131. löggjafarþing — 86. fundur
 9. mars 2005.
Hjartaþræðingar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.
fsp. KLM, 585. mál. — Þskj. 876.

[13:00]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Upptökusvæði Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri nær frá Hvammstanga að Djúpavogi samkvæmt gamalli reglugerð sem þáverandi heilbrigðisráðherra Eggert G. Þorsteinsson gaf út. Mér telst til að það gætu verið í kringum 45 þúsund manns sem búa á þessu svæði. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri er skilgreint sem fyrsta varasjúkrahús landsins með tilliti til almannavarna.

Þeir sem stýra rekstri Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri eru mjög metnaðarfullir og góðir stjórnendur. Þeir hafa lagt fyrir okkur þingmenn framtíðarsýn sína þar sem efst á óskalistanum til að taka upp nú eru hjartaþræðingar. Samkvæmt lauslegri könnun minni reiknast mér til að hjartaþræðingar á þessu upptökusvæði geti verið í kringum 250 á ári og þar af eru sennilega rúmlega 50 sem eru bráðamál, þ.e. fólk sem flutt er með sjúkraflugvél til Reykjavíkur til að fara í hjartaþræðingu. Ekki er mér kunnugt um hve margar hjartaþræðingar eru þar á ári en heyrt hef ég þó töluna 2.000 þó að ég viti ekki nákvæmlega hvort hún er rétt.

Nútímalæknisfræði krefst þess að sjúklingar sem fá hjartaáföll eða kransæðastíflu komi sem allra fyrst í þræðingu, innan nokkurra tíma, áður en drep kemst í vöðvann. Það er auðvitað þetta m.a. sem er rökstuðningur stjórnenda Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri fyrir því að fá að taka upp hjartaþræðingar.

Það má geta þess að þeir Norðlendingar og Austfirðingar sem búa á upptökusvæði Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri þurfa að leggja í mikinn ferðakostnað, allt að 20 þús. kr. á mann, og auðvitað fer aldrei einn maður í hjartaþræðingu, það fer yfirleitt fylgdarmaður með. Auk þess er vinnutap og annað slíkt þannig að heilsuhagfræðilegan kostnað sem fer í þetta má reikna allt að 100 þús. á hvern sjúkling fyrir utan að það eykur auðvitað álagið á Landspítalanum að flytja þurfi allt þetta fólk til Reykjavíkur í hjartaþræðingu.

Ekki alls fyrir löngu var tekið í notkun segulómtæki við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, í nóvember sl., sem var góður áfangi og ber að þakka fyrir jafnt hæstv. heilbrigðisráðherra sem öðrum. Það má segja að sú ákvörðun sé mjög þjóðhagslega hagkvæm vegna þess að það má auðveldlega reikna töluverðan sparnað sem í því felst.

Virðulegi forseti. Hjartaþræðingar við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri eru tilefni fyrirspurnar minnar nú til hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og hún hljóðar svo:

1. Eru áform um að hefja hjartaþræðingar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri?

2. Hver er stofnkostnaður við slíka starfsemi?

3. Hver yrði árlegur rekstrarkostnaður slíkrar starfsemi á FSA?

4. Hversu margir sjúklingar á starfssvæði FSA hafa þarfnast hjartaþræðingar undanfarin fimm ár?



[13:03]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristján L. Möller hefur beint til mín nokkrum spurningum um hjartaþræðingar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, m.a. um hugsanleg áform um að hefja slíkar þræðingar þar, hver yrði stofnkostnaður og árlegur rekstrarkostnaður sem og um fjölda sjúklinga sem þarfnast hafa slíkrar aðgerðar undanfarin fimm ár.

Um nokkurt skeið hafa átt sér stað lauslegar umræður um þann möguleika að taka upp hjartaþræðingar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Hjartaþræðingar og kransæðavíkkanir hafa orðið æ algengari aðgerðir og hafa að hluta til leyst af hólmi þær kransæðaaðgerðir sem áður voru framkvæmdar. Engu að síður er hér um mjög vandasamar aðgerðir að ræða sem krefjast mikillar þjálfunar og færni allra sem að slíkum verkum koma. Samkvæmt upplýsingum frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri er talið að stofnkostnaður gæti numið 125–130 millj. kr. og árlegur rekstrarkostnaður gæti numið um 30 millj. kr.

Hv. fyrirspyrjandi spyr einnig um fjölda sjúklinga á starfssvæði FSA sem þarfnast hafa hjartaþræðinga undanfarin ár. Má í því sambandi geta þess að lausleg könnun á vegum Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri sýndi að árið 2002 voru 53 sjúklingar sendir frá Norðvesturlandi, 138 frá Akureyri og Norðausturlandi og 78 sjúklingar frá Austurlandi. Alls voru þetta um 237 sjúklingar frá Norður- og Austurlandi það ár.

Af hálfu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri eru áform um að gera nákvæma heilsuhagfræðilega úttekt á möguleikum þess að taka upp hjartaþræðingar á sjúkrahúsinu með öllum þeim ráðstöfunum og varúðarráðstöfunum sem gera þarf í slíku tilviki og mun ráðuneytið fylgjast vel með þeirri vinnu og taka þátt í henni eftir atvikum. Hins vegar vil ég taka fram í tilefni af orðum hv. fyrirspyrjanda að efst á forgangslistanum hjá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri er að efla meðferð krabbameinssjúklinga. Við höfum tekið undir það markmið og viljum vinna að því sem forgangsmáli varðandi sjúkrahúsið auk þess að klára innréttingu sjúkrahússins sem ég vona að við getum haldið áfram með og klárað.

Ég vona að þessi svör upplýsi þingmanninn um stöðu þessa máls.



[13:06]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar aðeins að leggja það inn í þessa umræðu að álit mitt er að það eigi ekki að vera forgangsmál að hefja hjartaþræðingar á Akureyri. Heilbrigðiskerfið er orðið mjög dýrt og við þurfum að sérhæfa okkur og við eigum mjög góða hjartadeild á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Til þess að sinna hjartaaðgerðin þarf mikla þjálfun og það þarf að gera margar aðgerðir, á hverjum degi liggur við, a.m.k. mjög margar á hverju ári, og ég sé ekki ástæðu til að sett verði upp hjartadeild á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri vegna þess að 237 sjúklingar að norðan hafi þurft á hjartaþræðingu að halda. Það er mun hagkvæmara fyrir skattgreiðendur og okkur öll að þessar aðgerðir fari fram á Landspítala – háskólasjúkrahúsi þar sem við eigum mjög færa og vel þjálfaða lækna til að sinna þessu. Fólk vill láta þjálfað starfsfólk gera slíkar aðgerðir.



[13:07]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég verð að lýsa mig algerlega ósammála síðasta ræðumanni. Ég skil ekki þennan málflutning. Ég tel einmitt að tölurnar sýni að hér er ekki lengur um jafnsjaldgæfar og sérhæfðar aðgerðir að ræða og menn töldu kannski einu sinni vera. Þegar fjöldinn bara á upptökusvæði FSA er kominn hátt á þriðja hundrað þá gefur augaleið að það er meira en nóg til þess að halda starfsfólki þar í góðri þjálfun. Að sjálfsögðu kæmu menn bæði með reynslu og menntun til að gera þetta þegar þessi starfsemi færi þarna af stað.

Ég tel fyllilega tímabært að skoða þennan þátt í uppbyggingu og eflingu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri eins og aðra. Spurningin er náttúrlega sú: Ætlum við að vera með tvö deildaskipt sérgreinasjúkrahús í landinu eða ekki? Sú ákvörðun liggur fyrir og þá er það bara enn eitt verkefni af mörgum sem á að skoða hvenær er tímabært og hagkvæmt að hefja þessa starfsemi einnig fyrir norðan. Það hefur mikla kosti fyrir íbúa svæðisins. Það er liður í því að efla sjúkrahúsið sem stofnun og styður við aðra starfsemi sem þarna er með alveg sama hætti og efling rannsóknardeilda og annað því um líkt hefur verið liður í uppbyggingu sjúkrahússins. Ég vona því að hv. þingmaður endurskoði hug sinn áður en hún heldur fleiri ræður um málið.



[13:09]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svör hans og sömuleiðis hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir þátttöku hans þó að ég geti ekki þakkað fleirum að þessu sinni. Ég held að það hafi sýnt sig nú þegar með segulómtækið, sem tók forustumenn Sjúkrahússins á Akureyri fimm ár að koma í gegn og er loksins komið eins og ég hef áður sagt, að læknar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri eru fullfærir að sjá um þær aðgerðir og þjálfa sig upp til þess eins og annarra læknisverka. Það sýnir sig nú þegar að þörfin fyrir það tæki var mjög mikil og að það er töluvert mikill þjóðhagslegur sparnaður, sem er náttúrlega aðalatriðið, við að gera þetta fyrir norðan í stað þess að fólk komi hingað suður, missi vinnu o.s.frv. eins og við reiknum þetta út.

Ég hygg, virðulegi forseti, að slíkar niðurstöður mundu koma út ef farið væri vel í gegnum hjartaþræðingar og ég tala ekki um til að minnka álagið á Landspítalann af höfuðborgarsvæðinu og hann gæti þá kannski sinnt öðrum brýnni verkefnum í staðinn.

Þetta vil ég taka skýrt fram, virðulegi forseti, og jafnframt hvet ég hæstv. ráðherra til að láta þessa skoðun fara fram vegna þess að það hefur sýnt sig eins og ég hef áður sagt að bæði læknar og starfsfólk allt á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri er mjög metnaðarfullt og þar eru góðir stjórnendur. Dæmið sem ég tók um segulómtækið sýnir að það var full þörf á því tæki og þeirri þjónustu og ég hygg að það verði svipað með hjartaþræðingarnar þó að ekki séu allir sammála um það.



[13:11]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka undir það að á Akureyri eru mjög hæfir og góðir stjórnendur við sjúkrahúsið. Þeir hafa raðað málum sínum í forgangsröð og þetta mál er eitt af þeim sem þeir hafa skoðað en ég endurtek að efling krabbameinslækninga er númer eitt á forgangslista þeirra. Við höfum skoðað það með þeim og teljum að það mundi bæta þjónustuna mest á þessu svæði að efla þær.

Hér hefur verið til umræðu hvort þetta sé nægilega mikill fjöldi og hvort menn haldi sér í þjálfun með 237 aðgerðum á ári. Það er ljóst að þetta mundi nægja til þess, menn mundu ekki detta úr þjálfun. Hins vegar þarf að vera aðgangur strax í upphafi að lækni sem hefur farið í gegnum 5.000 þræðingar. Það þarf að vera aðgangur að slíkum manni strax ef hefja ætti þræðingar þarna því í þessu má ekkert mistakast. Þetta er það viðkvæm aðgerð að þarna þarf að vera mjög þjálfaður starfskraftur fyrir hendi strax í upphafi. Ég endurtek að forustumenn sjúkrahússins hafa verið að skoða hinn hagræna þátt í þessu en krabbameinslækningarnar eru í forgangi hjá okkur í augnablikinu og að ljúka innréttingu þeirra þriggja hæða sem eftir var að klára við spítalann og er nú þegar byrjað að vinna að því verki.