131. löggjafarþing — 86. fundur
 9. mars 2005.
um fundarstjórn.

Fundartími fyrirspurnafunda.

[15:01]
Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í umræðum milli þingflokksformanna og forseta varð að samkomulagi að færa fyrirspurnatíma þingsins og byrja klukkan tólf en ekki hálftvö eins og venjan er vegna þess að fyrir lægju margar uppsafnaðar fyrirspurnir. En síðastliðna tvo miðvikudaga hefur það gengið þannig að við höfum byrjað klukkan tólf en síðan hafa verið gerð hlé á þingfundum og menn beðið eftir að þingfundur gæti hafist aftur, fáar fyrirspurnir hafa verið á dagskrá og við reiknuðum reyndar með utandagskrárumræðu í dag sem ekki varð af.

Ég óska eftir því, virðulegi forseti, að aftur verði tekið upp að byrja á þeim tíma sem venjan hefur verið, klukkan hálftvö, og dagskráin skipulögð þannig að þingmenn þurfi ekki að sitja og bíða jafnvel klukkutíma í þingfundahléi eftir því að fyrirspurnir þeirra komist á dagskrá. Það er eðlilegt og sanngjarnt að reikna með því að 12–15 fyrirspurnir séu á hverjum miðvikudegi, fleiri þurfa þær í raun ekki að vera miðað við þann fjölda sem liggur fyrir núna. Þessi vinnubrögð eru ekki góð og eru okkur til lítils sóma. Við þurfum að hafa það í huga að skipuleggja vinnu okkar betur en gert hefur verið undanfarið.



[15:02]
Forseti (Birgir Ármannsson):

Af þessu tilefni vill forseti taka fram að um það hefur verið gott samkomulag, eins og hv. þingmaður nefndi, milli forseta þingsins og formanna þingflokka að reyna að greiða fyrir því að unnt yrði að svara fleiri fyrirspurnum í hverri viku en hægt var fyrri hluta vetrar. Það hefur, eins og kunnugt er, skilað þeim árangri að listi yfir fyrirliggjandi fyrirspurnir hefur styst. Hins vegar er, eins og hv. þingmanni er einnig kunnugt um, alltaf nokkuð snúið að skipuleggja fyrirspurnatímann þannig að henti bæði fyrirspyrjendum og ráðherrum, enda viðvera beggja nauðsynleg við slíka umræðu.

Sá forseti sem hér talar telur aftur á móti rétt að taka þetta að nýju til umræðu í ljósi þeirra aðstæðna sem upp hafa komið í dag og síðastliðinn miðvikudag með það að markmiði að finna lausn sem bæði tryggi að dagskrá fyrirspurnafundar geti gengið vel fyrir sig og eins að þeim fyrirspurnum sé svarað sem fram eru bornar.



[15:03]
Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt að hér þurfa að vera bæði þingmenn og ráðherrar til að hægt sé að spyrja og svara. En ég minni á að við höfum ákveðna viðveruskyldu. Leggi þingmaður fram fyrirspurn sem á að svara innan ákveðins tíma og sé ráðherra tilbúinn til að svara henni þá á það auðvitað að ganga þannig fyrir sig að hægt sé að taka málið á dagskrá nema sérstakar aðstæður hindri.

En ég ítreka bara að ég tel nauðsynlegt að við skipuleggjum vinnu okkur betur en gert hefur verið í tveimur síðustu fyrirspurnatímum.



[15:04]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég hef mikla samúð með hæstv. forseta í þessu sambandi. Það er ekki heiglum hent að skipuleggja fyrirspurnatímana svo vel sé. Reynsla mín er sú, ég vil nefna það að gefnu tilefni vegna athugasemda frá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, að ég hef oftar en einu sinni lent í því að vera albúinn til að svara fyrirspurnum en þingmenn hafi þá ekki getað mætt. Þetta beinist því ekki eingöngu að því að ráðherrar séu ekki tilbúnir að svara heldur líka hinu, að þingmenn hafa ýmsum skyldum að gegna, t.d. í kjördæmum sínum, og geta þá ekki mætt. Ég held að það halli því ekki á ráðherra fremur en þingmenn hvað þetta varðar.

Aðalatriðið er auðvitað að taka eðlilegt tillit til fyrirspyrjanda og þeirra ráðherra sem um er að ræða hverju sinni. En ég hef mikla samúð með hæstv. forseta að þurfa að greiða úr þeirri flækju, þ.e. möguleikum þingmanna og ráðherra til að spyrja og svara á þessum tíma.