. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið og aðgerðum til að reyna að endurreisa urriðastofninn. En ég þarf ekki að koma upp í ræðustól hins háa Alþingis til að fá þær upplýsingar sem hæstv. forsætisráðherra veitti okkur. Ég er læs og get aflað mér þeirra upplýsinga sjálfur. Ég hef þær allar fyrir framan mig þannig að þetta svar er hreinlega ekki boðlegt.

Það sem mér finnst alvarlegast í þessu máli er að ríkisstjórnin, sem hæstv. forsætisráðherra er í og var m.a. í þegar mælst var til að þessi nefnd yrði skipuð, hefur ekki sinnt hlutverki sínu í þessu máli. Hún hefur ekki skipað þessa nefnd og ég tel að það hafi leitt til þess að dýrmætur tími hafi farið til spillis. Menn hafa látið þessi mál í hendur Landsvirkjunar sem á náttúrlega augljóslega hagsmuna að gæta, m.a. þeirra að reyna að verja virkjun sem sett var upp við útfall Þingvallavatns, Steingrímsstöð. Það er hreinlega ekki boðlegt.

Mig langar því í framhaldi af þessu að spyrja hæstv. forsætisráðherra að því hvort hann hafi myndað sér skoðun á því hvort fjarlægja beri þá stíflu eða ekki.



[12:11]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég hélt að aðalmálið væri að endurreisa urriðastofninn en ég heyri á hv. þingmanni að hann telur aðalmálið að skipa sérstaka nefnd. Það getur vel verið að öllu sé borgið í nefndum. Ég hef ekki trú á því að það bjargist allt á Íslandi með því að skipa sem flestar nefndir (MÞH: Ykkur ber að fara að ályktunum Alþingis.) en hv. þingmaður virðist hafa ofurtrú á nefndum.

Ég tel ljóst að þarna hafi verið staðið mjög vel að málum á undanförnum árum. Það er aðalatriðið. Ef hv. þingmaður þarf ekki að spyrja um þetta þá er það hans að ákveða það. Ég get aðeins greint frá þeim staðreyndum sem liggja fyrir. Ég efast ekki um lestrarkunnáttu hv. þingmanns en hann lagði fram fyrirspurn. Ef það var óþarft að leggja fram fyrirspurnina þá er það hans mál.

Ég sé ekki að það sé tilefni til að skipa slíka nefnd sérstaklega úr því sem komið er. Ég sá ekki um það á sínum tíma í hvaða farveg þetta mál skyldi fara. Það fór í annan farveg. Það hefur mikið verið unnið að endurreisn urriðastofnsins og það finnst mér aðalmálið en ekki einhver nefnd sem hugsanlega hefði mátt skipa. En það liggur ljóst fyrir að mikið starf hefur verið unnið til að endurreisa þennan stofn og ég vænti þess að hv. þingmaður telji það aðalatriðið.