131. löggjafarþing — 86. fundur
 9. mars 2005.
Stöðvun á söluferli Landssímans.
fsp. JBjarn, 530. mál. — Þskj. 804.

[12:27]
Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. forsætisráðherra sem fer með efnahagsmál og er yfirmaður einkavæðingarnefndar og verkstjóri í ríkisstjórninni hvort það komi til greina að undirbúningur að sölu Landssímans verði stöðvaður til að ráðrúm gefist til að kanna kosti þess að sameina aðila um rekstur á einu grunnneti fjarskipta og gagnaflutnings í landinu.

Við stöndum frammi fyrir því að verði Landssíminn seldur með grunnnetinu eins og nú horfir mun verða til í landinu tvöfalt að hluta til einkavætt gagnaflutningskerfi með gríðarlegum tilkostnaði og bætist þá við mikil offjárfesting og sóun í fákeppnisumhverfi sem einkavæðing Landssímans mun beinlínis stuðla að. Það verða engir aðrir en neytendur sem borga þann brúsa. Samkeppnin kemur þá til með að snúast fyrst og fremst um þéttbýlustu svæði landsins og veruleg hætta er á að fólk í öðrum byggðarlögum verði afskipt nema til komi sérstakur ríkisstuðningur og há notendagjöld til að knýja fram lágmarksþjónustu þegar fram í sækir.

Þess vegna tel ég miklu vænlegra að einkaaðilar geti keppt um að veita þjónustu á jafnræðisgrundvelli á grunnneti sem taki til landsins alls og tryggi landsmönnum öllum sambærilega fyrsta flokks þjónustu án tillits til búsetu. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum því gert kröfu um það á Alþingi að vinna við undirbúning að sölu Landssímans verði stöðvuð og kannaðir verði möguleikar á að sameina öll grunnnet fjarskipta í landinu í eitt öflugt gagnaflutningsnet. Mikilvægi fjarskipta netsins er eins og vegakerfisins. Það tengir landsmenn saman, skapar grundvöll fyrir hin fjölbreyttu samskipti sem eru grunnur jafnræðis í búsetu og atvinnurekstri um allt land. Væri vel hægt að hugsa sér hliðstæða skipan varðandi fjarskiptanetið, öflugt flutningskerfi í opinberri eigu sem allir gætu nýtt sér á jafnréttisgrunni. Vegagerðin fer t.d. með uppbyggingu, viðhald og þjónustu við vegakerfið ásamt sveitarfélögunum. Það væri tilvalið að koma á hliðstæðri skipan með fjarskiptin. Við markaðsvæðingu raforkukerfisins var t.d. valið að hafa eitt flutningsnet, Landsnet raforku og allir raforkuframleiðendur hafa aðgang að því.

Frú forseti. Grunnnet fjarskipta í landinu eru enn að langmestu leyti í eigu opinberra aðila, þ.e. í eigu Símans, Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar. Því er ríki og sveitarfélögum í lófa lagið að sameina þessi þjónustufyrirtæki í eitt öflugt fyrirtæki. Þessa dagana eru t.d. Orkuveita Reykjavíkur og Síminn að leggja ljósleiðara hvort fyrir sig hlið við hlið inn í hús í Reykjavík. Sér hver heilvita maður hvaða hagkvæmni er í því enda segir Eva Magnúsdóttir upplýsingafulltrúi Símans í Morgunblaðinu 13. febrúar síðastliðinn, með leyfi forseta:

„Það getur aldrei verið hagkvæmt að leggja tvö ljósleiðarakerfi hlið við hlið þegar neytandinn nýtir aldrei nema annað þeirra ...“

Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ekki sé rétt að staldra hér við og kanna hvort sameina megi þessi (Forseti hringir.) grunnnet, sem eru hvort eð er í opinberri eigu að langmestu leyti, í eitt öflugt landsnet.



[12:30]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það er afskaplega mikilvægt þegar verið er að ræða um hið svokallaða grunnnet að menn hafi réttar forsendur í huga en búi sér ekki til ákveðnar forsendur. Það liggur fyrir, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, að í lagaumhverfinu á Evrópska efnahagssvæðinu sem við erum bundin af, við tókum þá ákvörðun á Alþingi að taka þátt í samstarfinu á Evrópska efnahagssvæðinu, er gert ráð fyrir samkeppni í rekstri grunnneta í fjarskiptageiranum. Þetta er að sjálfsögðu lykilatriði sem er mikilvægt að hv. þingmenn gangi út frá í umræðum sínum um þessi mál.

Eins og við vitum starfrækja önnur fyrirtæki grunnnet. Nægir þar að nefna Orkuveitu Reykjavíkur, sem hv. þingmaður nefndi, Og fjarskipti og Fjarska. Ríkisrekið grunnnet sem hv. þingmaður er að tala fyrir væri í beinni samkeppni við aðra rekstraraðila og það er engan veginn hægt að tryggja viðskipti fjarskiptafyrirtækja við slíkt net, jafnvel ekki viðskipti Símans. Þessu er hins vegar allt öðruvísi farið í sambandi við raforkuumhverfið og þess vegna er ekki rétt að vera með tilvitnanir í það. Það er stundum nefnt í þessu sambandi sem möguleg fyrirmynd. Þar gerir evrópsk löggjöf einmitt ráð fyrir einkasölu í dreifingu raforku og þess vegna er allur samanburður í þessu sambandi bæði óhæfur og villandi.

Nú getur vel verið að hv. þingmaður hafi þá sýn að þetta ætti að vera allt öðruvísi en þannig eru ekki lögin. Það er ekki hægt að tryggja það nema breyta lögunum og þá nægir ekki að breyta lögunum eingöngu á Íslandi, það verður að breyta þeim á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta verða menn að hafa í huga þegar verið er að tala um grunnnet. Og að ætla sér að fara að aðskilja það við þessar aðstæður gengur ekki upp. Það liggur alveg ljóst fyrir enda hefur það hvergi verið gert á Evrópska efnahagssvæðinu. Af hverju skyldi það ekki hafa verið gert? Vegna þess að menn hafa að sjálfsögðu beygt sig fyrir þeim staðreyndum lífsins sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar virðast eiga erfitt með að gera, og að ætla sér nú að fara einhverja aðra leið er algerlega ómögulegt. Það hefur ekkert breyst í þessum efnum frá því að ákveðið var að fara út í sölu Símans árið 2001. Langflestir sérfræðingar sem fjalla um þessi mál mæla einmitt með því.

Það að ætla að fara út í einhverja ævintýramennsku á þessu sviði á Íslandi sem hvergi hefur verið gert annars staðar mundi stór rýra söluandvirði Símans, gera það fyrirtæki afskaplega verðlítið. Og hverjum til hags? Neytendum? Nei, það eru engar líkur til þess að það mundi verða neytendum til hags. En ég heyri að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar telja að engin ástæða sé til að leggja áherslu á að fá hátt verð fyrir Símann. Hvað tryggir hátt verð fyrir Símann? Það tryggir að menn geta notað það fjármagn til annarra hluta, til að styrkja stöðu ríkisins og jafnvel til annarrar uppbyggingar í landinu sem sömu þingmenn eru að tala um nánast á hverjum degi og ég er viss um að þeir eru mjög áhugasamir um. Ég dreg það ekki í efa. En svo virðist sem þeir sjái enga leið til að fara út í slíka hluti nema að hækka skattana. Það er eina úrlausnin sem þessir ágætu hv. þingmenn sjá og við erum á móti því í núverandi ríkisstjórn.



[12:36]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum þetta nú daglega, kannski sem betur fer. Hæstv. forsætisráðherra viðurkenndi í gær að hafa ekki lesið minnisblað Samkeppnisstofnunar til einkavæðingarnefndar þegar verið var að undirbúa sölu Símans árið 2000. Það var sagt í gær og talað um að ég ætti ekki að vera að vitna í þetta úrelta plagg. Því vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra: Ef plaggið frá Samkeppnisstofnun til einkavæðingarnefndar er úrelt, getur þá verið að ákvörðun um sölu Símans sé jafnúrelt?

Hæstv. forsætisráðherra vitnaði í Evrópska efnahagssvæðið og allt það. Í niðurstöðu skýrslunnar segir m.a., eftir að talað hefur verið um að aðskilja grunnnetið eða skikka þá til að selja breiðbandið, með leyfi forseta:

„Burt séð frá því hvor framangreindra leiða er valin er mjög æskilegt að gerð verði sú krafa að samkeppnisstarfsemi Landssímans sé rekin í sjálfstæðum dótturfélögum.“

Virðulegi forseti. Í Morgunblaðinu í dag er grein þar sem minnst er á samkeppnisaðila Símans, Og Vodafone, (Forseti hringir.) og því haldið fram að Landssíminn beiti samkeppnishindrunum gagnvart hinum litlu fyrirtækjum.



[12:37]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Nýjasta málsvörn hæstv. forsætisráðherra virðist vera að skjóta sér á bak við Evrópusambandið varðandi einkavæðingu Símans. Hingað til hefur hæstv. ráðherra notað sem aðalrök að löngu sé búið að ákveða þetta.

Staðreyndin er auðvitað sú að það er ekkert í evrópskum samkeppnisrétti sem kemur í veg fyrir að til verði stórt fyrirtæki sem bjóði grunnþjónustu á sviði fjarskipta og gagnaflutninga, ekki neitt. Eignarhaldið á því fyrirtæki getur verið hvernig sem er, hjá ríkinu, fjarskiptafyrirtækjunum, blandað eða hvað það nú er.

Eina ævintýramennskan í málinu er einkavæðing Símans. Það er ævintýramennskan og talandi um nauðsyn þess að fá sem mest verð fyrir Símann, halda menn að það verði neytendum til góðs að selja einkaaðila einokunaraðstöðuna? Um það snýst þetta og til þess þarf að hafa grunnnetið með. Auðvitað á hæstv. ríkisstjórn að endurskoða málið. Það eru allar ástæður til þess, áhyggjur manna út af fákeppni eða tvíkeppni, andstaða þjóðarinnar liggur fyrir, 60% eða 70% þjóðarinnar er á móti þessu, reynsla annarra er slæm og það er tvímælalaust óheppilegt við núverandi aðstæður í efnahagsmálum þjóðarinnar að auka á þenslu með því að selja Símann.



[12:38]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það var mjög aumt að hlýða á hæstv. forsætisráðherra. Hann vitnaði í því til staðfestingar að selja eigi grunnnetið að langflestir sérfræðingar mæli með þessu. Hverjir eru það?

Nær allir sem eru í samkeppni við Símann sjá því allt til fyrirstöðu að selja grunnnetið með Símanum. Það hefur ítrekað komið fram í umræðunni að ríkisstjórnin hefur takmarkaðan áhuga einmitt á samkeppni og það er áhyggjuefni. Til stendur að veikja samkeppnislögin og þegar spurt er að því á hinu háa Alþingi hvort Síminn, ríkisfyrirtækið sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á, fari að samkeppnislögum fást engin svör. Mér finnst þetta alveg með ólíkindum.

Talað er um að stjórnarandstaðan vilji hækka skatta, en hver er raunin? Raunin er sú að hlutur hins opinbera í hlutfalli við þjóðartekjur hefur vaxið gríðarlega.



[12:40]
Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Í könnun Gallup árið 2002 voru yfir 60% af landsmönnum andvíg því að Síminn væri seldur og þær kannanir sem gerðar hafa verið undanfarið, bæði af Félagsvísindastofnun og Gallup, sýna að andstaðan fer vaxandi ef eitthvað er og nú síðast voru 76% í könnun Gallup andvíg sölu á fjarskiptakerfi Símans. Það er varla dæmi um jafnmikla andstöðu hjá þjóðinni um eitt mál eins og þetta í seinni tíð. Gildir það jafnt um félagshyggjufólk sem og þá sem aðhylltust fullt frelsi markaðarins.

Síminn er ekki einhver baggi á þjóðinni, síður en svo. Hann skilar um 3 milljörðum kr. í arð til eiganda síns, ríkisins, sem á yfir 99% í fyrirtækinu og gæti verið gott að eiga það inni til frambúðar. Alla vega mundi enginn bóndi sem væri talinn með bændum velja þann kost að selja bestu mjólkurkúna úr fjósinu og telja að það væri mjólkurframleiðslunni til framdráttar í búi sínu.

Staðreyndin er sú að við erum með fjarskiptanet hjá Orkuveitu Reykjavíkur sem tekur yfir á annað hundrað þúsund íbúa landsins, við erum með Landsvirkjun og við erum með Landssímann. Er ekki skynsamlegt, hæstv. forsætisráðherra, að staldra aðeins við, reka ekki hausinn á undan sér og taka upp viðræður við þessa aðila, eða eigum við að horfa á að byggt verði upp tvöfalt eða þrefalt fjarskiptakerfi á suðvesturhorninu á meðan aðrir landshlutar verða ekki aðnjótandi samkeppninnar. (Forseti hringir.) Það er dapurlegt ef menn þurfa að beygja sig fyrir því sem vitlaust er eins og hæstv. forsætisráðherra komst að orði.



[12:42]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég sagði aldrei að menn væru að beygja sig fyrir því sem vitlaust er. (Gripið fram í.) Það er undarlegt með suma hv. þingmenn að þeir geta aldrei haft rétt eftir. Það er a.m.k. mjög algengt í þessari umræðu að þingmenn hafa ekki rétt eftir það sem sagt er.

Ég er einfaldlega að segja að fara beri að lögum. Ég veit ekki betur en a.m.k. þingmenn Alþýðuflokksins á sínum tíma hafi staðið að því að stofna Evrópska efnahagssvæðið. Gleymdist það þegar þeir fóru í Samfylkinguna? Núna tala þeir eins og það sé ekki til í dæminu.

Síðan eru menn, t.d. hv. þm. Jón Bjarnason, með óljósar hugmyndir um samrekstur samkeppnisaðila á grunnneti. Ég held að þær séu algerlega óraunhæfar. Ég minni á að Póst- og fjarskiptastofnun reyndi að koma á samstarfi milli aðila fjarskiptamarkaðarins um uppbyggingu eins dreifikerfis fyrir stafrænt sjónvarp. Það var reynt og hvernig tókst það? Það mistókst þar sem aðilar á markaði töldu slíkt samstarf ekki þjóna hagsmunum sínum. Finnst mönnum líklegra að það takist þá um annað? Ég veit ekki betur en þeir aðilar sem eru að kvarta undan því að grunnnetið eigi ekki að seljast sérstaklega hafi einmitt hafnað því að taka upp slíkan samrekstur fyrir stafrænt sjónvarp.

Það liggur hins vegar ljóst fyrir að verið er að efla Samkeppnisstofnun. Það er líka verið að efla Póst- og fjarskiptastofnun. Búið er að breyta lögum um þá stofnun. Vissulega kemur líka til greina að fara út í frekari lagabreytingar, ef það er nauðsynlegt, til að tryggja jafnan aðgang allra að grunnþjónustunni. Það höfum við sagt í umræðunni.